Færslur

Hafnarfjörður

Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1966, “Við veginn” – Magnús Jónsson, bls. 21:

“Ein af mestu umferðaræðum landsins er sem kunnugt er vegurinn milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Verður í þessu greinarkorni rabbað um eitt og annað, sem í hugann kemur á hluta af þeirri leið, þótt lesandinn megi ekki búast við að verða að miklum mun fróðari eftir lesturinn en áður.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Nú liggur þar steyptur vegur, en á fyrsta tugi aldarinnar og lengur stóð þar yfir vegarlagning sem leysti reiðgötuna af hólmi, því að um eiginlega lagða vegi var ekki að ræða hér á landi áður fyrr, heldur troðninga, sem ekki voru mótaðir af mannshöndinni, nema e.t.v. nokkrum steinum rutt frá. Þó varð ekki komizt hjá víðtækara verki, þar sem brunahraun þöktu stór landsvæði. En þar hafa menn lyft huganum frá bakraun og tilbreytingarlausum átökum við hnullunga og eggjagrjót með myndum þjóðsagna: Ósk um að berserkir — sem tæpast voru mannlegar verur — fengju rutt vegi um þessa farartálma á svipstundu svo að segja. Samkvæmt þjóðtrúnni gerðist slíkt bæði í Berskerkjahrauni á Snæfellsnesi og í Ögmundarhrauni, sem snemma í byggðarsögu landsins rann í sjó fram milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Er þar auðséð, hvar hægt en óstöðvandi hraunrennslið hefur umkringt mannvirki, — en það er önnur saga.
En hvað sem líður fyrstu myndun lestaveganna í hraununum, þá voru þeir „framtíðarvegir‘, sem fullnægðu kröfum kynslóðanna, sem ekki þekktu annað betra. Öðru máli var að gegna með mýrarkenndan jarðveg. Verið gæti, að margur lestarmaður hafi með nokkurri furðu hugleitt þá tilhögun skaparans, að nautgripunum skyldi veitast svo furðu auðvelt að ösla um þau fen og foræði, sem klyfjahestarnir hans urðu að krækja fyrir, já, oft um langan veg, þótt ekki bæru þeir alltaf þunga úttekt úr kaupstaðnum. „Betri er krókur en kelda“, segir máltækið. Og því er það, að einhverjir fyrstu lagðir vegir voru hinar svonefndu brýr, sem lagðar voru stytztu leið yfir mýrarfláka víða um land. Er eitt slíkt örnefni til hér í nágrenni Hafnarfjarðar, sem er „Dysjabrú’. Er það vegarkaflinn þaðan sem hrauninu sleppir og að Garðaholti. Þetta mannvirki er að sjálfsögðu kennt við Dysjar, eitt þekktasta býli Garðahrepps.

Í þéttbýlinu

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Þegar halda skyldi t. d. frá Reykjavík til Suðurnesja, var farið um Hafnarfjörð með sjónum. Við Arahús — nánast þar sem nú er Strandgata 21 — var æði stutt bilið á milli sjávarmálsins og hins byggða bóls. Þegar suður fyrir lækinn kom tók við samfelld möl, allt að Hamrinum syðri. Þótt sjávarmöl sé þreytandi manna- og hestafótum, hefur hún ýmsa kosti. Leikvöllur barnaskólans frá 1902 var t. d. þakinn þykku lagi af henni. Varð sársaukinn hverfandi lítill, þótt dottið væri á hnéð í áflogum, þar sem hver steinn var svo afsleppur að hann ýttist frá. Fátt er líka heppilegra til að drýgja með steinsteypu en hrein möl úr fjörunni. En nú er velmegunin svo mikil, að sjaldan er talað um að drýgja nokkurn skapaðan hlut í þeirri merkingu. Gatan sveigði fljótlega upp á við, þar sem enn er farið að Ásmundarbakaríi og Prentsmiðju Hafnarfjarðar, því næst þar sem er Suðurgata 24, en síðan skáhallt upp hallann í átt til sjávar. Fljótlega hallaði því undan fæti aftur og var þá komið á Flensborgarmöl.
Algengt vegarstæði er „milli hrauns og hlíða“, t.d. upp í Kaldársel, en hér hefur það sennilega verið bezt „milli mýrar og malar“, ef svo mætti segja. Síðan lá leiðin með sjónum, líkt og þegar nú er farið að verksmiðjunni Lýsi og mjöl, og reyndar alveg suður að Hvaleyri. Var svo farið beint af augum framhjá Hjörtskoti og komið niður þar, sem síðar var sandnámið verðmæta og umdeilda.

Byggðin að baki

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Þá tekur hraunið við. Það er með ávölum klettabungum og gróðri sízt minni en í Hafnarfjarðarhrauni. Er m. a. athyglisvert að skoða, hve langir geta orðið leggir blómanna, sem vaxa í klettasprungunum og teygja sig í birtuna. — Nokkurn veginn sézt hvar lestavegurinn liggur, allmiklu nær sjónum en hinir, og hafa hófar og mannsfætur jafnvel unnið nokkuð á sléttum klöppunum. Þó er vegna gróðurs hraunsins ekki eins auðvelt að fylgja þessari slóð í Hellnahrauninu eins og var til skamms tíma, þegar í Kapelluhraunið kom. Það er miklu yngra, sennilega runnið á 12. öld að áliti jarðfræðinga, ólíkt hinu fyrra að allri gerð og liggur ofan á því. Í annálum er hraunbreiðan öll nefnd Nýjahraun. Í því er lítill gróður annar en mosi, og þess vegna var það, að elzta leiðin um það sást svo vel. Hún þaktist öll grasi og öðrum lággróðri eins og græn rönd um gráan mosann, frá norðri til suðurs, sundurslitin af nýrri veginum sunnan til í hrauninu, — lá þar upp fyrir hann.

Selsvellir

Alfaraleiðin.

Flest sagnorð um þann hluta þessarar hraunbreiðu, sem hér er átt við, mætti hafa í þátíð. Hraunið er þar tæpast lengur til, en hefur verið rutt, flutt og sléttað með stórvirkum vélum. Enn hefur þó verið þyrmt mannvirkinu gamla, Kapellunni, sem hraunið næst sjónum dregur nafn af. Í Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961 er ýtarleg grein um mannvirki þetta eftir Ólaf Þ. Kristjánsson skólastjóra. Það var vorið 1950 að lítið líkneski fannst þar af einum dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, heilagri Barböru. Þótti hún góð til áheita gegn hvers konar eldsvoða, sprengingum og þvíumlíku. Þar sem, eins og áður er sagt, að hraunið rann eftir landnámstíð, verður manni ósjálfrátt að tengja þennan dýrling einnig bæn gegn eldgosum og hraunrennsli.

Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegurinn vestan Straums.

Vart er hægt að hugsa sér meiri andstæður en hljóðlátt bænarandarp innan veggja þessa litla frumstæða húss og svo þau gífurlegu umsvif nútímans, sem fyrirhuguð eru svo að segja á þessum stað, þar sem er álverksmiðjan. Er þá að engu orðin hin kyrrláta fegurð byggðarlagsins í Hraununum, sem svo er nefnt. Hraunin taka við þar sem Kapelluhrauni sleppir. Kapellan lá alveg við elzta veginn — reiðgötuna, — nýrri vegurinn var ofan við hana, en sá nýjasti — steypti — er fáa metra neðan við.
Í Hraununum voru allmargir bæir, en þó aldrei kirkjustaður. Er nú aðeins Straumur í byggð og Óttarsstaðir tveir. Bærinn í Þýzkubúð stendur enn, og ber hann og nánasta umhverfið vitni um hinn hverfandi eiginleika, nægjusemi. Ofar, þar sem vegirnir liggja nú, voru m. a. Stóri- og Litli-Lambhagi og Þorbjarnarstaðir.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleið.

Efst liggur reiðgatan gamla, en nú verður aftur erfiðara um vik að fylgja henni. Hraunið, sem við nú erum komin í, er ein af stærri hraunbreiðunum og nefnist Almenningur. Er það álíka gróið og Hellnahraun, en líkist enn meira Hafnarfjarðarhrauni. Elzti vegurinn liggur þar fjærst sjónum eins og áður er sagt, en nýrri vegurinn hjá rauðamelsnámunum og síðan klettaborginni Smalaskála. Steypti vegurinn er enn neðar. Við elzta veginn, nokkru nær Hafnarfirði en rauðamelurinn er tekinn, er vatnsbólið Gvendarbrunnur. Þar var tilvalinn áningarstaður, alltaf vatn og svo grasi gróið sléttlendi umhverfis.
Er slíkt óvíða að finna á Reykjanesskaga, og bendir m.a. til þess hið langa nafn hreppsins, sem við nú nálgumst, Vatnsleysustrandarhrepps. En hér hvílumst við (til næstu jóla?) Hér hefur líka Guðmundur biskup Arason hvílt lúin bein, eftir að hafa vígt vatnslind þessa, öldum og óbornum til blessunar. Og hér umhverfis vatnsbólið sat einn bekkur úr Barnaskóla Hafnarfjarðar fyrir 30 árum, ásamt kennaranum, Friðrik Bjarnasyni. Fölleitur, brúneygur drengur úr þeim hópi hefur stundum farið þangað síðan.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 24.12.1966, Við veginn – Magnús Jónsson, bls. 21.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Gamli barnaskólinn fyrir miðju.

Portfolio Items