Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir reyndu að ráða gátuna í skrifum þeirra um “Aldur Eldra- og Yngra Hellnahrauns” í ritinu Jökli árið 1991:
“Samkvœmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvakerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatarmál hraunanna er 36,5 km2 og rúmmálið er áœtlað um 0,22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið á einhverju tímabilanna 1026-1045 (12%), 1052-1065 (35%), 1089-1125 (35%) og 1138-1153 (18%).
Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar er í rauninni tvö hraun og eru bœði komin frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Yngra hraunið er sama hraun og Jón Jónsson (1977) hefur nefnt Tvíbollahraun. Það er að öllum líkindum runnið ísömu goshrinu og hraun sem Jón Jónsson (1978a) hefurnefnt Breiðdalshraun.
Vegið meðaltalfjögurra geislakolsgreininga á sýnum undan Yngra Hellnahrauni, Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni (tvö sýni) gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið annaðhvort á árabilinu 894-923 eða, sem er mun líklegra, á árunum 938-983.
Helluhraunið sunnan og vestan við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði heitir Hellnahraun (Guðmundur Kjartansson hefur nefnt hraunið Hvaleyrarhraun þar sem hann minnist á það í sínum greinum og það nafn hefur hraunið fengið á kortum Landmælinga Íslands. Í fyrri grein okkar um Krýsuvíkurelda er hraunið einnig nefnt Flatahraun). Flestir jarðfræðingar sem um það hafa fjallað hafa álitið hraunið mjög gamalt, án þess þó að færa fyrir því haldbær rök. Hraunið er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og þess sjást engin merki að það hafi nokkum tíma verið gróið að marki. Allt var á huldu um aldur hraunsins þar til sumarið 1986, en þá tókst okkur að finna nothæft jarðvegssnið sem liggur inn undir hraunið, norðvestan við Stórhöfða. Þar kom í ljós að Landnámslagið liggur inn undir hraunið. Áður töldum við að Hellnahraun hefði runnið í sama gosi og Kapelluhraun og einnig að Hellnahraun og hraunið frá Óbrinnishólum væru eitt og sama hraunið (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).
Við nánari könnun á Óbrinnishólum sumarið 1989 kom í ljós að athuganir Jóns Jónssonar (1974) á þeim standa óhaggaðar. Þá var aðeins eftir að kanna mót Hellnahrauns og Obrinnishólahrauns nánar, en á jarðfræðikorti Jóns Jónssonar (1978a) er Hellnahraunið talið eldra. Könnunin leiddi í ljós að vestur af Stórhöfða hefur Hellnahraunið augsýnilega runnið út yfir hraunið frá Óbrinnishólum og er því örugglega yngra. Að fenginni þessari niðurstöðu þótti ljóst að Hellnahraun hlaut að hafa komið upp nærri nyrsta hluta Undirhlíða. Þar er þó engum eldstöðvum til að dreifa nema Gvendarselsgígunum en hraunið frá þeim hefur greinilega runnið út yfir Hellnahraunið. Hægt er að ímynda sér að gígarnir hafi horfið undir Gvendarselshraun en sú skýring er ekki sennileg í ljósi þess hversu þunnt Gvendarselshraunið er. Einnig má hugsa sér að Hellnahraun hafi komið úr sjálfum Gvendarselsgígum í byrjun goss en sú skýring verður að teljast langsótt.
Eftir allmiklar vangaveltur um uppruna Hellnahrauns fannst, eins og stundum vill verða, einföld og augljós skýring. Hraunið er einfaldlega ekki komið úr eldstöðvakerfi Trölladyngju, heldur eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Sunnan undir Helgafelli er allmikill helluhraunsfláki. Næst Helgafelli liggur ofan á honum tiltölulega mjór taumur af yngra helluhrauni sem hverfur inn undir Gvendarselshraun.
Jón Jónsson (1977) hefur fjallað um hraun þetta og telur það komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum. Ekki verður annað séð en að Hellnahraun sé framhald Tvíbollahrauns til vesturs. Í Krýsuvíkureldum flæddi hraunið frá Gvendarselsgígum yfir hluta hrauntaumsins þannig að samhengið rofnaði og hefur það villt mönnum sýn. Hellnahraun er auk þess einsdæmi á Reykjanesskaga að því leyti að það hefur runnið þvert yfir eitt eldstöðvakerfi og langleiðina yfir í það næsta, þ.e.a.s. hraunið kemur upp í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, rennur þvert yfir eldstöðvakerfi Trölladyngju og þar sem það liggur næst sjó við Hvaleyrarholt er það í aðeins um 5 km fjarlægð frá austustu sprungunum sem þekktar eru í eldstöðvakerfi Reykjaness.
Þegar Hellnahraunið var kannað nánar sumarið 1991 kom ýmislegt nýtt í ljós. Sem fyrr segir liggur Hellnahraunið út á hraunið frá Óbrinnishólum vestur af Stórhöfða. Við könnun á neðri hluta hraunsins reyndist aldursafstaðan þveröfug, þ.e. Óbrinnishólahraunið hefur runnið út yfir Hellnahraun. Þegar betur er að gáð reynist Hellnahraun samanstanda af tveimur hraunum sem hér á eftir verða nefnd Yngra og Eldra Hellnahraun. Hraunin eru ákaflega lík í ytri ásýnd og var nokkrum erfiðleikum bundið að greina þau að, en það tókst. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur að öðru leyti en því að það er eldra en hraunið frá Óbrinnishólum og yngra en Búrfellshraunið. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-1000 ára. Hraunið er líkt og Yngra Hellnahraunið komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið í átt til sjávar
Aldur Yngra Hellnahraunsins
Jón Jónsson (1977) fann Landnámslagið undir Tvíbollahrauni og einnig kolaðarjurtaleifar sem hann lét aldursgreina. Taldi Jón hraunið hafa runnið á fyrstu árum Íslandsbyggðar. Árið 1988 tókum við sýni af koluðum jurtaleifum á sama stað og Jón hafði tekið sín sýni, við suðvesturhorn Helgafells. Einnig var tekið sýni af koluðum jurtaleifum undan Yngra Hellnahrauninu, í rústum af gömlum gervigíg, Rauðhól, skammt frá mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.
Frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla hefur á sögulegum tíma runnið annar helluhraunstaumur, sem minnir mjög á Yngra Hellnahraunið. Hraunið kom upp sunnan við Kistufell í Brennisteinsfjöllum, rann til norðvesturs eftir Lönguhlíðarfjöllum og síðan fram af þeim niður í Fagradal og Breiðdal við Undirhlíðar. Þetta hraun hefur Jón Jónsson (1978a) nefnt Breiðdalshraun. Aldursgreining, sem Jón lét gera, bendir sterklega til að það hafi runnið í sömu goshrinu og Yngra Hellnahraun.
Geislakolsgreiningar hafa verið gerðar á hraunum sem talin eru mynduð í sama gosi eða goshrinu og Yngra Hellnahraun. Greiningar á Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni eru ættaðar frá Jóni Jónssyni (1977, 1978a), en okkar sýni, sem tekið var undan Tvíbollahrauni á sama stað og sýni Jóns, er kennt við Helgafell. Sýnin frá Helgafelli og Rauðhól voru meðhöndluð til geislakolsmælingar á Raunvísindastofnun Háskólans, en sjálf mælingin fór fram á tandemhraðli Árósaháskóla. Líklegast hafa öll þessi hraun runnið á sama tíma á 9. eða 10. öld.”
Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar II; Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, bls. 61-74.