“Sum vötn eru dularfull. Þeim er öðruvísi farið en öðrum vötnum, og enginn botnar í afbrigðilegri háttsemi þeirra. Slíkt vatn var og er Kleifarvatn. Um þess konar vötn myndast sögur, og þannig er því líka einmitt farið um Kleifarvatn.
Þar herma gamlar sagnir, að sézt hafi skrímsli, en það hefur líklega ekki verið nógu athafnasamt skrímsli, sem bjó í Kleifarvatni, því að það hefur einhvern veginn lognazt út af í þjóðtrúnni, þó að Lagarfljótsormurinn lifi enn bezta lífi við slíka ástsæld austan lands, að fólk þar vill með engu móti missa hann. Hitt hefur aftur á móti haldið uppi frægð Keilfarvatns, að mikill áramunur er að því, hversu hátt er í því. Þeir, sem kunnugir voru á þessum slóðum, töluðu um tuttugu ára sveiflur. En eins og kunnugt er hefur Kleifarvatn enga afrás, nema hvað áll er í tengslum við litla tjörn (sem ekki hefur heldur neitt afrennsl) & meðan allhátt er í því. En þau árin, sem lágt er í vatninu, þornar þessi tjörn með öllu.
Með því að við erum öll fædd á öld vísindanna, hafa menn ekki látið sér nægja alþýðlegar skýringar á fyrirbærinu nú hina seinni áratugi. Vísindamenn hafa farið á stúfana til þess að svipta hulunni af leyndardómum Kleifarvatns, svo að naktar staðreyndir geti komið í stað trúarlærdóma um hegðun þess Meðal þeirra, sem hafa gefið sig að slíkri könnun, eru þeir Geir Gígja, Guðmundur Kjartansson og Pálmi Hannesson, svo að nefnd séu nöfn, sem koma í hugann, þegar hann beinist að dulúð Kleifarvatns. Ef ég man rétt, þá er skýring vísindamanna sú, að vatnsborðið hækki þau árin (eða kannski öllu heldur eftir þau ár), er úrkoma er í meira lagi á svæðinu umhverfis Kleifarvatns, en lækki, þegar úrkoma er í minna lagi. Vatnsbúskap Kleifarvatns er með öðrum orðum svo háttað, að halli er á honum, þegar aðrennsli er í minna lagi, því að þá síður meira niður í hraunið, sem undir því er, heldur en í það bætist, en svo mjótt er á mununum, að hraunið hefur ekki undan að fleyta vatninu burt, þegar öllu meira berst að.
Og ætli við verðum þá ekki að hafa það svo, úr því að vísindin hafa talað. En hitt getum við haldið okkur þeim fastar við, að það er ekki neitt fleipur, að miklu getur munað á vatnsborðinu. Það sýna myndirnar tvær, sem þessum línum fylgja, teknar á sama stað með átta ára millibili.
Árið 1931 var lágt í Kleifarvatni, og frá því ári er þessi mynd. Allra lægst mun þó vatnsborðið hafa verið árið 1932. Síðan fór hækkandi í vatninu. Það var ekki kreppan þar á þeim árum.
Svo fór Kleifarvatn að búa betur. Þessi mynd sýnir, að það hefur heldur hækkað vatnsborðið árið 1939. Drangurinn er hinn sami og sést á hinni myndinni, og nú varð ekkl aldeilis gengið út að honum þurrum fótum.
Eins og nú standa sakir er hátt í Kleifarvatni, en ekki skal fullyrt, hvort heldur vatnsborðið fer hækkandi eða lækkandi þessi misserin. En víst er það, að lítið hefur verið lagt inn í bankareikning þess hjá náttúrunni þessar síðustu vikur, er sólskinið hefur oftast bakað brunafjöll Reykjanesskagans. Það kemur einhvern tíma fram sem yfirdráttur, eins og það heitir á bankamáli, nema himininn bæti það upp með því að opna gáttir sínar þeim mun rösklegar, þegar kemur fram á sláttinn, en það er ekki dæmalaust hér á Suðurlandi eins og einhverjir kunna að minnast. (Að minnsta kosti erum við hér sannfærð um, að Benedikt frá Hofteigi er það fast í minni.) Og eftir sumar kemur haust, og svo hressilegar eru haust rigningarnar oft, að þær geta hæglega jafnað metin á skömmum um tíma, ef landsynningarnir leggja sig fram. Þannig eiga veðurguðirnir marga leiki á borði til þess að bæta hag Kleifarvatns.”
Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 20 júní 1971, bls. 538-539 – (ljósmyndir; Stefán Nikulásson).