Færslur

Hamarskot

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2020 segir frá Suðurbæ:

“Hamarskot

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Elsta heimild um Hamarskot er frá 1565 en það skjal segir frá byggingu jarða Garðakirkju á Álftanesi, þar segir að Hamarskot sé „bygt fyrer iij vætter fiska. Vallarslätt. Med jördunne j kugillde“.
Í annarri heimild frá 1579 segir að jörðin hafi fyrir allöngu verið komin í eign Garðakirkju.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Hamarskot að jarðadýrleiki sé óviss því að jörðin tíundast engum. Jörðin var þá enn í eigu Garðakirkju og ábúandinn var Jón Arason. Landskuldin var lx álnir sem borgaðist með iii vættum fiska. Heimilismenn voru sex og kvikfénaður var tvær kýr og einn kálfur. Hamarskot átti selstöðu nærri Sléttahlíð sem kallaðist Hamarskotsel. Torfrista og stunga lök og lítil, lyngrif var nokkurt og móskurður til eldiviðar var slæmur. Engar engjar fylgdu jörðinni.

Hamarskot

Hamarskot – uppdráttur 1925.

Hamarskot var að einhverju leiti sama jörð og konungsjörðin Akurgerði sem var seld 1804, þá í eyði. Kaupstaðurinn í Hafnarfirði mun hafa byggst í landi Akurgerðis en þar var ekki aflað til heys 1803 vegna þess að verslunarhúsin stóðu í slægjulandinu.
Í jarðatali Johnsens frá 1803 fékk jörðin númerið 172, þar segir að jörðin sé í Garðakirkjueign, landskuldin sé 0,4, kúgildið sé eitt og einn leiguliði. 1854 var jörðin kirkjujörð hjá Görðum og var landskuldin 40 álnir, 1 kúgildi og leigur þar af 20 pd. smjörs.
Til eru úttektir á húsakosti Hamarskots frá 1818, 1822 og 1823. Sigurður Skúlason tók saman úttektina frá 1818 og lýsir húsakostinum svona:

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

„Af húsum eru hér talin: Baðstofa, búr, eldhús, göng milli baðstofu og bæjardyra og fjós.
Baðstofan var í þrem stafgólfum, rúmar 8 álnir á lengd og 3 ½ alin á breidd. Hún var með „tilhlýðilegri grind, 4 sperrum, þar af eitt höggsperra, þremur bitum, syllum, stöfum hvar af 4 eru hálfir og standa á moldarþrepi.“ Baðstofan var léleg, því sagt er, að veggir og þak hennar sé fallið. Fyrir henni var hurð á hjörum.
Búrið var einnig hrörlegt. Það hafði við síðustu úttekt verið í þrem stafgólfum, en skyldi nú stytt um eitt stafgólf. Var áætlað að það mundi gera sig sjálft upp að viðnum, en það væri minnkað þetta mikið. Hefir eftir því að dæma nálega þriðjungurinn af viðnum í búrinu verið ónýtur af fúa. Fyrir framan var standþil og hurð á hjörum.
Eldhúsið var tvö stafgólf á lengd, stæðilegt að viðum og veggjum, en þakið var rotið og moldrunnið.
Bæjargöngin voru 5 faðma löng, þar af 2 faðmar undir grind, hitt með þrem sperrum og bitum, er stóðu á veggjum. Fyrir framan þau var þil með hurð á hjörum. Göngin voru vel upp gerð að viðum og veggjum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902.

Fjós fyrir tvær kýr átti að fylgja jörðinni, en það var fallið að viðum, og stóðu ekki uppi nema veggirnir.17 Fleiri húsa er ekki getið á jörðina 1818.
Húsakosturinn í Hamarskoti hrörnaði mikið á næstu árum og 1823 var t.a.m. búið að stytta baðstofuna um 1 alin og veggirnir í henni allir fallnir að innan.
Sigurður Þorláksson fluttist að Hamarskoti 1897 og lýsti kotinu í bók sinni Gamlar Minningar:
„Hamarskot var torfbær, veggir hlaðnir úr torfi og grjóti og torf þak, timbur stafnar, og 1 gluggi á hvorum. Baðstofan var þrjú stafgólf að stærð eð 9 álnir, með skarsúð og timburgólfi, dyragangur og eldhús þar innanaf með hlóðum, svo var geymsluhús þar við fyrir eldivið annað slíkt. Í baðstofunni voru 5 rúm, svo var þar smá eldavél kamína eins og það var kallað. Fyrir framan suðurgablinn var kálgarður, 150 fermetrar að stærð og var það nægilegt fyrir heimilið, suðvestur af garðinum var brunnur með ágætu neitsluvatni […].“
Samkvæmt manntölum var búið á Hamarskoti fram til ársins 190621 og þegar Magnús Jónsson skrifaði bók sína Bær í byrjun aldar árið 1967 voru „löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð“.
Bærinn mun hafa staðið á svipuðum stað og nú er norðurendi Brekkugötu, en eftir að hann var rifinn stóð um árabil fjós þar sem suðurálma Flensborgarskólans er, en það er líklega húsið sem sést á meðfylgjandi uppdrætti Jóns Víðis af Hafnarfirði frá 1925-26.

Hamarskot

Hamarskot – loftmynd 1954.

Í fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918 var jörðinni og húsakosti lýst svona:
“Gripa og heygeymsluhús. Eigandi: Árni Björnsson prófastur í Görðum.
Stærð á húsinu 6,50 x 4,40m. Hæð 1,50m með risi, bygt úr torfi og grjóti. Þak: járn á langböndum notað til heygeymslu. Gripahúsastærð: 6,50m x 3,80m, hæð 2m. Með vatnshallaþaki bygt úr torfi og grjóti, einn veggur og þak úr timbri járnvarið.
Virðing: 1. Heygeymsluhús og gripahús Kr. 700,00. Samtals Kr. 700,00.
Hamarskotstún. Eigandi: Kirkjujarðarsjóður leigir eignina afgjaldið gengur til Sóknarprestsins á Görðum. Stærð lóðarinnar er e.9 dagsláttur. Öll girt með grjótgarði og við á stólpanum. Ræktuð í tún og notuð til matjurta. Gefur af sér í meðal ári 70 töðu og 8 af jarðávexti.“
Ekki er til túnakort af Hamarskoti.
Það voru 14 minjar skráðar á landi Hamarskots en þar af tengjast þrjár eiginlegum búskapi að Hamarkskoti, það eru útihús (2541-8), (2541-12) og (2541-13). Líklega eru þetta sömu tóftir og minnst var á í handritinu Hús og bæir í Hafnarfirði en þar var sagt að „tættur voru ofarlega í túninu og hygg ég að þær hafi verið útihús, en engin gripahús voru uppistandandi þegar við komum í kotið.“

Hamarinn

Hamarinn.

Einnig er á Hamarskotshamri ummerki eftir grjótnámu en grjótið úr honum var nýtt í kjallara og undirhleðslur eldri húsa í bænum og við hafnarframkvæmdir. Einn þeirra sem unnu við það að kljúfa grjót úr Hamrinum var Jón Jónsson, faðir Emils Jónssonar fyrrum alþingismanns og ráðherra, og segir í minningargrein um Emil að „Lyftitæki voru engin, en Jón var „þrautseigur við grjótverkið og vann að því myrkranna á milli““.

Hafnarfjörður

Hamarinn.

Hamarskotshamar í Hafnarfirði var friðlýstur árið 1984 sem náttúruvætti og í friðlýsingunni segir að „Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd.
Hverskonar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema komi til séstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd Ríkisins], að planta þar trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.“
Þær minjar sem er að finna á Hamrinum njóta því verndar samkvæmt friðlýsingunni, en eru þó ekki friðlýstar sjálfar.

Dvergasteinn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.

Þrjár þjóðsögur voru skráðar á landi Hamarskots, þær eru draugur, dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju og álfasögur við Hamarskotshamar. Sagan um drauginn hljómar svona: „Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan.“
Kirkjugarður Hafnarfjarðar er nú á því svæði sem nefnist Öldurnar. Dvergasteinninn við Hafnarfjarðarkirkju fékk að vera í friði þegar kirkjan var reist árið 1914, enda boðaði það mikla ógæfa að skemma hann.
Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum.
Reykdalsstífla eða Hörðuvallastífla, var tekin í notkun árið 1906 og var í eigu Jóhannesar Reykdals. Hann reisti fyrstu almenningsrafveitu Íslands árið 1904 og var rafstöðin við Austurgötu í Hafnarfirði. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að reisa Reykdalsstíflu og nýja rafstöð skammt frá. Vegna slyss sem varð við stífluna árið 2014 var lónið við stífluna tæmt og gerðar nokkrar breytingar á yfirfalli stíflunnar til að koma í veg fyrir að atvikið gæti endurtekið sig.

Jófríðarstaðir / Ófriðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðor á fyrri hluta 20. aldar.

Nafn jarðarinnar Jófríðarstaða hefur orðið fyrir afbökun en jörðin hét áður Ófriðarstaðir og kom nafnið Jófríðarstaðir fyrst fram í prestakallsbók Garðakirkju árið 1869. Breytingin hefur annaðhvort verið leiðréttingartilraun eða að mönnum hafi þótt Ófriðarstaðanafnið óviðfelldið, sbr. máltækið „að vera á Ófriðarstöðum“. Ein útskýringin er að þjóðsaga myndaðist um að á bænum hafi búið kona sem hét Ófríður en nafninu breytt í Jófríðarstaði.

Jófríðastaðir

Jófríðastaðir – loftmynd 1954.

Mögulega hefur nafnið verið kennt við einhvern ófrið en eina heimildin um orrustu sem á að hafa átt sér þarna stað fyrr á öldum er að finna í ritgerð Jóns Guðmundssonar lærða „Um ættir og slekti“ sem hann skrifaði 1688. Þar segir að forfaðir Jóns, Magnús Auðunarson ríki, hafi fallið á Ófriðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna“. Það á að hafa verið nokkru eftir miðja 15. öld.33 Sigurður Skúlason skýrir nafnið svona: „Mér þykir einna sennilegast, að nafnið Ófriðarstaðir tákni stað, þar sem allra veðra er von, sbr. bæjarnafnið Alviðra. Húsin á Ófriðarstöðum standa hátt; þar er vart skjól í nokkurri átt. Þetta er því tilfinningarlegra, þar sem veðursældin í Hafnarfirði er við brugðið, og oft er lyngt niðri við fjörðinn, þótt hvasst sé uppi á Ófriðarstöðum“.

Fyrsta heimildin um Ófriðarstaði er frá 1541, en þá nefnir Gizur biskup Einarsson nafn jarðarinnar í ráðsmannabréfi handa síra Oddi Halldórssyni. Svo var minnst á jörðina 1563 en þá höfðu Páll Stígsson höfuðsmaður fyrir hönd Danakonungs og Gísli Jónsson biskups vegna Skálholtskirkju makaskipti á nokkrum jörðum og konungur eignaðist Ófriðarstaði ásamt öðrum jörðum í Gullbringusýslu. Jörðin var þá metin á 10 hdnr.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Jarðeignir konungs voru svo skráðar í jarðabók frá tímabilinu 1583-1616, en þar segir að landskuld af Ófriðarstöðum sé fjórar vættir af fiski og þrjú leigukúgildi fylgi jörðinni. Árið 1639 var jörðin metin hálfu þriðja hundrað hærra en árið 1583, eða 12 ½ hdnr., og landskuld hennar var þá 150 fiskar, en það var 10 fiskum minna en landskuldin var talin í jarðabókinni frá 1583-1616. Jörðin hefur þá verið metin hærra en kúgildistalan var sú sama. Árið 1693 var dýrleiki jarðarinnar 12 ½ hdnr. en leigukúgildin ekki nema tvö því eitt þeirra hafði verið flutt að Straumi og landskuldin var 150 fiskar. Þremur árum síðar var allt við það sama.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – kort 1908.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir um Ófriðarstaði að jarðadýrleiki sé óviss og að jörðin hafi verið í eigu konungs. Leigukúgildin voru ennþá tvö og landskuldin var lxxv álnir. Hún greiddist með iii vættum og vi fjórðungum fiska í kaupstað, en áður heim til Bessastaða. Kvikfénaður var þrjár kýr, einn kálfur, níu ær, fimm sauðir veturgamlir, átta lömb og tvö hross. Heimilismenn voru níu. Jörðin átti selstöðu í heimalandi, þar voru hagar sæmilegir, en vatnsskortur mikill, og til forna mun bóndinn hafa neyðst til þess að færa selið að eða í Ásland, og fyrir það halda sumir að Áss hafi fengið skipastöðu í landi Ófriðarstaða. Þá var heimræði allan ársins hring og lendingin góð, skip ábúendans gengu eftir hentugleikum.
Árið 1804 keypti Bjarni Sívertsen jörðina og var hún þá 9 hdnr. og 36 álnir39 og í Jarðatali Johnsen frá 1847 fékk jörðin númerið 170 og er 12 ⅓ hdnr., landskuldin 0.75, kúgildi tvö og einn eigandi.
Búlandi Jófríðarstaða var skipt í hálflendur 1885, Jófríðarstaði I og II, og var jörðunum og húsakostinum lýst í Fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918:
Eigandi: Elín Jónsdóttir ekkja notar eignina sjálf. Eignirnar:
1. Íbúðarhús stærð 6,80 x 6,50m hæð 2,6m með risi. Byggt úr timbri og járnvarið. Því er skipt í: 3 herbergi og eldhús, þiljað panel.
Inngönguskúr stærð 1,60 x 2,65 hæð 3m með vatnshallaþaki byggður úr sama efni og húsið.
2. Útihús: Heyhlaða er tekur e. 180 hesta af töðu. Bás fyrir 2 nautgripi. Fjárhús fyrir er 140 fjár og hesthús fyrir 3 hross. Byggður úr torfi og grjóti þök úr timbri og járnvarið að mestu.
3. Jörðin (hálflendan) 4,8 ½ H: Túnið í allgóðri rækt gefur af sér 70 hesta af töðu. Girt með grjóti og við, matjurtagarðar gefa af sér 6 tunnur. Tekjur af byggingarlóðum er 200kr á ári.
Virðing:
1. Íbúðarhús m/viðbygg. Kr. 3500,00
2. Útihúsin Kr. 900,00
3. Jörðin Kr. 12000.00
Samtals Kr. 16400.00

Jófríðarstaðir

Jófriðarstaðir – Þóruklöpp.

Ekki er til túnakort af Jófríðarstöðum.
Kaþólska trúboðið í Hafnarfirði eignaðist svo jörðina 1924.
JófríðastaðirÍ örnefnalýsingu er bæjarstæði Ófriðarstaða lýst:
„Ófriðarstaðabær stóð í svolitlum slakka austur af Ófriðarstaðahól. Vestan bæjarins stóð Ófriðarstaðahúsið, eftir að það var reist, og tvíbýlt varð á jörðinni 1885. Ófriðarstaðatún var
allstórt, umgirt Ófriðarstaðatúngörðum. Austurtúngarður lá suðaustan og austan að túninu, norðurtúngarður bak við bæinn og vestur fyrir hól, en vesturtúngarður ofan frá hól niður að Ófriðarstaðalæk, sem rann niður með öllu Suðurtúninu. Á Ófriðarstaðahól var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum í kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist
Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki, því traðagarðana sér enn. […] Utan austurtúngarðs var ræktun, nefndist Nýjatún. Sagnir voru uppi um, að þar hafi verið kofi, sem Skáld-Rósa átti að hafa búið í, nefndist Rósukofi. Frá bæ norður lágu Norðurtraðir í norðurtraðahlið. Ásgatan lá frá traðarhliðinu suður með austurgarði að Ási, en frá hliðinu lá Ófriðarstaðastígur niður í kaupstaðinn.“

Þórukot

Þórukot (Klapparholt) og lóð, sem gefin var st. Jósepssystrum.

Tvær þjóðsögur voru skráðar á landi Ófriðarstaða og tengist önnur þeirra Þóruklöpp við Þórukot, sem stóð í nokkurnvegin þar sem leikskóli stendur í dag, sem dregur nafn sitt af síðasta ábúanda kotsins. Sagan segir að hún hafi selt St. Jósefssystrum jörðina undir spítalann með því skilyrði að ekki yrði hróflað við klöppinni sem er í bakgarði spítalans. Þóra mun hafa sagt við nunnurnar að „í klöppinni byggi álfkona sem hafði verið góður nágranni alla tíð“ og hafa nunnurnar virt þessa ósk hennar þar sem mannvirkin voru reist allt í kring um klöppina án þess að hróflað væri við henni. Túngarður tengist einnig Þórukoti og sést á uppdrætti af St. Jósefsspítala frá 1926.

Hin þjóðsagan tengist Jófríðarstaðahól, en hún segir frá manni sem klauf stein á hólnum til þess að nýta í kjallara á húsi sem hann byggði á árunum 1912-14. Þetta mun hann hafa gert þrátt fyrir að hafa heyrt sögur af álfabústaði í hólnum. Eftir þetta elti ógæfa manninn og á dóttir hans að hafa látist skömmu síðar.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III, Suðurbær, 2020; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-III-Sudurbaer-2020.pdf (byggdasafnid.is)

Beitarhúsaháls

Beitarhús við fyrrum selstöðu Jófríðarstaða í Beitarhúsahálsi.

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar 2020

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er nýr ratleikur sem fór af stað í miðjum kórónafaraldri árið 2020 og er ætlaður til að hvetja fólk til að njóta útivistar um leið og það lærir um fróðlega staði í útjaðri bæjarins og í bænum sjálfum. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn.
Litli Ratleikur er frábrugðinn stóra Ratleik Hafnarfjarðar, engin ratleiksmerki eru á staðnum eða ratleikskort. Hann er einungis á vefnum og hægt er að stunda hann hvenær sem er.
Í Litla Ratleik 2020 eru 15 áhugaverðir staðir. Að þessu sinni:

1 – Útihús við Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn – útihús.

S-A Ástjarnar, neðan við klapparhól sem vel sést frá göngustígnum eru rústir útihúss. Svona rústir og ummerki mannvistar er víða að finna í landi Hafnarfjarðar en opinber skráning þeirra er af skornum skammti og nær engar þeirra merktar. Flestar rústir sem enn er að finna eru ummerki um búskaparhætti fyrri alda. Líklegt er að þetta séu rústir útihúss sem tilheyrði bænum Ási sem stóð þarna skammt frá og var rifinn síðla á síðustu öld.

Greinilega má sjá hleðslurnar skammt frá göngustígnum. Hleðslurnar eru neðan við stóran klett við stíginn.

Ástjörn

Útihús við Ástjörn.

Markmiðið er að ganga í kringum Ástjörnina sem er rúmlega 3 km hringur frá bílastæðunum. Til viðbótar má ganga upp að útsýnisskífunni á Ásfjalli að norðanverðu, og ganga eftir öxlinni og koma niður á Skarð, þar sem finna má grjóthlaðinn stekk, og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Allt eru þetta ágætir stígar, misgóðir þó.

Ástjörn

Ástjörn.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má þar enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ástjörnin er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun rann fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Í tjörnina renna nokkrir smálækir og er yfirborðsrennslið breytilegt sem hefur þó lítil áhrif á vatnsborðið.

Lífríki tjarnarinnar er fjölbreytilegt og hér er kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni er mikið. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina.

Tjörnin og nánasta umhverfi nýtur friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður er nú trjáreitur frá því þar var skógræktarstöð og liggur göngustígurinn umhverfis vatnið þar í gegn.

Skammt vestan bæjarstæðisins milli Ásfjallsaxlar og Grísaness er Hádegiskarðið sem ferðalangar gengu um fyrrum er þeir fóru Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg til Krýsuvíkur eða Grindavíkur.

Fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997.

2 – Útsýnisskífa á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – útsýnisskífa.

Lengi var talið að Ásfjall væri lægsta fjall á Íslandi. Reyndar er lægra fjall á Austurlandi svo Ásfjall er þá a.m.k. næst lægsta fjall Íslands.

Á Ásfjalli er gott útsýni yfir fallegan fjörðinn og nágrenni og það nýttu sér hermenn á stríðsárunum. Enn má sjá merki eftir byrgi þeirra á fjallinu.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna sem þar er. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Markmiðið er að ganga upp á Ásfjallið til að upplifa fallegt útsýnið yfir Hafnarfjörð. Frá útsýnisskífunni má ganga eftir öxlinni til suðurs og koma niður á Skarð og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Slóðinn á fjallinu er greinilegur en grófur.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ásfjall

Ásfjallavarða árið 2007.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð snemma á öldinni en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

Ásfjallavarða

Ásfjallavarða árið 2020 og ummerkin umleikis.

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Þegar hún var komin á sinn stað voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en árið 1987 að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson, Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987 og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!

3 – Ósinn

Ósinn

Bekkur við Ósinn.

Ósinn er heiti á mannvirki sem tengist fráveitu Hafnarfjarðar. Í gegnum þetta mannvirki er skolpi dælt frá stórum hluta bæjarins út í pípu sem liggur undir Hvaleyrina og út í hreinsi- og dælustöð í Hraunavík en þaðan er öllu skolpi dælt langt á haf út eftir að það hefur verið grófhreinsað. Skolpdælistöðvar bæjarins hafa gjörbreytt áhrifum skolpsins við strendurnar frá því sem áður var.

Horft að miðlunartankinum sem hægt er að fara upp á.

Gott að leggja
Leggja má við enda Óseyrarbrautar þar sem hún sveigir til hægri við tanka Atlantsolíu.

Markmið
Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Við enda stígsins er Ósinn og upp á mannvirkið eru tröppur sem leiðir gesti að útsýnisstað með bekkjum.

Bekkir leynast uppi á miðlunartankinum.

Fróðleikur
Lang stærstur hluti hafnarsvæðisins er á uppfyllingu og er svæðið sem Ósinn er á það nýjasta og stærsta.

Í 2. kafla Landnámu segir að þar hafi Flóki Vilgerðarson og Herjólfur, bóndi er honum fylgdi, komið að landi fyrir árið 870 og dvalið um stund. „Flókaklöppin“ efst á Hvaleyrarholti er með ýmsum áletrunum, sem sumir telja vera eftir áhöfnina.

4 – Minnisvarði um Hrafna-Flóka
Í Landnámu segir frá því er Hrafna Flóki, Flóki Vilgerðarson, kom til Hafnarfjarðar þar sem hann fann félaga sinn Herjólf, sem hafði orðið viðskila við hann á eftirbát í mynni Faxaflóa. Fann Flóki þar og rekinn hval við eyri og nefndi Hvaleyri.

Var Hrafna-Flóka reistur minnisvarði í vörðuformi hæst uppi á Hvaleyri og var hann vígður í lok Víkingahátíðar 13. júlí 1997. Varðan er úr norsku grjóti og er gjöf frá Norðmönnum til minnis um atburðinn.

Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Einnig að kynnast sögunni um Hrafna-Flóka og jafnvel um þá fornu byggð sem var á Hvaleyrinni, Hvaleyri, Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyrarkot, Vesturkot og Halldórskot.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Í Landnámu segir frá því að Flóki hafi upphaflega haldið af stað frá Noregi vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann ætlaði að setjast þar að og þess vegna voru með í för fjölskylda hans og frændlið, auk búfénaðar. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur, Þórólfur og Faxi. Flóki hafði með sér þrjá hrafna sem hann hafði blótað í Noregi og lét þá vísa sér leið til Íslands. Hann sleppti fyrst einum og flaug sá aftur um stafn í átt til Færeyja, sá næsti flaug í loft upp og aftur til skips en sá þriðji flaug fram um stafn í þá átt sem Flóki og félagar fundu landið. Þeir komu að Horni eystra, síðan sigldu þeir suður og vestur fyrir land og námu land í Vatnsfirði á Barðaströnd. Vatnsfjörður mun hafa verið fullur af fiski og nýbúarnir stunduðu veiðar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenskan vetur. Þess vegna drapst allt kvikféð um veturinn. Vorið var heldur kalt og þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá fyrir norðan fjöllin fjörð, líklega Arnarfjörð, fullan af hafís. Því kölluðu þeir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.

Flóki og fylgdarlið hans ákváðu að fara burt og héldu úr Vatnsfirði þegar langt var liðið á sumar. Þeir náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes og urðu Flóki og Herjólfur viðskila í mynni Faxaflóa.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri..

Ýmsar minjar er að finna á Hvaleyrinni. Herjólfur kom að landi í Herjólfshöfn en Flóki hafði vetursetu í Borgarfirði. Næsta sumar kom Flóki í Hafnarfjörð og þar fundust þeir Herjólfur.

Menn hafa leitt að því getum að Herjólfshöfn sé Hvaleyrartjörn en hún var höfnin í Hafnarfirði sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.

Í Landnámu segir enn fremur: Flóki Vilgerðarson hét víkingur mikill; hann bjóst af Rógalandi að leita Snjólands; þeir lágu í Smjörsundi. Hann fékk að blóti miklu og blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið vísa, því að þá höfðu hafsiglingarmenn engir leiðarstein í þann tíma í Norðurlöndum. Þeir hlóðu þar varða, er blótið hafði verið og kölluðu Flókavarða; það er þar er mætist Hörðaland og Rogaland.

Samskonar varða er í Sveio sem liggur á mótum Hörðalands og Rogaland á vesturströnd Noregs. Varðan sem talin er að hafa verið upprunalega Flókavarðan, var rifin af ókunnum ástæðum á 19. öld. Ný varða var reist þar sem hin stóð og samskonar varða á Hvaleyri sem fyrr er nefnd.

5 – Útsýnisskífan á Hamrinum

Hamarinn

Litlu Ratleiksfrumkvöðlar við útsýnisskífuna á Hamrinum.

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar, er eitt af staðareinkennum Hafnarfjarðar. Hann hefur fengið nafnið Austurhamar þar sem hann er hæstur og Vesturhamar, þar sem hann gekk í sjó fram.

Áður fyrr var þessi mikli klettur sem stendur fyrir miðjum fjarðarbotninum nefndur Hamarskotshamar eftir koti sem stóð þar sem Flensborgarskólinn er nú.

Sprengt var úr Vesturhamrinum 1941-1948 og var efnið úr honum notað við gerð Norðurgarðsins í Hafnarfjarðarhöfn. Eru enn ljót ummerki eftir þetta og sést vel frá Flensborgarskóla.

Á austurhamrinum er útsýnisskífa og í góðu skyggni má sjá allan fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Ath. að hádegi á skífunni er sýnt þegar sól er í hásuðri en þar sem við erum bæði um hálfum tíma vestan við tímabeltið auk þess að vera með sumartíma allt árið, er hádegi sýnt um einum og hálfum tíma of snemma á skífunni.

Hamarinn á sér bróður; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn.

Hamarinn

Hamarinn.

Ofan Hamarsins eru Öldurnar og niður af Austurhamri er Brekkan með Brekkugötu og Suðurgötu. Svæðið neðan Vesturhamars kallaðist fyrrum einu nafni Undirhamar.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum. Ætla má að bergið geti verið yngra en 800 þúsund ára. Grágrýtið myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið.

Hamarinn er góður staður til að setjast niður og horfa yfir bæinn.

Í klöppunum ofan á Hamrinum sjást jökulrispur, menjar ísaldarjökulsins.

Finna má ummerki á Vesturhamrinum eftir veru hersins í Hafnarfirði í síðari heimsstyrjöldinni.

Í Hamrinum eru sagðar búa álfaverur af „konungakyni”. Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984.

Austurgatan en samt er aldrei talað um austur í Hafnarfirði!

Markmiðið er að ganga á Hamarinn og upplifa hann og útsýnið þaðan. Útsýnisskífan gefur möguleika á að þekkja fjöllin og umhverfið í kring.

6 – Arnarklettur

Arnarklettur

Arnarklettur.

Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Arnarklettarnir voru tveir; Arnarklettur syðri og Arnarklettur nyrðri. Hlaðin gerði og aðrar mannvistarminjar eru í kringum klettana. Á öðrum Arnarklettanna sem stendur á óbyggðu svæði á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs er merki með nafni klettsins.

Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: „Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað“.

Á síðustu tugum nítjándu aldar voru í Gullbringusýslu nokkrir þekktir varpstaðir arnarins, enda bera örnefnin þess merki, s.s. Arnarklettar utanvert við Balatún, Arnarnýpa á Sveifluhálsi, Arnarfell í Krýsuvík og Arnarþúfa í Ögmundarhrauni, auk tveggja Arnarkletta sunnan Stórhöfða og Helgafell í Garðakirkjulandi.

Markmiðið er að upplifa friðuðu hraunin, göngustígana austan og vestan Arnarhrauns. Stígarnir eru ekki merktir sérstaklega en ganga má m.a. inn á þá út úr endum Mánastígs, Þrastahrauns og víðar.

7 – Vindspil

Vindspil

Listaverkið Vindspil.

Listaverkið Vindspil frá árinu 2000 eftir Einar Má Guðvarðarson stendur á malarkambi við bílastæði við enda Langeyrarmala. Verkið heitir ekki aðeins Vindspil heldur er það vindspil og í vindi hljóma úr því fagrir bjölluhljómar. Einar Már bjó og hafði vinnustofu sína í bænum Ljósaklifi en það er bærinn sem er næst Herjólfsgötu. Hann var fæddur í Hafnarfirði 9. febrúar 1954. Hann lést 25. júní 2003.

Í Skerseyrarhrauni, á svæði sem er norð-vestasti hluti Hafnarfjarðar, og markast af Herjólfsgötu, Garðavegi og landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Bala, eru fimm gömul bæjarstæði þar sem enn standa hús. Auk Ljósaklifs eru bæirnir Fagrihvammur (Litli bær), Brúsastaðir I og nýbýlið Brúsastaðir II og Sæból sem stendur nyrst. Á milli bæjanna liðast steinhlaðnar götur í hrauninu.

Stifnishólar

Stifnishólar við Brúsastaði.

Hraundranginn utan við bílastæðið nefnist Rauðsnef og hraundrangarnir framan við Brúsastaði nefnast Stifnishólar þar sem sagt er að draugur hafi verið kveðinn niður um aldamótin 1800. Þar sem Brúsastaðir standa stóð áður bærinn Litla-Langeyri.

Langeyri var ævaforn hjáleiga frá Görðum og stóð þar sem Herjólfsgata 30 var en stutt er síðan það hús var rifið og ný fjölbýlishús byggð á lóðinni.

Meðal örnefna við sjóinn eru Brúsastaðavör, Skerseyrarvör og Balavör sem segja okkur að útræði hafi verið þarna áður.

Vindurinn skellir skálunum saman og myndar fallega bjölluhljóma.

Ganga Strandstíginn og Langeyrarmalirnar út með ströndinni að Bala.

8 – Hlaðnar götur

Hlaðnar götur

Gömul hlaðin gata.

Lengst af voru í raun engir afmarkaðir vegir í Hafnarfirði, einungis götur og slóðar. Hús voru byggð þar sem hagkvæmt þótti í hrauninu og milli hraunklettanna mynduðust götur eða troðningar áður en eiginleg gatnagerð hófst. Víða má enn finna leyfar af fyrstu gatnagerðinni, þar sem götur voru einfaldlega hlaðnar upp af hraungrjóti og fylltar með grús og hraunbrotum.

Best er að finna dæmi um slíkar götur við Hjallabrautina, gegnt skátaheimilinu Hraunbyrgi, og að Klettagötu. Þar má sjá hversu hagalega menn hafa hlaðið mjóar götur til að aka fiski á vögnum á stakkstæðin.

Fyrsta eiginlega gatnagerðin var þegar vegur var lagður frá Sjónarhóli, yfir Flatahraun og inn í Engidal.

„Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa. Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinum. Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal,” skrifaði Björn Guðmundsson sagnfræðingur 1962.

Markmiðið er að kynnast Hafnarfirði fyrri ára og láta sig dreyma um fólkið á ferðinni með fiskinn á vögnum efir hlöðnum götunum.

Allt umleikis eru grjóthlaðnir garðar og gerði er nýtt voru til heimilisbrúks fyrrum.

Víðistaðir

Víðistaðatún.

Tilvalið er að ganga til baka um Víðistaðatúnið þar sem bærinn Víðistaðir stóð og sláturhús sem margir muna eftir og stóð neðan við þar sem Víðistaðakirkja stendur núna.

Víðistaðatún er stórt opið svæði við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Þar er starfrækt tjaldsvæði frá miðjum maí fram í enda ágúst. Svæðið státar af fjölmörgum listaverkum sem tilvalið er að skoða og börn hafa gaman af að leika sér í. Einnig er þar aparóla, ærslabelgur og kastali sem staðsettur er í nálægð við grillhús. Hann hentar fyrir bæði leik- og grunnskólaaldur. Einnig er þar skógarlundur sem börn hafa gaman af að leika sér í sem og eini tennisvöllur Hafnfirðinga.

9 – Lækjarbotnar

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá svo trépípa niður til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909. Sjá má vanræktar leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið.

Stuttu ofar, í skógarjaðrinum má sjá hvar vatnið kemur undan hrauninu. Rennslið dugði þó ekki á sínum tíma til að anna vatnsþörf bæjarbúa og það varð til þess að árið 1916 fengu þeir Jóhannes Reykdal og Jón Ísleifsson verkfræðingur brjálæðislega hugmynd. Þar sem nægt vatn var í Kaldárbotnum, uppruna Kaldárinnar, var það áhugavert að koma því vatni til bæjarins. En það var löng leið og ekki á færi manna þá að leggja rör eða stokk alla þá leið auk þess sem það var yfir gjá og misgengi að fara. En hvað gera menn þá? Jú, hlaða úr grjóti og smíða tréstokk sem hleypti vatninu um 1,6 km leið yfir hraun og djúpa Lambagjána. Var vatninu sleppt inn á vatnasvæði Lækjarbotna og það var mikil spenna í bænum þegar beðið var eftir því hvort vatnið yfirleitt kæmi fram neðar í hrauninu. Voru margir efins um þessa aðferð, en vatnið kom í ljós um síðir og dugði vatnsveitan úr Kaldárbotnum allt til 1951 þegar ný vatnsleiðsla var lögð úr Kaldárbotnum í Hafnarfjörð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Hluta af vatnsleiðslunni má enn sjá en mest af henni hefur nú verið eyðilögð.

Því miður grotna minjar um þessa vatnsveitu niður og lítið er gert til að varðveita þessa sögu úti í náttúrunni t.d. með endurgerð hluta stokksins og uppsetningu á fleiri fræðsluskiltum.

Austan við lækinn má finna götu sem liggur alla leið í Selvog en það er hin margkunna Selvogsgata.

Látið ekki hjá liggja að ganga inn í Gráhelluhraunið, þar er góður göngustígur og margt að sjá, ekki síst ef vikið er svolítið frá stígnum.

10 – Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Á odda sunnan við Hvaleyrarvatn, þar sem stígurinn skiptist í tvennt, eru tóftir Hvaleyrarsels. Má þar sjá þrjár tóftir og er ein þeirra stærst, eldhús vestast, búr og baðstofa austast. Stekkurinn er skammt vestan við eldhúsið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Þarna átti að hafa gerst hryllilegur atburður um 1880 er smali fann seljastúlku rifna á hol niður við vatnið. Var talið að nykurinn í vatninu hafi leikið stúlkuna svo illa. Um nykur þennan sagði sagan að hann væri annað hvert ár í Hvaleyrarvatni, en hitt árið í Urriðakotsvatni. Sást til hans oftar en einu sinni.

Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn og um hríð í Kaldárseli.

Önnur selstaða er við Hvaleyrarvatn; Ássel. Það er skammt austan við Hvaleyrarsel, en landamerki Hvaleyrar og Áss lágu um vatnið. Jófríðarstaðir hafði um tíma selstöðu þar sem nú er Húshöfði. Þar við má sjá leifar beitarhúss og stekk selsins skammt norðar.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og um skemmtilega stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa raunverulega skógarstemmingu.

11 – Riddaralundur

Riddaralundur

Riddaralundur – setstaður gamalla Hafnarfjarðarskáta.

Frá upphafi skátastarfs á Íslandi var gjarnan farið í skátaútilegur í uppland Hafnarfjarðar og var Kaldársel mjög vinsælt og Helgadalur fyrir 1960. En síðar varð Hvaleyrarvatn áhugavert en þess ber að geta að um 1960 sást þar í umhverfinu varla nokkurt tré. St. Georgsgildið í Hafnarfirði, félag eldri skáta, var stofnað 22. maí 1963 og nýttu félagar þess umhverfi Hvaleyrarvatn til útivistar og útilegu. Fljótt kom áhugi á að byggja skála við vatnið og fékk félagið úthlutað lóð og var skálinn Skátalundur vígður 25. júní 1968.

Um svipað leyti kom skátasveitin Riddarar í Skátafélaginu Hraunbúum sér upp varðeldalaut sunnan við vatnið, á milli Ássels og Hvaleyrarsels. Settu þeir upp bekki í hring úr rafmagnsstaurum og útbjuggu eldstæði í miðjunni en sveitarforingjar þá voru þeir Ólafur Sigurðsson (Óli Sill) og Hermann Sigurðsson. Þarna var þetta undir brekku er hvergi neitt tré var að sjá en fallegur staður og skjólgóður til að sitja í kvöldsólinni.

Á Selfjalli ofan seljanna eru leifar stekks og fjárborgar. Sunnan þess, í norðanverðum Seldal, eru leifar sels.

Riddaralundur

Eldri skátar rifja upp gamla tíma í Riddaralautinni.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum tekur u.þ.b. 20-30 mínútur. Stígar í skóginum eru fjölmargir og mislangir en vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemmingu á hinum ólíku árstíðum.

12 – Ássel

Ássel

Ássel.

Flestir ganga greiðfæra stíginn í kringum Hvaleyrarvatn án þess að átta sig á því að þarna leynast minjar mannvistar frá fyrri öldum.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, skammt frá skátaskálanum Skátalundi, undir Selhöfða, eru tóftir tveggja selja, Ássels og Hvaleyrarsels.

Niður undir landi skátanna, á grónum hól eru tóftir sels sem talið er að hafa verið frá bænum Ási sem stóð við Ástjörnina, undir Ásfjallinu. Þetta er sel frá því um 1900 er Jófríðarstaðir og Ás skiptu með sér aðstöðunni við norðaustanvert vatnið

Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi ofanvert á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap voru mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina, frá 6. til 16. viku sumars. Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og eldhús. Utandyra voru yfirleitt stekkir eða kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar.

Selstöðurnar voru jafnan við vötn, ár, læki eða náttúrleg vatnsstæði.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemminguna.

13 – Beitarhús

Beitarhús

Beitarhús í Húshöfða.

Aðsetur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er á Húshöfða og skógurinn sem þar hefur verið myndaður nú kallaður Höfðaskógur.

Næst Kaldárselsvegi er þjónustubygging en suðvestar á svæðinu, á Beitarhúsahálsi, er skáli félagsins, skammt frá trjásýnilundi sem vígður var á 50 ára afmæli félagsins.

Sunnan skálans er nokkuð stór tóft (tótt) í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum en Jófríðarstaðasel varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Sjá má tóftir selsins skammt norðan við beitarhúsið.

Er talið að selið hafi síðast verið notað árið 1922 frá Ási.

Skammt fá tóftinni er útikennslustofa félagsins. Þetta er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan hjónanna Harðar Zóphaníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.

Allt umleikis eru fræðslustígar um hin ólíklegustu trjádæmi og plöntur.

Fleiri tóftir, m.a. af seli frá Jófríðarstöðum, eru á svæðinu, en þessi er þeirra stærst.

Ganga um skógarstíga og umhverfi Hvaleyrarvatns. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá, skoða trjásýnisafnið, rósagarðinn og bara upplifa alvöru skógarstemmingu.

14 – Fuglstapaþúfa

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Fuglstapaþúfa er við Þúfubarð á Hvaleyrarholti en gatan er kennd við þúfuna.

Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að byggjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka.

Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar.

„Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.

Fuglstapaþúfa er landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda.

Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir:

„Úr sjó Arnarklettar utanvert við Balatún [varða], sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur [varða]. Eftir þeim vegi í Engidal [varða]. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“

Víða um bæinn eru óröskuð svæði eða svæði sem eiga sér sögu sem vert er að minnast og er Fuglstapaþúfa og ÓlaRunstúnið gott dæmi um slík svæði. Auða lóðin þar sem Fuglstapaþúfan er, var á sjöunda áratugnum vinsælt leiksvæði barna í hverfinu og þarna voru byggðir kofar og var þarna mikið líf. ÓlaRunstúnið var einnig gríðarlega vinsælt meðal barna í svæðinu sem léku þar fótbolta á sumrin og renndu sér á sleðum og skíðum á vetrum. Var vera barna á túninu ekki alltaf vinsæl því Ólafur Runólfsson heyjaði túnið og það jók ekki á sprettuna að strákar væru þar að hamast í fótbolta.

15 – Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni. Víðsýnt er frá Jófríðarstaðaholtinu.

Markmiðið er að njóta fallegra staða, útsýnisins yfir Hafnarfjörðin fyrrum, kynnast sögunni og hreyfa sig svolítið í leiðinni. Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á góða heilsu bæjarbúa og gesta þeirra.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2020/

Skólpstöðin

Óseyri – Skólpstöðin.

Hamarskot

Í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983 eftir Ásgeir Guðmundsson er m.a. fjallað um bújarðir í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar:

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

“Helsta bújörð í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Hvaleyri. Lítið er vitað um hana fram til ársins 1703 annað en það, að hún var í eigu Viðeyjarklausturs fram að siðaskiptum, en þá sló konungur eign sinni á hana eins og annað í klaustursgóss. Í kaþólskum sið var kirkja á Hvaleyri, sem var annexía frá Garðakirkju á Álftanesi. Þessi kirkja var lögð niður árið 1765. Rækilegar upplýsingar um Hvaleyri er að fá í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar kemur fram, að jörðin var ekki mikil bújörð, en höfuðkostur hennar var góð lega til fiskviða, enda var útræði frá Hvaleyri allan ársins hring. Þó var útvegur Hvaleyrarbónda heldur lítilfjörlegur árið 1703. Á fyrri hluta 18. aldar varð túnið á Hvaleyri fyrir miklum skemmdum af völdum sandfoks og ágangs fugls og maðks. þegar Þorsteinn Jónsson varð ábúandi á Hvaleyri árið 1770, hófst hann handa um umbætur á jörðinni, og tók hún miklum stakkaskiptum. Frá árinu 1772 eru til tvær myndir af bæ Þorsteins á Hvaleyri, sem menn í leiðangri Sir Joseph Banks teiknuðu. Árið 1870 keypti séra Bjarni Sívertsen Hvaleyri af konungi, en að Bjarna látnum var jörðin seld, og gekk hún kaupum og sölum næstu áratugina. Árið 1870 keypti séra Þórarinn Böðvarsson heimajörðina á Hvaleyri, og nokkrum árum síðar gaf hann og kona hans jörðina ásamt tilheyrandi húsum, svo og Flensborgarlóðina, til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Heimajörðin á Hvaleyri var síðan í eigu Flensborgarskólans og síðar Gjafasjóðs séra Þórarins Böðvarssonar og konu hans, uns Hafnarfjarðarbær keypti hana árið 1956 með leyfi menntamálaráðuneytisins. Nú er golfvöllur á Hvaleyri.
Þorsteinn Egilsson kaupmaður eignaðist smám saman alla Hvaleyrartorfuna, að undanskilinni heimajörðinni. Hinn 12. desember 1912 seldu erfingjar Þorsteins Hafnarfjarðarbæ torfuna.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Önnur helsta bújörðin í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Jófríðarstaðir. Jarðarinnar er fyrst getið 1541, og var hún þá eign Skálholtsdómkirkju, en árið 1563 eignaðist konungur Jófríðarstaði og nokkrar aðrar jarðeignir í Gullbringusýslu. Árið 1804 keypti Bjarni Sívertsen jörðina af konungi og reisti þar skipasmíðastöð. Að Bjarna látnum gekk jörðin kaupum og sölum, uns kaþólska trúboðið (Campagnie de Marie) eignaðist hana alla árið 1922.
Þriðja bújörðin í landi Hafnarfjarðar var Hamarskot, sem dró nafn sitt af Hamrinum. Nafnið bendir til þess, að hér hefur ekki verið um stórbúli að ræða. Hamarskot er fyrst getið árið 1579, og var það þá í eigu Garðakirku. Síðar eignaðist landssjóður jörðina, en árið 1913 keypti Hafnarfjarðabær hana, að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarstúnbletti. Hafnarfjarðarbær keypti þessi tvö tún árið 1930, og hefur allt Hamarskotslandið því verið í eigu bæjarins frá þeim tíma.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Fjórða bújörðin í Hafnarfirði var Akurgerði norðanmegin fjarðarins. Búskap lauk þar á seinni hluta 17. alfar. Fram til 1677 var akurgerði hjáleiga frá Görðum á Álftanesi, en þá hafði Hans Nansen yngri makaskipti á Akurgerði og hálfum Rauðkollsstöðum í Eyjahreppi í Hnappadalssýslu. Um leið var verslunarstaðurinn, sem hafði verið á Háagranda á Hvaleyrarhöfða, fluttur í Aksurgerðisland. Einungis var um þurrabúðir að ræða í Akurgerði eftir 1677.
Af því, sem hefur verið rakið hér að framan, er ljóst að fram til 1677 voru fjórar bújarðir í Hafnarfirði, en þegar Akurgerði var tekið undir verslunarstað, voru þrjár eftir. Það var ekki fyrr en á fyrri hluta 19. aldar, að byggðin fór að aukast í firðinum og allmörg smámýli risu í lægðinni sunnan við fjarðarbotninn. Þessi smábýli voru upphaflega þurrabúðir, sem voru reistar í hinu forna Jófríðarstaðarlandi, þ.e. þeim hluta þess, sem firmað Jensen & Schmidt seldi Steingrími Jónssyni og Árna Hildibrandssyni árið 1848 og hlaut seinna nafnið Hamar. Hafnarfjarðarbær eignaðist Hamarsland árið 1915. Af nýbýlum í Hamarslandi er Óseyri elst.”

Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson – Bújarðir í Hafnarfirði, I. bindi, bls. 25-26.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.