Færslur

Sveifluháls

Gengið var af Norðlingahálsi yfir í Folaldadali í Sveifluhálsi um Köldunámur. Haldið var upp úr suðurenda dalanna upp að Arnarvatni, niður í Hveradal með Hnakk og síðan upp Ketilsstíg af Seltúni, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal.
Sveifluháls, öðru nafni Austurháls, er móbergshryggur (hæstur 395 m.y.s). Hæstu tindar á hálsinum eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur. Þeir sjást vel þegar komið er upp á hrygginn milli Norðlingaháls og Folaldadala.

Ferlir

FERLIR á Sveifluhálsi.

Köldunámur eru þarna vestan í Sveifluhálsinum, alllangt frá öðrum jarðhitasvæðum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.
Þar sem staðið er á hryggnum og horft anars vegar upp að Stapatindum í austri og Hrútargjárdyngju og hraunin í vestri hlýtur þjóðtrú og útilegumenna ð koma upp í hugann. Orðið þjóðtrú er oft notað um trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri sem birtist í umhverfinu og náttúrunni.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Gísli Sigurðsson segir einhvers staðar að orðið “þjóð” í þjóðtrú vísi til fólks en ekki hugmynda um þjóðir og þjóðríki. Þjóðtrú Íslendinga er því ekki mjög ólík þjóðtrú annarra “þjóða” heldur saman sett úr hugmyndum sem bárust hingað á landnámsöld, bæði frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í bland við nýsköpun og aðlögun sem hér hefur átt sér stað. Helst má segja að útilegumannatrúin hafi séríslensk einkenni og margt í álfa- og huldufólkstrúnni ber fremur keim af gelískri þjóðtrú meðal Íra og Skota en því sem þekkist meðal Norðmanna.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Þessi menningarblanda er í ágætu samræmi við það sem ritheimildir segja um uppruna landsmanna og fellur vel að þeim erfðarannsóknum sem sýna að hér hefur blandast fólk af ólíku þjóðerni frá öndverðu.
Þekking á útilegumönnum er fyrst og fremst komin úr þjóðsögum og því er erfitt að tala um útilegumenn öðruvísi en sem þjóðsagnapersónur – sem dæmi eru um allt frá fornöld í sögum af Gretti sterka. Í munnmælasögum frá 17. öld eru huldudalir í óbyggðum ekki setnir útilegumönnum sem fólki stafar ógn af, eins og algengt er í þjóðsögum Jóns Árnasonar tvö hundruðárum síðar, heldur gengur fé þar sjálfala eða á búum huldufólks.

Folaldadalir

Í Folaldadölum.

Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar eru útilegamannasögur víða að af landinu, en þó er áberandi að þær eru teknar eftir norðlenskum sögnum, oft skagfirskum og eyfirskum, og sumar úr Biskupstungum sem liggja undir hálendinu. Samverkamaður Jóns, Magnús Grímsson, hefur skráð margar þeirra en af öðrum riturum er Þorvarður Ólafsson oft nefndur. Oft minna útilegumennirnir á tröllslegar vættir á fjöllunum þegar byggðafólkið lendir hjá þeim eftir villur í þoku eða hríð. Yfirleitt hafast þeir við í búsældarlegum afdölum.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Í útilegumannasögunum birtist óskasýn fátækra landsmanna sem bjuggu við válynd veður, og réðu lítt örlögum sínum. Uppi á öræfum gátu þeir ímyndað sér skjólgóða dali sem væru óháðir óblíðum náttúruöflum og óréttlátum lögum, og þar sem fé gengi sjálfala, ástin blómstraði og lífið væri fyrirhafnarlítið í faðmi fjalla blárra og fagurra stúlkna. En útilegumannasögurnar birta líka ógurlega grimmd og ótta við hið óþekkta sem menn hika ekki við að drepa þegar svo ber undir. Þær vitna um þröngsýni og fáfræði sem okkur þykir stundum með ólíkindum hjá fólki sem þurfti að smala saman fé af fjöllunum á hverju ári og leggja leið sína fótgangandi á sauðskinnskóm eða ríðandi um þær ómælisvíðáttur sem hafa nú breyst í vel kortlögð og vinsæl útivistarlönd.

Miðdegishnúkur fór stækkandi á vinstri hönd og Hofmannflöt lá undir hálsinum á þá hægri. Á brúninni var tröllsandlit er fylgdist með mannaferðum úr vestri.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Gengið var um sléttan sendinn dal í miðjum Sveifluhálsi og upp úr honum að Arnarvatni. Svæði þetta er ákaflega tilkomumikið og fallegt þrátt fyrir gróðurfátæktina. Haldið var suður fyrir vatnið og þar beygt til austurs, gengið nuður með Hnakk og stefnan tekin á Hveradal. Kleifarvatnið var framundan, en það er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m.

Sveifluháls

Við Miðdegishnúk á Sveifluhálsi.

Í Hveradal eða Seltúni, eins og svæið allt er jafnan nefnt, varð mikil gufusprenging í októbermánuði 1999. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

Ástæðu sprengingarinnar má rekja til gamallar rannsóknarholu sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.
Haldið var upp frá hverasvæðinu um Ketilsstíg, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal um Ketilinn. Af brúninni er fallegt útsýni yfir að Hrútafelli og Núpshlíðarhálsi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2065
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Sveifluhals/
-http://www.os.is/jardhiti/krysuvik.htm

Seltún

Hverasvæðið við Seltún.

Ketilsstígur

Gengið var um Sveifluháls af Norðlingahálsi um Folaldadali að Arnarvatni og síðan um Ketilsstíg norðanverðan til baka.
MiddegishnukurÍ grein Ólafs Þorvaldssonar, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar í Árbókinni (ÁHíf) 1943-48, segir m.a. um þetta svæði:
“Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—45 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn. Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér um ræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í KetilbSveifluháls-7otn.
Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsia nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa. Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir.
Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur.
Sveifluháls-8Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness.”
Gísli Sigurðsson segir um þetta svæði í örnefnalýsingu sinni um Krýsuvík: “Landamerkjalínan milli Krýsuvíkurlands og upprekstrarlands Álftaneshrepps hins forna liggur um vestanverðar Undirhlíðar, rétt um Háuhnúka eða Rakka. Vatnsskarð skiptir nöfnum á þessum móbergshálsum og heitir Sveifluháls fyrir vestan. Um skarðið lá Vatnsskarðsstígur og má enn sjá móta fyrir honum á melum vestan vert við Krýsuvíkurveginn. Eru nú engin örnefni fyrr en komið er nokkuð vestur á Hálsinn. Hellutindar eða Skriðutindar eru fyrstir fyrir. Þá Stapatindur eystri og þá Stapatindur vestri og milli þessara tinda eru svo Tindaskörðin. Þá er komið í Ólafsskarð, en um það liggur ÓSveifluháls-8lafsstígur. Örnefnin eru kennd við Ólaf trésmið Magnússon, en hann fór hér oft um þegar hann heimsótti föður sinn Magnús Ólafsson í K-vík. Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar hjá Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin. Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatni. Í vestur eru tveir hnúkar. Annar að sunnan heitir Hattur kúflaga en framan í honum eru Krýsuvíkurnámurnar og Seltún.

Sveifluháls-10

Beint framundan er Hetta. Hattsmýri liggur milli hnúka þessara, en klofnar um Hattsmýrargil. Vestan undir Hettu er Hettuskarð og Hettuskarðsvegur eða Hettuskarðsstígur. Nokkrir nafnlausir tindar eru hér fyrir vestan og vestan þeirra er komið á Drumbsdalastíg. Á sunnanverðum hálsinum er Stóri-Drumbur, en norðar er Litli-Drumbur og milli þeirra Drumbsdalir. Hér fram undan eru Borgarhólar og Borgin. Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.
L.M. línan af Undirhlíðum liggur um Markrakagil, sem einnig ber ýms önnur nöfn, svo sem: Mar-krakagil, Marrakagil, Melrakkagil, Markrakkagil. Gil þetta á að vera fjórða gil í Undirhlíðum frá Vatnsskarði að telja, en öll eru þau nafnlaus. Niður undan Undirhlíðum liggur Undirhlíðavegur eða Krýsuvíkurvegur gamli, sem lá frá Hafnarfirði upp í Námur og Krýsuvík. Undan öðru gili er lítil flöt, nefnist Ráðherraflöt. Svo segir að eitt sinn á búskaparárum Jóns Magnússonar í Krýsuvík 1900–1912 þá hittust þeir þarna á flötinni Jón bóndi og Hannes Hafstein ráðherra. Þar af kom nafnið.

Sveifluháls-11

Hér spölkorn vestar var komið að miklum gíg, sem nú er horfinn. Nefndist hann Hálsgígur. Vegurinn lá sunnan undir honum að Vatnsskarðshálsi hrygg lágum, sem lá út úr Undirhlíðum eða Undirhlíðarhorni. Vegurinn lá upp á hálsinn og niður af honum og sveigir þá inn undir Vatnsskarð. Hér á hrauninu rétt við voru tveir gígar, gjallhaugar miklir, er nefndust Rauðhólar, Rauðhóll eystri og Rauðhóll vestri. Milli þeirra lá Vatnsskarðsstígur út að Fjallinu eina. Við stíginn sagði Guðmundur Tjörvi bóndi í Straumi 1895–1925, að væri greni það sem við hefði átt að miða þegar landamerkin voru gerð 1890, því Vatnsskarð væri hið eiginlega Melrakkaskarð. Vatnsskarðsgreni er því þarna á hrauninu og Vatnsskarðsflöt neðanundir skarðinu. Frá Sandfellsklofagígum, Rauðhólum og Hálsgíg er runnið hraun það sem kallað er Nýjahraun og er nokkuð af því hér og heyrir því Krýsuvík til.

Sveifluháls-12

Vegurinn liggur upp frá flötinni í norður og fyrir múla nafnlausan og síðan inn með honum. Hálsinn á aðra hönd, vinstri en á hægri hraunið. Í þessu hrauni er Sandklofahellir og Sandklofatraðir eða Hrauntraðir þaðan og langt niður á hraun, þar sem aðrar traðir koma inn á þessar. Vegurinn liggur allt innundir Sandfellsklofa, en beygir þar til norðurs og þar fyrir múla nafnlausan og þétt með hlíðinni vestur á sandflæmi, sem þar er og nefnist Norðlingasandur. Uppi hér á hálsinum er eldvarp. Þar rétt hjá er hellir, nefnist Sauðahellir. Þangað leituðu oft sauðir Hraunamanna. Þá kemur Norðlingaháls liggur fram og norður út hálsinum. Vegurinn liggur upp hann og niður af honum á svo nefndar Stórusteinaflatir. Stóri steinar hafa hrunið hér niður ofan úr klettabelti í hálsinum. Hér eru Köldunámur. Löngu kulnaður jarðhiti eða hver. Upp frá Köldunámum er gengið í Folaldadali — miðdalinn. Nú er langur kafli, örnefnalaus.
Þá er Arnarvatnkomið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum. Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið. Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur. Þar er Bleikingsdalsvað þar sem Drumbsdalastígur liggur yfir lækinn.
Síðan fellur lækurinn norður af og um móbergshjalla, þar sKetilsstigur-2em hann hefur grafið sig niður í móbergið og myndað polla hylji, súlur og boga í margs konar myndum. Lækurinn fellur svo fram og rennur út á hraunið og eftir því og er að fylla gjótur þess og bolla. Þegar hingað er komið blasir við í vesturátt Mælifell Krýsuvíkur-Mælifell eða Innra-Mælifell. Austur úr Mælifelli gengur lágur Mælifellsháls. Austanundir Mælifelli eru Klettavellir. En frá hálsinum milli Mælifells og Borgarhóla liggur Mælifellsdalur. Sunnan í Mælifelli er Mælifellstorfa mið af sjó. Vestur úr Mælifelli gengur Mælifellsás, en framan í því að suðvestan liggur Alfaraleiðin, krækir fyrir hornið og liggur þar framhjá Ögmundardys.”
“Sumarið 1820 fóru tveir Danir um Sveifluháls, en þeir klifruðu heldur stígana yfir Kleifarvatni en að fara undir hlíðum, því að þá langaði til að sjá sem flest á Íslandi þetta sumar og ætluðu líka að safna jurtum og skoða hverina.
Sá rosknari þeirra var Frederik Christian Raben lénsgreifi frá Kristjánshólma á Lálandi, maður um fimmtugt, en hinn var Axel Mörch, 23 ára gaStorusteinaflatirmall lögfræðingur, sem hafði lagt stund á grasafræðinám að afloknu lögfræðinámi og hlotið gullpening háskólans fyrir ritgerð um lifrarmosa þá um vorið.
Þeir félagar fóru suður Sveifluháls á náttlausum góðviðrisdegi um mitt sumar, og virðast hafa farið sér í engu óðslega. Þegar kom þar á hálsinn, sem láglendi tekur að myndast sunnan við klettabeltið,
safnaði Mörch mosa, sem hann hafði aldrei fyrr augum litið og óx í skugga undir klettum eða á steinum allt frá klettunum við ströndina í um 150 metra hæð og upp undir fjallabrúnir.
Hálsinn er gróðurlítill, og jafnvel fátækur að mosum, en Mörch virðist hafa orðið svo hrifinn af þessari óþekktu jurt, að hann safnaði meiru af henni en öðrum mosum þennan eina sumardag á Sveifluhálsi.”
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Heimild:
-Árbók hins ísl. fornleifafélags 1943-1948, bls. 84, Ólafur Þorvaldsson – Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar.
-Náttúrufræðingurinn-1963-1964 – Liframosinn, bls. 113-114.
-Gísli Sigurðsson – Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Sveifluháls

Um miðjan dag þann 17. júní árið 2000 riðu miklir jarðskjálftar yfir Suðurland. FERLIR var þá á Sveifluhálsi. Segja má að þennan dag hafi hálsinn risið undir nafni.

Sveifluháls

Sveifluháls – gönguleiðin.

Nú, nákvæmlega fimm árum síðar, var ákveðið að ganga nær sömu leið og fyrrum, en nú frá Norðlingahálsi í stað Vatnsskarðs og eftir Sveifluhálsi til suðurs, að Arnarvatni. Frá því var gengið um Ketilsstíg til vesturs og Sveifluhálsi síðan fylgt til norðurs þeim megin. Helsta breytingin á hálsinum undanfarin ár eru hin fjölmörgu för eftir tofæruhjól, en þau sáust ekki á þessu svæði fyrir fimm árum.
Í snubbóttum kynningum segir að “Sveifluháls sé móbergshryggur (hæstur 395 m.y.s) í Reykjanesfjallgarðinum, vestan við Kleifarvatn. Sveifluháls fellur með bröttum hömrum niður að Kleifarvatni. Sunnan til í hálsinum að austanverðu er mikill jarðhiti. Er þar hverasvæði það sem kennt er við Krýsuvík. Hæstu tindar á hálsinum eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur.”

Sveifluháls

Sveifluháls – ganga.

Gengið var með fyrrnefnda tinda á vinstri hönd og Norðlingaháls, Köldunámur og Folaldadali á þá hægri. Hofmannaflöt sást neðan undir vestanverðum Sveifluhálsinum, grasi gróin. Hálsinn er klofinn langleiðina með djúpum dölum á milli móbergshnúkanna. Óvíða er fallegra útsýni hér á landi en einmitt inn eftir þessum dölum. Vatn og vindar hafa sorfið hlíðarnar og fært basaltmola og móbergssandinn niður hlíðarnar þar sem hvorutveggja hefur myndað sléttbotna dalina. Þægilegt er að ganga inn á milli tindanna, þ.e.a.s. fyrir þá sem rata, en á einstaka stað þarf að hitta á þröng einstigi þar sem auðvelt er að fara um.

Sveifluháls

Sveifluháls – Ketilsstígur.

Haldið var yfir Ketilsstíg og upp að Arnarvatni, sem er sprengigígur líkt og Grænavatn. Á vinstri hönd var hæsti tindur Sveifluhálsins, Arnarnýpa. Framundan var Hetta og Hattur á vinstri hönd. Af þeim er útsýni niður að Fögruflatarhorni. Áður var gengið niður með Slögu og hálsinum fylgt um Bleikingsdal að Drumbi og Urðarfelli, haldið um Klettavelli niður að Krýsuvíkurmælifelli og beygt þar til austurs að Einbúa þar sem gangan endaði, en nú var Ketilsstíg fylgt til vesturs, sem fyrr sagði.
Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir, sem hafa orðið til við gos á sprungurein undir jökli.

Sveifluháls

Sveifluháls – Innri Folaldadalur.

Hálsarnir eru samsettir úr mörgum goseiningum. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.
Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík. Í rauninni eru móbergshryggirnir fleiri á svæðinu. Latur, Latstögl og Latfjall er einn þeirra, en jarfræðilega gæti hann áður hafa verið hluti af Vesturhálsi, en hraun aðskilið hann.

Sveifluháls

Sveifluháls – Ytri Folaldadalur.

Krýsuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufu- og leirhverum. Jarðhitavatnið er lítið salt og hefur hitinn mælst 230-260°C sem er mjög ákjósanlegur hiti til gufuframleiðslu. Jarðhitasvæðið er aðgengilegt ferðamönnum, einkum hverasvæðið við Seltún austan við Sveifluháls.
Þeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík, bæði við Seltún og í Baðstofu. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni.

Sveifluháls

Sveifluháls – Arnarvatn.

Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum. Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir. (Sveinn Þórðarson, 1998)

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Árið 1941 fékk Hafnarfjarðarbær afsal fyrir jörðinni Krýsuvík ásamt hitaréttindum. Sama ár voru boraðar þrjár tilraunaholur við sunnanvert Kleifarvatn. Ætlunin var að komast að því hvort þar mætti fá gufu til að framleiða rafmagn fyrir Hafnarfjarðarbæ. Það varð þó ekki raunin því ekki fékkst nægt vatn eða gufa úr holunum. Hafnfirðingar gáfust þó ekki upp og árin 1945 og 1946 var ráðist í nýjar boranir. Tilgangurinn var sem fyrr að fá gufu til að framleiða rafmagn en einnig að virkja jarðhitann til upphitunar gróður- og íbúðarhúsa á jörðinni. Í þetta skiptið gekk aðeins betur og fékkst meiri gufa en í borununum árið 1941. Gufan var nýtt til upphitunar í Krýsuvík en ekki var ráðist í gerð jarðgufustöðvar eins og staðið hafði til og streymdi því gufan út í loftið, engum til gagns.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Enn sem komið er hefur ekki orðið neitt úr framkvæmdum um nýtingu jarðhitans í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og upphitunar en það er þó ekki ólíklegt að jarðhitinn á svæðinu verði nýttur í framtíðinni til upphitunar á höfuðborgarsvæðinu eða iðnaðarframleiðslu. Orkustofnun hefur einnig látið bora rannsóknarholur og gert víðtækar rannsóknir á svæðinu í gegnum tíðina.
Sem fyrr sagði er Sveifluhálsinn með tilkomumeiri göngusvæðum landsins. Framangreind leið er ein sú stórbrotnasta.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-Kristján Sæmundsson.
-Halldór Ármannsson og Sverrir Þórhallsson, 1996: Krýsuvík, Yfirlit um fyrri rannsóknir og nýtingarmöguleika ásamt tillögum um viðbótarrannsóknir. Orkustofnun, OS-96012/JHD-06 B. 25 bls.
-Sveinn Þórðarson, 1998: Auður úr iðrum jarðar. Í: Ásgeir Ásgeirsson (ritstj), Safn til Iðnsögu Íslendinga XII. bindi (ritröð). Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 656 bls.
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.