Þorbjarnarstaðir

Gengið var áleiðis inn í Brunntorfur, að Þorbjarnastaðaborginni, stórri fjárborg er börn hjónanna frá Þorbjarnastöðum í Hraunum hlóðu um aldarmótin 1900.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Borgin er fallega innhlaðinn að ofan, hringlaga með leiðigörðum út frá dyrum til suðausturs. Inni í borginni er hár beinhlaðinn veggur. Líklegt má telja að topphlaða hafi átt borgina og að veggurinn inni í henni hafi átt að halda undir þakið þegar það lokaðist. Svipuð fjárborg, topphlaðin, er í Djúpadal í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum, Þorkell Árnason, var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi og því verið kunnugur þeirri borgargerð.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Ofar, suðaustar, í Brunntorfum er hlaðinn inngangur að tvískiptu fjárskjóli. Þrjú önnur fjárskjól eru í Brunntorfum. Sunnar er Fornasel og Gjásel vestar; hvorutveggja gömul sel frá Þorbjarnarstöðum. Í Önefnalýsingum um Straum er einungis getið um Fornasel og því þá ruglað saman við ónefnt Gjásel.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Gengið var að Fornaseli. Við selstöðuna er fallegt vatnsstæði, stekkur í lægð og tóftir. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í Fornasel fyrir skömmu. Taldi hann minjarnar vera frá því á 14. eða 15. öld. Gjáselið er einnig á hæð líkt og Fornasel. Þar við er einnig vatnsstæði, en það var þurrt að þessu sinni. Norðvestan undir hraunholtinu er stekkur í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Gránuskúti er sunnan selsins. Svæði þetta tilheyrir allt svonefndum Almenningi. Samkvæmt gömlum bókum á það að vera ein fermíla að stærð, en ein dönsk míla er nú 7.5 x 7,5 km eða ca. 56 ferkílómetrar. Náði Almenningur niður að alfaraveginum. Stiftamtmaður heimilaði Hraunabæjunum einum afnot af Almenningi árið 1848, en það segir í raun lítið um eignarréttinn á svæðinu.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var norðvestur eftir Gjáselsstíg þangað til hann sameinast Straumsselsstíg skammt þar frá er sá síðarnefndi beygir inn í hraunið, áleiðis að Straumseli. Þar skammt sunnar eru tvö fjárskjól, Kápuskjól og Kápuhellir.
Þaðan var haldið til norðurs um austanverðar Flár með stefnu á Kolbeinshæð. Í því er fjárskjól, Kolbeinshæðaskjól, hlaðið fyrir slútandi hraunskúta mót austri. Vel gróið er í kringum skjólið og óvíða eru stærri krækibær að finna á Reykjanesinu.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Frá Kolbeinshæðaskjóli eru vörður til norðurs, að Gerðastíg undir vesturkanti Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Þar undir háum kletti eru Efri-hellar (hellrar), fjárskjól undir hraunþaki. Hlaðið er fyrir munnann og einnig skammt austan hans. Skjólið er fremur lágt, enda hefur safnast talsverð mold í gólfið. Nýjahraun er talið hafa runnið um 1151 (um svipað leyti og Ögmundarhraun). Síðar var það nefnt kapelluhraun eftir kapellunni í hrauninu, en hún kemur við sögu eftirleiks dráps Jóns Arasonar, biskups (1550). Kristján Eldjárn gróf í kapelluna ásamt fleirum um 1952 og fann þar marga gripi. Þegar álverið var byggð í upphafi sjöunda áratugs 20. aldar var kapellan eyðilögð, en ný hlaðin í hennar stað á hraunhól við leifar Alfaraleiðarinnar. Vel færi því á því að nefna hraunið aftur Nýjahraun.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Skammt norðvestan Efri-Hella, sem sumir telja að hafi verið nefnda Efri-Hellrar eftir hellunni ofan við fjárskjólið, er Vorréttin (Rauðamelsréttin), heilleg og fallega hlaðin utan í hraunkantinum. Ofan við hana er nú æfingasvæði Skotfélags Hafnarfjarðar. Þegar stígnum er fylgt áleiðis að Gerði ofan Fagurgerðis er m.a. komið að Neðri-Hellum (skammt sunnan við stíginn). Þar er einnig fjárskjól í skúta og hlaðið fyrir. Norðan hans er hlaðið ferkantað gerði utan í hraunkantinum. Vestan við Neðri-Hella er talsvert af fornum, nú jarðlægum, minjum. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur merkt hluta þeirra. Flestar þeirra eru norðan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel, sem nú hefur verið grafinn í sundur með stórvirkum vinnuvélum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Haldið var áfram og stígnum fylgt í gegnum Selhraunið að Þorbjarnarstaðaréttinni eða -stekknum, norðan undir háum hraunhól. Réttin er enn heilleg og hefur verið fallega hlaðinn. Inni í henni er heilleg lambakróg. Hún ber því merki fyrrum heimastekks sem þróast hefur í fjárrétt. Vestar er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða (eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum). Skammt norðar er bæjarstæðið. Hægra megin við suður frá bænum er há varða á hraunhrygg; Hádegisvarðan.

Gránuskúti

Í Gránuskúta við Gjásel.

Hraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi.

Straumur

Straumur 1935.

Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.
Íbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt Innnesjamenn.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Mosastígur, Brunnstígur, Jónsbúðarstígur, Lónakotsgata, Réttarstígur og Péturskotsstígur.
Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaði í kringum árið 1200. Þar er getið um hálfkirkju og grafreit.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Við helstu götur og við sum selin eru náttúrulegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.

Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.

Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk.

Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00).

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Heimildir m.a. af:
http://www.simnet.is/utivera/text/saga.htm

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.