Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um “Hraun í nágrenni Straumsvíkur” í Náttúrufræðinginn árið 1998.
Hraun í nágrenni Straumsvíkur
Þegar fjallað er um hraunstrauma þá sem á síðustu árþúsundum hafa runnið í átt til sjávar í Straumsvík og næsta nágrenni er óhjákvæmilegt að sú umfjöllun teygi sig til upptakanna, eldgíganna sjálfra. Af þeim sökum nær umfjöllunin yfir um 200 ferkílómetra svæði, þ.e. ströndina frá Hvaleyrarholti til vesturs að Vatnsleysuvik (Kúagerði) og frá ströndinni suður í Reykjanesfjallgarð milli Grindarskarða og Trölladyngju. Á þessu svæði er fjöldi hrauna og sum sjást ekki á yfirborði, því yngri hraun þekja þau alveg. Þeirra verður aftur á móti vart í borholum, m.a. á athafnasvæði álversins í Straumsvík. Leitast er við að draga upp einfalda mynd af því hvaða leið hraunin hafa runnið og hvernig þau hafa, eitt af öðru, lagt sitt af mörkum til að færa ströndina til núverandi horfs. Örnefni á þessu svæði eru fjölmörg og þau eru ekki bundin við einstaka hraunstrauma heldur ákveðin svæði. Þannig getur sama hraunið heitið mörgum nöfnum og nöfn geta einnig náð yfir hluta úr mörgum hraunum. Þau nöfn sem hér eru notuð á einstökum hraunum ber ekki að taka sem örnefni heldur sem sérheiti á jarðmyndunum.
Hraun frá fyrri hluta nútíma
Það tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun f dag (2. mynd). Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973).
Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð.
Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram. Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út. Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvfk. Upptök þessa hrauns eru lfklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.
Hrútargjárdyngja
Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd.
Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.
Skúlatúnshraun – Hellnahraunið eldra
Fyrir um 2.000 árum varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteinsfjallareininni.
Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell. Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt tíl sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.
Óbrinnishólabruni
Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.
Hellnahraunið yngra
Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.
Kapelluhraun
Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess.
Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krýsuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni.
Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna. Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.
Gervigígar
Á svæðinu eru nokkrir gervigígar sem stinga kollinum upp úr yngri hraunum. Gervigígarnir hafa myndast við það að hraun runnu í sjó og sýna þeir því legu strandarinnar á myndunartímanum. Gervigígunum í nágrenni Straumsvíkur má skipta í þrjá hópa eftir útbreiðslu.
Austast var Rauðhóll við Hvaleyrarholt, sem stóð upp úr Hellnahrauninu eldra, en langt er síðan hóllinn hvarf vegna efnisnáms og þar er nú geil í hraunið. Nokkru sunnar og vestar standa tveir gervigíar upp úrsamahrauni.
Í Selhrauni, skammt suður af kvartmílubrautinni, hefur verið numið töluvert magn af gjalli úr gervigígum sem standa þar upp úr einu af elstu hraununum á svæðinu (Selhraun 4, Helgi Torfason o.fl. 1993).
Skammt suður og vestur af Straumsvík er mikil rauðamalargryfja í Hrútagjárdyngju. Þar var upphaflega rauðamalarbunga upp úr hrauninu, Rauðimelur sem svo var nefndur. Nokkru vestar má sjá í kollinn á allmiklum gjallhól og enn vestar hefur hinn þriðji verið numinn brott.
Í flestum þessara gervigíga hafa fundist skeljar sem þeyst hafa upp úr þeim er hraun rann út yfir setlög við þáverandi strönd. Ekkert er vitað um aldur gíganna annað en að þeir eru örugglega myndaðir eftir ísöld og eru eldri en hraunin sem upp að þeim hafa runnið.
Niðurlag
Núverandi strönd við Straumsvík er mynduð af þremur hraunum. Elst og vestast eru hraun Hrútagjárdyngju, sem runnu frá stórum dyngjugíg nyrst í Móhálsadal fyrir um 5.000 árum. Vestast er Hellnahraunið eldra, sem er langt að komið, upprunnið í Grindarskörðum í Brennisteinsfjallareininni fyrir um 2.000 árum. Bæði þessi hraun eru helluhraun og fremur auðveld yfirferðar.
Yngsta hraunið er Kapelluhraun, úfið apalhraun, sem rann árið 1151 frá gígum suður undir Vatnsskarði. Það rann til sjávar um lægð sem myndast hafði á mótum Hrútagjárdyngju og Hellnahraunsins eldra. Á síðustu 10.000 árum hafa hraunstraumar smám saman fært ströndina fram sem nemur allt að 2 km.
Eldgos á Reykjanesskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár.
Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240.1 hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krýsuvíkurrein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hinsvegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.
Helstu heimildir höfunda:
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989.
-Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Helgi Torfason, Árni Hjartarson, Haukur Jóhannesson, Jón Jónsson & Kristján Sæmundsson 1993.
-Berggrunnskort: Elliðavatn 1613 III-SV-B 1:25.000. Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. kortamappa.
-Jón Jónsson 1974. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn 44. 109-119.
-Kristján Eldjárn 1956. Kapelluhraun og Kapellulág. Árbók Fornaleifafélagsins 1955-56. 5-8.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar ll. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg., 3.-4. tbl., 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1960-1961, bls. 171-177.