Almenningavegur

Í örnefnaskrá og öðrum heimildum úr Vatnsleysustrandarhreppi er Almenningsvegurinn nefndur og er þá átt við þjóðleiðina sem lá úr Vogum (sem og öðrum byggðum sunnar) og inn í Hafnarfjörð. Frá Vogum nefndist hún Almenningsleiðin, en frá Kúagerði nefndist hún Alfaraleið til Hafnarfjarðar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Gatan er hér gengin eftir endilöngum Vatnsleysustrandarhreppi frá Hæðinni við Voga og eins langt inn úr og hægt er. Frá vegamótum Vogar-Vatnsleysuströnd er stefna götunnar til norðausturs á Presthóla, tvo ílanga hóla sem ber við himin og liggur hún á milli þeirra. Vegna þess hve gatan er óljós að Presthólunum er best að staðsetja hólana frá Hæðinni áður en lagt er upp. Stekkjarholt er rétt neðan Neðra-Presthóls en Brunnastaðalangholt suðaustan við þá.
Vegurinn var í eina tíð vel varðaður og enn má sjá vörðubrot á þessum fyrsta hluta leiðarinnar með tiltölulega stuttu millibili ef vel er að gáð. Fólk ætti að huga að því ef það er óvisst um götuna, en veit nokkurn veginn stefnuna að undantekningalítið má finna hana aftur við hóla þar sem eitthvert graslendi er og á það sama við um flestar gamlar götur sem liggja að hluta um grjótmela og moldarflög.
Á milli Presthólanna er gatan djúp og augljós og skammt austan þeirra sjást hófför í klöppum. Frá hólunum liggur leiðin svo í stefnu á Arnarbælið sem er að margra mati stærsti og fallegasti hóllinn í heiðinni. Gatan liggur fast við hólinn að ofanverðu og er mjög greinileg þar. Arnarbælið er grasi vaxið og ágætur áningarstaður fyrir göngufólk en vatn er þar ekkert frekar en annars staðar á þessum slóðum. Frá Arnarbæli til Breiðagerðis er vegurinn mjög óljós og að mestu óvarðaður svo erfitt getur verið að rekja hann síðasta spölinn niður í Breiðagerði.
Ofan Breiðagerðis þar sem Gamlivegur og núverandi Strandarvegur koma saman má sjá vísi að vegagerð fyrri tíma, þ.e. flórlagða götu sem stundum var nefnd Hestaslóðin og gæti verið að sú slóð hafi verið lögð ofan á Almenningsveginn. Gott er að fylgja Hestaslóðinni inn á móts við Kálfatjarnarafleggjarann.

Almenningsvegur

Á Almenningsvegi.

Á köflum allt inn að Prestsvörðu sem stendur rétt ofan og austan afleggjarans að kirkjunni er gatan grjótfyllt milli klappa, þ.e. flórlögð svæði sem nú eru mosagróin að mestu.
Austan vörðunnar hækkar landið dálítið og þar heitir Hæðin. Frá götunni á þessum slóðum sjáum við annað veifið í Staðarborgina, stóra grjóthlaðna fjárborg í Kálfartjarnarheiði. Á leiðinni upp hæðina er hætta á að tapa götunni endrum og sinnum enda engar vörður sjáanlegar sem gætu vísað veginn. Neðan við Strandarveginn innst á Hæðinni er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson útgerðarmannn á Stóru-Vatnsleysu (f.1838). Varðan var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og syni hans Magnúsi. Á stein í vörðunni er klappað nafnið Stefánsvarða. Varðan stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegurinn og liggur hún neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu og að Kálfatjörn og hefur líklega verið meira notuð af heimafólki en hinum almenna vegfarenda. Hólarnir tveir neðan við vörðuna heita Stefánsvörðuhólar, norðan undir nyrðri hólnum er Borgarkotsstekkur.
Þegar komið er upp á Hæðina er auðvelt að rekja sig eftir götunni sem liðast á milli hóla skammt ofan Strandarvegarins. Innri hæðin á þessum slóðum heitir Tvívörðuhæð og gengur Strandarvegurinn í gegn um hana en dálítill slakki skilur á milli hæðanna tveggja.

Almenningsvegur

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Haldið er áfram eftir Almenningsveginum og rétt austan Tvívörðuhæðar er Arnarvarða. Varðan sjálf er nú grjóthrúga en hóllinn sker sig nokkuð úr umhverfinu og liggur djúp gatan fast við hann að norðanverðu. Nær bílveginum er Tvívörðuhóll og lítill stekkur vestan undir honum.
Frá Arnarvörðu er vítt útsýni yfir heiðina og niður til Strandarinnar. Upp undir Reykjanesbraut sjást Hafnhólarnir tveir, Litli- og Stóri-, er sá síðarnefndi í stefnu á Keili séður frá Arnarvörðu. Nær er svo nokkur hæð sem heitir Þorsteinsskáli, er hún í stefnu á Þorbjarnarfell við Grindavík. Suðvestan Þorsteinsskála sést Staðarborgin á sléttlendi. Rétt sunnan við Arnarvörðu er langur klapparhryggur sem heitir Löngubrekkur.
Nú hallar undan fæti og gatan er augljós austur af Arnarvörðu. Á móts við gamla Flekkuvíkurafleggjarann liggur Almenningsvegurinn um 50 m fyrir ofan Strandarveginn, þar er lítið grjótbyrgi sem hlaðið hefur verið við veginn. Á þessum slóðum, rétt ofan hans, er gömul vegagerð sem heitir Eiríksvegur og liggur hann frá Kúagerði og endar í Flekkurvíkurheiðinni. Við breikkun Reykjanesbrautar færðist Strandarvegurinn ofar í heiðina með tilheyrandi hringtorgi að brautinni en þessi lýsing miðar við Strandarveginn eins og hann lá fyrir breytingarnar, enda sér móta vel fyrir honum austan við gamla veginn ofan við Vatnsleysuströnd.
Stuttu innan grjótbyrgisins er farið yfir Hrafnagjá, þrönga misgengissprungu sem gengur niður um tún Stóru Vatnsleysu og í sjó fram. Rétt vestan gjárinnar og neðan Eiríksvegar er komið að Vatnsleysustekk. Á þessum slóðum er erfitt að fylgja götunni og virðist sem Eiríksvegur liggi yfir hana á köflum. Ofan vegar við Stóru Vatnsleysu er túnblettur og ofan hans liggur Eiríksvegur og Almenningsvegurinn hlið við hlið.

Almenningsvegur

Almenningsvegur við Arnarvörðu.

Nú hallar aðeins undan fæti og slóðinn nálgast Strandveginn aftur og þar hverfur hann og Eiríksvegur undir afleggjarann að rafstöð fiskeldisstöðvarinnar við Vatnsleysu. Innar, á móts við Steinkeravík (Stekkjarvík), sem er austan stöðvarinnar liggja vegirnir þrír þétt hlið við hlið og er Almenningsvegurinn í miðjunni.
Fagurhóll heitir hóll niður við sjóinn innan víkurinnar og á móts við hann liggja vegirnir tveir undir Strandarveginn, Almenningsvegurinn þó aðeins innar. Áfram er haldið veginn um Akurgerðisbakka en sjórinn hefur sýnt bökkunum töluverðan ágang og næst Afstapahrauninu hverfur hann undir malarkamb en kemur svo aftur í ljós í Kúagerði. Kúagerði var frægur áningarstaður áður, gott vatn í tjörninni og nógir hagar um kring. Þarna liggur Almenningsvegurinn fast við fjörukambinn og myndar nokkuð grasi gróna rönd, kögraða hraungrýti, en þegar komið er að tjörninni hverfur gatan undir umrótið sem varð við byggingu Reykjanesbrautar.

Næst er haldið frá Kúagerði upp fyrir Reykjanesbrautina og að austurjaðri Afstapahraunsins en þar mátti rekja götuna áfram en líklega er hún nú horfin undir nýbreikkaða brautina. Rétt við gamla Keflavíkurveginn á móts við Hvassahraun er Hvassahraunsrétt og þar finnst gatan aftur ofan vegarins. Hún liðast upp hólaklasann á milli Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar. Innan við hólana hverfur hún síðan undir brautina rétt áður en vegirnir fara að liggja alveg samhliða austan Hvassahraunsbæjar (þetta getur hafa breyst við breikkun brautarinnar. Há uppfylling er þar sem Almenningsvegurinn kemur undan brautinni og þar er gatan mjög greinileg en vörður eru engar við hana á þessu svæði.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni.
Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Þá er gengið um Draugakróka.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin um Hafnarfjörð.

Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er sú fyrsta af nokkrum fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Kapelluhrauni. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (sumarhús á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni um Hvaleyri og til Hafnarfjarðar.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Vatnsleysuströnd

Vegir á Vatnsleysuströnd – ÓSÁ.