Færslur

Ásfjall

Verndun fornminja – ÁSVARÐA
– eftir  Ólaf Þorvaldsson

Eftirfarandi skrif um vörður á Ásfjalli birtust í Lesbók Morgunblaðsins árið 1948:
„SKAMMT suður frá Hafnarfirði er hæð nokkur eða fell, sem Ásfjall heitir. Fjall þetta má að vísu telja til hinna smærri fjalla, þó tekur það yfir nærliggjandi holt og hæðir þar í grend. Þótt fjall þetta láti lítið yfir sjer, hefur það þó nokkra þýðingu, og var oftar umtalað en allar aðrar hæðir um þessar slóðir. Börn og fullorðnir töluðu um Ásfjall sem mesta berjaland í grennd Hafnarfjarðar, á sumrum, en sjómenn kringum sunnan verðan Faxaflóa, sem mið meira og minna allt árið. Á norður hæð f jallsins var ævaforn grjótvarða. Fram undir síðustu aldamót var hún ekki hærri en 4—5 álnir. Árið 1897 eða ’98 sjer heimafólk að Ási, sem stendur undir fjallinu, hvar maður er kominn að vörðunni, og hefst þar nokkuð að, með fyrirgangi miklum. Móðir mín, sem þá var orðin ekkja, en bjó enn að Ási, vildi vita hvað hinn aðkomni maður hygðist fyrir. Móðir mín, sem vissi hvaða þýðingu varðan hafði á þessum Stað, vildi koma í veg fyrir að hún yrði rifin niður, eða færð úr stað, ef það væri meining þessa aðkomumanns.
Saga Ásvörðu, eins og umrædd varða var allt af kölluð, er aldagömul saga, sennileg jafngömul sögu áraskipanna við Faxaflóa, eftir að skipin stækkuðu svo að mönnum óx svo fískur um hrygg, að þeir gátu gert skip sín svo úr vör, að viðlit var að fara á þeim til hinna djúpu fiskimiða. Þegar nú annað tveggja fisk þraut á grunnmiðum, eða hann kom ekki á þau þetta eða hitt árið og sjómenn fóru að leita út á djúpið, hafa þeir komist fljótt að því, að ekki var sama hvar eftir fiski var leitað. —
Þegar svo kom þar sem nægur fiskur var undir, var áríðandi að tína ekki þeim bletti aftur. Fóru menn þá að miða staðinn, og var það gert með því að horfa til lans taka einskonar lengdar- og breiddar-mæling, gert að eins með athugulum augum, því að annað sem til má nota var þá ekki fyrir hendi. Voru þá venjuleg fjöll og önnur kennileiti á landi notuð sem mið. Allt af urðu miðin að vera fjögur, tvö og tvö, sem báru saman í hvorri átt, samsvarandi lengdar og breiddar línunni.
Venjulega voru há fjöll eða hlutar þeirra, sem hátt báru, höfð að yfirmiði, en aftur önnur, sem oft voru nær sjó og lægra, lágu, að undirmiði. Kölluðu svo menn þessa staði, sem þannig var búið að miða sig niður á, á sjónum, mið eða slóðir. Þannig varð Ásvörðuslóð til, mjög fisksælt mið á Suður-Sviði f Faxaflóa. Var Ásvarða undirmið en Valahnjúkur venjulega yfirmið. Á þetta fisksæla mið hafa margar kynslóðir sótt, og fært þaðan þjóðarbúinu mikla björg. Þessi góðu, gömlu fiskimið urðu því vinsæl, og umræður um þau oft fljettaðar inn í samtöl fólks þess er við sjóinn bjó. Nú mun tími gömlu fiskimiðanna að mestu liðinn, því ekki mun standa eins glöggt nú, hvar línu eða botnvörpu sje í sjóinn kastað frá borði, samanborið við það, þegar að eins um handfæri var að ræða á opnum skipum.

Ásvarða

Ásvarða.

Vík jeg nú aftur að manni þeim, sem kominn var að Ásvörðu 1897 eða ’98. Móður mín bað vinnumann fara og vita hvað hann \æri þar að aðhafast, og fór jeg með sem forvitinn krakki. Þegar að vörðunni kom, er þar fyrir stór og þrekinn maður, gengur hann móti okkur með miklu málæði og handapati, skildist okkur strax að hjer var kominn danskur maður. Mikið vildi maðurinn við okkur tala, en heldur gekk það samtal báglega, því hvorttveggja var, að við vorum ekki sterkir í dönskunni og jeg held hann þó enn linari í íslenskunni. Þó skildist manninum, sem með mjer var, að sá danski meinti að stækka þyrfti vörðuna, og helst vegna innsiglingar til Hafnarfjarðar. Meðan mennirnir voru að berjast við að gera sig skiljanlega hvor fyrir öðrum og bar þar stórum meira á orðaforða þess danska, fór jeg að forvitnast um húfu og jakka, eða flík þá sem var þeim danska í jakka stað. Þar eð heitt var í veðri hafði hann úr þeirri flík farið og lagt á stein allnærri, sá jeg þá að á húfunni stóð með gylltum bókstöfum „Heimdal“. Við hjeldum nú heim við svo búið og sá danski litlu seinna.
Nokkrum dögum síðar kemur stór hópur manna enn að vörðunni og voru þar komnir all-margir skipverja, bæði yfir- og undirmenn af danska eftirlitsskipinu Heimdalli, sem á þeim árum

Ásfjall

Byrgi á Ásfjalli.

var nokkuð hjer við land og var þá oft tíður gestur á Hafnarfírði. Menn þessir taka til og bera grjót að hinni gömlu vörðu og er hún á skömmum tíma orðin bæði há og gild. — Þessar tiltektir ljetu menn sjer vel líka, varðan sást bara betur utan af Sviði eftir en áður. Svo líða yfir fjörutíu ár, sem þessi varða stendur, öllum að meinlausu, en mörgum til gagns. — Varðan hefur máske lokið sínu dagsverki, sem ekki skipti dögum eða árum, heldur öldum. Þó er ekki lokið fyrir það skotið, að sjómenn leiti enn fisks á Ásvörðuslóð — en varðan gamla er horfin. Hún var afmáð sem kennileiti á fyrsta eða öðru hernámsári hjer, en þar sem hún var áður, er nú byrgisrúst, engum til gagns eða leiðbeiningar, en brún fjallsins til óprýði. —

Varðan var afmáð sem leiðarvísir, af útlendum höndum, sennilega í allt öðrum tilgangi, en þegar aðrar útlendar hendur stækkuðu hana — eða þá í algjöru tilgangsleysi. Heyrt hefi jeg það, að eldri sjómenn sakni vörðunnar, og telji sig einum fornvin fátækari við hvarf hennar, og þar hafi fallið, eða verið fellt gamalt minnismerki um oft harða cg frækilega baráttu þeirra manna, sem sóttu sjó á opnum áraskipum langt á haf út. Nú spyr jeg: Eru til lög, sem ætlað er að vernda þetta, eða önnur slík fornvirki og ef svo er, hverjum ber að sjá um framkvæmd þeirra laga?
Kringum árið 1930 skrifaði þáverandi vitamálastjóri, Th. Krabbe, Guðmundi Jónssyni, bónda í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík og bað hann sjá um endurbyggingu á vörðu á Æsubúðum á Geitahlíð, gegn fullu gjaldi. Varða þessi var farin að falla af, bæði fyrir tímans tönn og jarðskjálftar flýtt þar fyrir. Þarna var ekki að ræða um innsiglingar- eða sundmerki — en við hana var oft miðað af sjó, sem gott fiskimið. Krabbe taldi að hún mætti þess vegna ekki falla í rúst. Á Ásvarða ekki sama rjett?

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur.

Ef svo er, vona jeg að vitamálastjóri sjái sjer fært að fá mann eða menn til að reisa Ásvörðu úr“ rúst, og um leið afmá tóft þá eða rúst, sem nú umlykur sæti hennar; hið forna, enda mundi grjót það sem í rústinni er, að mestu ganga upp í vörðuna.
Gömlu fiskimiðin kringum landið eru að týnast, verði ekki bráðlega undið að því að bjarga því sem enn er hægt að bjarga, og virðist mjer að endurbygging Ásvörðu væri liður í þeirri viðleitni, og sjálfsögðu skyldu að reyna að vernda frá glötun nöfn á þessum fornu kennileitum, og þau sjálf þar sem þau eru á þeim stað, sem hægt er að koma því við, og þar með lengt lífið í fornum fiskimiðum, svo sem hjer um ræðir: Ásvörðuslóð.
Einhverjum finnst ef til vill, að hjer  hafi of mörgum orðum verið farið um gamla grjótvörðu. Jeg mundi ekki hafa tekið þetta efni til meðferðar, ef jeg teldi ekki að hér stæði sjérstaklega á, t.d. vörðu sem einhver hefði hrófað upp einhvers staðar í algjöru meiningarleysi. En Ásvörðu eða öðrum fornum merkjum hvar sem eru, sem minna á atvinnuhætti horfinna kynslóða, sem við eigum flest að þakka, höfum við ekki efni á að glata.“

Ásfjall

Varðan á Ásfjalli.

Heimild:
Lesbók Morgunblaðsins – 21. tölublað (13.06.1948) – Verndun fornminja – ÁSVARÐA -eftir  Ólaf Þorvaldsson, bls. 297-298

Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun asfjall-299fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið.
Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi en tegundinni hefur fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20.

Sjá meira undir Fróðleikur.

„Einn góðviðrisdag í sumar kom jeg á skemtilegan og fallegan stað hjerna í nágrenninu. Sunnan við gerdi-221Hafnarfjörð er fell nokkurt sem Ásfjall heitir. Vestan undir því er dalverpi og hefir Kapelluhraun runnið inn í það að norðan og hlaðið hraunborð þvert fyrir það. Þess vegna hefir myndast dálítil tjörn innst í krikanum, uppi undir fjallinu. Hraunið er þarna helluhraun með mörgum sprungum. Í hverri sprungu var köngulóarvefur við köngulóarvef og glóði á þá eins og silfurvíravirki þar sem sól skein á. Í miðjum hverjum vef sátu „maddömurnar“, sleiktu sólskinið og biðu eftir bráð. En undir vefunum var fagurgrænt burknastóð. Umhverfis tjörnina var mikið fuglalíf.“

Sjá meira undir Frásagnir.

Ásfjall ofan við Hafnarfjörð er hæst 127 m.y.s. Ásfjall er í raun grágrýtishæð. Þar fyrir neðan er Ástjörn. Hvorutveggja ber nafn af bænum Ási, sem stóð uÚtsýnisskífa á Ásfjallindir fjallinu. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum, en allvel gróið mosa og lyngi.  Efst á því er Dagmálavarðan, sem nú hefur verið endurhlaðin. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins. Á Ásfjalli eru menjar um hersetu fyrr á öldinni. Þar er líka útsýnisskífa er útskýrir fjallahringinn umleikis.

Sjá meira undir Lýsingar.

„Með friðun tiltekinna landssvæða er verið að tryggja rétt okkar og komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru. Ósnortin náttúra er takmörkuð auðlind, auðlind sem á heimsvísu fer þverrandi. Reglur um friðlýst svæði eru mismunandi og fara eftir markmiðum friðlýsingar, eðli svæðisins og samkomulagi við hagsmunaaðila.

astjorn-kortÁstjörn
Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið.
Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuð-borgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi en tegundinni hefur fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20. aldar og er flórgoði  alfriðuð tegund og á válista.  Í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað.
Ástjörn við Hafnarfjörð er í kvos vestan undir Ásfjalli. Bakkar tjarnarinnar eru raklendir og að norðaustanverðu er stórt mýrarstykki niður undan gamla Ásbænum.
Upp af votlendinu taka við þurrir grýttir móar sem eru að gróa upp og hefur trjám verið plantað í þá norðan og austan megin við tjörnina. Tvö gömul tún eru norðan tjarnarinnar, annars vegar við Stekk og hins vegar við Ás.

Ástjörn og Ásfjall
Ástjörn og Ásfjall var friðlýst sem fólkvangur árið 1996. Fólkvangurinn umlykur friðland Ástjarnar en Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins. Á Ásfjalli eru minjar um hersetu fyrr á öldinni.“

Heimild:
-http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/sudvesturland/astjorn-hafnarfirdi/

Dagmálavarðan á Ásfjalli
Ásfjall ofan við Hafnarfjörð er hæst 127 m.y.s. Ásfjall er í raun grágrýtishæð. Þar fyrir neðan er Ástjörn. Hvorutveggja ber nafn af bænum Ási, sem stóð undir fjallinu. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum, en allvel gróið mosa og lyngi.  Efst á því er Dagmálavarðan, sem nú hefur verið endurhlaðin. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins. Á Ásfjalli eru menjar um hersetu fyrr á öldinni. Svæðið var friðlýst 1996, sbr.: „Auglýsing nr. 658 um stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall.Byrgi Ásfjalli – Að tillögu umhverfisnefndar Hafnarfjarðar og að fengnu samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að landsvæði umhverfis friðlandið við Ástjörn og Ásfjall verði lýst fólkvangur, með skírskotun til 26. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd. Mörk svæðisins eru: að vestan: Íþrótta- og útivistarsvæði Knattspyrnufélagsins Hauka, að norðan: Stekkur og framtíðaríbúðarbyggð, að austan: Austurhlíð Ásfjalls, og að sunnan: Grísanes.“ Ástæður friðunar og gildi hennar er mikilvæg fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Allnokkrar menningarminjar  eru innan friðlýsta svæðisins, s.s. fjárborgir, vörður, landamerki, gömul bæjarstæði og minjar frá stríðsárunum. (Sjá meira HÉR).  Dagmálavarðan var fyrst og fremst leiðarmerki á fiskimið, sbr.: „Með hvarfi vörðunnar á Ásfjalli hefði líka horfið eitt ágætt fiskimið. Í endurminningum Erlends Björnssonar á Breiðabólsstöðum kemur fram að Ásvörðuslóð er eitt að þeim miðum sem mest voru sótt fram á Sviði. Önnur mið á Sviðinu heita Sandhali, Marfló, Klettslóð, Bollaslóð og Riddararnir saman. Reyndar talar Erlendur um vörður í Ásfjalli og því virðast þær hafa verið fleiri um aldamótin 1900. En miðið Ásvörðuslóð er þegar Valahnjúkarnir eru um vörður á Ásfjalli.“ Reyndar var önnur stór varða norðvestar á Ásfjallsöxlinni nyrðri. Nú er komin þar byggð. Varða, sem hlaðin hefur verið í einu hringtorginu mun ekki hafa verið svo langt frá þeim stað, sem sú gamla stóð.
Leifar skotgrafar og byrgja undir DagmálavörðuEkki eru svo mörg ár síðan að Ásfjallsöxlin nyrðri var þéttsetin kríuvarpi. Þegar leyfðir voru matjurtargarðar þar færði krían sig ofar á öxlina, en með auknum ágangi hvarf hún þaðan að mestu, skömmu áður en svæðið var skipulagt sem íbúðarbyggð.
Yfir Ásfjallsöxlina syðri (Ásfjallsrana) lá gamla leiðin frá Ási áleiðis í Hrauntungur, framhjá stekk, og upp Dalinn þar sem enn má sjá leifar fjárhellis í gróinni kvos. Inngangurinn var hlaðinn, en þak hellisins er að hluta til fallið niður. Gatan lá síðan áfram upp á Stórhöfðastíg eða upp í Kaldársel.
Vestan í Ásfjalli er hlaðið byrgi eftir Bretana. Einnig undir Dagmálavörðunni. Þá eru leifar fimm annarra byrgja suðaustar í fjallinu. Bretar virðast hafa hróflað upp görðum, líkt og á Flóðahjalla, en Íslendingar hlóðu þá gjarnan vel og vandlega skv. gömlu handbragði og venjum. Enn eitt byrgið er norðaustan í fjallinu og önnur fjárborg er suðvestan í syðri Ásfjallsöxlinni.
Minjarnar næst Dagmálavörðunni eru fyrst og fremst herminjar frá 1941. Þarna voru varðskýli og skotgrafir á milli þeirra. Hleðslurnar sjást enn. Svo kalt var á fjallinu um veturinn að hermenn kól á póstunum og þurfti að setja saman lið til að sækja þá og bjarga öðrum niður af fjallinu.
Árni Helgason getur þess í lýsingu Garðaprestakalls 1842 að þeir bæir sóknarinnar sem liggi í hrauninu nefnist Hraunabæir. Hann heldur áfram og segir: Þessi hraun hafa ýmisleg nöfn. Hraunið fyrir sunnan Ásfjall heitir Brunahraun eða Bruni. Þar niður undan, allt fram í sjó Hvaleyrarhraun, þar fyrir sunnan Kapelluhraun og svo Almenningur allt suður af Hvassahrauni.
Útsýnisskífa á Ásfjalli tíundar flest fjöllin í fjallahringnum frá þessum ágæta, en jafnframt nálæga, útsýnisstað.
Frábært veður. Gangan tók 22 mín.
Útsýni yfir Ástjörn

Í maí 2000 var fimmti Ratleikur Hafnarfjarðar opinberaður. Pétur Sigurðsson, útivistarkempa, hefur verið driffjöður leiksins. Leikurinn gengur út á að far á milli merktra staða á korti, fræðast um þá og reyna að finna númeruð spjöld, semþar eru með áletrunum. Áletrunina á síðan að skrá á kortið og skila því inn til Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Hafnarfirði með von um verðlaun. Að þessu sinni var athafnasvæðið Almenningur ofan Hrauna og svæðið milli Grísaness og Undirhlíða, þ.á.m. Kaldársel. Í Almenningum var lögð áhersla á selin, þ.e. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, auk Óttarstaðafjárborgar og Gvendarbrunn við Alfaraleiðina.
Haldið var í Kaldársel og týnd upp merki frá 11 til 18; Grísanes, Hamranes, Stórhöfði, Fremstihöfði og Kaldársel, en til baka var gengi um Bleikingsháls og Ásfjall.
Á og við Grísanes eru nokkrar tóftir frá Ási, s.s. fjárborg, rétt, beitarhús, sauðakofar og gerði, auk leifa frá stríðsárunum frá því að Bretinn hélt til á og við Ásfjallið. Yfir Ásfjallsöxlina lá gamla leiðin frá Ási áleiðis í Hrauntungur og upp Dalinn þar sem enn má sjá leifar fjárhellis í gróinni kvos. Inngangurinn var hlaðinn, en þak hellisins er að hluta til fallið niður. Gatan lá síðan áfram upp á Stórhöfðastíg eða upp í Kaldársel.
Í Hamranesi eru miklar grjótnámur og eiginlega sárgrætilegt að horfa uppá hvernig bæjaryfirvöld, og þá einkun námunefndin, hafa leyft meðferð á landinu. Efst á Hamranesinu var eitt merki ratleiksins (666BÍR).

Gengið var áfram suðaustur eftir Selhrauninu sunnan Hamraness. Þá er Hvaleyrarvatn á vinstri hönd. Þar má enn sjá móta fyrir tóftum Hvaleyrarsels og Ásels sunnan við vatnið, auk beitarhúss og stekks utan í vestanverðum Stórhöfða austan við vatnið. Á hægri hönd er hlaðinn stekkur frá selinu. Uppi á Selhöfða eru leifar tveggja fjárborga og utan í honum sunnanverðum eru tóft kofa eða gerðis. Þegar upp á öxlina á Seldal var komið var stefnan tekin á Stórhöfða, sem Stórhöfðahraun er kennt við. Það e rmikið hraunflæmi sunnan og vestan við höfðann. Eitt merkið var norðan í honum, en vandlega falið. Annars er leiðinlegast við ratleikinn hversu sumt fólk finnst sig knúið til að fela merkin betur eftir að það hefur fundið þau sjálft. Þeir, þ.e.a.s. venjulegt fólk, sem á eftir koma, þurfa því að hafa vel þjálfaða leitarhunda sér til aðstoðar.
Gengið var yfir suðuröxlina á Seldalnum og áleiðis yfir á Fremstahöfða. Utan í honum suðaustanverðum er hálfhlaðið fjárhús, líklega frá Kaldárseli. Er eins og hætt hafi verið við húsagerðina í miðjum klíðum. Tínt var upp merki í klapparsprungu meðal burkna, í hvammi innan um lyng og birki, í gulvíði undir ljónslappa við hellisop og í hraunkanti. Hellirinn er svonefndi Kaðalhellir. Hann var nefndur svo af krökkunum í KFUMogK í Kaldárseli því aðstoða kaðals þarf til að komast upp í efri hluta hans. Farið var auk þess niðurí nerði hluta hellisins beggja vegna misgengis, sem þarna er, og er alveg þess virði að kíkja þangað niður. Í botni vestari hlutans er jökull, þ.e. klakinn bráðnar aldrei, og skapar hann skemmtilega birtu í hellinum.
Í Kaldárseli má m.a. sjá hvar gamla selið eða kotið (undir aldarmótin 1900) var sunnan við sumarbúðahúsið. Neðan þess, við Kaldá má sjá móta fyrir tóft, auk áletraðra hraunhellna frá fyrstu tíð stúkustrákanna sunnan við ána. Annars er Kaldáin merkilegt fyrirbrigði og í rauninni efni í aðra lýsingu.

Mikið misgengi gengur til austurs norðan Kaldársel. Hluti þess eru Smyrlabúðir miðja vegu að Búrfellsgjánni/Selgjánni. Norðan við Kaldardársel er Borgarstandur. Á honum voru áður tvær fjárborgir, en nú er einungis önnur eftir, þ.e. sú vestari. Hún er friðlýst. Hin, sú austari, hefur líklega verið tekin undir vatnsleiðsluna, sem þarna liggur m.a. yfir Lambagjá (mikil hleðsla).
Norðvestan undir Borgarstandi eru leifar fjárhúss og gerðis út frá því. Vestan við það lá gamla leiðin um Kaldársel. Sjá má hana klappaða í bergið á kafla skammt norðar. Enn norðar eru svo fjárhellarnir. Hlaðið er fyrir munnana og inni í einum þeirra er hlaðinn garður. Einnig er þarna tóft hlöðu. Þorsteinn Þorsteinsson hafði fé þarna um tíma sem og í Sauðahellinum syðri vestan Selgjár. Sömuleiðis Kristmundur Þorláksson frá Hafnarfirði, síðar Stakkavík, um tveggja eða þriggja vetra tímabil.
Gengið var með höfðunum með viðkomu í nátthaga og helli og síðan áleiðis upp á Ásfjall um Vatnshlíð og Bláberjahrygg. Í Nátthaga norðvestan Kaldársels er hlaðinn nátthagi utan í háum hraunhól mót norðri. Vestan í Ásfjalli er hlaðið byrgi eftir Bretana. Einnig undir vörðunni, Dagmálavörðu, efst á fjallinu. Þá eru leifar byrgja vestar í fjallinu, en trúlega haf þeir notað þar gamla fjárborg því glögglega má sjá á handbragðinu hvort hleðslan hafi verið eftir Íslendinga eða Breta. Bretar virðast hafa hróflað upp görðum, líkt og á Flóðahjalla, en Íslendingar hlóðu þá jafnan vel og vandlega.
Af Ásfjalli er fagurt útsýni yfir höfðustað höfuðborgarsvæðisins.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

PS Svo skemmtilega vildi til að einn FERLIRsfélaga vann til verðlauna eftir að dregið hafði verið í Ratleiknum. Fékk hann bakpoka að launum. FERLIR hefur eftir það ekki skilað inn lausnum í Ratleiknum – svo aðrir eigi þar betri möguleika.

Portfolio Items