Sveifluháls

Um miðjan dag þann 17. júní árið 2000 riðu miklir jarðskjálftar yfir Suðurland. FERLIR var þá á Sveifluhálsi. Segja má að þennan dag hafi hálsinn risið undir nafni.

Sveifluháls

Sveifluháls – gönguleiðin.

Nú, nákvæmlega fimm árum síðar, var ákveðið að ganga nær sömu leið og fyrrum, en nú frá Norðlingahálsi í stað Vatnsskarðs og eftir Sveifluhálsi til suðurs, að Arnarvatni. Frá því var gengið um Ketilsstíg til vesturs og Sveifluhálsi síðan fylgt til norðurs þeim megin. Helsta breytingin á hálsinum undanfarin ár eru hin fjölmörgu för eftir tofæruhjól, en þau sáust ekki á þessu svæði fyrir fimm árum.
Í snubbóttum kynningum segir að “Sveifluháls sé móbergshryggur (hæstur 395 m.y.s) í Reykjanesfjallgarðinum, vestan við Kleifarvatn. Sveifluháls fellur með bröttum hömrum niður að Kleifarvatni. Sunnan til í hálsinum að austanverðu er mikill jarðhiti. Er þar hverasvæði það sem kennt er við Krýsuvík. Hæstu tindar á hálsinum eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur.”

Sveifluháls

Sveifluháls – ganga.

Gengið var með fyrrnefnda tinda á vinstri hönd og Norðlingaháls, Köldunámur og Folaldadali á þá hægri. Hofmannaflöt sást neðan undir vestanverðum Sveifluhálsinum, grasi gróin. Hálsinn er klofinn langleiðina með djúpum dölum á milli móbergshnúkanna. Óvíða er fallegra útsýni hér á landi en einmitt inn eftir þessum dölum. Vatn og vindar hafa sorfið hlíðarnar og fært basaltmola og móbergssandinn niður hlíðarnar þar sem hvorutveggja hefur myndað sléttbotna dalina. Þægilegt er að ganga inn á milli tindanna, þ.e.a.s. fyrir þá sem rata, en á einstaka stað þarf að hitta á þröng einstigi þar sem auðvelt er að fara um.

Sveifluháls

Sveifluháls – Ketilsstígur.

Haldið var yfir Ketilsstíg og upp að Arnarvatni, sem er sprengigígur líkt og Grænavatn. Á vinstri hönd var hæsti tindur Sveifluhálsins, Arnarnýpa. Framundan var Hetta og Hattur á vinstri hönd. Af þeim er útsýni niður að Fögruflatarhorni. Áður var gengið niður með Slögu og hálsinum fylgt um Bleikingsdal að Drumbi og Urðarfelli, haldið um Klettavelli niður að Krýsuvíkurmælifelli og beygt þar til austurs að Einbúa þar sem gangan endaði, en nú var Ketilsstíg fylgt til vesturs, sem fyrr sagði.
Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir, sem hafa orðið til við gos á sprungurein undir jökli.

Sveifluháls

Sveifluháls – Innri Folaldadalur.

Hálsarnir eru samsettir úr mörgum goseiningum. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.
Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík. Í rauninni eru móbergshryggirnir fleiri á svæðinu. Latur, Latstögl og Latfjall er einn þeirra, en jarfræðilega gæti hann áður hafa verið hluti af Vesturhálsi, en hraun aðskilið hann.

Sveifluháls

Sveifluháls – Ytri Folaldadalur.

Krýsuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufu- og leirhverum. Jarðhitavatnið er lítið salt og hefur hitinn mælst 230-260°C sem er mjög ákjósanlegur hiti til gufuframleiðslu. Jarðhitasvæðið er aðgengilegt ferðamönnum, einkum hverasvæðið við Seltún austan við Sveifluháls.
Þeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík, bæði við Seltún og í Baðstofu. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni.

Sveifluháls

Sveifluháls – Arnarvatn.

Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum. Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir. (Sveinn Þórðarson, 1998)

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Árið 1941 fékk Hafnarfjarðarbær afsal fyrir jörðinni Krýsuvík ásamt hitaréttindum. Sama ár voru boraðar þrjár tilraunaholur við sunnanvert Kleifarvatn. Ætlunin var að komast að því hvort þar mætti fá gufu til að framleiða rafmagn fyrir Hafnarfjarðarbæ. Það varð þó ekki raunin því ekki fékkst nægt vatn eða gufa úr holunum. Hafnfirðingar gáfust þó ekki upp og árin 1945 og 1946 var ráðist í nýjar boranir. Tilgangurinn var sem fyrr að fá gufu til að framleiða rafmagn en einnig að virkja jarðhitann til upphitunar gróður- og íbúðarhúsa á jörðinni. Í þetta skiptið gekk aðeins betur og fékkst meiri gufa en í borununum árið 1941. Gufan var nýtt til upphitunar í Krýsuvík en ekki var ráðist í gerð jarðgufustöðvar eins og staðið hafði til og streymdi því gufan út í loftið, engum til gagns.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Enn sem komið er hefur ekki orðið neitt úr framkvæmdum um nýtingu jarðhitans í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og upphitunar en það er þó ekki ólíklegt að jarðhitinn á svæðinu verði nýttur í framtíðinni til upphitunar á höfuðborgarsvæðinu eða iðnaðarframleiðslu. Orkustofnun hefur einnig látið bora rannsóknarholur og gert víðtækar rannsóknir á svæðinu í gegnum tíðina.
Sem fyrr sagði er Sveifluhálsinn með tilkomumeiri göngusvæðum landsins. Framangreind leið er ein sú stórbrotnasta.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-Kristján Sæmundsson.
-Halldór Ármannsson og Sverrir Þórhallsson, 1996: Krýsuvík, Yfirlit um fyrri rannsóknir og nýtingarmöguleika ásamt tillögum um viðbótarrannsóknir. Orkustofnun, OS-96012/JHD-06 B. 25 bls.
-Sveinn Þórðarson, 1998: Auður úr iðrum jarðar. Í: Ásgeir Ásgeirsson (ritstj), Safn til Iðnsögu Íslendinga XII. bindi (ritröð). Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 656 bls.
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.