Hamarskot

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2020 segir frá Suðurbæ:

“Hamarskot

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Elsta heimild um Hamarskot er frá 1565 en það skjal segir frá byggingu jarða Garðakirkju á Álftanesi, þar segir að Hamarskot sé „bygt fyrer iij vætter fiska. Vallarslätt. Med jördunne j kugillde“.
Í annarri heimild frá 1579 segir að jörðin hafi fyrir allöngu verið komin í eign Garðakirkju.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Hamarskot að jarðadýrleiki sé óviss því að jörðin tíundast engum. Jörðin var þá enn í eigu Garðakirkju og ábúandinn var Jón Arason. Landskuldin var lx álnir sem borgaðist með iii vættum fiska. Heimilismenn voru sex og kvikfénaður var tvær kýr og einn kálfur. Hamarskot átti selstöðu nærri Sléttahlíð sem kallaðist Hamarskotsel. Torfrista og stunga lök og lítil, lyngrif var nokkurt og móskurður til eldiviðar var slæmur. Engar engjar fylgdu jörðinni.

Hamarskot

Hamarskot – uppdráttur 1925.

Hamarskot var að einhverju leiti sama jörð og konungsjörðin Akurgerði sem var seld 1804, þá í eyði. Kaupstaðurinn í Hafnarfirði mun hafa byggst í landi Akurgerðis en þar var ekki aflað til heys 1803 vegna þess að verslunarhúsin stóðu í slægjulandinu.
Í jarðatali Johnsens frá 1803 fékk jörðin númerið 172, þar segir að jörðin sé í Garðakirkjueign, landskuldin sé 0,4, kúgildið sé eitt og einn leiguliði. 1854 var jörðin kirkjujörð hjá Görðum og var landskuldin 40 álnir, 1 kúgildi og leigur þar af 20 pd. smjörs.
Til eru úttektir á húsakosti Hamarskots frá 1818, 1822 og 1823. Sigurður Skúlason tók saman úttektina frá 1818 og lýsir húsakostinum svona:

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

„Af húsum eru hér talin: Baðstofa, búr, eldhús, göng milli baðstofu og bæjardyra og fjós.
Baðstofan var í þrem stafgólfum, rúmar 8 álnir á lengd og 3 ½ alin á breidd. Hún var með „tilhlýðilegri grind, 4 sperrum, þar af eitt höggsperra, þremur bitum, syllum, stöfum hvar af 4 eru hálfir og standa á moldarþrepi.“ Baðstofan var léleg, því sagt er, að veggir og þak hennar sé fallið. Fyrir henni var hurð á hjörum.
Búrið var einnig hrörlegt. Það hafði við síðustu úttekt verið í þrem stafgólfum, en skyldi nú stytt um eitt stafgólf. Var áætlað að það mundi gera sig sjálft upp að viðnum, en það væri minnkað þetta mikið. Hefir eftir því að dæma nálega þriðjungurinn af viðnum í búrinu verið ónýtur af fúa. Fyrir framan var standþil og hurð á hjörum.
Eldhúsið var tvö stafgólf á lengd, stæðilegt að viðum og veggjum, en þakið var rotið og moldrunnið.
Bæjargöngin voru 5 faðma löng, þar af 2 faðmar undir grind, hitt með þrem sperrum og bitum, er stóðu á veggjum. Fyrir framan þau var þil með hurð á hjörum. Göngin voru vel upp gerð að viðum og veggjum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902.

Fjós fyrir tvær kýr átti að fylgja jörðinni, en það var fallið að viðum, og stóðu ekki uppi nema veggirnir.17 Fleiri húsa er ekki getið á jörðina 1818.
Húsakosturinn í Hamarskoti hrörnaði mikið á næstu árum og 1823 var t.a.m. búið að stytta baðstofuna um 1 alin og veggirnir í henni allir fallnir að innan.
Sigurður Þorláksson fluttist að Hamarskoti 1897 og lýsti kotinu í bók sinni Gamlar Minningar:
„Hamarskot var torfbær, veggir hlaðnir úr torfi og grjóti og torf þak, timbur stafnar, og 1 gluggi á hvorum. Baðstofan var þrjú stafgólf að stærð eð 9 álnir, með skarsúð og timburgólfi, dyragangur og eldhús þar innanaf með hlóðum, svo var geymsluhús þar við fyrir eldivið annað slíkt. Í baðstofunni voru 5 rúm, svo var þar smá eldavél kamína eins og það var kallað. Fyrir framan suðurgablinn var kálgarður, 150 fermetrar að stærð og var það nægilegt fyrir heimilið, suðvestur af garðinum var brunnur með ágætu neitsluvatni […].“
Samkvæmt manntölum var búið á Hamarskoti fram til ársins 190621 og þegar Magnús Jónsson skrifaði bók sína Bær í byrjun aldar árið 1967 voru „löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð“.
Bærinn mun hafa staðið á svipuðum stað og nú er norðurendi Brekkugötu, en eftir að hann var rifinn stóð um árabil fjós þar sem suðurálma Flensborgarskólans er, en það er líklega húsið sem sést á meðfylgjandi uppdrætti Jóns Víðis af Hafnarfirði frá 1925-26.

Hamarskot

Hamarskot – loftmynd 1954.

Í fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918 var jörðinni og húsakosti lýst svona:
“Gripa og heygeymsluhús. Eigandi: Árni Björnsson prófastur í Görðum.
Stærð á húsinu 6,50 x 4,40m. Hæð 1,50m með risi, bygt úr torfi og grjóti. Þak: járn á langböndum notað til heygeymslu. Gripahúsastærð: 6,50m x 3,80m, hæð 2m. Með vatnshallaþaki bygt úr torfi og grjóti, einn veggur og þak úr timbri járnvarið.
Virðing: 1. Heygeymsluhús og gripahús Kr. 700,00. Samtals Kr. 700,00.
Hamarskotstún. Eigandi: Kirkjujarðarsjóður leigir eignina afgjaldið gengur til Sóknarprestsins á Görðum. Stærð lóðarinnar er e.9 dagsláttur. Öll girt með grjótgarði og við á stólpanum. Ræktuð í tún og notuð til matjurta. Gefur af sér í meðal ári 70 töðu og 8 af jarðávexti.“
Ekki er til túnakort af Hamarskoti.
Það voru 14 minjar skráðar á landi Hamarskots en þar af tengjast þrjár eiginlegum búskapi að Hamarkskoti, það eru útihús (2541-8), (2541-12) og (2541-13). Líklega eru þetta sömu tóftir og minnst var á í handritinu Hús og bæir í Hafnarfirði en þar var sagt að „tættur voru ofarlega í túninu og hygg ég að þær hafi verið útihús, en engin gripahús voru uppistandandi þegar við komum í kotið.“

Hamarinn

Hamarinn.

Einnig er á Hamarskotshamri ummerki eftir grjótnámu en grjótið úr honum var nýtt í kjallara og undirhleðslur eldri húsa í bænum og við hafnarframkvæmdir. Einn þeirra sem unnu við það að kljúfa grjót úr Hamrinum var Jón Jónsson, faðir Emils Jónssonar fyrrum alþingismanns og ráðherra, og segir í minningargrein um Emil að „Lyftitæki voru engin, en Jón var „þrautseigur við grjótverkið og vann að því myrkranna á milli““.

Hafnarfjörður

Hamarinn.

Hamarskotshamar í Hafnarfirði var friðlýstur árið 1984 sem náttúruvætti og í friðlýsingunni segir að „Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd.
Hverskonar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema komi til séstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd Ríkisins], að planta þar trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.“
Þær minjar sem er að finna á Hamrinum njóta því verndar samkvæmt friðlýsingunni, en eru þó ekki friðlýstar sjálfar.

Dvergasteinn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.

Þrjár þjóðsögur voru skráðar á landi Hamarskots, þær eru draugur, dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju og álfasögur við Hamarskotshamar. Sagan um drauginn hljómar svona: „Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan.“
Kirkjugarður Hafnarfjarðar er nú á því svæði sem nefnist Öldurnar. Dvergasteinninn við Hafnarfjarðarkirkju fékk að vera í friði þegar kirkjan var reist árið 1914, enda boðaði það mikla ógæfa að skemma hann.
Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum.
Reykdalsstífla eða Hörðuvallastífla, var tekin í notkun árið 1906 og var í eigu Jóhannesar Reykdals. Hann reisti fyrstu almenningsrafveitu Íslands árið 1904 og var rafstöðin við Austurgötu í Hafnarfirði. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að reisa Reykdalsstíflu og nýja rafstöð skammt frá. Vegna slyss sem varð við stífluna árið 2014 var lónið við stífluna tæmt og gerðar nokkrar breytingar á yfirfalli stíflunnar til að koma í veg fyrir að atvikið gæti endurtekið sig.

Jófríðarstaðir / Ófriðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðor á fyrri hluta 20. aldar.

Nafn jarðarinnar Jófríðarstaða hefur orðið fyrir afbökun en jörðin hét áður Ófriðarstaðir og kom nafnið Jófríðarstaðir fyrst fram í prestakallsbók Garðakirkju árið 1869. Breytingin hefur annaðhvort verið leiðréttingartilraun eða að mönnum hafi þótt Ófriðarstaðanafnið óviðfelldið, sbr. máltækið „að vera á Ófriðarstöðum“. Ein útskýringin er að þjóðsaga myndaðist um að á bænum hafi búið kona sem hét Ófríður en nafninu breytt í Jófríðarstaði.

Jófríðastaðir

Jófríðastaðir – loftmynd 1954.

Mögulega hefur nafnið verið kennt við einhvern ófrið en eina heimildin um orrustu sem á að hafa átt sér þarna stað fyrr á öldum er að finna í ritgerð Jóns Guðmundssonar lærða „Um ættir og slekti“ sem hann skrifaði 1688. Þar segir að forfaðir Jóns, Magnús Auðunarson ríki, hafi fallið á Ófriðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna“. Það á að hafa verið nokkru eftir miðja 15. öld.33 Sigurður Skúlason skýrir nafnið svona: „Mér þykir einna sennilegast, að nafnið Ófriðarstaðir tákni stað, þar sem allra veðra er von, sbr. bæjarnafnið Alviðra. Húsin á Ófriðarstöðum standa hátt; þar er vart skjól í nokkurri átt. Þetta er því tilfinningarlegra, þar sem veðursældin í Hafnarfirði er við brugðið, og oft er lyngt niðri við fjörðinn, þótt hvasst sé uppi á Ófriðarstöðum“.

Fyrsta heimildin um Ófriðarstaði er frá 1541, en þá nefnir Gizur biskup Einarsson nafn jarðarinnar í ráðsmannabréfi handa síra Oddi Halldórssyni. Svo var minnst á jörðina 1563 en þá höfðu Páll Stígsson höfuðsmaður fyrir hönd Danakonungs og Gísli Jónsson biskups vegna Skálholtskirkju makaskipti á nokkrum jörðum og konungur eignaðist Ófriðarstaði ásamt öðrum jörðum í Gullbringusýslu. Jörðin var þá metin á 10 hdnr.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Jarðeignir konungs voru svo skráðar í jarðabók frá tímabilinu 1583-1616, en þar segir að landskuld af Ófriðarstöðum sé fjórar vættir af fiski og þrjú leigukúgildi fylgi jörðinni. Árið 1639 var jörðin metin hálfu þriðja hundrað hærra en árið 1583, eða 12 ½ hdnr., og landskuld hennar var þá 150 fiskar, en það var 10 fiskum minna en landskuldin var talin í jarðabókinni frá 1583-1616. Jörðin hefur þá verið metin hærra en kúgildistalan var sú sama. Árið 1693 var dýrleiki jarðarinnar 12 ½ hdnr. en leigukúgildin ekki nema tvö því eitt þeirra hafði verið flutt að Straumi og landskuldin var 150 fiskar. Þremur árum síðar var allt við það sama.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – kort 1908.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir um Ófriðarstaði að jarðadýrleiki sé óviss og að jörðin hafi verið í eigu konungs. Leigukúgildin voru ennþá tvö og landskuldin var lxxv álnir. Hún greiddist með iii vættum og vi fjórðungum fiska í kaupstað, en áður heim til Bessastaða. Kvikfénaður var þrjár kýr, einn kálfur, níu ær, fimm sauðir veturgamlir, átta lömb og tvö hross. Heimilismenn voru níu. Jörðin átti selstöðu í heimalandi, þar voru hagar sæmilegir, en vatnsskortur mikill, og til forna mun bóndinn hafa neyðst til þess að færa selið að eða í Ásland, og fyrir það halda sumir að Áss hafi fengið skipastöðu í landi Ófriðarstaða. Þá var heimræði allan ársins hring og lendingin góð, skip ábúendans gengu eftir hentugleikum.
Árið 1804 keypti Bjarni Sívertsen jörðina og var hún þá 9 hdnr. og 36 álnir39 og í Jarðatali Johnsen frá 1847 fékk jörðin númerið 170 og er 12 ⅓ hdnr., landskuldin 0.75, kúgildi tvö og einn eigandi.
Búlandi Jófríðarstaða var skipt í hálflendur 1885, Jófríðarstaði I og II, og var jörðunum og húsakostinum lýst í Fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918:
Eigandi: Elín Jónsdóttir ekkja notar eignina sjálf. Eignirnar:
1. Íbúðarhús stærð 6,80 x 6,50m hæð 2,6m með risi. Byggt úr timbri og járnvarið. Því er skipt í: 3 herbergi og eldhús, þiljað panel.
Inngönguskúr stærð 1,60 x 2,65 hæð 3m með vatnshallaþaki byggður úr sama efni og húsið.
2. Útihús: Heyhlaða er tekur e. 180 hesta af töðu. Bás fyrir 2 nautgripi. Fjárhús fyrir er 140 fjár og hesthús fyrir 3 hross. Byggður úr torfi og grjóti þök úr timbri og járnvarið að mestu.
3. Jörðin (hálflendan) 4,8 ½ H: Túnið í allgóðri rækt gefur af sér 70 hesta af töðu. Girt með grjóti og við, matjurtagarðar gefa af sér 6 tunnur. Tekjur af byggingarlóðum er 200kr á ári.
Virðing:
1. Íbúðarhús m/viðbygg. Kr. 3500,00
2. Útihúsin Kr. 900,00
3. Jörðin Kr. 12000.00
Samtals Kr. 16400.00

Jófríðarstaðir

Jófriðarstaðir – Þóruklöpp.

Ekki er til túnakort af Jófríðarstöðum.
Kaþólska trúboðið í Hafnarfirði eignaðist svo jörðina 1924.
JófríðastaðirÍ örnefnalýsingu er bæjarstæði Ófriðarstaða lýst:
„Ófriðarstaðabær stóð í svolitlum slakka austur af Ófriðarstaðahól. Vestan bæjarins stóð Ófriðarstaðahúsið, eftir að það var reist, og tvíbýlt varð á jörðinni 1885. Ófriðarstaðatún var
allstórt, umgirt Ófriðarstaðatúngörðum. Austurtúngarður lá suðaustan og austan að túninu, norðurtúngarður bak við bæinn og vestur fyrir hól, en vesturtúngarður ofan frá hól niður að Ófriðarstaðalæk, sem rann niður með öllu Suðurtúninu. Á Ófriðarstaðahól var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum í kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist
Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki, því traðagarðana sér enn. […] Utan austurtúngarðs var ræktun, nefndist Nýjatún. Sagnir voru uppi um, að þar hafi verið kofi, sem Skáld-Rósa átti að hafa búið í, nefndist Rósukofi. Frá bæ norður lágu Norðurtraðir í norðurtraðahlið. Ásgatan lá frá traðarhliðinu suður með austurgarði að Ási, en frá hliðinu lá Ófriðarstaðastígur niður í kaupstaðinn.“

Þórukot

Þórukot (Klapparholt) og lóð, sem gefin var st. Jósepssystrum.

Tvær þjóðsögur voru skráðar á landi Ófriðarstaða og tengist önnur þeirra Þóruklöpp við Þórukot, sem stóð í nokkurnvegin þar sem leikskóli stendur í dag, sem dregur nafn sitt af síðasta ábúanda kotsins. Sagan segir að hún hafi selt St. Jósefssystrum jörðina undir spítalann með því skilyrði að ekki yrði hróflað við klöppinni sem er í bakgarði spítalans. Þóra mun hafa sagt við nunnurnar að „í klöppinni byggi álfkona sem hafði verið góður nágranni alla tíð“ og hafa nunnurnar virt þessa ósk hennar þar sem mannvirkin voru reist allt í kring um klöppina án þess að hróflað væri við henni. Túngarður tengist einnig Þórukoti og sést á uppdrætti af St. Jósefsspítala frá 1926.

Hin þjóðsagan tengist Jófríðarstaðahól, en hún segir frá manni sem klauf stein á hólnum til þess að nýta í kjallara á húsi sem hann byggði á árunum 1912-14. Þetta mun hann hafa gert þrátt fyrir að hafa heyrt sögur af álfabústaði í hólnum. Eftir þetta elti ógæfa manninn og á dóttir hans að hafa látist skömmu síðar.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III, Suðurbær, 2020; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-III-Sudurbaer-2020.pdf (byggdasafnid.is)

Beitarhúsaháls

Beitarhús við fyrrum selstöðu Jófríðarstaða í Beitarhúsahálsi.