Draughólshraun er að öllum líkindum eitt fáfarnasta hraunið á Reykjanesskaganum. Reyndar er hraunið ekki víðfeðmt, en nægilega þó til þess að bæði fólk og skepnur, nema kannski refurinn, hafa löngum lagt lykkju á leið sína til að forðast að þurfa að ganga um það.
Draughólshraun heitir eftir efsta stóra hólnum í hrauninu; Draughól. Það er dæmigert apalhraun. Líklega hefur nafngiftin komið til af því að fæla fólk að fara um svæðið af ástæðu, sem síðar átti eftir að koma í ljós, eða sem vísbending um að þangað væri ekki óhætt að fara. Í raun er hraunið hluti af stærra hrauni, eða hraunum, á svæðinu. Meginhraunið er Hrútagjárdyngjuhraunið. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að það hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum (leiðréttur aldur ~ 4500). Hraunin ná yfir 80 km2 svæði. Neðarlega, skammt ofan við Þorbjarnastaði í Hraunum, eru nokkrar lítt áberandi hraunskellur, nefndar Selhraun 1, 2, 3 og 4. Hraun þessi eru öll yngri en Hrútagjárdyngjuhraunið, misgömul þó, en öll u.þ.b. 4000 ára. Svo virðist sem þau hafi orðið til í jarðhræringunum í kjölfar dyngjugossins í Hrútagjá, sum jafnvel um svipað leyti. Gróningar benda þó til þess að hraunin geti verið, það yngsta, allt að 2000 árum yngri. Elsti flákinn er Selhraun 4, svonefnt Gráhelluhraun. Í því er t.d. Kolbeinshæðaskjólið og Kolbeinshæðahellir. Þá koma þrjú Selhraun 3, annars vegar vestan í Brunanum (Nýjahrauni/Kapelluhrauni) og hins vegar Draughólshraunið. Þá er skella norðan við svonefnda Katla, ofan við Selhraun 2.
Í Kötlunum er t.d. Kápuhellir/Kápuskjól. Hrauntungurnar eru innan fyrstnefnda hlutans. Draughólshraunið er stærst Selhraunanna – og sérkennilegast. Eldri Selhraun er fyrrnefnt Selhraun 2 og Selhraun 1, millum Gráhelluhrauns (Selhrauns 4) og Draughólshrauns (Selhrauns 3). Norðan og vestan þeirra liggur svo Geldingahraun (Afstapahraunið eldra) yfir Selhrauni 1 og að sjálfsögðu Hrútagjárdyngjuhrauni. Það er komið úr gígum ofan við Mávahlíðar. Í rauninni er um að ræða gígaröð svo líklega er þar komin skýringin á nýrra “Hrútagjárdyngjuhrauninu”, sem fyllt hefur dyngusvæðið seinna sinnið og smurt innviði hennar. Yngstur er svo Bruninn (Nýjahraun/Kapelluhraun) frá árinu 1151.
Þegar gengið var hægt og varlega inn í Draughólshraunið kom í ljós að hraungambrin réði þar eindregnum ríkjum. Þó kom á óvart hversu miklar “gróðurvinjar” á millum var þar að finna, einkum að norðvestanverðu. Götu var fylgt inn í hraunið af grónu og kjarrivöxnu Hrútagjárdyngjuhrauninu. Gatan virtist liggja áfram upp í hraunið, en mannvistarleifar náðu fljótt athyglinni – og það margar. Víða var vörður að sjá. Staðnæmst var á mosavöxnum hraunhól með gróinni fuglaþúfu á kollinum. Þaðan mátti sjá yfir allt Draughólshraunið, allt upp í Draugshól. Sunnar sást í hæð. Í henni virtist vera rúmgóður skúti. Hraunafbrigðin alltumkring voru margvísleg, allt frá reglulegum mynstrum til flóknari. Erfitt er að útskýra þetta í nokkrum orðum.
Þegar staldrað var við mátti sjá háar vörður á norð(vestur)brún hraunsins með reglulegu millibili. Þegar FERLIR skoðaði þessa vörðuröð á sínum tíma var dregin sú ályktun að hér væri líklega um markavörður að ræða – á augsýnilegum brúnum. Þegar staðið var uppi í hrauninu komu hins vegar upp ákveðnar efasemdir. (Svona getur þetta verið; sumt af því sem sagt eða ritað hefur jafnan verið tekið sem jafngildi sannleikans, en við nánari athugun hafa stundum komið upp efasemdir, líkt og nú. Ástæðan fyrir “sannleikanum” sagða eða ritaða er oftar en ekki tilefni deilna um landamerki byggðalaga eða bæja.)
Þegar gengið var á vörðuröðina kom nokkuð áhugavert í ljós – hlaðnar refagildrur og greni. Vörðurnar á brúnunum voru þá leiðarmerki að fyrrum refagildrum og grenjum, enda mun Draughólshraunið, eftir á að hyggja, löngum hafa verið “friðland” skolla. Nafngiftin ein hræddi fólk frá að fara um hraunið, auk þess sem það virtist við fyrstu sýn vera nánast ófært. Þeir fáu, sem vissu betur, virðast hafa gert sér “mat” úr þessu hvorutveggja. Undir tveimur varðanna reyndust vera hlaðnar refagildrur.
Ein smáhæð norðvestanlega í Draugshólahrauni er merkileg fyrir það að hún er augljóslega leifar af enn eldra hrauni en Hrútagjárdyngjan. Um er að ræða rauðamelsgjallhól, líklega frá sama tíma og Þorbjarnarstaða-Rauðamelur (<11.000 ára). Fallegt hraundríli er inni í miðju hrauninu.
Sem fyrr sagði eru víða mannanna verk, smávörður, í Draugshólshrauni. Hafa ber í huga að rétt (Tobburétt í Grenigjá) er utan við hraunkantinn og sel (Straumssel) er ofan við hann. Hvorutveggja eru merkt með veglegum vörðum. Hvað (annað en refagildrur) býr að baki hinum minni á eftir að koma í ljós.
Á göngunni var gengið fram á fyrirhlaðið hraunskjól og annað vestan Hólanna er gæti hafa verið svonefnt Kápuskjól ofan við Þorbjarnastaði skv. örnefnalýsingu. Annað samnefnt er í Kötlunum, auk þess sem Gránuskúti er einnig suðvestan við Gjáselið skammt norðaustar (líklega er um að ræða misvísanir í lýsingum).
Áhugi bæjaryfirvalda í Hafnarfirði (einkum þó embættismanna þeirra) beinist mjög að þessu merkilega svæði – vegna fyrirhugaðs akstursæfingasvæðis með tilheyrandi raski og skemmdum í Selhraununum, þessum merku náttúru- og jarðsöguminjum ofan bæjarins.
Lambagrasið var sem skrautfjöður í hatti hraumgambrans.
Fljótlega verður farin önnur ferð inn í Draughólshraun með sérstaka áherslu á efri hluta þess, Draughól og nágrenni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.