Krossstapi

“Fyrir ofan Skorás taka við slétt mosa- og hraunsvæði allt upp að Krossstöpum. Krossstapar eru tveir sérkennilegir og klofnir klettastapar, hvor upp af öðrum með stuttu millibili. Um neðri og stærri stapann endilangan liggur í bókstaflegri Mid-krossstapi-221merkingu gömul sauðfjárveikivarnagirðing.
Samkvæmt heimildum eiga Krossstaparnir að vera þrír, Neðsti-Krossstapi, Mið-Krossstapi og Hraun-Krossstapi en erfitt er að henda reiður á hver ber hvaða nafn. Mið-Krossstapi er sagður hornmark jarðanna Lónakots, Hvassahrauns og Óttarsstaða í landamerkjabréfum en í raun er enginn Mið-Krossstapi sjáanlegur því staparnir eru aðeins tveir að því er virðist. Rétt sunnan við þann neðri er þó smá klettahóll en ólíklega er hann talinn með stöpunum. Í örnefnalýsingu er sagt frá þremur í eftirfarandi röð ofan frá: Hraunkrossstapi, Miðkrossstapi og loks Krossstapi eða Neðstikrossstapi. Upplýsingarnar eru ekki eldri en frá árinu 1980 og einkennilegt að einn stapinn skuli hreinlega týnast á þessum stutta tíma! Örnefnið er sérkennilegt og ekki gott að segja af hverju það er dregið nema þá helst því að staparnir eru krosssprungnir. Einhverjir telja að týndi Krossstapinn sé fyrir ofan þann „efri” en aðrir telja hann neðan við þann „neðri”.

Efsti-Krossstapi-221Frá Krossstapa þeim sem gamla girðingin liggur um sjáum við vörðuna á Selásnum við Hvassahraunssel í vestri og er líklega tæpur kílómetri að henni. Rétt neðan við stapann eru fjögur tófugreni sem kölluð eru Krossstapagrenin. Fjárgirðingin liggur austan við efri Krossstapann en á honum er varða sem virðist vera nýleg. Markalínan liggur líklega á svipuðum slóðum og girðingin þannig að við höldum okkur í námunda við hana. Tæpan kílómeter fyrir ofan stapann er Sléttuhraunsgreni en það er líklega á landamerkjalínunni. Suður af efri stapanum er mjög stórt jarðfall sem snýr í suðurnorður. Jarðfallið er umlukið björgum en ofan í því er töluverður gróður. Ein heimild segir kerið heita Urðarás og er það örnefni lýsandi fyrir staðinn. Vestan í jarðfallinu er Urðarásgreni og reyndar fleiri greni á næsta leiti.
Urdaras-221Ofan og sunnan við Krossstapana göngum við um kjarri vaxnar hæðir sem heita Skógarnef (et.) og þar eru Skógarnefsskúti og Skógarnefsgren. Grenið er neðan við brekkurnar um kílómetra norðvestur af Búðarvatnsstæði sem við skoðum hér rétt á eftir. Skógarnefsskúti hefur ekki fundist óyggjandi að því að best er vitað en þar var fjárskjól. Um Skógarnef liggur Rauðamelsstígur úr Hraunum sem fyrr er nefndur.
Austan Skógarnefs er mikil hæð sem talin er til Hafnarfjarðar og heitir hún Sauðabrekkur. Á landamörkunum fyrir ofan Skógarnefið er Sauðabrekkugreni og Klofningsklettur en hans er getið í gömlum merkjabréfum.”
Við framangreint má bæta að vissulega eru Krossstaparnir þrír og allir vel greinilegir, þó efri bræðurnir tveir standi Ottarsstadir-Lonakot-landamerkihærra í landinu en sá neðsti. Nánast jafnlangt er á milli Mið- og Efsta-Krossstapa og Mið- og Neðsta Krosstapa. Neðan við hann eru Krossstapagrenin merkt. Skógarnefsskútinn er á mörkum Óttarsstaða og Hvassahrauns, ofar en landamerki Lónakots liggja með Óttarsstaðalandi, sbr. landamerkjavörðuna skammt austan Lónakotssels.
Þá segir ennfremur í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun: “Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren.”
Hér er Skógarnefsskúti sagður á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots/Óttarsstaða, en merki Lónakots ná skammt upp fyrir Lónakotssel. Skútans er ekki getið í örnefnalýsingum þeirra jarða, svo leiða má líkur að því að hann sé inni í Hvassahraunslandi.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdótir, 2007, bls. 119-120.

Krossstapi

Krossstapi.