Þorbjarnastaðastekkur

Gengið var upp með vestanverðum Þorbjarnarstaðatúngarðinum með það fyrir augum að skoða Straumsstíg (Straumsselsstíg) upp í Tobbuklettaskarð, rekja síðan markavörður með hraunbrún til suðurs, fara niður í Grenigjá og fylgja gjáargötunni inn á Straumsselsstíg og síðan til baka.

Tóftir Þorbjarnarstaða í Hraunum

Meðfram austurtúngarðinum á Þorbjarnastöðum lá Straumsstígurinn. Honum var fylgt norður með tvöfalt hlöðnum túngarðinum. Var þá fyrst komið að Lambhúsinu, sem er rétt utan við Lambhús-hliðið. Vikið var svolítið af leið. Við norðurtúngarðinn er/var Þorbjarnastaðaréttin, vel hlaðin rétt af grjóti. Hún hefur haldist vel – hleðslur eru um 120 cm að jafnaði. Hér var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot – fallegt mannvirki og fagur vitnisburður um fyrrum búskaparhætti í Hraunum.
Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum eru tveir hraundrangar, nær mannhæðarháir og voru áberandi af sjó fyrrum. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli (austanvert fellið) var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni. Þar utan við er nú innsiglingin inni í Straumsvíkurhöfnina. Fiskurinn lá gjarnan í hraunkantinum og það vissu útvegsbændurnir.
Í GránuhelliRétt suður af Þorbjarnarstaðatúni er Miðmundahæð. Á henni er Miðmundarvarða og austur af henni er svonefnt Seljahraun sem nær svo að merkjum. Rétt er að geta þess að Geldingahraun (Afstapahraunið eldra) er þarna þversum á millum – ein og glöggleg má sjá). Ofan þessa hrauns er eru svo gjár sem heita Grenigjár. Neðan við Seljahraunið er svo hæð sem heitir Gvendarbrunnshæð og þar er gömul svalalind Gvendarbrunnur. Þá er Rauðimelur, austur af honum er í Hrauninu Rauðamelsrétt. (Þegar hér var komið var örnefnalýsingin komin út fyrir göngusvæðið). Því er hér farið aftur inn á Straumsselsstíg neðan (norðan) Geldingahrauns.
Hér liggur stígurinn upp með sléttri klapparhæð. Norðan hennar er Stekkurinn; falleg heimafjárrétt Þorbjarnarstaðafólksins. Fyrrnefnda var sameignarrétt, en þessi; undir hárri hraunklapparbrún í góðu skjóli, tvíhlaðin af festu, var réttin þeira. Í henni er hlaðin lambakró, sem segir nokkuð til um til ganginn, líkt og sjá má í heimarétt Óttarsstaðamanna allnokkru norðvestar.
Eftir að Stekkurinn/réttin hafði verið virt virðingarinnar viðlits í kvöldsólinni var haldið til vesturs yfir að Gránuhelli/-skúta. Hlaðinn ingangurinn sést vel kunnugum, en getur leynst furðuvel ókunnugum. Innan við opið er flórað gólf, eitt af fáum fjárskjólum með ummerkjum um slíka natni við sauðkindina.
Tobbuklettar austariSkammt norðaustar er varða á enn einum hraunhólnum. Hún virðist merkingarlaus, en ef betur er að gáð má sjá allgóða sprungu í hólinn við vörðuna. Þegar farið var niður í sprunguna var hægt að horfa inn í hinn myndarlegasta skúta þvert á gjána; allgott skjól fyrir þann eða þá, sem þar vildu leynast. Grjót hafði verið fært til við innganginn, en alls ekki þannig að það yki útsýnið í skjólið. Ef laust hefði verið um þetta skjól má ætla að einhver hafi haft um það leynd óskráð orð – einhvern tímann.
Haldið var áfram upp eftir Straumsselsstíg. Í Geldingahrauni er hástend varða, á uppréttu klettanefni. Gengið var  yfir línuveginn og stígnum fylgt upp í Tobbukletta. Klettarnir nafngreindu eiga að hafa verið þrír; og þeir eru það, ef vel er að gáð.
Í örnefnalýsingum hefur verið getið um Tobbukletta vestari og Tobbukletta austari. Einhverra hluta vegna hefa vestari klettarnir verið færðir vestar svo austari Tobbuklettar hafa orðið að Tobbuklettum austari. Í raun eru klettarnir u.þ.b. 30 metra frá hvorum öðrum – sitt hvoru megin við Tobbuklettaskarð.
GrenigjárréttFörum spölkorn til baka. Í örnefnalýsingu segir að “af Tókletti lá landamerkjalínan suður yfir Seljahraun í Tobbuklett vestari. Þar uppi á klettunum er Tobbuklettsvarða. Í skrá G.S. segir, að þarna hafi einnig verið Tobbuklettsrétt. “Nafnið þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar. Vestur frá Tobbuklettum eru klettar miklir og margsprungnir. Óvíst er um heiti þeirra, en vestan þeirra eru Grenigjár. En suður frá Tobbuklettum liggur landamerkjalínan um Flárnar eða Flárnar nyrðri eða Neðriflár.”
Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. “Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefur verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).”
Þegar svæðið er skoðað gaumgæfilega mátti sjá hleðslu (aðhald) í klettunum austan Straumsselsstígs. Grasgróningar eru í botninum. Opið er mót norðvestri. Hraunkarl við GrenigjárréttLandamerkjavarðan er ofan skjólsins. Skammt vestar eru Tobbuklettar vestari. Í þeim er fyrirhleðsla í klettasprungu. Ofan sprungunnar er varða; “Tobbuklettsvarða”?
Reyndar ætti austari varðan að hafa þann titil því svo til í beina stefnu frá henni til suðurs eru a.m.k. 6 vörður; landamerkjavörður. Tvær þeirra standa á Draughól. Svo til beint ofan við Grenigjár eru tvær vörður.
Þegar stefnan var tekin frá þeim niður í Grenigjár (sem fremur ættu að heita Birkigjár m.v. hávaxnar birkihríslurnar í lægðum gjánna), var tiltölulega auðvelt að rata leiðina niður í Grenigjárréttina. Gjárnar eru þó ekki nefndar eftir gróðrinum heldur grenjum, sem þar voru (eru).
Réttin er mótuð í náttúrulega ílanga klapparhæð. Fyrirhleðslur er í gjánni og hlaðið umhverfis. Op er á réttinni til norðurs. Austan þess er sérkennilegur og sérstakur hraunkarl, líkt og oft má sjá í aplahraunum.
Þegar gengið var til baka, mót kvöldsólinni, var komið að Miðmundahæð suðaustan Þorbjarnarstaða, eyktamarki frá Þorbjarnarstöðum. Þar er fyrrgreind stór varða.
Þegar komið var niður með tvíhlöðnum görðum hinna gömlu Þorbjarnarstaða, þess einstaka staðar er hýsti, verndi og kom fjölda barna til mannvista, þ.e. tóftir bæjarins anspænis bláköldum nútímanum, stærðarinnar farmskipi og álveri í bakgrunni, vakna óneitanlega spurningar – um lífið og tilgang þess??!!
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Straum (AG og GS) og Þorbjarnarstaði (GS).
-Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnarstöðum og Ingveldur Jónsdóttir, húsfreyja á Þorbjarnarstöðum.

Alafaraleið

Varða við Alfaraleið.