Kershellir

 Að sögn Friðþófs Einarssonar, bónda á Setbergi, er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna. Að sögn móður hans, Elísabetar Reykdal, notaði afi Friðþjófs, Jóhannes Reykdal, hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði hús undir féð uppi á Húsatúni þar skammt frá.

Kershellir

Kershellir.

Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli.
Kershellir, sem er á landamerkjum, er tvískiptur; nyrðri helmingur hans tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti.
Hvatshellir gengur suður úr niðurfalli sunnan Suðurhlíðar milli Setbergshlíðar og Slétturhlíðar og er stór varða á vesturbrún þess. Um töluverða hvelfingur er að ræða, um 40 metra langa, 10 metra breiða og um tveggja metra háa. Eftir að komið er niður í hellinn sjást göng upp með niðurfallinu. Þar er afhellir álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Heildarleng hellisins er um 100 metrar. Hellirinn fannst sumarið 1906 og varð forsíðufrétt í blaðinu Þjóðhvelli (1906), en þar segir:
“Fjórir piltar, ungir og röskir: Helgi Jónasson, Matthías Ólafsson, Sigurbjörn Þorkelsson (allir þrír starfsmenn Edinborgarverslunar hér í bænum) og Skafti Davíðsson trésmiður, höfðu myndað með sér félag í vor, er heitir Hvatur, í því augnamiði, að temja sér göngulag og styrkja með því líkamann. Hafa þeir því á sunnudögum gengið upp í landið til að njóta fríska loftsins og fegurðar náttúrunnar. Í einum slíkum leiðangri fyrir skömmu, fundu þeir hellir einn uppi í Hafnarfjarðarhrauni, stóran og fallegan – miklu stærri en helli þann í Þingvallahrauni, er kenndur er við enska manninn, Hall Caine, af því að hann fann hann ekki.-
Þennan nýfundna hellir hafa piltarnir skírt Hvatshelli, eftir félagi sínu, og var vel til fundið. – Lengd hellis þessa, frá enda í enda, kvað vera 300 fet; afhellar eru margir út úr aðalhellinum, hver inn af öðrum, og kvað innsti hellirinn vera þeirra lang-fallegastur. Hvelfing hans er t.d. snilldarvel löguð. Merki þess þykjast menn sjá, að menn hafi komið í hellir þennan áður fyrir löngu.
Árangur af þessari ferð piltanna hefur orðið merkilegur mjög, og hlýtur að vera þeim og öðrum til gleði, – eiga þeir þökk skilið fyrir fundinn. – Að minnsta kosti hefði slíkur fundur sem þessi þótt matur hér í Víkinni, hefði finnandinn verið einhver nafnkenndur útlendingur eða Lord eða eitthvað því um líkt og verið innundir hjá ritstjóranum.”

Fjárhús

Fjárhúsið í Húsatúni.