Færslur

Gunnuhver

Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og s svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: “Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.”
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.
Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.

En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.

Gunnuhver

Gunnuhver. Hverinn færist fram og aftur um hverasvæðið.

Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: “Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.”
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.

Jón Árnason I 563

Gunnuhver

Gunnuhver.

Grímshóll

Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum.

Grímshóll

Stapagata og Grímshóll á Vogastapa.

Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.

Jón Árnason I 14

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Hunangshella
Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annara þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki. Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni.
Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta. Hellan er síðan kölluð Hunangshella og er hún við landsuður-horn Ósanna hjá alfaraveginum milli Keflavíkur og Hafna.
Sjá einnig HÉR.

Jón Árnason I 611

Hunangshella.

Hunangshella.

Þorbjörn

Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn.

Grindavík

Í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar.
Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.

Heimild:
-Huld I, bls. 60-61.

Grindavík

Horft til Grindavíkur frá Þjófagjá.

Krýsuvíkurleið

Áður en það var rutt varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni þegar fara þurfti til Njarðvíkur eður Keflavíkur.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum. Bóndi vildi ei gipta dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja.
Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann inum stundir að sofna vært og drap hann sofandi.
Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.
Jón Guðmundsson frá Skála fylgdi FERLIRsfélögum að dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

-Huld I 231.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Festarfjall

Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Rauðskinna I 45

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Járngerðarstaðir

“Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir Grindavíkursjórofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Hraun

Dys við Hraun.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. (Grafið var í hólinn á fimmta áratug 20. aldra. Í ljós kom kapella frá 15. öld. Nefnd dys mun vera á hól vestan Hrauns).

Þyrnir

Þyrnir hjá Járngerðarstöðum.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.
Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”

Jón Árnason IV 161 – Brynjúlfur Jónsson skráði – Tillaga til alþýðlegra fornfræða.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkatla bjó á Þórkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands.

Þórkötludys

Sigurður Gíslason á Hrauni við dys Þórkötlu í Þórkötlustaðahverfi.

Þórkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þórkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Sagan segir að Þórkatla hafi verið kona Þorsteins hrúfnis (jötuns) og Járngerður hafi verið kona Þórðar leggjalda. Þeir voru synir Molda-Gnúps. Þegar eiginmaður Járngerðar fórst á Járngerðarstaðasundi mælti Járngerðu svo til um að 20 skip skyldu þar og farast. Hún var dysuð að hennar beiðni við sjávargötuna frá Járngerðarstöðum svo hún gæti fylgst með hverjir réru hverju sinni.

Dys Járngerðar er í vegkantinum, sunnanmegin, í beygjunni á milli Víkur og Hliðs. Tómas Þorvaldsson, sem vísaði á dysina, sagði það venju að sjómenn, sem gengu sjávargötuna framhjá dysinni, stöðvuðu þar og signdu sig eða báðu bænir áður en þér héldu til báts.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Í sama óveðri slapp eiginmaður Þórkötlu inn á Þórkötlustaðasundið. Þórkatla mælti þá svo til um að þar myndu engir bátar farast. Hefur hvorutveggja gengið eftir. Þórkatla mælti fyrir um að hún skyldi dysjuð þar sem hún sæi yfir Þórkötlustaðasundið.
Dys Þórkötlu er er í túninu austan við Hof.

Jón Árnason IV 231
Skv. upplýsingu Tómasar Þorvaldssonar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ eftir ábendingum Guðjóns í Vík.

Garðaflatir

Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á.

Garðaflatir

FERLIRsfélagar ofan við tóft á Garðaflötum.

Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, en þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést þar til skamms tíma”.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.

Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá, í Helgadal, Kaldárseli og í Selgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.

Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi skráð fund eða haft orð á hvar tóftir kynnu þar að leynast.

Garðaflatir

Garðaflatir – hluti af minjunum.

FERLIR var nýlega á ferð á Garðaflötum. Með framangreinda sögu að leiðarljósi var ákveðið að leita svæðið og kanna hvort þar væru einhverjar minjar að finna. Vetrarsólin var lágt á lofti þótt um miðjan dag væri. Við leit fundust a.m.k. fimm tóttir, þar af ein mjög stór, sem og garður umleikis. Stærsta tófin er syðst, norðan hennar virðist vera gerði og garður út frá því. Innar eru minni tóftir.
Fundurinn gefur sögunni byr undir báða vængi. Nú þarf bara að kanna svæðið betur og aldursgreina minjarnar.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Landnáma

Á Vísindavef HÍ má lesa eftirfarandi skrif Sverris Jakobssonar um aldur landnámu:

Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson.

Landnámu má nota bæði sem frásögn og sem leif. Hún er leif um það að Íslendingar voru byrjaðir að skrifa um landnámið á 12. öld. Hún sýnir okkur einnig hvernig þeir skrifuðu um það og hvað þeim fannst mikilvægt að segja frá í sambandi við það. Þá er varðveislusaga Landnámu til vitnis um áframhaldandi áhuga Íslendinga á landnámi á síðari öldum, þegar hinar og þessar gerðir Landnámu urðu til.
Sem frásögn er hún ekki eins áreiðanleg heimild, því að hún lýsir atburðum sem gerðust um 200 árum áður en Landnáma var fyrst fest á blað. Ef miðað er við varðveittar gerðir Landnámu getur munurinn numið allt að 400 árum. Margt í þeirri Landnámu sem við þekkjum er endursögn úr Íslendingasögum, en svokölluð frum-Landnáma er líklega eldri en elstu Íslendingasögur. Fræðimenn eru ekki sammála um heimildargildi frásagnarinnar af landnáminu, hvort hún sé safn goðsagna eða rétt í meginatriðum. Fáum dettur þó í hug að trúa öllu því sem sagt er frá í Landnámu.

Landnáma

Landnáma.

Ekki er ólíklegt að Landnáma hafi verið notuð sem heimild þegar á 12. öld þegar norskir konungasagnaritarar segja frá fundi Íslands í verkunum Historia de antiquitate regum Norwagiensium og Historia Norwegiæ, sem samin voru á latínu. Þó verður ekki sannað með vissu að þeir hafi stuðst við skrifaða Landnámugerð. Á 13. öld vitum við um Landnámugerð eftir Styrmi Kárason (d. 1245), príor í Viðey, sem nú er glötuð. Elstu gerðir ritsins sem enn eru varðveittar eru fyrst ritaðar um 1300. Ein er eftir Sturlu lögmann Þórðarson (1214-1284), önnur eftir Hauk lögmann Erlendsson (d. 1334) og sú þriðja eftir Snorra lögmann Markússon (d. 1313) eða einhvern náskyldan honum.

Landnáma

Landnáma.

Áhugi á landnáminu lifði áfram á Íslandi. Um 1600 styðst Arngrímur Jónsson lærði (1568-1648) við Landnámu í ritum sínum um Íslandssögu, sem hann samdi á latínu fyrir erlendan markað. Þá skrifuðu Björn Jónsson á Skarðsá (1574-1655) og Þórður Jónsson í Hítardal (1609-1670) upp Landnámu og eru handrit þeirra mikilvæg heimild um samband ólíkra gerða ritsins.
Landnáma var fyrst prentuð í Skálholti 1688 og stóð Þórður biskup Þorláksson (1636-1697) fyrir því. Á 20. öld gerðu Finnur Jónsson (1858-1934), prófessor í Kaupmannahöfn, og Jakob Benediktsson (1907-1999), forstöðumaður Orðabókar Háskólans, vísindalegar útgáfur af öllum handritum sögunnar sem síðan er stuðst við. Þá gaf Jakob út Landnámu á vegum Hins íslenska fornritafélags 1968 (Íslenzk fornrit I. Íslendingabók, Landnámabók) og má nota þá útgáfu til að kynna sér ritið og álitamál tengd því nánar en frá er sagt hér.

Landnáma

Landnáma.

Að lokum má nefna að þegar haldið var upp á 1000 ára afmæli Íslands árið 1874 var ártalið reiknað með hliðsjón af Landnámu. Íslendingabók Ara fróða segir hins vegar ekki að fundur Íslands hafi orðið árið 874. Landnáma er því enn talin grundvallarheimild um hvenær halda skuli upp á afmæli Íslandsbyggðar.”

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=837

Landnáma

Landnáma.