Straumsselsstígur

Gengið var eftir Straumsselsstíg ofan við Þorbjarnastaði og honum fylgt til suðurs upp í Flár. Þar var strikið tekið til vesturs að Gvendarbrunni og Alfaraleiðinni síðan fetuð til norðurs, að Straumsselsstíg.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur vestari – skotbyrgi.

Straumsselsstígur er enn greinilegur. Hann er gróinn í hrauninu og því tiltölulega auðvelt að fylgja honum áleiðis upp að Selhrauni og áfram upp í selið. Að þessu sinni var stígnum fylgt yfir Alfaraleiðina og upp í svonefndar Flár, nokkuð slétt hraun norðan við Selhraun. Á klapparhrygg við stíginn er hlaðið byrgi refaskyttu. Frá byrginu sést vel yfir Flárnar. Refaskyttan hefur getað greint hvern þann ref, sem leið átti niður úr ofanverðu hrauninu í átt að byggðinni í Hraunum. Slík byrgi eru við flest grenin á Reykjanesskaganum. M.a. er mjög svipað byrgi við efri Straumsselshella. Það er hlaðið úr réttarveggnum, sem þar var. Byrgið mun vera hlaðið af Jónasi Bjarnasyni og félögum er þeir voru við tófuveiðar í Almenning skömmu eftir miðja síðustu öld. Svo mun einnig vera um byrgið við Straumsselsstíginn og byrgið við Sléttugrenin norðan við Sauðabrekkugjá. Fallegasta og jafnframt heillegasta byrgið er þó á hraunsléttunni norðvestan við Búðarvatnsstæðið, auk refagildru norðan Húsfells..

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Hrauninu var fylgt til vesturs norðan við Selhraun, að Gvendarbrunni á mörkum Óttarsstaða og Lónakots. Brunnurinn er við Alfaraleiðina, hina gömlu þjóðleið milli Innnesja og Útnesja. Segir sagan að Guðmundur góði biskup hafi vígt brunn þennan líkt og nokkra aðra á Reykjanesi, nefnda eftir honum, s.s. við Voga, í Arnarnesi og í Hólmshrauni. Skammt norðvestan við brunninn er hlaðið fjárskjól undir hraunvegg. Girðingin á mörkum Óttarsstaða og Lónakots liggja við brunninn er má enn sjá undirhleðslur hennar alveg að mörkum Óttarsstaða og Krýsuvíkur uppi í Almenning.
Alfaraleiðin gamla var gengin að Straumsselsstíg og hann síðan að upphafsstað. Fallegar vörður eru við gömlu götuna sem og gatnamótin. Skammt austan þeirra er varðan á Miðmundarholti; Miðmundarvarða, eyktarmark frá Þorbjarnastöðum.
Frábært veður. Gangan tók 50 mín.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.