Færslur

Óbrinnishólabruni

Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig frá öðrum, reyndar með ólíkum hætti því hið fyrrnefna er að miklum hluta úfið kargahraun en hið síðarnefnda slétt helluhraun næst upptökunum, bæði þó  með samfelldri Stakurráðandi mosaþembu.
Óbrinnishólabruni á (skv. fyrri rannsóknum) að hafa runnið 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) árið 1151 e.Kr. Um 1340 ára aldursmunur mun því vera á hraununum, en þess virðist þó fljótt á litið ekki sjást glögg merki, hvorki gróðurlega né jarðfræðilega. Mun líklegra er að Óbrinnishólahraunið hafi runnið í sömu goshrinu og Bruninn og þá einungis skömmu áður á jarðfræðilegan mælikvarða (á innan við 300 ára tímabili).
Þegar gengið var um Óbrinnishólabruna í byrjun sumar [2008] vakti stök burnirót, stakt lambagras og grasnýmyndun sérstaka athygli – landnámsplöntur í hraungambra eftir tæplega 2000 ára þrautseigju.
Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld. Hér ber að hafa í huga að báðar niðurstöðurnar eru rangar í ljósi nýjustu rannsókna – þrátt fyrir að virðingarverðir jarðfræðingar hafi verið þarna að verki. Segja má því með nokkrum sanni að sannleikurinn þarf ekki endilega að vera endanlegur þótt sennilegustu rannsóknir bendi til að svo sé – á þeim tíma. Gildir það enn þann dag í dag – og mun væntanlega gilda á morgun. Þessa eru fornleifafræðingar vel meðvitaðir. Áreiðanleika rannsókna hefur fleygt svo vel fram síðustu áratugi að efasemdir hafa vaknað við hvert fet sem stigið hefur verið hingað til.
Stakur er er áberandi ílöng hæð (reyndar sú eina) milli Óbrinnishólanna og Undirhlíða. Hann er birkigróinn í jarðrana. Grastorfur eru vestan við hann og vatnsstæði suðvestar. Uppi á honum miðjum, í skjóli fyrir austanáttinni, er minjar um yfirsetu smalanna frá Ási, en skammt norðar, undir nyrðri Óbrinnishólum, er fjárskjól þeirra.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu, um 700 metra vestan við Undirhlíðar, og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu, sem var virkt á u.þ.b. 25 km langri sprungurein frá Gvendarselsgígum við norðurenda Undirhlíða að Ögmundarhraunsgígunum suðaustan í Núpshlíð í suðri.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Leifar smalaskjólsins á StakSíðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík. Í hrauntröð sunnan við hólana er fyrrnefnt fjárskjól.
Í greinargerð Náttúruverndarráðs um þetta svæði segir m.a.: “Efnistaka úr eldvörpum og gervigígum hefur á undanförnum árum að mestu leyti verið bundin við eldvörp í nágrenni þéttbýlis. Stærstu námurnar á Suðurlandi hafa verið í gígþyrpingum á Reykjanesskaga (Arnarsetur við Grindavík, Óbrynnishólar við Hafnarfjörð, Rauð hólarnir við Reykjavík) og í Grímsnesi (Seyðishólar). Einnig hefur gjall verið unnið úr stökum eldvörpum á þessu svæði, svo sem úr Litlu-Eldborg undir Geitahlíð og nú síðast Eldborg við Trölladyngju.

Óbrinnishólar nyrðri - nú eyðilagðir af námuvinnslu

Á síðastliðnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa stjórnvöld bent á ferðamannaþjónustu sem vænlegustu leið okkar til ný sköpunar. Eldfjöllin draga til sín erlenda ferðamenn sem koma til þess að njóta ósnortinnar náttúru og fræðast um jarðfræðilega þróun landsins. Að ,,gera út á“ íslenska náttúru er meira í anda sjálfbærrar þróunar en að selja eldvörp í erlenda vegi.
Fjölbreytileiki íslenskra eldvarpa er eitt af einkennum landsins. Eldfjallaeyjan Ísland á engan sinn líka hvað varðar landslag, gosmyndanir og bergfræði. Þrátt fyrir ungan jarðfræðilegan aldur og tíða eldvirkni eru margar jarðmyndanir hérlendis mjög fágætar, einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Og þó Íslendingar telji sig ríka rík af þeim eldvörpum sem skópu landið í aldanna rás þá er vert að minnast þess að margar þessar jarðmyndanir eru afar sjaldgæfar og jafnvel einstakar, svo sem Eldborg í undir Geitahlíð. 

Í Óbrinnishólum syðri

Samkvæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á Reykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200-300 ár. Síðasta goshrinan gekk yfir á árunum 950-1240 en síðast runnu hraun á Reykjanesskaga árið 1226, þar má nefna Arnarseturshraun, Leitahraun og Eldvarpahraun.
Í umsögn Stofnunar Árna Magnússonar segir svo um nafngiftina: “Óbrinnishólar; réttara en Óbrynnishólar, sbr. so. brinna í fornu máli”.
Þegar gengið er um Óbrinnishólahraun leynist engum hugsandi ferðalangi að þar er um að ræða annað og “geðslegra” hraun en sjá má í Brunanum/Nýjahrauni/Kapelluhrauni (sett svo fram svo finna megi á leitarstreng). Þó fer ekki á milli mála, jafnvel meðal leikmanna, að ekki getur verið svo mikill aldursmunur á þessum hraunum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-flensborg.is
-Jón Jónsson. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn, 42.-45. árgangur. Rkv. 1974a.
-Stofun Árna Magnússonar.

Í Óbrinnishólahrauni

Selhóll

Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir reyndu að ráða gátuna í skrifum þeirra um aldur Eldra- og Yngra Hellnahrauns í ritinu Jökli árið 1991:

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

“Samkvœmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvakerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatarmál hraunanna er 36,5 km2 og rúmmálið er áœtlað um 0,22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið á einhverju tímabilanna 1026-1045 (12%), 1052-1065 (35%), 1089-1125 (35%) og 1138-1153 (18%).
Traðarfjöll
Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar er í rauninni tvö hraun og eru bœði komin frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Yngra hraunið er sama hraun og Jón Jónsson (1977) hefur nefnt Tvíbollahraun. Það er að öllum líkindum runnið ísömu goshrinu og hraun sem Jón Jónsson (1978a) hefurnefnt Breiðdalshraun.
Vegið meðaltalfjögurra geislakolsgreininga á sýnum undan Yngra Hellnahrauni, Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni (tvö sýni) gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið annaðhvort á árabilinu 894-923 eða, sem er mun líklegra, á árunum 938-983.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Helluhraunið sunnan og vestan við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði heitir Hellnahraun (Guðmundur Kjartansson hefur nefnt hraunið Hvaleyrarhraun þar sem hann minnist á það í sínum greinum og það nafn hefur hraunið fengið á kortum Landmælinga Íslands. Í fyrri grein okkar um Krýsuvíkurelda er hraunið einnig nefnt Flatahraun). Flestir jarðfræðingar sem um það hafa fjallað hafa álitið hraunið mjög gamalt, án þess þó að færa fyrir því haldbær rök. Hraunið er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og þess sjást engin merki að það hafi nokkum tíma verið gróið að marki. Allt var á huldu um aldur hraunsins þar til sumarið 1986, en þá tókst okkur að finna nothæft jarðvegssnið sem liggur inn undir hraunið, norðvestan við Stórhöfða. Þar kom í ljós að Landnámslagið liggur inn undir hraunið. Áður töldum við að Hellnahraun hefði runnið í sama gosi og Kapelluhraun og einnig að Hellnahraun og hraunið frá Óbrinnishólum væru eitt og sama hraunið (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).

Hellnahraun

Mannvirki í Óbrinnishólahrauni. Sjá má í Eldra-Hellnahraun fjær.

Við nánari könnun á Óbrinnishólum sumarið 1989 kom í ljós að athuganir Jóns Jónssonar (1974) á þeim standa óhaggaðar. Þá var aðeins eftir að kanna mót Hellnahrauns og Obrinnishólahrauns nánar, en á jarðfræðikorti Jóns Jónssonar (1978a) er Hellnahraunið talið eldra. Könnunin leiddi í ljós að vestur af Stórhöfða hefur Hellnahraunið augsýnilega runnið út yfir hraunið frá Óbrinnishólum og er því örugglega yngra. Að fenginni þessari niðurstöðu þótti ljóst að Hellnahraun hlaut að hafa komið upp nærri nyrsta hluta Undirhlíða. Þar er þó engum eldstöðvum til að dreifa nema Gvendarselsgígunum en hraunið frá þeim hefur greinilega runnið út yfir Hellnahraunið. Hægt er að ímynda sér að gígarnir hafi horfið undir Gvendarselshraun en sú skýring er ekki sennileg í ljósi þess hversu þunnt Gvendarselshraunið er. Einnig má hugsa sér að Hellnahraun hafi komið úr sjálfum Gvendarselsgígum í byrjun goss en sú skýring verður að teljast langsótt.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Eftir allmiklar vangaveltur um uppruna Hellnahrauns fannst, eins og stundum vill verða, einföld og augljós skýring. Hraunið er einfaldlega ekki komið úr eldstöðvakerfi Trölladyngju, heldur eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Sunnan undir Helgafelli er allmikill helluhraunsfláki. Næst Helgafelli liggur ofan á honum tiltölulega mjór taumur af yngra helluhrauni sem hverfur inn undir Gvendarselshraun.
Jón Jónsson (1977) hefur fjallað um hraun þetta og telur það komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum. Ekki verður annað séð en að Hellnahraun sé framhald Tvíbollahrauns til vesturs. Í Krýsuvíkureldum flæddi hraunið frá Gvendarselsgígum yfir hluta hrauntaumsins þannig að samhengið rofnaði og hefur það villt mönnum sýn. Hellnahraun er auk þess einsdæmi á Reykjanesskaga að því leyti að það hefur runnið þvert yfir eitt eldstöðvakerfi og langleiðina yfir í það næsta, þ.e.a.s. hraunið kemur upp í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, rennur þvert yfir eldstöðvakerfi Trölladyngju og þar sem það liggur næst sjó við Hvaleyrarholt er það í aðeins um 5 km fjarlægð frá austustu sprungunum sem þekktar eru í eldstöðvakerfi Reykjaness.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Þegar Hellnahraunið var kannað nánar sumarið 1991 kom ýmislegt nýtt í ljós. Sem fyrr segir liggur Hellnahraunið út á hraunið frá Óbrinnishólum vestur af Stórhöfða. Við könnun á neðri hluta hraunsins reyndist aldursafstaðan þveröfug, þ.e. Óbrinnishólahraunið hefur runnið út yfir Hellnahraun. Þegar betur er að gáð reynist Hellnahraun samanstanda af tveimur hraunum sem hér á eftir verða nefnd Yngra og Eldra Hellnahraun. Hraunin eru ákaflega lík í ytri ásýnd og var nokkrum erfiðleikum bundið að greina þau að, en það tókst. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur að öðru leyti en því að það er eldra en hraunið frá Óbrinnishólum og yngra en Búrfellshraunið. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-1000 ára. Hraunið er líkt og Yngra Hellnahraunið komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið í átt til sjávar

Aldur Yngra Hellnahraunsins

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun í sjó fram sunnan Hvaleyrar.

Jón Jónsson (1977) fann Landnámslagið undir Tvíbollahrauni og einnig kolaðarjurtaleifar sem hann lét aldursgreina. Taldi Jón hraunið hafa runnið á fyrstu árum Íslandsbyggðar. Árið 1988 tókum við sýni af koluðum jurtaleifum á sama stað og Jón hafði tekið sín sýni, við suðvesturhorn Helgafells. Einnig var tekið sýni af koluðum jurtaleifum undan Yngra Hellnahrauninu, í rústum af gömlum gervigíg, Rauðhól, skammt frá mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.

Fagridalur

Gengið upp úr Fagradal um Breiðdalshraun.

Frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla hefur á sögulegum tíma runnið annar helluhraunstaumur, sem minnir mjög á Yngra Hellnahraunið. Hraunið kom upp sunnan við Kistufell í Brennisteinsfjöllum, rann til norðvesturs eftir Lönguhlíðarfjöllum og síðan fram af þeim niður í Fagradal og Breiðdal við Undirhlíðar. Þetta hraun hefur Jón Jónsson (1978a) nefnt Breiðdalshraun. Aldursgreining, sem Jón lét gera, bendir sterklega til að það hafi runnið í sömu goshrinu og Yngra Hellnahraun.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Geislakolsgreiningar hafa verið gerðar á hraunum sem talin eru mynduð í sama gosi eða goshrinu og Yngra Hellnahraun. Greiningar á Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni eru ættaðar frá Jóni Jónssyni (1977, 1978a), en okkar sýni, sem tekið var undan Tvíbollahrauni á sama stað og sýni Jóns, er kennt við Helgafell. Sýnin frá Helgafelli og Rauðhól voru meðhöndluð til geislakolsmælingar á Raunvísindastofnun Háskólans, en sjálf mælingin fór fram á tandemhraðli Árósaháskóla. Líklegast hafa öll þessi hraun runnið á sama tíma á 9. eða 10. öld.”

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar II; Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, bls. 61-74.

Hellnahraun

Yngra-Hellnahraun ofan Hafnarfjarðar.