Árnahellir

 Að þessu sinni var gengið mót fyrri gönguleið um Undirhlíðar, þ.e. frá Kaldárseli í Ingvarslund (Skólalund) í Undirhlíðum.
Gamla þjóðleiðin um Undirhlíðar frá KaldárseliForvitnilegt er að skoða leifar hins gamla Kaldársels, vestan og sunnan við núverandi skála KFUMogK. Flaggstönginni var stungið nyrst í tóftirnar og hleðslur úr þeim notaðar til að hlaða með henni (sem nú er gróið yfir). Ytri mörk selsins eru svo sunnan við húsið. Eina tóft má þó enn sjá á sunnanverðum bakka Kaldár. “Kaldársel (sjá meira hér) tilheyrði Garðakirkju á Álftanesi. Leiguliðar Garðaklerka nýttu selið til 1842 þegar ábúandinn á Hvaleyri tók selið á leigu 1866. Búseta var reynd í Kaldárseli 1867-1886 og 1906-1908. Hafnarfjarðarbær keypti hluta Garðakirkjulands, þ.á.m. Kaldársel, árið 1912. K.F.U.M kom þar upp sumarbúðum fyrir börn 1925 og hafa verið þar allar götur síðan.” Á þessum tímamótum hefðu frumkvöðlar safnaðarstarfsins mátt vera svolítið víðsýnni. Setbergsbóndinn hafði áður keypt húsakostinn í Kaldárseli og notað hann undir það síðasta sem skjól fyrir smala og ferðamenn. Lýsingar eru til frá þessum tíma af ástandi húsanna. Ef einhver, sem seinna kom þar að, hefði haft hinn minnsta áhuga á öðru en æskulýðnum (sem þó og þá var góðra gjalda vert), t.a.m. tóftunum með mögulega varðveislu þeirra að markmiði, hefði hinn sá sami afmarkað selstöðuna og byggt hinn nýja skála litlu fjær, enda plássið gnægt. Fyrsti skáli K.F.U.M. í Kaldáseli var lítill, en stækkaði ört, m.a. vegna stuðnings Hafnarfjarðarbæjar. Fulltrúar hans virtust fjarri vitund um mikilvægi hinna gömlu mannvirkja, sem þarna höfðu verið.
Kaldá var grimm að þessu sinni, meinaði yfirferð þurrfætlinga um hið forna Kaldárvað. Vaðið var því sniðgengið, þ.e. gengið framhjá ánni neðanverðri þar sem hún rann niður á neðri hraunlög. Síðan var sléttu Kaldárhrauninu fylgt upp á hina gömlu þjóðleið milli Kaldárssels og Undirhlíða. Hraunið er helluhraun og er talið að það hafi runnið um 950 úr Tvíbollagígum í Grindaskörðum. Af loftmyndum má vel sjá hvar hraunið hefur fyllt lægðina vestan Helgafells og myndað Helgafellshraun og síðan runnið niður um Kýrskarð þar sem það myndaði Kaldárhraun.
Kýrskarð - loftmyndFylgt var svonefndum Undirhlíðavegi (-leið), hinni gömlu þjóðleið millum Hafnarfjarðar (Kaldársels) og Krýsuvíkur. Gatan sést vel í fyrstu þar sem hún er mörkuð í klöppina, en síðan fylgir hún hlíðinni með gróningum og mölbornu helluhrauni.
Undirhlíðarnar eru um 7 km hæðrahryggur úr bólstrabergi, sem nær frá Kaldárbotnum að Vatnsskarði (Markraka). Kaldárhnúkar syðri eru nyrstu hæðirnar á Undirhlíðum, einnig nefndir Undirhlíðahnúkar. Þegar Undirhlíðunum er fylgt til suðurs er fljótlega komið í Kúadal, hvamm þar sem kýr seinni tíma ábúenda í Kaldárseli var haldið til haga.
Kýrskarðið er hrauntröðin norðaustan við Múla, þann er skagar lengst út frá Undirhlíðunum framundan. Framan við hann, við gönguleiðina, er Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason frá Brekkubæ í Hafnarfirði. Handan við Múla er Litli-Skógarhvammur (Litli-Hríshvammur), kjarri vaxinn hliðarhvammur sem var girtur af 1934. Í Litla-Skógarhvammi er Skólalundur, skólareitur þar sem börn hófu gróðursetningu sama ár. Ingvarslundur er eldra nafn á Skólalundi. Þar er nú minnisvarði um Ingvar Gunnarsson, fyrsta formann Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú hefur verið komið fyrir hinni ágætustu aðstöðu til nestissnæðingar í lundinum. Með í för var maður, sem eitt sinn var ungur. Á þeim árum tók hann þátt í að planta trjám á svæðinu. Nú voru trén orðin tífalt hærri en hann.

Aðstaðan í Skólalundi

“Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið koms í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Haglendið var illa farið af hrístöku, beit og uppblæstri 1926 er skógræktarstjóri vakti athygli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á að tímabært væri að girða nokkra skógi vaxna runna í Undirhlíðum og friða skóglendið. Málið fór fyrir girðinganefnd bæjarins sem ákvað að láta girða gróskumesta skógarhvamminn. Birkið og víðitrén áttu í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Framtakið leiddi til þess að nemendur Barnaskóal Hafnarfjarðar hófu reglulega gróðursetningu í Skólalundi undir stjórn Ingvars 1934. Þeir aðilar sem áttu að annast viðhald allra girðinga í upplandinu hortu lítt um að halda skógræktargirðingunni í horfini. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða Skólalund. Girðingin var stækkuð 1961 í norðaustur fyrir Kúadal að Syðri-Kaldárhnúkum, lúpínu var sáð í örfoka landið og hafist var handa við að klæða það skógi. Sitkagreni í Skóalundi er þau hæstu í Undirhlíðum. Aðrar tegundir dafna agætlega, s.s. sitkabastarður, rauðgreni, blágreni, stafafura, fjallafura, bergfura og fjallaþinur auk birki og víðikjarrs. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar”.
Hafa ber í huga að þótt hér hafi verið komið upp hinni ágætustu aðstöðu fyrir gangandi þurfa þeir hinir sömu að muna vel eftir því að ganga vel um svæðið, hlífa viðkvæmum gróðri og alls ekki skilja ekki eftir sig rusl.

Hluti hins forna Kaldársels

Árni Óla skrifaði grein í Lesbók MBl 15. sept. 1957 undir heitinu “Um hraun og hálsa”. Þar fjallar hann m.a. um Kaldársel og nágrenni: “Í sumar fór ég ásamt Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra um nágrenni Hafnarfjarðar, til þess að sjá þá breytingu, sem þar er að verða á… Við ókum suður í Kaldársel. Þar er úfið hraun og berar og blásnar hlíðar. Skógarnir sem þar voru áður, eru gjörsamlega horfnir. Við gengum þaðan suður með Undirhlíðum. Þar kom Skógræktarfélag Hafnarfjarðar upp skógræktargirðingu fyrir nokkrum árum. Voru þar þá enn nokkrar skógarleifar í brekkunum og var þeim bjargað á þennan hátt. en þar hefir fleira gerzt.
Þegar brekkurnar blöstu við okkur, voru þær fagurbláar tilsýndar, allt frá jafnsléttu og upp á brúnir. Ég spurði Hákon hvernig stæði á þessum bláa lit.
-Þarna vex blágresi, sagði hann, síbreiða af því alls staðar milli skógarrunnanna. en líttu á brekkurnar hér um kring utan girðingar. þar sést ekki neitt einasta blágresi. Hvenig heldurðu að standi á því?
Ég gat ekki gizkað á það.
-Þetta er hið einfaldasta og augljósasta dæmi um þau spell unnin af jarðabótum þar og þess vegna sýnir þessi blettur ljóst hvernig fer þegar ágangi sauðfjár er af létt. Þar er allt að gróa af sjálfu sér og blágresið hefir numið þar land.-”
Í Lesbók Mbl 1. sept. 1946 hafði Árni Óla ritað grein “Um hraun og hálsa”. Þar er m.a. tekið hús á Kaldárseli og lýsir leiðum þaðan, m.a. upp í Brennisteinsfjöll. Sú grein verður e.t.v. efni í aðra innskotsumfjöllun síðar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Skilti við Skólalund frá SH
-Árni Óla, Lesbók Mbl 15. sept. 1957, bls. 457-459.

Minnisvarði um Ingvar Gunnarsson í Litla-Skógarhvammi