Hraunagata

Um Hraunin milli gömlu götunnar millum Innnesja og Útnesja, Alfaraleiðar, og strandar virðist hafa legið gata, nefnd Hraunagata og Hraunavegur. Hún er enn greinileg og vörðuð á stuttum köflum, en í heild er gatan torlæs – nema þeim er lesninguna kunna.
HraunagatanVið götuna eru, ef vel er að gáð, mannvistarleifar á báðar hendur. Gatan virðist hafa legið milli Straums/Óttarsstaða og Hvassahrauns, neðan Sjónarhóls, Brunnhóls og Grænhóls.
Í fyrri ferð um svæðið þar sem gatan var rakin fram og til baka frá Straumi að Lónakotssvæðinu vestanverðu höfðu komið í ljós hnökrar á framhaldinu. Í stað þess að leita sunnar í hrauninu var ákveðið að fara norðar, þ.e. með stefnu niður fyrir Grænhól. Það leiddi til hringferða um hraunið neðanvert. Áður en þetta var gert hafði verið hlaðin lítil varða þar sem gatan virtist áður enda.
Nú var gatan hins vegar rakin frá Hvassahrauni áleiðis yfir að Lónakotssvæðinu. Fljótlega lá fyrir hvar Hraunagatan lá í klapparmóanum. Vísbendingar í litlu vörðuformi gáfu og leguna til kynna. Víða mátti sjá hófmarið grjót, sérstaklega í klapparþrengslum.
HraunagatanHraunagatan liggur fyrir norðan Skyggni með svo til beina línu yfir hraunið að Straumi. Í stað þess að beygja norður fyrir Grænhól lá gatan nokkuð sunnan hans. Þegar austur fyrir hólinn var komið beygði hún til norðvesturs – með stefnuna á vörðuna, sem fyrr hafði verið hlaðin á “endamörkum” fyrri ferðar. Í stað þess að halda beint áfram þar eða beygja til hægri átti að beygja nánast 75° til vinstri. Hefði það verið gjört mátti auðveldlega fylgja götunni heim að Hvassahrauni.
Líklegt má telja að Hraunagatan hafi að mestu verið farin af heimafólki og kunnugum í Hraununum. Aðrir hafa farið Alfaraleiðina, sem er nokkuð sunnar (ofar) í hrauninu.
Segja má að með opinberun Hraunagötunnar hafi enn ein hinna gömlu þjóðleiða bæst í félagsskap þeirra, sem fyrir voru. Það að götunnar hefði verið getið í örnefnalýsingum hefur gert að verkum að hennar var leitað. Fundurinn verður vonandi til þess að fólk nýti sér Hraunagötuna til ánægjulegra gönguferða á komandi árum og áratugum. Leiðin eftir henni á milli Straums og Hvassahrauns er u.þ.b. 1 klst og 30 mín gangur á eðlilegum gögnuhraða.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Straum, Óttarsstaði, Lónakot og Hvassahraun.

Klettaborg

.