Tag Archive for: saga

Bárujárn

Á vefsíðunni Wikipedia segir af sögu bárujárnsins hér á landi:

Bárujárn

Bárujárnshúsin í Seltúni í Krýsuvík 1872.

„Fyrsta bárujárnið var flutt hingað til lands einhvern tímann á árunum 1870-1880. Það var Slimmonsverslunin sem flutti það inn, og í upphafi var það bæði þykkt og þungt og plöturnar um 3 metrar á lengd. Voru þá mikil vandkvæði á því að sníða það eins og þurfti.

Fyrsta húsið sem bárujárn var lagt á var hús í Krýsuvíkurnámum um 1870, en það hús var síðar rifið og flutt þaðan 1872.
Fyrsta húsið í Reykjavík sem járnið var sett á, var hús í eigu Geirs Zoëga kaupmanns og útgerðarmanns við Vesturgötu í Reykjavík (Sjóbúð), en hann klæddi viðbyggingu hjá sér með galvaniseruðu bárujárni.

Bárujárn

Sjóbúð Geirs Zoéga við Vesturgötu.

Árið 1876 lagði svo W. Ó. Breiðfjörð bárujárn á þak og veggi húss síns. En notkun bárujárns fór þó ekki að verða almenn fyrr en eftir 1880 og almennt var það ekki lagt á húsveggi fyrr en eftir 1890. Bárujárn einkenndi mjög íslensk timburhús fram til 1935 eða þar til steinsteypa tók við sem helsta byggingarefni.

Menn þóttust hafa himin höndum tekið þar sem bárujárnið var komið, og breiddist það út um allt land á fáum árum. Kostir þess voru augljósir, en „gallarnir“ komu í ljós síðar. Ekki var laust við að það vefðist fyrir mönnum, hvernig skyldi negla það á þökin. Þannig var um hús á Sauðarkróki sem byggt var 1894. Þar var neglt í lágbárurnar á járninu svo að þakið hriplak, þangað til plötunum var snúið við og þær festar í hábáru. Í upphafi reyndu jafnvel sumir að tyrfa yfir bárujárnsþök til hlýinda.“

Í Reykvíkingi 1894 var fjallað um „Bárótta þakjárnið„:

Bárujárn

Hús W.Ó.Breiðfjörðs.

„Þetta byggingarefni er nú farið að ryðja sjer svo til rúms hjer í Reykjavík, helzt á seinni árum, að á hvert hús sem nú er byggt hjer úr timbri er það brúkað bæði á þak og jafnvel veggi.
Það er mjög stutt síðan farið var að brúka þetta þakjárn, og því vart unnt, að bera um af reynslunni, hvað endingargott það er. Eitt er þó víst, að það járn, sem farið er að flytjast hingað í seinni tíð, er sjáanlega verra og endingarminna, en járn það, sem fluttist hingað fyrst, og svo er lagningin og allur frágangur orðinn allt öðruvísi en á fyrstu þökunum sem hjer voru lögð; sem sönnun fyrir þessu er það, að á húsi, sem var endurbætt hjer í sumar, var þriggja ára gamalt járn orðið ónýtt, þar sem þakjárn, sem lagt var á nokkrum parti af sama húsinu árið 1876, var jafngott.

Bárujárn

Fyrrum hús Brennisteinsfélagsins í Seltúni, nú við Suðurgötu 10, Hafnarfirði.

Rjett fyrir 1870 fluttist hingað hið fyrsta bárótta þakjárn, og var lagt á húsið í Krýsuvíkurnámunum, sem síðar var rifið, og flutt þaðan 1872. Var Geir Zoega sá fyrsti hjer í Reykjavík, sem fékk galvaniserað bárótt þakjárn, og lagði það á útúrbyggingu hjá sjer, og stendur enn þann dag í dag, eins og þá er það var lagt. 1876 fjekk W. Ó. Breiðfjörð svo þetta þakjárn, og lagði það á húsþak sitt og hliðar, en þetta þakjárn fór þó ekki að verða almennt hjer fyrr en um og eptir 1880, og almennt var það ekki lagt á húsveggi fyr en eptir 1890.

Bárujárn

Bárujárn.

Með því að bygging þakjárns var með fyrstu lítt kunn hjer, fjekk Breiðfjörð frá Englandi, um leið og hann fjekk járnið, skriflega leiðbeining um, hvernig væri bezt að leggja þakjárn og fara með það, svo það entist eins vel og það gæti, og hljóðaði sú leiðbeining þannig: „Þakjárn þarf ekki að leggjast á misvíxl nema um eina báru. En undir hverja báru sem neglt er í — og eins undir iengdarsamskeytin — verður að láta „ávalan“ lista úr borði, svo naglarnir, hausarnir á þeim, ekki gjöri laut í báruna á járninu, þó þeir sjeu reknir fast. Varast verður að negla þakjárn of mikið, svo eðlilegar verkanir hita og kulda með útvíkkun og samdrættir þess ekki hindrist, annars smávíkka naglarnir götin á járninu, svo auðveldlega getur Iekið þar um. —

Bárujárn

Bárujárnsnaglar.

Fullkomið er, að negla svo sem svarar 6 nöglum í hverja 7 feta plötu. En varast verður að brúka ógalvaniseraða nagla, og ekki má heldur negla trjekjöl á hús, með ógalvaniseruðum nöglum, því nái ryð að festa sig á einhverjum hluta af galvaniseringunni á járninu, þá jetur það sig út um járnið, og í gegnum það á fáum árum. Nauðsynlegt er af farfa járnið með sama farfa og lit og merkin á járninu eru“. —
Það var einkennilegt, að allt bárótt þakjárn sem fyrst fluttist hingað, var merkt með rauðum stöfum. — En ekki má farfa járnið, hvorki á þökum nje veggjum, með menjufarfa, en ýmsa aðra liti en menjufarfa má þó brúka á járnið, ef það er lagt á veggi.

Bárujárn

Bárujárnshús.

Til að gjöra járn þjett með þakbrúninni, verður að skera lista annaðhvort úr eik eða úr hjarnafuru (því Norðmenn flytja svo sem nóg af henni hingað!) þjett upp í allar bárurnar. En til að gjöra þjett upp með kjölnum, sem ætti að vera úr galvaniseruðu járni, má brúka cement og smásteinflísar, en gagnslaust er að cementera undir kjölinn nema í sólskinslausu veðri.
Vilji maður farfa járnið undir eins og búið er að leggja það, þá verður að bursta það fyrst utan úr saltvatni, og láta það svo standa í c. 14 daga, svo glanshúðin fari af því. Síðan verður að þvo saltvatnið vel af áður en farfað er. Annars verður að bíða að farfa það, þangað til glanshúðin er horfin (forvitret), svo skal farfa járnþökin undir eins með þar til gjörðum farfa þ. e. rauðum. Á þök má ekki brúka þynnra járn en nr. 22.

Bárujárn

Bárujárnsþök í Reykjavík.

Með því hjer í Reykjavík er nú farið að brúka feiknin öll af þessu galvaniseraða þakjárni, bæði á þök, veggi og jafnvel í girðingar, og sömuleiðis á bæi, hús og hlöður upp til sveita, þá ættu menn að athuga betur en gjört hefur verið, hvernig járnið er og hvaða þykkt er á því, en hlaupa ekki eptir því, þó endingarlaus pjátursplata sje ódýrari, en varanleg járnplata. Og eins ættu menn að varast, að brúka í járn ógalvaniseraða nagla, — gæta betur en áður að, hvernig járnið er lagt, og mála það svo undir eins og gljáhúðin er farin af því, því það er sannarlega fyrir marga tugi þúsunda krónu virði, sem landsmenn, einkanlega Reykvíkingar, brúka í þakjárni á ári hverju, og væri því sorglegt, ef allir þeir peningar væru eyðilagðir eptir hálfan mannsaldur fyrir tóma handvömm, skeytingarleysi og fásinnis sparsemi.

Bárujárn

Bárujárnshús á Eyrarbakka.

Samfara þakjárnsbrúkuninni hjer ætti þekkingin bæði á gæðunum, þykktarnúmerinu og allri meðhöndlun þess að ráða meira fyrir, en sýnzt hefur hingað til, bæði hjá smiðunum og þeim, sem byggja láta. En því er öldungis ekki þannig varið, því þeir sem byggja hjer geta aldrei fengið eins næfur þunt járn og þeir vilja; og sama er að segja um sauminn í járnið, af því að ógalvaníseraðir naglar eru ódýrari en galvaníseraðir, þá er sjálfsagt að brúka þá á járnið.
Og nú í sumar hefur sparsemin keyrt svo fram úr hófi hjá sumum, þó þeir hafi meir en getað efnanna vegna keypt hina rjettu nagla, að þeir hafa brúkað ógalvaníseraða steypta nagla til að negla með járn, og haldi þessi þekkingarleysissparnaður áfram, verður eflaust farið að festa galvaníserað járn á þök og veggi framvegis með húfu-títuprjónum, því það mun ódýrast fyrir augnablikið.

Bárujárn

Bárujárnshús í Hafnarfirði.

Á líkan hátt er nú með fráganginn á járneggingunni hjá sumum smiðunum ólíkt því sem fyrst var gjört hjer. Enginn listi er nú látinn undir bárurnar á járninu, þar sem neglt er í gegnum það, og 10—15 naglar eru drifnir í hverja þriggja álna plötu og keyrðir svo rækilega að, að stór laut verður eptir kringum hvern nagla. En eitt er þó ekki sparað, og það er, að leggja járnið nógu mikið á misvíxl, — sjálfsagt að skara hverja plötu yfir tvær bárur, ef ekki meira —, þannig eyða þeir að óþörfu áttundu hverri plötu eða rúmlega 12% af járni því, sem þeir leggja; þetta gjöra þeir af hjartans sannfæringu svo að þjett verði.

Bárujárn

Bárujárnshús.

Vjer göngum að því sem gefnu samkvæmt núríkjandi hugsunarhætti, að bæði smiðir og húsabyggjendur ef til vill í svipinn reiðist oss ærið fyrir þessar útásetningar viðvíkjandi hinu bárótta þakjárni og meðhöndlun þess. En annaðhvort er, eptir voru áliti, að segja sannleikann, þó sumir veigri sjer við því, eða þegja; með hræsni fetast ekkert spor áfram til sannra framfara eður endurbóta. Og hjer er margra manna fjármunum hætta búin af vanþekkingunni, ef ekki er í tíma aðgjört.

Það mun vera vanalega þeim aðkenna, sem láta byggja, að brúkað er járn á þök með þykktarnúmerinu 27, en það álítum vjer sama og að kasta peningum sínum í sjóinn, því það járn er eins og þynnsta pjátur, og ekki einusinni hæfilegt á veggi. Þakjárn hafði áður ekki önnur þykktarnúmer, en 18, 20, 22, 24, en svo hefur eptirspurnin frá Íslandi (því annarstaðar brúkast það ekki) drifið það upp í eður rjettara sagt niður í 25, 26, 27: lengra kemst það víst ekki, því þá tyldi það ekki saman.

Bárujárn

Bárujárnshús.

Það er vor sannfæring, að smiðir og þeir, sem byggja láta, geti bezt í sameiningu bætt úr þessu, enda mun þess stór þörf, ef allt þakjárn, sem flutt verður hingað frá 1890 til aldamótanna ekki á að vera orðið ónýtt 1915, í stað þess að þakjárn frá góðum verksmiðjum hæfilega þykkt, — númer 22 á þök og 24 á veggi — rjett og vel frá því gengið, farfað eptir eitt ár og förfuninni svo viðhaldið eptir þörfum, á að geta enzt í þrjá fjórðu aldar, eður lengur.“

Framhald var á umfjöllun um bárujárnið í Reykvíkingi 1898 undir fyrirsögninni „Enn á fáein orð um þakjárnið„:

Bárujárn

Bærinn Hlíð í Hafnarfirði.

„Vjer höfum hjer áður í þessu blaði rakið sögu þakjárnsins frá því fyrsta að það fór að flytjast hjer til landsins, og þar með, að í fyrstu fluttist hingað einungis hin góða og þykka tegund Nr. 22 og kostaði þá 3. al. platan á fjórðu krónu. Síðan var farið að flytja þynnra og þynnra járn, og að síðustu var það orðið alónytt til allrar endingar — þunt eins og pappír, og eftir því slæm efni í því.
Til þess að bæta úr slíkum vandræðum, byrjuðum vjer fyrir nokkrum árum að flytja þykkri og betri þakjárns tegund og höfum síðan, haldið því fram, því það hafði verið ógurlegt tjón fyrir almenning, ef haldið hefði verið áfram að flytja ónýta járnið sem ekki endist lengur en 8 til 12ár þar sem gott þakjárn endist í hundrað ár sje því vel við haldið með förfun, þó einhverjir óvildarmenn vorir kunni að segja, að þetta sje sjálfhælni og gort úr honum Walgarði, þá skeytum vjer því engu, en lýsum slíkt ósannindi hjá þeim góðu hálsum; og meira en minna samviskuleysi þyrfti til þess.

Bárujárn

Bárujárnshús undir Eyjafjöllum.

Fyrir fagmann í byggingum, að flytja byggingarefni sem er al ónýtt og selja það almenningi, enda munu allir sanngjarnir viðurkenna, að vjer höfum gjört ýmsar endurbætur viðvíkjandi þakjárninu til þæginda og hagsmuna fyrir almenning, þannig endurbættum vjer naglana í járnið, byrjuðum á að flytja löngu lengdirnar af járninu sem er bæði þægilegt, efnisdrýgra og óhultara fyrir leka, en hinar mörgu samsetningar með stuttu plötunum etc. Það gleður oss því mjög að almenningur er nú farin að sansast á okkar mörgu bendingar hjer í blaðinu, um hið þunna og alónýta þakjárn, því lítil sem engin eftirspurn er nú orðin eftir því, hjá þeim sem flytja það, vjer höfum aldrei flutt það eins og mönnum er kunnugt. Eins og svo oft er tekið fram hjer í blaðinu, þá má öldungis ekki brúka á þök þynnra járn en Nr. 24 og ekki þynnra járn á veggi eða gafla en Nr. 26, og negla allt járn með galvensereðum nöglum með rúnnum kúftum hausum.“

Bárujárn

Bárujárnshús á Hallormsstað.

Þá var umfjölluninni fylgt eftir í sama blaði með því „Þess ber að gæta almenningi til leiðbeiningar“:
„Einn kaupmaður hjer í bænum, hefur flutt nú í sumar þakjárn sem er miklu mjórra en hingað hefur áður fluttst, — ekki nema 8 bárur á plötunni, það er á fjórða þumlung mjórri hvor plata, allt svo c. 1/7 mjórra en vanalegt járn, þannig knýr samkeppnin suma til að viðhafa, jafnvel hins tjarstæðustu meðöl til að reyna að koma buslaárum sínum fyrir borð, en almenningur er nú farinn að verða skynsamari og óglámskygnari en áður, enda hafa þeir nú orðið, fremur en áður, að styðjast við leiðbeining þeirra sem vilja þeim vel.“

Bárujárn

Bárujánsbraggar við Flókagötu.

Í Þjóðólfi árið 1897 birtist grein eftir Björn Bjarnason með fyrrsögninni „Húsabótamál„:
„Enn hef eg eigi orðið þess var, að neinn hafi pantað eða fengið flutt hér til lands bárujárn með fellingum, sem eg gat um í Búnaðarritinu VIII, 1894, bls. 162 (og Fjallk. sama ár), en það er þó svo auðsælega miklu betra en hitt, sem hér er algengast, að ráða má til að útvega sér það, einkum á bæjarhús. Ættu skjálftasveitabúar að taka þessa bendingu til greina.
Eldlímsþakið, sem þar er einnig lýst, hef eg reynt. Það er algerlega vatnshelt og vindþétt, en reynist of þunnt á einfaldri súð, og hefur þess vegna komið slagningur undir því, þar sem hiti er í húsinu (frostið komizt að súðinni). Þarf því að þilja innan á grindina og troða á milli, eins og undir járnþaki, sé eldlímsþak notað, og er það þó eins dýrt og járnþak.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir (Miðbær) í Grindavík.

Nokkur reynsla er nú fengin fyrir járnþakningu á íbúðarhúsum og fénaðarhúsum, og væri fróðlegt að vita, hvaða aðferð við millitroðninguna hefur gefizt bezt; því allvíða veit eg til, að slagningur hefur verið í járnþöktum baðstofum. Eins væri fróðlegt að vita, hvernig það reynist að tyrfa utan yfir járnþakið til hlýinda, sem sumir hafa gert, og hvort járnið eigi skemmist við það. Margt þessu viðvíkjandi gætu menn nú lært af þeirri reynslu, sem þegar er fengin iunanlands, ef safnað væri upplýsingum um það.

Flagghúsið

Flagghúsið í Grindavík.

Skaði er, að hin verðlaunaða húsabótaritgerð Sig. Guðmundssonar, skuli eigi enn hafa birzt á prenti. Líklega mætti margt af henni læra. Og hann er einmitt búsettur á skjálftasvæðinu, og því líklegur til að geta lagt þarft „orð i belg“ um þetta húsabyggingamál þeirra héraða.
Ísafold hefur lagt það til, og er enn að halda því fram, að vér ættum að fá útlendan (danskan!) húsagerðarfræðing oss til leiðbeiningar í sveitabæjabyggingum. En ólíklegt er, að slíkt yrði að hinum minnstu notum fyrir oss, enda er líklegast að fáum öðrum en ritstj. Ísaf. komi það í hug. Vér fengjum að eins ánægjuna af að borga þessum „dánumanni“ ferðina hingað.

Bárujárn

Bárujárnshús.

Miklu meiri likur eru til, að lið gæti orðið að því, að senda hæfan íslenzkan mann til útlanda, þar sem landshættir eru líkastir vorum, t. d. hinna norðlægari héraða Noregs og Svíþjóðar, til að kynnast þar húsagerð, og kynni margt að mega læra þar, er hér mætti að liði verða.
Þó að nokkrir bæir kunni nú að verða bættir á næstu sumrum, þar sem hrunið varð í sumar, með styrk samskotafjárins, verður um mörg ár enn mikið starfsvið fyrir hendi, að kippa í betra horf bæjabyggingum víðsvegar um land, og á því veltur að miklu leyti framtíð þjóðarinnar og heiður. Er því vert að gera allt sem verða má til að hlynna að því máli, og mun eg ekki átelja ísaf. fyrir það, þó hún endurtaki orð og hugmyndir mínar eða aunara 3.—4. hvert ár, til að halda málinu vakandi, úr því hún hefur ekkert nýtt að bjóða, — nema ‘arkitektinn’ danska!“ – Björn Bjarnarson, Reykjahvoli 28. febr. 1897.

Bárujárn

Bárujárnshús.

Í AVS-blaði arkitekja (Arkitektúr – verktækni) árið 1999 segir af „Bárujárni í íslenskir byggingarlist„:
„Árið 1995 gaf Minjavernd út bæklinginn Bárujárn, verkmenning og saga. Ritstjóri þessa ágæta bæklings var Hjörleifur Stefánsson, arkitekt, en meðhöfundar hans eru arkitektarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson.
Bæklingurinn er 60 bls. að stærð og gefur gott yfirlit um þennan þátt íslenskrar mannvirkjagerðar. Hér fer á eftir útdráttur úr þessum bæklingi, en hann er m.a. fáanlegur á skrifstofu Arkitektafélags Íslands. (ritstj.)
Bárujárnsklædd timburhús eru óvíða til annars staðar en á Íslandi og líklega hvergi í jafnríkum mæli. Þau eru snar þáttur í byggingarsögu okkar og bæjarmenningu. Þau eru sérstakt framlag íslensku þjóðarinnar til húsagerðarsögunnar, enda vekja þau athygli þeirra ferðamanna sem hingað koma og hafa auga fyrir því sem einkennir umhverfi okkar.
Bárujárn endist ekki að eilífu frekar en önnur byggingarefni.

Bárujárn

Ryðgað bárujárn.

Oftast er það tæring, þ.e. ryð, sem takmarkar endingu þess. Stundum má kenna um óheppilegum eða beinlínis röngum frágangi en fyrir kemur einnig að bárujárn skemmist vegna hnjasks, það rifnar eða dældast. En jafnvel þegar frágangur er eins og best verður á kosið tærist járnið að lokum og eyðist.
Þegar um friðuð hús er að ræða og önnur hús sem hafa menningarsögulegt gildi skiptir oft miklu máli að upphaflegt handverk hússins varðveitist og að efnisnotkun og aðferðum verði ekki raskað nema í undantekningartilvikum.
Bárujárn tók að berast hingað frá Englandi seint á 7. tug seinustu aldar. Um þær mundir opnuðust nýjar verslunarleiðir til Englands vegna sauðasölunnar svokölluðu, þegar umtalsverður útflutnungur hófst á lifandi sauðfénaði.

Bárujárn

Uppskipun á bárujárni í Vestmannaeyjum.

Nýjar verslunarvörur komu með skipunum sem sóttu sauðféð og meðal þeirra var bárujárnið. Talið er að fyrst hafi bárujárn verið sett á húsþak timburhúss í brennisteinsnámunum í Krýsuvík skömmu fyrir 1870, en þær voru reknar af ensku félagi. Þá voru þök íslenskra timburhúsa langflest klædd tjörguðu timbri. Slík þök voru talin endast illa og erfitt var að halda þeim regnþéttum. Talið er að Geir Zoéga útgerðarmaður hafi fyrstur íslenskra manna sett bárujárn á hús sitt árið 1874 og tveimur árum síðar setti Valgarður Breiðfjörð smiður og kaupmaður bárujárn á þak og veggi á húsi sínu, Aðalstræti 8 í Reykjavík, og hefur það ef til vill verið í fyrsta sinn sem bárujárn var notað á húsveggi hér á landi.

Bárujárn

Iðnó í Reykjavík.

Reykjavík gekk í Brunabótafélag dönsku kaupstaðanna árið 1874 og var þá gert skylt að leggja eldtraust þök á öll ný hús. Sú ákvörðun hefur eflaust átt drjúgan þátt í því hve mikla útbreiðslu bárujárnið fékk á skömmum tíma. Um 1874 voru aðeins bárujárn og steinskífur viðurkennd sem eldtraust þakefni hér á landi. Bárujárnið var a.m.k. helmingi ódýrara en skífurnar.

Bárujárn

Ráðherraústaðurinn.

Eftir mikinn bæjarbruna í Reykjavík árið 1914 var nánast bannað að byggja timburhús í Reykjavík. Eftir það voru nær því öll hús sem reist voru gerð úr steinsteypu. Áfram var bárujárn notað á þök húsanna.
Um 1970 var orðin töluverð breyting á afstöðu almennings og stjórnmálamanna til húsafriðunar og um það leyti var hafin stórfelld viðgerð og endurbætur á gömlum timburhúsum. Skilningur hafði vaxið á því að bárujárn hafði valdið byltingu í íslenskri húsagerð og var að mörgu leyti eitt ákjósanlegasta byggingarefni sem hér var völ á.

Bárujárn

Fríkirkjuvegur 11.

Handverkskunnáttu við smíðar timburhúsa hafði hrakað frá því í byrjun aldarinnar og þekking og reynsla á notkun bárujárns var ekki almenn meðal smiða.
Þessum bæklingi er m.a. ætlað að örva áhuga á bárujárnsnotkun og hvetja til þess að gömlum bárujárnshúsum sé vel viðhaldið. Hér er kynnt saga bárujárnsins og reynt eftir mætti að lýsa þróun handverksins og notkun þess. Leiðbeint er um aðferðir við notkun bárujárns á nýjum húsum en þó einkum við endurnýjun bárujárns á gömlum, friðuðum húsum.

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja.

Mikilvægt er að hafa í huga, að oft háttar svo til að fleiri en ein aðferð koma til greina þegar ákveða skal hvernig nota skuli bárujárn. Bárujárnsklæðning húsa byggist á handverki sem hófst á öldinni sem leið og er enn í þróun. Um hálfrar aldar skeið lá timburhúsagerð hér á landi að mestu niðri en fyrir um það bil 25 árum var þráðurinn tekinn upp að nýju og enn er verið að bæta aðferðir og útfærslur.“

Fréttablaðið árið 2005 fjallar um „Bárujárbsklæddan útnárann Ísland„:
„Bárujárn er eitt helsta einkenni húsanna í miðbæ Reykjavíkur. Óvíða í heiminum hefur það verið notað eins mikið til klæðningar og hér á Íslandi.

Bárujárn

Torfbærinn.

„Íslendingar hafa lagt tvennt til byggingalistasögunnar, annars vegar torfbæinn og hins vegar bárujárnsklædda timburhúsið. Þegar sveiserstíllinn svokallaði barst til landsins frá Norðurlöndunum um 1890 þá byrjuðu íslenskir forsmiðir að klæða vegleg timburhús með bárujárni. Þegar Norðurlandabúar sjá þessi hús í dag þá taka þeir bakföll af undrun því þeir eiga ekki að venjast því að sjá hús í sveiserstílnum klædd bárujárni, en það er einmitt mikið af slíkum húsum í miðborginni.

Bárujárn

Gamla torfkirkjan í Víðimýri.

Norðmönnum eða Svíum datt ekki í hug að nota bárujárn til að klæða húsin sín því þeir áttu nóg af timbri,“ segir Magnús Skúlason forstöðumaður húsafriðunarnefndar. Afsprengi iðnbyltingarinnar Bárujárn var afsprengi iðnbyltingarinnar í Bretlandi og kom fyrst fram á sjónarsviðið í kringum 1830. Aflmiklar gufuvélar voru forsenda þess að hægt væri að ,,valsa“ bárurnar, sem bárujárn dregur nafn sitt af, í slétt járn en það hafði ekki gefið góða raun að nota slétt járn til klæðningar.
Það er einkum þrennt sem gerir bárujárn að undraefni. Í fyrsta lagi eru það bárurnar sem gefa efninu styrk langt umfram það sem ætla mætti af þykkt þess, í öðru lagi valda bárurnar því að loft getur leikið um svæðið bak við járnið sem dregur stórlega úr rakaskemmdum og í þriðja lagi er bárujárn galvaníserað sem eykur mjög mikið á endingu járnsins og gerir það að verkum að bárujárn getur enst í allt að 100 ár.

Bárujárn

Bárujárnshús við Dýrafjör.

„Þegar Íslendingar fengu verslunarfrelsi og fóru í auknum mæli að versla við Skotland og England, sérstaklega að selja þeim sauði, þurfti að finna einhverja vöru til að flytja til baka, þá fengu íslenskir kaupmenn þá hugmynd að fllytja inn bárujárn í staðinn fyrir sauðina,“ segir Pétur H. Ármannsson hjá byggingarlistardeild Listsafns Reykjavikur.
„Það var um 1880 sem bárujárnið fer að verða útbreitt hér á landi og eru nokkrar ástæður fyrrr því. Timburklæðningin sem var notuð hér á landi áður en bárujárnið kom til sögunnar var óhentug í þeim veðrabrigðum sem eru á Íslandi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir í Grindavík.

Bárujárnið þótti heppilegra en gamla klæðningin því það einangraði betur. Einnig spilaði inn í að á seinni hluta 19. aldarinnar fóru menn að tryggja hús sín hjá dönskum fyrirtækjum og ef hús var bárujárnsklædd voru tryggingarnar ódýrari en ella því eldhætta er minni þegar hús eru klædd bárujárni en þegar þau eru timburklædd,“ segir Pétur.

Þótti ekki fínt í öðrum löndum

Bárujárn

Viðgerð á bárujárnshúsi.

Pétur segir að íslenskum smiðum hafi tekist einstaklega vel upp að laga notkun á bárujárni að norrænum byggingarstíl þó svo að bárujárnið hafi ekki þótt við hæfi í öðrum löndum. „Það datt engum í Bretlandi eða á Norðurlöndunum í hug að nota bárujárn nema í skúra eða útihús því það þótti ekki fínt, bárujárnið var heppilegt og ódýrt efni en það þótti ljótt og því var það nær eingöngu notað á íbúðarhús á jaðri hins siðmenntaða heims,“ segir Pétur.
„Bárujárnið var mikið flutt í útjaðar breska heimsveldisins. Ég fór með nýsjálenskan arkitekt í skoðunarferð um miðborg Reykjavíkur um daginn og hann var gáttaður þegar hann sá allt bárujárnið á húsunum því hann hélt að engin þjóð ætti eins mikið af bárujárnsklæddum húsum og Nýsjálendingar,“ segir Pétur og minnist einnig á að bárujárn sé mikið notað í Ástralíu.

Bárujárn

Bárujárnshús í Reykjavík.

Bárujárn varð fljótt ríkjandi í klæðningum húsa hér á landi, bæði á þökum og eins á veggjum. Fyrsti maðurinn sem talinn er hafa sett bárujárnsklæðningu á þak og veggi á húsi sínu var Valgarður Breiðfjörð, smiður og kaupmaður, sem bárujárnsklæddi hús sitt við Aðalstræti 8 árið 1876.
Almennt var bárujárn þó ekki lagt á húsveggi fyrr en eftir 1890. Í grein frá árinu 1897 sem bar titilinn Handhægasta byggingarefnið og birtist í blaðinu Reykvíkingi segir Valgarður Breiðfjörð: ,,Það er engum efa bundið, að það handhægasta, varanlegasta og besta byggingarefni sem við höfum nokkru sinni fengið, er galvaniseraða þakjárnið,“ en bárujárnið gekk undir ýmsum nöfnum hér áður fyrr áður en orðið bárujárn festist við það.

Lifði lok timburhúsaaldar

Bárujárn

Fríkirkjan í Reykjavík.

Þrátt fyrir að timburhúsaöld hafi liðið undir lok á Íslandi um 1920 var bárujárnið áfram notað á þök steinsteyptu húsanna sem byrjuðu að rísa í borginni. Listin að bárujárnsklæða hús féll svo í gleymsku í um hálfa öld allt fram til um 1970 að áhugi fór að vakna aftur á gamla timburstílnum og menn fóru aftur að nota bárujárn til klæðningar á nýjum húsum í nýjum hverfum.
„Bárujárn þykir ekki fínt og því kom það mér á óvart þegar ég sá það notað á húsþaki í Písa á Ítalíu fyrir nokkrum árum og eins veit ég að það er mikið notað á Falklandseyjum en þar er veðurfar svipað og hér á landi. Ég held að að bárujárnið sé til víða í heiminum í ófínni hverfum en ég held að Ísland sé eini staðurinn þar sem bárujárnið er viðurkennt og þykir bara flott,“ segir Magnús Skúlason.“

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/B%C3%A1ruj%C3%A1rn
-Reykvíkingur, 4. árg. 08.09.1894, Bárótta þakjárnið, bls. 83-84.
-Reykvíkingur, 7. tbl. 01.07.1898, Enn á fáein orð um þakjárnið, bls. 26-27.
-Lesbók Morgunblaðsins, 15. tbl. 22.04.1951, Bárujárn, bls. 236.
-Þjóðólfur, 11. tbl. 05.03.1897, Björn Bjarnason – Húsabótamál, bls. 48-49.
-AVS. Arkitektúr verktækni, 2.tbl. 01.08.1999, Bárujárn í íslenskir byggingarlist, bls. 33-35.
-Fréttablaðið, 182. tbl. 08.07.2005, Útnárinn Ísland er bárujársnklæddur, bls. 37.

Bárujárn

Bárujárnshús við Bergþórugötuna var vinsælt dægurlag fyrir nokkrum áratugum eftir þá Davíð Oddsson og Gunnar Þórðarson.
Upphaflega voru þrjú svipuð bárujárnstimburhús við Bergþórugötu en nú er bara eitt af þeim eftir, nefnilega þetta sem er nr. 20 og hefur verið málað með ærið sérstökum hætti eins og sjá má. Eins og flest hús á það sér merkilega sögu, var upphaflega reist af Byggingarfélagi Reykjavíkur sem stofnað var af verkalýðssamtökunum í Reykjavík árið 1919 og var hluti af fyrstu tilrauninni til að stofna verkamannabústaði hér á landi.
Sú tilraun fór þó illa. Byggingarfélagið fór á hausinn. Löngu seinna eða 1986 fékk Barnaheimilið Ós inni í húsinu og var þar alveg til 2017. Þetta var einkabarnaheimili eða leikskóli sem róttækir foreldrar, flestir úr hópi leikara, höfðu stofnað þar sem á þeim tíma var ekki gert ráð fyrir að börn giftra foreldra fengju heildagspláss á slíkum stofnunum sem borgin rak. Það gerðist ekki fyrr en með Reykjavíkurlistanum 1994. Núna er bárujárnshúsið við Bergþórugötuna svona skrautlega málað og líklega bara í anda dægurlagatextans.

Hópsheiði

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir Svavar Sigmundsson um „Önefnið Grindavík„:
„Grindavíkur er getið í Landnámabók (Íslensk fornrit I:330). Í sömu bók eru auk þess Grindalækur í Húnavatnssýslu og Grindur í Borgarfirði.

Hópsvarða

Innsiglingavarða við Hóp í Grindavík – endurhlaðin af FERLIRsfélögum.

Í örnefnum bendir orðið grind til merkingarinnar ‘gerði’ eða ‘hlið’, eða ‘klettarið’, til dæmis Grindaskörð í Gullbringusýslu og Grindamúli í Suður-Múlasýslu, Grindarás í Austfjörðum (Íslenskt fornbréfasafn IV:205,271), Helgrindur á Snæfellsnesi og Jökulgrindur í Rangárvallasýslu. Klettarani á merkjum Þorpa og Hvalsár í Strandasýslu heitir Grind (Íslenskt fornbréfasafn IV:161). Sögn er um að grind hafi verið þar í skarði til varnar ágangi búfjár.

Svartiklettur

Svartiklettur við Hópið í Grindavík – sundmerki.

Hugsanlegt er að grind hafi átt við sundmerki* en Sundvarða er í Herdísarvíkursundi, „sem tréð með grind stendur í“ (Örnefnaskrá).
*Sundmerki er innsiglingarmerki, oft varða með tré í, eins og í Herdísarvíkursundi, og til dæmis þannig að tvær slíkar vörður átti að bera saman þar sem innsigling var örugg.“

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – innsiglingavarða.

Famangreint verður að teljast fróðlegt í ljósi allara sundmerkjanna í Grindavík. Reyndar eru núverandi sundmerki ekki svo gömul að telja megi til landnáms, en þau verður að telja merkileg í samhengi sögunnar. Engum vafa er um það orpið að Grindvíkingar hafi sótt sjó um aldir og hafa því nýtt sér sundmerki sér til leiðsagnar, sbr. Siggu og önnur kennileiti ofan byggðar. Flest þeirra eru nú orðin mosavaxin, líkt og merkið í Leiti ofan Þórkötlusstaða, en önnur þau nýrri eru þó enn augljós, s.s. sundmerkin ofan Hóps.

 

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

FERLIRsfélagar endurhlóðu efri sundvörðuna við Hóp eftir að hluti hennar hrundi í frostvetri, en nú, eftir jarðskjálftana undanfarið (2021) hafa bæði hún sem og sú neðri þurft að lúta í lægra haldi. Þar má segja að „Snorrabúð“ sé nú stekkur. FEELIRSfélagar hafa sýnt lítinn áhuga á að endurhlaða vörðuna vegna lítils áhuga bæjarstjórnar Grindavíkur á að viðhalda þessu gömlu minjum byggðalagsins…

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6588

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Hafnarfjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins 1995 fjallar Snorri Jónsson um „Atvinnusögu Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið“ undir fyrir sögninni „Veitingar að vild og sungið í Almannagjá„. Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma.
Um er að ræða IV og lokakafla í sögu þessa tímabils.

Umbætur á húsum og löndum
HafnarfjörðurÞetta sumar lét Hellyer gera margar og miklar umbætur á húsum og löndum í Svendborg. Júlíus Nýborg skipasmiður sá um allar smíðar og viðgerðir bæði í landi og á skipunum. Honum til aðstoðar, meðal annarra, var Níels í Kletti. Verkstjórar við skverkunina voru Sigurður Þórólfsson og Þórður Einarsson, sem um eitt skeið var rafljósavörður í bænum, ævinlega nefndur Þórður ljósa. Umsjónarmaður með vörum til skipanna var Englendingur að nafni Johnson, ákaflega sver og feitur karl og hafði áður verið togaraskipstjóri. Annar Englendingur sá um allt sem viðkom vélum skipanna, en nafn hans er liðið mér úr minni.

Hafnarfjörður

Sendborg.

Margir duglegir strákar unnu þarna í Svendborg. Sérstaklega minnist ég Jóns Guðmundssonar, sem síðar varð yfirlögregluþjónn í Hafnarfirði. Hann aðstoðaði m.a. Englendingana við flutning á vörum til skipanna.
Lífið í Hafnarfirði á fyrsta fjórðungi aldarinnar var tilbreytingarlítið; — að minnsta kosti myndi mönnum finnast það nú ef þeir hyrfu þetta spölkom aftur í tímann. Allt snerist um fisk, vinnan var fiskur og fiskurinn var vinnan og fiskur var uppistaðan í daglegri fæðu. „Vantar þig ekki í soðið,“ sögðu sjómennimir þegar þeir komu úr róðri.

Hafnarfjörður

Uppskipun á fiski í Hafnarfjarðarhöfn.

„Taktu hann þennan. Er þessi kannski ekki nógu góður?“ Og engrar greiðslu var krafist. Þannig var samhjálpin, eðlileg og ómeðvituð. En núna, þegar allt er að breytast eða orðið breytt, er svona lagað kallað frumstætt og vekur furðu. Allt er selt og allt er tilbreyting frá daglegu amstri varð því eftirminnileg og umtöluð.

Skemmtiferðir Bookless og Hellyers
Á sínum tíma þótti það ekki lítil tilbreyting þegar Booklessbræður tóku upp þann sið að bjóða fólki sínu i skemmtiferð.
Þessar skemmtiferðir á vegum Booklessbræðra þættu nú ekki tilkomumiklar á nútímavísu. Þær voru fólgnar í því að boðið var upp á veitingar eins og hver vildi suður við Grísanes eða á Hamranesflötum og fóru þangað flestir gangandi því að fæstir áttu fararskjóta. Vel man ég eftir einni slíkri skemmtiferð.
HafnarfjörðurÞegar veitingar höfðu verið þegnar hófst íþróttakeppni. Var mönnum skipt í flokka eftir aldri og fengu allir verðlaun að lokinni keppni. Í þriðja flokki karla tóku þrír þátt í hlaupi. Það vom þeir Bjarni Narfason, Magnús í Brúarhrauni og Ándrés Guðmundsson, faðir Gríms Andréssonar og þeirra systkina. Hlaut Magnús fyrstu verðlaun, sem var göngustafur. Sagði hann að göngustafurinn hefði komið sér vel á heimleið, því hann hefði orðið dálítið valtur á fótum eftir trakteringar þeirra skosku!

Boddíbíll

Boddíbíll.

Bjarni hlaut önnur verðlaun og gekk heim hjálparlaust, en Grímur þriðju og gekk víst ekki nema hálfa leiðina! Þetta vakti ánægju og gleði í fásinni og tilbreytingarleysi daganna.
Svo var það eitt árið, sem þeir Hellyersbræður störfuðu hér, að þeir ákváðu að feta í fótspor fyrirrennara sinna, þeirra Booklessbræðra, og bjóða fólki sínu í skemmtiferð og skyldi nú fara til Þingvalla. Var okkur verktökum, ásamt öllu verkafólkinu, boðið með, en þátttakan var nú ekki mikil miðað við allan þann fjölda sem hjá þeim vann. Farkostirnir vora venjulegir flutningabílar. Á þeim bílum sem best voru úr garði gerðir var húsgrind með bekkjum í, klædd með striga. Víst var um það að allir, sem tóku þátt í ferðinni, voru ánægðir yfir farkostunum og glaðir í sinni og það var besta veganestið.

Ferðalag

Ferðamáti í byrjun 20. aldar. Boddíbíll í bakgrunni.

Á austurleiðinni lentu þeir saman í bíl Guðmundur Gíslason frá Tjörn, Finnbogi Jónsson, Marijón Benediktsson og Janus Gíslason. Eitthvað var nú skrafað í bílnum þeim því það bar helst til tíðinda á leiðinni austur að þeir Guðmundur og Finnbogi hótuðu að fara úr bílnum og verða eftir ef þeir Janus og Marijón hættu ekki sínu klúra orðbragði! Ekki varð þó úr að þeir yfirgæfu bílinn og að lokum tókst að koma á sættum sem entust þeim nokkum veginn á leiðarenda.

Rómantík á Þingvöllum

Þingvellir

Þingvellir 1915 – póstkort.

Þennan sunnudag var sólskin og bliða allan daginn. Þá eru Þingvellir yndislegur staður og náttúrufegurðin í allri sinni fjölbreytni óviðjafnanleg. Mér fannst eins og ég kæmist í persónulega snertingu við þá atburði sem þarna hafa átt sér stað í gegnum tíðina, sérstaklega þá atburði sem frá er sagt í Njálu. Þingvellir í blíðviðri gefa atburðum sögunnar, sem við staðinn era tengdir, enn
rómantískari blæ. Gunnar og Hallgerður verða enn glæsilegri þar sem þau ganga eftir Almannagjá í kvöldkyrrðinni, Skarphéðinn enn tilkomumeiri þegar hann veður að Þorkeli hák í liðsbónarferð og hótar að keyra Rimmugýgju í höfuð honum og enn meiri ljóma stafar af Þorgeiri Ljósvetningagoða þegar hann skríður undan feldinum og sættir þingheim.

Valhöll

Valhöll 1915.

Þarna nutum við dagsins í blíðviðri á Þingvöllum í boði atvinnurekandans, Hellyer Bros. Ltd. í Hull, og skemmtum okkur svikalaust.
Fólk hafði með sér nesti og þess var neytt á víð og dreif, farið í leiki, keppt í hlaupi og kefladrætti svo að eitthvað sé nefnt. Í kapphlaupinu var fólki skipt í flokka eftir kynjum og aldri. Man ég vel að um fyrsta sætið í öldungaflokki karla kepptu þeir Jón Einarsson og Pétur Snæland og varð Jón hlutskarpari eftir harða keppni.

Sungið fullum hálsi

Almannagjá

Almannagjá.

Þegar líða tók á daginn söfnuðumst sum okkar saman í Almannagjá, einkum þau okkar sem voru úr söngkór stúkunnar Morgunstjarnan, og fóra að syngja fullum hálsi ættjarðarlög, m.a. Öxar við ána. Fannst okkur söngurinn hljóma vel í gjánni. Brátt veitum við því athygli að talsverður áheyrendahópur er kominn í gjána og hlýðir á sönginn. Mestur hluti þess fólks voru farþegar á skemmtiferðaskipi sem statt var í Reykjavík. Er nú komið til okkar og við beðin að syngja meira af íslenskum þjóðlögum. Við tökum vel í það og var nú reynt að vanda sig eftir bestu getu og sungum við mörg lögin þrí- og fjórraddað.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Að lokum dettur okkur í hug að syngja þjóðsönginn. Þegar við erum í þann veginn að bylja vindur sér til okkar maður úr ferðamannahópnum og syngur tenórinn í þjóðsöngnum. Þetta var Þorsteinn, bróðir Péturs Jónssonar óperusöngvara, og var heldur betur liðtækur. Þegar söngnum var lokið víkur sér amerísk kona að minni ungu konu, Jensínu Egilsdóttur, og þakkar henni sérstaklega fyrir sönginn. Segist hún hafa veitt því athygli hversu mikla og fagra rödd hún hafi og biður hana að þiggja af sér fimm dollara seðil til minningar sem örlítinn virðingar- og þakklætisvott fyrir söng hennar.

Og sumarið leið

Hafnarfjörður

Starfsmannahús Hellyers.

Allt var þetta eftirminnilegt; ferðin fram og til baka, veðurblíðan, náttúrufegurðin, söngurinn. Þegar við héldum heim á okkar fimm flutningabílum með trébekkjum á palli og húsgrind klædd í striga þá fannst mér þetta verið hafa dásamlegur dagur sem fengið hefði dýrðlegan endi. Og upp í huga minn kom þetta ágæta erindi eftir séra Hallgrím:

Gott er að hætta hverjum leik
þá hæst fram fer.
Nú skal hafa sig á kreik.
Vel sé þeim sem veitti mér.

Hafnarfjörður

Togarinn Ceresio var í eigu Hellyers.

Var nú ekið heim í kvöldkyrðinni og bar ekkert til tíðinda sem frásagnarvert geti talist.
Daginn eftir tók hversdagsleikinn við. Nóg var að starfa, — allra beið þrotlaust starf. Hjá okkur lá fyrir að losa togara, kola togara og leggja fiskreit; — hjá Svenborgarfólkinu að þvo fisk, stafla fiski eða breiða fisk ef þurrkur yrði.
Og sumarið leið, þetta blíðviðrasumar, og vinnan var alltaf meira en nóg. Við lögðum Mr. Allans-reitinn milli þess sem við losuðum fiskinn úr togurunum eða kol og salt úr flutningaskipum. — Og árið leið til enda við umstang og erfiði.

Tryggvi skar sig úr

Hafnarfjörður

Imperialist var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1924 fyrir Hellyers Bros Ltd í Hull. 488 brl. 800 ha. 3 þenslu gufuvél. Smíðanúmer 457. Hann var gerður út á saltfiskvertíðinni frá Hafnarfirði 1925-29 af Hellyer-bræðrum. Tryggvi Ófeigsson var fiskiskipstjóri, og segir af skipinu í ævisögu hans eftir Ásgeir Jakobsson.

Næsta ár komu Hellyersbræður með skip sín á ný, en það var ekki nærri eins mikill kraftur og líf í útgerðinni og áður hafði verið. Fiskiskipstjórarnir íslensku fengu ekki að ráða eða höfðu ekki þau bein í nefi sem þurfti til að taka völdin í sínar hendur, enda ungir og lítt reyndir, og gekk illa að fiska.
Tryggvi Ófeigsson skipstjóri á Imperialist skar sig úr hvað þetta snerti. Hann fór ekki eftir öðru en eigin sannfæringu og eigin hugboði og lét aldrei í minni pokann fyrir þeim bresku, enda fiskaði hann meira en hinir. Atlæti og aðbúnaður um borð var betri hjá Tryggva en hinum. Það gætti óánægju í áhöfnum hinna togaranna, enda var á takmörkum að mannskapurinn fengi nóg að borða. Er þá ekki að sökum að spyrja: úr afköstum dregur, óánægjan býr um sig og þá er ekki við miklu að búast.

Hafnarfjörður

Togarinn Menja.

Á síðari hluta Hellyerstímabilsins finnst mér færra til frásagnar. Við unnum við ensku togarana meðan þeir lögðu hér upp fyrir sömu eða svipuð kjör og við sömdum um á áramótum 1924—25. Auk þess afgreiddum við botnvörpungana Ver og Víði, Ými og Menju. Ýmiss konar aðra vinnu tókum við að okkur eftir því sem til féll. Á sumrum fórum við austur í Arnarbæli og heyjuðum til viðbótar Selskarðstúninu. Tíðin var einmuna góð á þessum árum og heyskapur jafnan ágætur.

Samanburður út í hött

Hafnarfjörður


Saltfisklöndun úr togaranum Garðari GK 25. Tekið um borð í skipinu og sér yfir fremri hluta þess, bakborðsmegin. Um borð eru verkamenn að vinnu, flestir á nankinsjökkum, buxum og með derhúfur. Einnig tveir drengir á þilfari togarans. Löndunarskúffa. Net strengt milli skips og bryggju. Á bryggju tveir vörubílar, verið að kasta fiski á annan þeirra. T.v. löndunarkrani, sést að hluta, löndunarskúffa með fiski í hangir í krana og heldur maður í reipi á henni. Í bakgrunninum bryggjur, hús og þorp.
Nánari upplýsingar:
1) Edinborgarhúsið (nú horfið). Ágúst Flygenring var þar til húsa með umsvif sín.
2) Salthús (nú horfið).
3) Akurgerðishúsið (nú horfið). Þar var m.a. verslun Gunnlaugs Stefánssonar og skrifstofur Sviða.
4) Jón Einarsson, verkam., áður verkstjóri í Hafnarfirði.
5) Vöskunarhús Edinborgar.
6) Fiskverkunarhús Akurgerðis.
7) Bæjarbryggjan.
8) Janus (Gíslason) bílstjóri.

Rétt finnst mér að geta þess hvað við fengum fyrir vinnuna. Eg geri það raunar til gamans, því samanburður við nútímann virðist ógjörningur. Tæknin er komin í margföldum mæli til liðs í svona vinnu, vélaafl komið í stað vöðva og verðlag og kaupgjald hefur breyst svo mjög í krónum talið að allur samanburður er út í hött. En verð á ýmsum þessara verka árið 1926 var sem hér segir:
Uppskipun á fiski úr togara, komið á bíl kr. 3.30 pr. tonn.
Kola togara með tippvögnum kr. 1.70 pr. tonn.
Kola togara með pokum kr. 2.55 pr. tonn.
Útskipað salti í togara með pokum kr. 2.60 pr. tonn.
Útskipað salti í togara með tippvögnum kr. 1.60 pr. tonn.
Uppskipun á kolum úr fragtskipi í pokum kr. 2.60 pr. tonn.
Uppskipun á kolum, laust í trogum og á bíla kr. 1.65 pr. tonn.
Uppskipun á salti í pokum kr. 2.50 pr. tonn.
Eftirvinna var í hlutföllunum 3:5.

Það sem úrslitum réði
Útgerð Hellyersbræðra varaði næstu árin, en kraftur hennar fór sídvínandi. Árið 1929 sigldu þeir brott með sinn fríða flota, saddir af sínu umstangi hér. Að þeim var mikil eftirsjá og brottför þeirra var þungt áfali fyrir atvinnulífið. Sú var þó bót í máli að innlend botnvörpungaútgerð og önnur útgerðarstarfsemi var komin á fót og dafnaði og því vofði atvinnuleysi ekki yfir á sama hátt og 1922, þegar Bookless Bros. Ltd. varð gjaldþrota.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn 1910.

Þessir tæpu tveir áratugir, frá 1910 til 1930, mætti ef til vill með réttu kalla breska tímabilið í atvinnusögu Hafnarfjarðar. Þótt önnur atvinnustarfsemi hafi verið að sækja í sig veðrið á þessum árum var hún ekki nema svipur hjá sjón við hliðina á þessum skosku og ensku risum. Afkoma fólks og atvinnulífið hér byggðist að verulegu leyti á þeim.
Á þessu tímabili var töluvert aðstreymi fólks til Hafnarfjarðar og margir komu hingað utan af landi til að vinna meðan vertíðarnar stóðu sem hæst; — og það er óhætt að segja að margur hlaut góða umbun síns erfiðis.

Hanarfjörður

Fiskvinnslufólk við aðgerð á plani bæjarútgerðarinnar við Vesturgötu. Vestan við bárujárnsgirðinguna sést kolabingur og í eitt af húsum Helleyers.

Hellyersbræðrum þótti erfítt og umfangsmikið að gera út á veiðar í salt. Í því var fólgin mikil fjárfesting sem skilaði sér ekki til baka fyrr en seint og um síðir, en þegar fiskurinn var ísaður um borð var annað upp á teningnum; það var jafnvel búið að gera upp túrinn þegar skipið fór í næstu veiðiferð.
„Það er léttara að gera út sextíu togara frá Hull á veiðar í ís en sex héðan á veiðar í salt,“ sagði Mr. Owen Hellyer eitt sinn við mig.
Það var þetta sem úrslitum réði.“

Hér líkur skrifum af Hellyersútgerðinni sem og útgerðaratvinnuháttum í Hafnarfirði á árunum 1924-1929. Skrifin eru byggð á endurminningum Gísla Sigurgeirsson, sem nú er látinn. Ljóst er að margt hefur breyst í framangreindum efnum á skömmum tíma. Þess vegna eru frásagnir sem þessar svo mikilvægar til að efla meðvitund okkar, sem teljum okkur lifa í nútímanum.
Skrifarinn, Snorri Jónsson (1928-2016), starfaði við Flensborgarskóla.

Framhald…

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 10. tbl. 11.03.1995, Snorri Jónsson, Hellyerstímabilið IV, Veitingar að vild og sungið í Almannagjá, bls. 6-7.

Hafnarfjörður

Krosseyrarvegur 7. Húsið er teiknað af Geir Zoega, fyrir útgerðarfyrirtækið Hellyers bros.

Hafnarfjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins 1995 fjallar Snorri Jónsson um „Atvinnusögu Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið„. Hér fjallar hann um tímabilið undir fyrirsögninni „Vinnubók týndist í kolabing„. Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma.

Hafnarfjörður

Tryggvi Ófeigsson (1896-1987). Tryggvi var svo með Imperíalist til ársins 1929. Það ár hættu Hellyersbræður allri útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Tryggvi gekk svo inn í útgerðarfélagið h/f Júpíter í Hafnarfirði sem stofnað var 26 júlí 1929, með Lofti Baldvinssyni og Þórarni Olgeirssyni, sem árið 1925 höfðu látið smíða skip fyrir sig í Beverley, það skip var Júpíter GK 161. Tryggvi varð svo skipstjóri á honum þegar Þórarinn Olgeirsson hætti skipstjórn þar árið 1929.

„Á vertíðinni 1925 barst óhemjumikill fiskur á land í Hafnarfirði. Það var því annasamt hjá okkur á þessari vertíð eins og árið áður og eins var mikið að gera við fiskverkunina í landi. Í stað kolaskipsins, sem strandaði, kom brátt annað, en það var ýmsum erfiðleikum bundið að losa kolin úr skipinu af því að fiskvertíðin var komin í fullan gang og togararnir nærri daglega inni.
Samningur okkar við Hellyer var samningur um ákvæðisvinnu. Hann tók til allrar vinnu við togarana og flutningaskipin að því undanteknu að losa úr þeim kolin. Sá togari, sem fyrstur kom frá Englandi í byrjun vertíðarinnar, var Imperialist. Hann var þá nýr og stærstur þeirra allra og kom með allar sínar lestir fullar af kolum. Eftir mikið bras, við aðstæður, sem ég hefi áður lýst, tókst okkur að koma öllum kolunum í land. Skipstjóri á Imperialist var sá landskunni dugnaðar- og aflamaður, Tryggvi Ófeigsson.
Skrifstjóri Hellyersbræðra, og sá sem sá um allar fjárgreiðslur fyrir þá, hét Allan, ævinlega nefndur Mr. Allan. Næst, er ég kom  með reikninga til hans, fékk ég þá alla greidda orðalaust, nema reikninginn fyrir að losa kolin úr Imperialist, hann fékk ég ekki greiddan. Segir Mr. Allan við mig að reikningurinn sé óheyrilega hár og hann geti ekki greitt hann og byrjar nú heldur betur að þusa.

Hafnarfjörður

Togarinn Imperialist.

„Það er svo sem auðséð,“ segir hann, „að þið ætlið að nota ykkur það að ekki er til neinn samningstaxti fyrir verkið eins og í fyrra þegar þið sömduð við Íslendinginn Zoéga. Nú finnst ykkur auðvitað tækifæri til að taka munninn nógu fullan. Svona eruð þið allir, Íslendingar. Það er ekki ofsögum af því sagt.“ Og áfram lét hann dæluna ganga.
Mér varð nær orðfall; maldaði þó eitthvað í móinn, en hugsaði því fleira. Satt að segja var þessi reikningur nokkuð handahófslegur. Ég mundi ekki hvernig þessi viðskipti við Geir H. Zoéga höfðu verið árið áður, en reikningurinn átti að vera sem næst kostnaðarverði. Samt reiddist ég ansi illa þessum ásökunum á mig og mína félaga og ekki síður viðhorfi hans til Íslendinga. Varð heldur fátt um kveðjur; ég rauk út og skellti hurðinni.

Reyndist svo hinn besti

Geir Zóega

Geir Zóega (1896-1985). Geir hóf fiskverkun í Hafnarfirði 1920 og þar var hann búsettur og þar gerðist athafnasaga hans næsta hálfan annan áratug. Hann keypti fiskverkunarstöð í Hafnarfirði, svonefnda Haddensstöð, og tók að verka fisk af
togurum. En þau reyndust mörgum erfið, eftirstríðsárin, þegar allur kostnaður, sem hækkað hafði á styrjaldarárunum, hélzt áfram hár en verðlag á fiski lækkaði.

Fór ég nú hið snarasta heim að leita í plöggum okkar frá árinu áður. Kom þá í ljós að það hafði kostað 15 aurum minna að skipa upp hverju tonni af kolum úr Imperialist en samkvæmt samningnum við Geir árið áður! Þetta var að vísu hrein tilviljun eins og í pottinn var búið. Verð ég nú heldur en ekki feginn þessari niðurstöðu, sest niður, glaður í sinni, og rita Mr. Allan langt og ítarlegt bréf um málið á ómengaðri íslensku. Í bréfinu segi ég að mér þyki leitt þegar okkur félögum, og íslendingum, séu borin á brýn rakalaus ósannindi og syívirðingar. Krafðist ég þess að reikningar fyrirtækisins frá í fyrra yrðu rannsakaðir, þótt þeir væru komnir til Hull, svo að hann gæti komist að hinu sanna. Þyrftum við þá ekki lengur að liggja undir dæmalausum ásökunum hans og svívirðingum. Fór ég með bréfið samdægurs til Péturs Jóhannessonar, sem þá var bókhaldari hjá Hellyer; tók hann að sér að þýða það fyrir Mr. Allan.
Árdegis næsta dag er sent eftir mér og ég beðinn um að koma upp á kontór til Mr. Allans. Var þá reikningurinn greiddur orðalaust. Öll þau ár, sem við höfðum viðskipti við Heilyersbræður eftir þetta, var aldrei minnst einu orði á nokkurn reikning, sem frá okkur kom, þótt um ósamningsbundna vinnu væri að ræða. Vann ég, með þessari tilviljun mætti kannski segja, fullt traust Mr. Allans, enda reyndist hann mér, þaðan í frá, í öllum viðskiptum, hinn besti maður.

Hvinnska var fágæt

Kolaflutningur

Kolaflutningur.

Þegar Hellyerstogararnir komu hingað í fyrsta sinn var haft mjög strangt eftirlit með öllu sem í togurunum var. Vörður var látinn gæta verkamannanna, mjög stranglega, af ótta við að þeir stælu úr skipunum. Þegar frá leið varð þessarar gæslu lítið vart og að lokum varð enginn hennar var. Hygg ég að hvinnska hafi verið fátíð hér um þessar mundir og hafi hennar eitthvað gætt voru Bretarnir ekki síður aðgæsluverðir en Íslendingarnir, svo að ekki sé meira sagt.
Verkin urðu að ganga fljótt og vel, þess krafðist Hellyer og sömu kröfu gerðum við til okkar manna. Það var t.d. venja að kola togarana samtímis því að fiskurinn var losaður. Við kolunina unnu nær eingöngu sömu mennirnir og var sá háttur á hafður að flytja kolin í þá hlið togarans sem frá sneri bryggjunni.

Kolamokstur

Kolamokstur.

Var það gert á þann hátt að gríðarstór og þung renna var sett niður af bryggjunni og neðri enda hennar komið fyrir milli spils og brúar, stundum yfir keisinn ef mjög var lágsjávað.
Stundum voru kolin flutt eingöngu laus á bílum og hvolft í rennuna, en það var því aðeins gert að kolalúga væri milli brúar og spils, annars varð að flytja helminginn af þeim í pokum. Jón Þórarinsson á Norðurbraut 22 var oft forsvarsmaður við kolarennuna og við móttöku á kolunum niðri í skipinu. Oft var kolarennunni bölvað, enda var hún þung á þreyttum höndum, en Jón Þórarinsson sagði í mesta lagi „ansvítti;“ það var hans stærsta blótsyrði.

Þetta er nú meiri bíllinn!

Júpiter

Skipshöfn Tryggva Ófeigssonar á Júpiter.

Í boxunum, við að lempa kolin, voru ævinlega sömu mennirnir. Þau embætti höfðu Guðjón Jónsson frá Hellukoti, Karl Kristjánsson, Jón Þorleifsson, Erlendur Jóhannsson og Atli Guðmundsson. Allir voru þeir úrvalsmenn við þessa iðju og samviskusamir. Oft voru þeir spurðir hversu mörgum bílhlössum þeir kæmu í boxin. Á móti spurðu þeir hversu mörg bílhlöss væru á dekkinu. Eitt sinn sem oftar kemur Karl Kristjánsson með höfuðið upp að boxgatinu og spyr þann sem var að moka niður af dekkinu hversu mikið væri þar eftir af kolum. Honum er sagt að það sé rúmur bíll og ekki von á meiru. Lét hann það gott heita. Hinsvegar stóð þá svo á að búið var að moka á fimm bíla uppi í kolabing og var þeim öllum dembt ofan á dekkið: Er nú kolunum mokað í boxin og farið að hreinsa dekkið.
HafnarfjörðurSkyndilega kallar Karl upp og segist vera að koma, það sé allt orðið fullt niðri. Um leið og hann rekur höfuðið upp um boxgatið segir hann með undrun í röddinni:
„Þetta er nú meiri bíllinn!“
Var þetta haft að orðtaki eftir þetta ef eitthvað þótti keyra úr hófi:
Þetta er nú meiri bíllinn!
Stundum gat nú fokið í boxarana og fyrir kom að þeir sem skeleggasta höfðu skapsmunina kæmu upp úr boxunum með skófluna reidda að höfði þeim sem dyngt höfðu niður til þeirra meira af kolum en góðu hófí gegndi.

Saknaði vinar í stað
HafnarfjörðurÉg hafði þann hátt á að skrifa daglega niður vinnustundir fólksins þegar ég kom heim og helst uppi í rúmi á kvöldin. Tímana skrifaði ég eftir minni og var mér orðið þetta mjög tamt. Ég vissi og mundi hvar hver maður stóð við sitt verk, — hafði, með öðrum orðum, mynd af þessu öllu í huganum. Ég notaði litlar vasabækur í þessu skyni, innbundnar með stífum spjöldum. Halldór bróðir minn fékk þessar bækur venjulega til úrvinnslu að viku liðinni.
Það var einu sinni að kvöldi til, er ég var nýkominn heim úr vinnunni, að vélstjórinn á James Long bankaði uppá hjá mér og kvartaði yfir því að illa hefði verið lempað í boxunum. Maðurinn var úrillur og krafðist þess að meira yrði látið af kolum í skipið. Þetta kom mér dálítið á óvart og fannst mér kvörtunin ekki trúleg, en mér bar skylda til að athuga málið.
HafnarfjörðurFer ég nú niður á dekk, ásamt Englendingi nokkrum; og niður í boxin og er í hinu versta skapi. Í ljós kom að lempað hafði verið í boxin líkt og venjulega. Bið ég þó boxarana að reyna að troða tveimur bílhlössum í skipið til viðbótar og tókst þeim það með herkjum. Ég hafði skriðið eftir boxunum og lítið komist áfram þótt mjór væri. En viti menn! Þegar ég kem heim sakna ég heldur en ekki vinar í stað. Vinnubókin, með vikuvinnu allra verkamannanna, var horfin úr vasa minum. Þessa viku unnu hjá okkur daglega um eitt hundrað manns. Vinnubókin hafði greinilega þvælst upp úr vasanum þegar ég var að skríða eftir boxunum. Rýk ég nú aftur niður á bryggju og talá við vélstjórana og kyndarana og bið þá fyrir alla muni að hafa auga með bókinni þegar kolunum verði mokað á eldana.

Minnið nær óbrigðult

Hafnarfjörður

Saltfisksstæða.

Leist mér nú ekki á blikuna, bókin töpuð og fimm vinnudagar óskráðir á skýrslu og engin von til að togarinn kæmi aftur að bryggju fyrr en að hálfum mánuði liðnum, en vinnulaun yrði að greiða á tímabilinu. Leiðinlegt fannst mér og niðurlægjandi að ganga fyrir hvern mann og spyija um vinnu hans.
Ég sagði Jóni Einarssyni strax frá þessu óhappa atviki og við ákváðum að fara undir eins heim til pabba og ræða málið við hann og Halldór bróður. Kl. 10 um kvöldið bönkuðum við á dyrnar hjá pabba og settumst á ráðstefnu, allir fjórir. Úr hugum okkar reyndum við að framkalla myndir um atvik og atburði úr vinnunni þessa daga, hver dagur sér, hvert skip fyrir sig, tilvik og frávik hjá mannskapnum o.s.frv. Og í trausti þess að niðurstaðan yrði mjög nálægt því rétta fórum við að sofa um fimmleytið þessa eftirminnilegu nótt.

Hafnnarfjörður

Fiskvinnsluhús Hellyers.

Á venjulegum tíma var allt tilbúið. Halldór hafði skrifað vinnuskýrsluna, peningarnir komnir í umslögin og útborgun fór fram. Kom nú í ljós að minni okkar hafði reynst nær óbrigðult. Aðeins einn maður kvartaði og taldi sig vanta dag í launum sem auðvitað var strax leiðrétt. Vorum við nú í sjöunda himni eftir allar áhyggjurnar sem við höfðum haft út af þessu atviki.
Að liðnum hálfum mánuði kom James Long inn til hafnar. Kemur þá til mín vélstjórinn heldur en ekki hróðugur með bros á vör og réttir mér vinnubókina mína með velktum blöðum og dökkum af kolaryki. Ég þrýsti hönd hans í þakklætisskyni. Um kvöldið bárum við saman vinnubókina og kaupskrána og kom þá í ljós að þetta, sem áður er um getið, var eina villan sem teljandi var.

Mr. Orlando og Reiturinn

Vesturgata 32

Vesturgata 32 – Bungalow.

Owen Hellyer fór til Englands á útmánuðum árið 1925, en í staðinn kom bróðir hans, Orlando. Þeir höfðu látið byggja sér ljómandi skemmtilegt íbúðarhús, nú Vesturgata 32, sem í daglegu tali var nefnt Bungalow. Það hús eignaðist síðar Ásgeir Júlíusson teiknari og kona hans, Guðrún Guðmundsdóttir. Einnig létu þeir byggja stóran skála á mölinni norðan við Svendborgina. Þar var geymdur lager fyrir skipin og þar bjuggu enskir starfsmenn á þeirra vegum. Húsið Krosseyrarvegur 7 létu þeir líka byggja. Bjó þar einn af forstjórum þeirra, Tracy að nafni, en hann var hér ekki lengi, eitt eða tvö ár að mig minnir. Orlando var alúðlegur karl, kátur og fjörugur, enda varð okkur fljótlega vel til vina. Ákvarðanir hans þóttu þó ekki alltaf bera vott um mikla vitsmuni eða áunna reynslu.

Krosseyrarvegur 7

Krosseyrarvegur 7. Húsið er teiknað af Geir Zoega, fyrir útgerðarfyrirtækið Hellyers bros.

Hann bað okkur t.d. að gera fiskreit uppi á háhæðinni fyrir vestan Víðistaði, norðan vegarins. Var reitur þessi í daglegu tali nefndur Háireitur. Reitarstæðið var í alla staði mjög óheppilegt, aðskildir smáblettir, snepla, kölluðum við það, vegna landslagsins, enda var reiturinn hvorki fugl né fiskur.
Þegar Mr. Owen kom til baka varð honum að orði þegar hann sá reitinn:
„Hann hlýtur að hafa verið fullur, hann bróðir minn, þegar hann valdi þetta reitartogarana hingað, þeir eru einmitt akkúrat 30!“ Svo bætti hann við eftir stundarþögn:
„Svo eigum við 30 litla togara að auki.“

Uppáhald og æskuvinur

Kútter

Kútter.

Um þetta var ekki meira rætt, en það lá vel á karli og hann vildi spjalla og fór nú að segja mér ýmislegt frá sjálfum sér. Meðal annars sagði hann mér að faðir sinn hefði átt marga kúttera, áður en togaraöldin gekk í garð, og hefði síðasti kútterinn, sem faðir hans átti, heitið Othello. Othello þessi var hans mesta uppáhaldsskip. Það var með dammi í lestinni, þ.e. dálitlu rými þar sem sjór gekk út og inn, en þar var fiskur geymdur lifandi þar til menn tóku hann og stungu honum í soðpottinn. Othello var seldur til Hafnarfjarðar um síðustu aldamót. Pétur Thorsteinsson og Co. keypti skipið, en forstjóri þess fyrirtækis var Sigfús Bergmann. Dammurinn þótti ódrýgja lestarrýmið og að rúmu ári liðnu var skipið selt til Færeyja og annað keypt í staðinn sem hét Sléttanes og þótti hið mesta happaskip. Skipstjóri á Sléttanesi var Hrómundur Jósepsson, mikill dugnaðar- og aflamaður.

Hafnarfjörður

Samstarfsfólk hjá Hellyers – væntanlega verkakona og verkstjóri ásamt kúsk.

Á meðan Othelló var í Hafnarfirði kom Mr. Orlando til Íslands. Þá fór hann til Hafnarfjarðar og heimsótti Othello, uppáhaldið aðstæðum sem fyrir hendi væru. Svo var það eitt sinn, er við við höfðum lokið við að afgreiða Imperialist, að Mr. Allan kemur til okkar og segir að togari muni væntanlegur að nokkrum stundum liðnum; Spyr svo að venju: Hvað verðið þið lengi að afgreiða togarann? Ég svara eins og ég hafði gert að undanfömu: „Ég veit það ekki, Mr. Allan, ég veit það ekki.“ Verður hann þá öskuvondur, skælir sig allan, þykist herma eftir mér og segir hvað eftir annað á sinni bjöguðu íslensku:
„Évidhaike, évidhaike, évidhaik!“

Hafnarfjörður

Ari var einn af Hellyerstogurunum.

Rausar svo heilmikið út af þessari tregðu minni og aumingjaskap að geta ekki svarað einfaldri spurningu. Verður mér nú nóg boðið, rýk upp, einnig öskuvondur, helli mér yfir hann á mínu ensk-íslenska hrognamáli, sem hann réði þó vel í, og segi að lokum:
„Mr. Allan. Imperiaiist er að fara úr höfn, hvenær kemur hann inn fullur af fiski? Ég ætla að hafa fólk til reiðu þegar hann kemur“.
Það kom svolítið hik á Mr. Allan, svo segir hann:
„Hvernig á ég að geta sagt um það, það fer auðvitað eftir fískiríinu!“

Hafnarfjörður

Saltfiskvinnsla.

„Já, einmitt það,“ segi ég. „Ætli það sé ekki eitthvað svipað hjá okkur. Ætli það fari ekki eftir því hvað við fáúm marga menn til vinnu hversu langan tíma það tekur að afgreiða togarann, það vitum við sjaldnast fyrr stæði!“
Mr. Owen valdi annað reitarstæði og bað okkur að leggja þar reit, hvað við gerðum um sumarið og haustið 1925. Sá reitur var í daglegu tali nefndur Allansreitur eftir Mr. Allan, þess er áður hefur við sögu komið, stór og mikill reitur á ágætu landi norðan Kirkjuvegarins, upp af Skerseyri, þar sem nú er Hrafnista.

Áttu 60 togarar

Hafnarfjörður

Togarinn Ver var í eigu Hellyers.

Einu sinni, þetta vor, kallaði Mr. Orlando mig inn á skrifstofu sína. „Hvur fjandinn er nú á seyði,“ hugsaði ég, „líklega einhverjar aðfinnslur“.
Það var nú aldeilis ekki daglegur viðburður að vera beðinn um að tala við æðstu mennina. Þegar ég kem leggur Mr. Orlando fyrir mig þessa spurningu:
„Hvað haldið þér, Gísli, að hægt yrði að gera út marga togara héðan ef allir vinnufærir Hafnfirðingar, karlar og konur, ynnu við útgerðina?“
Ég var auðvitað óviðbúinn svona spurningu, varð undrandi á svip og vafðist tunga um tönn.
„Ég held ég geti ekki svarað þessu,“ stamaði ég, „til þess skortir mig þekkingu, enda hef ég ekkert um það hugsað.“
„Þetta er nú meira til gamans,“ segir hann, „mér datt bara í hug að slá þessu svona fram, ég bjóst nú ekki við að fá um þetta tæmandi svör frá þér.“
„Ég gæti ímyndað mér að hægt yrði að afgreiða héðan 30 togara ef allir Hafnfirðingar yrðu í þeirra þjónustu,“ segi ég, svona til að losna sem fyrst við þessa umræðu.

Flensborg

Flensborg og Óseyrarbæirnir. Hvaleyri í baksýn.

„Já,“ segir Orlando, „þá væri kannski mátulegt fyrir okkur að koma með alla stóru föður síns og æskuvin. Þá var Othello uppi í fjöru hjá Flensborg og þá var verið að hreinsa það og mála. Mr. Orlando sagðist hafa gengið í kringum skipið og strokið byrðinginn eins og vinarvanga.
„Af öllum sínum mörgu seglskipum þótti pabba vænst um þetta skip,“ sagði Mr. Orlando, „en það varð að víkja fyrir togurunum.
Þeir voru meiri aflaskip og miklu betri.“

Évidhaike!

Hafnarfjörður

Kolatogarinn Ýmir Gk 488.

Skipin komu og skipin fóru og skipin sigldu sinn veg. Um leið og þau lögðust við bryggjuna var kallað á okkur til vinnu, strax og reíjalaust, hvernig sem á stóð. Oft höfðum við nægan mannskap til að sinna þörfum þeirra, en stundum höfðum við það ekki.
Lögmálið um framboð og eftirspurn var ekki alltaf í jafnvægi. Því var oft erfitt að segja til um það hversu langan tíma myndi taka að afgreiða togara eða fragtskip. Það fór eftir aðstæðum, eftir því hvort við hefðum allan okkar vana mannskap, hvort við þyrftum að notast við óvaninga að einhverju leyti eða hvort fólk vantaði til að vinna verkin. Það mátti heita regla að um leið og skip var væntanlegt vorum við spurðir hversu langan tíma myndi taka að afgreiða það. Til þess lágu ýmsar orsakir.
HafnarfjörðurVið Jón Einarsson reyndum að svara þessum spurningum eftir bestu getu og í lengstu lög, en leitt þótti okkur að fá óþökk fyrir ef einhveiju skakkaði með uppgefinn tíma, alveg sama á hvorn veginn sem var. Út af þessu varð ég smám saman tregur til að segja nokkuð um þetta, vildi láta þá á skrifstofu Hellyers ákveða það sjálfa; þeir vissu þetta nokkurn veginn eins og við. Því tók ég upp þann hátt þegar Mr. Allan var sífellt að spyrja mig þessara tímaspurninga, að um þetta gæti ég ekkert sagt, — ég vissi það ekki, það færi allt eftir þeim en verkið er hafið. Þér skuluð því ekki spyrja mig slíkra spurninga eftirleiðis, Mr. Allan, ég svara þeim ekki.“
Rýk ég svo í fússi frá honum, en hann rigsar til sinnar skrifstofu og mælti ekki orð af vörum.

Sáttfýsn ofan á
HafnarfjörðurÁ næstu dögum mætti ég iðulega Mr. Allan en kasta ekki á hann kveðju eins og sjálfsögð kurteisi krafði. Ef eitthvað þurfti við hann að tala gerði Halldór bróðir minn það fyrir okkar hönd. Líður nú heil vika; við tölumst ekki við og heilsum ekki hvor öðrum.
Að rúmri viku liðinni er gert boð fyrir mig og ég beðinn að koma upp á skrifstofu. Þegar þangað kemur er Mr. Allan þar fyrir og biður mig að koma inn í innri skrifstofuna, sem var hans einkaskrifstofa. Réttir hann mér þá höndina og segir:
„Við skulum ekki láta svona lengur; við erum víst báðir stífir og stórir í lund, látum þetta vera gleymt sem okkur fór í milli.“
Hafnarfjörður„Ég skal samþykkja það,“ segi ég, „það er meira en velkomið.“
Ræddum við svo málin stutta stund og kvöddumst með mestu virktum.
Eftir þetta breyttist viðmót Englendinganna mjög til batnaðar. Þeir kröfðust þess ekki lengur að fá að vita nákvæmlega fyrirfram hversu langan tíma tæki að afgreiða skipin, heldur spurðu þess í stað: Hvenær eigum við að kalla á áhöfnina til skips? Hafið þér tímann bara nógu rúman svo að mannskapurinn þurfi ekki að bíða eftir brottför.
Aldrei lét Mr. Allan styggðaryrði falla í okkar garð eftir þetta.“

Framhald...

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 9. tbl. 04.03.1995, Hellyerstímabilið – III hluti, Snorri Jónsson, Vinnubók týndist í kolabing, bls. 10-11.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1974 – loftmynd.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður kemur víða við sögu togaraútgerðar á Íslandi.

Togarinn Coot.

Togarinn Coot. Fyrsti togari Íslendinga, Coot, var gerður út frá Hafnarfirði á árunum 1905-1908. Skipið var 98 fet á lengd, búið 225 hestafla gufuvél og var búið til botnvörpuveiða.

Fyrsti íslenski togarinn, Coot, var gerður þaðan út og Pike Ward gerði út togarann sinn, Utopiu, frá Hafnarfirði. Seinna má segja að Hafnarfjörður verði snemma aðalmiðstöð fyrir erlenda togaraútgerð á Íslandi. Ber þar fyrst að nefna Booklessbræður frá Aberdeen. Þeir keyptu fiskaðgerðarstöð í Hafnarfirði árið 1910 og höfðu þaðan meiri og minni útgerð og annan atvinnurekstur til ársins 1922. Um tíma áttu þeir fjóra togara sem stunduðu veiðar frá Hafnarfirði. Þá keyptu þeir fisk af togurum, bæði breskum og hollenskum. Einnig hafði fyrirtækið A.D. Birrel & Co. keypt fiskverkunarstöð í Hafnarfirði og lögðu togarar upp hjá því á árunum 1910-14. Fleiri erlendir togarar bæði norskir og þýskir lögðu upp afla sinn í Hafnarfirði um þetta leyti.

Hafnarfjörður

Verksmiðjuhús Bookless.

Hafnfirðingar höfðu mikla atvinnu af þessari starfsemi en skjótt skipast veður í lofti. Á árunum 1922 og 1923 var mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði. Booklessbræður höfðu orðið gjaldþrota 1922 og ný lög, sem samþykkt voru sama ár á Alþingi, komu í veg fyrir að aðrir erlendir útgerðarmenn gætu hlaupið í skarðið. Í lögunum var lagt bann við því að útlend skip lönduðu afla sínum á Íslandi og seldu hann íslenskum ríkisborgurum til verkunar.
Þessi lög voru sett til að hindra síldveiðar Norðmanna fyrir Norðurlandi en þau giltu einnig um þorskveiðar. Þetta kom sér einkum illa fyrir Hafnfirðinga.

Hafnarfjörður

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar beitti sér nú fyrir því að undanþága fengist frá þessum lögum til þess að annað erlent fyrirtæki gæti keypt þá aðstöðu sem Booklessbræður höfðu áður. Hér var á ferðinni útgerðarfyrirtækið Hellyer Bros. Ltd. í Hull. Í samráði við stjórnvöld var sú leið farin að Geir Zóega var fenginn til að taka togara Hellyersbræðra á leigu og taldist það ekki brjóta í bága við ákvæði laganna. Hellyersbræður hófu útgerð sex togara frá Hafnarfirði á vetrarvertíð 1924.
HafnarfjörðurÁri síðar fékk fyrirtækið sérstaka lagaheimild til að reka útgerð sína í Hafnarfirði sem sjálfstætt fyrirtæki um átta ára skeið. Fyrstu vertíðina voru enskir skipstjórar á togurum Hellyers en síðan voru fiskiskipstjórarnir íslenskir. Á togurunum voru enskir flaggskipstjórar sem voru leppar því íslensku fiskiskipstjórarnir höfðu ekki ensk skipstjórnarréttindi. Einnig voru enskir stýrimenn á togurunum sem leppar. Þessir menn stunduðu ekki vinnu um borð en voru þarna aðeins til að fullnægja formsatriðum. Meðal þeirra togara sem Hellyersbræður gerðu út frá Hafnarfirði var stærsti og fullkomnasti togarinn í eigu Englendinga á þessum tíma, Imperialist, og var Tryggvi Ófeigsson skipstjóri á honum.

Hafnarfjörður

Tryggvi Ófeigsson (1896-1987). Tryggvi Ófeigsson var skipstjóri og síðar útgerðarmaður í Hafnarfirði og Reykjavík, tók við Imperialist nýsmíðuðum í Hull í mars árið 1925. Tryggvi var svo með Imperíalist til ársins 1929. Það ár hættu Hellyersbræður allri útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Tryggvi gekk svo inn í útgerðarfélagið h/f Júpíter í Hafnarfirði sem stofnað var 26 júlí 1929, með Lofti Baldvinssyni og Þórarni Olgeirssyni, sem árið 1925 höfðu látið smíða skip fyrir sig í Beverley, það skip var Júpíter GK 161. Tryggvi varð svo skipstjóri á honum til 1929.

Tryggvi stofnaði síðan eigin útgerð eftir að Hellyersbræður fóru héðan. Tryggvi ber Hellyersbræðrum vel söguna í ævisögu sinni og segir að þeir hafi verið bjargvættir Hafnarfjarðar. Hellyerbræður hættu útgerð sinni frá Hafnarfirði í nóvember 1929. Síðustu árin hafði orðið taprekstur á fyrirtækinu. Einnig átti það í vinnudeilum hér heima og ágreiningur kom upp við Hafnarfjarðarbæ um útsvarsgreiðslur.

Í Lesbók Morgunblaðsins  1995 fjallar Snorri Jónsson um „Atvinnusögu Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið„. Byggir hann á endurminningum Gísla Sigurgeirssonar. Um er að ræða fyrsta kafla af fjórum.

„Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma. – Fyrsti hluti af fjórum.

„Veturinn 1922-23 var mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði eins og reyndar átt hafði sér stað áður, en að þessu sinni keyrði ástandið um þverbak, engin hreyfing á neinu — ekkert að gera. Hið stóra og umfangsmikla útgerðarfirma, Bookless Bros Ltd. frá Aberdeen, hafði orðið gjaldþrota 1922. Svo alvarlegt þótti ástandið að haldinn var um málið almennur borgarafundur á haustmánuði 1923. Óttuðust menn að fjöldi fólks yrði að flytja búferlum úr bænum og fasteignir yrðu óseljanlegar. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru boðaðir á fundinn og mættu þeir báðir, Klemenz Jónsson og Sigurður Eggerz. Skorað var á þá að gefa undanþágu frá því ákvæði fiskveiðilaganna sem bannaði útlendingum að leggja afla sinn hér á land, en ráðherrarnir töldu að hægt yrði að komast hjá banninu ef Íslendingar tækju á leigu erlend fiskiskip.

Snorri Jónsson

Snorri Jónsson (1928-2016).

Í framhaldi af þessum borgarafundi samþykkti bæjarstjórnin 6. nóv. að skora áríkisstjórnina að leyfa útlendingum að leggja afla sinn til verkunar hér á land. Veitti ríkisstjórnin þetta leyfi og urðu málalyktir þær að stórfírma frá borginni Hull á Englandi, Hellyer Bros. Ltd., kom hingað með sex botnvörpunga á vertíðina i byrjun árs 1924.
Bræðurnir sem áttu firmað og voru fosvarsmenn þess hétu Owen og Orlando Hellyer. En vegna ákvæðis fiskveiðilaganna tók Geir Helgason Zoéga togarana á leigu að nafninu til og var umboðsmaður firmans og gerði samninga fyrir þess hönd. Samdist nú svo um við Geir að við Jón Einarsson og Sigurgeir Gíslason, faðir minn, yrðum verktakar hjá Hellyer og tækjum að okkur afgreiðslu togaranna, en það var að sjálfsögðu mikið verk og við erfiðar aðstæður að eiga.

Fjörkippur í atvinnu og viðskiptum

Hafnarfjörður

Togarinn Ceresio.

Þegar togararnir komu til Hafnarfjarðar voru þeir allir með fullar lestir af kolum og öðrum varningi til útgerðarinnar. Þetta varmikið magn og meiri birgðir vöru en áður höfðu verið fluttar hingað til hafnar. Verður það nú hlutskipti okkar að annast alla þessa vinnu, uppskipun og útskipun, fyrir ákveðið verð hvert tonn inn og út. Satt best að segja var þessi samningur við Geir H. Zoéga gerður í alltof miklu fljótræði af okkar hálfu, enda var hann sá versti sem við gerðum við nokkurn verksala á allri okkar starfsævi. Svo vondur var hann, að þegar vetrar- og vorvertíðinni lauk var útkoman sú að við þrír, verktakarnir, ég, Jón og pabbi, máttum heita kauplausir allan tímann.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1910.

Þrátt fyrir það, að ákveðið væri að Hellyer fengi aðstöðu hér í Firðinum, óttuðumst við að vinnan lenti í höndum reykvískra verktaka og því var hugsun okkar sú að tryggja það að svo yrði ekki. Við vildum sitja að þessari vinnu, bænum og búendum hér til heilla og hagsbóta. Sú hugsun réði mestu þegar við vorum að gera samninginn við Geir. Reynsla okkar var sú að Reykvíkingar væru ásæknir í að ná sem flestu til sín. Óttinn við þetta var aðalástæða þess að Geir gat pínt okkur niður úr öllu valdi.
Af þessari reynslu drógum við lærdóm sem kom okkur að góðu haldi við næstu samningsgerð.

Hafnarfjörður

Athafnasvæði Hellyersbræðra.

Togaraútgerð og fiskverkun Hellyersbræðra, sem rekin var hér í Hafnarfirði í nokkur ár, olli því að atvinnulífið tók mikinn fjörkipp og viðskiptalífið glæddist. Togarar þeirra þóttu myndarleg skip og fyrsta flokks að öllum búnaði á þeirrar tíðar mælikvarða. Þeir togarar sem komu hingað fyrsta árið voru: Ceresio, Lord Fischer, Earl Haig, General Birdwood, Viskont Allanby og Kings Grey. Skipstjórar og vélamenn voru enskir, en hásetar voru að mestu leyti íslenskir og margir úr Hafnarfirði.
Fljótlega voru ráðnir íslenskir fiskiskipstjórar á togarana, því hinir ensku flaggskipstjórar þekktu lítt til miðanna og voru m.a. af þeim sökum litlir fiskimenn. Hin raunverulega skipshöfn var því íslensk. Frá þessu var þó ein undantekning.
Á togaranum Ceresio var íslenskur skipstjóri frá Hull, Jón Oddsson að nafni. Hann var mikill aflamaður og viðurkenndur fyrir dugnað, enda var enginn fiskiskipstjóri með honum.

Hellyer kaupir Svendborg

Hafnarfjörður

Ágúst Flygenring (1865-1932).

Þegar kom fram í júní þetta ár, 1924, tókust samningar milli Landsbanka Íslands og Owens Hellyers um að Hellyer Bros. keypti útgerðarstöðina Svendborg. Þessi stöð hafði gengið kaupum og sölum. Sveinn Sigfússon kaupmaður frá Norðfirði reisti hana árið 1903. Var þá stöðin nefnd í höfuðið á honum uppá dönsku, eins og þá þótti fínt, og nefnd Svendborg.

Stöðina reisti Sveinn við Fiskaklett, skömmu síðar komst stöðin í eigu Ágústs Flygenrings sem hafði þar timburverslun, en seldi hana eftir stuttan tíma norskum manni, H.W. Friis, sem stundaði hér línubátaútgerð. Friis varð nokkrum árum seinna gjaldþrota og keypti þá Einar Þorgilsson stöðina, árið 1909, og seldi hana Bookless Bros. Í Aberdeen árið eftir með góðum hagnaði. Þegar Svendborg kemst í eigu þeirra Booklessbræðra, Harrys og Douglas — fyrirrennara Hellyers, — hefst áhrifamikið tímabil í atvinnusögu Hafnarfjarðar. Þeir urðu vinnuveitendur í mjög stórum stíl og verkafólk starfaði hjá þeim, á tímabilum jafnvel svo hundruðum skipti.
Sjálfir áttu þeir fjóra togara sem hér lögðu upp afla sinn fyrstu árin, en þeir versluðu mikið með fisk, keyptu ógrynni af fiski af íslendingum, einkum á Faxaflóasvæðinu milli Suðumesja og Akraness, og af erlendum togurum, aðallega breskum. Fiskverðið greiddu þeir í peningum, fyrstir manna hér um slóðir. Fyrir það, ekki síst, áttu þeir almennum vinsældum að fagna, en því miður lauk starfsemi þeirra að 12 árum liðnum þegar fyrirtækið varð gjaldþrota árið 1922.

Hafnarfjörður

Sendborg – síðar Brookles.

Með kaupum Hellyers á Svendborg hefst fiskverkun þar á ný og fjöldi fólks, sem áður varð að láta sér nægja að lepja dauðann úr krákuskel, fékk vinnu og gat nú litið til framtíðar með vongleði í huga.

Erfiðar aðstæður
Eins og áður segir voru togarar Hellyers með allar sínar lestir fullar af varningi til útgerðarinnar, einkum þó kolum. Heldur var nú brasksamt að losa kolin úr togurunum og verst og erfiðast var að ná þeim inná bryggjuna þegar lágsjávað var. Enginn krani var á bryggjunni og engar bómur voru á skipunum. Utbúnaðurinn var þannig að strengdur var vír úr frammastrinu í reykháfinn. Á þennan vír voru settar jafnmargar hjólblakkir og lúgurnar voru sem hala átti uppúr, en þær voru venjulega þrjár. Togspilið var notað til að vinda upp kolin og var einn maður við hverja lúgu.

Hafnarfjörður

1940-1950, portrett af ónafngreindri konu. Svo virðist sem konan hafi verið að bera kol en hún er með sótuga peysu og svuntu.

Kolunum var öllum mokað í poka í lestinni og tveir til þrír pokar voru halaðir í einu upp um lúguna. Þegar pokalengjan var komin í bryggjuhæð toguðu bryggjumennirnir í hana og vingsuðu henni inn á bryggjuna og upp á jámbrautarvagna. Var vögnunum svo ekið upp í kolabinginn sem stundum var allt að fjórir metrar á hæð. Stundum gat það komið fyrir að togaramir blésu út eða urðu damplausir, eins og það var kallað, og þá fór nú að vandast málið. Eina úrræðið var að hala allt upp með handafli, en það var bæði seinlegt og hinn mesti þrældómur.
Hver togari flutti þétta 200 til 250 tonn af kolum í þessari fyrstu ferð sinni hingað í Hafnarfíörð. Kolin til Hellyersbræðra voru geymd á Árnalóðinni, sem svo var kölluð. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hafði þar seinna kol handa sínum skipum. Ámalóð er vestan við skrifstofur Bæjarútgerðarinnar þar sem þær voru, áður en þær voru fluttar í nýja frystihúsið. Kolin vom flutt upp á lóðina í járnbrautarvögnum og var oft erfitt að komast þangað eftir misjöfnum sporunum.

Hafnarfjörður

Járnbrautir voru algengar á fiskreitum Hafnarfjarðar.

Járnbrautarteinarnir lágu í sandi meðfram Vesturgötunni og yfir hana. Var því oft sandur fyrir hjólunum og þungt að aka vögnunum á handaflinu einu með tvö tonn innanborðs af kolum.
Tíðin var einmuna góð á þessari vertíð. Togararnir komu oftast inn síðari hluta dags og hófst þá vinnan milli kl. 4—6 síðdegis og lauk ekki fyrr en undir morgun næsta dags. Þær vom margar blíðviðrisnæturnar og dagarnir, einkum er líða tók á vertíðina og sólaruppkoman heillaði menn. Þá var freistandi að líta uppúr stritinu og horfa mót dagsins rísandi sól.
Og það leyfðu menn sér stundum.

Eftirminnileg kynni
HafnarfjörðurMenn urðu örþreyttir og slæptir eftir erfiðar og langar vinnuvökur, en þó jafnframt glaðir í sinni yfír tekjunum sem þeir höfðu aflað til að sjá sér og sínum farborða í harðri lífsbaráttu. Svo héldu menn heim í morgunbirtunni, fegnir hvíld og svefni, en þó reiðubúnir að hefja störf á nýjan leik hvenær sem kallið kæmi.
Vinnan og umsvifín fóru vaxandi þegar á vertíðina leið. Við tókum einnig að okkur afgreiðslu skipa sem komu með vörur til annarra útgerðarfyrirtækja og vinnuaflið lét ekki á sér standa. Það var oft drepið á dyr hjá okkur Jóni Einarssyni og leitað eftir vinnu. Iðnaðarmenn í bænum höfðu t.d. ekkert að gera um þessar mundir og munu þeir flestir hafa komist í snertingu við bryggjuvinnuna, allt frá úrsmiðnum til stórskipasmiðanna. Kynnin við suma þessa menn urðu mér eftirminnileg.
HafnarfjörðurÞað var eitt sinn að stórt og mikið saltskip var væntanlegt. Fréttin um það hafði borist út og til okkar kom fjöldi manna að biðja um vinnu. Einn þeírra var stór og föngulegur maður og leist okkur Jóni að sá mundi liðtækur vera og segjum honum að koma niður að skipi morguninn eftir. Við þekktum flesta verkamennina og okkur var ekki sama um hvernig niðurröðun þeirra var við verkin. Skipulögðum við það allt fyrirfram. Við ætluðum þessum stóra og dugnaðarlega manni að taka á móti saltlengjunum og koma þeim fyrir á jámbrautarvögnunum. Um morguninn tilnefndi ég fólkið að stórlestinni, var fljótur að lesa upp nöfnin og fer nú hver maður á sinn stað. Svo kalla ég nokkrum sinnum í þann stóra og segi honum að vera á bryggjunni en hann skeytir því engu og er hinn rólegasti. Verð ég nú leiður á þessu sérlega heyrnarleysi mannsins, vind mér að honum og spyr hvort hann hafi ekki heyrt til mín. Segir hann þá og brosir um leið: „Ég heiti ekki Sigfús Vormsson, ég heiti Kjartan Ólafsson!“
HafnarfjörðurEinhvern veginn hafði ég bitið það í mig að maðurinn héti Sigfús Vormsson, en Sigfús sá var trésmiður og átti hér heima um tíma og giftist Kristínu Þorsteinsdóttur frá Kletti.
Þessi urðu fyrstu kynni okkar Kjartans Ólafssonar sem síðar varð bæjarfulltrúi í Hafnarfirði o.fl. og höfum við oft brosað að þessu síðan. Var Kjartan ævinlega velkominn til okkar meðan hann stundaði verkamannavinnu, enda var maðurinn afburða duglegur og svo var viðkynningin að ekki varð á betra kosið.

Sörli og Gullfoss
Vornæturnar um þessar mundir voru yndislegar. Laugardaginn fyrir páska unnum við framundir morgun í blíðviðri, og þegar við hættum fannst mönnum ekki nauðsynlegt að flýta sér heim. Við fórum með verkfærin upp í skúr sem áfastur var við gripahús, sem við Jón áttum, en er nú húsið Vörðustígur 9. Þar inni áttum við gráan hest, stóran og sterkan, sem við nefndum Sörla. Var nú leikur í körlum, þótt lúnir væm eftir langa törn og dettur nú einhverjum í hug að prófa hvursu marga menn muni þurfa til að halda sterkum hesti kyrrum. Var Sörli leiddur fram, lögð á hann aktygi og kaðlar festir í þau. Tóku nú fjórir þeir sterkustu í kaðlana og er nú slegið í Sörla. Kippist hann við og rykkir í, en þegar hann finnur mótstöðuna lítur hann við og sér hvað um er að vera. Reyndi hann þá ekki meira og varð ekki úr að aka hvernig sem að var farið. Mun Sörla hafa þótt óþarfi að láta svona á sjálfa páskanóttina! Höfðu menn á orði að sá grái væri gáfaður og hefði heldur betur skotið þeim ref fyrir rass!

Hafnarfjörður

Vörðustígur.

Og það var eins og menn yrðu góðglaðir þarna í næturkyrrðinni og fóru að segja sögur. Meðal „sagnamann þessa vornótt við Vörðustíginn var Guðmundur Gíslason — oft nefndur hinn sterki — og átti heima á Hverfisgötu 6. Þótti mönnum gaman að kraftasögum Guðmundar — enda var hann stundum óspar á þær — og nú sagði hann eftirfarandi sögu:
Á mínum fyrri árum stundaði ég oft í vinnu í Reykjavík. Varð mér ævinlega vel til með vinnu því að ég þótti ekki síður liðtækur en best gerist og gengur. Einu sinni — það var á fyrstu árum Eimskipafélagsins — var ég settur í að losa vörur úr Gullfossi. Vill þá svo til að maður nokkur, eitthvað slompaður, dettur út af hafnarbakkanum og fellur í sjóinn milli skips og bryggju.

Hafnarfjörður

Gullfoss 1919.

Urðu menn nú logandi hræddir og hrópuðu hver í kapp við annan að maður hefði dottið í sjóinn og myndi kremjast milli skips og bryggju ef skipinu yrði ekki haldið frá. Þarna á bakkanum var fjöldi manna saman kominn, á að giska 50—60 manns. Hlupu nú allir sem vettlingi gátu valdið til að ýta Gullfossi frá bakkanum svo að manninn sakaði ekki ef honum skyti upp. Var nú maður látinn síga niður milli skips og bakka og hafði sá með sér kaðal til að binda utanum hrakfallabálkinn. Þetta tókst, og var nú sá slompaði dreginn upp, við mikinn fögnuð viðstaddra, dasaður og heldur illa til reika. En í fagnaðarlátunum gleymdist að huga að hinum sem sigið hafði niður með kaðalinn, — og áður en við væri litið voru allir hlaupnir í burtu frá skipinu — allir — nema ég.

Hafnarfjörður

Gullfoss 1930.

Ég mundi eftir björgunarmanninum og hélt skipinu alveg kyrru; — og þótt ég kallaði og bæði um aðstoð ansaði enginn, — allir voru á bak og burt. — Þama hélt ég Gullfossi grafkyrrum þangað til manntötrið hafði klöngrast upp á bakkann. En það verð ég að segja að þungur fannst mér Gullfoss þegar ég var orðinn einn. Ég held ég hafi aldrei tekið meira á um mína daga.
Þegar Guðmundur hafði lokið sögu sinni sagði Ingimundur Ögmundsson sem var maður orðvar og hæggerður:
„Ég er nú bara farinn heim, ég hlusta nú ekki á meira af þessu tæi!“

Unnið nætur og daga
HafnarfjörðurAð öllum vel sögðum sögum þótti jafnan góð skemmtan og skipti þá ekki máli hvort þær studdust við raunverulega atburði eða ekki. En þess vil ég geta að Guðmundur Gíslason var afburðasterkur maður og feikna duglegur; verður dugnaður hans seint of lofaður.
Vinnan jókst. Á daginn unnum við í kolaog saltskipum, en á kvöldin og nóttinni afgreiddum við togarana. Það þótti gott að fá að sofa í tvær til fjórar stundir á sólarhring. Það tók því varla að hátta ofaní rúm. Kjartan Ólafsson sagðist eina vikuna hafa þurrkað sér með hörðum striga um andlit og lagt sig svo á hálmdýnu í heitu eldhúsinu. þetta gerði hann til að lengja svefntímann og svipað gerðu fleiri.
HafnarfjörðurSigurður Guðnason, seinna formaður Vkm. Dagsbrúnar og alþingismaður, var tengdasonur Guðmundar Gíslasonar frá Tjörn í Biskupstungum, föður Gísla bifreiðarstjóra sem hjá okkur vann oft og mikið. Fyrir kunningsskap við Guðmund tókum við Sigurð í vinnu. Hann átti heima í Reykjavík, en þá var lítið um atvinnu þar. Sigurður var skemmtilegur félagi, kappsfullur og afburður að dugnaði.
Einhvern veginn vildi svo til að þeir unnu mikið saman Kjartan Ólafsson og Sigurður. Þegar salti var skipað um borð í togarana var því ekið fram á bryggjuna í járnbrautarvögnum eða bílum. Kjartan og Sigurður höfðu þann starfa að taka pokana af vögnunum og kasta þeim upp í saltrennu ef hátt var í sjóinn eða hvolfa úr þeim í rennuna ef lágsjávað var. Rann þá saltið oní lestamar. Veittist þeim létt að fleygja pokunum og var oft gaman að sjá handatiltektir þeirra. Við neðri enda rennunnar var Hallgrímur Jónsson; hann sá um að saltið færi ekki til spillis. Ef hátt var í sjó tók hann við pokunum fullum, ásamt aðstoðarmanni, og losaði úr þeim oní lúgurnar. Þeir Kjartan og Sigurður köstuðu stundum nokkuð hastarlega svo þeir Hallgrímur höfðu ekki undan og kenndi í því nokkurrar stríðni. Varð Hallgrímur þá ergilegur og kvartaði sáran. Þetta endaði þó jafnan í friði og spekt og að lokum höfðu allir gaman að og hlógu.“

Framhald

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 18.02.1995, Snorri Jónsson, Atvinnusaga Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið, bls. 1-2. Úr endurminningum Gísla Sigurgeirssonar. Snorri Jónsson tók saman.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – forsíða Lesbókar Mogunblaðsins 18.02.1995.

Grindavík

Í skýrslu um „Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík“ frá árinu 1914 má m.a. lesa eftirfarandi samantekt um byggðasögu Grindavíkur:

Staðhættir

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.

Landnám og byggðaþróun

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
Líklega hefur Molda-Gnúpur búið á þessum slóðum.

Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Hugtakið hverfi var notað yfir þéttbýli sem risu hvort sem er til sjávar eða sveita hér á landi og virðist hafa verið notað eins í Noregi. Orðið þorp var ekki notað hér yfir þéttbýli fyrr en mikið seinna.
Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.

Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Um miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.

Saga Grindavíkur

Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík.

Flagghúsið

Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.

Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.

Grindavík

Grindavík – Norðurvör.

Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.

Hraun

Hraun – minja- og örnefnakort af Hrauni unnið í samráði við Sigurð Gíslason – ÓSÁ.

Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.

Fiskveiðar og útgerð

Grindavík

Grindavík – tíæringur.

Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra… Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhverskonar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.
Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.

Grindavík

Vélbátur.

Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.

Landbúnaður

Grindavík

Grindavík 1930 – heyskapur við Gjáhús og Krosshús.

Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.

Járngerðarstaðahverfi

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.

Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6: „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir. Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var „heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.“
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.

Grindavík

Grindavík – Vorhús fyrir 1925. Gamli barnaskólinn ofar t.v.

Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.
Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.

Skipulagsmál í Grindavík

Grindavík

Grindavík – uppdráttur 1946.

Á fyrstu áratugum síðustu aldar var Grindavík á mörkum sveitar og þéttbýlis. Árið 1942 fór Guðsteinn Einarsson þáverandi oddviti Grindavíkurhrepps þess á leit að skipulagsuppdráttur yrði gerður af þorpinu á vegum félagsmálaráðuneytis. Erindið var sent til skipulagsnefndar ríkisins sem tók málið í sínar hendur og árið 1944 var fyrsti uppdrátturinn gerður af Grindavík. Vegna erindis nokkurra manna um að byggja sjóhús við höfnina í Hópinu, lagði hreppsnefndin það til við skipulagsstjóra að nýtt skipulag yrði undirbúið. Skipulagsstjóri sendi mann til Grindavíkur til mælinga og setti fram skipulagstillögu þann 12. nóvember 1945. Frekar var unnið að tillögu þessari og árið 1946 gerði Páll Zóphóníasson uppdrátt af Járngerðarstaðahverfi.

Heimild:
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík, janúar 2015.

Grindavík

Grindavík.

Grindavík

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er grein Helga Bierings um „Valgerðarhús, næst elsta hús Grindavíkur„:

Valgerðarhús næst elsta hús Grindavíkur

Grindavík

Grindavík – Valgerðarhús.

„Stolt hvers byggðarlags er upphaf byggðar og sú merkilega saga sem varð til þess að byggð hófst. Grindavík á sína verslunar og útgerðarsögu. Saga Grindavíkur hefur ekki verið átakalaus í gegnum aldirnar. Grindavíkurverslun var ein af útstöðvum Kaupsvæðis Reykjavíkur ásamt Hafnarfirði, Keflavík og Básendar. Mikil samkeppni var um verslun á milli Dana, Hollendinga, Hansakaupmanna (Þjóðverjar) og Englendinga, þó svo að Danir hefðu einkaleyfið frá konungi. Samkeppnin hélst lengi þó svo að stundum hafi brotist úr vopnuð átök. Þau átök náðu svo hámarki í svonefndu Grindavíkurstríði árið 1532. Þar unnu Þjóðverjar sigur með tilstyrk Dana og Íslendinga.

Grindavík var fyrst og fremst verstöð

Grindavík

Grindavík – sjóbúðir. Flagghúsið í miðið.

Megin atvinnuvegur bæjarins hefur verið sjávarútvegur Grindvíkinga. Um Jónsmessuleytið 1627 varð atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní.
Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir” rændu en líklega voru þeir um 12 sem hefur verið stórt hlutfall íbúa Grindavíkur á þeim tíma. Að auki féllu nokkrir Grindvíkingar og sjóræningjar í atganginum. Sagan segir að þegar blóð „Tyrkjanna“ og Grindvíkinganna blandaðist á jörðinni hafi orðið til blóðþyrnir sem vex á grasflöt í nágrenni við Valgerðarhús.

Grindavík

Valgerðarhús lengst til hægri.

Grindvíkingar smíðuðu lengi framan af báta úr rekaviði sem svo voru nýttir til róðra á erfiðu en gjöfulu hafsvæði. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900. Þá tók fólki að fjölga í Grindavík, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. Um líkt leyti reis Valgerðarhús. Valgerðarhús var reist út timbri úr strandgóssi stórs seglskips sem strandaði við Hafnir 1881. Ekki er ólíklegt að Einarsbúð hafi verið reist úr timbri úr sama skipi að einhverju leyti. Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Valgerðarhús – sagan

Grindavík

Grindavík – Hér er Valgerðarhús nefnt Júlíusarhús.

Valgerðarhús er staðsett í Járngerðarstaðahverfi og það er í dag eitt af elstu húsum Grindavíkur, hefur sérstaka sögu sem tengist atvinnusögu Grindavíkur. Húsið er skráð hjá Þjóðskrá að það sé byggt árið 1940. En margt bendir til að það sé byggt mun fyrr. Þó húsið sé lítið og lúið á okkar tíma mælikvarða þá var það vel byggt og úr góðu timbri á sínum tíma. Upphaflega húsið er í þokkalegu góðu ástandi fyrir utan ryðgað bárujárn að utan, en heldur lakari timbur er í viðbyggingunni sem byggð er úr gömlu og endurunnu timbri og rekavið. Elsti hluti hússins er á sökkli sem er gerður úr fjörugrjóti sem hlaðið er í múr.
Á gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er Valgerðarhús vel greinilegt og á myndum frá því seint á þriðja áratugnum er húsið nýklætt að utan en á mynd frá því fyrr á þriðja áratugnum sést húsið einnig en þá er það svart að lit og þá líklega vegna tjörgunar. Húsið gæti hafa verið klætt að utan eftir 1927 eða þar um bil eftir að sjávarflóð olli töluverður tjóni í nágrenni Valgerðarhúss.

Grindavík

Grindavík – húsin ofan við fyrstu bryggjuna í Járngerðarstaðarhverfi.

Í upphafi var Valgerðarhús líklega verið nefnt “Sjóbúðin”. Einnig tengist húsið fjölskyldu Einars Jónssonar frá Garðhúsum.
Húsið Valgerðarhús stendur við hlið Verbrautar í Grindavík og er án húsnúmers, var að öllum líkindum byggt einhvern tíman á árunum 1882 til 1889 og því eitt af elstu húsum Grindavíkur.
Burðarviðir hússins eru úr farmi skipsins James Town sem strandaði við Hafnir sunnudagsmorguninn 26. júní 1881. Skipið var hlaðið timbri sem átti að fara til Englands þar sem það átti að notast við lagningu járnbrautarteina. Það var svo 12. og 13. ágúst 1881 sem haldið var uppboð á farminum og skipinu á strandstað við Þórshöfn í Stafnesfjöru. Töluvert af timbri var selt til Grindavíkur, meðal annars á Járngerðarstaði, Garðhús, Klöpp og fleiri bæja innan Grindavíkur.
Líklegast er að timbrið í Valgerðarhús hafi verið keypt af Einari Jónssyni í Garðhúsum, en hann kom einnig að björgunarvinnu við strandið og fékk greitt 6 kr. fyrir leigu á hestum. Einnig keypti hann 162 planka á uppboðinu.
Þeir sem unnu við strandið fengu að eiga ýmsa búta sem notaðir voru við fráganginn á timburfarminum sem var um borð í skipinu. Sagnir eru um að sumir hafi jafnvel getað byggt sér þokkaleg hús úr þessum bútum.

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Ástæða þess að ég tel að Einar eða Dagbjartur, sonur hans, hafi byggt Valgerðarhús, eða í það minnsta átt timbrið sem fór í burðarvirki hússins, er að Einar átti túnið sem var næst Valgerðarhúsi. Einnig átti hann að öllum líkindum beitningarskúrana sem merktir eru inn á túnakortið frá 1918 og voru ekki nema í um 2 metra fjarlægð frá Valgerðarhúsi. Nýlega er búið að rífa beitningarskúrana.
Á túnakortinu er skrifað við hlið skúranna „Fleiri hús“. Hús sem virðast hafa verið á einhverskonar einskismannslandi.
Dagbjartur frá Velli var sonur Einars Jónssonar frá Garðhúsum. Sá sami Einar var einn af björgunarmönnum farmsins úr James Town eins og áður hefur komið fram. Á sama tíma er hann samkvæmt manntalinu frá 1880 “húsb., hreppstjóri, sjávarafli, fjárrækt” þannig að hann hefur verið meiri háttar maður í samfélaginu í Grindavík á sínum tíma. Hann keypti einnig dálítið af plönkum á uppboðinu sem haldið var á farminum úr James Town og flakinu, fyrir utan það timbur sem björgunarmenn fengu að eiga. Eftir að uppboðinu var lokið fengu björgunarmenn að eiga hluta þess viðar sem bjargað var úr skipinu sem þá var komið í eigu H.P. Duus. Sumir fengu fjórðung á meðan aðrir fengu helming þess timburs sem þeir komu í land, mögulega eftir stétt og stöðu hvers björgunarmanns fyrir sig. Eftir að skipið hvarf svo í hafið í haustveðri fannst mikill reki úr skipinu meðfram allri strönd Stafnessins allt frá Garði og út á Reykjanes í töluvert langan tíma.

Niðurstaða

Grindavík

Ég tel að Dagbjartur Einarsson hafi reist Valgerðarhús eftir að hann fer að heiman tvítugur að aldri og þar til hann er sagður húsbóndi í “Sjóbúðinni” árið 1900 í Sóknarmannatali og í sóknarmannatali og manntali 1901. Það er niðurstaða mín að Valgerðarhús var reist einhvern tíman á árunum 1882 – 1889.
Við samanburð á viðnum í Valgerðarhúsi og í Ytri-Ásláksstaðir, elsta uppistandandi íbúðarhús í Sveitarfélaginu Vogum og byggt 1884 úr meðal annars timbri úr James Town, kom í ljós að samskonar burðarviður er í báðum húsunum. Einnig er byggingarstíllinn, gerð sökkuls og stærð mjög áþekk. Þessi samanburður styrkir þá niðurstöðu að Valgerðarhús hafi verið byggt á árunum 1882- 1889.
Til gamans má geta þess að eiginkona Dagbjarts var Valgerður Guðmundsdóttir frá Klöpp og líklega er húsið nefnt eftir henni.
Nöfnin Þorvaldshús og Ólafshús, sem komu í umræðuna á meðan á rannsókninni stóð, skiluðu engu nema að á árunum 1928-1952 og jafnvel síðar var Þorvaldshús prestsbústaður og þar af leiðandi líklega ekki Valgerðarhús.“

Í „Húsakönnun Grindavíkur 2019“ er fjallað um Valgerðarhús:

Sögubrot Grindavíkur
Grindavík
„Stolt hvers byggðarlags er upphaf byggðar og sú merkilega saga sem varð til þess að byggð hófst.
Grindavík á sína verslunar og útgerðarsögu. Saga Grindavíkur hefur ekki verið átakalaus í gegnum aldirnar. Grindavíkurverslun var eina af útstöðvum Kaupsvæðis Reykjavíkur ásamt Hafnarfyrði, Keflavík og Básendar. Mikil samkeppni var um verslun á milli Dana, Hollendinga, Hansakaupmanna (Þjóðverjar)og Englendinga, þó svo að Danir hefðu einkaleyfið frá konungi. Samkeppnin hélst lengi þó svo að stundum hafi brotist úr vopnuð átök. Þau átök náðu svo hámarki í svonefndu Grindavíkurstríði árið 1532. þar unnu þjóðverjar sigur með tilstyrk Dana og Íslendinga.

GrindavíkGrindavík var fyrst og fremst verstöð. Megin atvinnuvegur bæjarins hefur verið sjávarútvegur Grindvíkinga. Um Jónsmessuleytið 1627 varð sá atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní. Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir“ rændu en líklega voru þeir um 12 sem hefur verið stórt hlutfall íbúa Grindavíkur á þeim tíma. Að auki féllu nokkrir Grindvíkingar og sjóræningjar í atganginum. Sagan segir að þegar blóð „Tyrkjanna“ og Grindvíkinganna blandaðist á jörðinni hafi orðið til Blóðþyrnir sem vex á grasflöt í nágrenni við Valgerðarhús.
Grindavík
Grindvíkingar smíðuðu lengi framan af báta úr rekaviði sem svo voru nýttir til róðra á erfiðu en gjöfulu hafsvæði. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900. Þá tók fólki að fjölga í Grindavík, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. Um líkt leiti reis Valgerðarhús. Valgerðarhús var reist út timbri úr strandgóssi stórs seglskips sem strandaði við Hafnir 1881. Ekki er ólíklegt að Einarsbúð hafi verið reist úr timbri úr sama skipi að einhverju leiti.
Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Valgerðarhús
Grindavík
V
algerðarhús er staðsett í Járngerðarstaðahverfi og það er í dag eitt af elstu húsum grindavíkur, hefur sérstaka sögu sem tengist atvinnusögu Grindavíkur. Húsið er skráð hjá Þjóðskrá að það sé byggt árið 1940. En margt bendir til að það sé byggt mun fyrr. Þó húsið sé lítið og lúið á okkar tíma mælikvarða þá var það vel byggt og úr góðu timbri á sínum tíma. Upphaflega húsið er í þokkalegu góðu ástandi fyrir utan ryðgað bárujárn að utan, en heldur lakari timbur er í viðbyggingunni sem byggð er úr gömlu og endurunnu timbri og rekavið. Elsti hluti hússins er á sökkli sem er gerður úr fjörugrjóti sem hlaðið er í múr.
Á gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er Valgerðarhús vel greinilegt og á myndum frá því seint á þriðja áratugnum er húsið nýklætt að utan en á mynd frá því fyrr á þriðja áratugnum sést húsið einnig en þá er það svart að lit og þá líklega vegna tjörgunar. Húsið gæti hafa verið klætt að utan eftir 1927 eða þar um bil eftir að sjávarflóð olli töluverður tjóni í nágrenni Valgerðarhúss.
Í upphafi var Valgerðarhús líklega verið nefnt „Sjóbúðin“. Einnig tengist húsið fjölskyldu Einars Jónssonar frá Garðhúsi.

Valgerðarhús

Í Húsakönnun Grindavíkur 2014 segir: „Sæmundur Sterki átti þetta hús og Guðmundur. Milliloftið í þessu húsi kemur úr skútu sem strandaði við Hafnirnar. Líklega hefur þetta verið geymsla, pakkhús, fiskvinnsla eða beitningaskúr.“

Húsið Valgerðarhús stendur við hlið Verbrautar í Grindavík og er án húsnúmers var að öllum líkindum byggt einhvern tíman á árunum 1882 til 1889 og því eitt af elstu húsum Grindavíkur. Burðarviðir hússins eru úr farmi skipsins Jamestown sem strandaði við Hafnir sunnudagsmorguninn 26. júní 1881. Skipið var hlaðið timbri sem átti að fara til Englands þar sem það átti að notast við lagningu járnbrautarteina. Það var svo 12. og 13. ágúst 1881 sem haldið var uppboð á farminum og skipinu á strandstað við Þórshöfn í Stafnesfjöru. Töluvert af timbri var selt til Grindavíkur, meðal annars á Járngerðarstaði, Garðhús, Klöpp og fleiri bæja innan Grindavíkur.
Líklegast er að timbrið í Valgerðarhús hafi verið keypt af Einari Jónssyni í Garðhúsum, en hann kom einnig að björgunarvinnu við strandið og fékk greitt 6 kr. fyrir leigu á hestum. Einnig keypti hann 162 planka á uppboðinu. Þeir sem unnu við strandið fengu að eiga ýmsa búta sem notaðir voru við fráganginn á timburfarminum sem var um borð í skipinu. Sagnir eru um að sumir hafi jafnvel getað byggt sér þokkaleg hús úr þessum bútum.

Grindavík

Grindavík – framan við Einarsbúð.

Ástæða þess að ég tel að Einar eða Dagbjartur, sonur hans, hafi byggt Valgerðarhús, eða í það minnsta átt timbrið sem fór í burðarvirki hússins, er að Einar átti túnið sem var næst Valgerðarhúsi. Einnig átti hann að öllum líkindum beitningarskúrana sem merktir eru inn á túnakortið frá 1918 og voru ekki nema í um 2 metra fjarlægð frá Valgerðarhúsi. Nýlega er búið að rífa beitningarskúrana. Á túnakortinu er skrifað við hlið skúranna „Fleiri hús“. Hús sem virðast hafa verið á einhverskonar einskismannslandi.
Dagbjartur frá Velli var sonur Einars Jónssonar frá Garðhúsi. Sá sami Einar var einn af björgunarmönnum farmsins úr Jamestown eins og áður hefur komið fram. Á sama tíma er hann samkvæmt manntalinu frá 1880 „húsb., hreppstjóri, sjávarafli, fjárrækt“ þannig að hann hefur verið meiri háttar maður í samfélaginu í Grindavík á sínum tíma. Hann keypti einnig dálítið af plönkum á uppboðinu sem haldið var á farminum úr Jamestown og flakinu, fyrir utan það timbur sem björgunarmenn fengu að eiga. Eftir að uppboðinu var lokið fengu björgunarmenn að eiga hluta þess viðar sem bjargað var úr skipinu sem þá var komið í eigu H.P. Duus. Sumir fengu fjórðung á meðan aðrir fengu helming þess timburs sem þeir komu í land, mögulega eftir stétt og stöðu hvers björgunarmanns fyrir sig. Eftir að skipið hvarf svo í hafið í haustveðri fannst mikill reki úr skipinu meðfram allri strönd Stafnessins allt frá Garði og út á Reykjanes í töluvert langan tíma.

Niðurstaða

Grindavík

Grindavík – Valgerðarhús.

Ég tel að Dagbjartur Einarsson hafi reist Valgerðarhús eftir að hann fer að heiman tvítugur að aldri og þar til hann er sagður húsbóndi í „Sjóbúðinni“ árið 1900 í Sóknarmannatali og í sóknarmannatali og manntali 1901. Það er niðurstaða mín að Valgerðarhús var reist einhvern tímann á árunum 1882-1889.
Við samanburð á viðnum í Valgerðarhúsi og í Ytri-Ásláksstaðir, elsta uppistandandi íbúðarhús í Sveitarfélaginu Vogum og byggt 1884 úr meðal annars timbri úr Jamestown, kom í ljós að um samskonar burðarviður er í báðum húsunum. Einnig er byggingarstíllinn, gerð sökkuls og stærð mjög áþekk. Þessi samanburður styrkir þá niðurstöðu að Valgerðarhús hafi verið byggt á árunum 1882-1889.“

Grindavík - húsakönnunÍ skýrslu Minjasofnunar um húsakönnun Valgerðarhúss  segir m.a.: „Valgerðarhús er hús úr bindingsverki þar sem grindarefnið í það minnsta kemur úr farmi timburflutningaskipsins Jamestown sem strandaði við Hafnir í júní 1881.
Líklegast var húsið byggt milli áranna 1882 og 1889, Í upphafi var það einungis timburklætt að utan en einhverntíman fyrir árið 1920 eða 1930 var húsið klætt með bárujárni eins og sést á gömlum myndum. Á eldri myndum sést að það hefur verið þurkhjallur sjávarmegin á húsinu en hann sést ekki í dag. Hugsanlega hefur húsið skemmst eitthvað í flóðum sem voru 1927 og þá gæti það hafa verið klætt eftir það.
Á einhverjum tímapunkti var byggt við húsið einhverskonar skúrbygging sem er úr mun lakara efni en aðalbyggingin. Valgerðarhús er úr vönduðu unnu sléttu timbri en viðbyggingin úr rekavið og notuðu timbri úr líklega bryggu eða gömlum bát.“
Rétt er að geta þess að umrædd flóð voru árið 1925, en ekki 1927.

Heimildir:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Valgerðarhús, næst elsta hús Grindavíkur – Helgi Biering, bls 56-59.
-Valgerðarhús – Húsakönnun 2019. https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Skyrsla-Valgerdarhuss.pdf
-https://www.grindavik.is/gogn/2020/Grindavik_husakonnun.pdf
-https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Skyrsla-Valgerdarhuss.pdf

Grindavík

Grindavík – Í skýrslu þessari fyrir Járngerðarstaðarhverfi kemur fram á yfirlitsuppdrætti að Valgerðarhús (grænlitað) hafi verið byggt á árunum 1926-1950;  https://www.grindavik.is/gogn/2020/Grindavik_husakonnun.pdf.

Lögreglan

Í Fjarðarfréttum 1969 er grein um aðstöðu lögreglunnar í Hafnarfirði undir fyrirsögninni; „105 kallar stöðina„. Greinin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að í yfirlitsritinu „Lögreglan á Íslandi“ er lítið sem ekkert fjallað um sögu og aðbúnað lögreglumanna annars staðar en í Reykjavík.

Lögregla
„Það var síðla kvölds í marz, að Fjarðarfréttir lögðu leið sína á lögreglustöðina við Suðurgötu. Erindið var að heilsa upp á lögregluþjónana, sem voru á kvöldvakt þetta kvöld og skyggnast inn í heim þeirra manna, sem eiga að halda uppi lögum og reglu í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Það vildi okkur til happs, að lítið hafði rignt um daginn og Suðurgatan því tiltölulega greiðfær. Þegar við komum að lögreglustöðinni var okkur hugsað til þess, að ekki væri gott að vera bláókunnugur maður hér í Hafnarfirði og þurfa á lögregluaðstoð að halda, því einu upplýsingarnar, sem gefnar eru um staðsetningu lögreglustöðvarinnar eru í símaskránni og eru á þá leið að hún sé að Suðurgötu 8.

Varðstofan

Lögregla

Lögreglustöðin við Suðurgötu 8 í byggingu. Sýslumannshúsið h.m. Knattspyrnuleikur milli FH og Hauka á Sýslumannstúninu.

Við göngum inn eftir ganginum og förum inn um dyr til vinstri, inn á sjálfa lögregluvarðstofuna. Þar situr varðstjórinn við borð og er að tala í símann. Hinir lögregluþjónarnir á vaktinni eru í útkalli.
Skyndilega heyrist í talstöðinni:
105 kallar Stöðina. —
— Stöðin svarar —
— Ertu einn? —
— Oh. ah, nei. —
— Jæja, við komum þá inn. —

Lögregla

Knattspyrnuleika FH og Hauka enn í gangi á Sýslumannstúninu. Dvergasteinn lengst t.v., nýja lögreglustöðin og Sýslumannshúsið.

Hvað er að gerast? Það er von að spurt sé. Við erum í þann veginn að kynnast lélegustu aðstæðum, sem lögregla býr við í kaupstöðum landsins.
Samtalið milli lögregluþjónsins og varðstjórans er eitt dæmið um óviðunandi ástand í löggæzlumálum okkar Hafnfirðinga. Húsakynnin eru svo þröng, að allir, sem þurfa að leita til lögreglustöðvarinnar, og þeir eru ófáir, verða um leið áheyrendur, og stundum áhorfendur, að öllu því, sem fram fer. Þau mál, sem lögreglan fjallar um, eru oft þess eðlis, að óverjandi er, að hver og einn geti fylgst með einstökum þáttum þeirra.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

En nú skulum við líta í kringum okkur. Varðstofan er lítið herbergi, um það bil 15 fermetrar, málning á veggjunum sennilega tíu ára gömul, og á þeim má lesa, sem í bók, sögu þeirra atburða, sem hér hafa gerzt undanfarinn áratug. Þetta herbergi er vinnustaður sextán lögregluþjóna og hérna er unnið allan sólarhringinn. Nokkrir lögregluþjónanna hafa dvalizt hér svo áratugum skiptir. Hérna er svarað í síma, skrifaðar skýrslur, sinnt talstöðvarviðskiptum, veitt úrlausn þeim, sem inn koma, geymsla fyrir óskilamuni, skjalageymsla, skrifuð dagbók um öll verkefni yfir hvern sólarhring, og svona mætti lengi telja. Til skamms tíma var þetta herbergi einnig kaffistofa lögregluþjónanna.

Fangelsi

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Skoðum nú aðrar vistarverur í þessu húsi og lítum á það, sem fyrir augu ber. Í húsinu eru 6 fangaklefar, og auðvitað þarf engan fangavörð. Fangagæzla er eitt af störfum varðstjórans og manna hans. Við skulum ganga inn í einn klefann. Okkur verður þungt fyrir brjósti, loftræsting er engin. Rimlar eru fyrir gluggum, eins og venja er á slíkum stöðum, en svo „haganlega“ fyrir komið, að nær ógerningur er að hreinsa gluggakisturnar. Dyraumbúnaður er þannig, að hurðum er krækt aftur, og getur hvaða smábarn, sem villist inn í þessi húsakynni, opnað dyrnar meðan varðstjórinn sinnir e.t.v. símahringingu á varðstofunni. Fangar og lögreglumenn nota eitt og sama salernið, sem staðsett er í kompu undir stiga og allt hið óvistlegasta. Dæmi eru til þess, að gæzlufangar hafi þurft að dveljast í þessum fangaklefum yfir mánaðartíma. Eitt sinn var hérna fangi, sem var haldinn kynsjúkdómi, og að sjálfsögðu varð hann að nota sama salerni og samfangar hans ásamt lögregluþjónunum. Vonandi er slíkt einsdæmi á Íslandi á tuttugustu öld. Allir veggir hér eins og á varðstofunni bera ljóst vitni um að málning er bannorð, það er eins og veggirnir blygðist sín fyrir útlitið. Okkur léttir, er við yfirgefum fangaklefana.

Kaffistofa

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, við störf á varðstofunni.

Næst komum við í kaffistofu lögregluþjónanna. Í þessu herbergi, sem er um það bil 7 m2, var rannsóknarlögreglan til húsa. Þegar skrifstofur bæjarfógeta fluttu í hið glæsilega húsnæði sitt, sem gjörbreytt hefur allri starfsaðstöðu embættisins, fékk rannsóknarlögreglan sæmilega aðstöðu annars staðar í húsinu. Rættist þá loksins langþráður draumur lögreglumannanna í Hafnarfirði. Þeir fengu þetta litla herbergi fyrir kaffistofu.
Settur var upp lítill vaskur og skápur, en þeir urðu þó að mála „stofuna“ sjálfir.

Talstöðin

Lögregla

Hér voru gamla Sýslumannshúsið og lögreglustöðin við Suðurgötu 8.

Við heyrum óm af samtali og skundum inn á varðstofuna. Eitt af mikilvægustu tækjum við nútíma löggæzlu er talstöðin, og hún er mikið notuð hér. Umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði nær allt frá Reykjanestá að Botnsá í Hvalfirði.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á stríðsárunum. Sýslumannshúsið í bakgrunni, Drengurinn er Hörður Guðmundsson – Fred Harry Wharton.

Ætla má að lögreglustöðin geti haft samband við lögreglubíl hvar sem er á þessu svæði, en það er nú öðru nær. Dæmi eru til þess að lögreglan hefur orðið að leita til leigubílstjóra til þess að flytja skilaboð til lögreglustöðvarinnar. Þegar komið er suður fyrir Kúagerði má heita að sambandslaust sé við lögreglubíl, sem þar er á ferð. Ef árekstur verður í Mosfellssveit eða á Kjalarnesi rofna tengslin milli lögreglubíls og stöðvarinnar um það leyti sem farið er yfir Elliðaárnar. En leigubílstjórar í Hafnarfirði geta með góðu móti talað við „kollega“ sína á Kjalarnesi og í Keflavík. Hvers á Lögregla Hafnarfjarðar og íbúar umdæmisins að gjalda?

500.000 km

Lögreglan

Lögreglubíll lögreglunnar í Hafnarfirði 1972.

Bílar Hafnarfjarðarlögreglunnar eru kafli út af fyrir sig. Þeir eru tveir, annar af árgerð 1966 og í sæmilegu lagi, en hinn af árgerð 1964 og má heita ónýtur, enda hefur honum verið ekið yfir 500.000 km, og það að mestu á götum
Hafnarfjarðar.
Heimsókn okkar er senn lokið. Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um atriði eins og þau, að allar skýrslur lögreglunnar eru skrifaðar á aflóga ritvélar frá skrifstofu bæjarfógeta og hvergi fæst aðstaða fyrir lögregluþjóna, til að halda við þeirri líkamlegu þjálfun, sem hverjum lögreglumanni er nauðsynleg.
Eðlilegt er, að fyrir hverja 500 íbúa í þéttbýli starfi einn lögregluþjónn, og ættu samkvæmt því að vera 18 lögregluþjónar í Hafnarfirði einum, fyrir utan þá, sem ráðnir eru á vegum Garðahrepps og sýslunnar. Mikil bót var að stofnun rannsóknarlögregluembættis hér í bæ, og hefur það komið skýrt í ljós, hvað bætt starfsaðstaða má sín mikils, en þó þyrfti að fjölga þar um a. m. k. einn mann, ef vel ætti að vera.

Ný lögreglustöð

Lögregla

Gamla sýslumannshúsið við Suðurgötu.

Hver hugsandi maður, sem kynnir sér starfsaðstöðu lögreglunnar, hlýtur að sjá, að hún er bæjarfélaginu og sýslunni ekki til sæmdar.

Lögregla

Ný lögreglustöð í Hafnarfirði við Flatahraun.

Margt má lagfæra nú þegar, en auðvitað er framtíðarlausn þessara mála aðeins ein, nýtt og veglegt húsnæði fyrir löggæzluna. Nú þegar er tímabært að skipa nefnd til að undirbúa byggingu slíks húss.
Við Hafnfirðingur eigum góðu lögregluliði á að skipa. Starf þeirra er erilsamt og oft hættulegt. Lágmarkskrafa þeirra til bæjarfélagsins er mannsæmandi starfsaðstaða.
Vafalaust mun okkar ágæti bæjarfógeti beita sér fyrir umbótum á þessu sviði, og mun þá væntanlega ekki standa á öðrum, sem til þarf að leita vegna lausnar þessa máls.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir Árni Óla frá „Fyrsta lögregluþjóninum í Hafnarfirði„:
lögregla„Það eru nú rúm 43 ár síðan (1908) að Hafnfirðingar komu á löggæslu hjá sjer, og fyrsti lögregluþjónninn þar er enn á lífi og við góða heilsu. Hann heitir Jón Einarsson, Hafnfirðingur í húð og hár, fæddur þar og hefur alið þar allan aldur sinn. Mun varla ofmælt að hvert mannsbarn í Hafnarfirði þekki hann, en fæstir munu nú minnast þess að hann var þar eitt sinn vörður laga og rjettar og gekk um göturnar í einkennisbúningi. Hitt er mönnum kunnara, að hann hefur verið verkstjóri í fjölda mörg ár. Hann á heima í „miðbænum“ í Hafnarfirði, Strandgötu 19, og hefur lengi átt þar heima. En þegar hann bygði húsið sitt var öðruvísi þar um að litast en nú. Þá sköguðu úfnir hraunklettar fram í dimma götuna, sem í rauninni var ekki, annað en sjávarkambur með möl og skeljasandi, en nú er þetta „fínasta“ gatan, sem til er á landinu, öll steinsteypt og uppljómuð af tindrandi „fluoresent“ ljósum, svo að þar ber hvergi skugga á og nóttin verður þar svo að segja að björtum degi. Hafnarfjörður hefur tekið stakkaskiftum síðan Jón var þar lögregluþjónn og átti í brösum við ofbeldisseggi og skúmaskotsmenn.

Hafnarfjörður 1910

Lögregluþjónar voru ráðnir í Hafnarfirði áður en staðurinn fengi nokkra lögreglusamþykt. Utanaðkomandi áhrif rjeðu því. Fram að þeim tíma hafði Hafnarfjörður verið friðsældarbær, þar sem menn gengu snemna til náða og fóru snemma á fætur. Reglusemi og nægjusemi mótaði líf manna, og Í bæjarbragur var allur með uðrum hætti en í Reykjavík. Þótt skamt væri á milli og íbúar Hafnarfjarðar orðnir um 1500, drógu þeir ekki dám að stórborginni Reykjavík, þar sem voru þá um 11.000 íbúa. En ástæðan til þess að Hafnfirðingar fengu sjer lögregluþjón var sú, að allmikil breyting hafði orðið þar á árið 1906, eins og nú skal sagt.
Hafnarfjörður
Lögregluþjónn var valinn Jón Einarsson, eins og fyr er sagt, en næturvörður Jón Hinriksson, er seinna varð kaupfjelagsstjóri í Vestmannaeyjum. Voru þeir báðir á besta aldri, hin mestu karlmenni og ljetu sjer ekki alt fyrir brjósti brenna. Þeir byrjuðu starf sitt í apríl og var verkum þannig skift með þeim, að annar fór á vörð kl. 9 á morgnana og var á ferli fram til kl. 3. Þá tók hinn við og var einn á verði til kl. 7, en síðan voru þeir báðir á verði á kvöldin og stundum alla nóttina fram til morguns, þegar mest var ónæðið af hinum útlendu sjómönnum.

Ekkert að gera endranær

Hafnarfjörður 1908

Hafnarfjörður 1908.

Jón Hinriksson sagði starfi sínu lausu um haustið og var þá Einar Ólafsson (tengdafaðir sjera Jakobs Jónssonar) ráðinn næturvörður.
„Um vorið var jeg orðinn svo leiður á þessu starfi, sem mjer fanst ekkert starf vera, að jeg fekk mig leyst an frá því. Þetta átti ekki við mig. Þegar ekkert var um að vera í bænum, fanst mjer jeg vera að slæpast og skammaðist mín fyrir þeim sem voru að vinna. Og það var hjer um bil aldrei neitt að gera nema þegar útlendingar voru með óspektir og drykkjulæti. Aðalstarfið á nóttunni var að líta eftir bátum, ef eitthvað var að veðri, líta eftir skepnum að þær flæddi ekki, hafa gætur á hvort nokkurs staðar yrði vart við eld og hafa gát á kolabyngunum, svo að eldsneytislausir menn hnupluðu ekki nokkrum kola molum. Á daginn var bókstaflega ekkert að gera.

Jón bergmann

Jón Sigurður Sigfússon Bergmann (1874-1927).

Jón Bergmann skáld varð lögregluþjónn þegar jeg hætti, en hélst ekki lengi því starfi. Og lögregluþjónar og næturverðir voru að koma og fara. Norðmenn hurfu líka, útgerð Friis féll niður sumarið eftir, og þá urðu aftur rólegir dagar í Hafnarfirði. Það var ekki fyr en eftir 1930 að komið var upp skýli til þess að stinga ölvuðum mönnum inn í.
Nú er orðin mikil breyting á þessu. Nú eru hjer 7 eða 8 lögregluþjónar, varðstöð opin allan sólarhringinn með síma og bílum til skyndiferða. Og nú er hjer komið fangahús og fangavörður. Hefur það verið sniðið svo við vöxt, að það getur oft tekið við mönnum frá Reykjavík, sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar. Þó er þetta fangahús ekki nema fyrir 6—8 menn. Það sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekki mikið á því að halda, enda þótt hjer eigi heima rúmlega 5000 manna. Hafnarfjörður er enn friðsæll bær og Hafnfirðingar friðsamir og háttprúðir menn, eins og þeir hafa alltaf verið“. – Á.Ó.

Heimildir:
-Fjarðarfréttir, 1. árg. 07.04.1969, !105 kallar stöðina“, bls. 8 og 6.
-Lesbók Morgunblaðsins, 46. tbl. 01.12.1951, Fyrsti lögregluþjónn í Hafnarfirði – Árni Óla, bls. 572-575.

Hafnarfjörður

Eldborgir

Í Andvara 1973 er grein eftir Finnboga Guðmundsson; „Gripið niður í fornum sögum – og nýjum„:

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Þar segir m.a. annars: „Hvað er það í fornum frásögnum, er hrífur oss einna mest? Eru það ekki hinir einföldu drættir og skýru myndir, sem þar er tíðum brugðið upp?
Vér skulum líta á t.a.m. örfáar frásagnir af jarðeldum eða öðrum náttúruhamförum“.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Í Landnámabók segir svo frá: „Allir kannast við frásögn Kristnisögu af því, er menn deildu sem fastast um hinn nýja sið á alþingi sumarið 1000 og maður kom „hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða [er þá hafði tekið kristni].
Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í, að goðin reiðist tölum slíkum.“

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eftir það gengu menn frá lögbergi.
Jarðfræðilegar athuganir á Eldborgarhrauni og hraunum Hellisheiðar hafa leitt í ljós, að frásagnir Landnámabókar og Kristnisögu af fyrrnefndum jarðeldum fá að öllum líkindum staðizt, að Eldhorgarhraun hið yngra hafa raunverulega runnið á landnámsöld og hraun hafi teygt arma sína af Hellisheiði ofan í byggð sumarið 1000.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1973, Gripið niður í fornum sögum – og nýjum – Finnborgi Guðmundsson, bls. 100-101.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Kotvogur

Í bókinni „Hafnir á Reykjanesi„, skrifaða af Jóni Þ. Þór, er saga byggðar og mannlífs í Höfnum rakin í ellefu hundruð ár.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

„Fornar heimildir eru fáorðar en gagnorðar um upphaf mannvistar í Höfnum. Í Sturlubók Landnámu segir stutt en laggot; Herjólfr hét maðr Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámsmanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfr land milli Vágs ok Reykjaness (Íslensk fornrit I,1 (1968, 132).
Miklu stuttorðari gat þessi frásögn vart verið, en önnur gerð Landnámu, Hauksbók, hermir, að Herjólfur hafi verið „frændi Ingólfs ok fóstbróðir“, og því hafi Ingólfur gefið honum landið.
Um Herjólf Bárðarson, landnámsmanns í Höfnum, er lítið vitað umfram það, sem segir í áðurtilvitnaðri Landnámugrein. Við vitum ekki, hvort hann var kvæntur, er hann kom til Íslands og settist að í Höfnum, ekki heldur hvort hann kom á eigin skipi með eigin föruneyti. Má þó telja hvort tveggja mjög líklegt. Um stöku afkomendur hans vitum við hins vegar öllu meira, og í hópi þeirra var maður, sem frægur er í þjóðarsögunni, og reyndar í gjörvallri sögu siglinga og landkönnunar við norðanvert Atlantshaf.

Hafnir

Hafnir.

Sonur Herjólfs hét Bárður, og kemur hann hvergi við sögu, nema þar sem hans er getið sem föður sonar síns. Sonurinn var skírður Herfólfur, í höfuðið á afa sínum í Höfnum, og segir í Grænlendinga sögu, að hann byggi á Drepstokki, en sú jörð var skammt vestan Eyrarbakka. Kona hans hét Þorgerður, og sumarið 985, eða 986, afréðu þau að bregða búi á Drepstokki og héldu til Grænlands með Eiríki rauða. Á Grænlandi reistu þau sér bæ á Herjólfsnesi og bjuggu þar (Íslendingasögur I (1953), 365-366).
Hafnir
Þau Herjólfur og Þorgerður á Drepstokki áttu son, sem Bjarni hét, og varð hann án alls efa nafnkenndastur allra afkomenda Herjólfs Báraðarsonar landnámssmanss í Höfnum. Hann þótti snemma mannvænlegur og fýsti ungan utan, svo sem títt var um tápmikla unga menn á þeim tíma.

Hafnir

Hafnir – Kirkjuvogur.

Vegnaði honum vel í förum, og leið ekki á löngu, uns hann stýrði eigin skipi á milli landa. Siglingartækni 10. aldar gerði það að verkum, að farmenn komust sjaldan nema aðra leiðina á milli Íslands og Noregs á sumri hverju, og hermir Grænlendinga saga, að Bjarni hafi veriðð “ sinn vetr hvárt, útan lands eða með feðr sínum“ (Íslendingasögur I (1953), 365). Síðasta veturinn, sem hann dvaldist í Noregi, brugðu foreldrar hans búi á Drepstokki og héldu til Grænlands. Er Bjarni kom heim sumarið eftir, spurði hann tíðinda. Af viðbrögðum hans og því, sem á eftir fór, segir í Grænlendinga sögu. Frásögn hans af ferð hans og áhfnar hans til Ameríku, án þess þó að stíga þar á land, varð til þess að landi hans, Leifur Eiríksson, hélt að leita landa í vestri.
Hafnir
Lengra komumst við ekki með sögu afkomenda Herjólfs Bárðarsonar, þeirra sem fæddir eru á Íslandi. Víkur þá sögunni aftur til landnámsins í Höfnum.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Af frásögn Landnámu verður ekki ráðið með neinni vissu, hvenær Herjólfur kom til Íslands. Hann gæti hafa komið með Ingólfi, jafnvel verið skipverji hans, eða að hann gæti hafa komið nokkrum árum síðar og þá væntanlega á eigin skipi með eigin föruneyti. Erfitt er að skera úr um, hvor möguleikinn sé líklegri, en flest bendir til þess, að Herfjólfur hafi numið land fremur snemma á landnámsöld, að öllum líkindum fyrir 900.
Engar nákvæmar lýsingar eru til á landnámi Herjólfs Bárðarsonar. Orðalagið „á milli Vágs og Reykjaness“ tekur ekki af tvímæli, en bendir til þess að hann hafi þegið strandlengjuna norðan frá Ósabotnum, suður og austur [?] að Reykjanestá, að gjöf frá frænda sínum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

Vafalítið hefur hann þó helgað sér stærra landsvæði en strandlengjuna. Hversu stórt það var vitum við ekki, en hugsanlegt er að Herjólfur hafi fylgt þeirri aðferð er Haraldur konungur hárfagri lagði fyrir menn að fylgja við helgun lands: „Menn skyldu eld gera, þá er sól væri í austri; þar skyldi gera aðra reyki, svá at hvára sæi frá öðrum, en þeir eldar, er gjörvir váru, þá er sól var í austri, skyldi brenna til nætr; síðan skyldu þeir ganga til þess, er sól væri í vestri, ok gera þar aðra elda“ (Íslensk fornrit I,2 (1968), 337-339).
Landshættir hljóta að hafa ráðið nokkru um umfang og takmörk landnáms Herjólfs og ekkert var eðlilegra en að suður- og austurmörk þess væru við Reykjanestá og Stapafell, norður- og vesturmörk við Ósabotna [?].
Hafnir
Enga vitnesku er um það að hafa af fornum heimildum, hve margt fólk var í för með Herjólfi er hann settist að í landnámi sínu, og við vitum ekki, hvar hann reisti sér bú. Hafi hann komið til Íslands á eigin skipi, getur sú tilgáta þó trauðla talist ósennileg, að í föruneyti hans hafi verið a.m.k. tíu til tólf manns. Það fólk hefur trúlega fylgt honum suður í Hafnir og þegið af honum land.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Má þá hugsa sér, að byggð hafi fyrst risið þar sem mynduðust þrjú hverfi, í Kirkjuvogi við Ósabotna, á Merkinesi og Kalmanstjörn. Á öllum þessum stöðum var búsældarlegt á landnámsöld, útræði bærilegt og hagar fyrir búfé að líkindum góðir. Hvar Herjólfur sjálfur settist að, vitum við hins vegar ekki með vissu, en hugsanlegt er, að hann eða einhverjir förunauta hans hafi reist sér bú nálægt þeim stað, sem nú er Kirkjuvogshverfi í Höfnum.
Haustið 2002 sást við athugun á loftmyndum. sem teknar voru á þessu svæði, „greinilegt skálalaga form skammt austur af kirkjunni í Höfnum“. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, gróf stuttu síðar tvær prufuholur á stað, u.þ.b. 80 metra ANA af Kirkjuvogskirkju og benda fyrstu niðurstöður þeirar rannsóknar til þess, að þarna séu leifar af skála frá landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Fátt verður fullyrt af þessari rannsókn um hina fyrstu byggð í Höfnum og varasamt að draga of víðtækar ályktanir af henni á þessu stigi. Frekari fornleifarannsóknir geta þó trúlega varpað ljósi á byggð á þessum slóðum á landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Hreppar voru stofnaðir hér á landi á þjóðveldisöld og voru hvort tveggja í senn, framfærslu- og stjórnunareiningar. Ekki er fulljóst, hvenær landinu var skipy í hreppa né hvaða reglum var fylgt við skipunina, en flest bendir til þess, að hreppaskiptingin hafi komist á fyrir lögtöku tíundar árið 1097, og víðast hvar virðast landshættir hafa ráðið hreppamörkum. Hið síðara var þó ekki algilt og má ef til vill hafa Hafnahrepp til marks um það.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Engar heimildir hafa varðveist, er segi sérstaklega frá stofnun Hafnahrepps, og hljótum við að hafa fyri satt, að hann hafi orðið til sem sjálfstæð framfærslu- og stjórnunareining er hreppaskipting komst á. Hann hefur þó vafalaust verið meðal minnstu hreppa landsins, og óvíst, að tuttugu þingfararkaupsbændur hafi verið búsettir innan endimarka hans.

Hafnir

Hafnir (MWL).

Þegar þannig stóð á, þurfti sérstakt leyfi lögréttu til hreppastofnunar (Íslensk fornrit I,2 (1968), 180). Við vitum að sönnu ekkert um fjölda bænda í Höfnum á þjóðveldisöld, en árið 1703 var aðeins getið seex lögbýla í Hafnahreppi, og voru þrjú þeirra í eyði, og höfðu verið lengi (JÁM III, 26-34). Býli geta vissulega hafa verið fleiri í hreppnum fyrr á öldum, en óvíst er, hvort þau voru svo mörg, að hreppurinn hafi uppfyllt áðurnefnt skilyrði Grágásalaga um fjölda þingvararkaupsbænda. Ber þó að hafa í huga, að vel getur hreppurinn hafa verið fjölbyggðari fyrir Reykjaneselda á 13. öld.

Hafnir

Hafnir.

Líklegast er, að Hafnahreppur hafi í upphafi orðið til úr landnámi Herjólfs Bárðarsonar og að mörk hans hafi lítið sem ekki breyst í aldnanna rás. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi lýsti hreppamörkum eins og þau voru árið 1934 með þessum orðum: „Hafnahreppur takmarkast af Miðneshrepp að norðan, Njarðvíkurhrepp að austan, en Grindavíkurhrepp að sunnan“ (Örn. 2502).
Þannig hafa hreppamörkin að líkindum verið frá fyrstu tíð, og þótt þau hafi breyst lítilsháttar á seinni tímum, einkum á 20. öld, gefa þau þá dágóða hugmynd um landnám Herjólfs Bárðarsonar í Höfnum og stærð þess.“

Heimild:
-Hafnir á Reykjanesi – Jón Þ. Þór, saga byggðar og mannlífs í ellefu hundruð ár. Reykjanesbær 2003.
Hafnir