Gengið var að Straumsrétt norðaustan við Brunntjörn (Urtartjörn).
Réttin er í hraunkvos og hlaðið allt um kringum. Í djúpri hraunspungu norðvestan hennar uxu háir og fallegi burknar, eins og svo víða á Straumssvæðinu. Höfuðborgarbúar hafa hirt mikið af þessum burknum í garða sína þar sem þeir hafa dafnað vel. Þetta er risaburknar, enda þurfa þeir að teygja sig langt til að ná sólargeislunum áður en þeir hverfa bak við næsta holt eða sprunguvegg. Skoðuð voru þurrkbyrgi upp á hraunhól norðvestan við réttina og síðan haldið hiklaust yfir að Kúarétt.
Kúarétt er í gróinni kvos milli hárra hraunhóla. Hlaðnir eru garðar við endana. Við suðausturendann er hlaðinn kúastekkur. Hraunhólarnir umhverfis er háir, eins og fyrr segir. Jarðfræðiskýringin á þessu fyrirbæri er sú að glóandi hraunkvikan undir niðri í nýju hrauninu nær ekki að renna frá heldur safnast saman í kvikuþó. Við það lyftist storknuðu skelin, myndar hóla og klofnar þegar hún storknar. Mikið erum slíka sprungna hraunhóla í hraununum í nágrenni Hafnarfjarðar.
Gengið var norður fyrir réttina, að byrgi eða tóft, sem þar er. Hlaðið er fyrir lítið jarðfall (Straumsmegin) og eru dyr mót suðri. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið aðhald eða hreinlega reft yfir jarðfallið og það notað sem hýsi eða skjól.
Haldið var yfir að Óttarstaðaréttinni í Klofanum. Á leiðinni var gengið yfir háan klofinn hraunhól. Í honum var hleðsla. Hraunhóllinn ofan við réttina er einnig vel klofinn. Réttin er fallega hlaðin í skjólgóðri kvos mót norðri. Hún er tvískipt og innst í henni er lambakró. Réttin er ágætt dæmi um fallega hlaðna heimarétt. Í henni er náttúrulegur stekkur eða kví ef þurfa þótti. Réttin er vel staðsett miðað við upprekstur fjár af ströndinni, utan heimagarðasvæðis Óttarstaða.
Gengið var yfir að Óttarstöðum eystri og skoðað niður í brunnana. Vestari brunnurinn er eldri. Sá austari er frá 1944 skv. áletruninni við hann. Þarna skammt frá voru menn að dunda við að endurbyggja sumarbústað frá stríðsárunum. Þegar göngulangar komu nær og farið var að sjást hverjir voru þarna á leið um ástkæra landið breyttist viðmótið; varð öllu vingjarnlegra. Mennirnir þar reyndust vera afkomendur fólks frá Óttarstöðum vestri, einir af ófáum afkomendum Hraunafólksins. Nefndi það í viðræðum ýmsa staði til sögunnar, sem fróðlegt verður að skoða nánar síðar.
Litið var á gerði eða rétt í hraunkvos skammt suðaustar, markarklettinn á landamerkjum Óttarstaða og Straums, sem nú var næstum umflotinn sjó (stórstreymt var) og Jónsbúðarbrunnurinn var umflotinn. Skoðuð var Jónsbúð og gerðið umhverfis og einnig Tjörvagerði skammt ofar. Í því er tóft.
Gengið var um garðana umhverfis Þýskubúð, gerðið, brunninn og síðan að bátaréttinni norðan við Straum. Þar má enn sjá hleðslur ofan við Straumsvörina, garðana norðan og vestan við bæinn sem og ýmsar tóftir er tilheyrt hafa Straumsbænum. Bærinn sjálfur speglaðist í stórstreymdum tjörnunum. Gæsahreiður á grasbala og tjaldshreiður á malarkambi. Gaman verður að fylgjast með ungunum þegar þeir fara á stjá.
Þótt farið hafi verið yfir svæðið og það rissað upp eru enn að opinberast ýmsar minjar, sem ekki hafa náð athyglinni fram að þessu. Ljóst er að uppdráttur af Straumssvæðinu verður þéttdreginn minjum. Vont er til þess að hugsa að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði halda enn í þá fyrirætlun sína að gera þarna hafnarmannvirki og þurrka með því út öll sérkenni svæðisins sem og hina stórkostlegu náttúru þess.
Frábært veður.