Krýsuvík

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík getur hann m.a. um nokkur örnefni og minjar þeim tengdum, s.s. tóftir bæjar er nefndur er Hnaus (Garðshorn), Nýjabæjarétt, Spegilinn og Vitlausa Garð. Ákveðið var að skoða alla staðina m.v. fyrirliggjandi lýsingar. Á göngunni kom ýmislegt annað áhugavert í ljós.
NyjabaejarettÍ örnefnalýsingunni segir: “Austur með læknum lá Krýsuvíkurstígur og yfir hann upp í Grásteinsmýri. Þar voru Litlabrú og Stórabrú, lítilfjörlegar vegabætur um mýrina. Gatan lá svo vestanhalt við Grástein og undir Hrossaklettum um Móholt og Réttarholt og hjá Grjóthól og við Grjóthálsrétt sem nefndist Nýjabæjarrétt sem var hringhlaðin eins og fjárborg. Aðeins sér móta fyrir henni rétt við veginn. Hér norður af er túnbali að sjá. Hér stóð Nýibær litli eða Litli-Nýibær á Bæjarhólnum í miðju Litla-Nýjabæjartúni. Nú sér ekki lengur marka fyrir Litla-Nýjabæjartúngörðum. Suður frá Grjóthólsrétt stóð Stóri-Nýibær eða Nýibær stóri á Nýjabæjarhól eða Stóra-Nýjabæjarhól því sem næst í miðju Stóra-Nýjabæjartúni. Nýjabæjartraðir lágu heim vestan frá Grjóthól. Nýjabæjartúngarðar lágu að túninu að norðan, Norðurtúngarður að Traðarhliðinu. Vesturtúngarður frá Traðarhliðinu og allt vestur og niður um túnið, að Suðurtúngarði.”

Hnaus

Hnausar í Krýsuvík.

Aftur heim til Krýsuvíkurbæjar. “Traðirnar láu frá austurvegg bæjarins bak við Kirkjugarðinn og síðan til suðurs og niður að Læknum. Norðurtúnið lá allt að Norðurkoti, sem virðist hafa verið eitt af aðalhjáleigunum. Eiginlega stóð Norðurkotsbærinn utan túns. Norðurkotstraðir láu úr túninu heim að bænum og framhjá honum. Norðurkotsrústirnar, eru gleggstu rústirnar sem enn eru sjáanlegar í Krýsuvíkurhverfinu. Úr tröðunum liggur stígur yfir að Snorrakoti rétt norðan við Norðurkot og lengra út á mýrinni er Garðshorn, sem einnig var nefnt Hnaus. Túnblettir fylgdu þessum bæjum. Norðurkotstún, Garðshornsblettur og Hnausblettur.”
SpegillinnKrýsuvíktúngarðar voru mikil mannvirki. Reiknast um 5 kílómetrar að lengd. Hafi þeir verið 1½ metri á hæð 1½ metri þykkir að neðan og 0,50 metr. að ofan, mætti gera sér í hugarlund hve mikið hefur farið í þá og þá gera sér ljóst þetta mikla verk. “Austurtúngarður lá ofan úr Felli hjá Norðurkoti og niður að Læk, Krýsuvíkurlæk. Suðurgarðurinn eða Lækjargarðurinn nyrðri lá austan frá Garðshorni með fram öllum læknum að norðanverðu. Austur undan kirkjunni var Traðarhliðið og þar Vaðið. Austan við það var Vatnsbólið, en neðan Uppistaðan og þar var Millan má enn sjá lítið eitt af Millutóttinni. Traðargarðarnir voru miklir og standa enn. Traðargarðurinn eystri og Traðargarðurinn vestri, Traðargarðurinn syðri lá sunnan lækjarins. Austan frá Hnaus. Sunnan Vaðsins var Lækur Lækjarbærinn.
Uppi á Arnarfelli er Arnarfellsvarða eða Tyrkjavarða. Sagt er að hún hafi verið hlaðin nokkru eftir Tyrkjaránið. Eru þar ummæli á, að meðan hún stendur muni tyrkir ekki koma og ræna Krýsuvíkurstað. Fram undan, eða vestur undan Fellinu er Stekkjarmýri og suður frá henni Arnarfellstjörn og örfokaland þar umhverfis. Austan í fellinu nær miðju er garður. Af grjóti í fellinu, en af torfi er út kemur á mýrina, Arnarfellsgarður. Hann tengist þvergarðinum vestri og því myndast þarna gerði eða afgirt beitarland. Var þarna kúabeit, enda kallaður Kúablettur. Í bletti þessum var lítil tjörn, nefndist Spegillinn. Þarna var einnig allgóð mójörð, og Mógrafir.
KrysuvikurgardarBæjarfell er ekki stórt, en setur þó svip á umhverfið. Stekkjarstígur lá úr Norðurkotströðum austan í fellinu að garði þar, sem nefndur var Vitlausi Garður. Þegar hlaðnir höfðu verið allir hinir garðarnir og byrjað var á þessum, þótti hjáleigubændum í Krýsuvík nóg komið af görðum og töldu þessa garðhleðslu því hina mestu vitleysu. Þar af er nafnið komið. Stígurinn liggur í gegnum Vitlausagarðshlið.”
Hnaus er ekki að finna á korti með aðalskiplagi Hafnarfjarðar í Krýsuvík. Líklegt mætti telja að leifar eftir kotið væri annað hvort að finna í mýrinni suðvestan við Grjóthól (Réttarhól) eða austan túnbletts austan Norðurkots (austan núverandi vegar) á svipuðum slóðum og Lækur er nú. Þar er horn á eldri garði er komu saman garðar Snorrakots og Lækjar. Lækjar er ekki getið í manntali 1802.
UppistaðanÍ manntalinu árið 1845 eru 8 bæir í byggð í Krýsuvíkursókn. Árið 1822, höfðu bæst við nýbýlið Lækur og hjáleigurnar Vigdísarvellir og Bali. Að Læk bjó Halldór Magnússon og Margrét Þorleifsdóttir ásamt tveimur börnum og móður húsbóndans.
Hinir löngu og miklu túngarðar í Krýsuvík eru flestir beinir og nýrri en hinir eldri og minni og krókóttari garðar, s.s. frá Norðurkoti, Snorrakoti og næst Læk. Umhverfis Læk eru einnig beinni, hærri og lengri garðar. Bendir það til þess að nýbýlið hafi verið reist upp úr eldra býli, Hnausum. Ef vel er að gáð má sjá eldra bæjarstæði í miðju eldri garðsins. Burst horfði mót suðri og beggja vegna voru jafn stór torfhýsi er notuð hafa verið til annarra nota síðar. Fjárhústóft er austast í túngarðshorninu. Sunnan þess er heykumlsgarður. Þar gæti hafa áður verið lítið kot; Garðshorn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.