Járngerðarstaðir

Sr. Gísli Brynjólfsson skrifaði um “Grindavíkurhverfin” í Lesbók Morgunblaðsins árið 1967:
“Fljótlega eftir að fólk tók sér bólfestu í Grindavík, hafa þar byggst einar sex sjálfstæðar jarðir auk Ísólfsskála, sem er drjúgan spöl austan við aðalbyggðina. Í rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270 er getið bæði um Járngerðarstaði og Þorkötlustaði. Í landi þriggja þessara jarða hafa svo verið reistar hjáleigur, grasbýli og tómthús, með mjög takmarkaðar landsnytjar enda afkoman svo að segja að öllu leyti byggð á sjónum. Hefur fjöldi þeirra sjálfsagt verið nokkuð misjafn, þeim hefur fjölgað þegar vel fiskaðist, en fækkað svo aftur á móti á aflaleysisárum. Þess vegna mynduðust fljótt 3 hverfi í Grindavík og var nokkurt jafnvægi í byggðinni fram á síðustu ár eins og eftirfarandi tölur sýna:
thorkotlustadahverfi-229Í manntalinu 1703 er getið um 2 tugi lausamanna og marga, sem voru á sveitarframfæri. Auk þeirra, sem áttu lögheimili í plássinu safnaðist svo til Grindavíkur mikill fjöldi útróðrarmanna á vertíðinni eins og gerist enn í dag. Frá Grindavík reru skip Skálholtsstóls eins og úr fleiri verstöðvum, enda átti
Skálholtskirkja allar jarðirnar nema Húsatættur. Sú jörð var konungseign. Árni Magnússon getur þess, að frá Þorkötlustöðum rói áttrætt skip Skálholtsstaðar, annað frá Hópi og 3—4 frá Járngerðarstöðum, en á Hrauni lagðist útgerð stólsins niður eftir að „skipið forgekk” árið 1700. Þann vetur voru veður ofsaleg, segir Espólín, — urðu skiptapar miklir, fleiri en 20 á Suðurnesjum og í Gullbringusýslu. Á þeim týndist hálft annað hundrað manna og 129 af þeim á föstudaginn seinastan í Góu, á einni eykt. Þá hafa verið daprir dagar í Grindavík.
Þegar rituð verður saga Grindavíkur, kemur eflaust sitthvað í leitirnar, sem bregður ljósi á tilveruna í þessari verstöð, þótt lítt hafi hún sjálfsagt verið frábrugðin því sem tíðkaðist í sambærilegum plássum annars staðar. Einni slíkri mynd af landinu og lífinu í Grindavik er brugðið upp í Ferðabók Mackenzie’s er hann kemur þangað á ferð sinni um Suðurnes í ágúst 1810.
stadur-229Honum sýnist landið auðar og ömurlegar eyðimerkur hrauna og sanda, þar sem hvergi sér stingandi strá. Hvergi bregður fyrir neinu, sem gleður augað eða léttir lundina. Loks nálgast þeir byggðina, nokkra kofa á ströndinni. Út úr þeim kemur fólkið — karlar, konur og krakkar, skriðu út úr þessum hreysum eins og maurar úr þúfum. Það glápir á gestina í forundran „enda vorum við fyrstu útlendingarnir á þessum slóðum. Mackenzie hafði meðmælabréf til Mr. Jóns Jónssonar. Spurðu þeir uppi mann með því nafni og fengu honum bréfið. Mr. Jón er síðhærður gráskeggur og þegar hann er búinn að setja upp gleraugun og fer að lesa bréfið, minnir hann helzt á yfirbiskup í rétttrúnaðarkirkjunni.
— En þetta er ekki sá rétti Jón heldur er þeim vísað á annan Jón, — eina mílu í burtu. Þegar þangað var komið, var sá Jón ekki heima, en birtist samt von bráðar og bauð þeim í bæinn, sem þeim var mjög á móti skapi að þiggja og notuðu fyrsta tækifæri til að komast aftur út undir bert loft.
Kringum tjald þeirra félaga safnaðist fólkið — um 30 manns á öllum aldri, gerðist all-nærgöngult, að því er þeim fannst, og fór ekki fyrr en komið var fram á nótt og regnið og rokið rak það heim. Sökum óþrifnaðar og af ótta við sjúkdóma, vildu þeir ferðalangarnir hafa sem minnst saman við íbúana að sælda.
Hraun-229Það er allt annað en glæsileg mynd, sem þessi erlendi ferðalangur dregur upp af Grindvíkingum, háttum þeirra og híbýlum. Ekki er ótrúlegt, að hann hefði gefið þeim annan og betri vitnisburð, hefði hann kynnzt þeim í starfi þeirra og stríði við Ægi, sjósókn þeirra og siglingum, farið með þeim í einn róður þegar mátulega golaði, kynnst útsjón og áræði farsælla formanna og dugmikilla háseta. Enginn maður í atvinnulífi Íslendinga hefur verið jafn mikilsvirtur og góður, aflasæll formaður. Hann hafði enn meiri völd og virðingu skipshafnar sinnar heldur en húsbóndi á sveitabæ naut hjá hjúum sínum, enda aðstaðan að sumu leyti önnur, þar sem líf hásetanna var ósjaldan í hendi hans.
Hraun var eitt fjölmennasta heimilið í Grindavík á þessum árum. Voru þar 17 manns heimilisfastir. Þar bjó Jón hreppstjóri og dannebrogsmaður Jónsson, 78 ára, frá Járngerðarstöðum. Hann var tvígiftur. Fyrri kona hans var Sigríður Jónsdóttir frá Ásólfsstöðum í Eystrihrepp. Var hún 15 árum eldri heldur en bóndi hennar. Þau voru barnlaus. Sigríður dó á jóladaginn 1839 „af innvortis sjúkdómi”. Næstu tvö árin var Kristin systir Jóns fyrir búi hans, en 1841 fluttist til hans 25 ára gömul stúlka austan undan Eyjafjöllum, Guðbjörg Gísladóttir, fædd á Lambafelli 10. marz 1815. Fyrsta ár sitt á Hrauni var Guðbjörg talin þar vinnukona, því næst bústýra, en haustið 1842 þ. 7. október, Járngerðarstaðarhverfi. gaf sr. Geir Backmann þau Jón hreppstjóra saman í Staðarkirkju. Þá var brúðguminn 54 ára, en brúðurin 27 ára.
Þau Hraunshjón eignuðust þrjú börn: Jón, dó vikugamall, Sigríður, fædd 29. janúar 1851. Hún giftist Hafliða Magnússyni. Bjuggu þau á Hrauni og eignuðast mörg börn. Guðbjörg, fædd 30. jan. 1859, giftist Gísla Hermannssyni frá Buðlungu. Þau bjuggu einnig á Hrauni. Jón á Hrauni var hinn merkasti maður. Bær hans var hinn allra reisulegasti í sókninni, segir sr. Geir í sóknarlýsingu sinni. Hann lét byggja þrjú mikil timburhús, slétta túnið og byggja um það grjótgarð mikinn, grafa afardjúpan brunn, sem úr fékkst all-gott vatn, en vatnsskortur var einn aðalókostur jarðarinnar. Sá var annar, að þaðan var ekki útræði á vetrum og höfðu Hraunsmenn uppsátur á Þorkötlustaðanesi. „En nú er velnefndur hreppstjóri að láta búa til vör fyrir sunnan túnið, vinnur þar að með mikilli atorku og víst þó töluverðum kostnaði að hverju sem verður” (sóknarlýsing). Hann andaðist á Hrauni, tæplega sjötugur 3. maí 1894.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 15. október 1967, bls. 10-11 og 13.

Grindavík

Grindavík 1963.