Færslur

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Hraunin og Hraunabæina svonefndu, s.s. Straum, Gerði, Þorbjarnastaði, Óttarstaði, Eyðikot og Lónakot.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.
Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík.
Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju.

Hvasshraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krísuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krísuvíkur.
Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt.

En hvað verður um Hraunin?
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði, auk þess sem hluti þess fer undir fyrirhugaða stækkun álversins. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

-Byggt á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnarstaðir

Gengið var áleiðis inn í Brunntorfur, að Þorbjarnastaðaborginni, stórri fjárborg er börn hjónanna frá Þorbjarnastöðum í Hraunum hlóðu um aldarmótin 1900.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Borgin er fallega innhlaðinn að ofan, hringlaga með leiðigörðum út frá dyrum til suðausturs. Inni í borginni er hár beinhlaðinn veggur. Líklegt má telja að topphlaða hafi átt borgina og að veggurinn inni í henni hafi átt að halda undir þakið þegar það lokaðist. Svipuð fjárborg, topphlaðin, er í Djúpadal í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum, Þorkell Árnason, var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi og því verið kunnugur þeirri borgargerð.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Ofar, suðaustar, í Brunntorfum er hlaðinn inngangur að tvískiptu fjárskjóli. Þrjú önnur fjárskjól eru í Brunntorfum. Sunnar er Fornasel og Gjásel vestar; hvorutveggja gömul sel frá Þorbjarnarstöðum. Í Önefnalýsingum um Straum er einungis getið um Fornasel og því þá ruglað saman við ónefnt Gjásel.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Gengið var að Fornaseli. Við selstöðuna er fallegt vatnsstæði, stekkur í lægð og tóftir. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í Fornasel fyrir skömmu. Taldi hann minjarnar vera frá því á 14. eða 15. öld. Gjáselið er einnig á hæð líkt og Fornasel. Þar við er einnig vatnsstæði, en það var þurrt að þessu sinni. Norðvestan undir hraunholtinu er stekkur í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Gránuskúti er sunnan selsins. Svæði þetta tilheyrir allt svonefndum Almenningi. Samkvæmt gömlum bókum á það að vera ein fermíla að stærð, en ein dönsk míla er nú 7.5 x 7,5 km eða ca. 56 ferkílómetrar. Náði Almenningur niður að alfaraveginum. Stiftamtmaður heimilaði Hraunabæjunum einum afnot af Almenningi árið 1848, en það segir í raun lítið um eignarréttinn á svæðinu.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var norðvestur eftir Gjáselsstíg þangað til hann sameinast Straumsselsstíg skammt þar frá er sá síðarnefndi beygir inn í hraunið, áleiðis að Straumseli. Þar skammt sunnar eru tvö fjárskjól, Kápuskjól og Kápuhellir.
Þaðan var haldið til norðurs um austanverðar Flár með stefnu á Kolbeinshæð. Í því er fjárskjól, Kolbeinshæðaskjól, hlaðið fyrir slútandi hraunskúta mót austri. Vel gróið er í kringum skjólið og óvíða eru stærri krækibær að finna á Reykjanesinu.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Frá Kolbeinshæðaskjóli eru vörður til norðurs, að Gerðastíg undir vesturkanti Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Þar undir háum kletti eru Efri-hellar (hellrar), fjárskjól undir hraunþaki. Hlaðið er fyrir munnann og einnig skammt austan hans. Skjólið er fremur lágt, enda hefur safnast talsverð mold í gólfið. Nýjahraun er talið hafa runnið um 1151 (um svipað leyti og Ögmundarhraun). Síðar var það nefnt kapelluhraun eftir kapellunni í hrauninu, en hún kemur við sögu eftirleiks dráps Jóns Arasonar, biskups (1550). Kristján Eldjárn gróf í kapelluna ásamt fleirum um 1952 og fann þar marga gripi. Þegar álverið var byggð í upphafi sjöunda áratugs 20. aldar var kapellan eyðilögð, en ný hlaðin í hennar stað á hraunhól við leifar Alfaraleiðarinnar. Vel færi því á því að nefna hraunið aftur Nýjahraun.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Skammt norðvestan Efri-Hella, sem sumir telja að hafi verið nefnda Efri-Hellrar eftir hellunni ofan við fjárskjólið, er Vorréttin (Rauðamelsréttin), heilleg og fallega hlaðin utan í hraunkantinum. Ofan við hana er nú æfingasvæði Skotfélags Hafnarfjarðar. Þegar stígnum er fylgt áleiðis að Gerði ofan Fagurgerðis er m.a. komið að Neðri-Hellum (skammt sunnan við stíginn). Þar er einnig fjárskjól í skúta og hlaðið fyrir. Norðan hans er hlaðið ferkantað gerði utan í hraunkantinum. Vestan við Neðri-Hella er talsvert af fornum, nú jarðlægum, minjum. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur merkt hluta þeirra. Flestar þeirra eru norðan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel, sem nú hefur verið grafinn í sundur með stórvirkum vinnuvélum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Haldið var áfram og stígnum fylgt í gegnum Selhraunið að Þorbjarnarstaðaréttinni eða -stekknum, norðan undir háum hraunhól. Réttin er enn heilleg og hefur verið fallega hlaðinn. Inni í henni er heilleg lambakróg. Hún ber því merki fyrrum heimastekks sem þróast hefur í fjárrétt. Vestar er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða (eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum). Skammt norðar er bæjarstæðið. Hægra megin við suður frá bænum er há varða á hraunhrygg; Hádegisvarðan.

Gránuskúti

Í Gránuskúta við Gjásel.

Hraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi.

Straumur

Straumur 1935.

Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.
Íbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt Innnesjamenn.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Mosastígur, Brunnstígur, Jónsbúðarstígur, Lónakotsgata, Réttarstígur og Péturskotsstígur.
Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaði í kringum árið 1200. Þar er getið um hálfkirkju og grafreit.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Við helstu götur og við sum selin eru náttúrulegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.

Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.

Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk.

Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00).

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Heimildir m.a. af:
http://www.simnet.is/utivera/text/saga.htm

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnastaðir

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum þar sem hann kemur út úr Kapelluhrauninu að vestanverðu og liðast í gegnum Selhraunið við tjarnirnar ofan við Straumsvík, neðan Gerðis.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjaarnarstaðir – brunnur.

Fallegar veghleðslur, sem enn hafa fengið að vera óhreyfðar, eru við veginn þar sem hann beygir niður með tjörnunum. Svipaðar hleðslur má einnig sjá með elsta hluta vegarins vestan Rauðamelsnámunnar í landi Óttarstaða. Ætlunin var að fylgja að mestu Alfaraleiðinni áleiðis að Lónakotsmörkum, en skoða þó hinar ýmsu minjar, sem eru beggja vegna hennar á þeiri leið.
Tóftir bæjar og útihúsa eru í Gerði. Þar er nú aðstaða Starfsmannafélags Ísals í uppgerðu húsi. Fallegar hleðslur eru með tjarnarbakkanum að norðvestanverðu. Álverið hefur nýlega keypt megnið af landinu ofan við sjálft sig, bæði af Skógrækt ríkisins og Hafnarfjarðarbæ, sem reyndar verður að telja mikil mistök af hálfu þess síðarnefnda.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Við bakkana má t.d. sjá hlaðin byrgi veiðimanna við tjarnirnar, hlaðin gerði til ullarþvotta, bryggju til slíkra verka og þar má einnig sjá hvernig ferskvatnið streymir undan hrauninu. Sagt er að Kaldá komi þarna upp, en hvað sem því líður er jafnan stöðugt rennsli ferskvatns á þessum stað. Bændur á Þorbjarnarstöðum sóttu vatn í “leysingarnarvatnið” og nýttu það til ýmissa nota. Á bökkum tjarnanna að vestanverðu má sjá tóftir útihúsa og hlaðna garða er mynda gerði.

Vörslugarðurinn um Þorbjarnastaði er tvöfaldur. Líklegt má telja að hann hafi verið hlaðinn vegna nægilegs framboðs af grjóti er verið var að rækta túnin, til að nýta til fjárrekstrar af heimatúninu í réttina norðan við túnin eða til að stækka hið ræktaða svæði með tilkomu girðinga.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnarstaðir fóru í eyði árið 1930, en þar hafði áður búið Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi og Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, bónda og hreppsstjóra á Setbergi, Jónssonar hins fjárglögga frá Geysi í Haukadal (Tortu og Helludal), fyrrum Áslákssstöðum á Skeiðum. Ein dóttirin bjó í Urriðakoti.
Börn Þorbjarnastaðahjónanna voru ellefu að tölu. Eitt þeirra var Ingveldur Þorkelsdóttir, húsfreyja í Teigi í Grindavík, mikil öndvegiskona líkt og annað það fólk er hún átti kyn til. Þorbjarnastaðabörnin hlóðu m.a. Þorbjarnastaðaborgina undir Brunntorfum og stendur enn, heil að mestu.

Ofan við Alfaraleiðina, ofan Þorbjarnastaða, er réttin. Hún er nokkuð heilleg. Þorbjarnastaðir notuðu, auk hennar, bæði heimaréttina, norðan vörslugarðsins, sem og vorréttina skammt norðaustar, undir vesturbrún Kapelluhrauns.

Vorrétt

Vorréttin.

Hún stendur enn og er nokkuð heilleg. Þessi rétt er með tveimur dilkum, líklega fyrir sauði, enda að mestu verið notuð sem rúningsrétt. Þá er og líklegt, miðað við mannvirkin, að hún hafi verið notuð sem stekkur og fráfærurétt um tíma. Ofar er nátthagi og styrkir það því þá tilgátu.

Miðmundarholt (-hóll), er skammt vestar. Á því er há og myndarleg varða, eyktarmark. Skammt vestan hennar eru gatnamót Alfaraleiðar og Straumsselsstígs. Sjást mótin vel, en þau eru ómerkt. Ofar má sjá vöru við selsstíginn, en handan hraunhryggs er hlaðið skjól við stíginn. Annars er selsstígurinn vel markaður í hraunið á kafla, einkum þar sem hann liggur um slétt ofanvert Selshraunið og hefur sameinast stígunum áleiðis upp í Gjásel og Fornasel, sem munu hafa verið sel frá Þorbjarnastöðum.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin – varða.

Nýlega var grafið í tóftir Fornasel og kom í ljós að þar reyndust vera minjar frá því á 14. eða 15. öld (BE).
Fallegar vörður varða Alfaraleiðina í gegnum tiltölulega slétt hraunið. Leiðin liggur framhjá Gvendarbrunni, vatnsstæði á tiltölulega sléttu hrauni, en norðvestan þess er hlesla fyrir fjárskjóli.
Þá liggur leiðin áfram til vesturs, um krókóttan stíg. Skammt vestan Gvendarbrunnsmá sjá móta fyrir tveimur föllnum vörðum, sem telja má að hafi verið nokkuð stórrará sínum tíma. Líklegt má telja að þær hafi haft ákveðin tilgang fyrrum, sem í dag verður að telja óljósan. Þær eru þó nálægt landamerkjum Óttarstaða og Straums.

Óttarsstaðaborg

Kristrúnarborg / Óttarsstaðaborg.

Skammt austan Smalaskálahæða er varða við Alfaraleiðina. Þar liggur Óttarstaðaselsstígurinn þvert á leiðina. Að þessu sinni var beygt til hægi og stígnum fylgt að Óttarstaðaborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundir Sveinssyni, um 1870. Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Í þeim vestanverðum var nýlega komið fyrir líki konu er myrt var í bæ Ingólfs, hins fyrsta skráða landnámsmanns á voru landi. Það mál upplýstist.
Gengð var til baka um gamla Keflavíkurveginn, framhjá Rauðamelsnámunum og að upphafsstað.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Straumssel

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939) og þaðan að Þorbjarnastaðaréttinni undir hraunhól sunnan við bæinn. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Gengið var um Kúadal og áfram inn á eystri Straumsselsstíg (sem er reyndar eldri selstígur að Gjáseli og Fornaseli frá Þorbjarnastöðum).
Um miðja vegu að selinu var ákveðið að halda til vesturs út af honum og kanna hraunsvæðið. Þar inn á milli hólahyrpingar var komið að stórumhlöðnum nátthaga – Toppuklettum (Tobbuklettum). Eftir að punktur hafði verið tekinn þar var haldið í selið um Flárnar. Upp frá því var leitað Neðri-Straumsselshella. Þeir eru nokkuð sunnan selsins, hlaðinn gangur og nokkuð stór fjárhellir.
Eftir að hafa skoðað hellinn var Efri-Straumsselshella leitað og fundust þeir enn á ný nokkur ofar. Þeir eru þarna í lægð í Almenningum og er stór fjárhellir innan af henni. Hlaðið er í kringum opið, auk þess sem fyllt er að bakdyrum. Í kringum lægðina er hlaðinn garður. Upp af honum að norðanverðu er hlaðið byrgi, sem Jónas Bjarnason hlóð er hann var á refaveiðum á þessu svæði. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem nátthagi og síðan rétt undir hið síðasta og bera hleðslunar þess glögg merki.

Straumsselshellar

Í Efri-Straumselsshellum.

Þegar FERLIR kom síðast í Efri-Straumsselshella var þar greinilegt krafs eftir ref. Haldið var áfram norðvestur að Stóra-Fjárskjóli. Þar er hlaðið fyrir aflangan skúta. Þá var gengið að Óttastaðaseli og umhverfi þess skoðað áður en haldið var til norðurs eftir hrauninu. Á leiðinni var m.a. skoðað hlaðið refaskyttuskjól á neðsta hluta Straumsselsstígs.
Frábært veður.

Straumssel

Straumssel.

 

Þorbjarnastaðir

Björn Möller í Hafnarfirði benti FERLIR á Minningu um forföður eiginkonu hans, Guðfríðar Guðmundsdóttur, Ólaf Jónsson, bónda á Geitabergi, Katanesi, er birtist í Íslendingaþáttum Tímans árið 1982. Ólafur var langafi Guðfríðar. Þar segir Valgarður I. Jónsson frá Eystra-Miðfelli frá Ólafi, en hann var m.a. um tíma lausamaður á Þorbjarnarstöðum í Hraunum.

Thorbjarnarstadir-2

“Ólafur Jónsson fæddist 25. 12. 1838 að Lambhaga í Mosfellssveit, sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Maríu Eyjólfsdóttur. Þetta fólk mun hafa átt ætt sína og uppruna í Gullbringu- og Kjósarsýslu, Mosfellssveitinni og nágrenni Reykjavíkur, t.d. í Laxnesi, í Stardal og í Breiðholti. Ólafur átti tvö bræður og eina systur.
Ungur stundaði Ólafur jöfnum höndum landbúnaðarstörf og sjósókn. Það mun hafa verið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnastaðir í Straumsvík við Hafnarfjörð. Þar býr hann í 12 ár sem leiguliði.

Thorbjarnarstadir-3

Satt best að segja átta ég mig ekki á hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki þarna að græða upp túnblett úr brunauðninni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfis túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir, sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á grafnir.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þessi 12 ár, sem Ólafur bjó þarna stundaði hann sjóinn jöfnum höndum og réri frá Óttarsstöðum með Guðmundir Halldórssyni mági sínum. Ólafur var mikill starfsmaður, sem ekki kunni að hlífa sér. Þarna hefur sannast, sem endranær, því talað var um að honum græddist fé og væri vel stæður maður, á mælikvarða þess tíma. Á þessum árum hefur starfsgetan verið óskert.

Svo var það á þessum árum að Ólafur fréttir af jörð til sölu í Hvalfjarðarstarndarhreppi, þar var Geitabergið í Svíndal. Ólafur handasalaði kaupin, en tók ekki strax við jörðinni því hann vildi borga jarðarverðið út í hönd þegar hann tæki við jörðinni, en hann vantaði lítillega og þurfti að afla þess. Þá stóðu munnleg loforð sem skrifaðir samningar og ekki var háttur manna að kaupa allt ís kuld, en fara að öllu með fyrirhyggju.
Ólafur flutti með allt sitt að Geitabergi á vordögum 1881. Þar bjó hann í 18 ár, en vorið 1899 skipti hann á jörðinni og Katanesi. hann lést þar 22. maí 1912.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – heimaréttin.

Það er á allra vitorði að sú kynslóð sem lifði samtíð Ólafs vann hörðum höndum að framgangi sinnar þjóðar til betra lífs. Af verkum þessa fólks uppskerum við enn í dag.
Ólafur var virtur af verkum sínum. Því til sönnunar má bend á að þrisvar sinnum voru honum veitt konungsverðlaun úr Ræktunarsjóði fyrir jarðabætur.”
Tóftir og tún á Þorbjarnarstöðum ofan við Straum er síðustu heillegu minjar framangreins tíma í Hafnarfirði, sem þá tilheyrði Garðahreppi. Bærinn stóð við gömlu þjóðleiðina, Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja. Við bæinn eru enn allflestar þær minjar, sem gefa innsýn í búskaparhætti fyrri tíma.

Heimild:
-Íslendingaþættir Tímans – 30. júní 1882, 25. tbl. – Valgarður I. Jónsson.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta.

Lambhagi

Þegar gengið var um Lónakot og Svínakot í Hraunum voru rifjaðar upp eftirfarandi upplýsingar um gömlu bæina og Suðurnesjaalmenning þar fyrir ofan í hraununum:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er eftirfarandi lýsing: “ Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenning tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til þar sem hann mætir Áslandi svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðaland og selstaða.
Þar fyrir norðan tekur til það, sem Innesingar kalla Kóngsland, gengur það norður og austur með fjöllunum inn að Elliðaám og upp undir Hellisheiði fyrir ofan Vífilsstaði, Urriðakot, Elliðavatn, og hina aðra bæina. Er þetta land eigi sérdeilis kóngsland, þó það svo kallað sé, heldur er það svo sem afréttur eður óskipt land þeirra kóngsjarðanna, sem liggja upp og inn undan Álftanesi.”
Í jarðabókinni er víða getið um Suðurnesjaalmenninga, sem ofangreind býli áttu rétt í. Auk jarða á Vatnsleysuströnd áttu öll lögbýli í Grindavíkurhreppi rétt til kolagerðar í almenningum eða Suðurnesjaalmenningum án þess að getið sé hvar þeir eru. Sama er um margar jarðir Í Rosmhvalaneshreppi og nokkrar í Álftaneshreppi.
Um jörðina Þorbjarnarstaði, sem er nú í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar þar sem Straumsvík er, segir þetta:

Réttarklettar

Réttarklettar- stekkur.

“Skóg hefur jörðin átt, en nú má það varla kalla nema rifhrís. Það hefur hún svo bjarglega mikið, að það er brúkað til kolagerðar og eldiviðar, og svo til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annarra og eru þetta þau skógarpláss, sem almenningar eru kölluð.” Ennfremur segir í jarðabókinni um Hamarskot, að hrísrif hafi jörðin í Þorbjarnarstaðalandi, þar sem heita almenningar, er það haft til kolagerðar og eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot voru fyrrum nefndar Hraunjarðir og voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því kóngsjarðir við siðaskipti. Sá almenningur, sem hér er fjallað um er fyrir ofan (eða sunnan) lönd þessara jarða og einnig fyrir ofan Hvassahraun hvað þetta mál varðar. Svínakot mun hafa verið þar sem nú eru Réttarklettar vestan Lónakots. Hagar þar mannvirkjum svipað til og í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd, austan Kálfatjarnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Eftir að jarðir þessar voru seldar á árabilinu 1827-1839 reis upp ágreiningur um eignarheimildir á almenningnum ofan þeirra. Stiftamtmaður fól sýslumanni að skoða málið 1847 og fór áreið fram árið eftir með eigendum og ábúendum hraunsjarðanna,
sem liggja við almenninginn og helst hafa notað landið til beitar og skógaryrkingar sökum afstöðu þeirra og þess að þetta land tekur við, þar sem tún þeirra og Brunahraunsgirðingum um þau sleppa.
Í skoðunar- og áreiðargerðinni var mörkum lýst með þessum hætti:

Lónakot

Grænhólsskjól.

“Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfararveginum. Hennar botn og breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot.
Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kapelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu Eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum.
Yfirvöld mæltu eftir áreiðina fyrir um eins konar friðlýsingu svæðisins vegna lélegs ástands skógar og umsjón var falin einum Hraunjarðarbónda, en þeir einir máttu nýta landið án leyfis yfirvalda.
Segir síðan að allt þetta land álítist vera ein fermíla að stærð (dönsk míla var 7.5 km) eða 56 ferkílómetrar og er þetta svæði nú bæði innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar (29.71 ferkílómetri), en einnig upp af Vatnsleysustrandarhreppi, aðallega upp af Hvassahrauni.
Sjá MYNDIR.

Lónakot

Sjóbúð við Lónakot.

Brunntorfuskjól

Hrauntungustíg var fylgt suður Selhraun frá Krýsuvíkurvegi, inn í malargryfjur sunnan Brennu og síðan handan þeirra inn í Hrauntungu. Þar var litið á fyrirhlaðið skjól, en síðan gengið áfram til suðurs um Háabruna upp að Þorbjarnarstaðarfjárborginni norðan við Brunntorfur (Brundtorfur – tilhleypingastaður).

Hrauntungur

Hraunkarl við Hrauntungu.

Hrauntungustígur sést vel í sléttu helluhrauninu vestan Krýsuvíkurvegar. Varða er á hraunhól við jaðar malargryfjunnar. Stígurinn hefur verið fjarlægður í gryfjunum, en við suðurjaðar þeirra má sjá vörðu. Frá henni liggur stígurinn áfram inn í Hrauntungu, kjarri vaxinn hólma inni í vesturjarðri Kapelluhrauns. Tungan, sem er á milli Efri-hellra og Þorbjarnarstaðarborgarinnar, hefur verið skjólgóð og beitarvæn. Inni í henni austanverðri er fyrirhleðsla fyrir skúta. Erfitt er að koma auga á opið vegna þess að birkihríslur hylja það að mestu. Lítil varða er á hólnum ofan við opið. Skjólið, sem var smalaskjól, nefnist Hrauntunguhellir og er í hraunhól skammt norðan við nyrstu hrauntunguna úr Brunanum, en svæðið er nefnt eftir tveimur slíkum tungum vestur út frá meginhrauninu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum.
Brunanum var fylgt áfram til suðurs. Hver hraunkynjamyndin tók við af annarri.
Þorbjarnarstaðarborgin er efst í Háabrunanum. Hún er heilleg og fallega hlaðin. Það munu hafa verið börn hjónanna á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, sem hlóðu hana um aldarmótin 1900. Börnin voru 11, samhent og dugleg til allra verka. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að topphlaða borgina, líkt og Djúpudalaborgina í Selvogi, en hætt hafi verið við það.

Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnastöðum hefur þekkt til byggingarlags hennar því hann var ættaður frá Guðnabæ í Selvogi. Kona kans var Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, hreppsstjóra á Setbergi.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Ofarlega í Brundtorfum eru Brundtorfuhellar (Brunntorfuhellir), lágreistir, en þóttu hæfa vel til að hýsa hrúta Hraunamanna og Hvaleyeringa um fengitímann þegar hleypt var til ánna.
Gengið var til baka norður brunann skammt austar. Fylgt var refaslóð þar sem hún lá í gegnum mosahraunið áleiðis að fiskitrönunum austan Krýsuvíkurvegar. Rebbi hefur greinilega fetað slóðina þarna lengi.
Þegar komið var norður fyrir Rallykrossbrautina virtist gamall maður sitja þar á steini. Þegar komið var nær sást hversu steinrunninn hann var.
Kapelluhraunið er talið hafa runnið um 1151, á sama tíma og Ögmundarhraun og Afstapahraun. Öll hraunin eru talin hafa komið úr sömu gossprungunni, u.þ.b. 50 km langri, er náði frá suðurströndinni austan Ísólfsskála að Helgafelli ofan við Hafnarfjörð.

Brunntorfuskjól

Brunntorfuskjól.

Straumsselsstígur

Gengið var eftir Straumsselsstíg ofan við Þorbjarnastaði og honum fylgt til suðurs upp í Flár. Þar var strikið tekið til vesturs að Gvendarbrunni og Alfaraleiðinni síðan fetuð til norðurs, að Straumsselsstíg.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur vestari – skotbyrgi.

Straumsselsstígur er enn greinilegur. Hann er gróinn í hrauninu og því tiltölulega auðvelt að fylgja honum áleiðis upp að Selhrauni og áfram upp í selið. Að þessu sinni var stígnum fylgt yfir Alfaraleiðina og upp í svonefndar Flár, nokkuð slétt hraun norðan við Selhraun. Á klapparhrygg við stíginn er hlaðið byrgi refaskyttu. Frá byrginu sést vel yfir Flárnar. Refaskyttan hefur getað greint hvern þann ref, sem leið átti niður úr ofanverðu hrauninu í átt að byggðinni í Hraunum. Slík byrgi eru við flest grenin á Reykjanesskaganum. M.a. er mjög svipað byrgi við efri Straumsselshella. Það er hlaðið úr réttarveggnum, sem þar var. Byrgið mun vera hlaðið af Jónasi Bjarnasyni og félögum er þeir voru við tófuveiðar í Almenning skömmu eftir miðja síðustu öld. Svo mun einnig vera um byrgið við Straumsselsstíginn og byrgið við Sléttugrenin norðan við Sauðabrekkugjá. Fallegasta og jafnframt heillegasta byrgið er þó á hraunsléttunni norðvestan við Búðarvatnsstæðið, auk refagildru norðan Húsfells..

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Hrauninu var fylgt til vesturs norðan við Selhraun, að Gvendarbrunni á mörkum Óttarsstaða og Lónakots. Brunnurinn er við Alfaraleiðina, hina gömlu þjóðleið milli Innnesja og Útnesja. Segir sagan að Guðmundur góði biskup hafi vígt brunn þennan líkt og nokkra aðra á Reykjanesi, nefnda eftir honum, s.s. við Voga, í Arnarnesi og í Hólmshrauni. Skammt norðvestan við brunninn er hlaðið fjárskjól undir hraunvegg. Girðingin á mörkum Óttarsstaða og Lónakots liggja við brunninn er má enn sjá undirhleðslur hennar alveg að mörkum Óttarsstaða og Krýsuvíkur uppi í Almenning.
Alfaraleiðin gamla var gengin að Straumsselsstíg og hann síðan að upphafsstað. Fallegar vörður eru við gömlu götuna sem og gatnamótin. Skammt austan þeirra er varðan á Miðmundarholti; Miðmundarvarða, eyktarmark frá Þorbjarnastöðum.
Frábært veður. Gangan tók 50 mín.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um land Þorbjarnarstaða í Hraunum. Bæjartóftirnar eru þær síðstu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir og nágrenni.

Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnarstaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að minja svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnarstöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Sóknarmannatöl allt frá árinu 1801 varpa ljósi á búsetu á Þorbjarnarstöðum síðustu tvær aldir. Þau segja m.a. til um mannfjölda á bænum. Einnig gefa hreppsreikningar á Þjóðskjalasafni góða sýn á bátakost, búfénað, mannfjölda á bænum. Í reikningum Álftaneshrepps frá 1845 5 kýr á Óttarsstöðum, en bara 2 á Þorbjarnarstöðum og 40 ær á móti 60 á Óttarsstöðum. Einnig eru nefndir bátar, kálgarðar, mótekja, o.fl. Í Jarðabókinni frá 1703 segir margt um jörðina á síðustu öldum. Í Jarðabókinni segir t.d. um Straum varðandi fóðrun kúa: “Fóðrast kann iii kýr ”bjarglega” . En um Þorbjarnarstaði segir : “Fóðrast kann iii kýr, ”naumlega”. Þetta segir að Straumur hafi verið betri jörð árið 1703 en Þorbjarnarstaðir. Sveiflur á milli jarðaverðmæta voru að sjálfsögðu háðar náttúru- sem og þjóðfélagsbreytingum hvers tíma. Margt fleira má lesa út úr Jarðabókinni varðandi jarðarverðmætin á viðkomandi tíma og samanburð á milli jarðanna.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægt hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni minni Innnesja og Útnesja.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að “fiskgeymslunni”. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.
Enn má sjá móta fyrir öllu þessu, og raunar miklu fleiru. Það er alveg á sig leggjandi að ganga frá gamla Keflavíkurveginum, yfir á Alfaraleiðina ofan við Gerði og fylgja henni ofan við tjarnirnar, norðan Þorbjarnastaða. Á leiðinni sést allt það sem að framan er getið. Það sem eftir er birtist ljóslifandi er gengið er í hlað eftir brunngötunni að Þorbjarnastöðum.
Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæimgerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Öskjuholtsskjól

Gengið var með Jónatani Garðarssyni um nokkra skúta í landi Hvassahrauns, Straums og Þorbjarnarstaða. Byrjað var á að rölta upp í skúta í Öskjuholti með viðkomu í Virkinu undir Virkishólum, þaðan var haldið í skúta í Smalaskála, þaðan eftir Alfaraleiðinni yfir að Þorbjarnarstöðum, að Loftskúta (Grænudalaskúta) og stefnan tekin á Gránuskúta og síðan Kápuskjól og Kápuhelli í Jónshöfða með viðkomu í stóru Tobburétt (Grenigjárrétt) og litlu Tobburétt.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Virkið var nota til tilhleypinga í brundtíð.
Sunnan undir Öskjuholti, klofnum ílöngum hraunhól skammt ofan línuvegarins um Hvassahraun, er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið sást vel hvar hlaðið hafði verið efst fyrir skútann, en að utan er vel gróið yfir hleðsluna. Um er að ræða lágt, en rúmgott fjárskjól. Innst undir hlöðnum veggnum voru nokkur bein. Erfitt er að koma auga á opið, nema komið sé að holtinu úr suðri.
Á Smalaskálahæð er varða. Önnur er norðar og sú þriðja skammt austar. Sunnan undir holtinu, sem þar er miðsvæðis er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið blasti við rúmgott fjárskjól. Fyrirhleðsla er innar í því til að varna fé áframhaldandi för inn eftir hvolfinu. Skjólið er nokkuð þurrt. Nokkrir smalaskálar eru í hraununum. Yfirleitt var nafnið notað um skála eða skjól, en það virðist ekki eiga við á Reykjanesskaganum. Þar virðist heitið hafa verið notað um hæðir, nema nöfnin hafi verið tengd hæðum með skjólum í, líkt og þarna.
Skoðaðar voru landamerkjavörður milli Hvassahrauns og Lónakots sem og leiðarvörður við Alfaraleiðina og komið við í Loftskúta, fallegu fjárskjóli. Þar eru og sagnir um að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpnafeng sinn er þeir voru við veiðar í hrauninu.
Nokkur leit hefur verið gerð að Gránuskúta, Kápuskjóli og Kápuhelli, en tveimur þeirra er lýst í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var um heimatún Þorbjarnastaða, rústir síðasta torfbæjarins í landi Hafnarfjarðar. Búið var að Þorbjarnastöðum fram undir seinna stríð (1940). Þar bjuggu síðast Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Guðmundssonar á Setbergi, og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Þau eignuðust 11 börn – og það þótt húsbóndinn hafi yfirleitt verið fjari bæ til að afla lífsviðurværis. Það færi vel að gera bæinn upp og hafa hann til sýnis sem dæmi um slíka bæi er voru víða í umdæminu. Hann hefur allt til að bera; heimagarð, vörlsugarð, heimtröð, brunn, selstíg, stekk og fjárskjól.
Gránuskúti er ekki auðfundinn. Hann er sunnan við Þorbjarnastaði, austan Miðmundarhæðrar. Falleg hleðsla er um munnann, en þegar inn er komið tekur við flórað gólf að hluta og fyrirhleðslur. Skjólið er mjög rúmgott og hefur verið vel lagfært. Þá er það óvenjuþurrt. Grána gæti verið nafn á á frá Þorbjarnarstöðum, líkt og Grákolla í frásögninni af Arngrímshelli í Klofningum, þeirri er allt fé Krýsuvíkurbænda átti að hafa verið komið frá.
Haldið var upp í gegnum Selhraun og upp í stóru Tobburétt í Grenigjá. Um er að ræða fallegar hleðslur í og um gjána. Greni er skammt norðan við hana. Steintröll vakir yfir gjánum. Svæðið er allvel gróið. Austar er litla Tobburétt. Gengið var að henni í bakaleiðinni.

Tobburétt

Tobba við Tobburétt.

Straumsselsstígnum var fylgt upp í Jónshöfða. Þar í Laufhrauni komu bæði Kápuskjól og Kápuhellir í ljós. Þessa skúta er einnig erfitt að finna. Lítil varða er á höfðanum ofan við skjólin. Hún er á landamerkum Þorbjarnarstaða og Straums. Skjólið er í landi Straums, en hellirinn í landi Þorbjarnastaða. Fallegar fyrirhleðslur er fyrir þeim báðum. Hellirinn er heldur stærri. Fjárkyn Þorkels á Þorbjarnastöðum var sagt kápótt og þótti allsérstakt. Þá var það ferhyrnt og snúið upp á hornin, sem einnig þótti sérstakt.
Straumsselsstíg var fylgt niður að litlu Tobburétt í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni.
Annars eru álfa- og huldufólksáminningar víða í hraununum. Þeir, sem gaumgæfa og kunna að lesa landið vita og þekkja skilaboðin. Þegar farið er eftir þeim er engin hætta búin, en ef einhver gleymir sér að er ólæs á landið – guð hjálpi honum.
Gengið var til baka eftir Straumsselsstíg í gegnum Selhraunið og niður að Þorbjarnastöðum.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.