Færslur

Alfaraleið

Ætlunin var að ganga til baka og fram eftir Alfaraleiðinni, hinni gömlu þjóðleið milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Voga, Njarðvíkna, Hafna, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis). Vestari hluti leiðarinnar, milli Hvassahrauns og Voga, hefur jafnan verið nefnd Almenningsleið (Menningsleið), en kaflinn frá Hvassahrauni til Hvaleyrar Alfaraleið.
Alfaraleiðin í HvassahraunslandiGangan hófst við nýlegt bílastæði sunnan undirgangna Reykjanesbrautar innan (austan) við Hvassahraun. Þegar Reykjanesbrautin var breikkuð var tekinn hluti af Alfaraleiðinni á þessum kafla. Áður sást hún sunnan brautarinnar, liggja undir hana og síðan spölkorn af henni norðan brautarinnar, ofan við gömlu réttina.
Gengið var beint inn á Alfaraleiðina, gegnt gatnamótunum, þar sem hún byrjar núna. Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna, þ.a. ein mjög myndarleg er stendur hátt á hraunhól hægra megin hennar. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Í götunni fannst m.a. skeifubrot frá löngu liðnum tíma. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Myndarleg varða við götuna sést á hæðarhrygg framundan.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Þarna liggur Óttarsstaðaselsstígur þvert á Alfaraleiðina. Gatnamótin eru nokkuð glögg. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Listaverkið Slunkaríki var þar til skamms tíma, en hefur nú verið fjarlægt.

Skeifubrot í Alfaraleiðinni

Þá er gengið um Draugakróka. Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er önnur af þremur fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Miðmundarhæð. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahúss á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Varða við Alfaraleiðina HvassahraunsmeginFramundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin klúðurslega á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni milli Hvaleyrar og Hafnarfjarðar.
AlfaraleiðinÍ ljós hafði komið að leiðin er vel greinileg svo til alla leiðina, vel mörkuð í landið á körflum og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.
Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni.

Gerði

Gerði og Gerðistjörn.

“Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans.”

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.
Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðslur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum. Réttin var fyrrum nefnt Stekkurinn, en eftir að hann var færður út og réttargerði hlaðið norðan við stekkinn, var hann jafnan nefndur Réttin eða Þorbjarnarstaðarétt.
GvendarbrunnurAlfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól/-hæð), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum. Við Miðmundarhæðina eru gatnamót götu heim að Þorbjarnarstöðum. Önnur gatnamót eru skammt austar. Mun þar vera um að ræða Skógargötuna frá Straumi er lá upp með vestanverðum túngarði Þorbjarnarstaða. Gránuskúti er þarna skammt sunnar, lítið en einstaklega fallegt fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu (GS) fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. “Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.

Varða við Alfaraleiðina

Þegar kemur vestur úr þessum þrengslum eða skorningum, má finna götu, sem liggur upp á klappir norðan við þær, og liggur gatan austur áleiðis að Þorbjarnarstöðum. Gata þessi nefnist Vetrarleið. Snjóþungt var í Alfaraleið, en snjóléttara hér og því var hún farin á vetrum.
Sunnan í klettahrauni því, sem hér er, vestan Miðmundahæðar (sjá Þorbjarnarstaði), liggur rani fram úr. Á þessum rana er vel hlaðið Skotbyrgi, sem stendur enn. Fjárgata liggur upp úr rétt hjá byrginu. Í skrá G.S. segir, að hér liggi fram úr hrauni þessu Mosastígurinn og Skógarstígurinn frá Þorbjarnarstöðum, en þennan Mosastíg kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við (sjá Þorbjarnarstaði).” Skotbyrgið sést enn, við vestari Straumsselsstíginn, en er ekki í sjónlínu frá Alfaraleið.
Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.”

Alfaraleið

Varða við Alfaraleiðina á golfvellinum.

Gengið er þvert yfir vestari Straumsselsstíg að Hæðunum. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma.
Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.
Varða í DraugadölumÞegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Líklega er hér um misskilning að ræða. Skógargötunnar er getið í lýsingu upp frá Straumi. Þar liggur hún til suðurs vestan túngarðs Þorbjarnarstaða með stefnu upp í Draugahraun. Neðan þess eru gatnamót götu er liggur síðan þvert á Óttarsstaðaselsstíg og áfram upp í Skógarnef. Þessi leið er auðfarin, en ógreinileg vegna gróninga, með föllnum vörðubrotum í fyrstu, en vestan Óttarstaðaselsstígs hafa vörðurnar verið endurreistar og því auðveldara um vik. Líklega er hér um hina eiginlegu Skógargötu að ræða.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin um Hafnarfjörð.

Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Leiðin milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða er 6 km. Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
-Örnefnalýsing fyrir Straum.
-Gísli Sigurðsson.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin (gul lína).

Fornugata

Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015” og í örnefnalýsingum fyrir Stakkavík og Vogsósa, má lesa eftirfarandi um hraunmarkaðar götur vestan Víðisands suðvestan Hlíðarvatns í Selvogi.

Fornugötur

Fornugötur.

Göturnar eru markaðar í helluhraunshelluna allt að apalhrauni Herdísarvíkurhrauns þar sem þær hverfa undir nýrra hraun. Ljóst er að mikil umferð hefur verið um þessa leið, enda helsta skreiðarflutningsleiðin frá sunnanverðum Reykjanesskaganum að Skálholtsstól til forna. Gatan eða göturnar á hraunhellunni vestan Víðisands hafa ýmist verið nefndar “Alfaraleið”, “Hellugata” eða “Fornugötur”.

“Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða… Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand,” segir í örnefnalýsingu Stakkavíkur. Til er önnur lýsing sem segir frá ýmsum leiðum í nágrenni við Selvog.

Förnugötur

Alfaraleið/Fornugötur.

Þar er þessi leið kölluð Alfaraleið. Hún lá frá Vogsósum, yfir Ósinn á Vogsósavaði og síðan um Víðisand. Þar sem honum sleppir var farið um Hellur svonefndar og var þá hægt að fara bæði efri og neðri leið, og var sú neðri talin eldri, enda sennilega torfær í seinni tíð. Hún hverfur nánast í hraun skammt austan við Mölvík en sú efri stefnir meira í norðaustur, fyrst yfir fremur slétt hraun en svo um troðning yfir yngra hraun sem stundum er kallað Bruninn. Þá taka við Mölvíkurklappir, beint upp af Mölvík en vestan við þær er komið yfir í Herdísarvíkurland. Sá hluti leiðarinnar sem var skráður á vettvangi er vestan við Víðasand, Hellurnar svonefndu og einnig Mölvíkurklappir. Í Hellunum sjást bæði merki um efri og neðri leiðina.
Leiðin liggur um fremur slétt helluhraun. Bílfær vegur liggur niður til suðurs rúmlega 1 km vestur af Stakkavíkurtúni. Þegar komið er nálægt sjávarkampinum eru Hellurnar á vinstri hönd og sjást götur í þeim fast við veginn, í stefnu á tvö vörðubrot.

Fornugötur

Fornugötur – varða.

Þetta er efri leiðin. Hún er fremur óljós í fyrstu en sést þó sem stígur í helluhrauninu. Þegar nær dregur vörðunum verður hún skýrari en verður aftur óljós á kafla á milli þeirra en fjarlægð milli varða er um 120 m. Annars er hægt að rekja þennan stíg um 400 m til VNV. Má ætla að það hafi þurft talsverða umferð járnaðra hesta til að slíta hrauninu svo mjög, enda lítur gatan helst út fyrir að hafa verið meitluð í hraunið með verkfærum, víðast um 30 cm breið og allt að 5-7 cm djúp. Um 400 m VNV af upptökum verður gatan ógreinileg en aftur sést stígur í grónu landi uppundir Brunanum og virðist hafa legið meðfram honum til norðurs, vestan við upphlaðinn vegarspotta. Skammt norðar sveigir svo gatan nánast beint í vestur, um troðning gegnum Brunann sem hlýtur að hafa verið ruddur því hraunið er annars úfið mjög.

Fornugötur

Fornagata.

Troðningur þessi er 2-3 m breiður, gróinn í botni en nokkuð hlykkjóttur. Bruninn er sennilega um 400 m breiður en þar sem honum sleppir tekur aftur við eldra helluhraun, Mölvíkurklappir. Þar sést aftur gata í hrauninu og er hún mjög greinileg á 30-40 m kafla en fjarar út heldur vestar en um miðjar klappir. Er þá komið út undir merki móti Herdísarvík. Þar tekur aftur við yngra hraun og úfnara og sést þar troðningur í átt að Herdísarvíkurbænum. Þá er komið að neðri leiðinni um Hellur. Hún sést um 150 m suðvestan við vestari vörðuna á efri leiðinni og þaðan má rekja hana rúma 500 m til vesturs, ofan í kvos sem liggur A-V ofan við sjávarkamp. Þessi gata er víðast hvar dýpri og greinilegri en efri leiðin og allt að 10-15 cm djúp þar sem mest er.
Í kvosinni er mikið af rekavið og rusli sem sjór hefur borið á land. Þar sem henni sleppir er gatan orðin ógreinileg en þó má sjá grunnan stíg sem liggur áfram til vesturs nokkurn spöl, uns komið er að úfnu hrauni sem er ekki greiðfært nema varkárum göngumönnum og sennilega alveg ófært hrossum.

Fornugötur

Fornugata.

Þá hefur götunum um Hellur verið lýst. Leiðir voru ekki raktar á vettvangi á Víðasandi. Þess má geta að póstvegurinn í átt að Strönd hefur væntanlega fylgt þessari leið, þá hinni efri, en ekki sáust þó vörður við hana nema þær tvær sem áður var getið og eru suðvestan við Hlíðarvatn.
Póstvegurinn lá þó ekki yfir Ósinn á Vogsósavaði heldur á Eysteinsvaði sem er töluvert neðar. Þess má geta að þegar komið hefur verið yfir Brunann á austurleið virðist slóð hafa legið áfram beint í austur, heim að Stakkavík.”

“Vogsósavað var rétt við túngarðinn og eiginlega aðalvaðið,” segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki ljóst hvar nákvæmlega Vogsósavað var en þó er líklegt að það hafi verið vestur eða suðvestur af bæ, þar sem breidd er á ósnum hátt í 250 m suður af Vaðhól”.

Fornugata

Fornugata.

“Eysteinsvað var niður undir Ósnum ytri, þ.e. Ósvaðið syðra. Það var einnig kallað Póstvaðið,” segir í örnefnalýsingu. Eysteinsvað var heldur ofar en kampurinn eða um 1,2 km SSV af bæ. Á þessum stað er dálítil beygja á Ósnum. Að sögn Þórarins Snorrasonar var Ósinn víða fær en þessi staður var valinn vegna þess að það gat verið sandbleyta bæði ofan og neðan við við Ósinn. Vaðið var einnig kallað Póstvað, enda lá póstvegurinn þar yfir og sjást hans greinileg merki austar.”

Vogsósar

Vogsósar og nálægar götur.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Vogsósa segir: “Ósinn nefnist lækurinn, sem rennur úr Hlíðarvatni til sjávar niður undan Vesturtúni. Hlíðarvatnsós er hann einnig nefndur og Ósinn innri, þar sem hann fellur úr vatninu. Vogsósaós er hann einnig nefndur. Mörg vöð eru á Ósnum, enda þótt hann sé eiginlega alls staðar fær. Nyrzt er Ósvaðið nyrðra eða Gamlavað niður undan Vaðhól. Þá var Vogsósavað rétt við túngarðinn og var eiginlega aðalvaðið. Niður undir Ósnum ytri var Ósvaðið syðra, sem einnig var kallað Eysteinsvað, líka Póstvaðið.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015.
-Ö-Stakkavík, Gísli Sigurðsson.
-Ö-Vogsósar, Gísli Sigurðsson.

Fornugötur

Fornugötur (Alfaraleið/Hellugata).

Óttarsstaðaborgin

Í “Fornleifaskráningu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar og breyttar landnotkunar” frá árinu 2020 má lesa eftirfarandi fróðleik um Hvaleyri, Straum, Jónsbúð, Þýskubúð, Óttarsstaði og Þorbjarnarstaði sem og Alfaraleiðina.
FornleifaskráningÁ forsíðu skýrslunnar er mynd; sögð vera af “vörðu og Sjónarhólsvarða er í bakgrunni”. Vörður þessar eru svonefndar “Ingveldar”, líkt og segir í örnefnalýsingum Ara Gíslasonar: “Tvær ævafornar vörður eru neðan Sjónarhóls. Þær heita Ingveldar, og neðan þeirra eru hraunhólar, sem heita Tindhólar. Þeir eru ofan við Vatnagarðana, sem fyrr voru nefndir.” og Gísla Sigurðssonar: “Rétt norður af Sjónarhól eru tvær vörður, er hétu Ingveldur og stóðu á Ingveldarhæð. Ekki er vitað, hvernig á Ingveldarnafninu stendur. Vestur og niður af Ingveldi voru kallaðir Tindhólar. Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða.”
Athygli forsvarsmanna Byggðasafns Hafnarfjarðar hefur verið vakin á framangreindu.

Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

Hvaleyri er elsta bújörðin í Hafnarfirði og elsta heimildin um jörðina er í Hausbók Landnámu, en Hrafna-Flóki Vilgerðarson á að hafa fundið þar rekinn hval á eyrinni og nefndi þá jörðina Hvaleyri.
Jörðin var í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395 og var leigan til klaustursins 4hndr.
Árið 1448 er getið til um kirkju á Hvaleyri en svo er lítið fjallað um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign. Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.

Hvaleyri

Hvaleyri – kort.

Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870. Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.

Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1942 – braggabyggð.

Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West end. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.

Vesturkot

Vesturkot, gamla klúbbhús Keilismanna, var brennt í árslok 1992.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

Straumur er ein af svonefndum Hraunjörðum, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungs-jarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.
Jarðarinnar er getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar segir: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter diske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Næsta heimild um Straum er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin sé í konungseign og að ábúandi sé Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.
Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel, en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi, og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsagerði er þá eyðihjáleiga á jörðinni, sem hafði verið í eyði eins lengi og menn muna, og var ekki talið líklegt að þar yrði búið aftur, vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það komi niður á hans eigin túni.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 er jörðin í bændaeign, dýrleikinn 12 ½, landskuldin 0.75, kúgildi tvö, einn ábúandi og er hann eigandi jarðarinnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar eru landamerki fyrir jörðina Straum: Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól frá Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krísuvíkurlandi.

Tobbuklettar

Vestari Tobbuklettar.

Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við (Undirritað i Straumi 31. Maí 1890).
Það er ekki mikið af sjáanlegum minjum sjáanlegar við bæjarstæði Straums, en það hefur orðið fyrir raski af seinni tíma framkvæmdum.
Þó er tún- og varnargarðurinn enn sjáanlegur við núverandi húsin á Straumi og hluti bæjarhólsins, en hann hefur verið rofinn af vegi og bílastæðum. Tæplega 200m sunnan við bæjarstæðið á Straumi er að finna Straumsrétt og fjárhús.
Norðan við Straum er að finna tvær þurrabúðir, Þýskubúð og Jónsbúð.

Þýskabúð

Þýskabúð

Tóft við Þýskubúð.

Þýskabúð var hjáleiga frá Straumi og dregur nafn sitt af því að þýskir kaupmenn munu hafa reist kaupbúðir á tanganum við Straumsvík og verslað þar á 14. og 15. öld. Engar minjar um þær búðir sjást þó á svæðinu.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók viðtal við Pál Hannesson, þáverandi eiganda Þýskubúða árið 1993 og þar segir: „Þýskubúð: Síðasti ábúandi Þýskubúðar hét Guðmundur (Björgúlfsson); hann átti allan Straum.

Þýskabúð

Þýskabúð 2022.

Húsið var byggt 1915? (1910?), síðar innréttað og lagfært.
Tjörvi nokkur Guðmundsson bjó í Þýskubúð 1911-1912 [Innskot í texta frá SÁM: Skv. Manntalsvef Þjóðskjalasafns bjó Guðmundur Tjörfi Guðmundsson í Þýskubúð miklu fyrr (m.t. 1890 og 1901; Leigandi í Straumi í mt. 1910). J.H.] Áður en Tjörvi var þarna byggði Björn, kallaður „þýski“ (Þýski Björn) [Þýskubúð]. Þjóðverjar versluðu [þarna] á 14. og 15. öld.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Þær minjar sem sjást á yfirborði við Þýskubúð eru allar seinni tíma og eru í samhengi við steypta húsið sem enn stendur að hluta. Í kringum húsið er að finna ýmis garðlög og matjurtagarða, naust og útihús, sem og gerði og brunn.
Túngarðurinn er frekar illa farinn, en hann hefur einnig virkað sem varnargarður við sjóinn og er hann þar að mestu kaffærður í fjörugrýti.

Jónsbúð

Jónsbúð

Jónsbúð – túnakort 1919.

Jónsbúð er tæpum 200m norðan við Þýskubúð, sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðar, og Markhól. Minjarnar við Jónsbúð eru mjög heillegar, en þær hafa nánast alveg sloppið við seinni tíma rask.
Árið 1999 gerði Fornleifafræðistofan, undir stjórn Bjarna F. Einarssonar, þrjár prufuholur í bæjartóftir Jónsbúðar og voru markmið rannsóknarinnar að freista þess að ná að aldursgreina tóftina og að sjá í hvað hólfin voru notuð. Ekki fundust nægileg gögn til aldursgreingar, en rannsóknin leiddi í ljó að vestur hólfið var fjós og þaðan var gengið inn í baðstofu, en algengt var að nota hita frá skepnum til þess að verma híbýli.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Á túnakorti frá 1919 segir að kálgarðar séu 180m2 og að tún Jónsbúðar séu holótt og slétt, þau séu á klettanefi við sjó, vestur frá Jónsbúð og séu 0,2 teigar.
Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en vert er að minnast á að ekki er alltaf minnst á þurrabúðir jarða þó að enginn vafi sé á að þær hafi verið til staðar.
Í manntali frá 1910 er minnst á Jónsbúð sem þurrabúð í landi Straums, og þar bjó hann Gunnar Jónsson, sjómaður, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau munu hafa flust til Jónsbúðar frá Meðalholti í Flóa 1882.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Í bókinni „Forðum gengin spor“ er tekið viðtal við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði og segir þar: „Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeir komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkar kindur.“
Í skýrslu sinni veltir Bjarni því upp að Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti íbúi Jónsbúðar en að búðin sé greinilega ekki kennd við hann. Hann segir einnig að líklegt sé að búðin hafi borið ýmiss nöfn í gegnum árin, stundum eftir ábúendum og stundum eitthvað annað, en dæmi um það eru vel þekkt. Hann segir einnig að Jónsbúð hafi ekki verið lengi í eyði áður en Jón byggði upp kotið, en algengt var að kot og smábýli hafi verið í eyði í smá tíma á milli íbúa.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Bæjarstæði Jónsbúðar er mjög heillegt, en bæjarrústirnar eru vel greinanlegar og matjurtagarðurinn áfastur þeim.
Rétt framan við bæjarrústirnar er vörslugarður en hann hefur verið til þess að beina búfénaðnum inn í fjósið. Fast NV við bæjarrústina er hjallur og túngarður umhverfis túnið. Útihús er áfast vestur hlið túngarðsins og er mögulega fjárhús, sbr. viðtalið við Jón Magnússon. Það er brunnur í Jónsbúðartjörn norðan við bæjarrústirnar og lághlaðin brú að honum, en vatnsstaða tjarnarinar stjórnast af sjávarföllum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir

Óttarstaðakot – túnakort 1919.

Óttarsstaðir er ein af svonefndum Hraunjörðum, en það voru þær jarðir innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum. Í örnefnaskrá segir að á Óttarsstöðum var tvíbýli. Þau voru nefnd Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaðir eða Austurbær. Bæirnir stóðu á bæjarhól nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn sem byggður var 1890 stendur enn.
Austurbærinn var rifinn fyrir aldamótin 1899-1900, en árið 1885 var byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu en hluti gömlu bæjartóftanna notað fyrir fjós og hlöðu.

Óttarsstaðir

Áttarsstaðir vestri.

Elstu heimildir um Óttarsstaði er Kaupbréf frá 9. september 1447, en þar segir að Einar Þorleifsson hafi keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að jarðardýrleiki jarðarinnar sé óviss og að jörðin sé í eigu konungs. Þar voru kvaðir um mannslán um vertíð, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Þar var hægt að fóðra fimm kýr ef túnið var gott, en ekki ef það hafði verið í órækt og úr sér vaxið eins og það var á þeim tíma sem Jarðabókin var gerð.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Lendingin var í meðallagi og nýtt af ábúenda allt árið í kring. Jörðin átti selstöð í almenningi, en þar voru hagar góðir, en lítið um vatn í þurrka á sumrin.
Töluvert af skráðum minjum falla inná landsvæði Óttarsstaða, en fáar tengjast eiginlegum búskap.
Fjölmargar vörður eru innan landsvæðisins, bæði kenni- og eyktamörk, einnig eru þar stekkir, leiðir og fjárskýli.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir eru ein af jörðunum sem teljast til hinna svokölluðu Hraunjarða, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elstu heimildir sem til eru um Þorbjarnarstaði er frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs, en þá er jörðin í eyði, og í fógetareikningum frá 1547-48, þá er jörðin komin aftur í byggð og þar segir : „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. summa iije tals.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 segir að jarðardýrleikinn sé óviss og jörðin í eigu konungs.
Jörðin var þá með selstöð sem nefnist Gjásel, en þar voru hagar góðir en vatn slæmt. Einnig segir að túnrista og stunga var í lakara lagi og ekki nægileg, en fjörugrastekja sé góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði hafi verið árið í kring og lending góð, en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Byggð hefur verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920, en samkvæmt manntölum bjuggu mest þar 19 manns árið 1703, en minnst bjuggu þar 3 manns 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn bjó þar samkvæmt manntölum.
Árið 1869 flyst Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881 og er segir Valgarður L. Jónson frá störfum Ólafs við umbætur á jörðinni í Íslendingaþáttum Tímans. Ólafur mun hafa grætt upp túnblettina og hlaðið varnargarð umhverfis túnið. Hann mun hafa mulið hraunið með sleggju og breitt mold yfir og fengið þannig hið fínasta tún í kringum bæinn.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru túnin á Þorbjarnarstöðum slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2, en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Ætla má að þær tóftir og garðlög sem sjáanleg eru á Þorbjarnarstöðum í dag séu komin frá honum Ólafi, en búast má við að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar sem tengjast Þorbjarnarstöðum tengjast flestar búskapi á Þorbjarnarstöðum, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kring um bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktamörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Tveir grunnar til viðbótar eru fast sunnan við Reykjanesbrautina.
Norðan við bæjarstæði og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina er að finna þurrabúðina Péturskot.

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raski vegna lagninu Reykjanesbrautarinnar. Um Péturskot segir í Örnefnaskrá „[…] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni“.

Alfaraleið

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Alfaraleiðin var áður skráð af Katrínu Gunnarsdóttur árið 2011 og er meginhluti sögulega yfirlitsins unninn úr þeirri skýrslu.
Alfaraleiðin er elsta kunna samgöngueiðin milli Suðurnesja og Innesja Reykjanesskagans. Um hana fóru allir skreiðar- og vöruflutningar.
Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða um aldir, eða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar.
Gatan sést ekki lengur í Kapelluhrauni því stórvirkar vinnuvélar hafa eytt þeirri merku vegaframkvæmd sem þarna var unnin fyrir margt löngu. Ekki er vitað hvenær gatan í gegnum Nýjahraun var rudd, en það hefur trúlega átt sér stað seint á 12. öld eða snemma á 13. öld.

Alfaraleið

Varða við Alfaraleið.

Nýjahraun rann í miklum eldsumbrotum sem áttu sér stað 1151 úr gígaröð í Undirhlíðum.
Alfaraleiðin liggur áfram í suðvestur yfir hæðir og hóla, ofan í sprungum og yfir slétt svæði í hrauninu. Leiðin var einungis skráð að sveitarfélagsmörkum Hafnarfjarðar og Voga, en hún heldur áfram mun lengra inn í hraunið.
Tuttugu og tvær vörður eru enn við leiðina, þrátt fyrir að þær hafi verið mun fleiri á meðan leiðin var í notkun.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar og breyttar landnotkunar 2020.

Ingvaldar

Brá á Ingveldum 2010.

Alafarleið

Gengin var Alfaraleiðin frá Hvaleyri að Hvassahrauni. Alfaraleiðin er gamla þjóðleiðin milli Innnesja og Útnesja frá Hafnarfirði. Frá Útnesjum var haldið á Suðurnes; Garð, Sandgerði og Hafnir. Leiðin er vel mörkuð í landið og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930) og áfram vestur úr.

Gvendarbrunnur-33

Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Há varða er á lágum klapparhól vestar (markavarða). Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Brunavarðan var á hraunbrúninni, en hefur verið eyðilögð. Gatan sést við kapelluna og kemur síðan aftur í ljós ofan við tjarnirnar við Gerði. Þar liðast hún með þeim að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni. Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta og Kápuhelli. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn og brunninn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Þar leysir vatn undan hrauninu í stríðum straumum.

Alfaraleiðin-33

Alfaraleiðinni var fylgt áfram yfir Straumsselsstíg og framhjá “Gíslavörðu”, en hún er hér svo nefnd til minningar um Gísla Sigurðsson og er til merkis um nýliðið aldarafmæli hans. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma. Þegar litið var í brunninn var ekki frá því að Gvendur sæist í honum ef vel var að gáð. Að minnsta kosti virtist hann alltaf gæjast fram þegar kíkt var ofan í brunninn. Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa.

Skogargata-3

Gengið var framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni), yfir Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) og áfram yfir Lónakostsselsstíg og upp á hæðir. Þar verður gatan óljósari, en farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Óttarsstaðafjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.

Slunkaríki

Smálaskálahæð – Slunkaríki.

Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Syðst í því er stórt og mikilfenglegt jarðfall, Smalaskálaker, með rauðamelsgúl í miðjunni. Í því var um tíma útilistaverk; lítið hús með ranghverfu. Hreinn Friðfinsson, myndlistamaður, reisti það 1974 og nefndi Slunkaríki (það er nú horfið). Í sprungu suðvestan í Smalaskálahæð var komið fyrir líki konu árið 2006 eftir að hún hafði verið myrt með hryllilegum hætti í íbúð í Reykjavík. Sjá má enn hrúgu af steinum, sem kastað hafði verið yfir hana í sprungunni, á sprungubarminum.
Veður var frábært – sól, logn og hiti. Gangan tók 2 klst og 3 mínútur.

Alfaraleið

Alfaraleið um Draugadali.

 

Gvendarbrunnur

Í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði er getið um þrjá hella eða skúta á tiltölulega afmörkuðu svæði í Óttarsstaðalandi. Fyrst segir frá Sjónarhólshelli sunnan undir Sjónarhól þeim er áheldur Sjónarhólsvörðu; “fjárhellir í stórum krika. Hann hefur verið yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður”. Rétt norður af hólnum eru tvær vörður; Ingveldarvörður. Ekki er vitað hvernig stendur á nafngiftinni. Jakobsvarða er austar, á Jakobshæð. Norðan undir hæðinni er ævargamall stekkur eða rétt. Enn mótar vel fyrir hleðslunum.

Sjónarhólsskúti

Sjónarhólshellir.

Vestan við Rauðamel, sem nú er horfinn, en í staðinn komin djúp malargryfja, er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi eða leifar eftir smalahús. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, “hellir, sem fé lá í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnanum”: Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla; Borgin, fráþví fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Skógargata (seljagata Óttarsstaða) lá suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra (gryfjan), en Suðurnesjavegurinn liggur á milli Rauðamelanna. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elsta veginn (Alfaraleiðina) milli Innnesja og Útnesja. “Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir”.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnsskjól.

Í annarri örnefnalýsingu segir að Smalaskálahellir sé ofan við Jakobsvörðu, “upp undir vegi, neðan Smalaskála. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel”. Í þessari lýsingu er hvorki minnst á Sjónarhólshelli né Gvendarbrunnshelli, en getið bæði um Sjónahól og Sjónarhólshæðir “upp af Vatnagörðum”, sem eru á vesturmörkum Óttarsstaða að Lónakotsmörkum. Við þau, Óttarsstaðamegin er Vatnagarðahellir (Vatnagarðafjárskjól/-skúti). Hellisins er getið bæði í lýsingum fyrir Óttarsstaði og Lónakot. Lónakotsfólkið mun þó hafa nýtt hann fyrir fé og stundum jafnvel til annars. Í örnefnalýsingu fyrir Straum er bæði getið um Gvendarbrunnshæð og Gvendarbrunn, en ekki um Gvendarbrunnshelli. Hann er rétt utan við austurmörk Straums, en mörkin liggja bæði um hæðina og brunninn.

Smalaskálaskjól

Smalaskálaskjól.

Gengið var fyrst frá Reykjanesbraut niður að Sjónarhólshelli. Hann er reyndar suðaustan við Sjónarhól, a.m.k. miðað við nútímaáttir. Hlaðið er fyrir skúta sunnan í stóru ílöngu jarðfalli. Um er að ræða mikla hleðslu. Skútinn hefur verið allgott skjól og rúmar fjölda fjár.
Þá var gengið til suðausturs, áleiðis að Smalaskála. Ofan við Reykjanesbrautina, samhliða henni, liggja bæði gamli Keflavíkurvegurinn sem og gamli Suðurnesjavegurinn. Keflavíkurvegurinn hefur að vísu verið lagður ofan í Suðurnesjaveginn, en sumsstaðar má sjá þann síðarnefnda hlyggjast út undan þeim fyrrnefnda.

Gvendarbrunnshellir

Gvendarbrunnshellir.

Upp undir Suðurnesjaveginum eru hleðslur fyrir skúta í grónu jarðfalli. Varða er skammt frá því. Gróið er fyrir opið og birkihríslur loka honum að hluta. Skúti þessi er norðvestan við Smalaskála, “upp undir (gamla) vegi”. Hér gæti verið um svonefndan Smalaskálaskúta að ræða.
Þá var haldið áfram til suðausturs vestan Rauðamels, í áttina að Gvendarbrunnshæð. Gengið var yfir á Alfaraleiðina og henni síðan fylgt til vesturs uns komið var að Gvendarbrunni. Austar eru Draugadalir og vestar eru Löngubrekkur. Brunnurinn er, eins og fyrr var lýst, “stór hola í klöpp”. Umhverfis holuna er gróið gras og einhver tíma hefur verið þar varða, sem nú er fallin. Hleðsla undir girðinguna á mörkum Óttarsstaða og Straums liggur þarna upp hraunið. Norðvestan við brunninn, undir hæðinni, er vel gróið. Þar er Gvendarbrunnshellir. Nokkrar hleðslur eru fyrir skúta og þar hefur verið þokkalegt fjárskjól þótt það hafi verið mót suðri.
Hraunið þarna er stórbrotið, en tiltölulega auðvelt yfirverðar. Ekki er ólíklegt að á svæðinu kunni að leynast ýmislegt forvitnilegt. T.d. var gengið fram á rýmilegan skúta í hrauninu skammt norðvestan Smalaskála (Smalaskálahæðar). Hann er niðri í litlu jarðfalli. Í því vex myndarleg birkihrísla. Þegar farið var niður í jarðfallið og undir hrísluna kom opið í ljós. Fyrir innan er hið ágætasta skjól.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Almenningavegur

Í örnefnaskrá og öðrum heimildum úr Vatnsleysustrandarhreppi er Almenningsvegurinn nefndur og er þá átt við þjóðleiðina sem lá úr Vogum (sem og öðrum byggðum sunnar) og inn í Hafnarfjörð. Frá Vogum nefndist hún Almenningsleiðin, en frá Kúagerði nefndist hún Alfaraleið til Hafnarfjarðar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Gatan er hér gengin eftir endilöngum Vatnsleysustrandarhreppi frá Hæðinni við Voga og eins langt inn úr og hægt er. Frá vegamótum Vogar-Vatnsleysuströnd er stefna götunnar til norðausturs á Presthóla, tvo ílanga hóla sem ber við himin og liggur hún á milli þeirra. Vegna þess hve gatan er óljós að Presthólunum er best að staðsetja hólana frá Hæðinni áður en lagt er upp. Stekkjarholt er rétt neðan Neðra-Presthóls en Brunnastaðalangholt suðaustan við þá.
Vegurinn var í eina tíð vel varðaður og enn má sjá vörðubrot á þessum fyrsta hluta leiðarinnar með tiltölulega stuttu millibili ef vel er að gáð. Fólk ætti að huga að því ef það er óvisst um götuna, en veit nokkurn veginn stefnuna að undantekningalítið má finna hana aftur við hóla þar sem eitthvert graslendi er og á það sama við um flestar gamlar götur sem liggja að hluta um grjótmela og moldarflög.
Á milli Presthólanna er gatan djúp og augljós og skammt austan þeirra sjást hófför í klöppum. Frá hólunum liggur leiðin svo í stefnu á Arnarbælið sem er að margra mati stærsti og fallegasti hóllinn í heiðinni. Gatan liggur fast við hólinn að ofanverðu og er mjög greinileg þar. Arnarbælið er grasi vaxið og ágætur áningarstaður fyrir göngufólk en vatn er þar ekkert frekar en annars staðar á þessum slóðum. Frá Arnarbæli til Breiðagerðis er vegurinn mjög óljós og að mestu óvarðaður svo erfitt getur verið að rekja hann síðasta spölinn niður í Breiðagerði.
Ofan Breiðagerðis þar sem Gamlivegur og núverandi Strandarvegur koma saman má sjá vísi að vegagerð fyrri tíma, þ.e. flórlagða götu sem stundum var nefnd Hestaslóðin og gæti verið að sú slóð hafi verið lögð ofan á Almenningsveginn. Gott er að fylgja Hestaslóðinni inn á móts við Kálfatjarnarafleggjarann.

Almenningsvegur

Á Almenningsvegi.

Á köflum allt inn að Prestsvörðu sem stendur rétt ofan og austan afleggjarans að kirkjunni er gatan grjótfyllt milli klappa, þ.e. flórlögð svæði sem nú eru mosagróin að mestu.
Austan vörðunnar hækkar landið dálítið og þar heitir Hæðin. Frá götunni á þessum slóðum sjáum við annað veifið í Staðarborgina, stóra grjóthlaðna fjárborg í Kálfartjarnarheiði. Á leiðinni upp hæðina er hætta á að tapa götunni endrum og sinnum enda engar vörður sjáanlegar sem gætu vísað veginn. Neðan við Strandarveginn innst á Hæðinni er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson útgerðarmannn á Stóru-Vatnsleysu (f.1838). Varðan var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og syni hans Magnúsi. Á stein í vörðunni er klappað nafnið Stefánsvarða. Varðan stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegurinn og liggur hún neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu og að Kálfatjörn og hefur líklega verið meira notuð af heimafólki en hinum almenna vegfarenda. Hólarnir tveir neðan við vörðuna heita Stefánsvörðuhólar, norðan undir nyrðri hólnum er Borgarkotsstekkur.
Þegar komið er upp á Hæðina er auðvelt að rekja sig eftir götunni sem liðast á milli hóla skammt ofan Strandarvegarins. Innri hæðin á þessum slóðum heitir Tvívörðuhæð og gengur Strandarvegurinn í gegn um hana en dálítill slakki skilur á milli hæðanna tveggja.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Haldið er áfram eftir Almenningsveginum og rétt austan Tvívörðuhæðar er Arnarvarða. Varðan sjálf er nú grjóthrúga en hóllinn sker sig nokkuð úr umhverfinu og liggur djúp gatan fast við hann að norðanverðu. Nær bílveginum er Tvívörðuhóll og lítill stekkur vestan undir honum.
Frá Arnarvörðu er vítt útsýni yfir heiðina og niður til Strandarinnar. Upp undir Reykjanesbraut sjást Hafnhólarnir tveir, Litli- og Stóri-, er sá síðarnefndi í stefnu á Keili séður frá Arnarvörðu. Nær er svo nokkur hæð sem heitir Þorsteinsskáli, er hún í stefnu á Þorbjarnarfell við Grindavík. Suðvestan Þorsteinsskála sést Staðarborgin á sléttlendi. Rétt sunnan við Arnarvörðu er langur klapparhryggur sem heitir Löngubrekkur.
Nú hallar undan fæti og gatan er augljós austur af Arnarvörðu. Á móts við gamla Flekkuvíkurafleggjarann liggur Almenningsvegurinn um 50 m fyrir ofan Strandarveginn, þar er lítið grjótbyrgi sem hlaðið hefur verið við veginn. Á þessum slóðum, rétt ofan hans, er gömul vegagerð sem heitir Eiríksvegur og liggur hann frá Kúagerði og endar í Flekkurvíkurheiðinni. Við breikkun Reykjanesbrautar færðist Strandarvegurinn ofar í heiðina með tilheyrandi hringtorgi að brautinni en þessi lýsing miðar við Strandarveginn eins og hann lá fyrir breytingarnar, enda sér móta vel fyrir honum austan við gamla veginn ofan við Vatnsleysuströnd.
Stuttu innan grjótbyrgisins er farið yfir Hrafnagjá, þrönga misgengissprungu sem gengur niður um tún Stóru Vatnsleysu og í sjó fram. Rétt vestan gjárinnar og neðan Eiríksvegar er komið að Vatnsleysustekk. Á þessum slóðum er erfitt að fylgja götunni og virðist sem Eiríksvegur liggi yfir hana á köflum. Ofan vegar við Stóru Vatnsleysu er túnblettur og ofan hans liggur Eiríksvegur og Almenningsvegurinn hlið við hlið.

Almenningsvegur

Almenningsvegur við Arnarvörðu.

Nú hallar aðeins undan fæti og slóðinn nálgast Strandveginn aftur og þar hverfur hann og Eiríksvegur undir afleggjarann að rafstöð fiskeldisstöðvarinnar við Vatnsleysu. Innar, á móts við Steinkeravík (Stekkjarvík), sem er austan stöðvarinnar liggja vegirnir þrír þétt hlið við hlið og er Almenningsvegurinn í miðjunni.
Fagurhóll heitir hóll niður við sjóinn innan víkurinnar og á móts við hann liggja vegirnir tveir undir Strandarveginn, Almenningsvegurinn þó aðeins innar. Áfram er haldið veginn um Akurgerðisbakka en sjórinn hefur sýnt bökkunum töluverðan ágang og næst Afstapahrauninu hverfur hann undir malarkamb en kemur svo aftur í ljós í Kúagerði. Kúagerði var frægur áningarstaður áður, gott vatn í tjörninni og nógir hagar um kring. Þarna liggur Almenningsvegurinn fast við fjörukambinn og myndar nokkuð grasi gróna rönd, kögraða hraungrýti, en þegar komið er að tjörninni hverfur gatan undir umrótið sem varð við byggingu Reykjanesbrautar.

Næst er haldið frá Kúagerði upp fyrir Reykjanesbrautina og að austurjaðri Afstapahraunsins en þar mátti rekja götuna áfram en líklega er hún nú horfin undir nýbreikkaða brautina. Rétt við gamla Keflavíkurveginn á móts við Hvassahraun er Hvassahraunsrétt og þar finnst gatan aftur ofan vegarins. Hún liðast upp hólaklasann á milli Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar. Innan við hólana hverfur hún síðan undir brautina rétt áður en vegirnir fara að liggja alveg samhliða austan Hvassahraunsbæjar (þetta getur hafa breyst við breikkun brautarinnar. Há uppfylling er þar sem Almenningsvegurinn kemur undan brautinni og þar er gatan mjög greinileg en vörður eru engar við hana á þessu svæði.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni.
Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Þá er gengið um Draugakróka.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin um Hafnarfjörð.

Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er sú fyrsta af nokkrum fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Kapelluhrauni. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (sumarhús á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni um Hvaleyri og til Hafnarfjarðar.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Vatnsleysuströnd

Vegir á Vatnsleysuströnd – ÓSÁ.

Ratleikur Hafnarfjarðar

Þema Ratleiks Hafnarfjarðar í ár, þann 25. í röðinni, eru fornar þjóðleiðir, gamlar götur og stígar.
Guðni Gíslason hjá Fjarðarfréttum (Hönnunarhúsinu) leggur leikinn. Þátttakendur geta nálgast frítt ratleikskort í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar við Strandgötu, á bensínafgreiðslustöðvum N1, í Fjarðarkaupum og sundlaugum bæjarins.

1. Garða(Kirkju)vegur (norðan Hjallabrautar)

Hjallabraut

Gamlar götur vestan Hjallabrautar.

Hafnfirðingar og Garðbæingar í Hraunum sóttu kirkju að Görðum á Garðaholti allt fram til þess að Fríkirkjan í Hafnarfirði (vígð 14. desember 1913) og þjóðkirkjan (vígð 20. desember 1914) voru byggðar. Allar götur þangað til gengu kirkjugestir eftir Kirkjuveginum ofan Akurgerðis, fram og til baka, að og frá Garðakirkju. Veginum var síðar breytt norðan Víðistaða, upphlaðinn af Sigurgeiri Gíslasyni og vinnuflokki hans til flutninga milli bæjarins og fiskvinnslunnar á Langeyri. Út frá honum voru ótal fiskreitir og hjallar.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Sigurgeir átti blett við Víðistaðatún, s.a.s. fast við Kirkjuveginn. Vegurinn sá lá upp frá miðbæ Hafnarfjarðar sunnan Akurgerðis, upp með Víðistöðum og áfram yfir hraunið að Görðum. Í dag sjést vegurinn enn ofan Akurgerðis (Byggðasafnið), auk þess sem mótar fyrir honum á Víðistaðatúninu að vestanverðu Skátaheimilinu. Í Norðurbænum er vegurinn kominn undir byggðina.
Sigurgeir var vegavinnuverkstjóri við flestar vegaframkvæmdir inn og út frá Hafnarfirði í byrjun 20. aldar, s.s. Suðurnesjaveginn til Njarðvíkna, Grindavíkurveginn, Hafnarfjarðarveginn til Reykjavíkur og Járnbrautarveginn í gegnum Hafnarfjarðarhraun.

2. Engidalsstígur (norðan Fjarðakaups)

Garðahverfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

Enn má sjá nokkurra metra kafla af Engidalsstígnum, uns hann hverfur undir hugsunarlausa framkvæmdargleði nútímamannsins. Þarna lá gamla leiðin suðurúr frá gatnamótunum í Engidal. Hraunkanturinn er þarna skammt norðar, en austar er m.a. tóft sauðakofa og síðan rétt og fleiri mannvirki skammt inni í hrauninu ofan við kantinn. Hraunsholtshellir, Arneshellir, er við Hraunsholt. Á milli Hafnarfjarðarvegarins og réttarinnar liggur Hraunsholtsselsstígur í gegnum hraunið, að Hádegishól, þar sem Hraunsholtsselið var fyrrum sunnan undir honum. Selsminjarnar hafa, því miður, verið í auðn lagðar vegna framkvæmda – eitt þriggja þekktra selja af u.þ.b. 400 slíkum á Reykjanesskaganum.
Skammt sunnan við Engidalsstíginn gamla er listaverkið Jötnar eftir Grím Marinó frá árinu 2000.

3. Hagakotsstígur (á móts við Járnbrautarveginn)

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Hagakotsstígur lá frá Hofstöðum að selstöðu bæjarins við Urriðavatn. Nafnið er dregið af Hagakoti, sem var hjáleiga frá Hofstöðum og stóð skammt norðan við Hraunsholtslæk (Hagakotslæk), ofan við Hagakotsvað. Stígurinn sést enn mjög vel í gegnum Hafnarfjarðarhraunið frá hlaðinni tóft á hól sunnan lækjarins við vaðið að mislægum gatnamótum er liggja nú að Kaupstaðahverfinu. Þar hverfur hann undir nútímaframkvæmdir.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.

Járnbrautarvegurinn (Atvinnubótavegurinn) í Hafnarfjarðarhrauni var stórframkvæmd í lok fyrri heimsstyrjaldar. Hann liggur hann yfir Hafnarfjarðarhraun (nú Garðahraun) sem er hluti Búrfellshrauns.
Atvinnubótavegurinn var lagður frostaveturinn mikla 1918. Þá strituðu verkamenn í miklum frosthörkum við að ryðja og hlaða upp veg gegnum hraunið með handaflinu einu saman. Engu að síður voru þeir starfinu fegnir. Þetta var eina vinnan sem í boði var á erfiðum tímum og löngu fyrir tíma atvinnuleysisbóta og viðlíka úrræða af hálfu hins opinbera. Vonir stóðu til að leggja varanlega járnbraut millum Hafnarfjarðar og Reykjavíkur…

4. Útnesjaleið á Alfaraleið (kapellan)

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Útnesjaleiðin lá frá Hafnarfirði (Innnesjum) út á Suðurnes (Útnes). Frá Hraunabæjunum nefndist gatan Alfaraleið að Kúagerði, þá Almenningsvegur ofan Vatnsleysustrandar og Stapagata frá Vogum til Njarðvíkur. Gatan sést í grónu Hellnahrauninu vestan golfvallarins á Hvaleyri um Leyni. Þar fór hún upp á Brunann (Nýjahraun/Kapelluhraun), en öllu því hraunssvæði hefur nú verið spillt, utan lítils hóls, sem endurgerð kapellutóft stendur nú á. Vestan við hana sést bútur af götunni þar sem hún á að hraunbrúninni við Gerði. Þar sést hvar Útnesjaleiðin og Alfaraleiðin koma saman.

Alfaraleið

Útnesjaleiðin (Alfaraleiðin) – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja á Reykjanesskaganum. Um hana fóru allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig enn eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim kennileitum, sem enn eftir standa.

5. Selvogsgata (Setbergssel)

Setbergssel

Setbergssel við Selvogsgötu – nátthagi.

Sunnan Selvogsgötu suðaustan Fjárhúshlíðar eru tvö sel, Setbergssel og Hamarskotssel. Varða ofan og milli hraunrásar er á mörkum jarðanna. Vestan við austara opið sést móta fyrir hlaðinni kví í skjóli fyrir austanáttinni. [Þessi kví mun hafa tilheyrt Hamarsskotsselinu]. Ofar eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru, s.s. hlaðið gerði. Í hraunrásinni er Setbergsselsfjárhellir (Selshellir) að norðanverðu (hlaðinn garður er þvert fyrir hellinn) og Hamarskotsselsfjárhellir að sunnanverðu. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar, en selið lagðist af í lok 19. aldar.

Fjárhús

Fjárhús.

Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vandaða vörðu á Fjárhúshlíð, má enn sjá háar hleðslur af gömlu fjárhúsi, sem byggt voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsselinu. Gott útsýni er til selsins frá vörðunni.
Tveir aðrir hellar eru í hraunrás austan og ofan seljanna; Kershellir og Hvatshellir. Selvogsgatan liggur ofan við jarðfallið, sem myndar opið. Þar er hlaðin varða.

6. Selvogsgata (Helgadalur)

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Selvogsgata liggur þvert yfir Helgadal. Vestan götunnar er gróinn Helgadalur með vatni í undir háum hamravegg og að austan er hraunsvæði Búrfellshrauns. Í því eru nokkrir hellar, s.s. Rauðshellir, Hundraðmetrahellir og Fosshellir. Allir eru í sömu hraunrásinni, sem lokast á millum. Í grónu jarðfalli við op fyrstnefna hellsins eru miklar hleðslur, bæði neðar og ofar. Þar eru og undir jarðveginum hleðslur einhverra fornra skjóla. Skammt norðar jarðfallsins er hlaðinn stekkur.
Nyrst í austanverðum Helgadal eru tóftir, annað hvort fornbæjar eða, sem er öllu líklegra, fornar selstöðu, sem lítt hafa verið rannsakaðar.

7. Kaldárselsvegur (vestan Borgarstands)

Kaldárselsvegur

Kaldárselsvegur.

Kaldárselsstígur var fyrst sem selstígur frá Görðum um Setberg (Selvogsgatan) þar sem hún lá af götunni til vesturs ofan misgengis austan Klifsholts að Kaldárseli, en síðar sem frá Hafnarfirði upp á Öldur og þaðan inn með vestanverðri Sléttuhlíð að Borgarstandi og þaðan að selinu. Gatan er enn vel greinileg vestan og norðan Borgarstands þar sem hún er grópuð í hraunhelluna.
Á Borgarstandi voru fyrrum tvær topphlaðnar fjárborgir, en önnur þeirra var endurnýtt (sú austari) af handverksmönnum er unnu að gerð vatnsleiðslunnar frá Kaldárbotnum til Hafnarjarðar árið 1919.
Leifar af undirhleðslu vatnsstokksins úr Kaldárbotnum, þar sem vatninu var fleytt yfir þverhleðslu Lambagjár og áfram yfir í Gjáahraunið þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum ofan Hafnarfjarðar.

8. Kúastígur (sunnan Kaldársels)

Kúastígur

Kúastígur frá Kaldárseli.

Kúastígur liggur frá Kaldárseli með stefnu á Kúadal, inn á Undirhlíðaleið vestan Undirhlíða og inn í Kúadal þar sem beit var fyrir kýr. Slíkir staðir eru fáir í nágrenni við selið. Reyndar voru kýrnar fáar og einungis í stuttan tíma, þ.e. á meðan búið var í selinu undir það síðasta.

Kúastígur

Kúastígur að Kúadal.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Kaldársel

Kaldársel – nú og fyrrum.

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun um 1880.

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.
Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.
Hafnarfjarðarbær keypti Kaldársel 1912 og árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli, nánast ofan í seltóftunum.

9. Undirhlíðaleið (Litli-Skógarhvammur)

Litli-Skógarhvammur

Litli-Skógarhvammur.

Undirhlíðaleið liggur, eins og nafnið bendir til, með vestanverðum Undirhlíðum frá Kaldárseli, í Sandfellsklofa og áfram til suðurs vestan við Sveifluháls að Ketilsstíg. Í Undirhlíðum hefur verið plantað í skógarreiti.
Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Birkið og víðitrén áttu í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða lundinn. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

10. Undirhlíðaleið (Stóri-Skógarhvammur)

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur.

Stóri-Skógarhvammur er eitt best varðveitta leyndarmál hafnfirskrar skógræktarsögu. Þangað liggur enginn akfær vegur, einungis slóði, sem ætlunin er að betrumbæta. Hvammurinn er í norðanverðum Undirhlíðum milli Bláfjallavegar og Krýsuvíkurvegar og var áður vinsæll áningastaður þeirra sem fóru Undirhlíðaleið, gömlu þjóðleiðina milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.
Auðvelt er að komast í Stóra-Skógarhvamm með því leggja bílnum á afleggjara af Kýsuvíkurvegi norðan við Vatnsskarð eða við aflagða malarnámu í Undirhlíðum við Bláfjallaveg. Þar eru stikur sem vísa á Undirhlíðaleið. Leiðin að Stóra-Skógarhvammi er tæplega 2 km löng, hvora leiðina sem farið verður.

Undirhlíðaleið

Undirhlíðaleið.

Eins og nafnið gefur til kynna var Stóri-Skógarhvammur vaxinn gömlum birki- og víðiskógi þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fékk svæðið til umsjónar og ræktunar 1958. Byrjað var á að girða 56 ha. spildu af sumarið 1958 en árið eftir hófst plöntun trjágróðurs af fullum krafti.
Samið var við Hafnarfjarðarbæ um að piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík önnuðust ræktunarstarfið undir stjórn Hauks Helgasonar forstöðumanns vinnuskólans. Þegar vinnuskólinn í Krýsuvík var lagður niður haustið 1964 var formlegu ræktunarstarfi lokið í Stóra-Skógarhvammi. Skógurinn hefur fengið að aðlagast landsháttum undanfarna fjóra áratugi og hefur nánast verið sjálfbær þennan tíma.

11. Dalaleið (um Leirdal við Leirdalshöfða)

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur  til norðurs- Helgafell fjær.

Dalaleið liggur frá Kaldárseli um Kýrskarð í Undirhlíðum, suður fyrir Gvendarselshæð og um og eftir Bakhlíðum að Leirdalshöfða. Leiðin liggur um Leirdal (Slysadal), yfir Leirdalsháls, um Kjóadali sunnan Háuhnúka, inn með utanverðum Breiðdalshnúk með stefnu á Vatnshlíðarhorn og um Blesaflatir að Kleifarvatni vestan Lambhagatjarnar. Vatnsborði Kleifarvatns er fylgt undir Hellum og farið yfir móbergsklettana Ytri- og Innri Stapa í áttina að Vesturengjum austan Seltúns í Krýsuvík.

Slysadalur

Slysadalur til suðurs – Breiðdalur og Vatnshlíð framundan.

Þegar vatnsyfirborð Kleifarvatns var hátt, sem gerist af og til, þurftu ferðalangar að „fara Helluna“, þ.e. að feta móbergshallan ofan við bergið norðan Ytri-Stapa. Það gat verið varasamt vegna sleipu á kafla og reyndist stundum þörf á að fara hann á sokkaleistunum. Enn má sjá þar rás í hallanum. Við Seltún var brennisteinsnámusvæði fyrrum, auk boranatilrauna, bæði eftir heitu vatni og jarðgufu. Seltún dregur nafn sitt af fyrrum seli frá Krýsuvík. Selshúsin voru jöfnuð við jörðu í byrjun sjöunda áratugs tuttugustu aldar þegar til stóð að reka þar kúabú, en enn ná sjá leifar gerðis og stekks austast í túninu (austan vegarins), sem hross Hafnfirðnga hafa smám saman verið að jarðlægja.
Í nútíma ferðalýsingum er Dalaleið sögð liggja upp úr Fagradal, um ofanverða Vatnshlíð austan Kleifarvatns, um Hvammahraun og Austurengjar að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Sú leið var farin af rjúpnaveiðimönnum fyrrum, enda jafnan veiðivænt í hlíðunum og með hraunkantinum efra.

12. Stórhöfðastígur (varða)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastígur liggur frá Ási um Hádegisskarð og Dalinn (Ásflatir), sniðhallt yfir Bleiksteinsháls, út á Selhraunið að Stórhöfða, upp með honum að vestanverðu uns hann beygir yfir Hellnahraunið yngra og Brunann í átt að Snókalöndum. Þar fer hann yfir Krýsuvíkurveginn og síðan suður hraunið upp að Fjallgjá, fylgir misgengi að Fjallinu eina, upp með því að austanverðu að austurjaðri Hrútagjárdyngju og með upprisuvegg hennar að Undirhlíðaleið.
Skammt vestan Stórhöfðastígs á móts við vesturhorn Stórhöfða er heillegt hlaðið fjárskjól og gerði í hraunkrika. Gegnt Stórhöfða hefur stígurinn verið lagaður í gegnum hraunið, sem nú hefur verið úr lagi færður á stórum kafla vegna skammsýnnar efnistöku.

13. Hrauntungustígur (varða)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur við Krýsuvíkurveg – vegvísir.

Hrauntungustígur liggur frá Ási um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina með stefnu á Hrútargjárdyngju, samhliða henni að Hrúthólma og upp með austanverðu Hrútfelli að Ketilsstíg.
Hrauntungustígur frá Hádegisskarði með Hamranesi og yfir fyrrum fiskhjallahraunið (Hellnahraun) er horfin undir byggð og aðrar framkvæmdir. Varða ein er á Brunahraunbrúninni vestan Krýsuvíkurvegar. Stígurinn sést vel frá veginum að henni, en síðan tekur við eyðilagt hrauntökusvæði í boði Skógræktar ríkisins. Ef stikum er fylgt í gegnum svæðið má finna stíginn þar sem hann kemur inn í Hrauntungur og síðan upp úr þeim norðvestan við skógræktina í Brunntorfum. Á þeirri leið er m.a. Hrauntunguskjólið, sem nýtt hefur verið til kolagerðar í tungunum.

14. Hrauntungustígur (Brunntorfur)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustíg má auðveldlega rekja í gegnum Hrauntungur upp í Brunntorfur. Eftir að komið er úr Hrauntungum (þar sem m.a. má líta Hrauntunguskjólið augum) liggur gatan um Brunntorfur (Brundtorfur). Þar hefur nú verið komið upp miklum skógi af hálfu úthlutaðra spilduáhugagræðara. Á Brunabrúninni má sjá steinhlaðna “skýjaborg”; Þorbjarnarstaðafjárborgina. Fjárborgin var hlaðin af börnum hjónanna á Þorbjarnarstöðum, Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi og Ingveldar Jónsdóttur, dóttur Jóns Guðmundssonar, bónda á Setbergi um aldramótin 1900. Systkinin, sem voru 11, hafa eflaust setið yfir fé í Torfunum og ætlað sér að byggja þar topphlaðna borg líkt og þau þekktu frá Djúpudölum í Selvogi. Miðveggurinn í henni var ætlaðu að halda undir þakið, þegar að því kæmi, en líklega hefur þeim verið bannað að halda verkinu áfram því hlutfallslega hefði tilgangurinn ekki helgað meðalið – til þess var ummál borgarinnar allt of mikið.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Ofan Brunntorfa liggur Hrauntungustígur upp að Fornaseli og síðan áfram upp í Almenning, áleiðis að Fjallsgrensvörðunni, um Sauðabrekkur og áfram á Ketilsstíg.

15. Stórhöfðastígur (ofan Brunntorfa)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur – gerði.

Stórhöfðastígur um Brunntorfur liggur um gróið Hellnahraunið. Þar er hlaðið gerði í krika. Skammt norðan þess er varða er vísar leiðina inn í Snókalönd, sem eru óbrinnishólmar í Brunanum. Eftir að komið er á stíginn sunnan Krýsuvíkurvegar liggur hann um tiltölulega slétt Hrútagjárdyngjuhraunið. Í því ofanverðu, áður en komið er að Fremstahöfða, má víða sjá stíginn mótaðan í hraunklöppina eftir umferð manna og dýra um aldir.

16. Gerðisstígur (ofan Gerðis)

Gerðisstígur

Gerðisstígur.

Gerðisstígur liggur frá Gerði í Hraunum, upp með vesturbrún Brunans (Kapelluhrauns) og í gegnum Selhraun (þar sem hún hefur verið rudd í gegnum hraunið) í áttina að Neðri- og Efri-Hellum (fjárhellum). Stígurinn er varðaður að hluta. Hann liggur að malarnámum þar sem áður var Þorbjarnarstaðarauðamelur í áttina að Neðri-Hellum. Norðan námunnar má sjá fjárskjól með hleðslum í stuttum hraunrásum. Þaðan liggur stígurinn upp með Vorréttinni undir brunanum að Efri-Hellum, sem eru gróin fjárskjól með hleðslum í hraunrás undir háum hraundrang. Frá fjárskjólinu liggur leiðin upp að Kolbeinshæð þar sem fjárskjólið Kolbeinshæðarfjárskjól hvílir og áfram um Laufhöfðahraun að Gjáseli og áleiðis upp á Hrauntungustíg.
Gerðisstíg hefur nú verið spillt að hluta með óskiljanlegum moldartipp sunnan kvartmílubrautarinnar.

17. Alfaraleið (í Draugadölum)

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Alfaraleiðinni er fylgt til vestur frá Þorbjarnarstöðum. Hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókóttari þar sem hún þræðir um skorninga á milli hraunhóla og – hvela. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd, hlaðin í atvinnubótavinnu snemma á 20. öld líkt og nokkrar aðrar sambærilegar við leiðina. Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Þar við eru gatnamót Rauðamelsstígs (Óttarsstaðaselsstígs/Skógargötu).
Framundan er Gvendarbrunnshæð. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli.
Reimsamt þótti í Draugadölum. Þótti sumum sem þeir heyrðu þungan andardrátt fyrir aftan sig á göngunni í gegnum dalina, einkum eftir að skyggja tók.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar, örsutt ofan túngarðs, og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en aðrir segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu [ofan Þorbjarnastaða]. Síðan er þarna kallað Himnaríki.“

18. Rauðamelsstígur (gatnamót við Alfaraleið)

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígur liggur frá Óttarsstöðum upp í Óttarsstaðasel og síðan áfram upp Almenning inn á Hrauntungustíg efst í Almenningi. Stóri-Rauðamelur var fyrrum áberandi í landslaginu þar sem nú er niðurgrafin grjótnáma norðan Alfaraleiðar. Skammt norðan hans er Litli-Rauðamelur, sem í örnefnalýsingum er sagður horfinn. Því fer fjarri. Um er að ræða fagurfræðilegan afrúnaðan rauðamelshól í umluktu hraunlendi. Ofan Meitla sést vel heim til selsins. Skammt neðar er Meitlaskjól (fjárskjól).
Stígurinn var einnig nefndur Óttarsstaðaselstígur. Út frá honum liggur Skógargatan til suðurs. Við gatnamótin eru tvær nánast jarðlægar vörður.

19. Lónakotsselsstígur (gatnamót Alfaraleiðar)

Lónakotsselsstígur liggur frá Lónakoti upp í Lónakotssel undir Skorási. Á ásnum er varða, sem sést víða að.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við á hægri hönd. Þetta er falleg fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum svonefnda, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir vel í bók sinni Íslenskum aðli. Nú hefur verið komið fyrir grind af húsinu á gjallhaugnum til minningar um listaverkið sem þar var.

20. Straumsselsstígur vestari (vestan Draughólshrauns)

Straumsselsstígur vestari liggur upp frá Straumi, nokkru vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina, upp með vestanverðu Draughólshrauni að vörðu á þverleið milli Straumssels og Óttarsstaðasels. Þaðan sést vel til beggja seljanna.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Þegar þverleiðinni er fylgt til austurs er komið að Straumsseli. Í Straumsseli eru bæði leifar selsins sem og bæjar skógarvarðarins í Almenningum.
Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þótt kjörin væru kröpp.
Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

21. Skógargata (gatnamót við Rauðamelsstíg/Óttarsstaðaselsstíg)

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur neðan gatnamóta Skógargötu.

Á Rauðamelsstíg (Óttarsstaðaselsstíg) neðan Meitla eru tvær fallnar vörður. Þær eru á gatnamótum Skógargötunnar er liggur vel vörðuð upp í Skógarnef að Bögguklettum. Þaðan liggur leiðin um hraunið að Lambafellsklofa. Norðaustan hans skiptist leiðin; annars vegar upp að norðanverðum Dyngjurana, utan við Fíflvallafjall að Hrúthólma þar sem hún sameinast Hrauntungustíg, og hins vegar til suðurs austan Eldborgar að Trölladyngju og áfram um Selsvelli og Hraunsel vestan við Núpshlíðarháls niður á Krýsuvíkurleið milli Grindavíkur og Krýsuvíkur norðan Skála-Mælifells.
Merkið er nokkru norðan við gatnamótin.

22. Straumsselsstígur eystri (gatnamót Gjáselsstígs/Fornaselsstígs)

Straumsselsstígur eystri liggur upp frá Straumi sunnan garðs Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina og upp gróna kvos vestan Þorbjarnarstaðastekks (Stekksins), til austurs norðan Draughólshrauns um Flárnar ofan Katla. Neðan og norðan við Katlana greinist gatan; annars vegar heldur hún stefnu í átt að Laufhöfða (Laufhöfðavarða) þar sem hún stefnir á Gjásel og síðan áfram upp í Fornasel, og hins vegar stefnir gatan í átt að Kötlunum og upp með þeim í Straumssel.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur eystri -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

Upp frá Straumsseli liggur leiðin um Straumsselshellnastíg (framhjá Neðri- og Efri-Straumsselshellum) upp að Gömlu-þúfu í áttina að Sauðabrekkugjá þar sem stígurinn sameinast Hrauntungustíg við Fjallgrensvörðuna skammt norðan gjárinnar. Straumselsstígurinn eystri er í fari selstígsins að Fornaseli (ofar) og Gjáseli (neðar). Hvorutveggja voru sel frá Þorbjarnarstöðum. Á stígnum skammt ofan við Tobburéttar austari (sem er fast vestan við hann) má sjá hvernig mikil umferð í gegnum aldirnar hefur sett mark sitt á hraunhelluna.

23. Hrauntungustígur (Fjallgrensvarða)

Fjallgrensvarða

Fjallgrensvarða. Girðingarstaur á landamerkjunum sést í fjarlægð.

Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða við Hrauntungustíg á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þrem­ur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna eru þar skammt frá.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum segir m.a.: „Austur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
Hrauntungustígur virðist rangt stikaður á þessum slóðum.

24. Grásteinsgata (í Urriðakotshrauni)

Grásteinn

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Grásteinsgata lá frá Hraunsholtstúni til austurs með norðanverðu Flatahrauni í Garðabæ. Stígnum er fylgt framhjá Stekkjartúnsrétt (neðri) og inn í Garðahraun (Hafnarfjarðarhraun), framhjá Miðaftanshól og yfir núverandi Reykjanesbraut, en stígurinn er nú undir brautinni á kafla, upp með Dyngjuhól (landamerki Urriðakots og Vífilsstaða), inn á Moldargötur og áfram eftir Grásteinsstíg yfir Urriðakotshraun framhjá Grásteini að Kolanefi og þaðan á stíg upp með hlíðinni í Selgjá. Í gjánni voru 11 selstöður frá Garðabæjunum og sjást þar enn leifar þeirra.
Hluti gjárinnar, að vestanverðu, hefur nú verið friðlýstur.

25. Dauðadalastígur (ofan Helgafells)

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Á kortum er Dauðadalastígur sýndur koma frá austanverðu Helgafelli, inn í elsta Húsfellsbrunann frá því um 950 e.Kr. og síðan um eldri hraun er kom frá Grindaskörðum (1100 – 4000 ára). Síðan liggur hann um Tvíbollahraunið, niður á Hellnahraunið frá sama tíma um Dauðadali og eftir þeim til suðurs uns hann beygir upp með suðvestanverðum Markraka og fylgir honum síðan utanverðum áleiðis upp á Selvogsgötu. Eflaust hafa hellaopin í Dauðadölum litla athygli vakið fyrrum, enda voru ljóslausir ferðalangar ekki að gera sér sérstakan útúrdúr til að kíkja niður í slík „ómerkilegheit“ í þá daga. Nú sækjast ferðalangar einkum í litadýrð þessara hella (Dauðadalahella, Flóka o.fl.). Stígurinn kemur inn á Selvogsgötuna þar sem hún greinist annars vegar í leiðina að Kerlingaskarði og hins vegar í svo til beina stefnu að Grindaskörðum.

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Þegar gengið er um þetta hraunsvæði má, sem fyrr er lýst, sjá nokkur hraunskeið, s.s. hraun úr Grindaskörðum (1100-4000 ára gamalt, enda vel gróið líkt og sjá má í Grindarskörðunum sjálfum), Tvíbollahraunið (frá því um 950) og Hellnahraunið (rúmlega 2000 ára gamalt). Austar er Húsfellsbruni (frá svipuðum tíma og Tvíbollahraunið (950). Inni á millum er grágrýtismyndanir kaplatóarhæða (rúmlega 7000 ára gamlar). Efst, í bókstaflegri merkingu, trjóna Helgafells- og Húsfellsmóbergsmyndanirnar í norðvestri (eldri en 11000 ára). Í heildina er á svæðinu um að ræða einstaka jarðsögu (þ.e. ef fólk kann á annað borð að lesa úr henni). Ekki má horfa framhjá hinum stórkostlegu hraunreipsmyndunum í horfnum árfarvegi vestan Dauðadala.
Gatan var einkum notuð af rjúpnaveiðimönnum. Efst í Kristjánsdölum, skammt frá Selvogsgötunni, eru tóftir eftir hús þeirra.

26. Selvogsgata (Kaplatór)

Selvogsgata

Selvogsgata – rudd á kafla gegnt Kaplatór. Húsfell fjær.

Selvogsgata er þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún er farin í einum áfanga. Ferðalangar fyrri alda hafa bæði mótað og sett spor sín á götuna sem liðast eins og farvegur í gegnum Þríhnúkahraun, framhjá Strandartorfum og Kaplatór eftir varðaðri leiðinni um Hellur, upp í Grindarskörð (sem og Kerlingarskarð inn á Hlíðarveg) og áfram niður í Selvog um Hlíðardal og Strandadal.
Strandartorfur og Kaplatór voru kærkomnir áfangastaðir við götuna, enda báðir skjólgóðir og beitarvænir. Hlaðin varða trjónir yfir Kaplatór.
Miðkafli Selvogsgötunnar er vel varðaður og ruddur um úfnar hraunspildur á köflum. Þessi hluti götunnar, frá Grindarskörðum niður í Hafnarfjörð, notaður til flutnings á brennisteini úr námum í Brennisteinsfjöllum um skeið á seinni hluta 19. aldar.

27. Kerlingaskarðsvegur/Selvogsgata (gatnamót við Bláfjallaveg)

Selvogsgata

Selvogsgata um Grindarskörð og  Kerlingarskarðsvegur um Kerlingarskarð.

Selvogsgatan (Suðurferðavegur eins og heimamenn í Selvogi nefndu leiðina) lá á millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Gatan er enn vel greinileg þar sem hún liggur upp frá Strönd í Selvogi, upp Selvogsheiði um Strandar- og Hlíðardal, yfir Hvalskarð og áfram að Grindaskörðum austanvert við Konungsfell (síðar Kóngsfell) þar sem undirlendið að Hafnarfirði blasti við.
Fyrir neðan Grindaskörð, við bílastæði neðan sæluhúss, sem þar er, eru gatnamót. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu áratuga hafa gjarnan frá þeim stað fetað aðra götu, sem brennisteinsmenn notuðu á leið sinni upp í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum í lok 19. aldar og Hlín Johnson lét síðar áframleggja niður að Hlíð við Hlíðarvatn, þ.e. upp Kerlingarskarð. Ofan þess hefur síðan vörðum frá því um miðja síðustu öld verið fylgt niður að Hlíðarskarði – og leiðin síðan jafnan verið kynnt sem hina einu sanna “Selvogsgata”.

Selvogsgata

Grindaskarðavegur.

Í rauninni er um þrjár götur að velja og er “túrhestagatan” nýjust. “Túrhestagatan” er seinni tíma “gata”, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna í þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn vera “sú eina” millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar önnur.
Tvær vörðuleifar eru enn á þessum hluta Selvogsgötunnar ofan gatnamótanna, en annars er yfir slétt mosavaxið helluhraun að fara áleiðis upp í Grindaskörð. Leiðin sú er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum; áningarstöðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Við það mótar enn fyrir jarðlægum tóftum.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðingum. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir það þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 80 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.

Grindarskörð

Grindarskörð og Kerlingaskarð.

Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint að augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður er liggur niður að Hrauni í Ölfusi.
Ofan Litla-Kóngsfells er varða og flöt uppsett hraunhella. Hvorutveggja eru merki um ofanverð gatnamót Selvogsgötu og Hlíðarvegar. Skammt vestar er vatnsstæði. Sunnan Hvalsskarðs þverast göturnar af Stakkavíkurselsstíg, sem liggur sem leið liggur niður að Stakkavík um Selstíg. Vestan við Hvalhnjúk taka við Vestur-Ásar.
Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrúnina. Þegar á brúnina kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist allnokkuð. Af henni blasir við undirlendið allt sem og hafið svo langt sem augað eygir til suðurs.

Sjá meira um ratleikinn HÉR.

Selvogsgata

Selvogsgatan að morgni dags.

Þorbjarnastaðarétt

Ætlunin var að ganga til baka og fram eftir Alfaraleiðinni, hinni gömlu þjóðleið milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Voga, Njarðvíkna, Hafna, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis). Vestari hluti leiðarinnar, milli Hvassahrauns og Voga, hefur jafnan verið nefnd Almenningsleið (Menningsleið), en kaflinn frá Hvassahrauni til Hvaleyrar Alfaraleið.

Gvendarbrunnur

Gangan hófst við nýlegt bílastæði sunnan undirgangna Reykjanesbrautar innan (austan) við Hvassahraun. Þegar Reykjanesbrautin var breikkuð var tekinn hluti af Alfaraleiðinni á þessum kafla. Áður sást hún sunnan brautarinnar, liggja undir hana og síðan spölkorn af henni norðan brautarinnar, ofan við gömlu réttina.

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Gengið var beint inn á Alfaraleiðina, gegnt gatnamótunum, þar sem hún byrjar núna. Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna, þ.a. ein mjög myndarleg er stendur hátt á hraunhól hægra megin hennar. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Í götunni fannst m.a. skeifubrot frá löngu liðnum tíma. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Myndarleg varða við götuna sést á hæðarhrygg framundan.
Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Þarna liggur Óttarsstaðaselsstígur þvert á Alfaraleiðina. Gatnamótin eru nokkuð glögg. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Listaverkið Slunkaríki var þar til skamms tíma, en hefur nú verið fjarlægt.
Varða við Alfaraleiðina HvassahraunsmeginÞá er gengið um Draugakróka. Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er önnur af þremur fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Miðmundarhæð. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahúss á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin klúðurslega á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni milli Hvaleyrar og Hafnarfjarðar.

Í ljóAlfaraleiðins hafði komið að leiðin er vel greinileg svo til alla leiðina, vel mörkuð í landið á körflum og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.
Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni.
“Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans.”

Alfaraleið

Alfaraleið sunnan Gerðis – Bruninn framundan.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.
Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðslur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum. Réttin var fyrrum nefnt Stekkurinn, en eftir að hann var færður út og réttargerði hlaðið norðan við stekkinn, var hann jafnan nefndur Réttin eða Þorbjarnarstaðarétt.
Alfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól/-hæð), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum. Við Miðmundarhæðina eru gatnamót götu heim að Þorbjarnarstöðum. Önnur gatnamót eru skammt austar. Mun þar vera um að ræða Skógargötuna frá Straumi er lá upp með vestanverðum túngarði Þorbjarnarstaða. Gránuskúti er þarna skammt sunnar, lítið en einstaklega fallegt fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu (GS) fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. “Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.
Þegar kemur vestur úr þessum þrengslum eða skorningum, má finna götu, sem liggur upp á klappir norðan við þær, og liggur gatan austur áleiðis að Þorbjarnarstöðum. Gata þessi nefnist Vetrarleið. Snjóþungt var í AGvendarbrunnurlfaraleið, en snjóléttara hér og því var hún farin á vetrum.
Sunnan í klettahrauni því, sem hér er, vestan Miðmundahæðar (sjá Þorbjarnarstaði), liggur rani fram úr. Á þessum rana er vel hlaðið Skotbyrgi, sem stendur enn. Fjárgata liggur upp úr rétt hjá byrginu. Í skrá G.S. segir, að hér liggi fram úr hrauni þessu Mosastígurinn og Skógarstígurinn frá Þorbjarnarstöðum, en þennan Mosastíg kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við (sjá Þorbjarnarstaði).” Skotbyrgið sést enn, við vestari Straumsselsstíginn, en er ekki í sjónlínu frá Alfaraleið.
Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.”
Gengið er þvert yfir vestari Straumsselsstíg að Hæðunum. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma.
Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.
Varða í DraugadölumÞegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Líklega er hér um misskilning að ræða. Skógargötunnar er getið í lýsingu upp frá Straumi. Þar liggur hún til suðurs vestan túngarðs Þorbjarnarstaða með stefnu upp í Draugahraun. Neðan þess eru gatnamót götu er liggur síðan þvert á Óttarsstaðaselsstíg og áfram upp í Skógarnef. Þessi leið er auðfarin, en ógreinileg vegna gróninga, með föllnum vörðubrotum í fyrstu, en vestan Óttarstaðaselsstígs hafa vörðurnar verið endurreistar og því auðveldara um vik. Líklega er hér um hina eiginlegu Skógargötu að ræða.
Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Leiðin milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða er 6 km. Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.
Frábært veður.

Heimild m.a.:

-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
-Örnefnalýsing fyrir Straum.
-Gísli Sigurðsson.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Straumsselsstígur

Gengið var eftir Straumsselsstíg ofan við Þorbjarnastaði og honum fylgt til suðurs upp í Flár. Þar var strikið tekið til vesturs að Gvendarbrunni og Alfaraleiðinni síðan fetuð til norðurs, að Straumsselsstíg.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur vestari – skotbyrgi.

Straumsselsstígur er enn greinilegur. Hann er gróinn í hrauninu og því tiltölulega auðvelt að fylgja honum áleiðis upp að Selhrauni og áfram upp í selið. Að þessu sinni var stígnum fylgt yfir Alfaraleiðina og upp í svonefndar Flár, nokkuð slétt hraun norðan við Selhraun. Á klapparhrygg við stíginn er hlaðið byrgi refaskyttu. Frá byrginu sést vel yfir Flárnar. Refaskyttan hefur getað greint hvern þann ref, sem leið átti niður úr ofanverðu hrauninu í átt að byggðinni í Hraunum. Slík byrgi eru við flest grenin á Reykjanesskaganum. M.a. er mjög svipað byrgi við efri Straumsselshella. Það er hlaðið úr réttarveggnum, sem þar var. Byrgið mun vera hlaðið af Jónasi Bjarnasyni og félögum er þeir voru við tófuveiðar í Almenning skömmu eftir miðja síðustu öld. Svo mun einnig vera um byrgið við Straumsselsstíginn og byrgið við Sléttugrenin norðan við Sauðabrekkugjá. Fallegasta og jafnframt heillegasta byrgið er þó á hraunsléttunni norðvestan við Búðarvatnsstæðið, auk refagildru norðan Húsfells..

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Hrauninu var fylgt til vesturs norðan við Selhraun, að Gvendarbrunni á mörkum Óttarsstaða og Lónakots. Brunnurinn er við Alfaraleiðina, hina gömlu þjóðleið milli Innnesja og Útnesja. Segir sagan að Guðmundur góði biskup hafi vígt brunn þennan líkt og nokkra aðra á Reykjanesi, nefnda eftir honum, s.s. við Voga, í Arnarnesi og í Hólmshrauni. Skammt norðvestan við brunninn er hlaðið fjárskjól undir hraunvegg. Girðingin á mörkum Óttarsstaða og Lónakots liggja við brunninn er má enn sjá undirhleðslur hennar alveg að mörkum Óttarsstaða og Krýsuvíkur uppi í Almenning.
Alfaraleiðin gamla var gengin að Straumsselsstíg og hann síðan að upphafsstað. Fallegar vörður eru við gömlu götuna sem og gatnamótin. Skammt austan þeirra er varðan á Miðmundarholti; Miðmundarvarða, eyktarmark frá Þorbjarnastöðum.
Frábært veður. Gangan tók 50 mín.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um land Þorbjarnarstaða í Hraunum. Bæjartóftirnar eru þær síðstu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir og nágrenni.

Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnarstaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að minja svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnarstöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Sóknarmannatöl allt frá árinu 1801 varpa ljósi á búsetu á Þorbjarnarstöðum síðustu tvær aldir. Þau segja m.a. til um mannfjölda á bænum. Einnig gefa hreppsreikningar á Þjóðskjalasafni góða sýn á bátakost, búfénað, mannfjölda á bænum. Í reikningum Álftaneshrepps frá 1845 5 kýr á Óttarsstöðum, en bara 2 á Þorbjarnarstöðum og 40 ær á móti 60 á Óttarsstöðum. Einnig eru nefndir bátar, kálgarðar, mótekja, o.fl. Í Jarðabókinni frá 1703 segir margt um jörðina á síðustu öldum. Í Jarðabókinni segir t.d. um Straum varðandi fóðrun kúa: “Fóðrast kann iii kýr ”bjarglega” . En um Þorbjarnarstaði segir : “Fóðrast kann iii kýr, ”naumlega”. Þetta segir að Straumur hafi verið betri jörð árið 1703 en Þorbjarnarstaðir. Sveiflur á milli jarðaverðmæta voru að sjálfsögðu háðar náttúru- sem og þjóðfélagsbreytingum hvers tíma. Margt fleira má lesa út úr Jarðabókinni varðandi jarðarverðmætin á viðkomandi tíma og samanburð á milli jarðanna.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægt hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni minni Innnesja og Útnesja.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að “fiskgeymslunni”. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.
Enn má sjá móta fyrir öllu þessu, og raunar miklu fleiru. Það er alveg á sig leggjandi að ganga frá gamla Keflavíkurveginum, yfir á Alfaraleiðina ofan við Gerði og fylgja henni ofan við tjarnirnar, norðan Þorbjarnastaða. Á leiðinni sést allt það sem að framan er getið. Það sem eftir er birtist ljóslifandi er gengið er í hlað eftir brunngötunni að Þorbjarnastöðum.
Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæimgerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.