Jón Jónsson skrifaði grein (efni frá 1972) um Óbrinnishóla fyrir ofan Hafnarfjörð í Náttúrufræðinginn 1974-1975. Þar segir m.a.:
“Undirhlíðar nefnast einu nafni hæðadrög þau, sem eru í beinu framhaldi af Sveifluhálsi frá Vatnsskarði norður að Kaldárbotnum. Hæðirnar eru að mestu leyti úr bólstrabergi, bólstrabreksíu og móbergsþursa af mismunandi gerð og útliti. Eftir Undirhlíðum liggja misgengi og verður af þeim sökum sigdalur eftir þeim endilöngum frá Leirdalshöfða og norður á móts við suðurenda Helgafells. Hluti af þeim sigdal ber nafnið Slysadalir. Dalurinn er víða grasi gróinn og hið fegursta útivistarsvæði.
Eldstöðvar eru á Undirhlíðum sjálfum, nyrzt í sigdalnum og á þrem stöðum vestur af Helgafelli. Þær eru sýnilega tengdar misgenginu, en það liggur um Kaldárbotna, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur loks Búrfell um þvert og hverfur svo undir ung hraun nokkru norðar. Flestar eldstöðvarnar eru þó vestan undir Undirhlíðum og má heita að þær myndi nokkuð samfellda röð frá því vestan við Sveifluháls norðanverðan og norður að Kaldárbotnum. Svo að segja óslitið hraunhaf er frá Undirhlíðum norður og vestur að Faxaflóa. Hraunin eru mörg og frá mismunandi tímum. Yngstu eldstöðvarnar á þessu svæði eru gígaraðir tvær suður við Vatnsskarð, báðum megin við Krýsuvíkurveg, en úr þeim er Kapelluhraun komið.
Svæðið allt er rist að endilöngu af fjölda mörgum sprungum og gjám, sem rekja má allar götur suður í Móhálsa og norður að Mosfellsdal. Mest áberandi eru misgengin á Hjallasvæðinu milli Elliðavatns og Kaldárbotna. Þegar suður fyrir Kaldársel kemur eru flestar sprungurnar huldar yngri hraunum, en koma fram í hólmum, sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Einn slíkur hólmi er dálítil hæð, sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 m vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Austan í þeirri hæð er röð eldgíga, sem Óbrinnishólar nefnast. Hólaröðin sjálf er rösklega 900 m á lengd. Hæsti gígurinn er eða öllu heldur var um 44 m hár yfir næsta umhverfi og um 124 m yfir sjó. Venja er að rita nafnið Óbrinnishólar og svo er gert á flestum kortum. Á það hefur verið bent, að nafnið sé hliðstætt við nafn á hólma, sem Ögmundarhraun rann í kringum og síðan ber nafnið Óbrennishólmi. Virðist þetta vera aðgengileg skýring og mætti því ætla að nafnið væri frá þeim tíma er gosið, sem myndaði Kapelluhraun, var mönnum ennþá í fersku minni.
Hæð sú, sem Óbrinnishólar eru á, er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir hæðinni endilangri er sigdalur (Graben) aðeins um 50 m breiður og með stefnu norðaustur-suðvestur. Aðeins austan við dalinn er þröng gjá og djúp, sem stefnir eins og hann, en sést ekki nema á nokkrum stöðum. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Þessi sigdalur er athyglisverður vegna þess, að í misgenginu, sem takmarkar hann að austan, má sjá að spildan, sem sigið hefur milli sprungnanna, hefur ekki sigið lóðrétt heldur allmikið á ská og sýnir það ótvírætt, að ekki hefur einvörðungu verið um lóðrétta hreyfingu að ræða. Skriðrákir á bergfleti í misgenginu sýna þetta ljóslega. Þeim hallar um nálægt 45°.
Hvað viðvíkur gosstöðvunum sjálfum eru hólarnir fjórir og eru tveir þeirra, sem eru í miðju þeirra, hæstir. Regluleg gígskál er, eða réttara sagt var, í syðsta og nyrzta hólinn. Í hinum tveim hafa eldvörpin verið austan megin og þar hefur hraun runnið út úr þeim, en gígveggir byggzt upp aðeins á einn veg, þ. e. að vestan. Gígirnir verða því í laginu sem tveir hálfmánar hvor við annars hlið. Aðalhraunrennslið heftir komið úr syðsta gígnum og var gígskálin nærri fyllt hrauni. Þaðan hefur hraunstraumur fallið fyrst austur í stefnu á Undirhlíðar, en brátt beygt norður á við og loks vestur, er komið var norður fyrir nyrzta gíginn. Hluta úr þessum gíg hefur hraunáin rifið með sér og flutt langt vestur á hraun og standa þeir þar eftir sem gjall og hraunklebrastabbar og ber hátt yfir megin hraunflötinn. Nyrzti gígurinn var regluleg gjallkeila, sem hraun virðist ekki hafa runnið frá svo teljandi sé.
Það eru nú allmörg ár síðan að farið var að taka hraungjall úr Óbrinnishólum og hefur sú starfsemi aukizt mjög hin síðari ár. Er nú svo komið, að lítið er eftir af hinum forna svip hólanna, og virðist mega gera ráð fyrir að þeir hverfi alveg áður langt líður. Þessi starfsemi hefur orðið til þess, að áðurnefnt misgengi, sem kannski mætti nefna sniðgengi, er nú orðið vel sýnilegt, en auk þess hefur hún haft í för með sér, að fram hefur komið að þarna hefur gosið tvisvar á sama stað.
Fljótlega eftir að gjallnámið hófst hefur verið grafið til reynslu inn í hæsta hólinn að vestanverðu. Kom þá í ljós, að hann var ekki allur þar sem hann var séður, því undir tæplega metraþykku gjalli neðst í honum kom fram moldarlag, víðast hvar aðeins 5—8 cm þykkt, en undir því tók aftur við gjall. Þegar nánar var að hugað, kom í ljós, að efst í moldarlaginu eru leifar af gróðri, sem eyðst hefur, þegar gígirnir tóku að ausa yfir hann glóandi gjalli og vikri.
Þarna var hægt að tína kolaðar greinar og stofna, sem nota mátti til að ákvarða þann tíma, sem liðinn er frá því að gróðurinn eyddist, þ. e. frá því er þarna gaus síðast. Neðan við moldar- og gróðurleifalagið er aftur hraungjall, sem nær niður að jökulurð og föstu bergi.
Nokkur jarðvegur hefur verið kominn ofan á bólstrabergið, sem þarna myndar berggrunninn og jökulurðina, áður en þarna gaus fyrst, því greina má moldarlag undir eldri gosmölinni. Engar gróðurleifar hafa þó fundizt þar og verður því ekki ráðið í aldur þessara gíga að svo komnu máli. Ekki hefur heldur verið hægt að rekja nokkurt hraun með vissu til þeirra. Þó rennir mann í grun, að aldursmunur sé verulegur á eldri gosstöðvunum og þeim yngri, og má ráða það af eftirfarandi: Ljóst er, að næstsyðsti gígurinn tilheyrir fyrra gosinu og hefur hraun úr síðara gosinu runnið inn í hann að austan og myndað þar dálitla hrauntjörn. í gjallstálinu sunnan í þessum gíg má (eða mátti) vel greina sprungur, með nokkru misgengi, sem náðu upp í gegnum gjallið, en ekki sáust á yfirborði. Þessar sprungur stefna samsíða sigdalnum, sem áður er nefndur. Ekki sést votta fyrir slíkum sprungum í yngri gígunum.
Þetta sýnir, að sprungur hafa náð að brjóta þessa eldri gígi áður en síðara gosið hófst. Einnig sýna gróðurleifar þær, er síðar verður getið, að nokkur tími hefur liðið milli gosa. Svo aftur sé vikið að eldri gosmyndunum má geta þess, að ljóst er að það gos hefur byrjað sem öskugos. Þetta má sjá af um 0.65—0.80 m þykku lagi, sem liggur ofan á áðurnefndu moldarlagi og undir gjallinu. Það lag samanstendur af lítið eitt grænleitum, fremur fínum vikri, og innan um hann er firnin öll af örfínum hárum úr gleri. Þessi hár eru nefnd Peles-hár og er það nafn komið frá Hawaiieyjum og kennt við eldgyðjuna Pele. Ekki er mér kunnugt um, að getið sé um þess konar myndanir nema á þrem stöðum í hérlendum heimildum. Fyrst er þess getið í lýsingu séra Jóns Steingrímssonar á Skaftáreldum. Þar segir svo: ,,14. (júní 1783) var logn, dreif hjer þá miklum sandi yfir allt með enn meiri hárum, en vart var við í fyrra regninu, þann 9., þau voru svartblá og íglittin að lengd og digurð sem selshár; þau urðu ein breiða yfir jörðina og þar þau féllu á eyðisanda og vindur komst undir þau, samanvöfðust þau í aflanga hola ströngla”.
Þannig farast séra Jóni orð. Af lýsingu hans er ljóst, að þarna var um Peles-hár að ræða. Thoroddsen (1925) getur þess, að í Öskjugosinu mikla 1875 hafi á Grímsstöðum fallið aska með „eine Menge ineinandergewickelter brauner Glasfáden, die auf dem Wasser schwammen, fast eine Elle lang waren und groben Pherdehaar glichen”. Naumast verður á greinilegri lýsingu kosið og alls enginn efi getur verið á því, við hvað er átt. Loks kom þetta fyrir í Surtseyjargosinu, aðallega síðasta fasa þess í ágúst 1967 (Thorarinsson 1967).
Svo aftur sé vikið að Óbrinnishólum má geta þess, að nákvæm athugun á ljósbroti í glerþráðunum sýndi 1.578, er ákvarðað var í einlitu ljósi (nD 1.578). Oftast eru hárin 3—4 cm löng og sum svo fín, að þau sjást varla með berum augum. Hefur því orðið að nota stækkunargler við að safna þeim úr gjallstálinu.
Stundum ganga þræðirnir út frá dropalagaðri myndun úr sama efni. Þetta mun vera það, sem nefnt er Pelestár á Hawaiieyjum. Ekki er mér kunnugt um hérlent nafn á þessum hlutum, en ef til vill mætti nefna þá nornaþráð, nornaþræði og nornatár. Væri þá haldið að nokkru samræmi við þjóðtrúna frá Hawaii.
Hraun frá fyrra gosinu í Óbrinnishólum hef ég ekki fundið í næsta nágrenni þeirra, en um 1—2 km vestur af hólunum eru hólmar tveir, sem yngra hraunið hefur ekki runnið yfir. Vel má vera að eldra hraunið komi þar fram, en ekki hef ég haft tækifæri til að athuga það. Næst syðsti gígurinn í Óbrinnishólum er frá fyrra gosinu og eftir nokkra leit fannst þar allþétt hraunlag inni í gjallinu. Kom þá í ljós, að hraun það, er komið hefur í fyrra gosinu, er mjög ólíkt hrauninu úr því síðara. Aftur á móti er það svo líkt Búrfellshrauni, að það verður naumast frá því skilið. Kemur þetta vað greinilegast fram, þegar taldar hafa verið steintegundir á báðum hraunum.
Um aldur fyrra gossins í Óbrinnishólum er ekki vitað. Nokkur jarðvegur hefur verið kominn ofan á jökulurðina, þegar það skeði, en svo fátæklegur er jarðvegurinn þar sums staðar enn í dag, að slíkt gefur ekki miklar upplýsingar. Samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar (1972) er aldur Búrfellshrauns um 7200 C14 ár. Vel gæti fyrra gosið í Óbrinnishólum hafa orðið á sama tíma. Vaknar því sú spurning: Er það tilviljun ein að hraunin eru svona lík að gerð eða er það kannski vegna þess, að samtímis gaus á báðum stöðum? Ekki verður með vissu sagt, hvað margir gígir hafa myndast í fyrra gosinu á þessum stað, en þrír hafa þeir verið a. m. k. Af þeim hafa tveir algerlega horfið undir gjall frá síðara gosinu.
Ofan á gjalli eldri giganna er moldarlag nokkuð mismunandi þykkt, eins og áður segir, en víðast 5—8 cm. Þó er það á stöku stað 10—15 cm. Efsti hluti moldarlagsins er svartur af koluðum gróðurleifum. Virðist það að verulegu leyti hafa verið mosi, enda má víða greina heillega mosa í þessu. För eftir birkistofna og greinar sjást víða og hafa stofnarnir sums staðar náð 15—20 cm upp í gjallið. Víða er sjálfur stofninn horfinn með öllu en eftir stendur börkurinn sem hólkur upp í gjallið. Gjallið hefur sums staðar verið svo heitt, að viðurinn hefur kolast algerlega og má því finna mikið af mjóum greinum og stofnum, sem eru kolaðir í gegn. Flestir eru slíkir stofnar eða greinar um 6 mm í þvermál og þaðan af mjórri. Vel gæti þetta hafa verið lyng, fjalldrapi eða víðir eins og birki. Sverari stofnar og greinar eru oftast kolaðir aðeins þeim megin, sem að gjallinu snýr, en fúnir eða horfnir með öllu nema börkurinn hinum megin: Norðan við syðsta gíghólinn, en úr honum var aðal hraunrennslið, fann ég allmarga stofna, sem voru alveg heil legir og 10—15 cm í þvermál. Þeir voru mjúkir og héldu formi á meðan þeir voru blautir, en urðu harðir sem grjót, þegar þeir höfðu þornað. Svo virðist sem hríslurnar hafi þarna vaxið í mosa líkt og birkihríslurnar, sem ennþá vaxa sunnan í nyrsta gíghólnum og á víð og dreif í hrauninu.
Þegar stofninn lagðist til jarðar undir ofurþunga gosefnanna, pressaðist hann niður í mjúkan mosann og liefur varðveitzt þar, en mosinn einangrað hann það vel frá hitanum, að kolnun hefur ekki átt sér stað nema rétt þar sem hin heita gosmöl lagðist beint ofan á stofninn. Leifar af þessum forna birkiskógi hef ég sent til aldursákvörðunar á rannsóknastofu háskólans í Uppsölum, þar sem dr. Ingrid U. Olsson hefur gert á þeim C14 aldursákvörðun. Voru gerðar tvær ákvarðanir, eftir að efnið hafði fyrst verið meðhöndlað á mismunandi hátt. Útkoman varð þessi:
Sýni nr. U-2268 – 2370 ± 70 C1* ár
Sýni nr. U-2269 – 2100 ± 80 C14 ár
Með þeirri óvissu, sem við þessar ákvarðanir loðir enn, má telja að síðara gosið í Óbrinnishólum hafi því orðið um 650 árum f. Kr.
Bæði gosin í Óbrinnishólum hafa verið hraungos með kvikustrókavirkni, eins og flest sprungugosin á Reykjanesskaga. Fína gosmöl eins og þá, sem hefur verið svo áberandi í fyrsta þætti fyrra gossins, vantar í það síðara. Aftur á móti mætti segja, að síðara gosið hafi einkennst af því, hvað mikið hefur verið af hraunkúlum (bombum) í því. Þær eru af öllum stærðum frá því um 35—40 cm í þvermál allt niður í kúlur á stærð við krækiber eða ennþá minni. Oft eru þær mjög reglulegar og fullkomlega hnöttóttar. Hraun úr þessu gosi hefur aðallega komið úr syðsta gígnum. Það hefur runnið austur í átt að Undirhlíðum og svo norður á við, langleiðina norður að Kaldárseli. Svo beygir það vestur og hefur að öllum líkindum náð út í sjó við Straumsvík, en nokkru austar hverfur það undir Kapelluhraun.
Óbrinnishólahraun og Kapelluhraun eru svo lík, að vart verða þau aðgreind með berum augum eða í smásjá. Í sambandi við framkvæmdirnar við Straumsvík voru boraðar allmargar holur til rannsóknar á grunni þeim, sem álverksmiðjan stendur á, en hún stendur á nyrsta tanga Kapelluhrauns.
Við þær athuganir kom í ljós, að undir Kapelluhrauni er annað hraun mjög líkt því. Hraun þessi hafa verið nefnd Ka (= Kapelluhraun) og Kb (Tómasson og Tómasson 1966). Milli þessara hrauna er aðeins gjalllag, en undir Kb sums staðar sandlag. Tel ég nærri fullvíst, að hraun Kb sé úr síðasta gosi í Óbrinnishólum og því um 2140 ára gamalt. Þetta sama hraun kemur fram austan við Kapelluhraun skammt sunnan við gamla Reykjanesveginn og má rekja það þaðan suður og austur eftir norðan Kapelluhrauns, en það nafn er hér eingöngu notað um yngsta hraunstrauminn á þessu svæði, þann er álverksmiðjan stendur á.”
Heimild:
-Náttúrfræðingurinn, Jón Jónsson, Óbrinnishólar, 1974-1975, bls. 109-110.
Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.