Jóhannes J. Reykdal

Fyrsta rafstöðin til rafmagnsframleiðslu fyrir bæjarfélag var reist í Hafnarfirði. Í fyrstu var einungis um ljósarafmagn að ræða.

Jóhannes

Jóhannes Reykdal.

Sá, sem stöðina reisti, var Jóhannes Jóhannesson Reykdal og var hún reist við Hörðuvelli í Hafnarfirði. Jóhannes reisti rafstöðina einn og óstuddur og sá um rekstur hennar til ársins 1909 þegar Hafnafjarðarbær keypti rafstöðina og bætti við dísilrafstöð vegna ört vaxandi bæjarfélags. Jóhannes keypti þessa stöð aftur af Hafnafjarðarbæ og starfrækti hana við verksmiðju sína í Setbergslandi allt til ársins 1952.

Jóhannes á að hafa rekið þessi rafstöð sína á frumlegan hátt og þá sérstaklega hvað varðar innheimtu á rafmagnsreikningum. Sú saga er sögð að hann hafi alfarið séð um sölu á ljósaperum til rafmagnsnotenda og selt þær dýrt og þannig náð inn gjöldum vegna rafmagnsnotkunar bæjarbúa. Þar sem margir bæjarbúa voru fátækir og höfðu sumir ekki efni á nema einni ljósaperu, var sú pera nýtt um allt húsið. Það er að segja hún var færð milli herbergja og þar skrúfuð í ljósastæði þar sem þörf var fyrir ljós.

Jóhannes Reykdal.

Jóhannes J. Reykdal á “Reykdalsstíflunni”.

Jóhannes Reykdal fæddist að Vallakoti í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu 18. janúar árið 1874. Tvítugur að aldri hóf hann trésmíðanám hjá Snorra Jónssyni trésmíðameistara á Akureyri og fjórum árum síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til frekara trésmíðanáms. Eftir þriggja ára dvöl ytra flutti hann heim til Íslands og ætlaði til Akureyrar en hann hitti unga konu, Þórunni Böðvarsdóttur og ástin varð til þess að hann festi rætur sunnan heiða.
Fyrstu árin sinnti Jóhannes húsbyggingum en fannst það ekki nóg. Hann vildi reisa verksmiðju við Lækinn í Hafnarfirði og er það fyrsta stórvirkið sem Jóhannes vann. Trésmiðjan var búin átta fullkomnum trésmíðavélum og staðsetningin var engin tilviljun, því Jóhannes virkjaði lækinn og fékk þar orku til að knýja vélarnar áfram. Elísabet Reykdal, dóttir Jóhannesar, segir þetta fyrsta virkjunarafrek Jóhannesar megi rekja til heimsóknar hans til Margrétar systur hans sem bjó í Noregi. Þar sá hann hvernig Norðmenn nýttu sér vatnsaflið.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes J. Reykdal; upplýsingaskilti við fótstall hans á “Reykdalsstíflunni”.

Alls unnu tíu til tólf menn að jafnaði í þessari fyrstu verksmiðju Jóhannesar.
Jóhannes lét ekki staðar numið þótt hann væri kominn með orku til að knýja vélarnar, hann vildi nýta Lækinn betur og framleiða rafmagn. Árið 1904 fór hann til Noregs og festi kaup á rafal og setti sig í samband við fyrsta íslenska raffræðinginn, Halldór Guðmundsson, sem nýkominn var úr námi í Þýskalandi. Með hjálp Halldórs setti Jóhannes upp rafalinn og einn starfsmanna hans, trésmiðurinn Árni Sigurðsson, lagði raflagnir. Þann 12. desember þetta sama ár urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar. Þá tók virkjunin til starfa og ljós voru kveikt í 15 húsum í Hafnarfirði, auk trésmiðjunnar. Þar á meðal voru tvö stærstu hús bæjarins, barnaskólinn og Góðtemplarahúsið. Einnig voru tendruð fjögur götuljós.

Hafnarfjörður

Vatnsstokkur J.R. frá Reykdalsstíflunni.

Rafvæðing Íslands var hafin. Eins og gefur að skilja varð strax mikil eftirspurn eftir rafmagninu hans Jóhannesar og trésmiðjuvirkjunin annaði engan vegin eftirspurn, jafnvel þótt Jóhannes hafi bætt nýju vatnshjóli við virkjunina.

Reykdal

Reykdalsstíflan – minnismerki um Jóhannes Reykdal.

Jóhannes fór því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í læknum og reisti á eigin spýtur nýja rafstöð, á svo kölluðum Hörðuvöllum, sem fyrst um sinn fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði.

Reykdalsvikjun

Reykdalsvirkjun.

Þetta er fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi og hún tók til starfa haustið 1906 og framleiddi 37 kW. Á þessum tíma var ekki hægt að mæla rafmagnsnotkun heimilanna þannig að Jóhannes tók til þess ráðs að selja perur. Hann einn seldi perurnar og þegar pera sprakk þurfti fólk að skila ónýtu perunni til þess að kaupa nýja. Áður en Hörðuvallavirkjunin (Reykdalsvirkjun) kom mátti einungis hafa tvær perur í hverju húsi, þótt perustæðin væru fleiri.
Jóhannes ReykdalJóhannes Reykdal óttaðist ekki breytingar. Árið 1909 seldi hann Hafnarfjarðarbæ virkjanirnar og keypti jörðina Setberg. Hann seldi líka trésmiðjuna en starfsmennirnir tólf ráku hana áfram undir nafninu Trésmiðjan Dvergur. Fyrstu tvö árin hafði Jóhannes ráðsmann sem sá um búreksturinn en árið 1911 tók hann við búskapnum en sá fljótt að hann gat ekki án rafmagns verið. Árið 1917 tók hann sig til og reisti enn eina rafstöðina við Lækinn. Þá þurfti hann að grafa um það bil eins kílómetra aðveituskurð og er það fyrsti aðveituskurðurinn sem grafinn var fyrir vatnsaflsvirkjun á landinu.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes við fyrsta rafalinn á trésmíðaverkstæðinu við Lækinn.

Sem dæmi um framsýni Jóhannesar segir Elísabet að hann hafi fjárfest í fyrstu mjaltavélinni sem kom til landsins og fyrstu dráttarvélinni sem var Countor G, tíu hestafla framdrifin vél sem hægt var að tengja ýmis heyvinnutæki við. Þótt Jóhannes hafi rekið myndarbú á Setbergi, með 20 kýr í fjósi og 200 ær, nægði það framkvæmdamanninum ekki. Hann reisti því timburverslun og trésmiðju við bæinn sem að sjálfsögðu var drifin með afli úr læknum.
Elísabet Reykdal segir að Jóhannes hafi víða séð tækifæri og hafi kunnað að nýta sér þau. Hún nefnir sem dæmi þegar þýska skonnortan Adelheid strandaði í hafnarmynninu í Hafnarfirði og sökk. Skonnortan var full af kolum. Jóhannes keypti skipið fyrir lítið og fékk mannskap með sér í að koma vírum undir það og lyfti því síðan upp með prömmum og lét aðfallsölduna mjaka því smám saman upp á land.

Jóhannes Reykdal

Stytta af Jóhannesi Reykdal við “Reykdalsstífluna”.

Björgunaraðgerðirnar gengu ótrúlega vel, en mesta vesenið var að koma vírunum undir skonnortuna. Jóhannesi leist ekki á hægaganginn hjá köfurunum og brá sér því sjálfur í kafarabúning og bjargaði málunum. Þetta þótti mikil dirfska og kafararnir sem biðu á þurru voru orðnir ansi smeikir, því Jóhannes var mun lengur í kafi en þeir voru vanir. Elísabet segir að Jóhannes hafi haft allar klær úti við að ná sér í timbur. “Hún er fræg sagan af því þegar hann var í timburleiðangri en erfitt var að finna skip til að sigla með timbrið heim. Þá fékk þá hugmynd að gera fleka úr timbrinu og láta dráttarbát draga farminn yfir hafið. Ekki varð úr því, þar sem enginn banki vildi tryggja farminn. Jóhannes gerði sér því lítið fyrir og keypti barkaskip, fyllti það af timbri og lét sigla því heim.”
Það er óvinnandi vegur að gera æfi Jóhannesar Reykdals skil í einni blaðagrein, slík voru afrek hans. En ekki verður hjá því komist að nefna íshúsið sem hann reisti. Húsið framleiddi ís fyrir togara Hafnfirðinga og skilaði um leið miklum auði til bæjarins. Aðrir togarar þurftu að fylla sig af ís eftir söluferðir til útlanda meðan hafnfirsku togararnir lestuðu kol og fluttu heim til Hafnarfjarðar. Því varð aldrei kolaskortur í Hafnarfirði, þökk sé stórhug og framfaraviðleitni Jóhannesar Reykdals.

Sjá meira HÉR.

Heimildir m.a.
-http://www.rafmagn100.is/johannes.htm

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður í dag – athafnasvæði Jóhannesar fyrrum.