Þorbjarnastaðir

Við skoðun á örnefnalýsingum fyrir Þorbjarnarstaði kom í ljós áður óráðin misræmi, m.a. varðandi Grúnuskúta (Gránuhelli) og Kápuhelli. Í annarri lýsingunni (GS) eru þessi skjól sögð vera við heimatún Þorbjarnastaða, en staðsetning þeirra ekki tilgreind nánar.

Þorbjarnarstaðarétt

Í hinni er Gránuskúti sagður “sunnan við Fornarsel”, en í lýsingunni er Gjásel nefnt Fornasel og öfugt. Þá er Kápuhellir sagður vera “í brúninni á” Laufhöfðahrauni. Þótt báðir staðirnir séu í landi Þorbjarnarstaða munar hér verulegum vegarlengdum. Hingað til hefur ekki verið vitað um skjól við [Fornasel], en Kápuhellir við Jónshöfða í vesturjarðri Laufhöfðahrauns er þekktur. FERLIR hefur skoðað hann áður. Eftir allnokkra leit að hugsanlegum Gránuskúta við Þorbjarnarstaði fékk FERLIR ávísun á fallegan helli sunnan Þorbjarnastaða, austan undir Miðmundarhæð. Var hann tilgreindur sem Gránuskjól. Hleðslur eru fyrir munnanum og gólfið flórað.
Nú var tilefnið m.a. að kanna með hugsanlegt skjól við [Fornasel].
Gengið var að þorbjarnarstaðaréttinni undir Sölvhól norðan Þorbjarnarstaða, að brunni bæjarins, inn á Alfaraleið og henni fylgt að mótum Gerðisstígs (Hólaskarðsstíg). Þeim stíg var fylgt upp hraunið að Neðri-hellum, framhjá vörðuðum skúta í Selhrauni, að vorréttinni undir Brunabrúninni, upp að Efri-hellum og þaðan gengið eftir Kolbeinshæðarstíg upp að Kolbeinshæðarskjóli. Stígnum var fylgt suður yfir Kolbeinshæðir og upp að Laufhöfðavörðu og áfram að Gjáseli [Fornaseli] þar sem m.a. ætlunin var að skoða svæðið af nákvæmni með hliðsjón af upplýsingum í örnefnaskrá. Þarna kynni Gránuskúti að leynast einhvers staðar, en svæðið er nú vel kjarri vaxið.
Brunnur Þá var stefnan tekin niður að Kápuhelli við vesturbrún Laufhöfðahrauns, Straumsselsstíg fylgt niður að áður vísiteruðum Gránuskúta austan undir Miðmundarhæð og síðan að Stekknum (réttinni) sunnan Þorbjarnastaða. Lokaáfanginn var Alfaraleiðin til austurs, að Brunabrúninni sunnan Gerðis.
Í þessari ferð var aðalheimildin örnefnalýsing, upphaflega skráð af Gísla Sigurðssyni, örnefni eftir Ástvald Þorkelsson frá Þorbjarnarstöðum, Gísla Guðjónsson frá Hlíð, Magnúsi Guðjónsson frá Stóra-Lambhaga og Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti. Einnig var stuðst við gömul landamerkjabréf.
3. júní 1978 fóru sr. Bjarni Sigurðsson og Haukur bróðir hans á vettvang ásamt hinum þremur öldruðum mönnum. Þeir fimmmenningar gerðu ýmsar athugasemdir við lýsingu Gísla. Flestar þeirra skráði sr. Bjarni jafnóðum, en fáeinar ritaði Sigríður Jóhannsdóttir eftir sr. Bjarna 5. júní 1978. Loks gerði sr. Bjarni fáeinar athugasemdir í október 1980.
Gísli Guðjónsson er fæddur á Setbergi 1891, kom í Hraunin um 10 ára og var þar til 1917, 8 ár í Gerði og önnur 8 á Óttarsstöðum. Jósef Guðjónsson er fæddur 1899, kom að Óttarsstöðum 2-3 ára og var þar til 1918. Gústaf er fæddur 1906, kom í Eyðikot 1907 og var þar til 1937. Sr. Bjarni og Haukur bróðir hans ólust upp í Straumi frá 1930.
Hér fer á eftir lýsing Gísla Sigurðssonar með þeim leiðréttingum, sem að framan greinir. Landamerkjalýsing er tekin upp úr Landamerkjabók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Í örnefnaslýsingunni kemur fram að meðfram austurtúngarðinum lá Straumsstígurinn. “Norðar, eða við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðaréttin, vel hlaðin rétt af grjóti. Hún stendur norður undir Sölvhól. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.) Eitt örnefni enn er hér nálægt túninu, Mosaflesjur, þar sem mosinn var þurrkaður til eldiviðar.
Neðri Austurtúngarðinum var fylgt niður að brunni Þorbjarnastaða. Hann er í Brunntjörninni norðan við túnin, grunnur, en fallega hlaðinn umhverfis. Ferskt vatn leysir undan hrauninu sunnan við hann. Að brunninum liggur hlaðinn gata eða garður. Af honum var ullin jafnan þvegin í tjörninni.
Norðan tjarnanna má enn sjá Suðurnesjaveginn ofan af Brunanum niður af Hraunhorninu. Af honum lá Gerðisstígur heim að Gerði eða Gerðisbæ, sem stóð í hjalla í Gerðistúni. Stígur lá frá bænum upp á Brunabrún upp í Hraunhornsstíg. Niður undan Hjallanum voru Gerðisbalar, Stóri-Bali nær og Litli-Bali fjær. Norðan Balanna er Gerðistjörn. Í henni var Gerðisvatnsból og vestur frá henni Stakatjörn. Fyrrnefndur stígur, sem lá upp á Brunabrúnina, var kallaður Kirkjustígur. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.
Sunnan Gerðistúns var tjörn, er nefndist Gerðistjörn syðri, en sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.
Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Áður hefur verið getið um mosatekju í Kapelluhrauni.
LandamerkjalínaÞorbjarnastaða að austan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali (þar sem m.a. má sjá nokkur hlaðin skjól) og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól. Var hún 2×2 metrar að ummáli, og sneru dyr í vestur. Kapella þessi var helguð heilagri Barböru, sem var verndari ferðamanna og gegn hvers konar háska af eldsvoða. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.
Þegar farið var vestur yfir Brunann lá leiðin áfram, þar til komið var í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri.”
Vorréttin Vörður þessar eru nú horfnar, sem og meginhluti leiðarinnar um Kapelluhraunið. Einungis má sjá enda leiðanna sitt hvoru megin við brúnirnar, auk nokkurra metra kafla við kapelluna. Öllu öðru hefur verið raskað. Það hefði ekki verið slæmt nú ef götunni hefði verið hlíft við eyðileggingunni og hægt hefði verð að sýna hana áhugasömu fólki um gamlar þjóðleiðir. Þegar staðið er við hana lá leiðin í stefnu á græn hús, sem nú hafa verið byggð í vestanverðu hrauninu og áfram að brúninni. Á henni eru nú þrír steinar þar sem gatan kom niður. Neðan Brunans sést gatan síðan vel þar sem hún liðast vestur yfir hraunið ofan Gerðis og Þorbjarnastaða.
“Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur.”
Gerðisstíg var nú fylgt til suðurs. Hann er vel gróinn og breiður á kafla. “Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur.”
Efri Kerið er ekki stórt en nokkuð djúpt. Nú vaxa í því stórir fallegir burknar. Og enn má sjá hleðsluna, sem Þorkell bóndi, ættaður frá Guðnabæ í Selvogi, hlóð við norðurbrún kersins. Þótt hér sé verið að lýsa aðstæðum og örnefnum við Gerðisstíg er Þorbjarnastaðakerið og Dalirnir nokkuð vestan stígsins.
“Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins. Þegar komið er yfir Seljahraun, blasir við á hægri hönd mikill melur, Rauðimelur eða Þorbjarnarstaðarauðimelur. Rétt fyrir norðan Rauðamel eru Neðri-Hellar eða Litlu-Hellar.”
Við Neðri-Hella eða -Hellra er m.a. fallega hlaðið ferkantað gerði undir Brunabrúninni. Ofar má, ef vel er að gáð, sjá móta fyrir löngum garði, nú mosavöxnum. Hellarnir sjálfir er spölkorn ofar. Hleðslur eru við opin. Mjög gróið er í kringum hellana.
“Rauðimelur var einnig nefndur Rauðhólar. Norðan melsins voru klettaborgir, áberandi vegna gróðurs í kringum þær. Nefndust þær Rauðamelsklettar syðri og Rauðamelsklettar nyrðri eða bara Rauðamelsklettar. Vestur frá þeim tóku við Ennin, lágar brekkur. En Rauðamelsstígur lá vestur norðan við melinn, samkvæmt skrá Gísla Sigurðssonar. Nú man enginn eftir honum, e.t.v. hafa þetta bara verið fjárslóðir. Suður frá melnum var Réttargjá. Gjá þessi var sprunga, sem sneri suður og norður.”
Skammt vestan við Rauðamelskletta er víð hraunsprunga, gróin í botninn. Í henni er heilleg há fyrirhleðsla. Ljóst er að þarna hefur annað hvort verið nátthagi eða gerði. Skammt suðaustan sprungunnar er fallegt, nokkuð stórt skjól með op mót norðvestri. Gamalt vörðubrot er ofan við opið. Ekki er að sjá að þessa skjóls eða “sprunguréttarinnar” sé getið í örnefnalýsingum.
“Skammt suður þaðan í Brunabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum.”
Kolbeins Réttin stendur enn vel heilleg. Á Brunanum, ofan hennar, er nú æfingasvæði Skotfélags Hafnarfjarðar. Réttin hefur þó fengið að vera að mestu óáreitt. Í henni eru tveir dilkar auk almennings.
“Héðan var stígurinn kallaður Efrihellnastígur allt upp að Efrihellum, sem hér voru við brúnina á Brunanum. Þegar hér var komið, nefndist hraunið Brenna, ofan Efrihellna, brunatunga, er lá hér suður. Úti á hrauninu var Brennuhóll, neðst í Brennunni. Guðmundur Bergsveinsson í Eyðikoti sótti kvarnarsteina í Brennuna og bar á bakinu, setti mosa undir bakið.”
Reynt var skyggnast eftir því hvort þarna væru ummerki eftir að kvarnasteinn hefði verið unninn á staðnum, en erfitt er að átta sig á því enda mosavaxið.
Hér á eftir kemur svolítill útúrdúr frá þessari ferð, miðað við gönguáætlunina.
“Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin [Þorbjarnastaðafjárborg] á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir [með krosshlöðnum aðgangi]. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir.”
Gránuskúti Ekki var farið í Hrauntungur, að Þorbjarnastaðafjárborginni eða upp í Brunntorfuhelli að þessu sinni. Um þessa staði er fjallað í öðrum lýsingum á vefsíðunni. Í heimildum er svæðið nefnt Brunatorfur, en þarna við mætast Óbrennishólabruni og Nýibruni (Nýjahraun).
“Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, staðsett á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.”
Hér er Fornasel nefnt Gjásel, en í öðrum heimildum er Gjáselið norðar af þessum tveimur seljum á þessu svæði, en Fornaselið sunnar. Framangreind lýsing passar vel við Fornaselið, enda önnur tilgreind örnefni skammt frá því.
“Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.” En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.”
Framangreint er ágætt dæmi um mismunandi upplýsingar um örnefni. Það sem einn telur sig vita hlýtur að vera hið eina rétta. Sama mun gilda um aðra þá er telja sig hafa aðrar upplýsingar. Staðreyndin er hins vegar að bæði breytast örnefni með tíð og tíma og jafnvel milli manna því ekki taka allir nákvæmlega vel eftir ábendingum eða þeir áætla út frá þeim. Þannig hefur þetta verið og mun verða – líkt og þessi heimildarörnefnalýsing gefur glögga mynd af.
Nú er aftur haldið af stað þar sem frá var horfið við Efri-Hella. Gránuskúti “Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellum er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð [stundum nefnd Kolbeinshæðir], og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekki við, telja þó, að það geti staðizt. Hraunflákinn milli Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun.”
Fyrir Kolbeinshæðarskjóli er falleg fyrirhleðsla. Sjá má enn spýtur sem notaðar voru til að refta yfir skjólið. Vel er gróið í kringum það og óvíða má sjá stærri krækiber en einmitt þarna. Staðurinn er enda einstaklega skjólgóður. Stígurinn sést enn í annars grónu hrauninu. Honum var fylgt áfram suður yfir hæðina, upp að Laufhöfðavörðu á Laufhöfða. Þar var komið inn á stíg, sem er framhald af Straumsselsstíg og liggur upp í Gjásel og Fornasel, sem fyrr var nefndur til sögunnar.
“Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.”
Nú var úr vöndu að ráða. Lýsingin á Fornaseli passaði vel við Gjásel; niðurgrafið vatnsstæði við selið, þrjár vistarverur og rústir eftir kvíar norðan undir hæðinni. En hvað um Gránuskúta?
Gengið var suður fyrir selstöðuna og svæði skoðað mjög vel. Eins og áður var lýst er það nú kjarri vaxið og það torveldaði leitina. Eftir nokkra leit fannst gott skjól innan við kjarr, vandfundið. Ekki var hægt að greina mannvistarleifar í eða við það. Staðsetningin gat hins vegar staðist. Tekinn var gps-punktur – til öryggis.
Kápuskjól Haldið var til norðurs með vestanverðu selstæðinu. Þá – skyndilega – mátti með glöggum augum greina mikla vegghleðslu í kjarri vöxnum bolla vestan undir hæðunum. Í dag myndi það teljast til suðurs. Við nánari athugun kom í ljós hellisop með fyrirhleðslum. Inni var rúmgott skjól. Mosi við opið benti til þess að þarna hefði ekki nokkur lifandi vera stigið niður fæti um langa tíð. Spurningin er hvort þarna kunni Gránuskúti að hafa verið opinberaður, en um hann hefur jafnan verið fjallað í þátíð hingað til, líkt og hann hafi týnst. Þarna er a.m.k. veglegt fjárskjól og það við sel. Ekki er að sjá að því hafi verið lýst annars staðar – hingað til. Segja má með sanni að þarna sé komið enn eitt fjárskjólið á þessu svæði (auk Brunntorfuhellis, Kápuhellis og tveggja hella, sem á eftir að nefna undir Miðmundarhæð).
“Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnarholtsvörðu lá landamerkjalínan. Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður. Gísli Sigurðsson segir, að þær hafi verið nefndar Lýritti, en það hafa heimildarmenn sr. Bjarna ekki heyrt. Héðan lá aftur á móti línan austur og ofan við Brundtorfur og kom þar á Stórhöfðastíg, sem lá svo áfram vestur að Fjallinu eina. Úr Hafurbjarnarholti lá landamerkjalínan niður um hraunið austur af Straumsseli niður um Katla og niður á Fremri-Flár. Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða.”
Leit var gerð að vatnsstæðinu, en það fannst ekki að þessu sinni. Mörg vatnsstæði í hraununum eru enda þurr nú eftir litla snjóa og takmarkaða vætutíð. Þó stendur vatnsstæðið við Fornasel jafnan fyrir sínu.
Stekurinn “Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna.”
FERLIR hafði áður komið að Kápuhelli utan í Jónshöfða, við vesturmörk Laufhöfðahrauns. Að þessu sinni var gengið í gegnum Gráhelluhraunið og beint að hellinum. Best er þó að fylgja stígnum frá Gjáseli til norðvesturs því varða ofan við Kápuhelli vísar á hann. Hellirinn er aðgengilegastur um gróninga frá stígnum. Um er að ræða skúta inn undir hraunhæð í einni af hinum mörgu lægðum á svæðinu. Hann er þó í þeirri austustu og vísar varðan á hann, sem fyrr segir. Fyrirhlesla er við hann. Skammt ofan við hann, undir sömu hæðarbungu, er annað hlaðið skjól, grynnra. Vel gróið er umhverfis lægðina og því ljóst að þarna hefur fé verið haft til nytja.
Nöfnin Grána og Kápa eru fengin frá fé Þorbjarnastaðabóndans, en stundum er talað um grátt og kápótt kyn slíkra skepna.
“Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur [ætti að heita Gjáselsstígur, en mætti þess vegna heita framangreint því hann liggur áfram framhjá því upp í Fornasel] suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið. Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar. Á miðjum Flánum er Fláavarðan.”
Varðan sést enn. Á kafla er Straumsselsstígur grópaður í slétta hraunhelluna.
“Eru nú engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur, sem lá allt til Krýsuvíkur, jafnframt fjallreiðarvegur á kafla.”
Veg þennan má enn sjá í hrauninu. Hún hefur stundum verið nefnd Straumsselsstígurinn vestari því leiðin liggur um Straumssel að vestanverðu.
Gránuskjól “Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).
Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum.”
Þótt fjallað sé um mannvistarleifar í þátíð í lýsingu þessari er ekki þar með sagt að mannvirkin séu horfin, eins og dæmin hafa sýnt. Varðan ofan við Tobbukletta eystri stendur enn. Auk þess má enn sjá fyrirhleslur í klettunum þar fyrir neðan (austan).
“Þaðan er skammt í Seljahraun, en austur frá klettunum eru Ennin áðurnefnd. Landamerkjalínan liggur úr Tobbuvörðu norður í Stekkatúnshæð vestari, þaðan í Tóhól eða Tó rétt vestan við Sölvhól og þaðan í Pétursbyrgi.”
Pétursbyrgi er hlaðið skjól við stíginn, þ.e.a.s. vestari stíginn, sem fyrr er getið, því annar austari liggur um Selhraunið niður að Stekknum.
“En stígurinn liggur frá Seljahrauni vestan Jóhannshóls og milli Stekkatúnshæðar vestari og eystri. Á Stekkatúnshæð eystri var Hádegisvarða [í annarri örnefnalýsingu er hún nefnd Miðmundarvarða og hæðin Miðmundarhæð], stóð hátt og var mikil um sig. Hæðin var því allt að einu nefnd Hádegishæð. Varða þessi var ekki eyktamark frá Þorbjarnarstöðum, heldur sennilega Gerði. Norðan undir hæðinni var Stekkurinn eða Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Þarna var líka Stekksgatan eða Þorbjarnarstaðagatan. Er þá komið heim að túngarði.”
Skömmu áður en komið var að Stekknum var litið við í fyrstnefndu Gránuskjóli. Austari Straumsselsstígurinn kemur niður að Stekknum skammt austan þess. Austan við Stekkinn má enn sjá hleðslu eftir stórt gerði.
Þorbjarnarstaðir Þegar komið var niður fyrir Stekkinn (réttina) var gengið inn á Alfaraleiðina af Þorbjarnastaðagötunni. Alfaraleiðinni var fylgt til austurs (nú tilgreint norður). Gatan liðast um hraunið. Sunnan við Þorbjarnastaði tekur hún vinkillaga hlykk á sig til suðurs, en síðan á ný til austurs. Gatan er vel greinileg inn í gróinn hvamm að Brunabrúninni sunnan Gerðis. Þar hefur Brunanum verið ýtt með jarðýtum út fyrir brúnina svo ekki er hægt að sjá lengur hvar gatan lá um “Vestari Brunaskarð”. Hún endar því við “hina áþreifanlegu eyðileggingarbrún nútímamenningarinnar”. Ofar eru nú þrír steinar til merkis um mörkin.
Framangreind leið er í rauninni einstakt tækifæri og tiltölulega auðveld leið til að kynnast fyrrum búskaparháttum og atvinnusögu svæðisins – á tiltölulega skömmum tíma. Hvar sem stigið er niður eru minjar og saga þeirra birtist auðveldlega ljóslifandi.
Reynslan hefur kennt okkur að það sem eyðilagt er nýtist engum. Einungis með stöðugri meðvitund, viðurkenningu á eigin fortíð og meðvitund um mikilvægi framtíðar verður mikilvægum verðmætum forðað frá glötun. Varðveitt verðmæti nýtast framtíðinni – glötuð verðmæti nýtast engum.
Frábært veður – lyngna og gróðurangan. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Brunnur

Brunnur við Þorbjarnarstaði.