Hvaleyri

Nesið sunnan við Hafnarfjörð hefur heitið Hvaleyri frá fornu farí, ef marka má Landnámu. Þar áttu þeir viðdvöl, Hrafna Flóki og hans menn og fundu rekinn hval eftir því sem sagan segir, og nefndu staðinn Hvaleyri. Sé það rétt, mun það örnefni elzt við Faxaflóa. Síðan fer litlum sögum af landnámi og búskap á Hvaleyri. Þar var grösugast við Hafnarfjörð og kotin urðu mörg og smá. Líkt og víðast annarsstaðar suður með sjó, var fátæktin förunautur þeirra sem kusu sér búsetu þar og nábýlið við Bessastaði var búendum ekki fagnaðarefni.
Túnin á Hvaleyri voru grasgefin og þar var þó ólíkt betra undir bú en suður í Hraunum eða á Vatnsleysuströnd.
sveinskot-1Þannig leið tíminn án sjáanlegra stórmerkja, unz þáttaskil urðu fyrir 10 árum, að Golfklúbburinn Keilir fékk túnin til umráða og þar hefur verið golfvöllur síðan. Það voru undarleg ósköp í augum þeirra, sem höfðu erjað þessa jörð og aldrei litið uppúr puðinu. En tímanna tákn var það aungvu að síður.
Nú hafa kotin verið jöfnuð við jörðu. Eftir standa Vesturkot, sem nú er félagsheimili golfklúbbsins Hvaleyrarbærinn, sem senn mun hverfa — og Sveinskot, neðan við veginn, skammt eftir að komið er inn á Hvaleyrina. Það er eini bærinn, sem eftir er og hefur dálítinn afgirtan túnbJett út af fyrir sig, íbúðarhús og útihús. En einnig þar er allt á síðasta snúningi og meðfylgjandi myndir frá í vor voru teknar til að halda á lofti minningunni um síðasta bæinn á Hvaleyri og bóndann þar, Ársæl Grímsson. Húsið ber svipmót kreppuáranna, klætt bárujárni og lítið á mælikvarða nútíðar. En það ber með sér þokka, sem smiðir þessa tíma gátu laðað fram, þó ekki væri úr miklu að spila. Út um víðan völl voru lambærnar að kroppa grængresið, gular á lagði.
Eins og í hverjum öðrum vorönnum, grípur Ársæll í að verka svo sem eina hjólbörufylli af grásleppu og hengir á rár. Það er eins og vant er, að bóndinn sér ekki út úr verkefnunum og hefur hann þó í fleiri horn að líta en þau, sem blasa við augum innan girðingar í Sveinskoti. Frá stofnun golfklúbbsins hefur Ársæll verið ötull og ómissandi starfskraftur og hefur hann bætt við eigin bústörf lengri vinnudegi á golfvellinum en hægt er að ætlast til að einn maður geri, jafnvel þótt hann væri á bezta aldri.
Það sýnist þó ekki há Ársæli, að hann er nálega jafn gamall öldinni; 76 ára, og mættu ýmsir sveinskot-2aldarfjórðungi yngri, öfunda hann af þrekinu. Sjálfum þykir honum ekki svo mikið til þess koma. Hann þekkir ekki annað en vera fílhraustur og hann hefur aðhyllst þá kenningu um dagana, að vinnan sé guðs dýrð, eins og Halldór Laxness segir einhversstaðar, og guðsdýrðin verður aldrei meiri en á vorin, þegar helzt þarf að gera allt í senn: Bera áburð, hengja upp grásleppu, slá brautir og flatir á golfvellinum og sinna lambfé. Á vorin og sumrin er Ársæll kominn til starfa um sexleytið á morgnana og heldur sínu striki frameftir deginum fyrir því.
Eftir tveggja ára búskap á Tóftum við Grindavík fluttist Ársæll með fjölskyldu sína að Sveinskoti á Hvaleyri, sem hefur orðið honum kærastur samastaður; svo samgróinn er hann eyrinni, að hann er líkt og hluti af ásýnd staðarins.
Um það leyti sem þau hjón fluttu þangað inneftir, voru fimm bæir á Hvaleyri: Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyri, Vesturkot og Halldórskot. Nú var mun landþrengra en á Tóftum, en túnið var og er grasgefið og hann gat haft 7 kýr, 40—50 fjár og einn vagnhest. Ekki var þó alveg heyfengur handa þeirri áhöfn, en hér var Ársæll kominn í tölu mjólkurframleiðenda. Mjólkin var sótt til Hafnarfjarðar og fór í samsöluna í Reykjavík. En jafnframt stundaði Ársæll vinnu hjá Olíustöðinni í Hafnarfirði þegar tími gafst til. Það fór vel um þau í Sveinskoti og þau fundu, að þarna áttu þau heima. Þeim Ársæli og Hansínu varð auðið þriggja dætra og tveggja sona. Annar sonanna drukknaði af Grindvíkingi, en Grímur sonur þeirra er einn af grásleppukóngunum svonefndu við Hafnarfjörð.
Þáttaskil urðu í búskap Ársæls í Sveinskoti urðu þegar Golfklúbburinn Keilir fékk Hvaleyrina til umráða.

Hvaleyri

Hvaleyri – túngarður.

Þegar það var á döfinni, kvaðst Ársæll hafa kviðið fyrir þeim umskiptum, sem hlutu að verða, án þess þó að hafa hugmynd um, hvað þar var á ferðinni. Það fór þó svo, að Ársæll varð nánast ómissandi starfskraftur fyrir þennan félagsskap og óhætt að segja, að hann er tengdur honum sterkum böndum. Það var enda að vonum og verðleikum, að Ársæll var sæmdur heiðursmerki Keilis á tíu ára afmæli klúbbsins á þessu ári.
Fyrir tveimur árum urðu enn þáttaskil. Þá fluttust þau hjónin úr gamla húsinu í Sveinskoti í sambýlishús við Suðurgötu í Hafnarfirði. Þau voru heppin með sambýlisfólk, en þetta voru aungvu að síður mikil viðbrigði og Ársæll kveðst ekki beint geta sagt, að hann eigi þar heima. „Ég á fyrst og fremst heima á Hvaleyrinni,” segir Ársæll, „af þeim stöðum sem ég hef búið á, hef ég kunnað bezt við mig þar”.
Ársæll lést 23. febrúar árið 1998.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 6 nóv. 1977, bls. 8-9 og 16.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.