Ásfjall

Ásfjall ofan við Hafnarfjörð er hæst 127 m.y.s. Ásfjall er í raun grágrýtishæð. Þar fyrir neðan er Ástjörn. Hvorutveggja ber nafn af bænum Ási, sem stóð undir fjallinu. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum, en allvel gróið mosa og lyngi.  Efst á því er Dagmálavarðan, sem nú hefur verið endurhlaðin. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins.
Á Ásfjalli eru menjar um hersetu fyrr á öldinni. Svæðið var friðlýst 1996, sbr.: “Auglýsing nr. 658 um stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall.Byrgi Ásfjalli – Að tillögu umhverfisnefndar Hafnarfjarðar og að fengnu samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að landsvæði umhverfis friðlandið við Ástjörn og Ásfjall verði lýst fólkvangur, með skírskotun til 26. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd. Mörk svæðisins eru: að vestan: Íþrótta- og útivistarsvæði Knattspyrnufélagsins Hauka, að norðan: Stekkur og framtíðaríbúðarbyggð, að austan: Austurhlíð Ásfjalls, og að sunnan: Grísanes.” Ástæður friðunar og gildi hennar er mikilvæg fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Allnokkrar menningarminjar  eru innan friðlýsta svæðisins, s.s. fjárborgir, vörður, landamerki, gömul bæjarstæði og minjar frá stríðsárunum. Dagmálavarðan var fyrst og fremst leiðarmerki á fiskimið, sbr.: “Með hvarfi vörðunnar á Ásfjalli hefði líka horfið eitt ágætt fiskimið. Í endurminningum Erlends Björnssonar á Breiðabólsstöðum kemur fram að Ásvörðuslóð er eitt að þeim miðum sem mest voru sótt fram á Sviði. Önnur mið á Sviðinu heita Sandhali, Marfló, Klettslóð, Bollaslóð og Riddararnir saman. Reyndar talar Erlendur um vörður í Ásfjalli og því virðast þær hafa verið fleiri um aldamótin 1900. En miðið Ásvörðuslóð er þegar Valahnjúkarnir eru um vörður á Ásfjalli.” Reyndar var önnur stór varða norðvestar á Ásfjallsöxlinni nyrðri. Nú er komin þar byggð. Varða, sem hlaðin hefur verið í einu hringtorginu mun ekki hafa verið svo langt frá þeim stað, sem sú gamla stóð.
Leifar skotgrafar og byrgja undir DagmálavörðuEkki eru svo mörg ár síðan að Ásfjallsöxlin nyrðri var þéttsetin kríuvarpi. Þegar leyfðir voru matjurtargarðar þar færði krían sig ofar á öxlina, en með auknum ágangi hvarf hún þaðan að mestu, skömmu áður en svæðið var skipulagt sem íbúðarbyggð.
Yfir Ásfjallsöxlina syðri (Ásfjallsrana) lá gamla leiðin frá Ási áleiðis í Hrauntungur, framhjá stekk, og upp Dalinn þar sem enn má sjá leifar fjárhellis í gróinni kvos. Inngangurinn var hlaðinn, en þak hellisins er að hluta til fallið niður. Gatan lá síðan áfram upp á Stórhöfðastíg eða upp í Kaldársel.
Vestan í Ásfjalli er hlaðið byrgi eftir Bretana. Einnig undir Dagmálavörðunni. Þá eru leifar fimm annarra byrgja suðaustar í fjallinu. Bretar virðast hafa hróflað upp görðum, líkt og á Flóðahjalla, en Íslendingar hlóðu þá gjarnan vel og vandlega skv. gömlu handbragði og venjum. Enn eitt byrgið er norðaustan í fjallinu, fjárborg er suðvestan og efst í syðri Ásfjallsöxlinni og önnur slík norðan fellsins, ofan hús nr. 8-10 við Brekkuás, er skráð fjárborg í Fornleifaskráningu Hafnarfjarðar, en sú eru leifar herminja, þ.e. hringlaga skotbyrgi með innbyggðum skjólum líkt og sjá má á Flóðahjalla.
Minjarnar næst Dagmálavörðunni eru fyrst og fremst herminjar frá 1941. Þarna voru varðskýli og skotgrafir á milli þeirra. Hleðslurnar sjást enn. Svo kalt var á fjallinu um veturinn að hermenn kól á póstunum og þurfti að setja saman lið til að sækja þá og bjarga öðrum niður af fjallinu.
Árni Helgason getur þess í lýsingu Garðaprestakalls 1842 að þeir bæir sóknarinnar sem liggi í hrauninu nefnist Hraunabæir. Hann heldur áfram og segir: Þessi hraun hafa ýmisleg nöfn. Hraunið fyrir sunnan Ásfjall heitir Brunahraun eða Bruni. Þar niður undan, allt fram í sjó Hvaleyrarhraun, þar fyrir sunnan Kapelluhraun og svo Almenningur allt suður af Hvassahrauni.
Útsýnisskífa á Ásfjalli tíundar flest fjöllin í fjallahringnum frá þessum ágæta, en jafnframt nálæga, útsýnisstað.
Frábært veður. Gangan tók 22 mín.
Útsýni yfir Ástjörn