Krýsuvíkurheiði

Lagt var af stað frá timburrétt Hafnarfjarðarfjárbænda undir Stóru-Eldborg. Þar neðan við eru austurmörk beitahólfs þeirra.
JónsbúðMiðað við gögn á Þjóðskjalasafninu frá árinu 1941 mun svæðið vera í Grindavíkurlandi því spilda sú er Hafnfirðingum var afhent á silfurfati af þáverandi ráðherra (fyrrverandi bæjarfulltrúa og bæjarstjóra í Hafnarfirði nær alls ekki svo langt til austurs sem beitarhólfið. Fjárbændur í Hafnarfirði hafa því verið þarna í óþökk Grindvíkinga í 67 ár með fé sitt. Auk þess er skv. lögum óheimilt að girða af svæði með ströndum landsins eða þvert á þjóðleiðir, eins og raunin mun vera þarna núna. Hafnfirðingum til varnar má geta þess að fyrsta beitarhólfsgirðingin náði ekki alveg niður á Krýsuvíkurbjarg. Hún var u.þ.b. 100 metrum ofan þess (leifar hennar sjást enn), en Landgræðsla ríkisins mun síðan hafa farið offari og sett upp nýja girðingu (í Grindavíkurlandi án þess að biðja um leyfi) frá þjóðveginum og alla leið niður á bjargbrún skammt vestan við Bergsenda. Spildumörk Hafnfirðinga sunnan Kleifarvatns eru mun þrengri en þeir hafa viljað vera láta.
Stefnan var tekin á suðaustanverða Krýsuvíkurheiðina. Í Litlahrauni ofan við Bergsenda á Krýsuvíkurbergi, sunnan Uppdrátturheiðarendans, eru búskaparminjar frá fyrri öldum, s.s. fjárskjól, grjóthlaðin rétt (og stekkur), húsarúst o.fl. Þarna hefur Gvendarhellir, sem reyndar er í Klofningum, nokkru austar, verið ranglega staðsettur. Ofar, í heiðarbrúninni, eru tvö hlaðin hús. Á korti eru þarna merktar tvær réttir. Á heiðarendanum er beitarhúsarúst. Allt er þetta hluti af heilstæðu búsetulandslagi Krýsuvíkur.

Fornleifaskráning er framkvæmd var á svæðinu vegna fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar 2003 virðist í besta falli hafa verið lélegu brandari. Þrátt fyrir það lagði Vegagerðin hana til grundvallar rökstuðningi sínum fyrir vegstæðinu – sem reyndar er dæmigert fyrir slíkar framkvæmdir víðar um land. Þegar skoða á svo stór svæði með hliðsjón af öllum hugsanlegum og mögulegum minjum þarf að áætla miklu meiri tíma í slík en gert hefur verið og viðurkenna um leið mikilvægi þess. Svo virðist sem verktakar fornleifaskráninga hafi annað hvort slegið slöku við eða þeim ekki verið gert kleift að sinna starfi sínu sem skyldi.
HúsiðÁ slíkum búsetusvæðum, sem nýtt hafa verið í árþúsund mætti ætla að væru ýmsar mannvistaleifar, sem erfitt væri að koma auga á, einkum þegar haft er að leiðarljósi að landssvæðið er bæði víðfeðmt og hefur tekið verulegum gróðufarslegum breytingum á umliðnum öldum. Kannski að þarna kynnu að leynast enn áður óþekktar minjar?!!
Auk minjanna hefur þess sérstaklega verið getið að örn hafi verpt í hrauninu og lengur ofan við Herdísarvík. Erfitt reyndist að staðsetja arnarhreiðrið af nákvæmni því nokkrir staðir komu til greina. Hafa ber í huga að gróðurfar á þessu svæði, einkum norðvestan við Litlahraun, hefur tekið miklum breytingum tiltölulega skömmum tíma.
Fyrst var komið við í Jónsbúð. Í fornleifaskráningunni segir m.a.: “Rúst (beitarhús?). 6 x 13 m (N – S). Veggir úr grjóti, 1,5 – 2,3 m Húsiðbreiðir og 0,5 – 1,1 m háir. Dyr eru á rústinni til S. Mikið er af grjóti inni í rústinni norðanverðri og við dyrnar. Veggir eru farnir að gróa mosa og grasi. Garðlög sjást í innanverðum veggjum að vestanverðu og utanverðum veggjum að austan og vestan. Gólf er vel vaxið grasi og mosa. Í kring um rústina er svæðið vel gróið. Hugsanlega er þetta ekki Jónsbúð, heldur eru það fornleifar nr. 285 [húsið er fjallað verður um næst]. Ekki er ágreiningur um staðsetningu Jónsbúðar því Magnús, síðasti bóndinn í Krýsuvík lýsti vist sinni þar í viðtölum.
“Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var beitarhús. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.”

Skjól

Eftir að hafa skoðað leifar Jónsbúðar var stefnan tekin á hlaðið hús suðaustan í Krýsuvíkurheiðinni. Það, sem slíkt, hefur valdið þeim fáu, sem það þekkja, öllu meiri höfuðverk. Húsið er hlaðið með þykkjum veggjum með dyr mót suðri. Ljóri hefur verið á norðurvegg. Gengið hefur verið niður um þrep við dyr. Í fornleifaskráningunni segir: “Rúst 6 x 8 m (N – S). [Á að vera 3 x 8]. Veggir úr grjóti, 1,3 – 1,6 m breiðir og 0,6 – 1,4 m háir. Dyr eru á rústinni mót S (mót hafinu).
Garðlög eru greinileg víðast hvar. Rústin er felld inn í dæld í slakkanum. Gólf er vel gróið grasi og mosa. Hugsanlega er það grafið niður. Nánasta umhverfi rústarinnar er vel gróið grasi. Hugsanlega er það grafið niður. Nánasta umhverfi rústarinnar er vel gróið grasi. Hugsanlega er þetta Jónsbúð en ekki fornleifar nr. 283.”
Ýmsar kenningar hafa verið um notkunargildi þessarar heillegu rústar. Sérstaklega stórir steinar hafa verið færðir í vegghleðsluna svo þarna hljóta margir menn hafa verið að verki. Getgátur hafa verið um að a) þarna kunni að vera mannvirki frá pöpum, b) varðhýsi til að fylgjast með skipakomum eftir Tyrkjaránið, c) sæluhús skreiðaflutningslestarmanna millum Grindavíkur (Selatanga) og Suðurlands, d) skjól fyrir refaskyttur, e) aðhald fyrir stórgripi og fleira mætti nefna.

Rof

Skammt vestar er hleðsla. Í fornleifaskráningunni segir um hana: “Byrgi. 2 x 2,5 m (NNA – SSV). Veggir úr grjóti, ca. 0,3 – 0,7 m breiðir og 0,2 – 0,7 m háir. Dyr eru á byrginu mót SSV (mót hafinu). Við NV – horn byrgisins er fuglastapi. Gólf er vaxið grasi og mosa. Hugsanlega er þetta skotbyrgi, en ekki hægt að útiloka að það tengist fornleifum nr. 285 á einhvern hátt (smalakofi?) eða útsýnisstaður frá tímum Tyrkjaránsins 1627.” Augsýnilega hefur hér verið um að ræða tímabundið skjól fyrir tófuskyttur á heiðarbrúninni.
Hafa má í huga hina miklu umferð skreiðarlestanna fyrrum. Skreiðarlestargatan frá Grindavík lá við Arnarvatn suðaustan við samnefnt fellið.
Þegar gengið var til suðausturs niður Krýsuvíkurheiðina, áleiðis að Litlahrauni, blasti hin mikla gróðureyðing liðinna áratuga við. Mótvægisaðgerðir Grindavíkurbæjar virtust þó hafa skilað sér vel því vel var gróið millum hárra (1.20 m) moldarbarða.

Stekkur

Dr. Guðrún Gísladóttir, náttúrulandfræðingur og prófessor við Land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands, hefur fjallað um gróðureyðinguna á Krýsuvíkurheiði.
“Krýsuvíkurheiði á Reykjanesskaga er eitt þeirra svæða á landinu sem hafa liðið fyrir alvarlega gróðurhnignun og ákaft jarðvegsrof og er meginhluti svæðisins nú ógróinn. Gerð verður grein fyrir áhrifum jarðvegsrofs á kolefnisbúskap jarðvegs og landgæði á þessu svæði á sögulegum tíma. Í þeim tilgangi voru mæld jarðvegssnið þar sem jarðvegsþykknun frá landnámi var mæld, sem og kolefnishlutfall og uppsöfnun kolefnis. Einnig var áætlað heildarmagn áfoks og jarðvegstap á svæðinu frá landnámi og magn kolefnis sem hefur safnast upp í kjölfar áfoks og hversu mikið hefur tapast af svæðinu vegna rofs.

Rétt

Fljótlega eftir landnám fór að bera á auknu áfoki, sem jókst til mikilla muna eftir 1226 vestast á svæðinu. Jarðvegsþykknun varð mikil og jarðvegur allur grófari og lausari í sér. Sambærilegar breytingar urðu ekki fyrr en eftir 1500 austar á rannsóknarsvæðinu. Hið mikla áfok og jarðvegsrof hefur leit til gríðarlegrar landhnignunar á svæðinu. Þó ber að geta þess að mikil uppgræðsla hefur átt sér stað á Krýsuvíkurheiði á undanförnum árum, en svæðið á langt í land með að ná þeim landgæðum sem voru á svæðinu við landnám.
Krýsuvík og nágrenni á sunnanverðum Reykjanesskaga er alvarlegasta og verst farna svæði gróðureyðingar og jarðvegsrofs í Gullbringu- og Kjósarsýslum. Þar er unnið að umfangsmiklum landgræðsluverkefnum með það að markmiði að stöðva hið mikla jarðvegsrof sem enn á sér stað, skapa með uppgræðslu skilyrði til þess að staðargróður geti numið land á ógrónum svæðum og koma í veg fyrir að gróður í beitarhólfunum, sem þar eru, skaðist vegna búfjárbeitar.

Fjárskjól

Þótt upplýsingar um gróður fyrr á tímum í Krýsuvík séu litlar og ekki nákvæmar, er ljóst að þar hefur orðið mikil landhnignun. Líkur eru á að þar hafi fyrrum vaxið birkiskógur, en af þeim birkiskógi sem nefndur er í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og nýttur var til kolagerðar og eldiviðar um 1700 er nú ekkert eftir nema nokkrar jarðlægar hríslur. Ekki er ljóst hvenær gróður- og jarðvegseyðing hófst í Krýsuvík, en líklegt er að hún hafi verið einna mest á 18. og 19. öld.
Niðurstöður rannsókna, m.a. Guðrúnar Gísladóttur (1993, 1998 og 2001), Ólafs Arnalds o.fl. (1997) og Sigurðar H. Magnússonar (1998) sýna fram á vægast sagt slæmt ástand lands í Krýsuvík og nágrenni. Í riti Ólafs o.fl.(1997) um jarðvegsrof á Íslandi er tilgreint fyrir Krýsuvík, bls. 133; „Mikið jarðvegsrof á sér stað í Krýsuvík, á 72% landsins á sér stað mikið og mjög mikið rof (einkunnir 4 og 5). Þetta rof veldur tapi á samfelldu gróðurlendi og segja má að stærsti hluti Krýsuvíkursvæðisins sé samfellt rofabarðasvæði (samtals 34 km2 í flokkum 3, 4 og 5). Krýsuvík er á meðal þeirra svæða landsins þar sem rof er mest“.

Sundvarðan

Á rannsóknasvæði Guðrúnar nam hlutdeild ógróna landsins 61%, en smárunnar þöktu um 20%. Hjá Sigurði kemur m.a. fram að rofdílar eru algengir á gróðurtorfum, þ.e. að gróðurhulan þar er veik, sérstaklega á Krýsuvíkurheiði, og þar er frostlyfting mikil og gróður á því erfitt með að nema land af sjálfsdáðum.
Meginmarkmið uppgræðslustarfsins hefur verið að stöðva hina geigvænlegu eyðingu gróðurs og jarðvegs sem þarna hefur herjað síðustu tvær aldirnar. Verkefnið undirstrikar m.a. hve mikilvægt það er að stöðva samspil frostlyftingar, vatnsrofs og vindrofs. Vatnið sem veldur mestu rofi berst langt og fer hratt á gróðurlausu landi, og því þarf að vinna m.t.t. þess. Laust efni getur einnig borist langa leið með vindi og sargað úr börðum. Því þarf að taka stór svæði fyrir í einu.

Krýsuvíkurbjarg

Annað meginmarkmið er að skapa skilyrði fyrir staðargróður að nema land á ógrónum svæðum. Markmið áburðardreifingar og sáningar er fyrst og fremst að skapa slík skilyrði, hinum áburðarkæru grösum er ætlað að deyja, sinunni að rotna og annar gróður á að taka við. Þá þarf að rata hinn gullna meðalveg milli þess að bera nóg á, bæði í magni og tíðni, og þess að bera ekki það mikið á að það trufli landnám þeirra plantna sem taka eiga við. Misjafnt er hvað við á eftir aðstæðum og erfitt að yfirfæra þekkingu annars staðar frá með beinum hætti.

Vatnsstæði

Landgræðslan hefur lengi átt gott samstarf við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum um uppgræðslu í Krýsuvík, en gert er ráð fyrir að verkefnum þar ljúki að mestu 2010. Aðferðafræðin felur að mestu í sér væga áburðargjöf, um 150 til 250 kg/ha, í tvö til fjögur ár til að laða fram staðargróður sem lúrir í landinu. Þar sem land er naktast, t.d. með minna en 5% gróðurhulu, er sáð blöndu af túnvingli og vallarsveifgrasi til að m.a. stöðva frostlyftingu og skapa skilyrði fyrir gróður úr nágrenninu að nema land. Reikna má með að heildarkostnaður við uppgræðslu og stöðvun jarðvegsrofs á þessum slóðum á árabilinu 1976 til 2010 verði í allt um 70 til 100 milljónir króna. Allt uppgræðslulandið hefur verið notað til sauðfjárbeitar, en vorið 2005 verður hluti þess friðaður.
Stór hluti hins illa farna uppgræðslulands er innan beitarhólfa fyrir sauðfé, og líta má að hluta á uppgræðslustarfið sem mótvægisaðgerð til að koma í veg fyrir að beitin valdi frekara tjóni á landi. Land HafnarfjarðarBeitin hefur mikil áhrif á þróunarmöguleika gróðurfarsins, ekki síst vaxtarmöguleika víðis og blómplantna, en óljóst er hve áhrifin eru mikil í heild. Með beitarhólfunum tókst að friða margfalt stærri svæði utan þeirra, stóran hluta Reykjanesskaga, sem örvar mjög gróðurframfarir þar. Eftir stendur sú spurning hvernig meta eigi saman þann ávinning og aukinn uppgræðslukostnað vegna beitar innan beitarhólfanna.”

Aðhald

Litlahraun eru tvær vestustu spýjurnar úr Litlu-Eldborg (fyrir tæplega 3000 árum). Í hrauninu er að finna ílangan stekk (sennilega kúastekk), hlaðna rétt, sem eflaust hefur verið stekkur, fjárskjól og vörður, auk fyrirhleðslna víðast hvar og nátthaga. Þrátt fyrir leit fundust ekki leifar íveruhúsa, sem ætla mætti að ættu að vera þarna á svæðinu. Lausnin gæti verið fólgin í hlaðna húsinu fyrrnefnda utan í Krýsuvíkurheiðinni.
Hlaðin sundvarða, friðuð, er á Krýsuvíkurbjargi. Hún hefur sennilega verið mið af sjó – og þá jafnvel fleiri en eitt. Skammt ofan við hana er hlaðið aðhald. Eflaust má finna fleiri búsetuminjar á þessu svæði ef gaumgæft væri. Bergsendi er t.d. skammt austar og ofan við hann er Krýsuvíkurhellir með mannvistarleifum.
Þegar komið var til baka að réttinni fyrstnefndu voru þar fyrir nokkrir fjárbændur. Voru þeir að lagfæra timburverkið því ætlunin var að rétta þar að þremur vikum liðum. Þeir, einkum sá minnsti og belgmesti, byrjuðu móttökurnar með látum: “Hvað eru þið að gera hér? Hvaðan komið þið? Vitið þið ekki að bannað er að vera með hund í beitarhólfinu? Þið eigið bara ekkert að vera hér á þessu svæði? Þið vitið ekkert um landamerki hér!”

Hafflöturinn

Svörin voru þessi: “Og hverjir eruð þið? Hafnfirskir tómstundafjárbændur, einmitt það? Þá eigið þið ekkert með að vera hér í Grindavíkurlandi. Reyndar megið þið ekki einu sinni standa hér án leyfis Grindvíkinga, strangt til tekið. Og hundurinn gerir engum mein, allra síst öðrum ferfætlingum og öðrum fáfættari. Komið ykkur bara yfir á land Hafnfirðinga, sem er þarna vestar á Krýsuvíkurheiðinni! Og hvað segir Jónsbók um aðgengi fólks að svæðum sem þessum? Það væri hægt að dæma ykkur, eða þá er girtu svæðið af, í háar sektir, gerið ykkur grein fyrir því.” (Það er alltaf auðvelt að rífa kjaft á móti þegar svo ber undir.) Og talandi um landamerki – þá er fyrrverandi bæjarstjóri Grindavíkur hér með í för, sá er hvað mesta og besta vitneskju hefur einmitt um þennan fróðleik – gjörið svo vel!”

Göngusvæðið

Við þessi svör sljákkaði heldur betur í áður kotrosknu hobbýfjárbændunum, einkum þeim litla. Héðan í frá gátu umræðurnar farið fram með rólyndislegri og vitsmunalegri hætti. Í ljós kom að Hafnarfjarðarfjárbændur og nágrannar þeirra voru með um 300 fjár í beitarhólfinu, helmingi færri en Grindvíkingar í sínu – höfðu aldrei verið færri í manna minnum. Einn síðasti fjárbóndinn innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar var t.d. með 10 skjátur, en hafði haft mest 300. Hann var búinn að stunda þennan búskap í áratugi. Fjárhús hans eru við Kaldárselsveginn við gatnamót Flóttamannavegar. Aðrir bændur þarna voru með fé ofan við Lónakot og á Álftanesi.
Já, það þýðir ekkert að reyna að rífa kjaft við FERLIRsfélaga þegar kemur að heimildum og sögulegu samhengi hlutanna.
Þegar upp er staðið, eftir hvíld á langri göngu, er ljóst að Krýsuvíkursvæðið sem heildstætt búseturlandslag hefur verið vanmetið sem slíkt. Ekki er að sjá að áhugi hafi verið hjá hlutaðeigandi yfirvöldum, sér í lagi Fornleifavernd ríkisins, að kortleggja minjasvæðið í heild sinni af þeirri nákvæmni sem það verðskuldar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Guðrún Gísladóttir, 1993. Gróður, jarðvegur og mannvistarminjar í Reykjanesfólkvangi. Ástand og tillögur til úrbóta. Óbirt skýrsla unnin fyrir stjórn Reykjanesfólkvangs, 44 bls.
-Guðrún Gísladóttir, 1998. Environmental characterisation and change in south-western Iceland. Doktorsritgerð, Háskólinn í Stokkhólmi, Svíþjóð.
-Gísladottir, G, 2001. Ecological disturbance and soil erosion on grazing land in Southwest Iceland. pp. 109–126, in: A. Conacher (ed). Land Degradation. Kluwer Academic Publishers: Dordrecht, The Netherlands.
-Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Sigmar Metúsalemson, Ásgeir Jónsson, Einar Grétarsson og Arnór Árnason. Jarðvegsrof á Íslandi, 1997. Landgræðsla ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. 157 bls.
-Sigurður H. Magnússon, 1998. Ástand lands í Krýsuvík sumarið 1997. Áætlun um uppgræðslu. Unnið fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar, 53 bls.
-Guðrún Gísladóttir – Áhrif jarðvegsrofs á kolefnisbúskap og landgæði, 5. mars 2008.
-Fornleifaskráning 2003.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.