Færslur

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Hraunin og Hraunabæina svonefndu, s.s. Straum, Gerði, Þorbjarnastaði, Óttarstaði, Eyðikot og Lónakot.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.
Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík.
Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju.

Hvasshraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krísuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krísuvíkur.
Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt.

En hvað verður um Hraunin?
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði, auk þess sem hluti þess fer undir fyrirhugaða stækkun álversins. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

-Byggt á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnarstaðir

Gengið var áleiðis inn í Brunntorfur, að Þorbjarnastaðaborginni, stórri fjárborg er börn hjónanna frá Þorbjarnastöðum í Hraunum hlóðu um aldarmótin 1900.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Borgin er fallega innhlaðinn að ofan, hringlaga með leiðigörðum út frá dyrum til suðausturs. Inni í borginni er hár beinhlaðinn veggur. Líklegt má telja að topphlaða hafi átt borgina og að veggurinn inni í henni hafi átt að halda undir þakið þegar það lokaðist. Svipuð fjárborg, topphlaðin, er í Djúpadal í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum, Þorkell Árnason, var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi og því verið kunnugur þeirri borgargerð.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Ofar, suðaustar, í Brunntorfum er hlaðinn inngangur að tvískiptu fjárskjóli. Þrjú önnur fjárskjól eru í Brunntorfum. Sunnar er Fornasel og Gjásel vestar; hvorutveggja gömul sel frá Þorbjarnarstöðum. Í Önefnalýsingum um Straum er einungis getið um Fornasel og því þá ruglað saman við ónefnt Gjásel.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Gengið var að Fornaseli. Við selstöðuna er fallegt vatnsstæði, stekkur í lægð og tóftir. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í Fornasel fyrir skömmu. Taldi hann minjarnar vera frá því á 14. eða 15. öld. Gjáselið er einnig á hæð líkt og Fornasel. Þar við er einnig vatnsstæði, en það var þurrt að þessu sinni. Norðvestan undir hraunholtinu er stekkur í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Gránuskúti er sunnan selsins. Svæði þetta tilheyrir allt svonefndum Almenningi. Samkvæmt gömlum bókum á það að vera ein fermíla að stærð, en ein dönsk míla er nú 7.5 x 7,5 km eða ca. 56 ferkílómetrar. Náði Almenningur niður að alfaraveginum. Stiftamtmaður heimilaði Hraunabæjunum einum afnot af Almenningi árið 1848, en það segir í raun lítið um eignarréttinn á svæðinu.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var norðvestur eftir Gjáselsstíg þangað til hann sameinast Straumsselsstíg skammt þar frá er sá síðarnefndi beygir inn í hraunið, áleiðis að Straumseli. Þar skammt sunnar eru tvö fjárskjól, Kápuskjól og Kápuhellir.
Þaðan var haldið til norðurs um austanverðar Flár með stefnu á Kolbeinshæð. Í því er fjárskjól, Kolbeinshæðaskjól, hlaðið fyrir slútandi hraunskúta mót austri. Vel gróið er í kringum skjólið og óvíða eru stærri krækibær að finna á Reykjanesinu.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Frá Kolbeinshæðaskjóli eru vörður til norðurs, að Gerðastíg undir vesturkanti Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Þar undir háum kletti eru Efri-hellar (hellrar), fjárskjól undir hraunþaki. Hlaðið er fyrir munnann og einnig skammt austan hans. Skjólið er fremur lágt, enda hefur safnast talsverð mold í gólfið. Nýjahraun er talið hafa runnið um 1151 (um svipað leyti og Ögmundarhraun). Síðar var það nefnt kapelluhraun eftir kapellunni í hrauninu, en hún kemur við sögu eftirleiks dráps Jóns Arasonar, biskups (1550). Kristján Eldjárn gróf í kapelluna ásamt fleirum um 1952 og fann þar marga gripi. Þegar álverið var byggð í upphafi sjöunda áratugs 20. aldar var kapellan eyðilögð, en ný hlaðin í hennar stað á hraunhól við leifar Alfaraleiðarinnar. Vel færi því á því að nefna hraunið aftur Nýjahraun.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Skammt norðvestan Efri-Hella, sem sumir telja að hafi verið nefnda Efri-Hellrar eftir hellunni ofan við fjárskjólið, er Vorréttin (Rauðamelsréttin), heilleg og fallega hlaðin utan í hraunkantinum. Ofan við hana er nú æfingasvæði Skotfélags Hafnarfjarðar. Þegar stígnum er fylgt áleiðis að Gerði ofan Fagurgerðis er m.a. komið að Neðri-Hellum (skammt sunnan við stíginn). Þar er einnig fjárskjól í skúta og hlaðið fyrir. Norðan hans er hlaðið ferkantað gerði utan í hraunkantinum. Vestan við Neðri-Hella er talsvert af fornum, nú jarðlægum, minjum. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur merkt hluta þeirra. Flestar þeirra eru norðan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel, sem nú hefur verið grafinn í sundur með stórvirkum vinnuvélum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Haldið var áfram og stígnum fylgt í gegnum Selhraunið að Þorbjarnarstaðaréttinni eða -stekknum, norðan undir háum hraunhól. Réttin er enn heilleg og hefur verið fallega hlaðinn. Inni í henni er heilleg lambakróg. Hún ber því merki fyrrum heimastekks sem þróast hefur í fjárrétt. Vestar er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða (eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum). Skammt norðar er bæjarstæðið. Hægra megin við suður frá bænum er há varða á hraunhrygg; Hádegisvarðan.

Gránuskúti

Í Gránuskúta við Gjásel.

Hraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi.

Straumur

Straumur 1935.

Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.
Íbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt Innnesjamenn.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Mosastígur, Brunnstígur, Jónsbúðarstígur, Lónakotsgata, Réttarstígur og Péturskotsstígur.
Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaði í kringum árið 1200. Þar er getið um hálfkirkju og grafreit.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Við helstu götur og við sum selin eru náttúrulegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.

Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.

Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk.

Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00).

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Heimildir m.a. af:
http://www.simnet.is/utivera/text/saga.htm

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnastaðir

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum þar sem hann kemur út úr Kapelluhrauninu að vestanverðu og liðast í gegnum Selhraunið við tjarnirnar ofan við Straumsvík, neðan Gerðis.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjaarnarstaðir – brunnur.

Fallegar veghleðslur, sem enn hafa fengið að vera óhreyfðar, eru við veginn þar sem hann beygir niður með tjörnunum. Svipaðar hleðslur má einnig sjá með elsta hluta vegarins vestan Rauðamelsnámunnar í landi Óttarstaða. Ætlunin var að fylgja að mestu Alfaraleiðinni áleiðis að Lónakotsmörkum, en skoða þó hinar ýmsu minjar, sem eru beggja vegna hennar á þeiri leið.
Tóftir bæjar og útihúsa eru í Gerði. Þar er nú aðstaða Starfsmannafélags Ísals í uppgerðu húsi. Fallegar hleðslur eru með tjarnarbakkanum að norðvestanverðu. Álverið hefur nýlega keypt megnið af landinu ofan við sjálft sig, bæði af Skógrækt ríkisins og Hafnarfjarðarbæ, sem reyndar verður að telja mikil mistök af hálfu þess síðarnefnda.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Við bakkana má t.d. sjá hlaðin byrgi veiðimanna við tjarnirnar, hlaðin gerði til ullarþvotta, bryggju til slíkra verka og þar má einnig sjá hvernig ferskvatnið streymir undan hrauninu. Sagt er að Kaldá komi þarna upp, en hvað sem því líður er jafnan stöðugt rennsli ferskvatns á þessum stað. Bændur á Þorbjarnarstöðum sóttu vatn í “leysingarnarvatnið” og nýttu það til ýmissa nota. Á bökkum tjarnanna að vestanverðu má sjá tóftir útihúsa og hlaðna garða er mynda gerði.

Vörslugarðurinn um Þorbjarnastaði er tvöfaldur. Líklegt má telja að hann hafi verið hlaðinn vegna nægilegs framboðs af grjóti er verið var að rækta túnin, til að nýta til fjárrekstrar af heimatúninu í réttina norðan við túnin eða til að stækka hið ræktaða svæði með tilkomu girðinga.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnarstaðir fóru í eyði árið 1930, en þar hafði áður búið Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi og Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, bónda og hreppsstjóra á Setbergi, Jónssonar hins fjárglögga frá Geysi í Haukadal (Tortu og Helludal), fyrrum Áslákssstöðum á Skeiðum. Ein dóttirin bjó í Urriðakoti.
Börn Þorbjarnastaðahjónanna voru ellefu að tölu. Eitt þeirra var Ingveldur Þorkelsdóttir, húsfreyja í Teigi í Grindavík, mikil öndvegiskona líkt og annað það fólk er hún átti kyn til. Þorbjarnastaðabörnin hlóðu m.a. Þorbjarnastaðaborgina undir Brunntorfum og stendur enn, heil að mestu.

Ofan við Alfaraleiðina, ofan Þorbjarnastaða, er réttin. Hún er nokkuð heilleg. Þorbjarnastaðir notuðu, auk hennar, bæði heimaréttina, norðan vörslugarðsins, sem og vorréttina skammt norðaustar, undir vesturbrún Kapelluhrauns.

Vorrétt

Vorréttin.

Hún stendur enn og er nokkuð heilleg. Þessi rétt er með tveimur dilkum, líklega fyrir sauði, enda að mestu verið notuð sem rúningsrétt. Þá er og líklegt, miðað við mannvirkin, að hún hafi verið notuð sem stekkur og fráfærurétt um tíma. Ofar er nátthagi og styrkir það því þá tilgátu.

Miðmundarholt (-hóll), er skammt vestar. Á því er há og myndarleg varða, eyktarmark. Skammt vestan hennar eru gatnamót Alfaraleiðar og Straumsselsstígs. Sjást mótin vel, en þau eru ómerkt. Ofar má sjá vöru við selsstíginn, en handan hraunhryggs er hlaðið skjól við stíginn. Annars er selsstígurinn vel markaður í hraunið á kafla, einkum þar sem hann liggur um slétt ofanvert Selshraunið og hefur sameinast stígunum áleiðis upp í Gjásel og Fornasel, sem munu hafa verið sel frá Þorbjarnastöðum.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin – varða.

Nýlega var grafið í tóftir Fornasel og kom í ljós að þar reyndust vera minjar frá því á 14. eða 15. öld (BE).
Fallegar vörður varða Alfaraleiðina í gegnum tiltölulega slétt hraunið. Leiðin liggur framhjá Gvendarbrunni, vatnsstæði á tiltölulega sléttu hrauni, en norðvestan þess er hlesla fyrir fjárskjóli.
Þá liggur leiðin áfram til vesturs, um krókóttan stíg. Skammt vestan Gvendarbrunnsmá sjá móta fyrir tveimur föllnum vörðum, sem telja má að hafi verið nokkuð stórrará sínum tíma. Líklegt má telja að þær hafi haft ákveðin tilgang fyrrum, sem í dag verður að telja óljósan. Þær eru þó nálægt landamerkjum Óttarstaða og Straums.

Óttarsstaðaborg

Kristrúnarborg / Óttarsstaðaborg.

Skammt austan Smalaskálahæða er varða við Alfaraleiðina. Þar liggur Óttarstaðaselsstígurinn þvert á leiðina. Að þessu sinni var beygt til hægi og stígnum fylgt að Óttarstaðaborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundir Sveinssyni, um 1870. Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Í þeim vestanverðum var nýlega komið fyrir líki konu er myrt var í bæ Ingólfs, hins fyrsta skráða landnámsmanns á voru landi. Það mál upplýstist.
Gengð var til baka um gamla Keflavíkurveginn, framhjá Rauðamelsnámunum og að upphafsstað.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Straumssel

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939) og þaðan að Þorbjarnastaðaréttinni undir hraunhól sunnan við bæinn. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Gengið var um Kúadal og áfram inn á eystri Straumsselsstíg (sem er reyndar eldri selstígur að Gjáseli og Fornaseli frá Þorbjarnastöðum).
Um miðja vegu að selinu var ákveðið að halda til vesturs út af honum og kanna hraunsvæðið. Þar inn á milli hólahyrpingar var komið að stórumhlöðnum nátthaga – Toppuklettum (Tobbuklettum). Eftir að punktur hafði verið tekinn þar var haldið í selið um Flárnar. Upp frá því var leitað Neðri-Straumsselshella. Þeir eru nokkuð sunnan selsins, hlaðinn gangur og nokkuð stór fjárhellir.
Eftir að hafa skoðað hellinn var Efri-Straumsselshella leitað og fundust þeir enn á ný nokkur ofar. Þeir eru þarna í lægð í Almenningum og er stór fjárhellir innan af henni. Hlaðið er í kringum opið, auk þess sem fyllt er að bakdyrum. Í kringum lægðina er hlaðinn garður. Upp af honum að norðanverðu er hlaðið byrgi, sem Jónas Bjarnason hlóð er hann var á refaveiðum á þessu svæði. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem nátthagi og síðan rétt undir hið síðasta og bera hleðslunar þess glögg merki.

Straumsselshellar

Í Efri-Straumselsshellum.

Þegar FERLIR kom síðast í Efri-Straumsselshella var þar greinilegt krafs eftir ref. Haldið var áfram norðvestur að Stóra-Fjárskjóli. Þar er hlaðið fyrir aflangan skúta. Þá var gengið að Óttastaðaseli og umhverfi þess skoðað áður en haldið var til norðurs eftir hrauninu. Á leiðinni var m.a. skoðað hlaðið refaskyttuskjól á neðsta hluta Straumsselsstígs.
Frábært veður.

Straumssel

Straumssel.

 

Þorbjarnastaðir

Í ferð nr. 1 á “Göngudögum Alcan” var gengið milli Hraunabæjanna, skoðuð mannvirki og sagan metin. Á svæðinu, svo til við fótaskör höfuðborgarsvæðisins, eru minjar er endurspegla bæði búsetu- og atvinnusögu kotbændanna svo að segja frá upphafi landnáms hér á landi. Um er og að ræða eina af náttúruperlum landsins. Svæðið hefur í 30 ár búið í sátt við álverið í Straumsvík. Á sama hátt og afurðir þess hafa margfaldast að verðmæti hefur svæði til útivistar orðið dýrmætara með hverju árinu sem líður.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi.

Hraunin eru merkileg fyrir margt; stórbrotna náttúru, mikilfengleg jarðfræðifyrirbæri, sérstætt gróður- og dýralíf sem og einstakar búsetuminjar. Hraunin eru mikilsverð tákn þess sem var. Að handan er nútíðin. Álverið skilur þar á milli – svo einungis nemur nokkrum gangandi mínútum.

Bæirnir í Hraunum eru nú í landi Hafnarfjarðar, en höfðu tilheyrt Garðahreppi allt til ársins 1967 er bæjarfélögin höfðu makaskipti á löndum. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarstaðir eystri og Óttarstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi (hét Nýjakot áður). Þýskubúð og Jónsbúð voru hjáleigur Straums. Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot vor hjáleigur Óttarsstaða, en Gerði og Péturskot frá Þorbjarnarstöðum að sunnanverðu. Péturskot var þar sem Reykjanesbrautin liggur nú við norðurkantinn á Fagravelli skammt austan við gatnamótin að Straumi.

Stóra-Lambhagavör

Stóra-Lambhagavör.

Norðan Straums eru nokkrir stígar s.s. Sjávargata og Jónsbúðarstígur, en sunnan hans er t.d. Straums(sels)stígur er liggur upp með vesturgarði Þorbjarnastaða, yfir Alfaraleið er liggur út á Útnes, og áfram upp í Straumssel.Umhverfis bæina eru heillegir grjótgarðar, auk fjárétta, kvía, byrgja og nátthaga. Aðallega var gert út á fjárbúskap, en einnig voru þar einstakar kýr og nokkrir hestar. Hraunamenn gerðu mikið út á sjósókn og má sjá þar varir, þurrabúðir, vörslugarða og fiskreiti enn þann dag í dag. Búskapur lagðist af í Hraunum um 1930, Óttarsstöðum eystri 1952, en lengst var búið á Óttarstöðum vestri (1965). Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn gerðu út á landann.

Straumur

Straumsvör.

Tjarnirnar ofan við Straumsvík heita Straumstjarnir næst víkinni. Svonefndir Hólmar umlykja þær. Á neðsta hólmanum er Pétursbyrgi – þar voru merki móti Þorbjarnarstöðum.
Ofan vegar er Gerðistjörnin og Brunntjörnin þar fyrir ofan. Austan hennar, sunnan Gerðis, er Gerðistjörnin syðri. Vestan Gerðistjarnar og norðan Brunntjarnar er Stakatjörn. Brunntjörnin heitir svo vegna brunnsins syðst í henni, en þar leysir ferkst vatn undan hrauninu eins og svo víða í tjörnunum. Sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.

Norðan Reykjanesbrautar, skammt vestan afleggjarans að Straumi er Brunntjörn, oft nefnd Urtartjörn. Þegar staðið er norðaustan við tjörnina í stilltu veðri má sjá líkt og sel ofan í tjörninni. Þarna er um að ræða klett sem líkist sel við vissar aðstæður.

Litli-Lambhagi

Gerði við Litla-Lambhaga.

Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Þá var það einungis norðvesturhorn hússins, en síðar var bætt við það litlu húsi við suðausturhlutann. Stefanía hét kona hans. Þau bjuggi í gerði ásamt tveimur sonum og fóstursyni. Búskap var hætt í Gerði um 1930. Starfsmannafélag Álfélagsins endurgerði húsið um 1990 og bætti þá við forstofu og salerni að austanverðu. Útihúsin, hlaðin, eru vestan við bæjarhúsið. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri.

Kapella

Kapellan 2022.

Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Annar stígur, Kirkjustígur lá frá og upp á Brunabrúnina. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á Alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.

Straumur

Garður við Straum.

Þeir eða þau okkar, sem fyrir alvöru spá og spegulera í gömlum minjum, spyrja sig iðurlega spurninga s.s.: a) hvað eru raunverulegar fornminjar?, b) fyrir hverja eru fornminjarnar? og c) hverjir eiga forminjarnar? Segja má að fornminjar séu áþreifnanleg mannanna verk er tengja okkur nútímafólkið við fortíðina, þ.e. forfeður okkar. Þess vegna eru fornminjarnar fyrir okkur, afkomendur þessa fólks. Og það erum við, sem eigum fornminjarnar. Þær eru okkar verðmætu tengsl við fortíðina. Sú staðreynd að framtíðin byggist á fortíðinni gera minjarnar ómetanlegar nútíðinni.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939). Tóftir Þorbjarnastaða eru ekki einungis verðmæta vegna þess að þær eru einu ummerkin eftir hinn dæmigerða íslenska torfbæ, heldur og vegna þess að þær segja sögu þess fólks, sem þar lifði og dó.
Gengið var frá heimaréttinni, framhjá bæjarstæðinu, hinum dæmigerða íslenska torfbæ með burstum mót suðvestri og matjurtargarði framan við, yfir heimatúnsgarðhleðslurnar og yfir Alfaraleiðina og að Þorbjarnastaðaréttinni, stundum nefnd stekkurinn, undir hraunhól nokkru sunnan við bæinn, austan Miðdegishóls, eyktarmarks frá bænum. Hádegishóll er þar skammt austar, en hann virðist hafa verið eyktarmark frá Gerði. Þorbjarnastaðaréttin efri er stór hlaðin rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró, sem bendir til þess að hún hafi verið notuð sem stekkur.

Eyðikot

Garður við Eyðikot.

Bæjartóftirnar að Þorbjarnarstöðum eru þær síðustu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar. Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnastaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnastöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægð hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni milli Innnesja og Útnesja. Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Jónsbúð

Brunnur við Jónsbúð.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að “fiskgeymslunni”. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.

Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæmigerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Alfaraleið

Mosastígur.

Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum. Mosinn var reyndar sóttur út í Kapelluhraun, sem er reyndar í aðra átt. Konur báru mosann heim í pokum eða jafnvel sátum. Hann var notaður í eldinn og einnig í einangrun, m.a. í Gerðishúsið. Mosi var sóttur frá Lambhögum, Gerði, Þorbjarnarstöðum og Péturskoti.

Heiman frá bæ lá Skógarstígur suður túnið fram í Skógarhlið á túngarðinum. Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn. Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var í spaugi nefnt Hosiló.

Jónsbúð

Brunnur við Jónsbúð.

Ólaf Jónsson, bóndi á Geitabergi, Katanesi, var m.a. um tíma lausamaður á Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Það mun hafa verið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnastaðir í Straumsvík við Hafnarfjörð. Þar bjó hann í 12 ár sem leiguliði.
Varla var hægt að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki þarna að græða upp túnblett úr brunaurðinni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfis túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir, sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á grafnir.
Þessi 12 ár, sem Ólafur bjó þarna stundaði hann sjóinn jöfnum höndum og réri frá Óttarsstöðum með Guðmundir Halldórssyi mági sínum. Ólafur var mikill starfsmaður, sem ekki kunni að hlífa sér. Þarna hefur sannast, sem endranær, því talað var um að honum græddist fé og væri vel stæður maður, á mælikvarða þess tíma. Á þessum árum hefur starfsgetan verið óskert.
Svo var það á þessum árum að Ólafur fréttir af jörð til sölu í Hvalfjarðarstrandarhreppi, þar var Geitabergið í Svíndal. Hann fluttist þangað.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Tóftir og tún á Þorbjarnarstöðum ofan við Straum er síðustu heillegu minjar framangreins tíma í Hafnarfirði, sem þá tilheyrði Garðahreppi.
Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.) Við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð. Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búizt var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.

Þar mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.

Óttarsstaðir

Bátsflak við Óttarsstaði.

Gengið var eftir Straumsselsstíg að Straumi og yfir að Norðurgarði. Gamli bærinn stóð þar sem Straumshúsið er nú.
Vestan þess er Vesturgarðurinn. Bjarni Bjarnason, skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar, byggði Straumshúsið 1926. Ætlaði hann að reka þar stórbú. Árið 1986 keypti Hafnarfjarðarbær Straumsbúið og leigði það til ýmisskonar starfsemi. Á níunda áratugnum voru Straumshúsin gerð upp og hýsa nú listamiðstöð á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins.
Vestan við Straumstúnið er Lambhúsgerði, gömul hjáleiga er lagðist af. Þar var þá sléttur völlur, notaður frá Jónsbúð.

Frá bænum lágu þrjár götur; Sjávargatan til norðausturs, Selsgatan, stundum nefnd Straumsgata, til suðurs og Brunngatan til suðvesturs. Þarna norðvestan við er gömul útgræðsla, Lambhúsgerði. Þess er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, að þar hafi verið hjáleiga.
Norðurgarðurinn liggur niður að Straumsvör. Ofan hennar eru allnokkrar garðhleðslur, auk bátaskjóls. Í vörinni leysir talsverðan jarðsjó.

Þaðan var haldið að Þýskubúð og skoðað í kringum hana. Gamall hlaðinn brunnur er vestan við búðina. Garður liggur umhverfis hana. Innan við norðvesturhorn hans er stórt hlaðið gerði. Þýskubúðarvarir eru austan við búðina. Sunnan þeirra er Landabyrgistangi.
Við Þýskubúð er talið að Þjóðverjar hafi haft verslun á öldum fyrrum þótt þess sjáist ekki merki í dag. Hins vegar eru þarna ýmsir garðar og gerði frá því að síðast var búið þarna, m.a. hlaðið bátshró. Eiríkur Smith, listmálari, ólst upp í Þýskubúð ásamt fleiru ágætu fólki.

Markaklettur

Markaklettur.

Haldið var yfir í Tjörvagerði, sem var nátthagi, nefndur eftir Guðmundi Tjörva (f: 16.8.1850 – d: 6.21934), beyki í Straumi og Þýskubúð. Í gerðinu er fjárbyrgi og smalaskjól.
Tjörvi þessi var sonarsonur Krýsuvíkur-Gvendar, en faðir hans, Guðmundur Guðmundsson, var m.a. skógarvörður í Almenningum með aðsetur í Straumsseli. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Óttarsstaðir

Garður við Óttarsstaði.

Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.
Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.
Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur. Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.

Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – bátasmíðaverkstæði.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.
Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir; Þorbjarnarstaðaréttin, lítt hrunin, önnur rétt er við Óttarsstaði, þriðja við Straum og sú fjórða við Lónakot.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðastekkur.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri (vestari) og neðri (austari).

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Straumur

Bátahróf við Straum.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.
Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.
Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift. Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Straumur

Tjörvagerði.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík. Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.
Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju..

Reykjanes

Reykjanes fyrrum – kort ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ, sem fyrr segir.
Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur BFE.

Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar fékk Bjarna F. Einarsson, fornleifafræðing, árið 1997 til að kanna fornleifar á svæðinu Hraunum við Straumsvík. Ekki var um eiginlega fornleifaskráningu að ræða, heldur fornleifakönnun, sem er leitun að, og staðsetning á rústum á korti/loftljósmynd. Í framhaldi af þessari vinnu kviknaði áhugi félagsins á því að láta kanna Jónsbúð nánar með prufuholugreftri og fór sá gröftur fram á tímabilinu 26. okt. – 13. des. með hléum. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.
Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, sagði að ekkert hefði verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. Ljóst sé að menn fari sér hægt við að skipuleggja framtíð þess. Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði.
Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.

Þýskabúð

Hús við Þýskubúð.

Stutt var yfir í Jónsbúð. Hlaðinn garður umlykur einnig þá búð. Jónsbúðartjörnin er norðan hennar. Jónsbúð er ágætt dæmi um búð er varð að bæ. Eftir að bóndinn hafði komið upp fyrsta “káinu”, þ.e. kotinu, fylgdu önnur á eftir í réttri röð; kú, kindur, kona og krakkar.

Stefnt var að, og til þess fengið leyfi, því að kanna fleiri fornleifar í nágrenninu. Annarsvegar er um prufuholugröft við Óttarsstaði, þar sem staðfesta á hvort meint bænahús sé þar að finna eða ekki og hins vegar að kanna aldur Fornasels, sem liggur austan megin við þjóðveginn, talsverðan spöl austur af Álverinu. Sá gröftur gaf til kynna að selið gæti verið frá því á 14. eða 15. öld.

Bæjarstæði Jónsbúðar er aðeins nokkra metra frá sjávarkambinum sem skilur að býlið og uppsátur þess, eða Jónsbúðarvör. Utan um túnin er túngarður úr grjóti sem liggur frá sjávarkambinum utan um stóran klett að sunnanverðu (Skötuklett) og liggur svo að norðan nokkra metra sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðarmanna. Svæðið einkennist mjög af hraunhólum og grasi grónum bollum á milli þeirra. Þessir grasi grónu blettir hafa verið undirstaða skeppnuhalds á staðnum, auk þess sem sjórinn gaf.

Jónsbúð

Garður umhverfis Jónsbúð.

Rústirnar við Jónsbúð eru nær óspilltar af mannavöldum og vélvæðing nútímans hefur ekki náð að eyða eða fela mannvirki sem þar hafa staðið. Minjar af slíku tagi er ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því eru minjarnar við Jónsbúð mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti fyrri tíma og styrkur þeirra fellst fyrst og fremst í heildinni, þ.e.a.s. staðurinn geymir allar þær minjar sem búast má við að þurrabúð/hjáleiga geymi svo sem bæjarhús, túngarð, skeppnuhús, vör, vörslugarð, sólþurrkunarreit, vatnsból o.fl.

Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en þess ber að geta að þurrabúða er ekki heldur getið við jarðirnar Lónakot, Óttarstaði og Þorbjarnarstaði, þó að enginn vafi sé á því að þurrabúðir hafi verið við eitthvert þessara býla, ef ekki öll. Hins vegar er hjáleiga getið við Óttarsstaði, Þorbjarnarstaði og Straums. Ekki er víst að greinarmunur hafi verið gerður á hjáleigu og þurrabúð og kemur jafnvel til greina að þær hjáleigur sem voru í eyði í byrjun 18 aldar hafi í raun verið þurrabúðir.
Í Manntali árið 1845 er þess getið að tómthúsmaður hafi verið í Straumi, Björn Pálsson að nafni. Var hann giftur Margréti Snorradóttur og áttu þau árs gamlan son, Jón að nafni (Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982. :406). Bóndinn í Straumi hét þá Bjarni Einarsson. Ekki er tekið fram hvar Björn tómthúsmaður bjó nákvæmlega en vel getur verið að hann hafi búið í Jónsbúð.

Þýskabúð

Þýskubúðarvör.

Í manntali árið 1910 er Jónsbúð nefnd sem þurrabúð í landi Straums (Manntal á Íslandi 1910. IV. Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Reykjavík 1998.:228). Þá bjó þar Gunnar Jónsson, sjómaður á þilskipi, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau komu frá Meðalholti í Flóa árið 1882.

Í manntalinu er bæjarhúsum lýst og um Jónsbúð er sagt að þar hafi verið torfbær með einu heilþili og einu hálfþili.

Jón í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti ábúandi Jónsbúðar, en búðin greinilega kennd við einhvern annan Jón en hann og ekki heldur við faðir Gunnars sem bjó í Jónsbúð árið 1910. Ekki er loku fyrir það skotið að búðin hafi haft ýmiss nöfn, stundum eftir ábúendum sínum og stundum eitthvað annað. Dæmi um slíkt eru vel þekkt.

Ekki hefur Jónsbúð verið mjög lengi í eyði áður en Jón þessi í Jónsbúð byggði upp kotið, varla nema nokkur ár (eins og altítt var með hjáleigur og smákot sem oft voru í eyði til skamms tíma).

Bæjarstæði Jónsbúðar er óspillt af seinni tíma athöfnum. Þar eru nær öll mannvirki byggð úr grjóti hvort sem um er að ræða bæjarhús, túngarð eða brunn. Grjótið er fengið úr næsta nágrenni, sérstaklega í hrauninu í kring, en yfirleitt ekki úr fjörunni eða sjávarkambinum. Sunnan við bæjarhúsinn er mikill og áberandi klettur og í gjótu við hann er sagt að hafi verið kolageymsla. Kletturinn er rakinn álfa- eða huldumannabústaður, þó ég þekki engar sögur af slíku um þennan klett.
Sennilega er ruslahaugurinn nokkra metra vestan við bæjarhúsið. Norðan megin við bæjarhúsið er rúst hjallsins og austan við bæjarhúsið er sólþurrkunarreiturinn. Rúman metra vestan af bænum er garður.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Norðan við bæjarstæðið, í Jónsbúðartjörn sunnanverðri, er brunnur og vatnsból. Skammt vestur af bænum er rúst, áfast við túngarðinn, sem er sennilega fjárhús. Vestan megin við túngarðinn hefur verið stekkur og nátthagi umhverfis hann.

Austan við bæinn er vörin og þar má búast við að bátur eða bátar hafi verið dregnir yfir sjávarkambinn og hafðir á þurru vestan megin við sjávarkambinn.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Þrjár prufuholur voru teknar við Jónsbúð. Prufuhola 1 var tekin inn í miðju hólfi inn í bæjarhúsinu, prufuhola 2 tekin rúma 5 m frá dyrum bæjarhúss og prufuhola 3 tekin rétt innan við dyr.
Í prufuholum fundust brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra, keramík, gler, steinkol, járn, aðrir málmar, skeljar og kuðungar, auk þess sem sjálf mannvistarlögin voru gerð úr, svo sem viðarkol, skeljasandur o.fl. Beinin benda til þess að sauðfé hafi verið hluti af bústofninum, eins og nautgripir sbr. fjósið. Fiskur og fugl hefur verið hluti af fæðunni og svartfuglar verið veiddir til matar (nema að köttur beri ábyrgð á gogginum í baðstofunni!).

Sjá mátti í prufuholu 2 að steinkolin fundust aðeins í efri hluta mannvistarlagsins og það bendir til þess að neðri hluti lagsins sé eldri en tími fyrstu eldavélanna, en þær komu upp úr 1870, þó þær hafi ekki orðið almenningseign fyrr en talsvert síðar. Steinkol voru notuð í þessar vélar. Því má draga þá ályktun að á síðasta skeiði búskaparins í Jónsbúð hafi verið eldavél og hún vafalítið verið í baðstofunni (SA – horninu?).

Straumur

Straumsrétt.

Meðalaglasið, ampúllan, sem fannst í prufuholu 1 er einnig ungt, jafnvel frá þessari öld. Trúlega hefur innihaldið í því verið notað til að bólusetja sauðfé (nautgripir og hestar ekki bólusettir!) Bólusetning af þessu tagi byrjar ekki fyrr en eftir fyrri heimstyrjöldina.

Um aldur gripanna er ekki hægt að segja mikið annað en þeir eru ungir, sennilega frá seinni helmingi síðustu aldar.

Bæjarhúsið í Jónsbúð hefur skipst í baðstofu og fjós. Fjósið liggur lítið eitt lægra en baðstofan, en það gat verið með ráðum gert til að nýta hitann af skepnunum, en hiti stígur upp eins og þekkt er. Slík ráðabreytni er þekkt úr öðrum gömlum bæjum svo sem í Sandártungu í Þjórsárdal, kotbýli frá seinni hluta 17. aldar (Kristján Eldjárn. „Tvennar bæjarrústir frá seinni öldum.” Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1949-50. Reykjavík 1951 og „Bær í Gjáskógum í Þjórsárdal.

Eins og fram kemur hér að framan var eitt heilþil og eitt hálfþil á húsinu. Og eins og fundir gefa til kynna var gluggi á húsinu, jafnvel fleiri en einn. Líklega hefur húsið litið svipað út og Arnarnes nokkuð. Slík hús eru kölluð Þurrabúðargerð yngri, en sú gerð þróaðist upp úr þurrabúðinni (Þurrabúðargerð eldri), sem var án þilja, glugga og bursta. Þessi þróun átti sér stað í lok síðustu aldar.

Straumur

Straumur. Hlaðið byrgi nær.

Í Jónsbúð hefur verið búið á síðustu öld og eitthvað fram eftir þessari. Húsið hefur skipst í baðstofu og fjós og í baðstofunni hefur verið eldavél á seinni stigum búsetunnar og í henni hefur steinkol verið brennt.
Á býlinu hefur verið haldið sauðfé og nautgripir og fiskur og fugl veiddur til matar. Þang hefur verið notað sem eldiviður, auk annars sem nothæft var (bein, sprek o.fl.). Líklega hefur þangið verið talið til hlunninda eins og segir um Krýsuvíkina, ekki síst til að beita sauðfénu á.

Ekki var hægt að rekja aldur býlisins mikið lengra en til seinni hluta síðustu aldar, en baðstofan, gæti verið yngri en sum önnur mannvirki á staðnum. Vel getur hugsast að fyrir hafi verið hús af gerðinni Þurrabúðargerð eldri, sem hafi verið endurhlaðin og bætt samkvæmt þörfum samtímans og ráðandi tísku í lok síðustu aldar, eða þegar þurrabúðin varð að einskonar hjáleigu með tilkomu húsdýra. Til að komast til botns í þessu máli þarf að grafa betur á staðnum, t.d. í gegn um veggi bæjarins og kanna betur öskuhauginn.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðabrunnur.

Haldið var að Jónsbúðartjörn norðan búðarinnar. Þar er brunnstæði og vatnsstæði syðst í tjörninni. Markhóll, klofinn klettur, er norðan við tjörnina. Í gegnum hann liggja mörk Straums og Óttarsstaða. Vatnskersklöpp liggur þar útfrá og má sjá merki yst á henni.
Áður hafði verið gengið með ströndinni til norðurs, en nú beygir hún til norðvesturs. Norðvestan við Markhól er Kotabótartjörn, Kotabót ofar og Kothellan við ströndina. Framundan hægra megin eru Kisuklettar og Bakkatún á vinstri hönd. Heillegur garður liggur með því sunnanverðu.
Eyðikot er þríbursta hús ofan við Kotabótina. Þriðjungi, þeim nyrsta, var bætt við húsið fyrir u,þ.b. 40 árum, en komið var gert upp sem sumarhús árið 1950. Það gerðu þau Vilborg Ólafsdóttir og Erling Smith. Þá var hlaðið fallega upp með veggjum og húsið gert líkt og það var. Þá var húsið nefnt Alsæla.
Kobeinskotið var þar sem bárujárnskofi er ofan við Óttarsstaðavör innan við Sundið. Vestan hennar er Læna og Innri- og Ytri-Hólmi þar út af. Utan við Ytrihólma er sker, sem nefnt er Kirkjusker. Munnmæli eru um, að þar hafi farizt bátur með fólki, sem var að koma frá kirkju í Görðum.
Snoppa heitir hár klettur vestan við vörina. Upp af henni er Fiskhóll. Framundan til norðvesturs er Langibakki neðan við Óttarsstaði-eystri.

Gengið var með ströndinni yfir að Óttarstöðum eystri. Á kvöldin má sjá mink stinga sér innan um þangið í fjörunni í leit að einhverju ætilegu.

Löngum var tvíbýli á Óttarsstöðum. Voru býlin nefnd Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaðir eða Austurbær. Bæirnir stóðu á Bæjarhól, nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn stendur enn þá, en Austurbærinn var rifinn fyrir aldamót. Var þá byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu, en gömlu bæjartóftirnar notaðar fyrir fjós og hlöðu. Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vesturbæjartún og Austurbæjartún. Kringum öll túnin var hlaðinn tvístæður túngarður, feiknamannvirki.

Gerði

Gerði.

Við Óttarsstaði eystri eru allmargar tóttir, garðar og gerði. Suðaustan við húsið er brunnur og annar eldri vestan við það. Íbúðarhúsið hefur verið reisulegt á sínum tíma, þótt hafi nú láti verulega á sjá. Máttarstoðir þess eru sagðir vera úr strandi Jameswon við Hafnir 1881, eins og svo mörg önnur hús á Reykjanesskagagnum á þeim tíma. Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. M. a. hlóð hann eldhús á Óttarsstöðum upp úr aldamótum, sömuleiðis skemmu í Stóra-Lambhaga, og standa þau enn óhögguð.

Gengið var áfram framhjá fjárhúsi, sem þarna stendur nokkuð heillegt og suður fyrir Óttarstaðabæina. Þar er grasi gróinn hóll, sem talið er að hafi hýst bænahús til forna. Þar við er Álfakirkjan, klettaborg í grónu jarðfalli.

Gengið var um Óttarstaði, skoðaðar minjar, sem þar eru, s.s. útieldhús, útihús og brunnar. Yngsti brunnurinn er austan við Óttarstaði eystri (1944), annar sunnan við húsið og sennilega sá elsti norðan Óttarstaða vestri. Að sögn Bjarna F. Einarssonar eru eldri minjar verslunar norðan Óttarstaða, ofan við Langabakka. Sést móta fyrir útlínum húsa þar skammt ofan við fjörðugarðinn ef vel er að gáð.

Þorbjarnastaðir

Útihús við Þorbjarnastaði.

Rétt norður af Neðri-Óttarsstöðum er lágur rani. Á endanum á honum er smátúnblettur með grjóthleðslu í kring. Er þetta nefnt Rúnugerði, kennt við Guðrúnu, dóttur Friðfinns, sem bjó á Óttarsstöðum skömmu fyrir aldamót.
Rétt austur af Rúnugerði er nokkuð stór hóll, sem kallaður var Fiskhóll. Uppi á þeim hól hafa verið breiðir grjótgarðar, sem enn sést vel móta fyrir, og þar hefur verið þurrkaður fiskur í gamla daga.
Alveg sunnan undir húsinu á Neðri-Óttarsstöðum var jarðfall, lítið um sig. Það var alltaf kallað Prettur, en ekki er vitað um orsök nafnsins. Brunnur var í jarðfallinu, og var alltaf nóg vatn í honum, en fylgdi flóði og fjöru.
Nefndist það efra Torfhús, en það neðra Langabakkahús. Langabakkahús var rifið, svo að veggir einir stóðu eftir, en þeir fóru alveg í stórflóði, líklega 1957.
Kattarhryggur var langur bali rétt suðaustur af Vesturbænum. Sunnan við Kattarhrygginn var klettur margsprunginn, er nefndist Stólpi eða Álfakirkja. Bjó jafnan huldufólk í þessum klettum. Mátti því ekki hreyfa þar við strái, ekki vera í leik eða hafa mikinn hávaða.
Í túninu á Neðri-Óttarsstöðum, alveg við mörkin, var kofi, upphaflega smiðja, seinna hesthús. Rétt austur af tóftinni eru þúfur miklar, og töldu menn, að þar væru leiði.

Vestar er Óttarstaðir vestri. Þar eru einnig miklir garðar. Á milli og austan við bæina er gróinn hóll. Þar er talið að forn kapella eða kirkja hafi staðið.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðaborg.

Gengið var niður Norðurtúnið að Langabakka. Þar mótar fyrir gömlum rústum, mun eldri en aðrar sýnilegar. Aðeins austar, rétt við kampinn, var lítil rétt, sem notuð var fyrir sláturfé á haustin. Hún var kölluð Langabakkarétt. Sjórinn tók hana og jafnaði við jörðu í sama flóði og Langabakkahúsið fór af. Austan við Langabakkarétt eru stórir klapparhólar og sunnan við þá tjörn. Er þetta kallað Vatnsgjá. Þarna var kofi eða byrgi frá Eyðikotinu, og var þar geymdur harðfiskur í gamla daga. Veggirnir standa enn.
Vestan við Langatanga er Arnarklettur og Hrúðurinn norðan hans. Vestar er Langiklettur. Út á hann liggur vandlega hlaðinn garður Óttarsstaðarbæjanna. Stekkurinn er í kvos vestan við Garðinn og leirlág þar sunnan við.

Gengið var yfir í Klofið, en þar er Óttarstaðaréttin, fallega hlaðin. Í henni er m.a. hlaðin lambakróg. Líklega hefur réttin verið heim- og rúningsrétt líkt og Þorbjarnarstaðaréttin (Stekkurinn). Utan við hana eru nokkrar tóttir fjárhúsa.
Ofan við Klofið er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða. Frá henni var haldið eftir stíg suður inn í hraunið uns komið var að Kotaklifsvörðu, hárri og áberandi vörðu vestan í Sigurðarhæð. Frá henni var haldið suðaustur að Kúaréttinni, sem er djúp gróin laut í hrauninu. Við enda hennar eru hlaðnir garðar. Háir veggir lautarinnar er svo til þverhníptir á kafla. Ofar eru miklar sprungur.

Straumur

Gengið um Straumssvæðið.

Í Kúarétt eru hleðslur. Réttin er í skjólgóðri hraunlaut með háa barma allt í kring. Rjúpa kúrði enn sem oft áður efst í barminum. Gengið var upp úr réttinni og yfir að Kotaklifsvörðu. Við hana eru gatnamót; annars vegar efri stígurinn yfir að Lónakoti og hins vegar gata niður að Miðmundarhæð. Síðarnefndu götunni var fylgt niður að Miðmundarvörðu vestast í hæðinni. Beint þar fyrir neðan, í stórum hraunkrika er Óttarstaðaréttin, falleg og vel hlaðin rétt. Innst í henni er hlaðin kró.

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum ofan við Straum að Gerði. Gamall vegur liggur frá Keflavíkurveginum að þessum gamla bæ í Hraunum. Þar sem Keflavíkurvegurinn kemur niður og yfir tjarnirnar ofan við Straumsvík má enn sjá minjar hinnar fyrstu vegagerðar sjálfrennireiðarinnnar er tengdi saman byggðalög hér á landi. Einnig má sjá veglegar veghleðslur yfir gjár og jarðföll í gegnum hraunið vestan við Rauðamel, en eftir það má segja að hið gamla handbragð hinna gömlu vegargerðarmanna á Keflavíkurveginum hverfi. Þetta er því dýrmætur vegspotti þegar horft er til verndunar þessara tegunda minja.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Fagrivöllur var á vinstri hönd. Hlaðinn garður er um hann og var Péturskot við norðausturhornið á honum. Reykjanesbrautin var að hluta til lögð yfir völlinn og skilur af svæðið við Péturskot og Péturskotshróf og Péturskotsvör ofan við Straumstjarnir. Austar og ofan við þjóðveginn er Aukatún. Sjá má hleðslur um túnið undir hraunkantinum þar sem gatnamót gamla vegarins er að Gerði. Hefur garðurinn oft verið nefndur Brunagarður.
Áður fyrr lá flóraður stígur frá Lambhaga langt austur inn á Kapelluhraun.

Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrár Örnefnastofnunar.
-Magnús Jónsson.
-Gísli Sigurðsson.
-Ólafur Jónsson.
-Guðjón Jónsson.
-Bjarni F. Einarsson.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Þorbjarnastaðir

Við skoðun á örnefnalýsingum fyrir Þorbjarnarstaði kom í ljós áður óráðin misræmi, m.a. varðandi Grúnuskúta (Gránuhelli) og Kápuhelli. Í annarri lýsingunni (GS) eru þessi skjól sögð vera við heimatún Þorbjarnastaða, en staðsetning þeirra ekki tilgreind nánar.

Þorbjarnarstaðarétt

Í hinni er Gránuskúti sagður “sunnan við Fornarsel”, en í lýsingunni er Gjásel nefnt Fornasel og öfugt. Þá er Kápuhellir sagður vera “í brúninni á” Laufhöfðahrauni. Þótt báðir staðirnir séu í landi Þorbjarnarstaða munar hér verulegum vegarlengdum. Hingað til hefur ekki verið vitað um skjól við [Fornasel], en Kápuhellir við Jónshöfða í vesturjarðri Laufhöfðahrauns er þekktur. FERLIR hefur skoðað hann áður. Eftir allnokkra leit að hugsanlegum Gránuskúta við Þorbjarnarstaði fékk FERLIR ávísun á fallegan helli sunnan Þorbjarnastaða, austan undir Miðmundarhæð. Var hann tilgreindur sem Gránuskjól. Hleðslur eru fyrir munnanum og gólfið flórað.
Nú var tilefnið m.a. að kanna með hugsanlegt skjól við [Fornasel].
Gengið var að þorbjarnarstaðaréttinni undir Sölvhól norðan Þorbjarnarstaða, að brunni bæjarins, inn á Alfaraleið og henni fylgt að mótum Gerðisstígs (Hólaskarðsstíg). Þeim stíg var fylgt upp hraunið að Neðri-hellum, framhjá vörðuðum skúta í Selhrauni, að vorréttinni undir Brunabrúninni, upp að Efri-hellum og þaðan gengið eftir Kolbeinshæðarstíg upp að Kolbeinshæðarskjóli. Stígnum var fylgt suður yfir Kolbeinshæðir og upp að Laufhöfðavörðu og áfram að Gjáseli [Fornaseli] þar sem m.a. ætlunin var að skoða svæðið af nákvæmni með hliðsjón af upplýsingum í örnefnaskrá. Þarna kynni Gránuskúti að leynast einhvers staðar, en svæðið er nú vel kjarri vaxið.
Brunnur Þá var stefnan tekin niður að Kápuhelli við vesturbrún Laufhöfðahrauns, Straumsselsstíg fylgt niður að áður vísiteruðum Gránuskúta austan undir Miðmundarhæð og síðan að Stekknum (réttinni) sunnan Þorbjarnastaða. Lokaáfanginn var Alfaraleiðin til austurs, að Brunabrúninni sunnan Gerðis.
Í þessari ferð var aðalheimildin örnefnalýsing, upphaflega skráð af Gísla Sigurðssyni, örnefni eftir Ástvald Þorkelsson frá Þorbjarnarstöðum, Gísla Guðjónsson frá Hlíð, Magnúsi Guðjónsson frá Stóra-Lambhaga og Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti. Einnig var stuðst við gömul landamerkjabréf.
3. júní 1978 fóru sr. Bjarni Sigurðsson og Haukur bróðir hans á vettvang ásamt hinum þremur öldruðum mönnum. Þeir fimmmenningar gerðu ýmsar athugasemdir við lýsingu Gísla. Flestar þeirra skráði sr. Bjarni jafnóðum, en fáeinar ritaði Sigríður Jóhannsdóttir eftir sr. Bjarna 5. júní 1978. Loks gerði sr. Bjarni fáeinar athugasemdir í október 1980.
Gísli Guðjónsson er fæddur á Setbergi 1891, kom í Hraunin um 10 ára og var þar til 1917, 8 ár í Gerði og önnur 8 á Óttarsstöðum. Jósef Guðjónsson er fæddur 1899, kom að Óttarsstöðum 2-3 ára og var þar til 1918. Gústaf er fæddur 1906, kom í Eyðikot 1907 og var þar til 1937. Sr. Bjarni og Haukur bróðir hans ólust upp í Straumi frá 1930.
Hér fer á eftir lýsing Gísla Sigurðssonar með þeim leiðréttingum, sem að framan greinir. Landamerkjalýsing er tekin upp úr Landamerkjabók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Í örnefnaslýsingunni kemur fram að meðfram austurtúngarðinum lá Straumsstígurinn. “Norðar, eða við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðaréttin, vel hlaðin rétt af grjóti. Hún stendur norður undir Sölvhól. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.) Eitt örnefni enn er hér nálægt túninu, Mosaflesjur, þar sem mosinn var þurrkaður til eldiviðar.
Neðri Austurtúngarðinum var fylgt niður að brunni Þorbjarnastaða. Hann er í Brunntjörninni norðan við túnin, grunnur, en fallega hlaðinn umhverfis. Ferskt vatn leysir undan hrauninu sunnan við hann. Að brunninum liggur hlaðinn gata eða garður. Af honum var ullin jafnan þvegin í tjörninni.
Norðan tjarnanna má enn sjá Suðurnesjaveginn ofan af Brunanum niður af Hraunhorninu. Af honum lá Gerðisstígur heim að Gerði eða Gerðisbæ, sem stóð í hjalla í Gerðistúni. Stígur lá frá bænum upp á Brunabrún upp í Hraunhornsstíg. Niður undan Hjallanum voru Gerðisbalar, Stóri-Bali nær og Litli-Bali fjær. Norðan Balanna er Gerðistjörn. Í henni var Gerðisvatnsból og vestur frá henni Stakatjörn. Fyrrnefndur stígur, sem lá upp á Brunabrúnina, var kallaður Kirkjustígur. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.
Sunnan Gerðistúns var tjörn, er nefndist Gerðistjörn syðri, en sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.
Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Áður hefur verið getið um mosatekju í Kapelluhrauni.
LandamerkjalínaÞorbjarnastaða að austan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali (þar sem m.a. má sjá nokkur hlaðin skjól) og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól. Var hún 2×2 metrar að ummáli, og sneru dyr í vestur. Kapella þessi var helguð heilagri Barböru, sem var verndari ferðamanna og gegn hvers konar háska af eldsvoða. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.
Þegar farið var vestur yfir Brunann lá leiðin áfram, þar til komið var í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri.”
Vorréttin Vörður þessar eru nú horfnar, sem og meginhluti leiðarinnar um Kapelluhraunið. Einungis má sjá enda leiðanna sitt hvoru megin við brúnirnar, auk nokkurra metra kafla við kapelluna. Öllu öðru hefur verið raskað. Það hefði ekki verið slæmt nú ef götunni hefði verið hlíft við eyðileggingunni og hægt hefði verð að sýna hana áhugasömu fólki um gamlar þjóðleiðir. Þegar staðið er við hana lá leiðin í stefnu á græn hús, sem nú hafa verið byggð í vestanverðu hrauninu og áfram að brúninni. Á henni eru nú þrír steinar þar sem gatan kom niður. Neðan Brunans sést gatan síðan vel þar sem hún liðast vestur yfir hraunið ofan Gerðis og Þorbjarnastaða.
“Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur.”
Gerðisstíg var nú fylgt til suðurs. Hann er vel gróinn og breiður á kafla. “Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur.”
Efri Kerið er ekki stórt en nokkuð djúpt. Nú vaxa í því stórir fallegir burknar. Og enn má sjá hleðsluna, sem Þorkell bóndi, ættaður frá Guðnabæ í Selvogi, hlóð við norðurbrún kersins. Þótt hér sé verið að lýsa aðstæðum og örnefnum við Gerðisstíg er Þorbjarnastaðakerið og Dalirnir nokkuð vestan stígsins.
“Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins. Þegar komið er yfir Seljahraun, blasir við á hægri hönd mikill melur, Rauðimelur eða Þorbjarnarstaðarauðimelur. Rétt fyrir norðan Rauðamel eru Neðri-Hellar eða Litlu-Hellar.”
Við Neðri-Hella eða -Hellra er m.a. fallega hlaðið ferkantað gerði undir Brunabrúninni. Ofar má, ef vel er að gáð, sjá móta fyrir löngum garði, nú mosavöxnum. Hellarnir sjálfir er spölkorn ofar. Hleðslur eru við opin. Mjög gróið er í kringum hellana.
“Rauðimelur var einnig nefndur Rauðhólar. Norðan melsins voru klettaborgir, áberandi vegna gróðurs í kringum þær. Nefndust þær Rauðamelsklettar syðri og Rauðamelsklettar nyrðri eða bara Rauðamelsklettar. Vestur frá þeim tóku við Ennin, lágar brekkur. En Rauðamelsstígur lá vestur norðan við melinn, samkvæmt skrá Gísla Sigurðssonar. Nú man enginn eftir honum, e.t.v. hafa þetta bara verið fjárslóðir. Suður frá melnum var Réttargjá. Gjá þessi var sprunga, sem sneri suður og norður.”
Skammt vestan við Rauðamelskletta er víð hraunsprunga, gróin í botninn. Í henni er heilleg há fyrirhleðsla. Ljóst er að þarna hefur annað hvort verið nátthagi eða gerði. Skammt suðaustan sprungunnar er fallegt, nokkuð stórt skjól með op mót norðvestri. Gamalt vörðubrot er ofan við opið. Ekki er að sjá að þessa skjóls eða “sprunguréttarinnar” sé getið í örnefnalýsingum.
“Skammt suður þaðan í Brunabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum.”
Kolbeins Réttin stendur enn vel heilleg. Á Brunanum, ofan hennar, er nú æfingasvæði Skotfélags Hafnarfjarðar. Réttin hefur þó fengið að vera að mestu óáreitt. Í henni eru tveir dilkar auk almennings.
“Héðan var stígurinn kallaður Efrihellnastígur allt upp að Efrihellum, sem hér voru við brúnina á Brunanum. Þegar hér var komið, nefndist hraunið Brenna, ofan Efrihellna, brunatunga, er lá hér suður. Úti á hrauninu var Brennuhóll, neðst í Brennunni. Guðmundur Bergsveinsson í Eyðikoti sótti kvarnarsteina í Brennuna og bar á bakinu, setti mosa undir bakið.”
Reynt var skyggnast eftir því hvort þarna væru ummerki eftir að kvarnasteinn hefði verið unninn á staðnum, en erfitt er að átta sig á því enda mosavaxið.
Hér á eftir kemur svolítill útúrdúr frá þessari ferð, miðað við gönguáætlunina.
“Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin [Þorbjarnastaðafjárborg] á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir [með krosshlöðnum aðgangi]. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir.”
Gránuskúti Ekki var farið í Hrauntungur, að Þorbjarnastaðafjárborginni eða upp í Brunntorfuhelli að þessu sinni. Um þessa staði er fjallað í öðrum lýsingum á vefsíðunni. Í heimildum er svæðið nefnt Brunatorfur, en þarna við mætast Óbrennishólabruni og Nýibruni (Nýjahraun).
“Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, staðsett á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.”
Hér er Fornasel nefnt Gjásel, en í öðrum heimildum er Gjáselið norðar af þessum tveimur seljum á þessu svæði, en Fornaselið sunnar. Framangreind lýsing passar vel við Fornaselið, enda önnur tilgreind örnefni skammt frá því.
“Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.” En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.”
Framangreint er ágætt dæmi um mismunandi upplýsingar um örnefni. Það sem einn telur sig vita hlýtur að vera hið eina rétta. Sama mun gilda um aðra þá er telja sig hafa aðrar upplýsingar. Staðreyndin er hins vegar að bæði breytast örnefni með tíð og tíma og jafnvel milli manna því ekki taka allir nákvæmlega vel eftir ábendingum eða þeir áætla út frá þeim. Þannig hefur þetta verið og mun verða – líkt og þessi heimildarörnefnalýsing gefur glögga mynd af.
Nú er aftur haldið af stað þar sem frá var horfið við Efri-Hella. Gránuskúti “Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellum er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð [stundum nefnd Kolbeinshæðir], og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekki við, telja þó, að það geti staðizt. Hraunflákinn milli Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun.”
Fyrir Kolbeinshæðarskjóli er falleg fyrirhleðsla. Sjá má enn spýtur sem notaðar voru til að refta yfir skjólið. Vel er gróið í kringum það og óvíða má sjá stærri krækiber en einmitt þarna. Staðurinn er enda einstaklega skjólgóður. Stígurinn sést enn í annars grónu hrauninu. Honum var fylgt áfram suður yfir hæðina, upp að Laufhöfðavörðu á Laufhöfða. Þar var komið inn á stíg, sem er framhald af Straumsselsstíg og liggur upp í Gjásel og Fornasel, sem fyrr var nefndur til sögunnar.
“Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.”
Nú var úr vöndu að ráða. Lýsingin á Fornaseli passaði vel við Gjásel; niðurgrafið vatnsstæði við selið, þrjár vistarverur og rústir eftir kvíar norðan undir hæðinni. En hvað um Gránuskúta?
Gengið var suður fyrir selstöðuna og svæði skoðað mjög vel. Eins og áður var lýst er það nú kjarri vaxið og það torveldaði leitina. Eftir nokkra leit fannst gott skjól innan við kjarr, vandfundið. Ekki var hægt að greina mannvistarleifar í eða við það. Staðsetningin gat hins vegar staðist. Tekinn var gps-punktur – til öryggis.
Kápuskjól Haldið var til norðurs með vestanverðu selstæðinu. Þá – skyndilega – mátti með glöggum augum greina mikla vegghleðslu í kjarri vöxnum bolla vestan undir hæðunum. Í dag myndi það teljast til suðurs. Við nánari athugun kom í ljós hellisop með fyrirhleðslum. Inni var rúmgott skjól. Mosi við opið benti til þess að þarna hefði ekki nokkur lifandi vera stigið niður fæti um langa tíð. Spurningin er hvort þarna kunni Gránuskúti að hafa verið opinberaður, en um hann hefur jafnan verið fjallað í þátíð hingað til, líkt og hann hafi týnst. Þarna er a.m.k. veglegt fjárskjól og það við sel. Ekki er að sjá að því hafi verið lýst annars staðar – hingað til. Segja má með sanni að þarna sé komið enn eitt fjárskjólið á þessu svæði (auk Brunntorfuhellis, Kápuhellis og tveggja hella, sem á eftir að nefna undir Miðmundarhæð).
“Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnarholtsvörðu lá landamerkjalínan. Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður. Gísli Sigurðsson segir, að þær hafi verið nefndar Lýritti, en það hafa heimildarmenn sr. Bjarna ekki heyrt. Héðan lá aftur á móti línan austur og ofan við Brundtorfur og kom þar á Stórhöfðastíg, sem lá svo áfram vestur að Fjallinu eina. Úr Hafurbjarnarholti lá landamerkjalínan niður um hraunið austur af Straumsseli niður um Katla og niður á Fremri-Flár. Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða.”
Leit var gerð að vatnsstæðinu, en það fannst ekki að þessu sinni. Mörg vatnsstæði í hraununum eru enda þurr nú eftir litla snjóa og takmarkaða vætutíð. Þó stendur vatnsstæðið við Fornasel jafnan fyrir sínu.
Stekurinn “Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna.”
FERLIR hafði áður komið að Kápuhelli utan í Jónshöfða, við vesturmörk Laufhöfðahrauns. Að þessu sinni var gengið í gegnum Gráhelluhraunið og beint að hellinum. Best er þó að fylgja stígnum frá Gjáseli til norðvesturs því varða ofan við Kápuhelli vísar á hann. Hellirinn er aðgengilegastur um gróninga frá stígnum. Um er að ræða skúta inn undir hraunhæð í einni af hinum mörgu lægðum á svæðinu. Hann er þó í þeirri austustu og vísar varðan á hann, sem fyrr segir. Fyrirhlesla er við hann. Skammt ofan við hann, undir sömu hæðarbungu, er annað hlaðið skjól, grynnra. Vel gróið er umhverfis lægðina og því ljóst að þarna hefur fé verið haft til nytja.
Nöfnin Grána og Kápa eru fengin frá fé Þorbjarnastaðabóndans, en stundum er talað um grátt og kápótt kyn slíkra skepna.
“Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur [ætti að heita Gjáselsstígur, en mætti þess vegna heita framangreint því hann liggur áfram framhjá því upp í Fornasel] suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið. Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar. Á miðjum Flánum er Fláavarðan.”
Varðan sést enn. Á kafla er Straumsselsstígur grópaður í slétta hraunhelluna.
“Eru nú engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur, sem lá allt til Krýsuvíkur, jafnframt fjallreiðarvegur á kafla.”
Veg þennan má enn sjá í hrauninu. Hún hefur stundum verið nefnd Straumsselsstígurinn vestari því leiðin liggur um Straumssel að vestanverðu.
Gránuskjól “Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).
Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum.”
Þótt fjallað sé um mannvistarleifar í þátíð í lýsingu þessari er ekki þar með sagt að mannvirkin séu horfin, eins og dæmin hafa sýnt. Varðan ofan við Tobbukletta eystri stendur enn. Auk þess má enn sjá fyrirhleslur í klettunum þar fyrir neðan (austan).
“Þaðan er skammt í Seljahraun, en austur frá klettunum eru Ennin áðurnefnd. Landamerkjalínan liggur úr Tobbuvörðu norður í Stekkatúnshæð vestari, þaðan í Tóhól eða Tó rétt vestan við Sölvhól og þaðan í Pétursbyrgi.”
Pétursbyrgi er hlaðið skjól við stíginn, þ.e.a.s. vestari stíginn, sem fyrr er getið, því annar austari liggur um Selhraunið niður að Stekknum.
“En stígurinn liggur frá Seljahrauni vestan Jóhannshóls og milli Stekkatúnshæðar vestari og eystri. Á Stekkatúnshæð eystri var Hádegisvarða [í annarri örnefnalýsingu er hún nefnd Miðmundarvarða og hæðin Miðmundarhæð], stóð hátt og var mikil um sig. Hæðin var því allt að einu nefnd Hádegishæð. Varða þessi var ekki eyktamark frá Þorbjarnarstöðum, heldur sennilega Gerði. Norðan undir hæðinni var Stekkurinn eða Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Þarna var líka Stekksgatan eða Þorbjarnarstaðagatan. Er þá komið heim að túngarði.”
Skömmu áður en komið var að Stekknum var litið við í fyrstnefndu Gránuskjóli. Austari Straumsselsstígurinn kemur niður að Stekknum skammt austan þess. Austan við Stekkinn má enn sjá hleðslu eftir stórt gerði.
Þorbjarnarstaðir Þegar komið var niður fyrir Stekkinn (réttina) var gengið inn á Alfaraleiðina af Þorbjarnastaðagötunni. Alfaraleiðinni var fylgt til austurs (nú tilgreint norður). Gatan liðast um hraunið. Sunnan við Þorbjarnastaði tekur hún vinkillaga hlykk á sig til suðurs, en síðan á ný til austurs. Gatan er vel greinileg inn í gróinn hvamm að Brunabrúninni sunnan Gerðis. Þar hefur Brunanum verið ýtt með jarðýtum út fyrir brúnina svo ekki er hægt að sjá lengur hvar gatan lá um “Vestari Brunaskarð”. Hún endar því við “hina áþreifanlegu eyðileggingarbrún nútímamenningarinnar”. Ofar eru nú þrír steinar til merkis um mörkin.
Framangreind leið er í rauninni einstakt tækifæri og tiltölulega auðveld leið til að kynnast fyrrum búskaparháttum og atvinnusögu svæðisins – á tiltölulega skömmum tíma. Hvar sem stigið er niður eru minjar og saga þeirra birtist auðveldlega ljóslifandi.
Reynslan hefur kennt okkur að það sem eyðilagt er nýtist engum. Einungis með stöðugri meðvitund, viðurkenningu á eigin fortíð og meðvitund um mikilvægi framtíðar verður mikilvægum verðmætum forðað frá glötun. Varðveitt verðmæti nýtast framtíðinni – glötuð verðmæti nýtast engum.
Frábært veður – lyngna og gróðurangan. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Brunnur

Brunnur við Þorbjarnarstaði.

Þorbjarnastaðir

Björn Möller í Hafnarfirði benti FERLIR á Minningu um forföður eiginkonu hans, Guðfríðar Guðmundsdóttur, Ólaf Jónsson, bónda á Geitabergi, Katanesi, er birtist í Íslendingaþáttum Tímans árið 1982. Ólafur var langafi Guðfríðar. Þar segir Valgarður I. Jónsson frá Eystra-Miðfelli frá Ólafi, en hann var m.a. um tíma lausamaður á Þorbjarnarstöðum í Hraunum.

Thorbjarnarstadir-2

“Ólafur Jónsson fæddist 25. 12. 1838 að Lambhaga í Mosfellssveit, sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Maríu Eyjólfsdóttur. Þetta fólk mun hafa átt ætt sína og uppruna í Gullbringu- og Kjósarsýslu, Mosfellssveitinni og nágrenni Reykjavíkur, t.d. í Laxnesi, í Stardal og í Breiðholti. Ólafur átti tvö bræður og eina systur.
Ungur stundaði Ólafur jöfnum höndum landbúnaðarstörf og sjósókn. Það mun hafa verið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnastaðir í Straumsvík við Hafnarfjörð. Þar býr hann í 12 ár sem leiguliði.

Thorbjarnarstadir-3

Satt best að segja átta ég mig ekki á hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki þarna að græða upp túnblett úr brunauðninni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfis túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir, sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á grafnir.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þessi 12 ár, sem Ólafur bjó þarna stundaði hann sjóinn jöfnum höndum og réri frá Óttarsstöðum með Guðmundir Halldórssyni mági sínum. Ólafur var mikill starfsmaður, sem ekki kunni að hlífa sér. Þarna hefur sannast, sem endranær, því talað var um að honum græddist fé og væri vel stæður maður, á mælikvarða þess tíma. Á þessum árum hefur starfsgetan verið óskert.

Svo var það á þessum árum að Ólafur fréttir af jörð til sölu í Hvalfjarðarstarndarhreppi, þar var Geitabergið í Svíndal. Ólafur handasalaði kaupin, en tók ekki strax við jörðinni því hann vildi borga jarðarverðið út í hönd þegar hann tæki við jörðinni, en hann vantaði lítillega og þurfti að afla þess. Þá stóðu munnleg loforð sem skrifaðir samningar og ekki var háttur manna að kaupa allt ís kuld, en fara að öllu með fyrirhyggju.
Ólafur flutti með allt sitt að Geitabergi á vordögum 1881. Þar bjó hann í 18 ár, en vorið 1899 skipti hann á jörðinni og Katanesi. hann lést þar 22. maí 1912.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – heimaréttin.

Það er á allra vitorði að sú kynslóð sem lifði samtíð Ólafs vann hörðum höndum að framgangi sinnar þjóðar til betra lífs. Af verkum þessa fólks uppskerum við enn í dag.
Ólafur var virtur af verkum sínum. Því til sönnunar má bend á að þrisvar sinnum voru honum veitt konungsverðlaun úr Ræktunarsjóði fyrir jarðabætur.”
Tóftir og tún á Þorbjarnarstöðum ofan við Straum er síðustu heillegu minjar framangreins tíma í Hafnarfirði, sem þá tilheyrði Garðahreppi. Bærinn stóð við gömlu þjóðleiðina, Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja. Við bæinn eru enn allflestar þær minjar, sem gefa innsýn í búskaparhætti fyrri tíma.

Heimild:
-Íslendingaþættir Tímans – 30. júní 1882, 25. tbl. – Valgarður I. Jónsson.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta.

Lambhagi

Þegar gengið var um Lónakot og Svínakot í Hraunum voru rifjaðar upp eftirfarandi upplýsingar um gömlu bæina og Suðurnesjaalmenning þar fyrir ofan í hraununum:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er eftirfarandi lýsing: “ Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenning tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til þar sem hann mætir Áslandi svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðaland og selstaða.
Þar fyrir norðan tekur til það, sem Innesingar kalla Kóngsland, gengur það norður og austur með fjöllunum inn að Elliðaám og upp undir Hellisheiði fyrir ofan Vífilsstaði, Urriðakot, Elliðavatn, og hina aðra bæina. Er þetta land eigi sérdeilis kóngsland, þó það svo kallað sé, heldur er það svo sem afréttur eður óskipt land þeirra kóngsjarðanna, sem liggja upp og inn undan Álftanesi.”
Í jarðabókinni er víða getið um Suðurnesjaalmenninga, sem ofangreind býli áttu rétt í. Auk jarða á Vatnsleysuströnd áttu öll lögbýli í Grindavíkurhreppi rétt til kolagerðar í almenningum eða Suðurnesjaalmenningum án þess að getið sé hvar þeir eru. Sama er um margar jarðir Í Rosmhvalaneshreppi og nokkrar í Álftaneshreppi.
Um jörðina Þorbjarnarstaði, sem er nú í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar þar sem Straumsvík er, segir þetta:

Réttarklettar

Réttarklettar- stekkur.

“Skóg hefur jörðin átt, en nú má það varla kalla nema rifhrís. Það hefur hún svo bjarglega mikið, að það er brúkað til kolagerðar og eldiviðar, og svo til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annarra og eru þetta þau skógarpláss, sem almenningar eru kölluð.” Ennfremur segir í jarðabókinni um Hamarskot, að hrísrif hafi jörðin í Þorbjarnarstaðalandi, þar sem heita almenningar, er það haft til kolagerðar og eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot voru fyrrum nefndar Hraunjarðir og voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því kóngsjarðir við siðaskipti. Sá almenningur, sem hér er fjallað um er fyrir ofan (eða sunnan) lönd þessara jarða og einnig fyrir ofan Hvassahraun hvað þetta mál varðar. Svínakot mun hafa verið þar sem nú eru Réttarklettar vestan Lónakots. Hagar þar mannvirkjum svipað til og í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd, austan Kálfatjarnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Eftir að jarðir þessar voru seldar á árabilinu 1827-1839 reis upp ágreiningur um eignarheimildir á almenningnum ofan þeirra. Stiftamtmaður fól sýslumanni að skoða málið 1847 og fór áreið fram árið eftir með eigendum og ábúendum hraunsjarðanna,
sem liggja við almenninginn og helst hafa notað landið til beitar og skógaryrkingar sökum afstöðu þeirra og þess að þetta land tekur við, þar sem tún þeirra og Brunahraunsgirðingum um þau sleppa.
Í skoðunar- og áreiðargerðinni var mörkum lýst með þessum hætti:

Lónakot

Grænhólsskjól.

“Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfararveginum. Hennar botn og breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot.
Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kapelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu Eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum.
Yfirvöld mæltu eftir áreiðina fyrir um eins konar friðlýsingu svæðisins vegna lélegs ástands skógar og umsjón var falin einum Hraunjarðarbónda, en þeir einir máttu nýta landið án leyfis yfirvalda.
Segir síðan að allt þetta land álítist vera ein fermíla að stærð (dönsk míla var 7.5 km) eða 56 ferkílómetrar og er þetta svæði nú bæði innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar (29.71 ferkílómetri), en einnig upp af Vatnsleysustrandarhreppi, aðallega upp af Hvassahrauni.
Sjá MYNDIR.

Lónakot

Sjóbúð við Lónakot.

Þorbjarnastaðir

Tóftir Þorbjarnastaða eru síðustu heillegu minjar af íslenska torfbænum í umdæmi Hafnarfjarðar (áður Garðahrepps). Bærinn eru hluti af heilstæðu búsetulandslagi Hraunajarðanna ofan og utan Straumsvíkur og í þeim felast því mikil vanmetin menningarverðmæti.

Tóftir Þorbjarnastaða

Túngarðurinn við Þorbjarnarstaði er hlaðinn tvöfaldur. Ástæðan er tvíþætt; annars vegar er um útfærslu að ræða og hins vegar endurgerð. Bæjartóftirnar eru dæmigerðar fyrir bæjarstæði. Bærinn var úr torfi og grjóti, en nýjustu viðbyggingar og útihús voru með bárujárnsþaki. Tréþil stóðu mót suðri. Heimtröðin er milli gaflana og dæmigerðs matjurtargarðs í umgirtum hallanda. Brunngatan er til norðausturs að Tjörnunum. Þar, sem ferskt vatn kemur undan hrauninu, er hlaðinn brunnur svo og steinbrú. Á hana var ull og þvottur lagður eftir atvikum í þerrum.
Í landi Þorbjarnarstaða má finna allt það er tilheyrði gömlu bæjararfleifðinni; auk íbúðar- og útihúsa, hlaðinn túngarð, réttir, stekki, fjárskjól, götur og stíga, eyktarmörk, brunna, vatnsból, byrgi, selstöður, vörður og álagabletti.
Hafnarfjarðarbær á heimajörðina, en hefur langt í frá sýnt henni tilhlýðilega virðingu. Íslenska álfélagið keypti útjörðina af bænum fyrir nokkrum árum. Til stóð að selja hana alla, en nokkrir bæjarfulltrúar með skilningshjarta komu í veg fyrir það.
Stekkur við ÞorbjarnarstaðiÍ örnefnaskrá fyrir Þorbjarnarstaði má sem svolítið áþreifanlegt sýnishorn nefna Þorbjarnarstaðakerið. Það virðist hvorki merkilegt né áhugavert, er jafnvel ósýnilegt þeim sem ekki kunna að lesa landið, en er samt sem áður ágætt dæmi um hlutdeildina í hinu áðurnefnda ómetanlega búsetulandslagi.
“Úr skarðinu [á Kapelluhraunsbrúninni/Brunabrúninni] liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur. 

Þorbjarnarstaðakerið

Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins.”
Þorbjarnarstaðakerið er vandfundið, líkt og önnur mannvirki í Hraununum. Það er þó þarna. Hleðslan er áþreifanlegur minnisvarði um Þorkel bónda – og burkninn, sem þar vex nú, er hinn ágætasti minnisvarði um þann ágæta mann. Þorkell, sem var frá Guðnabæ í Selvogi, og Ingveldur, dóttir Jóns Guðmundssonar hreppsstjóra á Setbergi (Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga úr Tungunum), einnig þá í Garðahreppi, áttu 11 börn. Þorkell var löngum við róðra eða vinnumensku annars staðar, en Ingveldur annaðist bæði uppeldi barnanna og búreksturinn. Segja má því með sönnu að Ingveldur Jónsdóttir hafi verið dæmigerð móðir, dugnaðarkona og því verðug að minnast – ekki síst í ljósi síðari tíma krafna um jafnrétti versus ábyrgð og skyldur.

Thorbjarnarstadir

Áætlanir eru uppi um að “valta yfir” menningarminjar í Selhrauni (Selhraunum) og nágrenni og gera þar akstursæfingasvæði. Slík framkvæmd, ef af yrði, væri hin mesta sóun menningarverðmæta í umdæmi Hafnarfjarðar á síðari árum – og er þó nóg komið af slíku síðustu ár og áratugi.
Hvorki Byggðasafn Hafnarfjarðar né menningarfulltrúi Hafnarfjarðar, hvað þá kjörnir bæjarfulltrúar, hafa svo sem lyft litlafingri til mótvægis við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu. Nýleg fornleifaskráning á svæðinu er í einu orði sagt háðung. Og íbúarnir virðast algerlega ómeðvitaðir, og jafnvel áhugalausir, um verðmæti svæðisins til lengri framtíðar litið. Þarna er jú um að ræða eina vitnisburð og einu tengsl íbúanna við fortíðina, þá arfleifð er skilaði þeim til þessa dags – nútímans. Hana ber bæði að virða og heiðra – markvisst.
Sá einn sem fær tækifæri til að standa á barmi Þorbjarnarstaðakersins, staldra við og horfa niður á hleðslurnar og gróðurinn, veit hvaða mikilvægi fortíðin hafði fyrir nútíðina. Hleðsla Þorkels sést enn og er táknræn – henni var ætlað fyrir fé er rataði óvart niður í kerið í snjóum, en hefði ella orðið þar til. Fyrir tilstuðlan hleðslunnar komst það upp úr jarðfallinu – og lifði.

Thorbjarnarstadir

Þorbjarnastaðaborg.

Þorbjarnastaðastekkur

Gengið var upp með vestanverðum Þorbjarnarstaðatúngarðinum með það fyrir augum að skoða Straumsstíg (Straumsselsstíg) upp í Tobbuklettaskarð, rekja síðan markavörður með hraunbrún til suðurs, fara niður í Grenigjá og fylgja gjáargötunni inn á Straumsselsstíg og síðan til baka.

Tóftir Þorbjarnarstaða í Hraunum

Meðfram austurtúngarðinum á Þorbjarnastöðum lá Straumsstígurinn. Honum var fylgt norður með tvöfalt hlöðnum túngarðinum. Var þá fyrst komið að Lambhúsinu, sem er rétt utan við Lambhús-hliðið. Vikið var svolítið af leið. Við norðurtúngarðinn er/var Þorbjarnastaðaréttin, vel hlaðin rétt af grjóti. Hún hefur haldist vel – hleðslur eru um 120 cm að jafnaði. Hér var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot – fallegt mannvirki og fagur vitnisburður um fyrrum búskaparhætti í Hraunum.
Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum eru tveir hraundrangar, nær mannhæðarháir og voru áberandi af sjó fyrrum. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli (austanvert fellið) var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni. Þar utan við er nú innsiglingin inni í Straumsvíkurhöfnina. Fiskurinn lá gjarnan í hraunkantinum og það vissu útvegsbændurnir.
Í GránuhelliRétt suður af Þorbjarnarstaðatúni er Miðmundahæð. Á henni er Miðmundarvarða og austur af henni er svonefnt Seljahraun sem nær svo að merkjum. Rétt er að geta þess að Geldingahraun (Afstapahraunið eldra) er þarna þversum á millum – ein og glöggleg má sjá). Ofan þessa hrauns er eru svo gjár sem heita Grenigjár. Neðan við Seljahraunið er svo hæð sem heitir Gvendarbrunnshæð og þar er gömul svalalind Gvendarbrunnur. Þá er Rauðimelur, austur af honum er í Hrauninu Rauðamelsrétt. (Þegar hér var komið var örnefnalýsingin komin út fyrir göngusvæðið). Því er hér farið aftur inn á Straumsselsstíg neðan (norðan) Geldingahrauns.
Hér liggur stígurinn upp með sléttri klapparhæð. Norðan hennar er Stekkurinn; falleg heimafjárrétt Þorbjarnarstaðafólksins. Fyrrnefnda var sameignarrétt, en þessi; undir hárri hraunklapparbrún í góðu skjóli, tvíhlaðin af festu, var réttin þeira. Í henni er hlaðin lambakró, sem segir nokkuð til um til ganginn, líkt og sjá má í heimarétt Óttarsstaðamanna allnokkru norðvestar.
Eftir að Stekkurinn/réttin hafði verið virt virðingarinnar viðlits í kvöldsólinni var haldið til vesturs yfir að Gránuhelli/-skúta. Hlaðinn ingangurinn sést vel kunnugum, en getur leynst furðuvel ókunnugum. Innan við opið er flórað gólf, eitt af fáum fjárskjólum með ummerkjum um slíka natni við sauðkindina.
Tobbuklettar austariSkammt norðaustar er varða á enn einum hraunhólnum. Hún virðist merkingarlaus, en ef betur er að gáð má sjá allgóða sprungu í hólinn við vörðuna. Þegar farið var niður í sprunguna var hægt að horfa inn í hinn myndarlegasta skúta þvert á gjána; allgott skjól fyrir þann eða þá, sem þar vildu leynast. Grjót hafði verið fært til við innganginn, en alls ekki þannig að það yki útsýnið í skjólið. Ef laust hefði verið um þetta skjól má ætla að einhver hafi haft um það leynd óskráð orð – einhvern tímann.
Haldið var áfram upp eftir Straumsselsstíg. Í Geldingahrauni er hástend varða, á uppréttu klettanefni. Gengið var  yfir línuveginn og stígnum fylgt upp í Tobbukletta. Klettarnir nafngreindu eiga að hafa verið þrír; og þeir eru það, ef vel er að gáð.
Í örnefnalýsingum hefur verið getið um Tobbukletta vestari og Tobbukletta austari. Einhverra hluta vegna hefa vestari klettarnir verið færðir vestar svo austari Tobbuklettar hafa orðið að Tobbuklettum austari. Í raun eru klettarnir u.þ.b. 30 metra frá hvorum öðrum – sitt hvoru megin við Tobbuklettaskarð.
GrenigjárréttFörum spölkorn til baka. Í örnefnalýsingu segir að “af Tókletti lá landamerkjalínan suður yfir Seljahraun í Tobbuklett vestari. Þar uppi á klettunum er Tobbuklettsvarða. Í skrá G.S. segir, að þarna hafi einnig verið Tobbuklettsrétt. “Nafnið þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar. Vestur frá Tobbuklettum eru klettar miklir og margsprungnir. Óvíst er um heiti þeirra, en vestan þeirra eru Grenigjár. En suður frá Tobbuklettum liggur landamerkjalínan um Flárnar eða Flárnar nyrðri eða Neðriflár.”
Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. “Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefur verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).”
Þegar svæðið er skoðað gaumgæfilega mátti sjá hleðslu (aðhald) í klettunum austan Straumsselsstígs. Grasgróningar eru í botninum. Opið er mót norðvestri. Hraunkarl við GrenigjárréttLandamerkjavarðan er ofan skjólsins. Skammt vestar eru Tobbuklettar vestari. Í þeim er fyrirhleðsla í klettasprungu. Ofan sprungunnar er varða; “Tobbuklettsvarða”?
Reyndar ætti austari varðan að hafa þann titil því svo til í beina stefnu frá henni til suðurs eru a.m.k. 6 vörður; landamerkjavörður. Tvær þeirra standa á Draughól. Svo til beint ofan við Grenigjár eru tvær vörður.
Þegar stefnan var tekin frá þeim niður í Grenigjár (sem fremur ættu að heita Birkigjár m.v. hávaxnar birkihríslurnar í lægðum gjánna), var tiltölulega auðvelt að rata leiðina niður í Grenigjárréttina. Gjárnar eru þó ekki nefndar eftir gróðrinum heldur grenjum, sem þar voru (eru).
Réttin er mótuð í náttúrulega ílanga klapparhæð. Fyrirhleðslur er í gjánni og hlaðið umhverfis. Op er á réttinni til norðurs. Austan þess er sérkennilegur og sérstakur hraunkarl, líkt og oft má sjá í aplahraunum.
Þegar gengið var til baka, mót kvöldsólinni, var komið að Miðmundahæð suðaustan Þorbjarnarstaða, eyktamarki frá Þorbjarnarstöðum. Þar er fyrrgreind stór varða.
Þegar komið var niður með tvíhlöðnum görðum hinna gömlu Þorbjarnarstaða, þess einstaka staðar er hýsti, verndi og kom fjölda barna til mannvista, þ.e. tóftir bæjarins anspænis bláköldum nútímanum, stærðarinnar farmskipi og álveri í bakgrunni, vakna óneitanlega spurningar – um lífið og tilgang þess??!!
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Straum (AG og GS) og Þorbjarnarstaði (GS).
-Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnarstöðum og Ingveldur Jónsdóttir, húsfreyja á Þorbjarnarstöðum.

Alafaraleið

Varða við Alfaraleið.