Færslur

Hópsheiði

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir Svavar Sigmundsson um “Önefnið Grindavík“:
“Grindavíkur er getið í Landnámabók (Íslensk fornrit I:330). Í sömu bók eru auk þess Grindalækur í Húnavatnssýslu og Grindur í Borgarfirði.

Hópsvarða

Innsiglingavarða við Hóp í Grindavík – endurhlaðin af FERLIRsfélögum.

Í örnefnum bendir orðið grind til merkingarinnar ‘gerði’ eða ‘hlið’, eða ‘klettarið’, til dæmis Grindaskörð í Gullbringusýslu og Grindamúli í Suður-Múlasýslu, Grindarás í Austfjörðum (Íslenskt fornbréfasafn IV:205,271), Helgrindur á Snæfellsnesi og Jökulgrindur í Rangárvallasýslu. Klettarani á merkjum Þorpa og Hvalsár í Strandasýslu heitir Grind (Íslenskt fornbréfasafn IV:161). Sögn er um að grind hafi verið þar í skarði til varnar ágangi búfjár.

Svartiklettur

Svartiklettur við Hópið í Grindavík – sundmerki.

Hugsanlegt er að grind hafi átt við sundmerki* en Sundvarða er í Herdísarvíkursundi, “sem tréð með grind stendur í” (Örnefnaskrá).
*Sundmerki er innsiglingarmerki, oft varða með tré í, eins og í Herdísarvíkursundi, og til dæmis þannig að tvær slíkar vörður átti að bera saman þar sem innsigling var örugg.”

Famangreint verður að teljast fróðlegt í ljósi allara sundmerkjanna í Grindavík. Reyndar eru núverandi sundmerki ekki svo gömul að telja megi til landnáms, en þau verður að telja merkileg í samhengi sögunnar. Engum vafa er um það orpið að Grindvíkingar hafi sótt sjó um aldir og hafa því nýtt sér sundmerki sér til leiðsagnar, sbr. Siggu og önnur kennileiti ofan byggðar. Flest þeirra eru nú orðin mosavaxin, líkt og merkið í Leiti ofan Þórkötlusstaða, en önnur þau nýrri eru þó enn augljós, s.s. sundmerkin ofan Hóps.

 

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

FERLIRsfélagar endurhlóðu efri sundvörðuna við Hóp eftir að hluti hennar hrundi í frostvetri, en nú, eftir jarðskjálftana undanfarið (2001) hefur hún sem og sú neðri þurft að lúta í lægra haldi. Þar má segja að “Snorrabúð” sé nú stekkur. FEELIRSfélagar hafa sýnt lítinn áhuga á að endurhlaða vörðuna vegna lítils áhuga bæjarstjórnar Grindavíkur á að viðhalda gömlum hefðum byggðalagsins…

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6588

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Lögreglan

Í Fjarðarfréttum 1969 er grein um aðstöðu lögreglunnar í Hafnarfirði undir fyrirsögninni; “105 kallar stöðina“. Greinin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að í yfirlitsritinu “Lögreglan á Íslandi” er lítið sem ekkert fjallað um sögu og aðbúnað lögreglumanna annars staðar en í Reykjavík.

Lögregla
“Það var síðla kvölds í marz, að Fjarðarfréttir lögðu leið sína á lögreglustöðina við Suðurgötu. Erindið var að heilsa upp á lögregluþjónana, sem voru á kvöldvakt þetta kvöld og skyggnast inn í heim þeirra manna, sem eiga að halda uppi lögum og reglu í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Það vildi okkur til happs, að lítið hafði rignt um daginn og Suðurgatan því tiltölulega greiðfær. Þegar við komum að lögreglustöðinni var okkur hugsað til þess, að ekki væri gott að vera bláókunnugur maður hér í Hafnarfirði og þurfa á lögregluaðstoð að halda, því einu upplýsingarnar, sem gefnar eru um staðsetningu lögreglustöðvarinnar eru í símaskránni og eru á þá leið að hún sé að Suðurgötu 8.

Varðstofan

Lögregla

Lögreglustöðin við Suðurgötu 8 í byggingu. Sýslumannshúsið h.m. Knattspyrnuleikur milli FH og Hauka á Sýslumannstúninu.

Við göngum inn eftir ganginum og förum inn um dyr til vinstri, inn á sjálfa lögregluvarðstofuna. Þar situr varðstjórinn við borð og er að tala í símann. Hinir lögregluþjónarnir á vaktinni eru í útkalli.
Skyndilega heyrist í talstöðinni:
105 kallar Stöðina. —
— Stöðin svarar —
— Ertu einn? —
— Oh. ah, nei. —
— Jæja, við komum þá inn. —

Lögregla

Knattspyrnuleika FH og Hauka enn í gangi á Sýslumannstúninu. Dvergasteinn lengst t.v., nýja lögreglustöðin og Sýslumannshúsið.

Hvað er að gerast? Það er von að spurt sé. Við erum í þann veginn að kynnast lélegustu aðstæðum, sem lögregla býr við í kaupstöðum landsins.
Samtalið milli lögregluþjónsins og varðstjórans er eitt dæmið um óviðunandi ástand í löggæzlumálum okkar Hafnfirðinga. Húsakynnin eru svo þröng, að allir, sem þurfa að leita til lögreglustöðvarinnar, og þeir eru ófáir, verða um leið áheyrendur, og stundum áhorfendur, að öllu því, sem fram fer. Þau mál, sem lögreglan fjallar um, eru oft þess eðlis, að óverjandi er, að hver og einn geti fylgst með einstökum þáttum þeirra.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

En nú skulum við líta í kringum okkur. Varðstofan er lítið herbergi, um það bil 15 fermetrar, málning á veggjunum sennilega tíu ára gömul, og á þeim má lesa, sem í bók, sögu þeirra atburða, sem hér hafa gerzt undanfarinn áratug. Þetta herbergi er vinnustaður sextán lögregluþjóna og hérna er unnið allan sólarhringinn. Nokkrir lögregluþjónanna hafa dvalizt hér svo áratugum skiptir. Hérna er svarað í síma, skrifaðar skýrslur, sinnt talstöðvarviðskiptum, veitt úrlausn þeim, sem inn koma, geymsla fyrir óskilamuni, skjalageymsla, skrifuð dagbók um öll verkefni yfir hvern sólarhring, og svona mætti lengi telja. Til skamms tíma var þetta herbergi einnig kaffistofa lögregluþjónanna.

Fangelsi

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Skoðum nú aðrar vistarverur í þessu húsi og lítum á það, sem fyrir augu ber. Í húsinu eru 6 fangaklefar, og auðvitað þarf engan fangavörð. Fangagæzla er eitt af störfum varðstjórans og manna hans. Við skulum ganga inn í einn klefann. Okkur verður þungt fyrir brjósti, loftræsting er engin. Rimlar eru fyrir gluggum, eins og venja er á slíkum stöðum, en svo „haganlega“ fyrir komið, að nær ógerningur er að hreinsa gluggakisturnar. Dyraumbúnaður er þannig, að hurðum er krækt aftur, og getur hvaða smábarn, sem villist inn í þessi húsakynni, opnað dyrnar meðan varðstjórinn sinnir e.t.v. símahringingu á varðstofunni. Fangar og lögreglumenn nota eitt og sama salernið, sem staðsett er í kompu undir stiga og allt hið óvistlegasta. Dæmi eru til þess, að gæzlufangar hafi þurft að dveljast í þessum fangaklefum yfir mánaðartíma. Eitt sinn var hérna fangi, sem var haldinn kynsjúkdómi, og að sjálfsögðu varð hann að nota sama salerni og samfangar hans ásamt lögregluþjónunum. Vonandi er slíkt einsdæmi á Íslandi á tuttugustu öld. Allir veggir hér eins og á varðstofunni bera ljóst vitni um að málning er bannorð, það er eins og veggirnir blygðist sín fyrir útlitið. Okkur léttir, er við yfirgefum fangaklefana.

Kaffistofa

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, við störf á varðstofunni.

Næst komum við í kaffistofu lögregluþjónanna. Í þessu herbergi, sem er um það bil 7 m2, var rannsóknarlögreglan til húsa. Þegar skrifstofur bæjarfógeta fluttu í hið glæsilega húsnæði sitt, sem gjörbreytt hefur allri starfsaðstöðu embættisins, fékk rannsóknarlögreglan sæmilega aðstöðu annars staðar í húsinu. Rættist þá loksins langþráður draumur lögreglumannanna í Hafnarfirði. Þeir fengu þetta litla herbergi fyrir kaffistofu.
Settur var upp lítill vaskur og skápur, en þeir urðu þó að mála „stofuna“ sjálfir.

Talstöðin

Lögregla

Hér voru gamla Sýslumannshúsið og lögreglustöðin við Suðurgötu 8.

Við heyrum óm af samtali og skundum inn á varðstofuna. Eitt af mikilvægustu tækjum við nútíma löggæzlu er talstöðin, og hún er mikið notuð hér. Umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði nær allt frá Reykjanestá að Botnsá í Hvalfirði.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á stríðsárunum. Sýslumannshúsið í bakgrunni, Drengurinn er Hörður Guðmundsson – Fred Harry Wharton.

Ætla má að lögreglustöðin geti haft samband við lögreglubíl hvar sem er á þessu svæði, en það er nú öðru nær. Dæmi eru til þess að lögreglan hefur orðið að leita til leigubílstjóra til þess að flytja skilaboð til lögreglustöðvarinnar. Þegar komið er suður fyrir Kúagerði má heita að sambandslaust sé við lögreglubíl, sem þar er á ferð. Ef árekstur verður í Mosfellssveit eða á Kjalarnesi rofna tengslin milli lögreglubíls og stöðvarinnar um það leyti sem farið er yfir Elliðaárnar. En leigubílstjórar í Hafnarfirði geta með góðu móti talað við „kollega” sína á Kjalarnesi og í Keflavík. Hvers á Lögregla Hafnarfjarðar og íbúar umdæmisins að gjalda?

500.000 km

Lögreglan

Lögreglubíll lögreglunnar í Hafnarfirði 1972.

Bílar Hafnarfjarðarlögreglunnar eru kafli út af fyrir sig. Þeir eru tveir, annar af árgerð 1966 og í sæmilegu lagi, en hinn af árgerð 1964 og má heita ónýtur, enda hefur honum verið ekið yfir 500.000 km, og það að mestu á götum
Hafnarfjarðar.
Heimsókn okkar er senn lokið. Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um atriði eins og þau, að allar skýrslur lögreglunnar eru skrifaðar á aflóga ritvélar frá skrifstofu bæjarfógeta og hvergi fæst aðstaða fyrir lögregluþjóna, til að halda við þeirri líkamlegu þjálfun, sem hverjum lögreglumanni er nauðsynleg.
Eðlilegt er, að fyrir hverja 500 íbúa í þéttbýli starfi einn lögregluþjónn, og ættu samkvæmt því að vera 18 lögregluþjónar í Hafnarfirði einum, fyrir utan þá, sem ráðnir eru á vegum Garðahrepps og sýslunnar. Mikil bót var að stofnun rannsóknarlögregluembættis hér í bæ, og hefur það komið skýrt í ljós, hvað bætt starfsaðstaða má sín mikils, en þó þyrfti að fjölga þar um a. m. k. einn mann, ef vel ætti að vera.

Ný lögreglustöð

Lögregla

Gamla sýslumannshúsið við Suðurgötu.

Hver hugsandi maður, sem kynnir sér starfsaðstöðu lögreglunnar, hlýtur að sjá, að hún er bæjarfélaginu og sýslunni ekki til sæmdar.

Lögregla

Ný lögreglustöð í Hafnarfirði við Flatahraun.

Margt má lagfæra nú þegar, en auðvitað er framtíðarlausn þessara mála aðeins ein, nýtt og veglegt húsnæði fyrir löggæzluna. Nú þegar er tímabært að skipa nefnd til að undirbúa byggingu slíks húss.
Við Hafnfirðingur eigum góðu lögregluliði á að skipa. Starf þeirra er erilsamt og oft hættulegt. Lágmarkskrafa þeirra til bæjarfélagsins er mannsæmandi starfsaðstaða.
Vafalaust mun okkar ágæti bæjarfógeti beita sér fyrir umbótum á þessu sviði, og mun þá væntanlega ekki standa á öðrum, sem til þarf að leita vegna lausnar þessa máls.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir Árni Óla frá “Fyrsta lögregluþjóninum í Hafnarfirði“:
lögregla“Það eru nú rúm 43 ár síðan (1908) að Hafnfirðingar komu á löggæslu hjá sjer, og fyrsti lögregluþjónninn þar er enn á lífi og við góða heilsu. Hann heitir Jón Einarsson, Hafnfirðingur í húð og hár, fæddur þar og hefur alið þar allan aldur sinn. Mun varla ofmælt að hvert mannsbarn í Hafnarfirði þekki hann, en fæstir munu nú minnast þess að hann var þar eitt sinn vörður laga og rjettar og gekk um göturnar í einkennisbúningi. Hitt er mönnum kunnara, að hann hefur verið verkstjóri í fjölda mörg ár. Hann á heima í „miðbænum” í Hafnarfirði, Strandgötu 19, og hefur lengi átt þar heima. En þegar hann bygði húsið sitt var öðruvísi þar um að litast en nú. Þá sköguðu úfnir hraunklettar fram í dimma götuna, sem í rauninni var ekki, annað en sjávarkambur með möl og skeljasandi, en nú er þetta „fínasta” gatan, sem til er á landinu, öll steinsteypt og uppljómuð af tindrandi „fluoresent” ljósum, svo að þar ber hvergi skugga á og nóttin verður þar svo að segja að björtum degi. Hafnarfjörður hefur tekið stakkaskiftum síðan Jón var þar lögregluþjónn og átti í brösum við ofbeldisseggi og skúmaskotsmenn.

Hafnarfjörður 1910

Lögregluþjónar voru ráðnir í Hafnarfirði áður en staðurinn fengi nokkra lögreglusamþykt. Utanaðkomandi áhrif rjeðu því. Fram að þeim tíma hafði Hafnarfjörður verið friðsældarbær, þar sem menn gengu snemna til náða og fóru snemma á fætur. Reglusemi og nægjusemi mótaði líf manna, og Í bæjarbragur var allur með uðrum hætti en í Reykjavík. Þótt skamt væri á milli og íbúar Hafnarfjarðar orðnir um 1500, drógu þeir ekki dám að stórborginni Reykjavík, þar sem voru þá um 11.000 íbúa. En ástæðan til þess að Hafnfirðingar fengu sjer lögregluþjón var sú, að allmikil breyting hafði orðið þar á árið 1906, eins og nú skal sagt.
Hafnarfjörður
Lögregluþjónn var valinn Jón Einarsson, eins og fyr er sagt, en næturvörður Jón Hinriksson, er seinna varð kaupfjelagsstjóri í Vestmannaeyjum. Voru þeir báðir á besta aldri, hin mestu karlmenni og ljetu sjer ekki alt fyrir brjósti brenna. Þeir byrjuðu starf sitt í apríl og var verkum þannig skift með þeim, að annar fór á vörð kl. 9 á morgnana og var á ferli fram til kl. 3. Þá tók hinn við og var einn á verði til kl. 7, en síðan voru þeir báðir á verði á kvöldin og stundum alla nóttina fram til morguns, þegar mest var ónæðið af hinum útlendu sjómönnum.

Ekkert að gera endranær

Hafnarfjörður 1908

Hafnarfjörður 1908.

Jón Hinriksson sagði starfi sínu lausu um haustið og var þá Einar Ólafsson (tengdafaðir sjera Jakobs Jónssonar) ráðinn næturvörður.
“Um vorið var jeg orðinn svo leiður á þessu starfi, sem mjer fanst ekkert starf vera, að jeg fekk mig leyst an frá því. Þetta átti ekki við mig. Þegar ekkert var um að vera í bænum, fanst mjer jeg vera að slæpast og skammaðist mín fyrir þeim sem voru að vinna. Og það var hjer um bil aldrei neitt að gera nema þegar útlendingar voru með óspektir og drykkjulæti. Aðalstarfið á nóttunni var að líta eftir bátum, ef eitthvað var að veðri, líta eftir skepnum að þær flæddi ekki, hafa gætur á hvort nokkurs staðar yrði vart við eld og hafa gát á kolabyngunum, svo að eldsneytislausir menn hnupluðu ekki nokkrum kola molum. Á daginn var bókstaflega ekkert að gera.

Jón bergmann

Jón Sigurður Sigfússon Bergmann (1874-1927).

Jón Bergmann skáld varð lögregluþjónn þegar jeg hætti, en hélst ekki lengi því starfi. Og lögregluþjónar og næturverðir voru að koma og fara. Norðmenn hurfu líka, útgerð Friis féll niður sumarið eftir, og þá urðu aftur rólegir dagar í Hafnarfirði. Það var ekki fyr en eftir 1930 að komið var upp skýli til þess að stinga ölvuðum mönnum inn í.
Nú er orðin mikil breyting á þessu. Nú eru hjer 7 eða 8 lögregluþjónar, varðstöð opin allan sólarhringinn með síma og bílum til skyndiferða. Og nú er hjer komið fangahús og fangavörður. Hefur það verið sniðið svo við vöxt, að það getur oft tekið við mönnum frá Reykjavík, sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar. Þó er þetta fangahús ekki nema fyrir 6—8 menn. Það sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekki mikið á því að halda, enda þótt hjer eigi heima rúmlega 5000 manna. Hafnarfjörður er enn friðsæll bær og Hafnfirðingar friðsamir og háttprúðir menn, eins og þeir hafa alltaf verið”. – Á.Ó.

Heimildir:
-Fjarðarfréttir, 1. árg. 07.04.1969, !105 kallar stöðina”, bls. 8 og 6.
-Lesbók Morgunblaðsins, 46. tbl. 01.12.1951, Fyrsti lögregluþjónn í Hafnarfirði – Árni Óla, bls. 572-575.

Hafnarfjörður

Eldborgir

Í Andvara 1973 er grein eftir Finnboga Guðmundsson; “Gripið niður í fornum sögum – og nýjum“:

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Þar segir m.a. annars: “Hvað er það í fornum frásögnum, er hrífur oss einna mest? Eru það ekki hinir einföldu drættir og skýru myndir, sem þar er tíðum brugðið upp?
Vér skulum líta á t.a.m. örfáar frásagnir af jarðeldum eða öðrum náttúruhamförum”.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Í Landnámabók segir svo frá: “Allir kannast við frásögn Kristnisögu af því, er menn deildu sem fastast um hinn nýja sið á alþingi sumarið 1000 og maður kom „hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða [er þá hafði tekið kristni].
Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í, að goðin reiðist tölum slíkum.”

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eftir það gengu menn frá lögbergi.
Jarðfræðilegar athuganir á Eldborgarhrauni og hraunum Hellisheiðar hafa leitt í ljós, að frásagnir Landnámabókar og Kristnisögu af fyrrnefndum jarðeldum fá að öllum líkindum staðizt, að Eldhorgarhraun hið yngra hafa raunverulega runnið á landnámsöld og hraun hafi teygt arma sína af Hellisheiði ofan í byggð sumarið 1000.”

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1973, Gripið niður í fornum sögum – og nýjum – Finnborgi Guðmundsson, bls. 100-101.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Kotvogur

Í bókinni “Hafnir á Reykjanesi“, skrifaða af Jóni Þ. Þór, er saga byggðar og mannlífs í Höfnum rakin í ellefu hundruð ár.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

“Fornar heimildir eru fáorðar en gagnorðar um upphaf mannvistar í Höfnum. Í Sturlubók Landnámu segir stutt en laggot; Herjólfr hét maðr Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámsmanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfr land milli Vágs ok Reykjaness (Íslensk fornrit I,1 (1968, 132).
Miklu stuttorðari gat þessi frásögn vart verið, en önnur gerð Landnámu, Hauksbók, hermir, að Herjólfur hafi verið “frændi Ingólfs ok fóstbróðir”, og því hafi Ingólfur gefið honum landið.
Um Herjólf Bárðarson, landnámsmanns í Höfnum, er lítið vitað umfram það, sem segir í áðurtilvitnaðri Landnámugrein. Við vitum ekki, hvort hann var kvæntur, er hann kom til Íslands og settist að í Höfnum, ekki heldur hvort hann kom á eigin skipi með eigin föruneyti. Má þó telja hvort tveggja mjög líklegt. Um stöku afkomendur hans vitum við hins vegar öllu meira, og í hópi þeirra var maður, sem frægur er í þjóðarsögunni, og reyndar í gjörvallri sögu siglinga og landkönnunar við norðanvert Atlantshaf.

Hafnir

Hafnir.

Sonur Herjólfs hét Bárður, og kemur hann hvergi við sögu, nema þar sem hans er getið sem föður sonar síns. Sonurinn var skírður Herfólfur, í höfuðið á afa sínum í Höfnum, og segir í Grænlendinga sögu, að hann byggi á Drepstokki, en sú jörð var skammt vestan Eyrarbakka. Kona hans hét Þorgerður, og sumarið 985, eða 986, afréðu þau að bregða búi á Drepstokki og héldu til Grænlands með Eiríki rauða. Á Grænlandi reistu þau sér bæ á Herjólfsnesi og bjuggu þar (Íslendingasögur I (1953), 365-366).
Hafnir
Þau Herjólfur og Þorgerður á Drepstokki áttu son, sem Bjarni hét, og varð hann án alls efa nafnkenndastur allra afkomenda Herjólfs Báraðarsonar landnámssmanss í Höfnum. Hann þótti snemma mannvænlegur og fýsti ungan utan, svo sem títt var um tápmikla unga menn á þeim tíma.

Hafnir

Hafnir – Kirkjuvogur.

Vegnaði honum vel í förum, og leið ekki á löngu, uns hann stýrði eigin skipi á milli landa. Siglingartækni 10. aldar gerði það að verkum, að farmenn komust sjaldan nema aðra leiðina á milli Íslands og Noregs á sumri hverju, og hermir Grænlendinga saga, að Bjarni hafi veriðð ” sinn vetr hvárt, útan lands eða með feðr sínum” (Íslendingasögur I (1953), 365). Síðasta veturinn, sem hann dvaldist í Noregi, brugðu foreldrar hans búi á Drepstokki og héldu til Grænlands. Er Bjarni kom heim sumarið eftir, spurði hann tíðinda. Af viðbrögðum hans og því, sem á eftir fór, segir í Grænlendinga sögu. Frásögn hans af ferð hans og áhfnar hans til Ameríku, án þess þó að stíga þar á land, varð til þess að landi hans, Leifur Eiríksson, hélt að leita landa í vestri.
Hafnir
Lengra komumst við ekki með sögu afkomenda Herjólfs Bárðarsonar, þeirra sem fæddir eru á Íslandi. Víkur þá sögunni aftur til landnámsins í Höfnum.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Af frásögn Landnámu verður ekki ráðið með neinni vissu, hvenær Herjólfur kom til Íslands. Hann gæti hafa komið með Ingólfi, jafnvel verið skipverji hans, eða að hann gæti hafa komið nokkrum árum síðar og þá væntanlega á eigin skipi með eigin föruneyti. Erfitt er að skera úr um, hvor möguleikinn sé líklegri, en flest bendir til þess, að Herfjólfur hafi numið land fremur snemma á landnámsöld, að öllum líkindum fyrir 900.
Engar nákvæmar lýsingar eru til á landnámi Herjólfs Bárðarsonar. Orðalagið “á milli Vágs og Reykjaness” tekur ekki af tvímæli, en bendir til þess að hann hafi þegið strandlengjuna norðan frá Ósabotnum, suður og austur [?] að Reykjanestá, að gjöf frá frænda sínum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

Vafalítið hefur hann þó helgað sér stærra landsvæði en strandlengjuna. Hversu stórt það var vitum við ekki, en hugsanlegt er að Herjólfur hafi fylgt þeirri aðferð er Haraldur konungur hárfagri lagði fyrir menn að fylgja við helgun lands: “Menn skyldu eld gera, þá er sól væri í austri; þar skyldi gera aðra reyki, svá at hvára sæi frá öðrum, en þeir eldar, er gjörvir váru, þá er sól var í austri, skyldi brenna til nætr; síðan skyldu þeir ganga til þess, er sól væri í vestri, ok gera þar aðra elda” (Íslensk fornrit I,2 (1968), 337-339).
Landshættir hljóta að hafa ráðið nokkru um umfang og takmörk landnáms Herjólfs og ekkert var eðlilegra en að suður- og austurmörk þess væru við Reykjanestá og Stapafell, norður- og vesturmörk við Ósabotna [?].
Hafnir
Enga vitnesku er um það að hafa af fornum heimildum, hve margt fólk var í för með Herjólfi er hann settist að í landnámi sínu, og við vitum ekki, hvar hann reisti sér bú. Hafi hann komið til Íslands á eigin skipi, getur sú tilgáta þó trauðla talist ósennileg, að í föruneyti hans hafi verið a.m.k. tíu til tólf manns. Það fólk hefur trúlega fylgt honum suður í Hafnir og þegið af honum land.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Má þá hugsa sér, að byggð hafi fyrst risið þar sem mynduðust þrjú hverfi, í Kirkjuvogi við Ósabotna, á Merkinesi og Kalmanstjörn. Á öllum þessum stöðum var búsældarlegt á landnámsöld, útræði bærilegt og hagar fyrir búfé að líkindum góðir. Hvar Herjólfur sjálfur settist að, vitum við hins vegar ekki með vissu, en hugsanlegt er, að hann eða einhverjir förunauta hans hafi reist sér bú nálægt þeim stað, sem nú er Kirkjuvogshverfi í Höfnum.
Haustið 2002 sást við athugun á loftmyndum. sem teknar voru á þessu svæði, “greinilegt skálalaga form skammt austur af kirkjunni í Höfnum”. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, gróf stuttu síðar tvær prufuholur á stað, u.þ.b. 80 metra ANA af Kirkjuvogskirkju og benda fyrstu niðurstöður þeirar rannsóknar til þess, að þarna séu leifar af skála frá landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Fátt verður fullyrt af þessari rannsókn um hina fyrstu byggð í Höfnum og varasamt að draga of víðtækar ályktanir af henni á þessu stigi. Frekari fornleifarannsóknir geta þó trúlega varpað ljósi á byggð á þessum slóðum á landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Hreppar voru stofnaðir hér á landi á þjóðveldisöld og voru hvort tveggja í senn, framfærslu- og stjórnunareiningar. Ekki er fulljóst, hvenær landinu var skipy í hreppa né hvaða reglum var fylgt við skipunina, en flest bendir til þess, að hreppaskiptingin hafi komist á fyrir lögtöku tíundar árið 1097, og víðast hvar virðast landshættir hafa ráðið hreppamörkum. Hið síðara var þó ekki algilt og má ef til vill hafa Hafnahrepp til marks um það.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Engar heimildir hafa varðveist, er segi sérstaklega frá stofnun Hafnahrepps, og hljótum við að hafa fyri satt, að hann hafi orðið til sem sjálfstæð framfærslu- og stjórnunareining er hreppaskipting komst á. Hann hefur þó vafalaust verið meðal minnstu hreppa landsins, og óvíst, að tuttugu þingfararkaupsbændur hafi verið búsettir innan endimarka hans.

Hafnir

Hafnir (MWL).

Þegar þannig stóð á, þurfti sérstakt leyfi lögréttu til hreppastofnunar (Íslensk fornrit I,2 (1968), 180). Við vitum að sönnu ekkert um fjölda bænda í Höfnum á þjóðveldisöld, en árið 1703 var aðeins getið seex lögbýla í Hafnahreppi, og voru þrjú þeirra í eyði, og höfðu verið lengi (JÁM III, 26-34). Býli geta vissulega hafa verið fleiri í hreppnum fyrr á öldum, en óvíst er, hvort þau voru svo mörg, að hreppurinn hafi uppfyllt áðurnefnt skilyrði Grágásalaga um fjölda þingvararkaupsbænda. Ber þó að hafa í huga, að vel getur hreppurinn hafa verið fjölbyggðari fyrir Reykjaneselda á 13. öld.

Hafnir

Hafnir.

Líklegast er, að Hafnahreppur hafi í upphafi orðið til úr landnámi Herjólfs Bárðarsonar og að mörk hans hafi lítið sem ekki breyst í aldnanna rás. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi lýsti hreppamörkum eins og þau voru árið 1934 með þessum orðum: “Hafnahreppur takmarkast af Miðneshrepp að norðan, Njarðvíkurhrepp að austan, en Grindavíkurhrepp að sunnan” (Örn. 2502).
Þannig hafa hreppamörkin að líkindum verið frá fyrstu tíð, og þótt þau hafi breyst lítilsháttar á seinni tímum, einkum á 20. öld, gefa þau þá dágóða hugmynd um landnám Herjólfs Bárðarsonar í Höfnum og stærð þess.”

Heimild:
-Hafnir á Reykjanesi – Jón Þ. Þór, saga byggðar og mannlífs í ellefu hundruð ár. Reykjanesbær 2003.
Hafnir

Tyrkjaránið

Bókin “Tyrkjaránið á Íslandi“, útgefin 1906, fjallar, líkt og titillinn gefur til kynna, um heimildir og sögu Tyrkjaránsins hér á land í byrjun 17. aldar. Hér verður drepið niður í tvo kafla bókarinnar; “Lítill annáll um Tyrkjans herhlaup á Íslandi Anno 1627” og “Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsá“:

Tyrkjaránið á Íslandi“Rán það og manndráp þau, sem tyrkneskir sjóreyfarar frá Algier og Kyle á norðurströnd Suðurálfunnar frömdu hér á landi, í Austfjörðum, Vestmannaeyjum og Grindavík, 1627, og venjulega er nefnt Tyrkjaránið, hefir orðið mönnum minnisstætt á landi hér, og margt verið um það ritað, bæði af þeim, sem herleiddir voru af Tyrkjum og aptur komust hingað til lands, og svo af öðrum. Þó hafa frásagnir þessar og gögn hingað til að eins að litlu verið útgefin, og hvergi verið að þeim að ganga á einum stað, heldur hefir þessara frásagna, kvæða og skjala verið að leita í óvissu á víð og dreif í opinberum handritasöfnum og hjá einstökum mönnum. Og sumt hefir fyrst verið að koma fram nú hin síðustu árin.

Árni Magnússon

Árni Magnússon.

Sá, sem fyrstur safnaði saman öllum frásögnum og skýrslum um Tyrkjaránið, var Árni Magnússon, en það safn hans brann allt hjá honum eins og fleira 17281). Hefir hann þá verið búinn að þrautsafna svo, að þá hafa líklega eingar afskriptir verið eptir á Íslandi af sumum frásögnunum, svo sem af riti Einars Loptssonar úr Vestmannaeyjum og Halldórs Jónssonar úr Grindavík, sem bæði voru til fyrrum, en reynast nú glötuð, eins og margt af skjölum hlýtur að vera liðið undir lok, er snertir þetta efni.

Handritasýning

Skarðsbók – Tyrkjaránið.

Um 1830-40 hafði Finnur Magnússon í hyggju að gefa út helztu frásagnir og skýrslur um Tyrkjaránið eptir því sem hann ritar etazráði Engelstoft 8. apr. 1833; hafði Engelstoft þá í áformi að rita eitthvað um þetta efni, en af því varð þó ekki. Aldrei varð og heldur af því að Finnur gæfi út neitt af Tyrkjaránsritunum, enda var þá enn hörgull á afskriptum sumra þeirra í opinberum söfnum, síðan brunann hjá Árna.
Það fyrsta, sem séð verður, að gefið hafi verið út á prent um Tyrkjaránið, er dönsk þýðing af ferðasögu síra Ólafs Egilssonar, prentuð í Kaupmannahöfn 1741 (og önnur útgáfa síðar), en ekki var ferðasaga þessi gefin út á íslenzku fyrri en 1852. Bæði frá þýðingu þessari og útgáfu var lélega gengið.

Tyrkjaránið

Annálar Björns frá Skarðsá.

Betur var varndað til útgáfunnar af Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá, sem út kom í Reykjavík 1866. Allar þessar bækur eru nú orðnar ófáanlegar fyrir löngu.
Árið 1899 skrifaði meistari Sigfús Blöndal merka yfirlitsgrein um Tyrkjaránið í tímariti einu dönsku. Annað hefir ekki á prent komið um þetta efni sérstaklega, en bæði er Tyrkjaráns getið í Annálum Björns á Skarðsá, Árbókum Espólíns, Kirkjusögu Finns biskups og enn víðar.
Jón prófastur Haldórsson hefir ritað um Tyrkjaránið í Biskupasögum sínurn og Hirðstjóraannál, sem hvorttveggja er áður prentað ekki alls fyrir löngu. Í Biskupasögunum segir hann svo frá1:
Tyrkjaránið»Um ránið i Vestmannaeyjum í tíð herra Odds biskups. Á hans dögum voru Vestmannaeyjar rændar tvisvar. Í fyrra sinni Anno 1614 af þeim eingelska sjóreyfara Jóni Gentelmann, hver með sínum reyfaraflokki gekk um eyjarnar í hálfan mánuð, sem settu knífa og sverð sín á hálsa og harka þeim íslenzku og stuttar byssur fyrir þeirra brjóst, með spotti og skellihlátri; drápu þó hvorki né særðu nokkurn mann né smánuðu ærlegt kvenfólk, en ræntu og rupluðu öllu, sem þeir vildu nýta, en skemmdu og fordjörfuðu það þeir vildu ekki.

Tyrkjaránið

Íslandskort frá 1600.

Þeir tóku burt þá stóru Landakirkjuklukku. En þá Jón kom fram til Einglands var hann tekinn og drepinn með sínum selskap. Bókstafir, sem steyptir stóðu á klukkunni, hermdu frá hverri kirkju á Íslandi hún var tekin; var hún þremur árum síðar send aptur til Vestmannaeyja eptir skipun Jacobs kongs á Einglandi.
Hið síðara ránið gerðu Tyrkjar Anno 1627. Komu þeir fyrst á einu skipi þann 12. júní í Grindavík og rændu þar fé og peningum og XII eða fleiri mönnum, konum og körlum, en skáru og skammarlega særðu suma.

Grindavík

Grindavík – Tyrkjaskipin.

Danska kaupskipið tóku þeir á höfninni með gózi og fólki; kaupmaðurinn gat flúið undan. Þar tóku þeir og annað kaupskip, sem sigla átti upp á  Skutulsfjarðareyrarhöfn. Síðan lögðu þeir á tveimur skipum til Bessastaða, hvar Holger Rosenkranz höfuðsmaður hafði búizt til varnar, ef svo mætti kalla, með nokkrum íslenzkum. Þá skotið var á móti þeim, er þeir lögðu inn á Seyluna, kom stanz á ræningjana, sneru við, en þá stóð annað skip þeirra fast á grunni; fluttu þeir þá af því á hitt, þar til flaut út aptur, því logn var og ládeyða; fóru svo burt. Ekkert hrós fékk hirðstjóri af sinni hugdirfsku og framkvæmd í þessu.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk eftir Jóhannes S. Kjarval.

Á sama sumri komu tvö önnur Tyrkja skip inn á Djúpavog fyrir austan; tóku þessi ræningjar þar danska kaupskipið á höfninni með fólki og gózi, hlupu með hrinum og háhljóðum um bygðina alt í kring að Heydölum, hertóku landsfólkið, en börðu sumt og drápu, ræntu kirkjur á Hálsi og Berufirði og öllu því, er þeir náðu og nýta vildu, en fordjörfuðu hitt, er þeir vildu ekki. Síra Jón Þorvarðsson á Hálsi tóku þeir í sæng hans um nótt og burtfluttu ásamt CX manneskjum öðrum, en drápu IX menn, sem menn vissu og fundu.

Tyrkjaránið

Vestmannaeyja – aðkomu ræningjanna.

Þaðan héldu þeir undir Vestmannaeyjar; tóku þeir eingelska duggu; þeir friðkeyptu sig með því að vísa ræningjum uppgöngu á eyjarnar, hvað helzt gerði Þorsteinn nokkur íslenzkur, sem áður hafði verið í eyjunum. Að kvöldi þess 17. júlí lögðu þessir ræningjar sunnan að eyjunum, hlupu þar upp óvanalegan veg CCC vopnaðir menn eður fleiri, skiptu sér í þrjá flokka, hlupu með hrópi og ofsahljóðum um alla bygðina, inn í hverja krá og afkyma, börðu fólkið, konur og karla, börn og gamahnenni, drápu sumt og sundurhjuggu í smátt með alls kyns háðungum, ráku það hópum saman eins og fé í kvíar ofan í Dönskuhúsin, völdu þar úr því þá, sem þeirn leizt bezt á, og fluttu frarn á skip sín. Björg og hamra runnu þeir upp og klifruðu eins og léttfærustu bjargmenn, og gripu fólkið, sem sig hafði falið þar, en skutu niður með byssum það, sem þeir náðu ekki. Sóknarprestinn annan, síra Jón Þosteinsson, með hans konu, börnum og heimafólki, fundu þeir í afviknum stað; fyrrgreindur Þorsteinn þekti hann og sagði; »Síra Jón! Því ertu nú ekki í kirkju þinni?«

Tyrkjaránið

Tyrkir í Vestmannaeyjum.

Prestur svaraði:
»Eg hefi verið þar í morgun«; hjó hann þrisvar i höfuðið hvað eptir annað; presturinn befalaði sig og sína sálu guði og dó svo, en konu hans og börn, svo og hinn prestinn, síra Ólaf Egilsson, með hans konu, börnum og fólkinu, börðu þeir og keyrðu í skip. CCXLII manneskjur hertóku þeir, en XXXIV fundust dauðar, fyrir utan þær, sem þeir brenndu þá í Dönskuhúsunum veikar og vanfærar; þeir brendu og Landakirkju upp til ösku, ræntu öllu, sem þá girnti, en fordjörfuðu hitt. Þann 19. júlí sigldu þeir burt fram í Barbaríið með fólkið og allt það ránsfé«.
Í Hirðstjóraannál farast séra Jóni svo orð, og er hann nú heldur skorinorðari um frammistöðu hirðstjórans og Dana á Bessastaðaskanzi:

Skansinn

Bessastaða-Skansinn.

»Anno 1627 kom Rosenkranz höfuðsmaður hingað í öndverðum Junio. Og er hann heyrði ránskap Tyrkjanna í Grindavík, sem byrjaðist þann 12. júní, stefndi hann kaupförunum úr Hafnarfirði og Keflavík til sín í Seyluna, hvar hans sjálfs skip lá, en Hólmsskipið dvaldist inn í Leiruvogum; lét hann þar búast til varnar bæði á sjó og landi; lét (hann) gera virki eður skanz, sumir segja af fiskböggum, — upp á skop, að eg meina, eður þó réttara að segja, að virkið hafi ei gagnast meira en þótt hlaðið hefði verið af fiskaböggum. Var í þeirri virkisnefnu varla rúm fyrir fáeina menn, miklu síður fyrir heilan flokk manna eður varnarlið; voru þangað færðar feltbyssur — ef svo mætti kallast — þær, sem til voru, og þó varla nokkur af þeim til gagns».

Frásögn Björns á Skarðsá

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – Málverk eftir flæmska málarann Andries van Eertvelt (1590-1652) af seglskútu frá Algeirsborg í Barbaríinu, eins og Norður-Afríka var þá kölluð. Málverkið er frá sama tíma og svonefnt Tyrkjarán var framið hér á landi.

“Hér segir frá komu Tyrkjanna og þeirra ránum og skemdum í Grindavík.
Þegar liðin voru 1627 ár frá vors herra Jesu Christi fæðingu og sá loflegi herra kóngur Kristján, fjórði þess nafns, stýrði Danmerkur- og Noregsveldi, en hirðstjóri var yfir Íslandi sá herramann Holgeir Rosenkranz, falla til þessi tíðindi, sem eptir fylgir. Og eru það upptök þessara atburða, að suður í heimsálfunni, sem nefnist Africa, hverjum heims þriðjungi, sem og miklum parti austurálfunnar Asiœ, ásamt nokkrum hluta norðvestur heimsins, Europœ, sú nafnfræga þjóð hefir að ráða, sem kallast Tyrkjar, hver óþjóðalýður er ófrægur af illskuverkum og ódáðum, sem kristnu fólki má helzt kunnugt vera, hvert fólk þessi þjóð helzt á sækir, og til sinnar óguðlegrar trúar þvingar, eður og hefir það í æfinlegum þrældómi, nema þeir, sem aptur kunna að kaupast með stóru gjaldi peninga.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – hollensk skip við Barbaríið frá byrjun 17. aldar.

Hafa þessir Tyrkjar við sjávarhafið herskip úti á hverju ári að herja upp á kristindóminn i norðurálfunni og ræna mönnum og fjárhlutum, hvar þeir kunna, sem og að hertaka þau skip, er þeir um sjóinn finna, er sér ætla til kaupskapar, næringar til annarra landa, og þetta er sífeldleg iðja þessara Tyrkja í landsálfum Lijbiœ hinnar ytri, er Harbaria heitir.
Kom til tals með yfirherrunum, hvert til kristinna landa halda skyldi, þar mannránin mætti helzt verða og svo fjárvænur væru. Var nefnd hjá þeim sú ey í norðvestursjónum, sem heitir Ísland; en hinn æðsti yfirmaður Tyrkja sagði það ómögulegt vera, að sækja til Íslands þaðan frá þeim hinn minsta stein, þess síður mannfólk, en annar kvað það vinnanlegt væri, og veðjuðu hér upp á stóru gjaldi, því að þetta mannrán, þá það tekst, fær þeim mikinn ábata, svo að nokkrir segja, að eitt ungbarn fáist selt fyrir 300 dali í þeirra löndum.

Tyrkjaránið

Kort frá um 1630 – Kortið er eftirmynd af yfirlitskorti Willems Janszoons Blaeus af vesturströndum Evrópu. Kort Blaeus, sem birtist fyrst 1623 var síðan gefið út endurbætt.

Og nú sem þessi umræða var með yfirherranum og kapteinunum, bar svo við, að á meðal þeirra var einn hertekinn maður danskur, hver lengi hafði hjá þeim verið í þrældómi, þó með sinni kristilegri trú; sá hét Páll. Þessi maður hugfesti það að fá sér fríun og frelsi úr ánauð og þrældómi með því að vísa þeim þangað, er auðveldlegt vera mundi kristnu fólki að ná. Á þessu bryddi hann við Tyrkjana. Það féll þeim vel í geð og lofuðu honum lausn og frelsi. Þessi danski Páll segir þeim, að Íslands innbyggjarar séu ekki vanir hernaði eður bardögum; því mundi lítið fyrir verða það fólk að hertaka; svo og væri sér kunnug sigling til Íslands, því hann hefði opt þangað með dönskum mönnum farið. Hér af mega Íslendingar þekkja sitt manndómsleysi, þar guð hefir þó gefið (þeim) burði og hug til að verja líf sitt, ef vopn til væru.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – hollenskt skip frá fyrri hluta 17. aldar.

Nú strax eptir þessar viðræður bjuggust Tyrkjarnir af stað með mesta hasti til Íslandsferðar, og vilja nokkrir svo segja, að tólf hafi herskipin þaðan lagt, svo ekki skyldi hjá sleppa framkvæmd ránanna, [hvernig sem vor guð hefir því hamlað], að ekki komust hér að landi nema 4 af þeim, sem greina skal. Þessi skip komu í tvennu lagi að landinu og svo einnig af tveimur borgum úr Barbariinu. Og vil eg nú fyrr tala um það eitt skip, sem af þeirri borg var, er Kyle heitir, á hverju skipi nefndir eru þrír yfirmenn; admírállinn hét Amorath Reis, og kapteinarnir Arciph Reis og Beyram Reis. Þessir gerðu minna skaðann og slógu sér hvergi út um byggðina, þar sem þeir í land komu, hverjum vor drottinn náðarsamlega frá stýrði skaðann að gera, sem eftir fylgir.

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Þann 20. dag júnímánaðar kom sunnan til á Íslandi að því litla sjávarplássi, sem heitir Grindavík, eitt tyrkneskt herskip, og það beitti upp undir landið, þar sem danska kaupskipið lá inni fyrir á höfninni í Járngerðarstaðasundi. Þessir skipsmenn köstuðu þar út streing grunnt um dagmál, létu út bát og sendu til kaupskipsins nokkra menn til njósnar, hvort varnir væru á skipinu, en föluðu af þeim kost; sögðust menn kóngsins af Danmörk, og ættu að veiða hvali og hefðu í hafinu hrakizt í níu vikur.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta greindu þeir skipherranum í þýzku máli, en hann kvaðst ekki kost til sölu hafa, og svo fór báturinn burtu aptur. Þessu jafnframt sendi kaupmaðurinn Lauriz Bentson átta menn íslenska fram til þess nýkomna skips, að vita hverir þeir væri. Bárður hét sá Teitsson, er fyrir þeim var. Þeir komu á Tyrkjaskipið og fengu ekki aptur þaðan í land að fara. Í þessu sama bili sendi yfirkapteinninn 30 menn á báti, þrívopnaðan hvern, sem voru byssur, skotvopn og korðahnífar. Þeir stungu sköptum niður í bátinn, en létu oddana upp standa; þeir inn tóku strax kaupskipið. Þar var ekki manna þá, nema skipherrann. Þeir fluttu síðan úr því, hvað hafa vildu, og fram í herskipið. Kaupmaðurinn, sem í landi var, sendi strax tvo bátsmenn fram til skipherrans; [þeir voru strax ásamt honum herteknir].

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Síðan fóru víkingar í land og ræntu búðir kaupmannsins, en hann var flúinn [á land upp] og allir þeir Dönsku [með honum] er á landi voru, og höfðu áður falið nokkuð af vöru sinni, því, sem þeir gátu undan komið. Hér næst fóru víkingarnir heim til bæjarins á Járngerðarstöðum, tóku þar Guðrúnu Jónsdóttur, kvinnu Jóns Guðlaugssonar, er þar bjó. Þeir báru hana nauðuga frá bænum, hraklega með farandi, og á veginum kom þar að bróðir hennar, er Filippus hét, og vildi hafa liðsinnt henni. Hann særðu þeir og hörðu, og lá hann þar eptir hálfdauður. Einnig kom þar að litlu síðar annar hennar bróðir, Hjálmar að nafni. Hann var ríðandi. Af honum tóku þeir hestinn, og reiddu hana ofan að sjónum.

Blóðþyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík – ofan við Kaupmannsvörina. Sú saga hefur varðveist að þyrnir þessi hafi sprottið upp af blóði þeirra Grindvíkinga er drepnir voru í Tyrkjaráninu.

Hjálmar sló þá einn Tyrkjann nokkur högg með járnsvipu, sem hann hafði i hendi, en sá hjó til hans aptur með hnífnum, og svo annar og hinn þriðji, og stungu hann jafnframt, en Hjálmar var vopnlaus og féll hann síðan óvígur. Tyrkjar ræntu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, því er þeir vildu.
Þeir tóku Halldór Jónsson bróður Guðrúnar. Hann og aðrir flýðu ekki, því þeir meintu, að ekki mundu mannrán gerast, þótt fjárstuldir mættu verða. Einnig tóku Tyrkjarnir þrjá sonu Guðrúnar: Jón, sem elztur var, skólagenginn, Helga og Héðinn, en hróðir hennar einn, er Jón hét, var einn af þeim átta, er sjálfkrafa fram fóru að finna skipið. Jón Guðlaugsson ráku þeir til strandar með sonum sínum og Halldóri, og var Jón þá orðinn aldraður maður og hafði þá um stund veikur verið, og gáfu þeir hann lausan; féll hann þar í fjörunni, og sögðu Tyrkjar þá ekki um hann varða. Stúlku eina unga tóku þeir með Guðrúnu, og fluttu svo fram til skips þessa menn alla.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – skip undan Grindavík.

Á þessum sama degi sigldi fyrir framan Grindavík til vesturs eitt hafskip. Það gintu Tyrkjar að sér með flaggi eður merki dönsku, er þeir upp festu. Þeir hertóku síðan það skip, sem var kaupfar, er sigla skyldi á Vestfjörðu. Kaupmaður á því hét Hans Ólafsson. Þetta fólk var alt rekið ofan í skip, íslenzt og danskt, og sett í hálsjárn með hlekkjafestum, og voru hverjar festar fjögurra manna byrði. Í þessum járnum sat fólkið optast á allri þeirri Tyrkjanna reisu.
Áðurnefndum Bárði Teitssyni með öðrum manni, er Þorsteinn hét Pétursson, gaf admirállinn Amorath Reis hurtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og fóru til lands. Eptir þetta héldu þessir ræningjar burt frá Grindavík, [sem betur fór].

Grindavík

Grindavíkurhöfn fyrrum.

Þeir tyrknesku hermenn, sem ræntu í Grindavík, héldu samflota skipum sínum fyrir Reykjanes, og gerðu ráð sín að taka skip það, sem lá í Hafnarfirði. Nú sem Holgeir Rosenkranz, hirðstjóri yfir Íslandi, er þá var á kóngsgarðinum Bessastöðum, og hafði kaupskip þar nærri, þó varnarlítið — hver höfn að nefnist Seila —, spurði Tyrkja ránin manna og fjár í Grindavík, sendi hann til kaupmannanna í Keflavík og Hafnarfirði, bjóðandi þeim, að þeir legði inn þangað sínum skipum með hasti, hvað yfirmenn skipanna jafnskjótt gerðu, og urðu þá þar í Seilunni þrjú hafskip til samans, en það danska skipið, sem lá [inn við kaupstaðinn Hólm, lagði inn á Leirur] sem grynnst í Leiruvogs skjóli nokkurt.

Bessastaðir

Bessastaðir – fallstykki frá Skansinum í kjallara Bessastaðastofu.

Þá bjóst hirðstjórinn við á landi í Seilunni og svo á skipunum, hvað þeir gátu, ef víkingarnir þar koma kynnu. Var til búið virki, og þó af torfi, við sjóinn, og þar á settar byssur þær, er þar til voru. Þá voru á suðurferð menn af norðurlandinu, einkum þeir, sem sýslur höfðu, og komnir voru lil Bessastaða, og fóru þeir til virkisins með þeim Dönsku til varnar. Þar var Jón frá Reynistað Sigurðarson, er lögmaður hafði verið. Einnig var þar síra Þorlákur Skúlason, skólameistari frá Hólum, er kjörinn var til biskups á þessu ári. Þar voru og einnig þeir bræður, Þorbergur og Sigurður Hrólfssynir, er sýslu höfðu í Þingeyjarþingi. Þessir voru allir með sínum mönnum í virkinu.

Skansinn

Skansinn á Bessastaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sem nú Tyrkjaskipin voru komin vestur og inn fyrir Garðinn, sigldu þeir inn um og sáu kaupskipin |á burt og komin inn] á Seiluhöfnina, og þar voru þrjú skip á einum stað. Glöddust þeir næsta, og þá sagði admírallinn, að svo framt hann kæmist inn á höfnina, þá skyldi þau þrjú skip öll í hans valdi og eign vera, og svo héldu þeir inn fyrir Álptanes réttleiðis að Seilunni.
Það var hinn næsta dag fyrir Jónsmessu móti kveldi. Skutu þá Tyrkjarnir af nokkrum byssum að boða ófrið og svo hinir Dönsku á móti. Um þenna tíma var uggur og ótti á fólki um Suðurnesin, fluttar kvinnur, börn, fé og búsmali til selja og upp um hraun til fjalla. Nú sem víkingarnir héldu beinleiðis inn að höfninni, og herskipið tyrkneska undan, bar svo til fyrir guðs mildi verk, er hindraði þeirra skaðlega ásetning, að skipið renndi í sundinu framan upp á flúð nokkra og stóð svo. Þar voru á allir fangarnir danskir og íslenzkir og voru þeir um nóttina varðveittir, en á Jónsmessumorgun sem var sunnudagur, voru þeir leystir úr járnunum og upp á þilfar leiddir, þrír hverir í einu, síðan tekin mjó lóðarfæri og bundnar sérhvers hendur aptur á bak um bera úlfliði.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – fangarnir fengu óvægna meðferð.

Þá meintu bandingjarnir, að þeim mundi eiga fyrir borð að kasta, og biðu svo, en það var ekki, heldur var bundinn kaðall um hvern, og látnir síga fyrir borð í bátinn og fluttir á hið danska vestanskipið, þar upp dregnir og bönd af skorin, ofan í skipið hneptir og í járn settir sem fyrr. Hér eptir ruddu þeir upp barlest og út úr skipinu |og fleira öðru það fánýtt þótti, svo það mætti flotast af skerinu. Þann næsta dag eptir Jónsmessu losaðist skipið af flúðinni, og sigldu víkingarnir þá nokkuð burt frá landinu þessum tveimur skipum og [skiptu þá aptur gózinu sem henta þótti]; voru þá með öllu frá horfnir inn aptur að Seilunni að leggja, hvað þó með fyrsta var þeirra harðlegur ásetningur, hirðstjóranum að ná [ásamt kaupskipunum, einnig síðan stela og ræna, hvað þeir gætu yfir komizt.

Tyrkjaránið

Skansinn og Seylan – kort.

Ámæli stórt fengu Danir af því, að þeir lögðu ekki að víkingunum, meðan Tyrkjaskipið stóð á skerinu [og þeir vömluðu með gózið og mennina milli skipanna, því vitanlegt mátti vera, að skipið hefði gilt, hefði þeir fallstykkjum að því hleypt, meðan á klettinum slóð, hvað Íslendingar höfðu þó til orða haft.

Eptir þetta svo framkvæmt sigldu þessir ránsmenn vestur fyrir Snæfellsjökul og höfðu í ráðslagi að halda á Vestfjörðu og þar að ræna. Fundu þeir þar tvær eingelskar duggur, hverra skipsmenn Tyrkjum sögðu, að fjögur orlogsskip þess einelska kóngs lægju fyrir Vestfjörðum.

Skansinn

Skansinn við Bessastaði. Seylan framundan.

Við það urðu víkingarnir mjög felmtsfullir og sigldu vestur i haf í [fjögur dægur], sem af tók, svo þeir skyldu þess síður verða á slóðum þeirra eingelsku stríðsskipa. Þar eptir lögðu þeir til útsuðurs og hið beinasta heimleiðis.
Nokkrum sinnum voru þeir kristnu lausir látnir á reisunni, þó manna munur á því gerður; en altíð, þegar þeir öldrykkjur höfðu, voru þeir fjötraðir. Einn blíðan veðurdag var það, að þeir voru lausir Íslendingar, Haldór og Jón, hans systurson. Sat Jón á kaðli fram undir gallioni, en einn hollenskur bátsmaður gaf þann kaðal lausan, svo Jón datt útbyrðis ofan í sjó. Síðan heyrðist kall hans á skipið, og var hann óskaddaður upp dreginn fyrir sérlega guðs hjálp, – þannig bevarar drottinn sína, sem á hann vona.
TyrkjarániðÚr því á leið framsiglinguna, liðu fangarnir mikið hungur, svo að hver einn íslenzkur fékk eigi meira mat á dag en hálfa brauðköku danska, og hálfan bjórkút tíu menn á dag til drykkjar. Nú sem liðnar voru sex vikur frá því ránin skeðu, komu þeir undir Tyrkjanna veldi í Barbaría, mitt undir þá höfn, er kjósa vildu, nær liggjandi þeirra höfuðhorg Tyrkjanna, er Kyle heitir, 700-mílur vegar frá Íslandi, einn mánudag, sem var 30. júlí, og þar lágu þeir tvo daga úti fyrir, sakir þess að brim var furðumikið, álíka og alltíðum við Ísland. Og eingir landsmenn komu þá út til þeirra.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – admíráll í Barbaríinu á skipi þess tíma.

Eptir liðna þá daga komu landsmenn fram og vildu ránsmenn þá á höfnina leggja. Voru þá fangarnir aptur á skipið færðir ofan í barlest, og sátu þar í járnum, meðan hafnast skyldi, og þar voru tveir Tyrkjar til gæslu. Admírallinn sjálfur stóð á þilfarinu, og hann átti einungis að hafa forsögn og annar enginn orð að mæla, meðan sundið tækist á höfnina. En sem skipið hafnaðist, skutu þeir af tólf fallhyssum sér til virðingar og fagnaðar frama. Þar næst var blásið í trompet og belgpípur; hrósuðu svo sigri sínum; komu síðan landshöfðingjarnir og vinir þeirra, hverir með þeim samglöddust, er þeir sáu herfang þeirra. Þar eptir voru þeir kristnu fangarnir á land látnir 2. dag ágústsmánaðar og reknir upp á kastala borgarinnar Kyle, að frá tekinni Guðrúnu Jónsdóttur og hennar yngsta syni og [lítilli stúlku, er Guðrún hét Rafnsdóltir], þar í eitt hús látnir og einn heimilis-Tyrki settur til gæzlu. Þar voru þeir í þrjár nætur. Brauð var þeim fært að eta, en vatn sóttu þeir sér sjálfir með geymslu-Tyrkjans leyfi, og fékk hann þá aðra Tyrkja að fylgja þeim altíð, er slíks þurfti við.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – Aleirsborg á 17. öld.

Margt landsfólk kom þangað í húsið til fanganna, kristnir menn til að gleðja þá og hugga, en Tyrkjar til að skoða þá og spotta. Þar eptir voru þeir leiddir út á kauptorg staðarins, og til settir menn að bjóða þá fram til sölu sem önnur ferfætt kvikindi, og þessir gengu um strætin með óhljóðum og miklu kalli, [svo sölu orðin]: þrœldóms-bandingjar. Þeim var fyrir sett að ganga berhöfðuðum eptir kallaranum til merkis, það þeir kristnir væru. Þessi gangur, kall og uppboð gekk um strætið, þar til sérhver einn var seldur, og fór svo hver einn af þessum raunamönnum til sinna yfirmanna undir þrældóms-ánauðarok, eptir sem gamalt mál fyrri manna hljóðar, að þvílíkir herteknir menn nefnast ánauðugir, ánauðarmenn eða nauðokar.

Tyrkir

Tyrkir voru ljótir andskotar.

Þessi áður sögðu skip höfðu feingið ofurmikinn storm í heimsiglingunni og sleit í sundur í hafinu, og kom Tyrkjaherskipið þremur dögum seinna en það danska kaupskipið, og hét kapteinninn, sem á því var, Beiram Reis, hver einn var af þeim þremur kapteinum, sem í Grindavík komu. Þessi eignaðist Halldór Jónsson til þrældómsvinnu, þá er hann kom, þótt hann væri af öðrum Tyrkja áður keyptur. Hjá honum var Halldór þann tíma, hann var úti í Barbaría. Halldór var angurlaus látinn.  Sömuleiðis má lesa þar um Guðrúnu, hans systur, hennar þarveru, og hvernig þau voru þaðan keypt af hollenzkum manni, komu svo til Kaupinhafnar, þáðu þar miklar velgerðir og gjafir, fluttust svo hingað til Íslands á kaupmannafari ári síðar 1628.

Tyrkir

Tyrkjaránið – Sjóræningjarnir eignuðust nokkur börn með hinum herteknu Íslendingum, sem segir nokkuð til um meðferðina.

Sjötti og síðasti partur þessa máls er um bréf Jóns Jónssonar, hingað send úr Barbaríenu, hvernig þar til gengur, og um útlausn nokkurra íslenzkra þaðan:
Anno 1633 í hvítadögum skrifar Jón, sonur Jóns Guðlaugssonar, sem tekinn var í Grindavík með Guðrúnu Jónsdóttur, móður sinni, hingað til lands bréf foreldrum. Það kom ári seinna. Það bréf var merkilega samsett: af stórum trúarinnar krapti nákvæmlega beðið fyrir hans foreldrum, vinum og vandamönnum, herrum hér andlegum og veraldlegum, kennivaldinu og almúganum, óskandi af öllum fyrir sér að hiðja og því hertekna auma fólki. Segist hann vera og sinn bróðir Helgi fyrir guðs náð í meinleysi og góðri heilsu [með sömu húshændum] í sama stað, borginni Artel [[eður Alger í Barberíinu Barharorum í landsálfu Lybiæ hinnar ytri [í Africa].

Tyrkjarán

Tyrkjaránið – veggmynd við Grindavíkurkirkju.

Segir hann þar nagg og narrari á þrælunum og háðungaryrði, þau sem ekki síður svíði, sem sárið eldist, og það sé bezt að yfirvinna með góðu, því það sé eigi vondur djöfull, sem saunleikann þoli. Menn sé þar ekki í dispiitazíu-stað, því ef þeir geti ekki forsvarað sitt rmál og þyki þeim fyrir, að ein klausa yfírvinni þá, þá sé að hlaupa til kaðla og keyra, báls og brenniviðar. Það halda þeir þægt verk guði þann af dögum ráða, sem rétt talar og forsvarar hið góða. Þetta viti nú sínir Íslendingar, og óskar hann, að Tyrkjar skuli fara eptir því sem hann trúi, og fái laun eptir því, sem þeir geri, því þeir sé óvinir krossins Christi og geri kristnum mönnum og þeirra æfilok sé fordæmingin og nema svo hefði verið, að guð hefði af oss borið eldlegar pílur djöfulsins, þá hefði þessir morðingjar fyrir ári eður tveimur, já, árlega síðan, hingað til Íslands farið skaða og skemdarverk að gera; hafi guð hamlað þeirra ásetningi í sérhvert sinn mjög furðanlega og mildilega, og ef guð hindraði þá ekki, þá mundu þeir ganga yfir lönd og lýði; þeir skuli sækja mjög eptir því íslenzka fólki og hafi við leitast stundum með þrjú skip, líka fjögur skip á þeim umliðna mánuði Maio.
TyrkirSegir hann, þeir sig saman tekið hafi á sex skipum, en það hafi hindrazt, hví kapteinarnir hafi allir þurft í stríð að fara. Þeir Tyrkjar segja, að það íslenzka fólk sé betra en annað fólk, strákskaparlaust, hlýðið og trúfast við sína húsbændur. Þar fyrir hafa þessir kapteinar ráðslagað að taka ekki annað en ungmenni um tvítugsaldur, hvers blóðs og sálna mest þyrstastur verið hafi sá bannsettur eiturdreki Morath Fleming, hvers minning sé í helvíti.”

Eldvörp

Eldvörp – “Tyrkja”byrgi.

Af framangreindri lýsingu, þ.e. “Síðan fóru víkingar í land og ræntu búðir kaupmannsins, en hann var flúinn [á land upp] og allir þeir Dönsku [með honum] er á landi voru, og höfðu áður falið nokkuð af vöru sinni, því, sem þeir gátu undan komið“, mætti ætla, án nokkurrar sönnunar, að felustaður hinna dönsku hafi verið byrgin í Sundvörðuhrauni, er síðar týndust, en fundust á ný um 1820. Mikil dulúð hefur hvílt yfir tilgangi byrgjanna alla tíð síðan. Lengi vel var álitið að þarna væru felubyrgi, sem Grindvíkingar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu aftur (sem verður að teljast ósennilegt) og einnig hefur verið talið að um væri að ræða felustaði Grindvíkinga á fiskundanskoti vegna nauðþurfta í harðindaárum fyrr á öldum. Fyrstnefnda skýringin er ekki ólíklegri en aðrar.

Heimild:
-Tyrkjaránið á Íslandi, Sögufélagið gaf út, Reykjavík 1906, bls. 223-233 og 289-290. Lítill annáll um Tyrkjans herhlaup á Íslandi Anno 1627, bls. 1—5. V. Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsá, samin 1643, bls. 204—299.

Eldvörp

“Tyrkjabyrgin” í Sundvörðuhrauni ofan Grindavíkur.

Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson skrifaði um “Gamlar slóðir” Hafnfirðinga í Hamar 1954:

Garðahverfi

Engidalsvegur um Flatahraun aftan Fjarðarkaupa. Nú eyðilagður vegna framkvæmda.

“Inn á Flatahrauni mátti til skamms tíma sjá troðning, vallgróinn, í hrauninu sunnan Reykjavíkurvegar. Troðningur þessi lá niður Flatahraunið hjá neðsta hvíldarklettinum eftir balanum, þar sem nú stendur Tunga. Var þar í eina tíð tveggja mannhæða djúpur hraunbolli. Af balanum lá troðningurinn niður í Djúpugjótu og hlykkjaðist eftir henni upp á syðri gjótubarminn. Var allhátt af barminum niður í gjótuna. Þarna varð eitt fyrsta bifreiðaslys sem um getur í bifreiðasögunni, á áliðnum vetri 1913. Frá Djúpugjótu lá troðningurinn eftir hraunbala nokkuð sléttum unz halla tók niður í Háaklif.

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Þröngt var það, svo að varla varð farið um það með klyfjahest. Breyttist það nokkuð, árið 1873. Var þá fyrir forgöngu Christens Zimsen verzlunarstjóra ráðist í að leggja upphleyptan veg, neðan af plássi í Hafnarfirði, austur á hraunbrún við Engidal. Var þetta akfær vegur. Chr. Zimsen vígði svo veginn. Reið hann á þriðjungi skemmri tíma en áður hafði tíðkast að fara þessa leið. Var mikið um þessar framkvæmdir talað og þótti sá maður að meiri, er þær hafði séð. En þröngt var enn um klifið. Háir klettar á báðar hendur. Þegar Hafnfirðingar tóku á móti konungi sínum 1874, Kristjáni níunda, lögðu þeir stórt tré yfir klifið frá einum kletti yfir á annan. Klæddu síðan allt með lyngi og birkigreinum og gerðu þarna hinn fegursta sigurboga.

Hafnarfjörður

Hamar 1954…

Reið konungur og fylgdarlið hans hiklaust í gegn og sem leið lá niður á plássið. — Fannst konungi sem hann væri að steypast niður í jörðina er hann kom framundan sigurboganum. En fagurt þótti honum að líta úr klifinu á fagurskyggðan fjörðinn, baðaðann í ágústsól. Í vestur var Hvaleyrin með holtin upp og austur af, allt upp undir Ásfjall og Hamarinn í suður.

Sigðmyndaður Hvaleyrargrandinn með ósum og tjörnunum tveimur undir holtunum. Hvaleyrartjörn, Skiphóll og Óseyrartjörn og Háigrandi sem oddur sigðarinnar syðst gegnt Flensborg. Á klöppinni til hægri við klifið stóð lítil græn þúst, Efstibær, bær Halldórs Beikis.
Lá vegurinn utan í klettinum sem bærinn stóð á og með djúpri gjótu á vinstri hlið allt niður á klöpp er teigði sig yfir í Finnshól og niður með honum, en þá var önnur gjóta mjög djúp komin á hægri hlið og stóð í henni einn bær, Klöpp, bær Þorsteins Þorsteinssonar hins fróða.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum; ÓSÁ.

Svo lá vegurinn niður á allbreitt svæði sunnan Christensenverzlunarhúss, kallað Bingurinn.

Þegar Kristján konungur kom á plássið var verið að taka saman fisk. Ekki var fólkið látið leggja frá sér börur, eða hætta verki þó konungur gengi framhjá. Á Knudtzonsbryggju var konungur ávarpaður fagurri kveðju af gömlum manni.
Sú kveðja er nú víst gleymd, en hana mundi Þorsteinn fróði og fór með hana svo ég heyrði eitt sinn, en ég nam hana ekki og heldur ekki nafn þess manns er hana flutti.

Kristján níundi

Kristján níundi Danakóngur.

Konungur kom í Bjarnahús Sivertsens til Chr. Zimsen. Kathinka litla dóttir hans færði honum blómvönd, en hann þakkaði henni. Tók hana á kné sér og hampaði henni. Þess minntist hún síðan alla ævi og sagði frá því með hrærðum huga.

Á Bingnum voru vegamót. Þá var komið á aðalgötu Fjarðarins, Sjávargötuna. Lá hún með sjónum bak við malarkampinn þar sem hann var annars í fjöruborðinu. Niður fjöruna frá Bingnum lá Christensensbryggjan. Rétt sunnan við hana var sker í fjörunni þar sem nú stendur hús Jóns Mathiesen.

Sunnan skersins kom Beikishúsvör og náði allt suður að Fjósakletti. Þarna áttu uppsátur Hraunprýðismenn og Hansensbræður, Einar og Hendrik og Stakkstæðismenn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hótel Björninn er áður stóð við Binginn.

Þröng var sjávargatan milli malarkambsins og húsanna og framan í Fjósakletti lá hún eins og einstigi, svo að fólk með vatnsfötur í grind varð að skáskjóta sér vestur úr einstiginu. Var þá komið að einhverri fyrstu vegargerð í Firðinum, Arahússtétt, er lá frá Fjósaklettinum yfir að klöppinni, sem Arahús stóð á.

Þar suður af tók við Brúarhraunsvör allt að Brúarhraunskletti. Var malarkampur upp frá vörinni, en milli hans og Brúarhraunsgarðanna lá gatan, fyrir baðstofugluggann á Þorkelskofa, Sigþrúðarbær og Ingibjargarbæ ekkjunnar að Árnabæ Veldings.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Sunnan þessa bæjar kom Gunnarssund. Þar hafði Gunnar í Gunnarsbæ uppsátur skipa sinna og voru stundum á vetrum þrjú skip í Sundinu. Handan sundsins var allstór hóll, kallaður Ragnheiðarhóll. Klapparrani lá frá honum fram í fjöruna og endaði þar í klöpp, er kölluð var Brúarklöpp. Á henni stóð annar stöpull fyrstu brúarinnar, sem sett var á lækinn, en hinn stöpullinn stóð á malaroddanum. Brúarklöppin mun nú vera undir vestasta hluta Hafnarfjarðarbíós, þar sem inn er gengið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Sunnan klapparranans var allbreiður malarkampur nokkuð suður fyrir Veldingshús (Strg. 33) og lá gatan ofan til við hann. Eitt sinn við ádrátt fyrir ufsa voru færðar upp á malarkampinn 900 tunnur af smáufsa. Var það ekki í fyrsta sinni sem ufsinn bjargaði Hafnfirðingum og mörgum öðrum. Því dæmi voru til þess að bændur komu austan fyrir Fjall að fá sér ufsa. Það var úr þessari ufsakös að Þórður Alamala sótti byrði sína og bar hvíldarlaust til Reykjavíkur, en er þangað kom var hún vegin og reyndist vera rúmt skippund yfir 160 kg.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Upp á þennan malarkamp rak á hverju ári mikið af þaraþönglum. Á hverju hausti söfnuðust allir strákar úr Firðinum þarna saman og efndu til Þönglaslagsins“. Af þeim fundi fór enginn óbarinn. Barist var meðan nokkurt vopn var að fá. Meðan til var þöngull álnarlangur. Mátti um langa leið heyra gný mikinn og vopnaskak og fylgdi með grátur og gnístran tanna. En þó mikið væri barist og margur kappinn félli, þá risu þó allir jafngóðir upp að morgni næsta dags.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni.

Sjávargatan lá suður með læknum framhjá Helgahúsi, Kringlu og Kolfinnubæ (Tutlukoti) inn að Byggðarenda og Lækjarkoti. Þar í læknum stóð í eina tíð Kornmillan hans Linnets. Var hún fyrst rekin með vatnsafli lækjarins, en síðar voru settir upp mylluvængir. Þannig mundi Gísli bakari eftir henni, en það mun hafa verið á síðustu dögum hennar. En kofinn stóð allt fram á daga Jóh. J. Reykdals, að hann tók grjótið úr honum og hafði í uppfyllingu undir timburverksm. sína 1903. Erum við þá á leiðarenda komin í bili.

Af Bingnum lá Sjávargatan vestur um hornið á Christensenshúsi með bólvirkin á vinstri hönd framhjá Knudtzonsverzlunarhúsunum yfir stakkstæðið, en niður frá miðju þess kom Knudtzonsbryggjan og lá fram í sjó.
HafnarfjörðurVestan stakkstæðisins stóðu tvö pakkhús og allbreytt port á milli. Framundan portinu var „Dokkin“. Afþiljað skipauppsátur sem Bjami Sivertsen lét gera í sinni tíð og var hún notuð fram um 1880. 1882, eftir að Sveinn Jónsson var kominn í fóstur til Halldórs beikis, gekk Halldór með Sveini þarna um og sýndi honum „Dokkina“ og voru þá þrjár ,,Jaktir“ í henni og stóðu „Brandaukarnir” inn yfir portið og mátti þar ganga undir. Lá gatan upp brekku allt upp á klifið, en „Jaktaklettur” var þá á vinstri hönd.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Af klifinu lá gatan neðan Jónshúss og Klofabæjar með Klofavör á vinstri hönd neðan Gestshúsa vestur að Kletti, bæ, sem stóð spottakorn upp frá götunni. — Sveigði svo fyrir klapparnef, er var beint upp af Fiskakletti, en vestan klapparinnar stóð bærinn „Fiskaklettur“ og nokkru vestar, við enn eitt klifið stóðu bæirnir Péturskot og Þórnýjarbær.

Vestur kom af klifinu lá gatan um „Krosseyrarmalir“ er voru tvær, sundurskornar af hraunrima. Gatan lá upp á balann við Gatklett og af honum um Draugaklif yfir í lautina austan Gönguhólsklifs. Vestan undir Gönguhólsklifi stóð bærinn Göngubóll eða Sönghóll, en þá tóku við Langeyrarmalir og bærinn í hrauninu upp frá austurenda malanna.

Brúastaðir

Brúsastaðir (Litla-Langeyri) um 1975.

Fyrir miðjum Langeyrarmölum voru Flatirnar og bær þar samnefndur. Þar óx „Brenninetla“. En því óx hún þar að þar hafði verið barizt og úthellt heiptarblóði. Börðust þar Englendingar og Þjóðverjar (Hansakaupmenn) um yfirráðin yfir verzlunarréttinum í Hafnarirði. Vestan málanna er Hraunsnefstangi og stóð þar í eina tíð „Hammershús”, hvalveiðistöð. Mátti fyrir nokkrum árum finna þar tígulsteina. Tóku þá við Litlu-Langeyrarmalir, eða Brúsastaðamalir. Þá lá gatan eftir þeim út í Stífnishóla um Brúsastaðavör yfír að Skerseyri, um Skerseyrarmalir upp „Sléttubrú“ hlaðinn vegarspotta upp á Balatún yfir það bak við bæinn yfir á Dysjamýri að Görðum og út á Álftanes. Var þetta kirkjugata Hafnfirðinga um langan aldur.

Setbergsbærinn

Gamli Setbergsbærinn.

Þó Flatarhraunsleiðin væri fjölfarin hygg ég þó að önnur leið hafi verið fjölfarnari er austanmenn sóttu kaupstefnur til Hafnarfjarðar. Kjóavellir sunnan Rjúpnahæðar voru í eina tíð mikilvægur áningastaður. Þaðan lágu leiðir í ýmsar áttir. Ein lá yfir hálsinn austan Vífilstaðavatns og niður að vatninu meðfram því út á hraunið og niður yfir það í Kaplakrika niður með Kaplakrikalæk. Móts við Setbergshamar skáskar troðningurinn sig yfir Sjávarhraunið. Mátti sjá í hraunklöppunum brautir sorfnar „þar harðir fætur ruddu braut í grjóti”.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hörðuvellir.

Úr Sjávarhrauninu lá troðningurinn niður á Hörðuvelli og yfir Hamarskotslæk. Niður með læknum undir Hamrinum niður á Moldarflötina á Hamarskotsmöl. Skiptust þar leiðir. Lá önnur vestur á brúna, en hin suður með Loftsstaðatúngirðingu fram hjá Proppébakaríi, framhjá „Surtlu“, þar sem Brennisteinsfélagið hafði aðalbækistöð sína. Litlu sunnar var braut niður að Egilsonsverzlunarhúsunum. En aðalvegurinn lá með fram Undirhamarstúngarði að litlum læk og var brú á honum, en frá brúnni sniðskar vegurinn sig upp á Vestur- eða Sjóarhamar. Var þá á vinstri hönd bærinn „Hamar“ eða „Bjarnabær“ og fremst fram á brúninni Miðengi og bær sá er síðar tók nafnið „Hamar“.

Hafnarfjörður

Frá smábátahöfninni í Hafnarfirði; Flensborgarhöfn.

Af Hamrinum lá gatan sniðhalt niður’á Ófriðarstaðamöl, Hellufjöru og nokkur önnur nöfn mætti til tína. Eftir henni út að Flensborg ofanvert við Ásbúðarvör. Frá Flensborg lá vegurinn yfir Ásbúðarlæk og á enn sjá troðninga upp melinn frá Óseyrarbanka. Vestur lá vegurinn neðst í holtinu ofan Óseyrartúns um Sandaskörð að Barðinu, en upp frá því með Hvaleyrartúngarði niður á sandinn vestur á Hvaleyrarhraunið og áfram til Suðurnesja og Grindavíkur.

Selvogsgata

Selvogsgata (Suðurferðavegur), Hlíðargata og Stakkavíkurgata/-stígur millum Selvogs og Hafnarfjarðar fyrrum.

Leið Selvogsmanna klofnaði sunnarlega á Öldunum. Lá önnur niður með Hamrinum austanverðum að Hamarskotslæk, en hin lá með Hamarskotstúngarði og þaðan niður til Fjarðarins.

Að nokkru hefur nú verið lýst leiðum þeim er lágu til Hafnarfjarðar og aðalleiðum um Fjörðinn. Ekki gefst nú tækifæri til að lýsa stígum þeim og slóðum er lágu út frá aðalleiðunum.
Ég hef fært þetta í letur eftir frásögnum gamalla manna og kvenna. Það er því ekki þeirra sök þó eitthvað sé um missagnir. Væri mér það ljúft að þeir, sem finna missagnir hér í létu mig vita, því það á okkur öllum Hafnfirðingum að vera kappsmál, að hvað sem sagt er eða skrifað um Hafnarfjörð sé sannleikanum samkvæmt.”

Sjá meira um Gísla Sigurðssson HÉR.

Heimild:
-Hamar, 26. tbl. 22. 12.1954, Gamlar slóðir, Gísli Sigurðsson, bls. 5 og 15.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 2023.

Herdísarvík

Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt.

Krýsuvík

Krýsuvík og Herdísarvík – herforingjaráðskort.

Krýsuvík mjög í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill.

Breiðivegur

Breiðivegur neðan Geitahlíðar.

Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð í Krýsuvík.

Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Heitir þar kerlingadalur, en Deildarháls ofar.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein.
Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið þótt ekki sé þess getið að neinn hafi af því bana beðið. Aftur var það einn vetur eftir þetta er sjómenn gengur til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemmst leið er að ganga til sjávar þaðan yfir tjörnina þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu. Um starengið í Krýsuvík er það enn í dag sannreynt að það lækkar smátt og smátt fram við tjörnina er það liggur að svo að hún gengur hærra upp eftir því unz hún er komin yfir allt engið eftir 20 ár, en þá fjarar tjörnin aftur smásaman svo engið kemur æ betur upp unz það er orðið jafngott og áður að öðrum 20 árum liðnum.

-Jón Árnason I 459.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Stapagata

Stapagata er gömul gata er liggur ofan við Stapann milli Voga og Innri-Njarðvíkur. Gatan er vel greinileg og gaman að ganga hana. Á leiðinni er m.a. Grímshóll þar sem gerðist sagan af vermanninum og huldumanninum í hólnum.

Reiðskarð

Reiðskarð.

Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Rétt í þessu verður Þorbjörgu litið upp eftir skarðinu. Sér hún þá, hvar þrjár verur er að þokast upp eftir, 50 til 60 metra fyrir framan hana.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Fremst gengur kona, á eftir henni kýr, sem konan teymir, og á eftir kúnni labbar hundur. Konan er klædd eins og þá tíðkaðist um sveitakonur, hafi til dæmdis hyrnu á herðum. Kýrin var kjöldótt og hundurinn flekkóttur. Fannst Þorbjörgu ekkert óeðllegt við þetta. Hún kallar til konunnar: “Kona, eigum við ekki að verða samferða?” En konan lét sem hún heyrði ekki. Þorbjörg kallar aftur: “Kona, eigum við ekki að verða samferða yfir Stapann?”. En það fer sem fyrr, konan ansar ekki. Þegar hún er komin upp á skarðsbrúnina kallar Þorbjörg til hennar ennþá einu sinni. Þá lítur konan við og glottir til hennar. Í þeim svifum hverfur hún fyrir brúnina með kúna og hundinn.

Stapagata

Stapavegur.

Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir húnsér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum.

Stapagata

Stapagata.

Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá.

Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Reykjanesið er sagnakennt umhverfi.

(Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961).

Stapagata

Gengið um Stapagötu.

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Til hliðsjónar var höfð lýsing Ólafs Þorvaldssonar á aðstæðum í Kaldárseli.
Lengi vel mátti sjá veggi tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vandlega hlaðnir vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk haft aðstöðu og búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.

Kaldársel

Kaldársel – sumarbúðir.

Kaldársel á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður öðrum sögum smábýla á þeim tíma.  Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra norðan Kaldár.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru nú sumarbúðir KFUMogK. Kvæðið er svona:

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Kaldársel – stekkur.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir  Garðapresta við Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Kaldársel um 1930. Tóftir Kaldársels hægra megin við nýreist húsið.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin var við Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873. Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli 1898 – Daniel Bruun.

Í húsvitjnarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Hún skrifaði m.a. um dvöl sína í selinu sem og skráði raunsanna huldufólkssögu er þar átti að hafa gerst. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Steinhes

Kaldársel – Steinhes (Steinhús).

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergio mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma. – Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Hann teiknaði upp húsakostinn og minjar í nágrenninu, auk þess sem hann tók ljósmyndir, sem birtust síðar í bók um ferðir hans. Lýsir Daniel allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að “þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman”.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Tóftir Kaldársels uppfærðar  inn á ljósmyndina.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborginum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði, vegna þess hversu þungur hann var, að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.

Árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli. Eftirfarandi frásögn um upphaf sumarbúða K.F.U.M í Kaldársel birtist í Bjarma árið 1967:

kaldarsel-990

Kaldársel – sumarbúðir.

“Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Sjá má tóftir selsins að baki hússins.

Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.

Við framangreinda framkvæmd var það sem eftir var af tóftum selsins í Kaldárseli, sem stóð suðaustan við fyrsta hús K.F.U.M. fram á sjöunda áratug síðustu aldar, fjarlægt. Fáir vita í dag hvar selið stóð ofan við árbakkann.

Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það nú samt.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Bjarmi 1967.

Kaldársel

Fjárskjól við Kaldársel.

Rjúpnahæð

FERLIR var boðið í skoðunarferð um loftskeytastöðina á Rjúpnahæð. Stöðin, þakin möstrum, línum og lögnum, var reist af Bretum á hæðinni ofan og utan við höfuðborgina snemma í Seinni heimsstyrjöldinni.
Sjálf bækistöðin var hýst í Aðkoman að loftskeytastöðinnitveimur bröggum efst á hæðinni, milli tveggja mastra er enn standa. Bandaríkjamenn yfirtóku síðan bækistöðina. Þeir voru rifnir og nýtt hús byggt undir vaxandi og ómissandi starfsemi árið 1952. Það hús stendur enn og hýsir um þessar mundir allar kynslóðir senda, allt frá örfáum vöttum til nokkurra þúsunda. Á næstu mánuðum (þetta er ritað í okt. 2007) verða möstrin felld og húsið jafnað við jörðu. Svæðið er komið á framkvæmd deiliskipulags Kópavogs og þá og þegar að því kemur verður engu þyrmt – ef af líkum lætur. Nú þegar er byrjað að grafa fyrir og leggja götur á svæðinu.

Rjúpnahæð

Í loftskeytastöðinni á Rjúpnahæð.

Umsjónarmaður loftskeytastöðvarinnar, greinilega eldklár á sínu sviði, en fannst greinilega miður, líkt og áheyrendum, að rífa þyrfti hið veglega hús á hæðinni. Skipulagið gerir þar ráð fyrir tvöföldum nútímavegi (sem eflaust verður orðinn úreltur eftir hálfa öld), en með ofurlítilli hugsun og broti af skynsemi hefði auðveldlega verið hægt að gera það að miðstöð svæðisins; annað hvort sem safnhúsi eða einhverju öðru ekki síður merkilegu. En  gróðarhyggjan spyr ekki að slíku – lóðin mun vera verðmætari en húsræksnið, sem þó virðist bara í ágætu ástandi, enda vel vandað til verksins í upphafi.

Loftskeytastöðin á Rjúpnahæð

Vangaveltur koma óneitanlega upp um hvers vegna íbúar Kópavogs hafi ekkert lagt til málanna í þessum efnum. Kannski hafa þeir bara ekki skoðað málið nægilega vel eða velt væntanlegum afleiðingum fyrir sér – sem og möguleikum á nýtingu hússins.
Ætla má að einhver hafi tekið skyndiákvörðun um brotthvarf þessara minja í reykfylltu herbergi án sérstakrar umhugsunar.
Loftnetin utandyra virtust fleiri en eyjarnar á Breiðafirði og hólarnir í Vatnsdal. Víravirkin eru sum að sjálfsögðu orðin úrelt, en þau þjónuðu þó sínum tilgangi á meðan var. Það eitt ætti að kalla á svolítið viðstaldur. Mannsævin er stutt, en ávallt minninga virði. Það finnst a.m.k. afkomendunum. Þeim finnst og mikilvægt að halda í minningu þeirra, öðrum eftirlifandi til áminningar og eftirbreytni. Ákvarðanatakar í bæjarstjórn Kópavogsbæjar virðast allir tröllum gefnir í þeim efnum.
Með elstu minjum stöðvarinnarÞegar inn í sendistöðina var komið birtist fyrst íslenskt karlkyns; Spói. Hann tók fagnandi á móti hálfkvenkynssammyndinni Brá – ætlaði reyndar aldrei að láta af fagnaðarlátununum. Greyið var reynar að koma úr eistaaðgerð og því ekki til stórræðna líklegur.
Inni í sendistöðinni var óendanlega mikið af sendum og öðrum tækjum. Aðallega stuttbylgju og langbylgjusendar fyrir flugfjarskipti. Í kjallaranum voru síðan fm sendar fyrir x-ið og einhverjar fleiri stöðvar. Ekki var þera neitt útvarpstæki, bara símtól sem hægt var að tengja við suma sendana. Í rauninni eru þarna minjar um upphaf fjarskipta hér á landi. Fyrsti sendirinn, “serial no 1”, brann að vísu yfir á sínum tíma, en þarna er enn “serial no 2”, sem verður að teljast allnokkur safngripur. Síðan tekur hver safngripurinn við af örðum – í þróunarröðinni. Sum nöfnin er alkunn, en önnur ekki. Í ljós kom að þekking og reynsla íslenskra sérfræðinga dugðu vel til að betrumbæta sum tækin þeannig að þau dugðu betur en áður þekktist. Það er jú varðveislunnar virði. Ekki er vitað til þess að saga loftskeytastöðvarinnar hafi verið skráð – líklegra er lengra í söguna en eyðileggingu hennar.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Fólk vill víst ekki hafa loftnetin þarna lengur, sem verður jú að teljast eðlilegt. Það verður víst að vera pláss fyrir fleiri blokkir eða einbýlishús í Kópavogi. Þó hefði ekki orðið fráfallssök þótt eitt ef elstu möstrunum hefði verið hlíft, sem minjamastri fyrir það sem var (hugsað fram í tímann).
Einkahlutafélag mun á næstunni hefja rekstur fjarskiptamastra á gamla varnarsvæðinu í nágrenni Grindavíkur samkvæmt upplýsingum blaðsins. “Í dag rekur félagið möstur við Rjúpnahæð í Kópavogi, en á því svæði stendur til að byggja og þurfa möstrin því að víkja. Þau möstur verða þó ekki flutt til Grindavíkur heldur munu Flugfjarskipti nota möstur sem bandaríski herinn skildi eftir við fjallið Þorbjörn. Möstrin á Rjúpnahæð verða tekin niður og gerður hefur verið samningur við Kópavogsbæ um frágang þess máls. Möstrin sem Flugfjarskipti hyggjast taka í notkun í námunda við Grindavík eru um 10-12 talsins, en þau verða notuð til fjarskipta við flugvélar á flugi í íslenska flugstjórnarsvæðinu yfir Norður-Atlantshafi.

Staðfesting á elsta "núlifandi" sendir stöðvarinnar

Í fyrra keypti Flugfjarskipti hluta jarðarinnar á Galtarstöðum í Flóahreppi og hugðust flytja möstrin sem standa á Rjúpnahæð þangað. Stjórn hreppsins hafnaði hins vegar beiðni Flugfjarskipta um að fá að reisa möstrin þar, en hæð þeirra átti að vara 18-36 metrar. Gert er ráð fyrir að flutningurinn frá Rjúpnahæð fari fram í áföngum á þessu ári og næsta, en möstrin á Rjúpnahæð verða í notkun þar til að fyrirtækið er endanlega flutt á nýjan stað. Kópavogsbær reiknar með að hægt verði að hefja byggingar af fullum krafti næsta sumar og að svæðið verði að mestu full byggt 2010-2011.” Hið jákvæða í þessu öllu saman er að starfsemin færist til Grindavíkur, en hið neikvæða felst í niðurrifshugsjóninni.

Loftskeytastöðin

Loftskeytastöðin á Melunum.

Til frekari fróðleiks er rétt að rifja upp að loftskeytastöðin á Melunum tók til starfa 17. júní 1918. Þetta var neistasendistöð með krystalviðtækjum. Tvö 77 metra möstur voru reist fyrir loftnet. Loftskeytastöðin sendi út og tók á móti á morsi fyrsta áratuginn. Síðar annaðist hún einnig talskipti og veitti öllum skipum í námunda við Ísland ómetanlega þjónustu sem stórbætti öryggi sjófarenda.
Elsti sendirinn - sem væntanlega veðrur fargaðFrá örófi alda hafa menn reynt að finna aðferðir til að hafa samskipti við aðra. Sending reykmerkja og trumbusláttur eru meðal þeirra aðferða sem notaðar voru í upphafi en fjarskiptatækni nútímans byggist aftur á móti á eiginleikum rafmagns og rafsegulmagns. Gríðarlegar framfarir urðu í tæknimálum á 19. öld. Þá bjó t.d. Ampére til nálaritsíma og stuttu síðar smíðaði Morse nothæfan ritsímalykil og bjó til sérstakt stafróf. Árið 1876 talaði Bell í síma í fyrsta skipti og Marconi sendi fyrstu loftskeytin árið 1897.
Árið 1906 markar tímamót í fjarskiptasögu Íslendinga. Það ár var sæsímastrengur fyrir ritsíma lagður frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og kom hann á land á Seyðisfirði. Skeyta- og talsími var lagður frá Seyðisfirði um Akureyri og til Reykjavíkur og rauf hann einangrunina innanlands. Margir mótmæltu lagningu símans og töldu loftskeyti vænlegri kost en Hannesi Hafstein ráðherra tókst að sannfæra Alþingi um ágæti símans.

Pósthússtræti 3

Pósthússtræti 3 –
Barnaskóli, pósthús, símahús og lögreglutöð.
Í fyrstu hýsti húsið Barnaskóla Reykjavíkur (1883-1898) en þá var það tekið undir pósthús og stuttu síðar Landsíma Íslands. Árið 1931 var húsið tekið undir Lögreglustöð Reykjavíkur sem var hér til ársins 1965 þegar ný lögreglustöð var opnuð við Hlemm. Í kjallara hússins voru fangageymslur sem gengu undir nafninu „Steinninn“ eða „Grjótið.“

Það liðu þó mörg ár þar til allir landsmenn komust í símasamband en lagningu síma í sveitir lauk í kringum 1960 og voru þá enn margir símar á sömu línunni.

Landssími Íslands var stofnaður sama ár og símtæknin kom til landsins, árið 1906, og var hann til húsa í gamla barnaskólanum í Reykjavík á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Fyrsti yfirmaður Landssímans var Norðmaðurinn Olav Forberg sem hafði stjórnað lagningu símalína um landið. Fyrstu menntuðu íslensku símamennirnir voru símritarar sem höfðu verið í námi hjá Mikla norræna ritsímafélaginu í Kaupmannahöfn.
Eftirsóknarvert þótti að vinna við talsímann og sköpuðust með honum ný atvinnutækifæri fyrir karla og konur. Árið 1935 var síma- og póstþjónustan sett undir einn hatt en árið 1998 skildu leiðir á ný og Landssími Íslands hf. var stofnaður.
Fornfálegheit lofskeytastöðvarinnarLoftskeytastöð tók til starfa á Melunum í Reykjavík þann 17. júní 1918 í því húsi sem Fjarskiptasafnið er nú og kallaðist hún Reykjavík radíó. Sunnan- og norðanmegin hennar voru tvær 77 m háar loftnetsstangir. Fyrsta kallmerki stöðvarinnar var OXR en árið 1919 var Íslandi úthlutað kallmerkinu TF og bar stöðin síðan kallmerkið TFA. Upphaflega var loftskeytastöðin hugsuð sem varasamband til útlanda, viðbót við sæsímann, en aðalhlutverk hennar varð brátt þjónusta við skip og báta og var hún bylting fyrir öryggi þeirra.
Í fyrstu fóru öll fjarskipti við skip fram á morsi en talfjarskipti hófust árið 1930. Fyrsta íslenska fiskiskipið sem fékk loftskeytatæki var togarinn Egill Skallagrímsson, árið 1920.

Rjúpnahæð

Möstur loftskeytastöðvarinnar á Rjúpnahæð.

Tveimur árum síðar var fyrsti loftskeytamaðurinn ráðinn til starfa á íslenskt skip. Þegar skipum með loftskeytatæki fór að fjölga varð hörgull á mönnum sem gátu sinnt þessum störfum og var því efnt til námskeiðs fyrir unga menn sem vildu læra loftskeytafræði. Lauk fyrsti hópurinn námi árið 1923. Á hernámsárunum var Reykjavík radíó undir eftirliti hernámsliðsins. Þá voru loftskeytastöðvar reistar víða um land, t.a.m. á Rjúpnahæð og tvær við Grindavík.
Síminn hefur sinnt radíóþjónustu við flugvélar frá því í lok síðari heimsstyrjaldar. Þeirri þjónustu er sinnt í Gufunesi. Stöðinni á Rjúpnahæð hefur jafnan verið fjarstýrt þaðan.

Landsímahúsið við Austurvöll

Landsímahúsið við Austurvöll.

Árið 1963 fluttist öll starfsemi Reykjavík radíó í Gufunes sem er nú aðalstrandstöð fyrir skip auk þess að veita flugvélum fjarskiptaþjónustu.

Reykvíkingar voru fljótir að taka við sér og fá sér síma. Árið 1912 voru notendur í bænum alls 300 talsins, tíu árum síðar voru þeir nær 1100 og árið 1928 voru um 2400 símnotendur í Reykjavík. Þrátt fyrir að búið væri að byggja eina hæð ofan á gömlu símstöðina voru þrengslin orðin slík að ekkert pláss var fyrir fleiri skiptiborð og voru vinnuaðstæður mjög erfiðar. Ákveðið var að reisa nýtt hús fyrir starfsemi Símans og fékkst til þess lóð við Austurvöll.

Rjúpnahæð

Loftskeystastöðin á Rjúpnahæð – MWL.

Árið 1932 voru fyrstu sjálfvirku símstöðvarnar í Reykjavík og Hafnarfirði teknar í notkun. Þá gátu bæjarbúar hringt hver í annan án þess að fá samband í gegnum “miðstöð” og hafa eflaust einhverjir saknað þess að þurfa ekki lengur að tala við stúlkurnar þar.
Sjálfvirkum stöðvum fjölgaði smám saman á landinu og árið 1976 voru allir þéttbýlisstaðir komnir með sjálfvirkan síma. Árið 1986 voru allir símar landsmanna tengdir sjálfvirkum stöðvum og fréttir sem menn heyrðu óvart í gegnum sveitasímana heyrðu sögunni til.
Símastaurar og línur sáust vart lengur í landslaginu þar sem farið var að plægja strengina í jörðu eða setja upp radíósambönd. (Vonandi mun slík þróun og verða v/jarðvarmavirkjanir hér á landi til lengri framtiðar litið).

Loftskeytamöstur á Rjúpnahæð

Lagning ljósleiðara um landið hófst árið 1985. Með honum jukust talgæði til muna en stafræn kerfi eru auk þess öruggari og hagkvæmari en fyrri kerfi. Flutningur annarra gagna en símtala varð mögulegur og var almenna gagnaflutningsnetið tekið í notkun ári síðar. Fyrstu stafrænu (digital) símstöðvarnar voru opnaðar árið 1984 og náði sú tækni til allra símstöðva ellefu árum síðar. Með stafrænu tækninni var unnt að bjóða upp á ýmsa sérþjónustu. Íslendingar eru fljótir að tileinka sér nýjungar og það átti svo sannarlega við um farsímana. NMT-kerfið hóf göngu sína árið 1986 og GSM-kerfið árið 1994. Árið 1998 var breiðbandið tekið í notkun og verður það notað fyrir margvíslegan gagnaflutning í framtíðinni, s.s. síma, sjónvarp, útvarp og tölvur. Það hefur verið kallað upplýsingahraðbraut framtíðarinnar.

Scotice

Fyrstadagsumslag frá árinu 1962.

Talsamband við útlönd á stuttbylgjum var opnað árið 1935 og voru um 250 samtöl afgreidd fyrsta mánuðinn. Gjaldið fyrir útlandasímtal þætti hátt í dag en það var þá 33 kr. fyrir þriggja mínútna símtal sem jafngilti því sem næst heilu ærverði. Til samanburðar má geta þess að áskrift að dagblaði kostaði á sama tíma 2-3 kr. á mánuði. Nýr sæsímastrengur, Scotice, milli Skotlands og Íslands var tekinn í notkun árið 1962 og olli hann enn einni byltingunni í samskiptum Íslendinga og annarra þjóða. Í tengslum við strenginn var komið upp telexþjónustu hér á landi og varð hún mjög vinsæl hjá fyrirtækjum og stofnunum. Ári síðar var Icecan-strengurinn, milli Íslands og Kanada, formlega tekinn í notkun.
Elsta braggahúsið var á millum mastrannaÁrið 1980 kom jarðstöðin Skyggnir til sögunnar og fóru þá samtöl til útlanda um gervihnött. Þá var fyrst hægt að hringja beint til annarra landa. Skyggnir sinnir enn hluta þjónustunnar og er einnig notaður sem varaleið en árið 1994 var nýr sæstrengur, Cantat-3, tekinn í notkun. Hann liggur þvert yfir Atlantshafið, frá Evrópu til Ameríku, en grein frá honum
tengist Íslandi. Um hann fer nú meirihluti símtala frá landinu til útlanda og mikill gagnaflutningur, s.s. Internetið.
Í deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð segir m.a.: “Í tillögunni er gert ráð fyrir nýju íbúðarsvæði vestast í Rjúpnahæð. Nánar tiltekið afmarkast deiliskipulagssvæðið af opnu svæði við fyrirhugaða Smalaholti til vesturs, skógræktarsvæði og golfvelli GKG til norðurs, fyrirhugaðri byggð við Austurkór, Auðnukór og Álmakór til austurs sveitarfélagsmörkum Kópavogs og Garðabæjar til suðurs. Áætlað er að á svæðinu rís 120 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Aðkoma er fyrirhugðu Ásakór um Austurkór.”
Svo mörg voru þau orð…
Beitarhústóft frá Fífuhvammi norðan í RjúpnahæðVið skoðun FERLIRs komu í ljós tóftir norðan við afmarkaða girðingu loftskeytastöðvarinnar. Í gögnum segir að “í norðurhlíðum Rjúpnahæðar ofan golfvallar eru menjar gamals sels. Selið var verndað með bæjarvernd í tengslum við framkvæmdir sem áætlaðar voru á svæðinu. Framkvæmdir þessar voru Landgræðsluskógrækt, lagning reiðstíga og gerð golfvallar.”
Ef grannt er skoðað er þarna um að ræða leifar beitarhúss, væntanlega frá Fífuhvammi. Fífuhvammslækur hefur áður runnið um dalverpið, sem nú hefur verið fylt upp. Ofan við bakka þess hefur nefnt sel að öllum líkindum verið. Erfitt verður að staðsetja það af nákvæmni úr því sem komið er, bæði vegna þess að trjám hefur verið plantað í neðanverða hlíðina auk þess sem verulegt rask hefur orðið neðan hennar vegna undangenginna framkvæmda.
Mannvirkin og söguleg tilvist þeirra mun að óbreyttu hverfa á næstu mánuðum. Reyndar er leitt til þess að vita því áhugafólk um söfnun minja frá stríðsárunum hefur lengi leitað eftir slíku húsnæði fyrir safn. Myndirnar hér að ofan voru teknar í okt 2007, en myndin að neðan ári síðar. Segja má að nú sé Snorrabúð stekkur.

Heimildir m.a.:
-http://siminn/saga_simans/+loftskeytast.is
-http://www.fjarskiptahandbokin.is/
-Kopavogur.is

Loftskeytastöðin haustið 2008