Hvatshellir

Eins fram kemur HÉR varð nokkur þræta um Hvatshelli eftir að honum var lýst nýfundum í sept. 1906. Slíkar þrætur koma jafnan í kjölfar óvæntra uppgötvana. Þær eru þó ekki alltaf á rökum reistar. Hér er eitt ágætt dæmi um viðbrögð við fundi Hvatshellis er birtist í Þjóðólfi 28. sept. 1906 og bar yfirskriftina “Ketshellir”:
Hvatshellir“Hellir í Garðahrauni, er félagar úr göngumannafélaginu “Hvat” komu í hér í sumar, hefur orðið að blaðamáli. Kölluðust félagar þessir hafa fundið hér nýjan helli og skírðu hann “Hvatshelli”. Síðan hefur “Reykjavíkin” skýrt frá því eptir kunnugum manni, að hellir þessi hafi verið kunnur nú í manna minni, hafi verið haldinn landamerki milli Garða og Setbergs og verið kallaður Kershellir. Þar við bætir og ritstjóri “Reykjavíkur” því, að hann hafi þekkt þennan helli fram undir mannsaldur. En hér mun vera óhætt að bæta því við, að hellir þessi hefur að vísu um 350 árin síðustu verið haldinn landamerki milli Setbergs og Garða. Er til enn vitnisburður um landamerki frá 2. janúar 1625, útgefinn af Þorvaldi Jónssyni og samþykktur og staðfestur af Magnúsi Þórarinssyni og Sveini Ögmundarsyni. Segir Þorvaldur þar svo frá; “að minn faðir Jón Jónsson bjó 15 ár á þráttnefndri jörðu (Setbergi); byggði þá mínum föður jörðina Setberg þann sálugi mann Ormur bóndi Jónsson, hver eð sat í Reykjavík og tilgreindi bóndinn Ormur þessi takmörk; úr miðjum Flóðum, upp miðjan Flóðhálsinn; sjóndeilding úr miðjum fyrsögðum hálsi og í hvíta steininn, sem stendur í Tjarnholtum og þaðan sjóndeilding í Ketshellir. Úr Ketshellir og í mitt hraunið og þaðan úr miðju hrauni og ofan í Gráhellu. Úr Gráhellu og ofan í Lækjarbotna. Innan þessara takmarka bauð og bífalaði bóndinn Ormur mínum föður og allt að yrkja og sér í nyt að færa og aldrei hefi eg þar nokkra efan heyrt. Og var eg á fyrrsagðri jörðu í minni ómagavist hjá föður mínum í þau 15 ár hann þar bjó; en eg hefi nú áttatíu vetur og einn, er þessi vitnisburður var útgefinn, eptir hverjum eg má sverja með góðri samvizku”.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Af þessu mætti það verða augljóst, að þessu nýfundi “Hvatshellir” hefur verið mönnum kunnur í mörg hundruð ár, og heitir nafni Ketshellir.
“Hvatsmenn” eru í sjálfu sér ekki syndugri menn en aðrir í Galelía, þó að þá hafi hent þessi hellaglöp. En af þessari hendingu væri jafngott, að menn dragi sér þá kenning að vera ekki of veiðibráðir að nema lönd í heimahögum annara, þar sem þeir eru ókunnugir, en spyrja sig heldur fyrir hjá smalapiltinum, áður en þeir fara að skíra landnámin. Að hlaupa í það umsvifalaust að búa til örnefni, þótt menn af ókunnuguleika viti ekki að það væri til áður, getur orðið til mikils ills og komið til leiðar skæðasta glundroða, buldri og þrefi, þar sem svo stendur á eins og hér, að það hittir á æfagömul landamerki.”

Í Ketshelli

Svo mörg voru þau orð. En skoðum þetta svolítið  nánar. Séra Friðrik var ekki að lýsa Ketshelli. Hann var að lýsa innkomunni í Kershelli og síðan nýfundnum afhelli hans; Hvatshelli, sem er ekki á landamerkjum heldur skammt ofar (norðaustar) í Smyrlabúðahrauni. Ketshellir er hins vegar á landamerkjum, einnig nefndur Selhellir og Setbergsselshellir/Hamarskotsfjárhellir. Landamerkjavarða stendur ofan á hellisþakinu þar sem fyrirhleðsla er undir í hellinum. Þar voru mörk Garðalands (Setbergs) og Hamarskots. Syðri endi hellisins hýsti hluta selstöðu frá Hamarskoti. Í fyrrnefndri lýsingu frá 1625 er getið um að landamerkin liggi um Ketshelli, sem er rétt. Hann kemur bara Kershelli og Hvatshelli ekkert við svo framangreind viðbrögð voru því algerlega óþörf.

Setbergssel

Markavarðan í Setbergsseli.

Kershellir var einnig þekktur og töldu ýmsir er þekktu til að Hvatsmenn hafi verið að lýsa honum þegar þeir töldu sig hafa fundið nýjan óþekktan helli er þeir skírðu Hvatshelli. Það voru þeir hins vegar ekki að gera þó svo að Hvatshellir sé í raun hluti sömu rásar og Kershellir. Þeir voru því ekki að umbreyta örnefni heldur búa til nýtt á áður óþekktu. Sumir gagnrýnenda voru í raun að afhjúpa ókunnugleik sinn á þessum stað því ekki er að sjá að þeir hafi sjálfir farið á vettvang, borið saman heimildir og metið aðstæður.
Hafa ber í huga að fáir hraunhellar voru þekktir á þessum tíma hér á landi, enda erfitt að skoða þá með þeim búnaði er þá var til staðar.

Heimild:
-Jón Þorkelsson – Þjóðólfur 28. sept. 1906.

Ketshellir

Landamerkjavarða á Ketshelli.