Gengið var um Brunann, öðru nafni Nýibruni, Nýjahraun eða Kapelluhraun.
Kapelluhraun myndaðist úr gíg[um] á 25 metra langri sprungu sem opnaðist í eldgosahrinu er hóft 1151 og hraun rann til sjávar bæði norðan og sunnan megin við Reykjanesskagann. Á síðustu árum hefur mikið efni verið tekið úr hrauninu til uppfyllingar við álverið [sem og úr Rauðamel] og í húsgrunna og götur á Stór- Reykjavíkursvæðinu og það sléttað.
Álverið við Straumsvík stendur á Nýjahrauni/Kapelluhrauni og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Í umræðum meðal Hraunafólksins var hraunið jafnan nefnt Bruninn og brúnir hans Brunabrúnir vestri og eystri. Hann á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krýsuvíkurkerfinu fyrstnefnda.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt [þ.e.a.s. sá hluti þess sem enn er óraskaður], úfið og mosagróið apalhraun. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2 – 13.7 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 10 metra kafla við litla endurgerða rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan.
Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi.
Af þessum rannsóknum má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175, sjá nr. 5 hér að ofan.:
“Kapelluhraun.
Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni.
Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð [Rauðhól] sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu”
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar auk þess:
“Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.”
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
“Eftir Krísuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.”
Í greininni “Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu”eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
“Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.”
Gengið var um Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar. Í göngunni var höfð hliðsjón af skrifum Sigmundar Einarssonar, Hauks Jóhannessonar og Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur um Krýsuvíkurelda II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, er birtust í Jökli nr. 41 1991.
Gangan hófst við Gerði ofan við Straum, nyrst í vesturjaðri Kapelluhrauns. “Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatamál hraunanna er 36.5 km2 og rúmmálið er áætlað um 0.22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68.3% líkur á að hraunin hafi runnið á tímabilinu frá 1026-1153.
Í Konungsannál, Oddverjaannál og Annál Flaeyjarbókar 1151 segir frá eldum í Trölladyngjum. Einnig í Skálholtsannál 1188. Ekki er ljóst hvers vegna annálarnir kenna gosin við Trölladyngjur en svo virðist sem þær hafi verið alþekkt örnefni á þessum tíma. Líklegast er að eldgosið 1188 hafi verið lokaþáttur umbrotahrinunnar.
Auk þessara frásagna í annálum eru óbeinar heimildir um hraunrennsli á norðanverðum Reykjanesskaga eftir landnám. Kapelluhraun heitir einnig Bruninn í daglegu tali og það eitt bendir til að menn hafi séð hraunið renna. Yfirleitt er talið að Kapelluhraun hafi áður heitið Nýjahraun og Ólafur Þorvaldsson (1949) segir nafnið Nýjahraun sé enn þekkt um hluta þess. Þessi gögn benda eindregið til að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist.
Elstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál, bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.
Kjalnesingasaga gerist á landnámsöld en er talin skrifuð skömmu eftir 1300. Athyglisvert er að höfundurinn skuli nota Nýjahraun til að takmarka Brunndælagoðorð. Notkun örnefnisins Nýjahraun í Kjalnesingasögu bendir til að hraunið sé runnið einhvern tíma á tímabilinu 870-1250.
Ótrúlega fáir, þrátt fyrir framangreint, hafa gert tilraun til að kanna Brunann/Kapelluhraun, upptök þess, útbreiðslu og raunverulegan aldur. Þorvaldur Thoroddsen (1913) reið á vaðið er hann kannaði Kapelluhraun lauslega 1883. Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.
Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld.
Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur Jón stungið upp á því að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi öll orðið til í einni goshrinu á fyrri hluta elleftu aldar (Jón Jónsson 1982,1983).
Gossprungan, 25 km löng, er frá norðanverðri Gvendarselshæð og suður fyrir Núpshlíðarháls. Á henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6.5 km.
Í Krýsuvíkureldum mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Hraunflákinn gæti hafa myndast í tveimur [eða fleiri] gosum (en þó í sömu goshrinu).
Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir og snotrir gígar er nefnast Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gíganna er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13.7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 metrar er rúmmál þess um 0.07 km3.
Líkur hafa verið leiddar að því að Ögmundarhraun hafi runnið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum. Bruninn/Nýibruni/Nýjahraun/Kapelluhraun er frá svipuðum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild:
-Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Jökull nr. 41, 1991.
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183.
-Jón Jónsson 1978: Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. + kortamappa.
-Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1998. Hraun í nágrenni Straumsvíkur. Náttúrufræðingurinn 67. 171-177.
-Páll Imsland 1998. Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu. Náttúrufræðingurinn 67. 263-273.