Færslur

Garðaflatir

Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á.

Garðaflatir

FERLIRsfélagar ofan við tóft á Garðaflötum.

Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, en þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést þar til skamms tíma”.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.

Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá, í Helgadal, Kaldárseli og í Selgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.

Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi skráð fund eða haft orð á hvar tóftir kynnu þar að leynast.

Garðaflatir

Garðaflatir – hluti af minjunum.

FERLIR var nýlega á ferð á Garðaflötum. Með framangreinda sögu að leiðarljósi var ákveðið að leita svæðið og kanna hvort þar væru einhverjar minjar að finna. Vetrarsólin var lágt á lofti þótt um miðjan dag væri. Við leit fundust a.m.k. fimm tóttir, þar af ein mjög stór, sem og garður umleikis. Stærsta tófin er syðst, norðan hennar virðist vera gerði og garður út frá því. Innar eru minni tóftir.
Fundurinn gefur sögunni byr undir báða vængi. Nú þarf bara að kanna svæðið betur og aldursgreina minjarnar.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðfræði

Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar af Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu:

Forsöguleg gos;
-fyrir um 16 000 000 árum – elsta berg sem þekkt er á Íslandi myndaðist í hraungosi.
-200.000 ára – elsta berg á Reykjanesi – Rosmhvalanes og Stapi.
-um 1000 f.Kr. – Katla. Tvö öskulög á Suðurlandi og Reykjanesskaga.
-um 250 e.Kr. – Snæfellsjökull

Gos á sögulegum tíma;

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

-um 900 – Afstapahraun.

-934 – Katla og Eldgjá. Mikið hraunflóð úr Eldgjá rann yfir Álftaver, Meðalland og Landbrot. Sennilega sá jarðeldur, sem Molda-Gnúpur og hans fólk hrökklaðist undan skv. Landnámu. Landnáma segir einnig frá myndun Sólheimasands í miklu hlaupi Jökulsár.

-999 eða 1000 – Svínahraun.

-1151 – Krýsuvíkureldar. Gos í Trölladyngju; Ögmundarhraun og Kapelluhraun renna.

-1188 – ? Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun runnu.

-1210-11 – undan Reykjanesi. Eldey myndaðist.

-1223 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1225 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

-1226-27 – nokkur gos á Reykjanesi. Þeim eru eignuð Yngra Stampahraun, Tjaldstaðagjárhraun, Klofningahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Sandvetur af völdum mikils öskugoss við Reykjanestá og féll svokallað Miðaldalag. Harðindi og mikið mannfall í kjölfarið.

-1231 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1238 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1240 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1340 – Brennisteinsfjöll.

-1422 – undan Reykjanesi. Eyja myndast og stendur í nokkur ár.

-1582 – við Eldey.

-1783 – á Reykjaneshrygg suðvestur af Eldey. Nýey reis úr sjó en hvarf fljótt aftur.

-1879 – Geirfuglasker .

-1884 – nálægt Eldey. Óljósar heimildir.

-1926 – við Eldey. Ólga í sjónum í nokkrar klst.

Sjá meira undir “Eldgosaannáll Íslands” á vefslóðinni:
-//is.wikipedia.org/wiki/Eldgosaann%C3%A1ll_%C3%8Dslands“

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Landnáma

Á Vísindavef HÍ má lesa eftirfarandi skrif Sverris Jakobssonar um aldur landnámu:

Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson.

Landnámu má nota bæði sem frásögn og sem leif. Hún er leif um það að Íslendingar voru byrjaðir að skrifa um landnámið á 12. öld. Hún sýnir okkur einnig hvernig þeir skrifuðu um það og hvað þeim fannst mikilvægt að segja frá í sambandi við það. Þá er varðveislusaga Landnámu til vitnis um áframhaldandi áhuga Íslendinga á landnámi á síðari öldum, þegar hinar og þessar gerðir Landnámu urðu til.
Sem frásögn er hún ekki eins áreiðanleg heimild, því að hún lýsir atburðum sem gerðust um 200 árum áður en Landnáma var fyrst fest á blað. Ef miðað er við varðveittar gerðir Landnámu getur munurinn numið allt að 400 árum. Margt í þeirri Landnámu sem við þekkjum er endursögn úr Íslendingasögum, en svokölluð frum-Landnáma er líklega eldri en elstu Íslendingasögur. Fræðimenn eru ekki sammála um heimildargildi frásagnarinnar af landnáminu, hvort hún sé safn goðsagna eða rétt í meginatriðum. Fáum dettur þó í hug að trúa öllu því sem sagt er frá í Landnámu.

Landnáma

Landnáma.

Ekki er ólíklegt að Landnáma hafi verið notuð sem heimild þegar á 12. öld þegar norskir konungasagnaritarar segja frá fundi Íslands í verkunum Historia de antiquitate regum Norwagiensium og Historia Norwegiæ, sem samin voru á latínu. Þó verður ekki sannað með vissu að þeir hafi stuðst við skrifaða Landnámugerð. Á 13. öld vitum við um Landnámugerð eftir Styrmi Kárason (d. 1245), príor í Viðey, sem nú er glötuð. Elstu gerðir ritsins sem enn eru varðveittar eru fyrst ritaðar um 1300. Ein er eftir Sturlu lögmann Þórðarson (1214-1284), önnur eftir Hauk lögmann Erlendsson (d. 1334) og sú þriðja eftir Snorra lögmann Markússon (d. 1313) eða einhvern náskyldan honum.

Landnáma

Landnáma.

Áhugi á landnáminu lifði áfram á Íslandi. Um 1600 styðst Arngrímur Jónsson lærði (1568-1648) við Landnámu í ritum sínum um Íslandssögu, sem hann samdi á latínu fyrir erlendan markað. Þá skrifuðu Björn Jónsson á Skarðsá (1574-1655) og Þórður Jónsson í Hítardal (1609-1670) upp Landnámu og eru handrit þeirra mikilvæg heimild um samband ólíkra gerða ritsins.
Landnáma var fyrst prentuð í Skálholti 1688 og stóð Þórður biskup Þorláksson (1636-1697) fyrir því. Á 20. öld gerðu Finnur Jónsson (1858-1934), prófessor í Kaupmannahöfn, og Jakob Benediktsson (1907-1999), forstöðumaður Orðabókar Háskólans, vísindalegar útgáfur af öllum handritum sögunnar sem síðan er stuðst við. Þá gaf Jakob út Landnámu á vegum Hins íslenska fornritafélags 1968 (Íslenzk fornrit I. Íslendingabók, Landnámabók) og má nota þá útgáfu til að kynna sér ritið og álitamál tengd því nánar en frá er sagt hér.

Landnáma

Landnáma.

Að lokum má nefna að þegar haldið var upp á 1000 ára afmæli Íslands árið 1874 var ártalið reiknað með hliðsjón af Landnámu. Íslendingabók Ara fróða segir hins vegar ekki að fundur Íslands hafi orðið árið 874. Landnáma er því enn talin grundvallarheimild um hvenær halda skuli upp á afmæli Íslandsbyggðar.”

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=837

Landnáma

Landnáma.

Gullbringa

Gullbringusýsla sem slík á sér merka, en margflókna, sögu. Hér verður reynt að gera henni svolítil skil.

Í bókinni Landnám Ingólfs II eftir Magnús Grímsson er þess getið að Gullbringusýsla sé kennd við fornkonuna Gullbryngu og munnmæli herma að hún hafi átt kornakra í Sáðgerði (Sandgerði).
HjartaGullbringusýsla er fyrst nefnd í skjali frá árinu 1535 og náði hún yfir hluta hins forna Kjalarnesþings. Gullbringa er sýnd á herforingjaráðskortum sem hæðarbunga við suðaustanvert Kleifarvatn (308 m). Stefán Stefánsson sem kallaður var “gæd” (af “guide”) taldi það þó hæpið, þar sem kunnugir menn á þessum slóðum hefðu jafnan kallað lyngbrekku þá sem er vestan í Vatnshlíðinni Gullbringu og nær hún niður undir austurströnd vatnsins.
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi sagði að grasbrekkur frá Hlíðarhorni vestra og austur að Hvannahrauni (Hvammahrauni) væru nefndar Gullbringur (Örnefnaskrá í Örnefnastofnun).
Jón Ólafsson úr Grunnavík taldi að nafnið Gullbringa nærri Geitahlíð væri frá Dönum komið sem hafi talið það fallegt og viðeigandi þar sem staðurinn lá nærri sýslumörkum við Árnessýslu. (Kristian Kålund: Íslenzkir sögustaðir I:51). Álitið er að staðurinn hafi fyrrum verið blómlegri en síðar hefur orðið vegna uppblásturs.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hér fellur Mígandi fram af berginu í skorunni nær.

Ekki virðast beinar heimildir um þinghald í eða við Gullbringu og er því margt á huldu um þessa nafngift. Gullbringur eru í Mosfellsheiði, en sýslunafnið getur ekki átt við þær þar sem þær eru ekki í sýslunni. Örnefnið Gullbringa eða -bringur er til víðar á landinu og virðist merkingin vera ‘gróðursælt land’.
Á ferðum FERLIRs um svæðið hefur bæði mátt sjá suðurbak Gullbringu “gullhúðað” í hádegissólinni á vetrum og hlíðina ofan hennar “gullbikaða” í kvöldsólinni á sumrin.

Skv. Járnsíðu (1271) og Jónsbók (1281) var landinu skipt í 12 þing (umdæmi) Suðurnes voru í Kjalarnesþingi.
Gullbringusýslu er fyrst getið 1535 og Kjósarsýslu er fyrst getið 1637. Mörk milli sýslnanna voru lengst af við Elliðaár.
Gullbringu- og Kjósarsýsla voru sameinaðar með konunglegri tilskipun 19. mars 1754.
Skv. tilskipun 28. júní 1781 voru Landfógeta falin fjármál og löggæsla í Gullbringusýslu.
Með konungsúrskurði 9. maí 1806 voru fjármál og löggæsla færð frá Landfógeta til héraðsdómara í Gullbringusýslu, sem fór þá með öll sýsluvöld.

Hnúkar

Í Hnúkum.

Reykjavík varð að sérstöku lögsagnarumdæmi með konungsúrskurði 15. apríl 1803 og þar skipaður sérstakur bæjarfógeti.
Árið 1874 var bæjarfógetaembættið í Reykjavík sameinað sýslumannsembættinu í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Árið 1878 var bæjarfógeti skipaður í Reykjavík og embættin aðskilin. Reykvíkingar undu sambúðinni illa og 16. ágúst 1878 voru embættin aðskilin á ný og sérstakur bæjarfógeti skipaður í Reykjavík. Allt land Reykjavíkur var áður í Seltjarnarneshreppi. Með lögum 1923 stækkaði Reykjavík með yfirtöku jarða í Mosfellshreppi.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Árin 1878 til 1908 varð bæjarfógetinn í Hafnarfirði og sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landshöfðingi samþykkti að skipta Álftaneshreppi 17. september 1878 í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp. Hafnfirðingar undu þessu illa og vildu vera sér og eftir 30 ára baráttu varð Hafnarfjörður kaupstaður 1. júní 1908.

Þann 3.10.1903 var samþykkt á Alþingi að Gullbringu- og Kjósarsýslu myndi verða skipt upp í tvö sýslufélög. Annað er hin forna Kjósarsýsla og Seltjarnarneshreppur. Hitt er Bessastaðahreppur, Garðahreppur, Vatnsleysustrandarhreppur, Njarðvíkurhreppur, Rosmhvalaneshreppur, Miðneshreppur, Hafnarhreppur, og Grindavíkurhreppur. Eitt sýslumannsembætti, með aðsetur í Hafnarfirði, fór með málefni beggja sýslna. Með lögunum voru mörk milli sýslnanna flutt frá Elliðaám að hreppamörkum Seltjarnarneshrepps þar sem þau lágu þá að mörkum Garða- og Bessastaðahrepps.

Kristján X

Kristján X.

Árið 1938 var skipaður lögreglustjóri í Keflavíkur. Með lögum 16/1934, undirskrifuð í Amalíuborg 25. janúar 1934 af Christian R. (Kristján tíundi (R.=Rex (konungur)) var ákveðið að skipa lögreglustjóra í Keflavíkurhreppi og skyldi hann einnig fara með dómsvald í lögreglumálum, innheimtu opinberra gjalda, fógetavald og hreppstjórastörf í Keflavíkurhreppi. Embættinu var komið á laggirnar 1. janúar 1938 og Alfreð Gíslason var skipaður lögreglustjóri, reyndar frá 31. desember 1937. Fram að þeim tíma hafði sýslumaður Gullbringusýslu með aðsetri í Hafnarfirði stjórnað löggæslumálum í Keflavík. Embættinu fylgdi ekki dómsvald einungis framkvæmdavald.
Þegar Keflavík varð kaupstaður 1. apríl 1949 var Alfreð skipaður bæjarfógeti í Keflavík og gegndi því starfi til 19. apríl 1961 þegar hann fékk lausn frá starfi og varð bæjarstjóri í Keflavík frá 8. júní 1961. Eggert Jónsson f. 22. maí 1919, sem verið hafði bæjarstjóri var skipaður bæjarfógeti í Keflavík frá 1. júlí 1961 og gegndi því starfi til dauðadags en hann lést ungur maður 18. júlí 1962. Alfreð var þá aftur skipaður bæjarfógeti í Keflavík frá 5. september 1962.
Festisfjall1. apríl 1949 fær Keflavíkurhreppur kaupstaðarréttindi og lögreglustjórinn verður jafnframt bæjarfógeti í Keflavík. Auk lögreglumála og dómsvalds í þeim fer hann nú með önnur dóms- og umboðsstörf í Keflavík.
Með bráðabirgðalögum sem sett voru 19. janúar 1954 var embætti Lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli komið á fót. Þann 8. apríl 1954 voru samþykkt lög á Alþingi um lögreglustjóraembættið og tóku þau þegar gildi. Umdæmið var samningssvæði þau á Reykjanesi, sem varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tók til og eru eign ríkisins. Lögreglustjórinn fór með sömu störf og sýslumenn og bæjarfógetar.

Seltjarnarneshreppi var skipt 1948 í Seltjarnarneshrepp og Kópavogshrepp. Kópavogur varð kaupstaður 1955 og fór undan sýslunni. Sigurgeir Jónsson var skipaður bæjarfógeti í Kópavogi 11. ágúst 1955.

Vatnagarður

Hraun og Vatnagarður.

Alfreð var síðan skipaður sýslumaður í Gullbringusýslu frá 1. jan. 1974 og bæjarfógeti í Grindavík frá 10. apríl 1974. Hann fékk lausn frá embætti 8. júlí 1975 frá og með 1. október 1975. Þann 22. ágúst 1975 var Jón Eysteinsson f. 10. janúar 1937 skipaður bæjarfógeti í Keflavík og Grindavík og sýslumaður í Gullbringusýslu frá 1. október 1975 að telja og síðan bæjarfógeti í Njarðvík frá 1. maí 1976.

Seltjarnarneshreppur og Garðahreppur urðu kaupstaðir 1974. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði varð jafnframt bæjarfógeti í þessum kaupstöðum. Í Kjósarsýslu voru Garðahreppur, Bessastaðahreppur, Seltjarnarneshreppur, Mosfellshreppur, Kjalarneshreppur og Kjósarhreppur. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði varð jafnframt sýslumaður í Kjósarsýslu.
Fyrir forgöngu Geirs Gunnarssonar og Karls G. Sigurbergssonar urðu til sérstök lögsagnarumdæmi á Suðurnesjum og voru lög þess efnis samþykkt á Alþingi 24. apríl 1973 og tóku gildi 1. janúar 1974.

Í Gullbringusýslu voru Grindavíkurhreppur, Hafnarhreppur, Miðneshreppur, Gerðahreppur, Njarðvíkurhreppur og Vatnsleysustrandarhreppur.

Gálgahraun

Gálgahraun – skófir.

Bæjarfógetinn í Keflavík varð jafnframt Sýslumaður í Gullbringusýslu.
Grindavík hlaut kaupstaðarréttindi 10. apríl 1974.
Árið 1976 var bæjarfógetinn í Grindavík, Keflavík og Njarðvík jafnframt sýslumaður Gullbringusýslu.
Njarðvík fékk kaupstaðarréttindi 1. janúar 1976. Bæjarfógetinn í Keflavík varð jafnframt bæjarfógeti í Grindavík og Njarðvík.

Við aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds í héraði 1. júlí 1992 var Jón skipaður sýslumaður í Keflavík en lögsagnarumdæmið er það sama og var. Þennan dag tóku gildi lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989. Hugtakið bæjarfógeti féll niður og sýslumenn voru kenndir við staði.

Bæjarfógetinn í Keflavík, Njarðvík og Grindavík og sýslumaður Gullbringusýslu heitir nú Sýslumaðurinn í Keflavík. Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli verður Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði, Garðakaupstað og Seltjarneskaupstað og Sýslumaður Kjósarsýslu verður Sýslumaðurinn í Hafnarfirði.

Hugtakið Gullbringusýsla er ekki lengur notað og má segja að þetta aldagamla heiti stjórnsýsluumdæmis sýslumanna leggist af með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Heimild m.a.:
-Eyþór Þórðarson, Stjórnsýsla í Gullbringusýslu, birtist í Árbók Suðurnesja 1984-85.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2182

Gullbringa

Gullbringa.

Húshólmi

Gengið var inn í Húshólma um Húshólmastíg (1.1 km). Með í för var m.a. hinn mæti Grindvíkingur Dagbjartur Einarsson. Skoðað var aðhald austast í hólmanum, stekkur eða rétt og brunnur sem og hugsanlegar seltóftir. Þá var litið á grenið nyrst sem og skotbyrgi refaskyttunar, auk gróins gerðis í hraunkrika. Allt eru þetta nýlegri minjar í hólmanum, en engu að síður minjar manna, sem þar voru í ákveðnum erindagjörðum, hvort sem var að sitja yfir ám eða liggja fyrir ref.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Skammt vestar er forn fjárborg. Hún var skoðuð. Gengið var að fornum garði er legið hefur þvert yfir hólmann, en hefur nú látið verulega á sjá. Garðurinn er heillegastur að norðvestanverðu, næst hraunkantinum. Þá var gengið að bogadregnum garði skammt sunnar. Honum var fylgt inn í hraunið uns komið af að hinu fornu minjum ofan við Kirkjulág. Um er að ræða tvo skála. Hraunið frá 1151 hefur umlukið þann nyrðri. Í honum sjást stoðholur eftir miðju tóftar. jafnvel tvöföld. Svo virðist sem hraunið hafi einni brennt torfið utan af tveimur eða þremur hringlaga byggingum skammt suðaustan hans.
Meginskálinn virðist vera með sveigðum veggjum. Dyraop er mót suðri, en við austurenda hans er bygging. Dyraop er þar einnig mót suðri.
Í Kirkjuláginni eru garðar, tóft áætlaðrar kirkju sem og hugsanlegur skáli vestan hennar. Torfhlaðnir bogadregnir veggir eru norðan og austan hennar. Þeir umlykja og kirkjutóftina.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Vestan hennar er stígur er liggur að Brúnavörðunum, á hraunkantinum að suðvestanverðu. Hann er flóraður að hluta. Sagt er að sonur Guðmundar Bjarnasonar frá Krýsuvík hafi lagt stíginn, en áður hafi forn stígur úr Húshólma legið að Selatöngum sjávarmegin, en hann lagst af við áganginn.
Þar er fornt garðlag, forn fjárborg sem og hugsanlega tóft topphlaðins húss. Ofar og norðar í hólmanum er hlaðinn veggur er hraunið hafði stöðvast við fyrrnefnt ár. Skammt ofar í hrauninu er nýrra hringlaga skjól.
Húshólmastígur hefur greinilega verið mikið notaður í gegnum tíðina því óvíða má sjá markað í jarðfast grjót, en víðast hvar hefur grjóti verið kastað úr götunni og myndar smærra grjót undirlagið. Hann er auðveldur umferðar. Þegar komið er í Hólmann er við enda hans fyrirhleðsla til að varna því að fé leitaði eftir stígnum og út úr Hólmanum.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Í líklegum brunni ofarlega í hólmanum virðast vera hleðslur. Þar skammt frá er réttin eða stekkurinn, auk annarra ógreinilegra mannvirkja, s.s. lítil tóft og hlaðið hringgerði.
Megingarðarnir í Húshólma eru gerðir úr torfi. Undirlagið var steinhlaðið. Þvergarður um Kirkjuflötina virðist þó hafa verið hlaðinn með grjóti.
Efst er þvergarður til austurs og vesturs. Hraunið hefur runnið yfir hann vestast. Annar garður liggur skammt sunnar til suðausturs og í boga til suðvesturs. Á hann er þvergarðurinn. Innan hans að norðanverðu er skeifulaga gerði. Það sést best þegar sólin er tiltölulega lágt á lofti. Heitir þar Kirkjuflöt.
Á meginminjasvæðinu í hrauninu vestan Húshólma virðast vera þrír, skálar, kirkjutóft og garðar. Í nyrsta skálanum er stoðholuröð, sennilega tvöföld, miðskálinn er heillegur af útlitslínum að dæma og sá syðsti er þvert á þá efri. Austan við hann er kirkjutóftin, í svokallaðri kirkjulág. Til austurs frá henni inn í Húshólma liggur kirkjugatan.

Húshólmi

Beinteinsbúð í Húshólma.

Tóft (Beinteinsbúð) er skammt ofan rekagötuna niður að Hólamsundi. Hún gæti verið frá verið Krýsuvíkurbænda við útfræði þar árið 1917. Annars gerðu þeir fyrrum út frá Selatöngum. Húshólmastígur og stígurinn að Brúnavörðunum sem og stígurinn upp með vestanverðu Ögmundarhrauni gæti verið gömul vergata þeirra, en þá hefur Húshólminn verið á 1/3 leiðarinnar og þeir þá átt um 2/3 hennar eftir. Ekki er með öllu útilokað að einhverri tóftinni við Húshólma hafi enn verið haldið við sem skjóli á þeirri leið, t.d. kirkjutóftinni.
Frá því að fyrst var farið að búa í Krýsuvík, sem nú er, og fram á síðstu ár (ritað 1951), hafa alltaf verið þar menn, sem vissu að í Húshólma hefur endur fyrir löngu verið byggð, og hún ekki alllítil, svo sem sjá má af húsarústum og öðrum ummerkjum, sem eru þar enn í dag. Húshólmi – eða staður sá, sem svo hefur verið nefndur um langan aldur, er austast í Ögmundarhrauni, er það óbrenndur heiðalandsblettur, um 25-30 ha að stærð.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Hinum sýnilegu minjum í Húshólma, sem vitna það í þögn sinni, en þó svo glöggt, að ekki verður um villst, að það hafi fólk búið endur fyrir löngu, hefur hraunflóðið þyrmt, þegar það beljaði þarna fram ís jó, yfir stórt og sennilega fagurt land og gott ásamt byggð, sem enginn veit, hve mannmörg hefur verið. – Þegar staðnæmst er við þessar fornu húsarústir, þá hlýtur hver hugsandi maður að fyllast undrun yfir þeirri algjöru þögn, sem svo rækilega hefur fram á þennan dag hvílt yfir þeim atburðum, sem hér hafa gerst.
Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: “Að minnsta kosti er það víst, að krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna.”

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni um rústirnar í Húshólma: “Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni.” Og ennfremur segir hann: “Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum.” Einnig getur Þorvaldur um allmarga garða, sem sjáist þar enn. Hann segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi giskað á, að það hafi runnið í kringum 1340, “án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjarnar þar. Þar getur hann garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í greins inni kemst Brynjúlfur þannig að orði á einum stað: “Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó, fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess.” Brynjúlfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphafalega þar, sem nú er Húshólmi.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Það, sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar – Krýsuvík, eins og Brynjúlfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar, sem nú er, að hún hefði þá fengið þetta nafn, því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma, með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið, en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík, og er að ég hygg fyrst getið í máldaga 1275, en prests getið þar snemma á 14. öld. Mun þetta hvort tveggja áður en Ögmundarhraun myndaðist.

Húshólmi

Í Húshólma.

Nú mun vera vaknaður nokkur áhugi fyrir hinum fornu rústum í Húshólma. Vonandi tekst áður en langur tími líður að lyfta þeim huliðshjálmi, sem fram að þessu hefur hvílt yfir leifum þessara fornu byggðar, þessum leifum, sem segja má, að neitað hafi að láta ægivald elds og hrauns undiroka sig, til þess að síðar, þegar við værum þess umkomin, gætum lesið sögu þessara byggðar og að einhverju leyti sögu þess fólks, sem þarna lifði og starfaði – og “sat meðan sætt var”.

Strjálir munu róðrar hafa verið frá Húshólma síðustu aldirnar. Þó munu menn stöku sinnum hafa lent þar bátum sínum, einkum á seinni árum, til þess að sækja timbur og annað það, sem á land hefur þar skolað, því rekasælt er í Hólmanum í góðum rekárum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Eins hefur það borið við, að sjóhraktir menn hafa náð þar landi. Þannig tók þar land um eða laust fyrir 1920, skipshöfn af selveiðiksipinu “Kóp”, sem sökk út af Krýsuvíkurbjargi á leið til Austurlands með saltfarm.
Skipshöfnin barði skipsbátnum í norðanbáli og kulda vestur með landi, en landtaka víst vart hugsanleg fyrr en í Húshólma, enda norðanáttin besta áttin þar. Þeir lentu í Húshólma heilum bát sinum, settu hann undan sjó, gengu svo – einhverjir eða allir – til Krýsuvíkur, því að allir komust þeir þangað og fengu þar og í Stóra-Nýjabæ, sem voru einu bæirnir í byggð þá.
Þær viðtökur og viðurgerning, sem Íslendingar eru svo þekktir fyrir þegar svo stendur á, ekki einasta hérlendis, heldur og allvíða erlendis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Vitað er það, að Krýsvíkingar höfðu á síðari öldum útræði nokkurt, en þeir reru ekki út úr Húshólma, heldur frá Selatöngum, sem liggja fjær en tvennar vegalengdir í Húshólma, og hefur þetta vitanlega orsakað af því einu, að eins og þá var komið, mun ófært hafa verið talið útræði úr Húshólma, en gott frá Selatöngum að öðru leyti en því, að vatnslaust má telja þar, en oftast nægt vatn í Húshólmanum.
Svo var það sumarið 1917, að bændur í Krýsuvík tóku að hugsa til fiskiróðra út frá Húshólma. Ekki var hér um stórútgerð að ræða, enda ætlaði eigandinn að taka á sig tapið, ef eitthvert yrði, svo sem þeir munu enn gera, sem sjósókn stunda á opnum fleytum. Í Krýsuvík bjó þá Þorvarður Þorvarðarason, með systur sinni Hallbjörgu. Í Stóra-Nýjabæ bjó Guðmundur Jónsson.
Gata lá frá Krýsuvík niður í Húshólma og í gegnum Ögmundarhraun, áleiðis yfir á Selatanga.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Harðsporar 1951.
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar.
-Ferðabók Þorvaldar Toroddsens, I, bls. 186.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Húshólmi

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi safnaði og ritaði m.a. um gömlu Krýsuvík, Húshólma og Ögmundarhraun. Skrifin birtust í “Úr Tillaga til alþýðlegra fornfræða” (bls. 101-102), sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf út 1953. Þau eru eftirfarandi:

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af, að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram á milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess, er að höndum kæmi, og fal sig guði: því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann, og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi, er hann var.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg/virki.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað, þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað, sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi, og varð ekki veginum komið á.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni, ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna, sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur í botninn, sem hin gamla gata segir (ort á seinni tímum):

Húshólmi

Húshólmi og Óbrennishólmi – loftmynd.

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar, sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.“

Rétt er að geta þess að Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála, sem var með vegarvinnumönnum við gerð Hlínarvegar um 1932, sagði í viðtali 2002 að vegurinn hafi að mestu verið lagður ofan í Ögmundarstíg. Þar hafi þá verið djúp för í klöppunum eftir ferðalanga fyrri alda. Sums staðar hafi hellan brotnað vegna þess hve þunn hún hafi verið orðin og undir verið djúpar holur.

-Úr Tillaga til alþýðlegra fornfræða (bls. 101-102) – Brynjúlfur Jónsson – Menningar- og fræðslusamband alþýðu 1953.

Husholmi-25

Áð í Húshólma.

https://ferlir.is/husholmi-i/https://ferlir.is/husholmi/

Grindavík

Í skýrslu um “Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík” frá árinu 1914 má m.a. lesa eftirfarandi samantekt um byggðasögu Grindavíkur:

Staðhættir

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.

Landnám og byggðaþróun

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946. Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Hugtakið hverfi var notað yfir þéttbýli sem risu hvort sem er til sjávar eða sveita hér á landi og virðist hafa verið notað eins í Noregi. Orðið þorp var ekki notað hér yfir þéttbýli fyrr en mikið seinna.
Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.
Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.

Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Um miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.
Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.

Saga Grindavíkur

Flagghúsið

Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.

Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík. Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.

Grindavík

Grindavík – Norðurvör.

Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.
Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.

Fiskveiðar og útgerð

Grindavík

Grindavík – tíæringur.

Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra… Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhverskonar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.
Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.

Grindavík

Vélbátur.

Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.

Landbúnaður

Grindavík

Grindavík 1930 – heyskapur við Gjáhús og Krosshús.

Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.

Járngerðarstaðahverfi

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru “öngvar engjar” á Hópi. “Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6: “eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.”

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. “Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir. Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var “heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.”
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.

Grindavík

Grindavík – Vorhús fyrir 1925. Gamli barnaskólinn ofar t.v.

Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu. Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 “á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.” En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.
Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.

Skipulagsmál í Grindavík

Grindavík

Grindavík – uppdráttur 1946.

Á fyrstu áratugum síðustu aldar var Grindavík á mörkum sveitar og þéttbýlis. Árið 1942 fór Guðsteinn Einarsson þáverandi oddviti Grindavíkurhrepps þess á leit að skipulagsuppdráttur yrði gerður af þorpinu á vegum félagsmálaráðuneytis. Erindið var sent til skipulagsnefndar ríkisins sem tók málið í sínar hendur og árið 1944 var fyrsti uppdrátturinn gerður af Grindavík. Vegna erindis nokkurra manna um að byggja sjóhús við höfnina í Hópinu, lagði hreppsnefndin það til við skipulagsstjóra að nýtt skipulag yrði undirbúið. Skipulagsstjóri sendi mann til Grindavíkur til mælinga og setti fram skipulagstillögu þann 12. nóvember 1945. Frekar var unnið að tillögu þessari og árið 1946 gerði Páll Zóphóníasson uppdrátt af Járngerðarstaðahverfi.

Heimild:
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík, janúar 2015.

Grindavík

Grindavík.

Grindavík

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er grein Helga Bierings um “Valgerðarhús, næst elsta hús Grindavíkur“:

Valgerðarhús næst elsta hús Grindavíkur

Grindavík

Grindavík – Valgerðarhús.

“Stolt hvers byggðarlags er upphaf byggðar og sú merkilega saga sem varð til þess að byggð hófst. Grindavík á sína verslunar og útgerðarsögu. Saga Grindavíkur hefur ekki verið átakalaus í gegnum aldirnar. Grindavíkurverslun var ein af útstöðvum Kaupsvæðis Reykjavíkur ásamt Hafnarfirði, Keflavík og Básendar. Mikil samkeppni var um verslun á milli Dana, Hollendinga, Hansakaupmanna (Þjóðverjar) og Englendinga, þó svo að Danir hefðu einkaleyfið frá konungi. Samkeppnin hélst lengi þó svo að stundum hafi brotist úr vopnuð átök. Þau átök náðu svo hámarki í svonefndu Grindavíkurstríði árið 1532. Þar unnu Þjóðverjar sigur með tilstyrk Dana og Íslendinga.

Grindavík var fyrst og fremst verstöð

Grindavík

Grindavík – sjóbúðir. Flagghúsið í miðið.

Megin atvinnuvegur bæjarins hefur verið sjávarútvegur Grindvíkinga. Um Jónsmessuleytið 1627 varð atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní.
Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir” rændu en líklega voru þeir um 12 sem hefur verið stórt hlutfall íbúa Grindavíkur á þeim tíma. Að auki féllu nokkrir Grindvíkingar og sjóræningjar í atganginum. Sagan segir að þegar blóð „Tyrkjanna“ og Grindvíkinganna blandaðist á jörðinni hafi orðið til blóðþyrnir sem vex á grasflöt í nágrenni við Valgerðarhús.

Grindavík

Valgerðarhús lengst til hægri.

Grindvíkingar smíðuðu lengi framan af báta úr rekaviði sem svo voru nýttir til róðra á erfiðu en gjöfulu hafsvæði. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900. Þá tók fólki að fjölga í Grindavík, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. Um líkt leyti reis Valgerðarhús. Valgerðarhús var reist út timbri úr strandgóssi stórs seglskips sem strandaði við Hafnir 1881. Ekki er ólíklegt að Einarsbúð hafi verið reist úr timbri úr sama skipi að einhverju leyti. Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Valgerðarhús – sagan

Grindavík

Grindavík – Hér er Valgerðarhús nefnt Júlíusarhús.

Valgerðarhús er staðsett í Járngerðarstaðahverfi og það er í dag eitt af elstu húsum Grindavíkur, hefur sérstaka sögu sem tengist atvinnusögu Grindavíkur. Húsið er skráð hjá Þjóðskrá að það sé byggt árið 1940. En margt bendir til að það sé byggt mun fyrr. Þó húsið sé lítið og lúið á okkar tíma mælikvarða þá var það vel byggt og úr góðu timbri á sínum tíma. Upphaflega húsið er í þokkalegu góðu ástandi fyrir utan ryðgað bárujárn að utan, en heldur lakari timbur er í viðbyggingunni sem byggð er úr gömlu og endurunnu timbri og rekavið. Elsti hluti hússins er á sökkli sem er gerður úr fjörugrjóti sem hlaðið er í múr.
Á gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er Valgerðarhús vel greinilegt og á myndum frá því seint á þriðja áratugnum er húsið nýklætt að utan en á mynd frá því fyrr á þriðja áratugnum sést húsið einnig en þá er það svart að lit og þá líklega vegna tjörgunar. Húsið gæti hafa verið klætt að utan eftir 1927 eða þar um bil eftir að sjávarflóð olli töluverður tjóni í nágrenni Valgerðarhúss.

Grindavík

Grindavík – húsin ofan við fyrstu bryggjuna í Járngerðarstaðarhverfi.

Í upphafi var Valgerðarhús líklega verið nefnt “Sjóbúðin”. Einnig tengist húsið fjölskyldu Einars Jónssonar frá Garðhúsum.
Húsið Valgerðarhús stendur við hlið Verbrautar í Grindavík og er án húsnúmers, var að öllum líkindum byggt einhvern tíman á árunum 1882 til 1889 og því eitt af elstu húsum Grindavíkur.
Burðarviðir hússins eru úr farmi skipsins James Town sem strandaði við Hafnir sunnudagsmorguninn 26. júní 1881. Skipið var hlaðið timbri sem átti að fara til Englands þar sem það átti að notast við lagningu járnbrautarteina. Það var svo 12. og 13. ágúst 1881 sem haldið var uppboð á farminum og skipinu á strandstað við Þórshöfn í Stafnesfjöru. Töluvert af timbri var selt til Grindavíkur, meðal annars á Járngerðarstaði, Garðhús, Klöpp og fleiri bæja innan Grindavíkur.
Líklegast er að timbrið í Valgerðarhús hafi verið keypt af Einari Jónssyni í Garðhúsum, en hann kom einnig að björgunarvinnu við strandið og fékk greitt 6 kr. fyrir leigu á hestum. Einnig keypti hann 162 planka á uppboðinu.
Þeir sem unnu við strandið fengu að eiga ýmsa búta sem notaðir voru við fráganginn á timburfarminum sem var um borð í skipinu. Sagnir eru um að sumir hafi jafnvel getað byggt sér þokkaleg hús úr þessum bútum.

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Ástæða þess að ég tel að Einar eða Dagbjartur, sonur hans, hafi byggt Valgerðarhús, eða í það minnsta átt timbrið sem fór í burðarvirki hússins, er að Einar átti túnið sem var næst Valgerðarhúsi. Einnig átti hann að öllum líkindum beitningarskúrana sem merktir eru inn á túnakortið frá 1918 og voru ekki nema í um 2 metra fjarlægð frá Valgerðarhúsi. Nýlega er búið að rífa beitningarskúrana.
Á túnakortinu er skrifað við hlið skúranna „Fleiri hús“. Hús sem virðast hafa verið á einhverskonar einskismannslandi.
Dagbjartur frá Velli var sonur Einars Jónssonar frá Garðhúsum. Sá sami Einar var einn af björgunarmönnum farmsins úr James Town eins og áður hefur komið fram. Á sama tíma er hann samkvæmt manntalinu frá 1880 “húsb., hreppstjóri, sjávarafli, fjárrækt” þannig að hann hefur verið meiri háttar maður í samfélaginu í Grindavík á sínum tíma. Hann keypti einnig dálítið af plönkum á uppboðinu sem haldið var á farminum úr James Town og flakinu, fyrir utan það timbur sem björgunarmenn fengu að eiga. Eftir að uppboðinu var lokið fengu björgunarmenn að eiga hluta þess viðar sem bjargað var úr skipinu sem þá var komið í eigu H.P. Duus. Sumir fengu fjórðung á meðan aðrir fengu helming þess timburs sem þeir komu í land, mögulega eftir stétt og stöðu hvers björgunarmanns fyrir sig. Eftir að skipið hvarf svo í hafið í haustveðri fannst mikill reki úr skipinu meðfram allri strönd Stafnessins allt frá Garði og út á Reykjanes í töluvert langan tíma.

Niðurstaða

Grindavík

Ég tel að Dagbjartur Einarsson hafi reist Valgerðarhús eftir að hann fer að heiman tvítugur að aldri og þar til hann er sagður húsbóndi í “Sjóbúðinni” árið 1900 í Sóknarmannatali og í sóknarmannatali og manntali 1901. Það er niðurstaða mín að Valgerðarhús var reist einhvern tíman á árunum 1882 – 1889.
Við samanburð á viðnum í Valgerðarhúsi og í Ytri-Ásláksstaðir, elsta uppistandandi íbúðarhús í Sveitarfélaginu Vogum og byggt 1884 úr meðal annars timbri úr James Town, kom í ljós að samskonar burðarviður er í báðum húsunum. Einnig er byggingarstíllinn, gerð sökkuls og stærð mjög áþekk. Þessi samanburður styrkir þá niðurstöðu að Valgerðarhús hafi verið byggt á árunum 1882- 1889.
Til gamans má geta þess að eiginkona Dagbjarts var Valgerður Guðmundsdóttir frá Klöpp og líklega er húsið nefnt eftir henni.
Nöfnin Þorvaldshús og Ólafshús, sem komu í umræðuna á meðan á rannsókninni stóð, skiluðu engu nema að á árunum 1928-1952 og jafnvel síðar var Þorvaldshús prestsbústaður og þar af leiðandi líklega ekki Valgerðarhús.”

Í “Húsakönnun Grindavíkur 2019” er fjallað um Valgerðarhús:

Sögubrot Grindavíkur
Grindavík
“Stolt hvers byggðarlags er upphaf byggðar og sú merkilega saga sem varð til þess að byggð hófst.
Grindavík á sína verslunar og útgerðarsögu. Saga Grindavíkur hefur ekki verið átakalaus í gegnum aldirnar. Grindavíkurverslun var eina af útstöðvum Kaupsvæðis Reykjavíkur ásamt Hafnarfyrði, Keflavík og Básendar. Mikil samkeppni var um verslun á milli Dana, Hollendinga, Hansakaupmanna (Þjóðverjar)og Englendinga, þó svo að Danir hefðu einkaleyfið frá konungi. Samkeppnin hélst lengi þó svo að stundum hafi brotist úr vopnuð átök. Þau átök náðu svo hámarki í svonefndu Grindavíkurstríði árið 1532. þar unnu þjóðverjar sigur með tilstyrk Dana og Íslendinga.

GrindavíkGrindavík var fyrst og fremst verstöð. Megin atvinnuvegur bæjarins hefur verið sjávarútvegur Grindvíkinga. Um Jónsmessuleytið 1627 varð sá atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní. Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir” rændu en líklega voru þeir um 12 sem hefur verið stórt hlutfall íbúa Grindavíkur á þeim tíma. Að auki féllu nokkrir Grindvíkingar og sjóræningjar í atganginum. Sagan segir að þegar blóð „Tyrkjanna“ og Grindvíkinganna blandaðist á jörðinni hafi orðið til Blóðþyrnir sem vex á grasflöt í nágrenni við Valgerðarhús.
Grindavík
Grindvíkingar smíðuðu lengi framan af báta úr rekaviði sem svo voru nýttir til róðra á erfiðu en gjöfulu hafsvæði. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900. Þá tók fólki að fjölga í Grindavík, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. Um líkt leiti reis Valgerðarhús. Valgerðarhús var reist út timbri úr strandgóssi stórs seglskips sem strandaði við Hafnir 1881. Ekki er ólíklegt að Einarsbúð hafi verið reist úr timbri úr sama skipi að einhverju leiti.
Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Valgerðarhús
Grindavík
V
algerðarhús er staðsett í Járngerðarstaðahverfi og það er í dag eitt af elstu húsum grindavíkur, hefur sérstaka sögu sem tengist atvinnusögu Grindavíkur. Húsið er skráð hjá Þjóðskrá að það sé byggt árið 1940. En margt bendir til að það sé byggt mun fyrr. Þó húsið sé lítið og lúið á okkar tíma mælikvarða þá var það vel byggt og úr góðu timbri á sínum tíma. Upphaflega húsið er í þokkalegu góðu ástandi fyrir utan ryðgað bárujárn að utan, en heldur lakari timbur er í viðbyggingunni sem byggð er úr gömlu og endurunnu timbri og rekavið. Elsti hluti hússins er á sökkli sem er gerður úr fjörugrjóti sem hlaðið er í múr.
Á gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er Valgerðarhús vel greinilegt og á myndum frá því seint á þriðja áratugnum er húsið nýklætt að utan en á mynd frá því fyrr á þriðja áratugnum sést húsið einnig en þá er það svart að lit og þá líklega vegna tjörgunar. Húsið gæti hafa verið klætt að utan eftir 1927 eða þar um bil eftir að sjávarflóð olli töluverður tjóni í nágrenni Valgerðarhúss.
Í upphafi var Valgerðarhús líklega verið nefnt “Sjóbúðin”. Einnig tengist húsið fjölskyldu Einars Jónssonar frá Garðhúsi.

Valgerðarhús

Í Húsakönnun Grindavíkur 2014 segir: “Sæmundur Sterki átti þetta hús og Guðmundur. Milliloftið í þessu húsi kemur úr skútu sem strandaði við Hafnirnar. Líklega hefur þetta verið geymsla, pakkhús, fiskvinnsla eða beitningaskúr.”

Húsið Valgerðarhús stendur við hlið Verbrautar í Grindavík og er án húsnúmers var að öllum líkindum byggt einhvern tíman á árunum 1882 til 1889 og því eitt af elstu húsum Grindavíkur. Burðarviðir hússins eru úr farmi skipsins Jamestown sem strandaði við Hafnir sunnudagsmorguninn 26. júní 1881. Skipið var hlaðið timbri sem átti að fara til Englands þar sem það átti að notast við lagningu járnbrautarteina. Það var svo 12. og 13. ágúst 1881 sem haldið var uppboð á farminum og skipinu á strandstað við Þórshöfn í Stafnesfjöru. Töluvert af timbri var selt til Grindavíkur, meðal annars á Járngerðarstaði, Garðhús, Klöpp og fleiri bæja innan Grindavíkur.
Líklegast er að timbrið í Valgerðarhús hafi verið keypt af Einari Jónssyni í Garðhúsum, en hann kom einnig að björgunarvinnu við strandið og fékk greitt 6 kr. fyrir leigu á hestum. Einnig keypti hann 162 planka á uppboðinu. Þeir sem unnu við strandið fengu að eiga ýmsa búta sem notaðir voru við fráganginn á timburfarminum sem var um borð í skipinu. Sagnir eru um að sumir hafi jafnvel getað byggt sér þokkaleg hús úr þessum bútum.

Grindavík

Grindavík – framan við Einarsbúð.

Ástæða þess að ég tel að Einar eða Dagbjartur, sonur hans, hafi byggt Valgerðarhús, eða í það minnsta átt timbrið sem fór í burðarvirki hússins, er að Einar átti túnið sem var næst Valgerðarhúsi. Einnig átti hann að öllum líkindum beitningarskúrana sem merktir eru inn á túnakortið frá 1918 og voru ekki nema í um 2 metra fjarlægð frá Valgerðarhúsi. Nýlega er búið að rífa beitningarskúrana. Á túnakortinu er skrifað við hlið skúranna „Fleiri hús“. Hús sem virðast hafa verið á einhverskonar einskismannslandi.
Dagbjartur frá Velli var sonur Einars Jónssonar frá Garðhúsi. Sá sami Einar var einn af björgunarmönnum farmsins úr Jamestown eins og áður hefur komið fram. Á sama tíma er hann samkvæmt manntalinu frá 1880 “húsb., hreppstjóri, sjávarafli, fjárrækt” þannig að hann hefur verið meiri háttar maður í samfélaginu í Grindavík á sínum tíma. Hann keypti einnig dálítið af plönkum á uppboðinu sem haldið var á farminum úr Jamestown og flakinu, fyrir utan það timbur sem björgunarmenn fengu að eiga. Eftir að uppboðinu var lokið fengu björgunarmenn að eiga hluta þess viðar sem bjargað var úr skipinu sem þá var komið í eigu H.P. Duus. Sumir fengu fjórðung á meðan aðrir fengu helming þess timburs sem þeir komu í land, mögulega eftir stétt og stöðu hvers björgunarmanns fyrir sig. Eftir að skipið hvarf svo í hafið í haustveðri fannst mikill reki úr skipinu meðfram allri strönd Stafnessins allt frá Garði og út á Reykjanes í töluvert langan tíma.

Niðurstaða

Grindavík

Grindavík – Valgerðarhús.

Ég tel að Dagbjartur Einarsson hafi reist Valgerðarhús eftir að hann fer að heiman tvítugur að aldri og þar til hann er sagður húsbóndi í “Sjóbúðinni” árið 1900 í Sóknarmannatali og í sóknarmannatali og manntali 1901. Það er niðurstaða mín að Valgerðarhús var reist einhvern tímann á árunum 1882-1889.
Við samanburð á viðnum í Valgerðarhúsi og í Ytri-Ásláksstaðir, elsta uppistandandi íbúðarhús í Sveitarfélaginu Vogum og byggt 1884 úr meðal annars timbri úr Jamestown, kom í ljós að um samskonar burðarviður er í báðum húsunum. Einnig er byggingarstíllinn, gerð sökkuls og stærð mjög áþekk. Þessi samanburður styrkir þá niðurstöðu að Valgerðarhús hafi verið byggt á árunum 1882-1889.”

Grindavík - húsakönnunÍ skýrslu Minjasofnunar um húsakönnun Valgerðarhúss  segir m.a.: “Valgerðarhús er hús úr bindingsverki þar sem grindarefnið í það minnsta kemur úr farmi timburflutningaskipsins Jamestown sem strandaði við Hafnir í júní 1881.
Líklegast var húsið byggt milli áranna 1882 og 1889, Í upphafi var það einungis timburklætt að utan en einhverntíman fyrir árið 1920 eða 1930 var húsið klætt með bárujárni eins og sést á gömlum myndum. Á eldri myndum sést að það hefur verið þurkhjallur sjávarmegin á húsinu en hann sést ekki í dag. Hugsanlega hefur húsið skemmst eitthvað í flóðum sem voru 1927 og þá gæti það hafa verið klætt eftir það.
Á einhverjum tímapunkti var byggt við húsið einhverskonar skúrbygging sem er úr mun lakara efni en aðalbyggingin. Valgerðarhús er úr vönduðu unnu sléttu timbri en viðbyggingin úr rekavið og notuðu timbri úr líklega bryggu eða gömlum bát.”
Rétt er að geta þess að umrædd flóð voru árið 1925, en ekki 1927.

Heimildir:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Valgerðarhús, næst elsta hús Grindavíkur – Helgi Biering, bls 56-59.
-Valgerðarhús – Húsakönnun 2019. https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Skyrsla-Valgerdarhuss.pdf
-https://www.grindavik.is/gogn/2020/Grindavik_husakonnun.pdf
-https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Skyrsla-Valgerdarhuss.pdf

Grindavík

Grindavík – Í skýrslu þessari fyrir Járngerðarstaðarhverfi kemur fram á yfirlitsuppdrætti að Valgerðarhús (grænlitað) hafi verið byggt á árunum 1926-1950;  https://www.grindavik.is/gogn/2020/Grindavik_husakonnun.pdf.

Hópsheiði

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir Svavar Sigmundsson um Grindavík:
“Grindavíkur er getið í Landnámabók (Íslensk fornrit I:330). Í sömu bók eru auk þess Grindalækur í Húnavatnssýslu og Grindur í Borgarfirði.

Hópsvarða

Innsiglingavarða við Hóp í Grindavík – endurhlaðin af FERLIRsfélögum.

Í örnefnum bendir orðið grind til merkingarinnar ‘gerði’ eða ‘hlið’, eða ‘klettarið’, til dæmis Grindaskörð í Gullbringusýslu og Grindamúli í Suður-Múlasýslu, Grindarás í Austfjörðum (Íslenskt fornbréfasafn IV:205,271), Helgrindur á Snæfellsnesi og Jökulgrindur í Rangárvallasýslu. Klettarani á merkjum Þorpa og Hvalsár í Strandasýslu heitir Grind (Íslenskt fornbréfasafn IV:161). Sögn er um að grind hafi verið þar í skarði til varnar ágangi búfjár.

Svartiklettur

Svartiklettur við Hópið í Grindavík – sundmerki.

Hugsanlegt er að grind hafi átt við sundmerki* en Sundvarða er í Herdísarvíkursundi, “sem tréð með grind stendur í” (Örnefnaskrá).
*Sundmerki er innsiglingarmerki, oft varða með tré í, eins og í Herdísarvíkursundi, og til dæmis þannig að tvær slíkar vörður átti að bera saman þar sem innsigling var örugg.”

Famangreint verður að teljast fróðlegt í ljósi allara sundmerkjanna í Grindavík. Reyndar eru núverandi sundmerki ekki svo gömul að telja megi til landnáms, en þau verður að telja merkileg í samhengi sögunnar. Engum vafa er um það orpið að Grindvíkingar hafi sótt sjó um aldir og hafa því nýtt sér sundmerki sér til leiðsagnar, sbr. Siggu og önnur kennileiti ofan byggðar. Flest þeirra eru nú orðin mosavaxin, líkt og merkið í Leiti ofan Þórkötlusstaða, en önnur þau nýrri eru þó enn augljós, s.s. sundmerkin ofan Hóps.

 

Hópsvarða

Neðri Hópsvarðan 2021.

FERLIRsfélagar endurhlóðu efri sundvörðuna við Hóp eftir að hluti hennar hrundi í frostvetri, en nú, eftir jarðskjálftana undanfarið (2001) hefur sú neðri þurft að lúta í lægra haldi. Þar má segja að “Snorrabúð” sé nú stekkur. FEELIRSfélagar hafa sýnt lítinn áhuga á að endurhlaða vörðuna vegna lítils áhuga bæjarstjórnar Grindavíkur á að viðhalda gömlum hefðum byggðalagsins…

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6588

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Lögreglan

Í Fjarðarfréttum 1969 er grein um aðstöðu lögreglunnar í Hafnarfirði undir fyrirsögninni; “105 kallar stöðina“. Greinin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að í yfirlitsritinu “Lögreglan á Íslandi” er lítið sem ekkert fjallað um sögu og aðbúnað lögreglumanna annars staðar en í Reykjavík.

Lögregla
“Það var síðla kvölds í marz, að Fjarðarfréttir lögðu leið sína á lögreglustöðina við Suðurgötu. Erindið var að heilsa upp á lögregluþjónana, sem voru á kvöldvakt þetta kvöld og skyggnast inn í heim þeirra manna, sem eiga að halda uppi lögum og reglu í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Það vildi okkur til happs, að lítið hafði rignt um daginn og Suðurgatan því tiltölulega greiðfær. Þegar við komum að lögreglustöðinni var okkur hugsað til þess, að ekki væri gott að vera bláókunnugur maður hér í Hafnarfirði og þurfa á lögregluaðstoð að halda, því einu upplýsingarnar, sem gefnar eru um staðsetningu lögreglustöðvarinnar eru í símaskránni og eru á þá leið að hún sé að Suðurgötu 8.

Varðstofan

Lögregla

Lögreglustöðin við Suðurgötu 8 í byggingu. Sýslumannshúsið h.m. Knattspyrnuleikur milli FH og Hauka á Sýslumannstúninu.

Við göngum inn eftir ganginum og förum inn um dyr til vinstri, inn á sjálfa lögregluvarðstofuna. Þar situr varðstjórinn við borð og er að tala í símann. Hinir lögregluþjónarnir á vaktinni eru í útkalli.
Skyndilega heyrist í talstöðinni:
105 kallar Stöðina. —
— Stöðin svarar —
— Ertu einn? —
— Oh. ah, nei. —
— Jæja, við komum þá inn. —

Lögregla

Knattspyrnuleika FH og Hauka enn í gangi á Sýslumannstúninu. Dvergasteinn lengst t.v., nýja lögreglustöðin og Sýslumannshúsið.

Hvað er að gerast? Það er von að spurt sé. Við erum í þann veginn að kynnast lélegustu aðstæðum, sem lögregla býr við í kaupstöðum landsins.
Samtalið milli lögregluþjónsins og varðstjórans er eitt dæmið um óviðunandi ástand í löggæzlumálum okkar Hafnfirðinga. Húsakynnin eru svo þröng, að allir, sem þurfa að leita til lögreglustöðvarinnar, og þeir eru ófáir, verða um leið áheyrendur, og stundum áhorfendur, að öllu því, sem fram fer. Þau mál, sem lögreglan fjallar um, eru oft þess eðlis, að óverjandi er, að hver og einn geti fylgst með einstökum þáttum þeirra.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

En nú skulum við líta í kringum okkur. Varðstofan er lítið herbergi, um það bil 15 fermetrar, málning á veggjunum sennilega tíu ára gömul, og á þeim má lesa, sem í bók, sögu þeirra atburða, sem hér hafa gerzt undanfarinn áratug. Þetta herbergi er vinnustaður sextán lögregluþjóna og hérna er unnið allan sólarhringinn. Nokkrir lögregluþjónanna hafa dvalizt hér svo áratugum skiptir. Hérna er svarað í síma, skrifaðar skýrslur, sinnt talstöðvarviðskiptum, veitt úrlausn þeim, sem inn koma, geymsla fyrir óskilamuni, skjalageymsla, skrifuð dagbók um öll verkefni yfir hvern sólarhring, og svona mætti lengi telja. Til skamms tíma var þetta herbergi einnig kaffistofa lögregluþjónanna.

Fangelsi

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Skoðum nú aðrar vistarverur í þessu húsi og lítum á það, sem fyrir augu ber. Í húsinu eru 6 fangaklefar, og auðvitað þarf engan fangavörð. Fangagæzla er eitt af störfum varðstjórans og manna hans. Við skulum ganga inn í einn klefann. Okkur verður þungt fyrir brjósti, loftræsting er engin. Rimlar eru fyrir gluggum, eins og venja er á slíkum stöðum, en svo „haganlega“ fyrir komið, að nær ógerningur er að hreinsa gluggakisturnar. Dyraumbúnaður er þannig, að hurðum er krækt aftur, og getur hvaða smábarn, sem villist inn í þessi húsakynni, opnað dyrnar meðan varðstjórinn sinnir e.t.v. símahringingu á varðstofunni. Fangar og lögreglumenn nota eitt og sama salernið, sem staðsett er í kompu undir stiga og allt hið óvistlegasta. Dæmi eru til þess, að gæzlufangar hafi þurft að dveljast í þessum fangaklefum yfir mánaðartíma. Eitt sinn var hérna fangi, sem var haldinn kynsjúkdómi, og að sjálfsögðu varð hann að nota sama salerni og samfangar hans ásamt lögregluþjónunum. Vonandi er slíkt einsdæmi á Íslandi á tuttugustu öld. Allir veggir hér eins og á varðstofunni bera ljóst vitni um að málning er bannorð, það er eins og veggirnir blygðist sín fyrir útlitið. Okkur léttir, er við yfirgefum fangaklefana.

Kaffistofa

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, við störf á varðstofunni.

Næst komum við í kaffistofu lögregluþjónanna. Í þessu herbergi, sem er um það bil 7 m2, var rannsóknarlögreglan til húsa. Þegar skrifstofur bæjarfógeta fluttu í hið glæsilega húsnæði sitt, sem gjörbreytt hefur allri starfsaðstöðu embættisins, fékk rannsóknarlögreglan sæmilega aðstöðu annars staðar í húsinu. Rættist þá loksins langþráður draumur lögreglumannanna í Hafnarfirði. Þeir fengu þetta litla herbergi fyrir kaffistofu.
Settur var upp lítill vaskur og skápur, en þeir urðu þó að mála „stofuna“ sjálfir.

Talstöðin

Lögregla

Hér voru gamla Sýslumannshúsið og lögreglustöðin við Suðurgötu 8.

Við heyrum óm af samtali og skundum inn á varðstofuna. Eitt af mikilvægustu tækjum við nútíma löggæzlu er talstöðin, og hún er mikið notuð hér. Umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði nær allt frá Reykjanestá að Botnsá í Hvalfirði.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á stríðsárunum. Sýslumannshúsið í bakgrunni, Drengurinn er Hörður Guðmundsson – Fred Harry Wharton.

Ætla má að lögreglustöðin geti haft samband við lögreglubíl hvar sem er á þessu svæði, en það er nú öðru nær. Dæmi eru til þess að lögreglan hefur orðið að leita til leigubílstjóra til þess að flytja skilaboð til lögreglustöðvarinnar. Þegar komið er suður fyrir Kúagerði má heita að sambandslaust sé við lögreglubíl, sem þar er á ferð. Ef árekstur verður í Mosfellssveit eða á Kjalarnesi rofna tengslin milli lögreglubíls og stöðvarinnar um það leyti sem farið er yfir Elliðaárnar. En leigubílstjórar í Hafnarfirði geta með góðu móti talað við „kollega” sína á Kjalarnesi og í Keflavík. Hvers á Lögregla Hafnarfjarðar og íbúar umdæmisins að gjalda?

500.000 km

Lögreglan

Lögreglubíll lögreglunnar í Hafnarfirði 1972.

Bílar Hafnarfjarðarlögreglunnar eru kafli út af fyrir sig. Þeir eru tveir, annar af árgerð 1966 og í sæmilegu lagi, en hinn af árgerð 1964 og má heita ónýtur, enda hefur honum verið ekið yfir 500.000 km, og það að mestu á götum
Hafnarfjarðar.
Heimsókn okkar er senn lokið. Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um atriði eins og þau, að allar skýrslur lögreglunnar eru skrifaðar á aflóga ritvélar frá skrifstofu bæjarfógeta og hvergi fæst aðstaða fyrir lögregluþjóna, til að halda við þeirri líkamlegu þjálfun, sem hverjum lögreglumanni er nauðsynleg.
Eðlilegt er, að fyrir hverja 500 íbúa í þéttbýli starfi einn lögregluþjónn, og ættu samkvæmt því að vera 18 lögregluþjónar í Hafnarfirði einum, fyrir utan þá, sem ráðnir eru á vegum Garðahrepps og sýslunnar. Mikil bót var að stofnun rannsóknarlögregluembættis hér í bæ, og hefur það komið skýrt í ljós, hvað bætt starfsaðstaða má sín mikils, en þó þyrfti að fjölga þar um a. m. k. einn mann, ef vel ætti að vera.

Ný lögreglustöð

Lögregla

Gamla sýslumannshúsið við Suðurgötu.

Hver hugsandi maður, sem kynnir sér starfsaðstöðu lögreglunnar, hlýtur að sjá, að hún er bæjarfélaginu og sýslunni ekki til sæmdar.

Lögregla

Ný lögreglustöð í Hafnarfirði við Flatahraun.

Margt má lagfæra nú þegar, en auðvitað er framtíðarlausn þessara mála aðeins ein, nýtt og veglegt húsnæði fyrir löggæzluna. Nú þegar er tímabært að skipa nefnd til að undirbúa byggingu slíks húss.
Við Hafnfirðingur eigum góðu lögregluliði á að skipa. Starf þeirra er erilsamt og oft hættulegt. Lágmarkskrafa þeirra til bæjarfélagsins er mannsæmandi starfsaðstaða.
Vafalaust mun okkar ágæti bæjarfógeti beita sér fyrir umbótum á þessu sviði, og mun þá væntanlega ekki standa á öðrum, sem til þarf að leita vegna lausnar þessa máls.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir Árni Óla frá “Fyrsta lögregluþjóninum í Hafnarfirði“:
lögregla“Það eru nú rúm 43 ár síðan (1908) að Hafnfirðingar komu á löggæslu hjá sjer, og fyrsti lögregluþjónninn þar er enn á lífi og við góða heilsu. Hann heitir Jón Einarsson, Hafnfirðingur í húð og hár, fæddur þar og hefur alið þar allan aldur sinn. Mun varla ofmælt að hvert mannsbarn í Hafnarfirði þekki hann, en fæstir munu nú minnast þess að hann var þar eitt sinn vörður laga og rjettar og gekk um göturnar í einkennisbúningi. Hitt er mönnum kunnara, að hann hefur verið verkstjóri í fjölda mörg ár. Hann á heima í „miðbænum” í Hafnarfirði, Strandgötu 19, og hefur lengi átt þar heima. En þegar hann bygði húsið sitt var öðruvísi þar um að litast en nú. Þá sköguðu úfnir hraunklettar fram í dimma götuna, sem í rauninni var ekki, annað en sjávarkambur með möl og skeljasandi, en nú er þetta „fínasta” gatan, sem til er á landinu, öll steinsteypt og uppljómuð af tindrandi „fluoresent” ljósum, svo að þar ber hvergi skugga á og nóttin verður þar svo að segja að björtum degi. Hafnarfjörður hefur tekið stakkaskiftum síðan Jón var þar lögregluþjónn og átti í brösum við ofbeldisseggi og skúmaskotsmenn.

Hafnarfjörður 1910

Lögregluþjónar voru ráðnir í Hafnarfirði áður en staðurinn fengi nokkra lögreglusamþykt. Utanaðkomandi áhrif rjeðu því. Fram að þeim tíma hafði Hafnarfjörður verið friðsældarbær, þar sem menn gengu snemna til náða og fóru snemma á fætur. Reglusemi og nægjusemi mótaði líf manna, og Í bæjarbragur var allur með uðrum hætti en í Reykjavík. Þótt skamt væri á milli og íbúar Hafnarfjarðar orðnir um 1500, drógu þeir ekki dám að stórborginni Reykjavík, þar sem voru þá um 11.000 íbúa. En ástæðan til þess að Hafnfirðingar fengu sjer lögregluþjón var sú, að allmikil breyting hafði orðið þar á árið 1906, eins og nú skal sagt.
Hafnarfjörður
Lögregluþjónn var valinn Jón Einarsson, eins og fyr er sagt, en næturvörður Jón Hinriksson, er seinna varð kaupfjelagsstjóri í Vestmannaeyjum. Voru þeir báðir á besta aldri, hin mestu karlmenni og ljetu sjer ekki alt fyrir brjósti brenna. Þeir byrjuðu starf sitt í apríl og var verkum þannig skift með þeim, að annar fór á vörð kl. 9 á morgnana og var á ferli fram til kl. 3. Þá tók hinn við og var einn á verði til kl. 7, en síðan voru þeir báðir á verði á kvöldin og stundum alla nóttina fram til morguns, þegar mest var ónæðið af hinum útlendu sjómönnum.

Ekkert að gera endranær

Hafnarfjörður 1908

Hafnarfjörður 1908.

Jón Hinriksson sagði starfi sínu lausu um haustið og var þá Einar Ólafsson (tengdafaðir sjera Jakobs Jónssonar) ráðinn næturvörður.
“Um vorið var jeg orðinn svo leiður á þessu starfi, sem mjer fanst ekkert starf vera, að jeg fekk mig leyst an frá því. Þetta átti ekki við mig. Þegar ekkert var um að vera í bænum, fanst mjer jeg vera að slæpast og skammaðist mín fyrir þeim sem voru að vinna. Og það var hjer um bil aldrei neitt að gera nema þegar útlendingar voru með óspektir og drykkjulæti. Aðalstarfið á nóttunni var að líta eftir bátum, ef eitthvað var að veðri, líta eftir skepnum að þær flæddi ekki, hafa gætur á hvort nokkurs staðar yrði vart við eld og hafa gát á kolabyngunum, svo að eldsneytislausir menn hnupluðu ekki nokkrum kola molum. Á daginn var bókstaflega ekkert að gera.

Jón bergmann

Jón Sigurður Sigfússon Bergmann (1874-1927).

Jón Bergmann skáld varð lögregluþjónn þegar jeg hætti, en hélst ekki lengi því starfi. Og lögregluþjónar og næturverðir voru að koma og fara. Norðmenn hurfu líka, útgerð Friis féll niður sumarið eftir, og þá urðu aftur rólegir dagar í Hafnarfirði. Það var ekki fyr en eftir 1930 að komið var upp skýli til þess að stinga ölvuðum mönnum inn í.
Nú er orðin mikil breyting á þessu. Nú eru hjer 7 eða 8 lögregluþjónar, varðstöð opin allan sólarhringinn með síma og bílum til skyndiferða. Og nú er hjer komið fangahús og fangavörður. Hefur það verið sniðið svo við vöxt, að það getur oft tekið við mönnum frá Reykjavík, sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar. Þó er þetta fangahús ekki nema fyrir 6—8 menn. Það sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekki mikið á því að halda, enda þótt hjer eigi heima rúmlega 5000 manna. Hafnarfjörður er enn friðsæll bær og Hafnfirðingar friðsamir og háttprúðir menn, eins og þeir hafa altaf verið”. – Á.Ó.

Heimildir:
-Fjarðarfréttir, 1. árg. 07.04.1969, !105 kallar stöðina”, bls. 8 og 6.
-Lesbók Morgunblaðsins, 46. tbl. 01.12.1951, Fyrsti lögregluþjónn í Hafnarfirði – Árni Óla, bls. 572-575.

Hafnarfjörður