Óttarsstaðaborgin

Í “Fornleifaskráningu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar og breyttar landnotkunar” frá árinu 2020 má lesa eftirfarandi fróðleik um Hvaleyri, Straum, Jónsbúð, Þýskubúð, Óttarsstaði og Þorbjarnarstaði sem og Alfaraleiðina.
FornleifaskráningÁ forsíðu skýrslunnar er mynd; sögð vera af “vörðu (2367-195) og Sjónarhólsvarða (2367-196) er í bakgrunni”. Vörður þessar eru svonefndar “Ingveldar”, líkt og segir í örnefnalýsingum Ara Gíslasonar: “Tvær ævafornar vörður eru neðan Sjónarhóls. Þær heita Ingveldar (43), og neðan þeirra eru hraunhólar, sem heita Tindhólar (44). Þeir eru ofan við Vatnagarðana, sem fyrr voru nefndir.” og Gísla Sigurðssonar: “Rétt norður af Sjónarhól eru tvær vörður, er hétu Ingveldur (120) og stóðu á Ingveldarhæð (121). Ekki er vitað, hvernig á Ingveldarnafninu stendur. Vestur og niður af Ingveldi voru kallaðir Tindhólar (122). Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð (123) og á henni Jakobsvarða (124).”
Athygli forsvarsmanna Byggðasafns Hafnarfjarðar hefur verið vakin á framangreindu.

Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

Hvaleyri er elsta bújörðin í Hafnarfirði og elsta heimildin um jörðina er í Hausbók Landnámu, en Hrafna-Flóki Vilgerðarson á að hafa fundið þar rekinn hval á eyrinni og nefndi þá jörðina Hvaleyri.
Jörðin var í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395 og var leigan til klaustursins 4hndr.
Árið 1448 er getið til um kirkju á Hvaleyri en svo er lítið fjallað um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign. Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.

Hvaleyri

Hvaleyri – kort.

Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870. Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.

Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1942 – braggabyggð.

Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West end. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.

Vesturkot

Vesturkot, gamla klúbbhús Keilismanna, var brennt í árslok 1992.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

Straumur er ein af svonefndum Hraunjörðum, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungs-jarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.
Jarðarinnar er getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar segir: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter diske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Næsta heimild um Straum er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin sé í konungseign og að ábúandi sé Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.
Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel, en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi, og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsagerði er þá eyðihjáleiga á jörðinni, sem hafði verið í eyði eins lengi og menn muna, og var ekki talið líklegt að þar yrði búið aftur, vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það komi niður á hans eigin túni.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 er jörðin í bændaeign, dýrleikinn 12 ½, landskuldin 0.75, kúgildi tvö, einn ábúandi og er hann eigandi jarðarinnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar eru landamerki fyrir jörðina Straum: Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól frá Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krísuvíkurlandi.

Tobbuklettar

Vestari Tobbuklettar.

Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við (Undirritað i Straumi 31. Maí 1890).
Það er ekki mikið af sjáanlegum minjum sjáanlegar við bæjarstæði Straums, en það hefur orðið fyrir raski af seinni tíma framkvæmdum.
Þó er tún- og varnargarðurinn enn sjáanlegur við núverandi húsin á Straumi og hluti bæjarhólsins, en hann hefur verið rofinn af vegi og bílastæðum. Tæplega 200m sunnan við bæjarstæðið á Straumi er að finna Straumsrétt og fjárhús.
Norðan við Straum er að finna tvær þurrabúðir, Þýskubúð og Jónsbúð.

Þýskabúð

Þýskabúð

Tóft við Þýskubúð.

Þýskabúð var hjáleiga frá Straumi og dregur nafn sitt af því að þýskir kaupmenn munu hafa reist kaupbúðir á tanganum við Straumsvík og verslað þar á 14. og 15. öld. Engar minjar um þær búðir sjást þó á svæðinu.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók viðtal við Pál Hannesson, þáverandi eiganda Þýskubúða árið 1993 og þar segir: „Þýskubúð: Síðasti ábúandi Þýskubúðar hét Guðmundur (Björgúlfsson); hann átti allan Straum.

Þýskabúð

Þýskabúð 2022.

Húsið var byggt 1915? (1910?), síðar innréttað og lagfært.
Tjörvi nokkur Guðmundsson bjó í Þýskubúð 1911-1912 [Innskot í texta frá SÁM: Skv. Manntalsvef Þjóðskjalasafns bjó Guðmundur Tjörfi Guðmundsson í Þýskubúð miklu fyrr (m.t. 1890 og 1901; Leigandi í Straumi í mt. 1910). J.H.] Áður en Tjörvi var þarna byggði Björn, kallaður „þýski“ (Þýski Björn) [Þýskubúð]. Þjóðverjar versluðu [þarna] á 14. og 15. öld.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Þær minjar sem sjást á yfirborði við Þýskubúð eru allar seinni tíma og eru í samhengi við steypta húsið sem enn stendur að hluta. Í kringum húsið er að finna ýmis garðlög og matjurtagarða, naust og útihús, sem og gerði og brunn.
Túngarðurinn er frekar illa farinn, en hann hefur einnig virkað sem varnargarður við sjóinn og er hann þar að mestu kaffærður í fjörugrýti.

Jónsbúð

Jónsbúð

Jónsbúð – túnakort 1919.

Jónsbúð er tæpum 200m norðan við Þýskubúð, sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðar, og Markhól. Minjarnar við Jónsbúð eru mjög heillegar, en þær hafa nánast alveg sloppið við seinni tíma rask.
Árið 1999 gerði Fornleifafræðistofan, undir stjórn Bjarna F. Einarssonar, þrjár prufuholur í bæjartóftir Jónsbúðar og voru markmið rannsóknarinnar að freista þess að ná að aldursgreina tóftina og að sjá í hvað hólfin voru notuð. Ekki fundust nægileg gögn til aldursgreingar, en rannsóknin leiddi í ljó að vestur hólfið var fjós og þaðan var gengið inn í baðstofu, en algengt var að nota hita frá skepnum til þess að verma híbýli.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Á túnakorti frá 1919 segir að kálgarðar séu 180m2 og að tún Jónsbúðar séu holótt og slétt, þau séu á klettanefi við sjó, vestur frá Jónsbúð og séu 0,2 teigar.
Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en vert er að minnast á að ekki er alltaf minnst á þurrabúðir jarða þó að enginn vafi sé á að þær hafi verið til staðar.
Í manntali frá 1910 er minnst á Jónsbúð sem þurrabúð í landi Straums, og þar bjó hann Gunnar Jónsson, sjómaður, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau munu hafa flust til Jónsbúðar frá Meðalholti í Flóa 1882.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Í bókinni „Forðum gengin spor“ er tekið viðtal við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði og segir þar: „Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeir komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkar kindur.“
Í skýrslu sinni veltir Bjarni því upp að Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti íbúi Jónsbúðar en að búðin sé greinilega ekki kennd við hann. Hann segir einnig að líklegt sé að búðin hafi borið ýmiss nöfn í gegnum árin, stundum eftir ábúendum og stundum eitthvað annað, en dæmi um það eru vel þekkt. Hann segir einnig að Jónsbúð hafi ekki verið lengi í eyði áður en Jón byggði upp kotið, en algengt var að kot og smábýli hafi verið í eyði í smá tíma á milli íbúa.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Bæjarstæði Jónsbúðar er mjög heillegt, en bæjarrústirnar eru vel greinanlegar og matjurtagarðurinn áfastur þeim.
Rétt framan við bæjarrústirnar er vörslugarður en hann hefur verið til þess að beina búfénaðnum inn í fjósið. Fast NV við bæjarrústina er hjallur og túngarður umhverfis túnið. Útihús er áfast vestur hlið túngarðsins og er mögulega fjárhús, sbr. viðtalið við Jón Magnússon. Það er brunnur í Jónsbúðartjörn norðan við bæjarrústirnar og lághlaðin brú að honum, en vatnsstaða tjarnarinar stjórnast af sjávarföllum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir

Óttarstaðakot – túnakort 1919.

Óttarsstaðir er ein af svonefndum Hraunjörðum, en það voru þær jarðir innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum. Í örnefnaskrá segir að á Óttarsstöðum var tvíbýli. Þau voru nefnd Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaðir eða Austurbær. Bæirnir stóðu á bæjarhól nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn sem byggður var 1890 stendur enn.
Austurbærinn var rifinn fyrir aldamótin 1899-1900, en árið 1885 var byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu en hluti gömlu bæjartóftanna notað fyrir fjós og hlöðu.

Óttarsstaðir

Áttarsstaðir vestri.

Elstu heimildir um Óttarsstaði er Kaupbréf frá 9. september 1447, en þar segir að Einar Þorleifsson hafi keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að jarðardýrleiki jarðarinnar sé óviss og að jörðin sé í eigu konungs. Þar voru kvaðir um mannslán um vertíð, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Þar var hægt að fóðra fimm kýr ef túnið var gott, en ekki ef það hafði verið í órækt og úr sér vaxið eins og það var á þeim tíma sem Jarðabókin var gerð.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Lendingin var í meðallagi og nýtt af ábúenda allt árið í kring. Jörðin átti selstöð í almenningi, en þar voru hagar góðir, en lítið um vatn í þurrka á sumrin.
Töluvert af skráðum minjum falla inná landsvæði Óttarsstaða, en fáar tengjast eiginlegum búskap.
Fjölmargar vörður eru innan landsvæðisins, bæði kenni- og eyktamörk, einnig eru þar stekkir, leiðir og fjárskýli.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir eru ein af jörðunum sem teljast til hinna svokölluðu Hraunjarða, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elstu heimildir sem til eru um Þorbjarnarstaði er frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs, en þá er jörðin í eyði, og í fógetareikningum frá 1547-48, þá er jörðin komin aftur í byggð og þar segir : „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. summa iije tals.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 segir að jarðardýrleikinn sé óviss og jörðin í eigu konungs.
Jörðin var þá með selstöð sem nefnist Gjásel, en þar voru hagar góðir en vatn slæmt. Einnig segir að túnrista og stunga var í lakara lagi og ekki nægileg, en fjörugrastekja sé góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði hafi verið árið í kring og lending góð, en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Byggð hefur verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920, en samkvæmt manntölum bjuggu mest þar 19 manns árið 1703, en minnst bjuggu þar 3 manns 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn bjó þar samkvæmt manntölum.
Árið 1869 flyst Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881 og er segir Valgarður L. Jónson frá störfum Ólafs við umbætur á jörðinni í Íslendingaþáttum Tímans. Ólafur mun hafa grætt upp túnblettina og hlaðið varnargarð umhverfis túnið. Hann mun hafa mulið hraunið með sleggju og breitt mold yfir og fengið þannig hið fínasta tún í kringum bæinn.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru túnin á Þorbjarnarstöðum slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2, en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Ætla má að þær tóftir og garðlög sem sjáanleg eru á Þorbjarnarstöðum í dag séu komin frá honum Ólafi, en búast má við að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar sem tengjast Þorbjarnarstöðum tengjast flestar búskapi á Þorbjarnarstöðum, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kring um bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktamörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Tveir grunnar til viðbótar eru fast sunnan við Reykjanesbrautina.
Norðan við bæjarstæði og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina er að finna þurrabúðina Péturskot.

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raski vegna lagninu Reykjanesbrautarinnar. Um Péturskot segir í Örnefnaskrá „[…] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni“.

Alfaraleið

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Alfaraleiðin var áður skráð af Katrínu Gunnarsdóttur árið 2011 og er meginhluti sögulega yfirlitsins unninn úr þeirri skýrslu.
Alfaraleiðin er elsta kunna samgöngueiðin milli Suðurnesja og Innesja Reykjanesskagans. Um hana fóru allir skreiðar- og vöruflutningar.
Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða um aldir, eða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar.
Gatan sést ekki lengur í Kapelluhrauni því stórvirkar vinnuvélar hafa eytt þeirri merku vegaframkvæmd sem þarna var unnin fyrir margt löngu. Ekki er vitað hvenær gatan í gegnum Nýjahraun var rudd, en það hefur trúlega átt sér stað seint á 12. öld eða snemma á 13. öld.

Alfaraleið

Varða við Alfaraleið.

Nýjahraun rann í miklum eldsumbrotum sem áttu sér stað 1151 úr gígaröð í Undirhlíðum.
Alfaraleiðin liggur áfram í suðvestur yfir hæðir og hóla, ofan í sprungum og yfir slétt svæði í hrauninu. Leiðin var einungis skráð að sveitarfélagsmörkum Hafnarfjarðar og Voga, en hún heldur áfram mun lengra inn í hraunið.
Tuttugu og tvær vörður eru enn við leiðina, þrátt fyrir að þær hafi verið mun fleiri á meðan leiðin var í notkun.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar og breyttar landnotkunar 2020.

Ingvaldar

Brá á Ingveldum 2010.