Óbrinnishólahellir

Gengið var að Óbrinnishólahelli suðvestan syðri Óbrinnishóla, í Óbrinnishólakeri. Þetta er fornt fjárskjól, sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, en þeir nýttu vetrarbeitina á þessum slóðum öldum saman.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Hellirinn er um 10 metra langur suðvestan í kerinu. Hlaðið er fyrir framan opið og fyrir innan er gólfið flórað fremst.

Gengið var yfir Óbrinnishólabruna, yfir á Stak og upp með honum norðavestanverðum. Á Stak sést móta fyrir smalabyrgi, sem Hvaleyrarbændur notuðu þegar setið var yfir fé þarna á beit.
Sunnar í hrauninu er mikið gat í sprungu. Þunnfljótandi hraunið hafði greinilega runnið þarna niður og svo virtist sem gangur væri inn undir sprunguna beggja vegna (Aukahola). Dýpið var um 10 metrar. Gengið var frá henni til vesturs eftir gjánni og var þá fljótlega komið að Aðalholu. Hún er um 15 metra djúp (17 m ef neðsta hæðin er tekin með). Eki verður farið niður í holurnar nema á bandi eða með stiga.

Bruninn

Bruninn – gígaröð.

Gengið var yfir í Stóra-Skógarhvamm undir Undirhlíðum, mikið skógræktarsvæði. Þarna hefur vaxið nokkuð hár greniskógur á u.þ.b. 40 árum.
Í bakaleiðinni var gengið norður yfir hraunið, að gígaröð og hún skoðuð. Síðan var hraunhrygg fylgt til norðausturs og m.a. skoðuð falleg hraunmyndun á honum. Á einum stað má t.d. sjá nokkurs konar utanáliggjandi tanngarð. Hraunið þarna er nokkuð slétt, en fjólbreytilegt.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.