Hleinar

Á upplýsingaskilti við Hleina má lesa eftirfarandi:

Hleinar

Friðlýsingarsvæðið á Hleinum.

“Hleinar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 2009. markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri, svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar.

Fólkvangurinn er í Hafnarfjarðarhrauni sem rann fyrir um 8.000 árum úr Búrfellsgíg sem er norðan Valhnúka og helgafells. Hraunið er útbreitt í Hafnarfirði og Garðbæ og kallast mörgum nöfnum, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, garðahraun og Gálgahraun. Einu nafni kallast það Búrfellshraun. Fólkvangurinn er 32.3 hektarar að stærð og er hluti af friðlýsingu búsvæða fugla við Álftanes og Skerjafjörð í samræmi við náttúrverndaráætlun 2004-2008.

Hleinar

Brúsastaðir og Fagrihvammur á Hleinum.

Í auglýsingu fyrir stofnun fólkvangsins á Hleinum kemur m.a. fram að almenningi er heimil för um fólkvanginn, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í fólkvanginum án fylgdar og tryggar stjórnar. Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimil í fólkvanginum. (Akstur utan vega er bannaður samkvæmt náttúrverndarlögum.)

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf í fólkvanginum. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í fólkvanginum. Veiðar á dýrum sem valda tjóri eru heimilar í fólkvanginum en þó aðeins í samræmi við lög 64/1994. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjum á hinu friðlýsta svæði.

Langeyrarmalir

Fiskútbreiðsla á Langeyrarmölum.

Upp úr aldamótunum 1900 var fyrsta fiskgeymsluhúsið reist á Langeyrarmölum og var það útgerðar- og kaupmaðurinn August Flygenring sem stóð fyrir því. Á mölunum var fiskvinnsla Augusts og var þar verkaður fiskur sem veiddur hafði verið á skútum hans. Allur fiskur var þá þveginn úti, framan í hámalarkambinum. Þvottakerin voru sundursagaðar stórar ámur og stóð ein stúlka við hvert ker. Þvegið var úr sjó, sem ýmist var borinn í vatnsfötum eða tunnum sem bornar voru á handbörum. Allur fiskur var talinn að eða frá stúlkunum, þar sem fiskurinn var þveginn í ákvæðisvinnu. Á langeyrarmölum var aðalfiskbreiðslusvæðið malarkamburinn meðfram sjónum, breitt var á sjávarmölina frá Sjónarhóli bæjarmegin og út á Rauðsnef, og áfram úr á litlu Langeyrarmalir út undir Brúsastaði að vestanverðu, ef með þyrfti. Auk þessa rak August mikla lifrabræðslu á mölunum og sjást minjar um hana enn við Herfjólfsgötu.

Langeyri

Örnefni við Hleina.

Lengi vel var ekki vegasamband á milli Langeyrar og Hafnarfjarðar og engin bryggja var á mölunum. Bátar og skip sem komu með fisk eða annan varning til löndunar lágu þá skammt frá landi og var fiskurinn fluttur í land á sérstökum löndunarbátum sem voru bæði breiðir og grunnristir. Í fjörunni var komið upp færanlegum bryggjum sem voru geymdar uppi á malarkambinum þegar þær voru ekki í notkun. Bryggjurnar voru þannig útbúnar að undir þeim voru járnslegnir staurar til að auðveldara væri að renna þeim í mölinni en sex til átta menn þurfti til að ýta þeim niður fjöruna og fram ís jó. Neðri endi bryggjunnar var hærri til að bryggjugólfið væri lárétt í hallanum í fjörunni. Ef löndun tók langan tíma þurfti oft að færa bryggjurnar til eftir sjávarföllum þar sem þær flutu ekki heldur hvíldu á botninum.”

Hleinar

Upplýsingaskilti á Hleinum.