Óttarsstaðir vestari

Gengið var frá Straumstúninu að hlöðnu byrgjunum austast á Sigurðarhæð og kíkt á Straumsréttina áður en haldið var framhjá Brunntjörn (Urtartjörn) og vestur að Kúarétt.

Óttarsstaðir

Eldhús við Óttarsstaði vestari.

Brunntjörn er sérstök að því leyti að í henni gæti sjávarfalla, en ofan á þyngri sjónum flýtur ferskvatn. Við bakka hennar vex því ýmis sjaldgæfur gróður, sem einungis þrýfst við slík skilyrði. Þarna þarf hann að takast á við seltu og súrefni, ferskvatn og frost og hitt og þetta.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Í Kúarétt eru hleðslur. Réttin er í skjólgóðri hraunlaut með háa barma allt í kring. Rjúpa kúrði enn sem oft áður efst í barminum. Gengið var upp úr réttinni og yfir að Kotaklifsvörðu. Við hana eru gatnamót; annars vegar efri stígurinn yfir að Lónakoti og hins vegar gata niður að Miðmundarhæð. Síðarnefndu götunni var fylgt niður að Miðmundarvörðu vestast í hæðinni. Beint þar fyrir neðan, í stórum hraunkrika er Óttarstaðaréttin, falleg og vel hlaðin rétt. Innst í henni er hlaðin kró.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Gengið var áfram framhjá fjárhúsi, sem þarna stendur nokkuð heillegt og suður fyrir Óttarstaðabæina. Þar er grasi gróinn hóll, sem talið er að hafi hýst bænahús til forna. Þar við er Álfakirkjan. Skoðað var í kringum Eyðikotið og gengið austur með heillegum og vel hlöðnum garði austan Kolbeinskots. Frá enda hans var ströndinni fylgt um Jónsbúð og Þýskubúð.

Jónsbúð er dæmi um kot er óx og varð að mannvænlegum bæ. Bóndinn kom sér upp kotinu, keypti sér kind og kú, eignaðist konu og krakka, sem náðu sér í kött annað kynlegt.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Ef vel er að gáð er ýmislegt forvitnilegt að sjá í og við Jónsbúð. Brunnurinn er í tjörninni norðan við bæinn. Tóft og gerði er utan garðs að vestanverðu og ekki allfjarri er talið að maður hafi haldið til í hellisskúta um tíma.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Þarna er fjölbreytilegur gróður og fuglalífið er þarna á fæti og á flugi. Á kvöldin má sjá mink stinga sér innan um þangið í fjörunni í leit að einhverju ætilegu. Handan við víkina er skemmtileg andstæða við lífríkið, álverið.
Við Þýskubúð er talið að Þjóðverjar hafi haft verslun á öldum fyrrum þótt þess sjáist ekki merki í dag. Hins vegar eru þarna ýmsir garðar og gerði frá því að síðast var búið þarna. Eiríkur Smith, listmálari, ólst upp í Þýskubúð ásamt fleiru ágætu fólki.
Haldið var yfir að strandminjunum norðan við Straum og síðan gengið yfir á austurtúnið þar sem hringnum var lokað.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.