Færslur

Fífuhvammssel

 Ætlunin var að leita að og skoða gamla fjárborg frá Fífuhvammi, steininn Lat og Fífuhvammssel norðan í Rjúpnahæð.

Engjaborg

Engjaborg.

Engjaborg við Fífuhvammsveg var landamerki jarðanna Kópavogs, Digraness, Fífuhvamms og Arnarness. Nafnið Engjaborg bendir til þess að fjárborg og/eða beitarhús hafi staðið þarna. Hún er hringlaga rúst með um 2-3 m breiðum veggjum. Borgin stendur nú á hól inni í miðju íbúðarhverfi. Vel virðist fara um hana, en líklega vita fáir íbúanna um minjarnar á hólnum eða hafa áhuga á þeim tengslum sem þær hafa óneitanlega við landið og sögu svæðisins.

Þinghóll

Minnismerki um erfðahyllinguna á Þinghól.

Bærinn Kópavogur dregur nafn af voginum sunnan Kársness og samnefndu býli sem stóð norðan Þinghóls þar sem var annar af tveimur þingstöðum í heimalandi Kópavogsbæjar. Ekki er vitað til að þar hafi verið þinghald á þjóðveldisöld en þar fór erfðahyllingin fram 1662. Á gamla þingstaðnum er friðlýst þinghústótt og skammt frá henni er minningarsteinn um erfðahyllinguna, reistur 1962.
Fyrr á öldum var eiginlega ekkert í Kópavogi nema hólar, mýrar, klettar, lækir og lyng. Þá voru þrír bóndabæir, Kópavogur, Digranes og Fífuhvammur.
Fífuhvammur, bújörð, húsið var byggt að hluta fyrir aldamótin 1900 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni. Síðan byggði Bernhöft tannlæknir stofu og forstofu norðan við en Ísak Bjarnason síðan austan og sunnan við. Til hægri voru skúrar, geymslur og peningshús. Húsið var rifið að fullu sumarið 1983. Þorlákur í Hvammkoti gaf jörðinni nýtt heiti því að hann vildi ekki að bærinn hans væri kallaður kot, Fífuhvamm. Hann er fyrsti Kópvogsbúinn sem sat á Alþingi svo vitað sé.

Kópavogur

Fífuhvammur.

Talið er að jörðin hafi heitið Fífuhvammur til forna. Í Fífuhvammslandi er mjög fallegt votlendi. Þar vaxa ýmsar jurtir, t.d. hofsóleyjar, holblaðka, engjarós, hrafnsklukka, vatnsharfagras, fífur, sefbrúður og stjörnusteinbrjótur. Á horni Fífuhvammsvegar og Reykjavíkurvegar fundust tvær grafir. Rétt hjá Fífuhvammi er álfhóll sem hvorki má slá eða raska. Sagt er að bóndi einn í Fífuhvammi hafi slegið hólinn og þá misst 8 kýr það ár.

Latur

Latur.

Fátt skráðra minja er eftir í Fífuhvammslandi enda hefur því nú öllu verið raskað meira og minna. Engjaborgin og landamerkjasteinn með áletrun vestar í hlíðinni (sjá aðra FERLIRslýsingu) eru nú svo til einu ummerkin, sem eftir eru.

Latur er og nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn. Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.

Fífuhvammssel

Fífuhvammssel.

Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Þá var haldið upp að Rjúpnahæð. Þar í norðanverðri hæðinni eru menjar gamals sels. Selið nýtur nú verndar. Um er að ræða tvö hús og bakhús. Lag og gerð húsanna bendir til þess að selinu hafði verið breytt í beitarhús undir það síðasta. Tóftirnar eru fast við girðinguna, sem umlykur loftskeytastöðina og rétt fyrir ofan nýlegan reiðstíg. Ekki er ólíklegt, ef leitað er vel, að leifar eftir stekk og/eða kví kunni að finnast þarna skammt frá. Neðan við tóftirnar er nú verið að gera golfvöll og útivistarsvæði.

Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 2 klst og 12 mín.

Upplýsingar m.a. fengnar af http://www.ismennt.is/not/ggg/saga.htm og http://www.hjallaskoli.kopavogur.is/throun/fortid/islenska/hvammkot.htm

Latur

Latur – álfasteinn.

Gjáarrétt

Hér er úrdráttur af lýsingu Kolhólsleiðar í Áföngum, ferðahandbók hestamannsins: “Við ríðum út úr hesthúsahverfi hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og stefnum ti austurs. Farinn er slóði. sem Tóftmyndast hefur á síðustu árum norðanvert í Hnoðraholti. Liggur hann að tveimur sérkennilegm hólum, nyrst og austast í Hnoðraholti. Hólar þessir heita Hádegishólar og eru gamalt eyktarmark frá Fífuhvammi.
Bærinn í Fífuhvammi blasti við af leiðinni að Hádegishólum. Hús voru þar að falli komin og voru rifin um mitt sumar 1982. Í Fífuhvammi hafði ekki verið búið frá því 1953. Þar var fyrrum allstórt kúabú. Voru þar tólf kýr í fjósi, sem þótti mikið. Kópavogskaupstaður keypti Fífuhvammslandið. Áður hét bærinn Hvammkot.
Nokkru fyrir sunnan og vestan Fífuhvamm, en neðan og til norðurs við Hádegishóla, voru gömul fjárhús, sem voru rifin sumarið 1983.
Farið er um Leirdal. Að austan og norðaustan takmarkast dalurinn af miklum hálsi, sem heitir Selhryggur. Um hann voru landamörk milli býlanna Breiðholts og Fífuhvamms.
Ef vel er að gáð má sjá Fífuhvammsseltóftir nokkuð uppi í hlíðinni á hægri hönd. Þetta eru gamlar fjár- og beitarhúsatóftir frá Fífuhvammi. Þar var síðast haft fé í tíð Þorláks Guðmundssonar (1834-1906). Fyrir miðjum Selhrygg að austanverðu og í landi Breiðholts hétu Selvellir. Þar var vatn og trúlega selstaða. Ekki er okkur kunnugt um hverjir hafa haft þar í seli. Í Jarðabók 1703 er hvorki talað um selstöðu í landi Hvammkots, nú Fífuhvamms, né í landi Breiðholts. Svæði þetta er komið undir byggð og verður því tæpast kannað héðan af.
Í Efri-Leirdal, í vesturtagli Vatnsendahvarfs, er Markasteinn. Í hann eru klappaðir verklegir járnkengir. Girðingarvír hefur verið strengdur í þessa kengi. Kengina festu að öllum líkindum í steininn þeir bræður í Fífuhvammi, Kristján og Guðmundur, skömmu fyrir 1940. Sáttargerð fá 1923 bendir til þess að Vífilsstaðir eigi land að steininum eða jafnvel norður fyrir hann.
StrípurVið ríðum upp á Flóttamannaveg og yfir hann til suðurs, norðaustanvert við Kjóavelli. Þaðan er fylgt ruddum bílevgi til austurs, norðan í Vatnsendahlíð og framhjá nokkrum sumarbústöðum, sem þar eru. Haldið er áfram þar til kemur á vegm sem liggur meðfram Elliðavatni vestanverðu. Vesturströnd vatnsins, norðanvert við Vatnsendahlíð, heitir Laxatangi. Áður en stífla var sett við Elliðavatn 1924-1925 vegna virkjunarframkvæmda í Ellðaánum, en þá hækkaði vatnsborðið að meðaltali um rúmlega einn metra, var þarna lítill tangi út í vatnið.
Á Hjallabrún er komið á Hjallaleið á stuttum kafla. Þegar komið er upp á Hjallabraut, sem er akvegur um þvera Heiðmörk, er Strípshtraun framundan til suðurs. Fremst í Strípshrauni austanverðu, mjög nærri bílveginum og til austurs við okkur, rís einstakur hraundrangur eða klettur, sem nefnist Strípur. Tekur hraunið nafn af honum. Um Stríp voru landamerki milli Vatnsenda og Elliðavatns.
GarðaflatirRiðið er um Heykrika og áfram að Kolhól. Þegar komið er að reiðhliði á Heiðmerkurgirðingunni verður fyrir við hliðið lítil hlaðin rétt eða aðhald í hraunbrúninni. Það gerði Guðmundur Magnússon í Engjabæ í Laugardal í Reykjavík árið 1949. Í réttinni má auðveldlega byrgja tíu hesta með því að loka með vír og grindum í girðinguna til norðurs.
Við Kolhól er Kolhólskriki. Nöfnin benda óneitanlega til þess að þar hafi verið stunduð kolagerð. Heimildir eru um mikla kolagerð í löndum Vatnsenda og Elliðavatns fyrr á öldum og jafnframt að nærri hafi verið gengið landinu.
Hinn mikilfenglegi gígur Búrfells blasir við. Við sneiðum því næst niður Búrfellsháls og niður á Garðaflatir. Flatir þessar eru allstórar og ná nokkuð norður með hraunbrún, sem liggur að Búrfellsgjá að austanverðu. Austanvert við flatirnar er mjög skammt í girðingu á vesturmörkum Heiðmerkur. Ólafur Þorvaldsson getur um útisamkomur á Garðaflötum.
Þá er haldið í Búrfellsgjá að Gjáarrétt.”

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.Búrfell

Kópavogur

Ofan við gamla bæjarstæði Fífuhvamms/Hvamms/Hvammkots í Kópavogi má lesa eftirfarandi á upplýsingaskilti, sem þar er:

Fífuhvammur

Fífuhvammur 1932.

“Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn er kóngl. Majestat.” Svo hefst umfjöllun Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 23. október 1703 um konungsjörðina Hvammkot í Seltjarnarneshreppi. Fram að siðaskiptum um miðja 16. öld hafði jörðin verið í eigu Viðeyjarklausturs en elsta heimildin um jörðina er einmitt skrá um leigumála á jörðum klaustursins frá 1312. Þar heitir hún Hvammur. Nafnið Hvammkot kemur fyrst fram í fógetareikningum Eggerts Hannessonar á Bessastöðum 24. júní 1552. Þann 1. janúar 1891 breytti Þorlákur Guðmundsson þingmaður Árnesinga (búsettur á jörðinni 1875-1902) nafni jarðarinnar og hét hún þá Fífuhvammur.
Árið 1703 var í Hvammkoti tvíbýli. Á helmingi jarðarinnar var ábúandinn Marteinn Jónsson, 46 ára, kona hans Þuríður Bjarnadóttir, 43 ára, og börn þeirra. Bústofn Marteins var sex kýr, þrír hestar og sautján sauðkindur. Á hinum helmingi jarðarinnar var Teitur Jónsson ábúandi, kona hans Guðrún Loftsdóttir og dætur þeirra. Teitur átti fjórar kýr, einn hest og ellefu sauðkindur. Kvaðir á jörðinni voru m.a. mannslán um vertíð, hestlán til alþingis, húsastörf á Bessastöðum þegar kallað var og að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Básenda.
Síðustu ábúendur Fífuhvamms voru hjónin Ísak Bjarnason og Þórunn Kristjánsdóttir sem þangað fluttu 1919 ásamt börnum sínum sex. Þau stækkuðu bæjarhús, ræktuðu tún og girtu og höfðu gott bú. Dóttir þeirra Bergþóra Rannveig og hennar maður Þorkell Guðmundsson reistu íbúðarhúsið Tungu í landi Fífuhvamms 1935 og þar var búið til 1990. Ísak lést 1930 en Þórunn hélt áfram búskap og var Guðmundur Kristinn sonur hennar ráðsmaður þar til hún flutti til Reykjavíkur 1954. Þá lagðist jörðin í eyði. Bæjarhúsið var rifið 1983, þá var Kópavogsbær búinn að kaupa jörðina.

Kópavogur

Fífuhvammur.

Í grein um Fífuhvamm sem Adolf J.E. Petersen skrifaði 1984 segir: “Á Hvammakotslandinu munu í framtíðinni rísa veglegar byggingar, háborg komandi tíma, hallir menningar, viðskipta og iðnaðar, ásamt íbúðarhúsum með blómabeðum og trjágróðri í kring og iðandi borgarlífi.
Fífuhvammsjörð var að mörgu leyti góð bújörð. Hvammkot hafði til afnota stærstan hluta Kópavogsdals og góðar slægjur norðan og austan við Hnoðraholt, Smalaholt og Rjúpnahlíð. Bæði Digranesbærinn og Hvammakotsbærinn voru vel staðsettir og með útsýni í suður- og vesturátt.
Mikil tæknileg uppsveifla kom með breska og ekki síst bandaríska hernum á stríðsárunum. Eigendur Fífuhvamms leigðu hernum svæði og seldu efni, einkum til flugvallagerðarinnar. Leirdalssvæðið var leigt sem sprengjugeymsla herslins.
Fífuhvammur stóð innst eða austast í Kópavogsdalnum, undir vesturtagli Selhryggs, norður af þar sem nú er Núpalind og leikskólinn Núpur hjá Lindaskóla. Hluti af túni bæjarins er þar enn opið svæði.

Kópavogur

Fífuhvammur.