Jarðfall

 Kominn var tími til að skilgreina nákvæmar Straumsselsstíginn (vestari). Jafnan hefur verið haldið fram að Fornaselsstígur hafi verið hluti Straumsselsstígsins, en nýjustu uppgötvanir benda til þess að svonefndur “Straumsselsstígur vestari” hafi fyrrum verið stígurinn upp í selið. Bæði er hann greiðfærari og miklum mun eðlilegri. Tóftir ÞorbjarnarstaðaÞað sem háð hefur lokaákvörðun um staðsetninguna er kafli ofan klapparhæðardraga suðvestan við Draughólshraun. Spurnir höfðu borist af bæði greinilegu og vörðuðu framhaldi stígsins á því svæði.
Eflaust hefur verið farið upp í Straumssel af Fornaselsstíg, en ekki með hesta. Vestari stígurinn, eins og hann hefur verið kynntu, hefur heldur ekki verið farinn með hesta. Samt hefur verið farið á hestum með allan kost upp í selið og afurðir til baka. Auk þess hefur hrís að mestu verið reiddur af hestum ofan úr Almenningi, en þar var Straumselið miðstöð um tíma. Ætlunin er að rekja selstíginn frá Straumi upp í selið.
Straumsstíg var fylgt upp í hraunið til suðurs skammt vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnastaða. Í lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan lá frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið (Geldingahraunið/Eldra Afstapahraunið) og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir síðan vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshrauni, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Rautt; reiðleið - Gult; gönguleið (styttingur)
Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt austar. Gallinn við síðastnefnda kaflann er á að hann er ekki hestfær. Þarna gæti því hafa verið styttingur (gönguleið) upp í selstöðuna, en þótt hún stytti leiðina svolítið, m.v. það sem átti eftir að koma í ljós, þá sparaði hún ekki tíma.
Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem nefndur er svo, er liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Lambhaga, hafi fyrrum verið forn gata þaðan, enda greinilega mikið genginn, bæði af mönnum og skepnum. Þessi sel lögðust af mun fyrr en Straumsselið, þ.e. að segja bærinn í Straumsseli. Tóftir gömlu selstöðunnar eru skammt austan við bæjartóftirnar. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af. Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem styttingurinn á vestari selsstígum mætir túninu.
Eystri selstígurinn (Fornaselsstígur) er merktur að hluta. Sá selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum og Vestari-Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Nokkuð neðan við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.
Á þessari leið sést vel yfir að vörðu í suðvestri ofan við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum. Annars gengu hlutar Gerðarstígsins undir nokkrum nöfnum, allt eftir því til hvers hann var notaður hverju sinni.
Straumsselsstígur vestariFyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Varðan hefur ekki þjónað vegfarendum um vestari selstíginn, en hún hefur vissulega gert það fyrir þá er komu að vestan því þá blasir varðan við beint fyrir ofan selstöðuna og er þá eitt helsta kennileitið á leiðinni. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.
Og þá aftur að Straumsselsstíg vestari. Eftir að hafa fylgt honum yfir Alfaraleiðina lá hann um lágt hraunhaft. Við það er varða á hægri hönd. Handan haftsins er hlaðið skjól fyrir grenjaskyttu. Stígurinn lá nú um slétt gróið hraun (Hrútargjárdyngjuhraun) með stefnu til suðausturs, um stutt hraunhaft í Geldingarhrauninu og áfram með stefnu upp Mjósund. Við hraunhaftið stendur ábúðarmikill hraunkarl (Geldingurinn) og horfir heim til bæja. Nokkrar vörður eru hér á klettum. Önnur vörðuröð er skammt ofar. Líklega eru hér um hrístökumörk fyrrum einstakra bæja að ræða.
Þegar stígnum hafði verið fylgt upp Mjósund var komið á hábrúnir gegnt suðvestanverðu Draughólshraunshorni. Þaðan lá “styttingurinn” áleiðis upp í Straumssel, skammt sunnan Draughólshrauns (úfið apalhraun á afmörkuðu svæði vestan Straumsselshæða). Í því ofanverðu er Draughóll. Nafngiftin hefur eflaust átt að fæla fólk frá að fara inn í hraunið, enda illt yfirferðar (nema kannski að vetrarlagi þegar mosinn er frosinn). Þessa leið hefur enginn farið með hest fyrrum, hvað þá hest með byrgðar.
Þegar aðstæður voru skoðaðar betur mátti sjá undirhleðslu markagirðingar Straums og Óttarsstaða skammt sunnar. Varða við Straumsselsstíg vestariInnan hennar eru enn vænlegri gróningar í svo til beina stefnu upp Hrútargjárdyngjuhraunið. Norðan þeirra eru mishæðir og jarðföll. Þegar staðið var uppi á hábrúnunum virtist augljóst að ef fara átti með hest áfram upp hraunið var ekki um annað að ræða en að halda beint áfram til austurs, með sunnanverðum hæðunum – upp gróningana. Á þeirri leið var engin fyrirstaða alla leiðina. Að vísu fór gatan stundum undir girðinguna, en hafa ber í huga að hún er miklu mun yngri en gatan og hefur verið sett upp eftir að Straumselið lagðist af. Enn standa járnstaurar sumsstaðar upp úr undirhleðslunni.
Þegar verið var að rekja götuna var komið að jarðfalli, einu af fjölmörgum, norðan götunnar. Lítil varða var á brún þess. Undir vörðunni voru leifar af hlöðnu skjóli. Hleðslan var heil að vestanverðu við skúta, en fallin að öðru leiti. Staðnum var gefið nafnið “Straumsselsskjólið”.
Gróningunum var fylgt upp í hraunið, með beina stefnu á háa vörðu á hæðarbrún. Norðan hennar beygði gatan til norðausturs und komið var upp á stíg, sem liggur milli Straumssels og Óttarsstaðasels. Þeim stíg var síðan fylgt að Straumsseli. Þá var komið að selinu úr suðri, beint á gamla selstíginn.
Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær, sem fyrr sagði, fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.
Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn.
Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.Undirhleðslur markagirðingar Straums og Óttarsstaða
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.
Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru innangarðs. Selsgarðurinn um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta t.a.m. til vöruflutninga.
Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi sennilegast verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.
Björn Bjarnason frá Grafarholti fjallar um gamlar götur í Árbók fornl.fél. 1914. ”Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum.

Hleðslur í skjóli við Straumsselsstíg vestari (nefnt Straumsselsstígsskjól)

Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.”
Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.
Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].
Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.

Vörður eru víða við leiðina

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var ákveðið að feta sömu leið til baka til að gaumgæfa betur hvort um aðra kosti hafi verið að ræða. Eftir að hafa fylgt milliselsstígnum til suðvesturs beygði Straumsselsstígurinn vestari aflíðandi til norðvesturs. Á þessari leið, sem og frá Straumsseli, er hið ágætasta útsýni heim að Straumi. Gróningunum var fylgt niður aflíðandi hraunið, kannað með útúrdúra og aðra möguleika, en leiðin virtist augljós. Ljóst var að ef fara átti með hesta upp í Straumssel þá hefði þessi leið orðið fyrir valinu. Og jafnvel einnig upp í Óttarsstaðasel því jafn auðvelt var að fara milliselsstíginn yfir í það.
Á leiðinni var reynt að skoða hvort Skógargatan, sem kemur niður á Rauðamelsstíg/Óttarsstaðaselsstíg, lægi hugsanlega áfram sem áframhald til norðurs, þvert á þá. Ekki fékkst úr því skorið að þessu sinni, en líklegt verður að telja að Efri-Hraunamenn hafi farið þá leið ef þurfa þótti upp í gegnum Skógarnef og áfram suður eftir. Út því verður skorið innan skamms tíma.
Frábært veður í frábæru landslagi. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Straumssel