Krýsuvík

Mánudaginn 12. marzmánaðar var kveðinn upp dómur í máli bóndans á Litla-Nýjabæ í Krýsuvík; nr. 3/1906: Réttvísin gegn Sigurði Magnússyni.
Krysuvik-loftmynd-221“Dómur – Mál þetta var í héraði höfðað gegn ákærða, sem þá var bóndi í Litla-Nýjabæ í Krýsuvík, fyrir að hafa dregið óleyfilega undir si gull af kindum, er aðrir áttu, en hann rúði fyrir þá óbeðið, eins og alltítt er að bændur geri í Krýsuvík við kindur utansveitarmanna, er þar hittast órúnar.
Var málið dæmt í aukarétti Gullbringu- og Kjósarsýslu 25. okt. f. á. þannig, að refsing fyrir brot það, er ákærði áleizt sekur um og heimfært var af héraðsdómaranum undir 259. gr. alm. hegningarlaga, var látin niður falla, en ákærði dæmdur til að greiða kostnaðinn, er af málinu leiddi. En þessum dómi hefir stjórnarráðið skotið til yfirdómsins.
Það er sannað í málinu með játningu ákærða og öðrum skýrslum, að vorið 1904 rúði hann í Krýsuvíkurrétt meðal annara kinda svarta á tilheyrandi Halldóri bónda Halldórssyni á Setbergi, en skilaði ekki ullinni eigandanum, heldur tók hana til sín og hagnýtt sér hana. Ákærði hefir fært sér það til afsökunar, að hann hafi verið í óvissu um, hver kindina átti, vegna óglöggs eyrnamarks á henni. Ákærða var þó skýrt frá því í réttinni, hver eigandi kindarinnar væri, og hún var með réttu horna- og brennimarki þess manns, er hún var eignuð, og þar sem ákærði lét þó ullina saman við sína eigin ull, án þess að grenslast nokkuð eftir eiganda kindarinnar, verður að álíta, að hann hafi sviksamlega dregið sér hana.

Krýsuvíkurrétt

Krýsuvíkurrétt.

Það hefir verið borið í málinu, að ákærði hafi einnig dregið undir sig ull af 2 öðrum kindum, er hann hafi rúið, aðra vorið 1903, en hina vorið 1904, en ákærði hefir neitað því, að hafa rúið og tekið ull af kindum þessum, og hefir ekki fengist full lagasönnun til að hnekkja þessari neitun hans.
Þá er það og upplýst í málinu, að ákærði sumarið 1904 lagði inn í kaupstað miklu meiri ull en hann gat hafa fengið af kindum þeim, er hann átti sjálfur, og að vísu er sú skýring hans á þessu atviki harla ósennileg, að hann hafi fundið alla þá ull, um eða yfir 70 pd., í haganum sumarið 1903 og vorið 1904, sem innlegg hans nam meiru en ullinni af hans eigin kindum.
Hinsvegar sést það af málinu, að aðrir menn hafa fundið á sama hátt ull svo tugum punda skifti, einkum sumarið 1903, og virðist því ísjárvert að telja það sannað, að ákærði hafi verið óráðvandlega kominn að ullarinnleggi sínu eða nokkru af því.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Það verður þannig eigi álitið, að ákærði hafi gerst sekur i öðru refsingarverðu athæfi en ullartöku þeirri af kind Halldórs Halldórssonar, er fyr er nefnd, og er rétt að heimfæra það brot ákærða, eins og héraðsdómarinn hefir gert, undir 259. gr. alm. hegningarlaga, en þar sem ákæruvaldið hefir eigi viljað sleppa málsókn fyrir brotið, verður ákærði að sæta refsing fyrir það, er þykir hæfilega ákveðin 8 daga einfalt fangelsi. Ákærða ber að greiða allan kostnað, er leitt hefir af málinu, bæði í héraði og fyrir yfirrétti, þar með talin málflutningslaun sækjanda og verjanda fyrir yfirdóminum, er ákveðast 10 kr. til hvors þeirra.
Það vottast, að rekstur málsins í héraði hefir verið vitalaus og málsfærslan fyrir yfirdóminum lögmæt.
Því dæmist rétt vera:
Ákærði Sigurður Magnússon á að sæta 8 daga einföldu fangelsi, og greiða allan kostnað málsins, bæði í héraði og fyrir yfirdómi, þar með talin málflutningslaun skipaðs sækjanda og skipaðs verjanda við yfirdóminn, yfirréttarmálaflutningsmannanna Odds Gíslasonar og Guðm. Eggerz, 10 kr. til hvors þeirra. Dóminum að fullnægja með aðför að lögum.”

Heimild:
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar úr íslenskum málum, 7. árg 1909, bls. 212-214.

Kind

Kind virðir fyrir sér kvöldsólina.