Færslur

Óbrinnishólahellir

Gengið var að Óbrinnishólahelli suðvestan syðri Óbrinnishóla, í Óbrinnishólakeri. Þetta er fornt fjárskjól, sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, en þeir nýttu vetrarbeitina á þessum slóðum öldum saman.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Hellirinn er um 10 metra langur suðvestan í kerinu. Hlaðið er fyrir framan opið og fyrir innan er gólfið flórað fremst.

Gengið var yfir Óbrinnishólabruna, yfir á Stak og upp með honum norðavestanverðum. Á Stak sést móta fyrir smalabyrgi, sem Hvaleyrarbændur notuðu þegar setið var yfir fé þarna á beit.
Sunnar í hrauninu er mikið gat í sprungu. Þunnfljótandi hraunið hafði greinilega runnið þarna niður og svo virtist sem gangur væri inn undir sprunguna beggja vegna (Aukahola). Dýpið var um 10 metrar. Gengið var frá henni til vesturs eftir gjánni og var þá fljótlega komið að Aðalholu. Hún er um 15 metra djúp (17 m ef neðsta hæðin er tekin með). Eki verður farið niður í holurnar nema á bandi eða með stiga.

Bruninn

Bruninn – gígaröð.

Gengið var yfir í Stóra-Skógarhvamm undir Undirhlíðum, mikið skógræktarsvæði. Þarna hefur vaxið nokkuð hár greniskógur á u.þ.b. 40 árum.
Í bakaleiðinni var gengið norður yfir hraunið, að gígaröð og hún skoðuð. Síðan var hraunhrygg fylgt til norðausturs og m.a. skoðuð falleg hraunmyndun á honum. Á einum stað má t.d. sjá nokkurs konar utanáliggjandi tanngarð. Hraunið þarna er nokkuð slétt, en fjólbreytilegt.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Óbrinnishólar

Jón Jónsson skrifaði grein (efni frá 1972) um Óbrinnishóla fyrir ofan Hafnarfjörð í Náttúrufræðinginn 1974-1975. Þar segir m.a.:
obrinnisholar-2“Undirhlíðar nefnast einu nafni hæðadrög þau, sem eru í beinu framhaldi af Sveifluhálsi frá Vatnsskarði norður að Kaldárbotnum. Hæðirnar eru að mestu leyti úr bólstrabergi, bólstrabreksíu og móbergsþursa af mismunandi gerð og útliti. Eftir Undirhlíðum liggja misgengi og verður af þeim sökum sigdalur eftir þeim endilöngum frá Leirdalshöfða og norður á móts við suðurenda Helgafells. Hluti af þeim sigdal ber nafnið Slysadalir. Dalurinn er víða grasi gróinn og hið fegursta útivistarsvæði.
Eldstöðvar eru á Undirhlíðum sjálfum, nyrzt í sigdalnum og á þrem stöðum vestur af Helgafelli. Þær eru sýnilega tengdar misgenginu, en það liggur um Kaldárbotna, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur loks Búrfell um þvert og hverfur svo undir ung hraun nokkru norðar. Flestar eldstöðvarnar eru þó vestan undir Undirhlíðum og má heita að þær myndi nokkuð samfellda röð frá því vestan við Sveifluháls norðanverðan og norður að Kaldárbotnum. Svo að segja óslitið hraunhaf er frá Undirhlíðum norður og vestur að Faxaflóa. Hraunin eru mörg og frá mismunandi tímum. Yngstu eldstöðvarnar á þessu svæði eru gígaraðir tvær suður við Vatnsskarð, báðum megin við Krýsuvíkurveg, en úr þeim er Kapelluhraun komið.

obrinnisholar-3

Svæðið allt er rist að endilöngu af fjölda mörgum sprungum og gjám, sem rekja má allar götur suður í Móhálsa og norður að Mosfellsdal. Mest áberandi eru misgengin á Hjallasvæðinu milli Elliðavatns og Kaldárbotna. Þegar suður fyrir Kaldársel kemur eru flestar sprungurnar huldar yngri hraunum, en koma fram í hólmum, sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Einn slíkur hólmi er dálítil hæð, sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 m vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Austan í þeirri hæð er röð eldgíga, sem Óbrinnishólar nefnast. Hólaröðin sjálf er rösklega 900 m á lengd. Hæsti gígurinn er eða öllu heldur var um 44 m hár yfir næsta umhverfi og um 124 m yfir sjó. Venja er að rita nafnið Óbrinnishólar og svo er gert á flestum kortum. Á það hefur verið bent, að nafnið sé hliðstætt við nafn á hólma, sem Ögmundarhraun rann í kringum og síðan ber nafnið Óbrennishólmi. Virðist þetta vera aðgengileg skýring og mætti því ætla að nafnið væri frá þeim tíma er gosið, sem myndaði Kapelluhraun, var mönnum ennþá í fersku minni.

obrinnisholar-4

Hæð sú, sem Óbrinnishólar eru á, er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir hæðinni endilangri er sigdalur (Graben) aðeins um 50 m breiður og með stefnu norðaustur-suðvestur. Aðeins austan við dalinn er þröng gjá og djúp, sem stefnir eins og hann, en sést ekki nema á nokkrum stöðum. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Þessi sigdalur er athyglisverður vegna þess, að í misgenginu, sem takmarkar hann að austan, má sjá að spildan, sem sigið hefur milli sprungnanna, hefur ekki sigið lóðrétt heldur allmikið á ská og sýnir það ótvírætt, að ekki hefur einvörðungu verið um lóðrétta hreyfingu að ræða. Skriðrákir á bergfleti í misgenginu sýna þetta ljóslega. Þeim hallar um nálægt 45°.
obrinnisholar-5

Hvað viðvíkur gosstöðvunum sjálfum eru hólarnir fjórir og eru tveir þeirra, sem eru í miðju þeirra, hæstir. Regluleg gígskál er, eða réttara sagt var, í syðsta og nyrzta hólinn. Í hinum tveim hafa eldvörpin verið austan megin og þar hefur hraun runnið út úr þeim, en gígveggir byggzt upp aðeins á einn veg, þ. e. að vestan. Gígirnir verða því í laginu sem tveir hálfmánar hvor við annars hlið. Aðalhraunrennslið heftir komið úr syðsta gígnum og var gígskálin nærri fyllt hrauni. Þaðan hefur hraunstraumur fallið fyrst austur í stefnu á Undirhlíðar, en brátt beygt norður á við og loks vestur, er komið var norður fyrir nyrzta gíginn. Hluta úr þessum gíg hefur hraunáin rifið með sér og flutt langt vestur á hraun og standa þeir þar eftir sem gjall og hraunklebrastabbar og ber hátt yfir megin hraunflötinn. Nyrzti gígurinn var regluleg gjallkeila, sem hraun virðist ekki hafa runnið frá svo teljandi sé.

obrinnisholar-6

Það eru nú allmörg ár síðan að farið var að taka hraungjall úr Óbrinnishólum og hefur sú starfsemi aukizt mjög hin síðari ár. Er nú svo komið, að lítið er eftir af hinum forna svip hólanna, og virðist mega gera ráð fyrir að þeir hverfi alveg áður langt líður. Þessi starfsemi hefur orðið til þess, að áðurnefnt misgengi, sem kannski mætti nefna sniðgengi, er nú orðið vel sýnilegt, en auk þess hefur hún haft í för með sér, að fram hefur komið að þarna hefur gosið tvisvar á sama stað.
Fljótlega eftir að gjallnámið hófst hefur verið grafið til reynslu inn í hæsta hólinn að vestanverðu. Kom þá í ljós, að hann var ekki allur þar sem hann var séður, því undir tæplega metraþykku gjalli neðst í honum kom fram moldarlag, víðast hvar aðeins 5—8 cm þykkt, en undir því tók aftur við gjall. Þegar nánar var að hugað, kom í ljós, að efst í moldarlaginu eru leifar af gróðri, sem eyðst hefur, þegar gígirnir tóku að ausa yfir hann glóandi gjalli og vikri.

obrinnisholar-7

Þarna var hægt að tína kolaðar greinar og stofna, sem nota mátti til að ákvarða þann tíma, sem liðinn er frá því að gróðurinn eyddist, þ. e. frá því er þarna gaus síðast. Neðan við moldar- og gróðurleifalagið er aftur hraungjall, sem nær niður að jökulurð og föstu bergi.
Nokkur jarðvegur hefur verið kominn ofan á bólstrabergið, sem þarna myndar berggrunninn og jökulurðina, áður en þarna gaus fyrst, því greina má moldarlag undir eldri gosmölinni. Engar gróðurleifar hafa þó fundizt þar og verður því ekki ráðið í aldur þessara gíga að svo komnu máli. Ekki hefur heldur verið hægt að rekja nokkurt hraun með vissu til þeirra. Þó rennir mann í grun, að aldursmunur sé verulegur á eldri gosstöðvunum og þeim yngri, og má ráða það af eftirfarandi: Ljóst er, að næstsyðsti gígurinn tilheyrir fyrra gosinu og hefur hraun úr síðara gosinu runnið inn í hann að austan og myndað þar dálitla hrauntjörn. í gjallstálinu sunnan í þessum gíg má (eða mátti) vel greina sprungur, með nokkru misgengi, sem náðu upp í gegnum gjallið, en ekki sáust á yfirborði. Þessar sprungur stefna samsíða sigdalnum, sem áður er nefndur. Ekki sést votta fyrir slíkum sprungum í yngri gígunum.

obrinnisholar-8

Þetta sýnir, að sprungur hafa náð að brjóta þessa eldri gígi áður en síðara gosið hófst. Einnig sýna gróðurleifar þær, er síðar verður getið, að nokkur tími hefur liðið milli gosa. Svo aftur sé vikið að eldri gosmyndunum má geta þess, að ljóst er að það gos hefur byrjað sem öskugos. Þetta má sjá af um 0.65—0.80 m þykku lagi, sem liggur ofan á áðurnefndu moldarlagi og undir gjallinu. Það lag samanstendur af lítið eitt grænleitum, fremur fínum vikri, og innan um hann er firnin öll af örfínum hárum úr gleri. Þessi hár eru nefnd Peles-hár og er það nafn komið frá Hawaiieyjum og kennt við eldgyðjuna Pele. Ekki er mér kunnugt um, að getið sé um þess konar myndanir nema á þrem stöðum í hérlendum heimildum. Fyrst er þess getið í lýsingu séra Jóns Steingrímssonar á Skaftáreldum. Þar segir svo: ,,14. (júní 1783) var logn, dreif hjer þá miklum sandi yfir allt með enn meiri hárum, en vart var við í fyrra regninu, þann 9., þau voru svartblá og íglittin að lengd og digurð sem selshár; þau urðu ein breiða yfir jörðina og þar þau féllu á eyðisanda og vindur komst undir þau, samanvöfðust þau í aflanga hola ströngla”.

obrinnisholar-9

Þannig farast séra Jóni orð. Af lýsingu hans er ljóst, að þarna var um Peles-hár að ræða. Thoroddsen (1925) getur þess, að í Öskjugosinu mikla 1875 hafi á Grímsstöðum fallið aska með „eine Menge ineinandergewickelter brauner Glasfáden, die auf dem Wasser schwammen, fast eine Elle lang waren und groben Pherdehaar glichen”. Naumast verður á greinilegri lýsingu kosið og alls enginn efi getur verið á því, við hvað er átt. Loks kom þetta fyrir í Surtseyjargosinu, aðallega síðasta fasa þess í ágúst 1967 (Thorarinsson 1967).
Svo aftur sé vikið að Óbrinnishólum má geta þess, að nákvæm athugun á ljósbroti í glerþráðunum sýndi 1.578, er ákvarðað var í einlitu ljósi (nD 1.578). Oftast eru hárin 3—4 cm löng og sum svo fín, að þau sjást varla með berum augum. Hefur því orðið að nota stækkunargler við að safna þeim úr gjallstálinu.

obrinnisholar-10

Stundum ganga þræðirnir út frá dropalagaðri myndun úr sama efni. Þetta mun vera það, sem nefnt er Pelestár á Hawaiieyjum. Ekki er mér kunnugt um hérlent nafn á þessum hlutum, en ef til vill mætti nefna þá nornaþráð, nornaþræði og nornatár. Væri þá haldið að nokkru samræmi við þjóðtrúna frá Hawaii.
Hraun frá fyrra gosinu í Óbrinnishólum hef ég ekki fundið í næsta nágrenni þeirra, en um 1—2 km vestur af hólunum eru hólmar tveir, sem yngra hraunið hefur ekki runnið yfir. Vel má vera að eldra hraunið komi þar fram, en ekki hef ég haft tækifæri til að athuga það. Næst syðsti gígurinn í Óbrinnishólum er frá fyrra gosinu og eftir nokkra leit fannst þar allþétt hraunlag inni í gjallinu. Kom þá í ljós, að hraun það, er komið hefur í fyrra gosinu, er mjög ólíkt hrauninu úr því síðara. Aftur á móti er það svo líkt Búrfellshrauni, að það verður naumast frá því skilið. Kemur þetta vað greinilegast fram, þegar taldar hafa verið steintegundir á báðum hraunum.

obrinnisholar-11

Um aldur fyrra gossins í Óbrinnishólum er ekki vitað. Nokkur jarðvegur hefur verið kominn ofan á jökulurðina, þegar það skeði, en svo fátæklegur er jarðvegurinn þar sums staðar enn í dag, að slíkt gefur ekki miklar upplýsingar. Samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar (1972) er aldur Búrfellshrauns um 7200 C14 ár. Vel gæti fyrra gosið í Óbrinnishólum hafa orðið á sama tíma. Vaknar því sú spurning: Er það tilviljun ein að hraunin eru svona lík að gerð eða er það kannski vegna þess, að samtímis gaus á báðum stöðum? Ekki verður með vissu sagt, hvað margir gígir hafa myndast í fyrra gosinu á þessum stað, en þrír hafa þeir verið a. m. k. Af þeim hafa tveir algerlega horfið undir gjall frá síðara gosinu.
Ofan á gjalli eldri giganna er moldarlag nokkuð mismunandi þykkt, eins og áður segir, en víðast 5—8 cm. Þó er það á stöku stað 10—15 cm. Efsti hluti moldarlagsins er svartur af koluðum gróðurleifum. Virðist það að verulegu leyti hafa verið mosi, enda má víða greina heillega mosa í þessu. För eftir birkistofna og greinar sjást víða og hafa stofnarnir sums staðar náð 15—20 cm upp í gjallið. Víða er sjálfur stofninn horfinn með öllu en eftir stendur börkurinn sem hólkur upp í gjallið. Gjallið hefur sums staðar verið svo heitt, að viðurinn hefur kolast algerlega og má því finna mikið af mjóum greinum og stofnum, sem eru kolaðir í gegn. Flestir eru slíkir stofnar eða greinar um 6 mm í þvermál og þaðan af mjórri. Vel gæti þetta hafa verið lyng, fjalldrapi eða víðir eins og birki. Sverari stofnar og greinar eru oftast kolaðir aðeins þeim megin, sem að gjallinu snýr, en fúnir eða horfnir með öllu nema börkurinn hinum megin: Norðan við syðsta gíghólinn, en úr honum var aðal hraunrennslið, fann ég allmarga stofna, sem voru alveg heil legir og 10—15 cm í þvermál. Þeir voru mjúkir og héldu formi á meðan þeir voru blautir, en urðu harðir sem grjót, þegar þeir höfðu þornað. Svo virðist sem hríslurnar hafi þarna vaxið í mosa líkt og birkihríslurnar, sem ennþá vaxa sunnan í nyrsta gíghólnum og á víð og dreif í hrauninu. 

obrinnisholar-12

Þegar stofninn lagðist til jarðar undir ofurþunga gosefnanna, pressaðist hann niður í mjúkan mosann og liefur varðveitzt þar, en mosinn einangrað hann það vel frá hitanum, að kolnun hefur ekki átt sér stað nema rétt þar sem hin heita gosmöl lagðist beint ofan á stofninn. Leifar af þessum forna birkiskógi hef ég sent til aldursákvörðunar á rannsóknastofu háskólans í Uppsölum, þar sem dr. Ingrid U. Olsson hefur gert á þeim C14 aldursákvörðun. Voru gerðar tvær ákvarðanir, eftir að efnið hafði fyrst verið meðhöndlað á mismunandi hátt. Útkoman varð þessi:
Sýni nr. U-2268 – 2370 ± 70 C1* ár
Sýni nr. U-2269 – 2100 ± 80 C14 ár
Með þeirri óvissu, sem við þessar ákvarðanir loðir enn, má telja að síðara gosið í Óbrinnishólum hafi því orðið um 650 árum f. Kr.
Bæði gosin í Óbrinnishólum hafa verið hraungos með kvikustrókavirkni, eins og flest sprungugosin á Reykjanesskaga. Fína gosmöl eins og þá, sem hefur verið svo áberandi í fyrsta þætti fyrra gossins, vantar í það síðara. Aftur á móti mætti segja, að síðara gosið hafi einkennst af því, hvað mikið hefur verið af hraunkúlum (bombum) í því. Þær eru af öllum stærðum frá því um 35—40 cm í þvermál allt niður í kúlur á stærð við krækiber eða ennþá minni. Oft eru þær mjög reglulegar og fullkomlega hnöttóttar. Hraun úr þessu gosi hefur aðallega komið úr syðsta gígnum. Það hefur runnið austur í átt að Undirhlíðum og svo norður á við, langleiðina norður að Kaldárseli. Svo beygir það vestur og hefur að öllum líkindum náð út í sjó við Straumsvík, en nokkru austar hverfur það undir Kapelluhraun.

obrinnisholar-13

Óbrinnishólahraun og Kapelluhraun eru svo lík, að vart verða þau aðgreind með berum augum eða í smásjá. Í sambandi við framkvæmdirnar við Straumsvík voru boraðar allmargar holur til rannsóknar á grunni þeim, sem álverksmiðjan stendur á, en hún stendur á nyrsta tanga Kapelluhrauns.
Við þær athuganir kom í ljós, að undir Kapelluhrauni er annað hraun mjög líkt því. Hraun þessi hafa verið nefnd Ka (= Kapelluhraun) og Kb (Tómasson og Tómasson 1966). Milli þessara hrauna er aðeins gjalllag, en undir Kb sums staðar sandlag. Tel ég nærri fullvíst, að hraun Kb sé úr síðasta gosi í Óbrinnishólum og því um 2140 ára gamalt. Þetta sama hraun kemur fram austan við Kapelluhraun skammt sunnan við gamla Reykjanesveginn og má rekja það þaðan suður og austur eftir norðan Kapelluhrauns, en það nafn er hér eingöngu notað um yngsta hraunstrauminn á þessu svæði, þann er álverksmiðjan stendur á.”

Heimild:
-Náttúrfræðingurinn, Jón Jónsson, Óbrinnishólar, 1974-1975, bls. 109-110.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur var genginn frá fjárhellinum í Óbrinnishólum og stígurinn síðan þræddur í gegnum Óbrinnisbruna, Snókalönd og Stórhöfðahraun með viðkomu í Arnarklettum. Þar við fannst gamalt hlaðið hús, sem skoða þarf nánar síðar. Stígurinn er markaður í hraunið á kafla, en hefur því miður, af skammsýni, verið mokað burt á kafla. Frá Stórhöfða lá stígurinn í gegnum Stóhöfðahraun, upp fyrir Rauðhóla (sjá Rauðhólafjárskjólið), með stefnu til suðurs vestan við Fjallið eina, áfram norður fyrir Hrútargjárdyngju og áleiðis að Móhálsadal – til Krýsuvíkur um Ketilsstíg.

Seldalur

Tóft í Seldal.

Gengið var upp á Stórhöfða og niður að Selshálsi þar sem skoðað var gamalt fjárhús, sennilega frá Hvaleyri þegar bændur þar höfðu í seli við Hvaleyrarvatn um og eftir 1872. Gengið var um Selfjall, litið á forna fjárborg og aðra forna tóft skammt norðaustan hennar (sennilega stekkur eða fjárbyrgi frá Hvaleyrarseli). Síðan var haldið niður að spegilsléttu vatninu og komið við í Hvaleyrarseli, en þar gerðust um 1884 þeir hörmulegu atburðir, sem flestum eru kunnir. Selmatsstúlka fannst látinn, illa leikinn, við vatnið. Talið var að nykur, sem hélt til í vatninu, hafi valdið dauða hennar. Eftir að hafa rifjað upp atvikið var gengið í skóginn og haldið á Húshöfða og kíkt á gömlu beitarhúsin frá Ási, stekkinn og fjárhústóttirnar undir Bleiksteinshæð, gengið eftir hæðunum yfir að Ásfjalli, skoðuð skotbyrgi frá stríðsárunum og áð við Siglingavörðuna efst á fjallinu. Þaðan mátti líta einn fallegasta bæ á landinu – baðaðan kvöldsólinni.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Óbrinnishólabruni

Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig frá öðrum, reyndar með ólíkum hætti því hið fyrrnefna er að miklum hluta úfið kargahraun en hið síðarnefnda slétt helluhraun næst upptökunum, bæði þó  með samfelldri Stakurráðandi mosaþembu.
Óbrinnishólabruni á (skv. fyrri rannsóknum) að hafa runnið 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) árið 1151 e.Kr. Um 1340 ára aldursmunur mun því vera á hraununum, en þess virðist þó fljótt á litið ekki sjást glögg merki, hvorki gróðurlega né jarðfræðilega. Mun líklegra er að Óbrinnishólahraunið hafi runnið í sömu goshrinu og Bruninn og þá einungis skömmu áður á jarðfræðilegan mælikvarða (á innan við 300 ára tímabili).
Þegar gengið var um Óbrinnishólabruna í byrjun sumar [2008] vakti stök burnirót, stakt lambagras og grasnýmyndun sérstaka athygli – landnámsplöntur í hraungambra eftir tæplega 2000 ára þrautseigju.
Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld. Hér ber að hafa í huga að báðar niðurstöðurnar eru rangar í ljósi nýjustu rannsókna – þrátt fyrir að virðingarverðir jarðfræðingar hafi verið þarna að verki. Segja má því með nokkrum sanni að sannleikurinn þarf ekki endilega að vera endanlegur þótt sennilegustu rannsóknir bendi til að svo sé – á þeim tíma. Gildir það enn þann dag í dag – og mun væntanlega gilda á morgun. Þessa eru fornleifafræðingar vel meðvitaðir. Áreiðanleika rannsókna hefur fleygt svo vel fram síðustu áratugi að efasemdir hafa vaknað við hvert fet sem stigið hefur verið hingað til.
Stakur er er áberandi ílöng hæð (reyndar sú eina) milli Óbrinnishólanna og Undirhlíða. Hann er birkigróinn í jarðrana. Grastorfur eru vestan við hann og vatnsstæði suðvestar. Uppi á honum miðjum, í skjóli fyrir austanáttinni, er minjar um yfirsetu smalanna frá Ási, en skammt norðar, undir nyrðri Óbrinnishólum, er fjárskjól þeirra.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu, um 700 metra vestan við Undirhlíðar, og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu, sem var virkt á u.þ.b. 25 km langri sprungurein frá Gvendarselsgígum við norðurenda Undirhlíða að Ögmundarhraunsgígunum suðaustan í Núpshlíð í suðri.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Leifar smalaskjólsins á StakSíðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík. Í hrauntröð sunnan við hólana er fyrrnefnt fjárskjól.
Í greinargerð Náttúruverndarráðs um þetta svæði segir m.a.: “Efnistaka úr eldvörpum og gervigígum hefur á undanförnum árum að mestu leyti verið bundin við eldvörp í nágrenni þéttbýlis. Stærstu námurnar á Suðurlandi hafa verið í gígþyrpingum á Reykjanesskaga (Arnarsetur við Grindavík, Óbrynnishólar við Hafnarfjörð, Rauð hólarnir við Reykjavík) og í Grímsnesi (Seyðishólar). Einnig hefur gjall verið unnið úr stökum eldvörpum á þessu svæði, svo sem úr Litlu-Eldborg undir Geitahlíð og nú síðast Eldborg við Trölladyngju.

Óbrinnishólar nyrðri - nú eyðilagðir af námuvinnslu

Á síðastliðnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa stjórnvöld bent á ferðamannaþjónustu sem vænlegustu leið okkar til ný sköpunar. Eldfjöllin draga til sín erlenda ferðamenn sem koma til þess að njóta ósnortinnar náttúru og fræðast um jarðfræðilega þróun landsins. Að ,,gera út á“ íslenska náttúru er meira í anda sjálfbærrar þróunar en að selja eldvörp í erlenda vegi.
Fjölbreytileiki íslenskra eldvarpa er eitt af einkennum landsins. Eldfjallaeyjan Ísland á engan sinn líka hvað varðar landslag, gosmyndanir og bergfræði. Þrátt fyrir ungan jarðfræðilegan aldur og tíða eldvirkni eru margar jarðmyndanir hérlendis mjög fágætar, einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Og þó Íslendingar telji sig ríka rík af þeim eldvörpum sem skópu landið í aldanna rás þá er vert að minnast þess að margar þessar jarðmyndanir eru afar sjaldgæfar og jafnvel einstakar, svo sem Eldborg í undir Geitahlíð. 

Í Óbrinnishólum syðri

Samkvæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á Reykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200-300 ár. Síðasta goshrinan gekk yfir á árunum 950-1240 en síðast runnu hraun á Reykjanesskaga árið 1226, þar má nefna Arnarseturshraun, Leitahraun og Eldvarpahraun.
Í umsögn Stofnunar Árna Magnússonar segir svo um nafngiftina: “Óbrinnishólar; réttara en Óbrynnishólar, sbr. so. brinna í fornu máli”.
Þegar gengið er um Óbrinnishólahraun leynist engum hugsandi ferðalangi að þar er um að ræða annað og “geðslegra” hraun en sjá má í Brunanum/Nýjahrauni/Kapelluhrauni (sett svo fram svo finna megi á leitarstreng). Þó fer ekki á milli mála, jafnvel meðal leikmanna, að ekki getur verið svo mikill aldursmunur á þessum hraunum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-flensborg.is
-Jón Jónsson. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn, 42.-45. árgangur. Rkv. 1974a.
-Stofun Árna Magnússonar.

Í Óbrinnishólahrauni

Óbrinnishólaskjól

Óbrinnishólar eru vestan við miðbik Undirhlíða og liggur Bláfjallavegurinn sem tengir Hafnarfjörð við skíðasvæðið í Bláfjöllum á milli hólanna. Óbrinnishólar voru fjórir fallega mótaðir gíghólar sem heilluðu marga. Ferðafélag Íslands og Útivist voru með reglulegar ferðir á sumrin um tíma þar sem gengið var frá Kaldárseli að Óbrinnishólum og voru þessar ferðir ofstast fljölmennar. Gísli Sigurðsson lögregluþjónn var gjarnan fararstjóri en fleir tóku að sér að leiða hópa um þessar slóðir. Óbrinnishólar urðu til í tveimur goshrynum með talsverðu millibili og rannsakaði Jón Jónsson jarðfræðingur hólana um miðjan og ritaði grein um þá sem birtist í Náttúrufræðingnum um miðjan 8. áratug 20. aldar. Hann taldi að talsvert langur tími hefði liðið milli gosanna tveggja og að eldra gosið hafi jafnvel verið um líkt leyti og gaus í Búrfelli, samkvæmt samsetningu þeirra steintegunda sem hann fann á báðum stöðum.
obrinnisholar-222Óbrinnishólar voru með þeim glæsilegustu á Reykjanesskag-anum öllum  áður en þeim var að mestu eytt með óhóflegu malarnámi. Fyrst í stað var eingöngu tekið gjall  í smáum stíl, og um líkt leyti voru gerðar þó nokkrar rannsóknir á hólunum. Var grafið að vestanverður og kom þar í ljós undir tæplega eins metra þykku lagi af gjalli 5-8 sentimetra þykkt moldarlag, en undir því var gjall. Gróðurleifar fundust efst í moldarlaginu sem voru kolaðar. Það mun hafa gerst eftir að seinna gosið hófst. Neðra gjallþykknið náði alveg niður á jökulurð og fast berg. Hólarnir eru að mestu úr bósltrabergi og grágrýti og í seinna gosinu urðu til margar hraunkúlur sem eru allt frá því að vera mjög smáar upp í það að vera eins og smáboltar að stærð og nokkuð reglulega lagaðar.
Það er fátt sem minnir á hina formfögru hóla sem þarna stóðu um aldir, svo gersamlega hefur þeim verið spillt og það er í rauninni skömm að því hvernig þarna hefur verið gengið á merkar náttúruminjar.
obrinnisholar-223Óbrinnishólar eru hluti af sprunurein sem liggur eftir endilöngum Reykjanesskaga. Víðsvegar á sprungunni eru mismunandi gamlir gígar sem hafa orðið til í mörgum goshrynum en fæstir þeirra eru stórir eða umfangsmiklir. Það er næsta auðvelt að þræða þessar gígaraðir og fylgja þeim frá Búrfelli og út á Reykjanestá eða því sem næst. Hólaröð Óbrinnishóla var einhverntíma mæld og reyndist vera 900 metra löng eða tæpur kílómetri.
Eins og nafnið gefur til kynna mynduðu hólarnir óbrennishólma sem yngri hraun hafa runnið í kringum og stóðu hólarnir eftir óbrenndir þar sem þeir voru hærra í landinu en nánasta umhverfi. Hæsti gígurinn var í 44 metra hæð yfir nærliggjandi umhverfi en miðað við hæð yfir sjó var hann í 144 metra hæð. Sigdalur eða hrauntjörn hefur myndast suðaustan við gígana við seinna gosið og gekk þessi dalur undir nafninu Óbrinnishólaslakki. Vestarlega í slakkanum er hellir sem er vel þess virði að skoða. Hlaðið hefur verið fyrir opið fyrir margt löngu en hellirinn er um 15-20 metra djúpur með bogadregnum lofti og þrengist eftir því sem innar dregur. Hann nefnist Óbrinnishellir en var líka nefndur Óbrinnishólaskúti. Þessi hellir var notaður um aldir sem fjárskjól yfir vetrartímann af bændum á Hvaleyri enda voru Óbrinnishólar í efri hluta Hvaleyrarlands. Birki- og víðihríslur uxu í vesturhluta nyrsta Óbrinnishólsins og sömuleiðis í hæðardragi skamm frá sem heitir Stakur en einna mestur var kjarrgróðurinn í sjálfum Undirhlíðum, enda heita þar Litli-Skógarhvammur og Stóri-Skógarhvammur. Þarna var kjörlendi fyrir vetrarbeit.
Óbrinnishólar eru ekki svipur hjá sjón en það má samt sem áður hafa ánægju af því að skoða hraunið umhverfis þá og þeir sem hafa gaman að því að rýna í litbrigði jarðar geta dundað sér við að skoða litina sem leynast í gígnámunum.
Óbrinnishólar eru ekki svipur hjá sjón en það má samt sem áður hafa ánægju af því að skoða hraunið umhverfis þá og þeir sem hafa gaman að því að rýna í litbrigði jarðar geta dundað sér við að skoða litina sem leynast í gígnámunum.

Heimild:
-Hraunavinir – Óbrinnishólahellir, Jónatan Garðason – http://www.hraunavinir.net/obrinnisholahellir/

Óbrinnishólaskjól

Óbrinnishólahellir.

Kerin

Gengið var frá Vatnsskarði til norðurs með vestanverðum Undirhlíðum, áleiðis að Kaldárseli. Undirhlíðar og Sveifluháls mætast í Vatnsskarðinu. Fylgt var nokkurn veginn gömlu þjóðleiðinni, Undirhlíðarvegi, sem lá frá Krýsuvík að Kaldárseli vestan við Sveifluháls og Undirhlíðar.

Vatnsskarð

Vatnsskarð og Undirhlíðar – kort.

Haldið var inn með hlíðunum eftir slóða, sem liggur með þeim að Bláfjallavegi um Óbrinnisbruna. Markrakagil er á hægri hönd. Aðrar lýsingar segja Markrakagil og Vatnsskarð vera eitt og hið sama. Landamerki Hafnarfjarðar liggja um gilið og í beina línu í Markraka ofan við Dauðadali suðaustan við Helgafell. Mörkin eru reyndar óviss vegna þessa álitamáls, en samhengi er í nöfnunum á þessum tveimur stöðum. Markraki er eitt af mörgum nafngiftum refsins, melrakkans.

Stóri-Skógarhvammur

Piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógræk í Undirhlíðum undir leiðsögn Hauks Helgasonar.

Í Skógarhvammi er skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú eru liðin u.þ.b. hálf öld síðan byrjað var að gróðursetja tré þarna í hlíðunum og hefur af hlotist hinn myndarlegasti skógur, líkt og í Ingvarslundi nokkru norðar með þeim. Utan í gíg skammt sunnan við Bláfjallaveginn vottar fyrir fornum hleðslum.
Stakur er á vinstri hönd og fær má sjá Óbrinnishólana.
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu, um 700 metra vestan við Undirhlíðar, og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu, sem var virkt á u.þ.b. 25 km langri sprungurein frá Gvendarselsgígum við norðurenda Undirhlíða að Ögmundarhraunsgígunum suðaustan í Núpshlíð í suðri.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum.

Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík. Í hrauntröð sunnan við hólanna er fallegt fjárskjól.

Ker

Kerin.

Gengið var yfir Bláfjallaveginn og framhjá Kerjunum. Þau eru tveir fallegir gígar utan í Undirhlíðum og munu vera hluti af fyrrnefndu eldstöðvarkerfi. Sjá má slétt helluhraun framundan, en það mun hafa komið úr gígum þessum.
Gengið var framhjá Kýrskarði og Kúadal og síðan haldið eftir Kúastígnum áleiðis í Kaldársel.
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta. Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar. Nær friðlýsingin einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918.

Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Vatnsból Hafnfirðinga er nú við Kaldárbotna og er vatnasvæðið girt af þ.á.m. Helgadalur, sem var áður vinsæll útivistastaður. Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðrar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Vestan við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – Stóri-Skógarhvammur.

Kaldársel

Gengið var frá Kaldárseli eftir Kúastíg, um Kýrskarð og Gvendarselshæðargíga, yfir Undirhlíðar, niður í Kerin og suður með vestanverðum Undirhlíðum. Litið var niður í dýpi Aðalholu og sigið niður í Aukaholu. Um er að ræða gamlar djúpar (17 m og 10 m) sprungugjár, sem nýrra hraun hefur runnið niður í og smurt veggi og lausagrjót, formað súlur og ýmis litbrigði. Bandspotti reyndist nauðsynlegur til að komast upp úr holunni.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs.
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta.

Aukahola

Aukahola.

Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar. Nær friðlýsingin einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Vatnsból Hafnfirðinga er nú við Kaldárbotna og er vatnasvæðið girt af þ.á.m. Helgidalur sem var áður vinsæll útivistastaður. Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ofan við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.

Sprungur

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.

Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Aðalhola

Aðalhola.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu. Stærð hans er áætluð 5 – 10 m³/s.
Gengið var frá Kaldárseli frá seltóftunum sunnan undir húsgafli KFUMogK. Kaldá rennur þar um hraunið neðanvert. Sunnan hennar eru áklappaðir letursteinar. Sólin baðaði bakkana og vatnið lét sér við klakana.

Aukahola

Í Aukaholu.

Fylgt var Kúsastígnum að Kaldárhnúkum nyrst á Undirhlíðum og þeim síðan fylgt til suðurs að Kýrskarði um skógræktina til suðurs með vestanverðum hlíðunum. Gengið var upp skarðið og upp að Gvendarselshæð. Gvendarselshæðargígar sáust þar norðar, en haldið var ofan og framhjá einum syðsta gígnum og áfram upp að hinu svonefnda Gvendarseli. Þar eru tóftir selstöðu, en hvort hún hafi verið brúkuð til lengri eða skemmri tíma er erfitt að álykta með því eina að horfa á tóftirnar.
Gengið var niður dal milli Undirhlíða og Gvendarselsgíga og var stefnan tekin að rafmagnsmastri fremst á brún Undirhlíða, að vestanverðu. Þar fyrir neðan eru Kerin, falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að gagna niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningastaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, ca. 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni var frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgunni. Stighækkandi sólin baðaði hæstu fjallakollana.

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur framundan.

Undirhlíðastígnum var fylgt til suðurs, yfir Bláfjallalveg og inn að Stóra-Skógarhvammi. Þar hefur átt sér stað mikil gróðursetning trjáplatna s.l. 40 ár á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Guðmundur Þórarinsson, kennari, var m.a. einn frumkvöðla þessarar gróðursetningar og er lundurinn í raun lifandi minnisvarði um þann ágæta , annars hlédrægna, heiðursmann.
Undirhlíðar eru hluti af vestra gosbelti landsins, sem liggur eftir endilöngu Reykjanesi noður í Langjökul, oft kallað Reykjanesgosbeltið. Helstu einkenni þess eru móbergshryggir með hraunþekju inn ámilli. Móbergshryggirnir hafa sennilega myndast á síðasta jökulsskeiði, sem stóð yfir í um 100.000 ár og lauk fyrir um 10.000 árum. Þeir hafa myndast við gos undir jöklum, þars em gosefni ná ekki að renna sem hraun heldur hlaðast þau upp nálægt gosstöðvum sem móbergsfjöll eða móbergshryggir, allt eftir lengd gossprungu.

Aðalhola

Í Aðalholu.

Undirhlíðar er dæmigerður móbergshryggur. Á hlýskeiðum renna gosefnin aðallega sem hraun er mynda breiður í dali og lægðir á milli gosbergsmyndana. Harun,s em myndast hafa eftir síðustu ísöld kallast nútímahraun og eru Kapelluhraun (rann 1151) og Skúlatúnshraun dæmi um slík hraun. Skúlatúnshraun er svonefnt dyngjuhraun, en dyngjuhraun eru í raun stafli af mjög þunnum hraunlögum.
Undirhlíðar eru móbergshryggur með bólstrabergskjarna, sem myndast hefur á ísöld, en síðustu ísöld lauk fyrir u.þ.b. 10.000 árum.
Bólstraberg er stundum nefnt kubbaber eða bögglaberg eftir stærð bólstranna.

Gvendarselshæð

Gvendarsel í Gvendarselshæð.

Fornleifakönnun var gerð árið 1998 og Dalaleið, sem liggur ofan Undirhlíða (Gvendarselshæðar) var könnuð árið 2003. Á svæðinu fundust sex fornleifar á þremur stöðum. Þær eru Gvendarsel (sel frá Görðum, fjórar rústir), óþekktar rústir í gíg vestan við Báfjallaveg og Undirhlíðarvegur, gömul þjóðleið, sem lá til Krýsuvíkur. Undirhlíðavegur er þegar spilltur á kafla þar sem Bláfjallavegur fer yfir hann. Dalaleiðin var forn þjóðleið er lá til Krýsuvíkur.
Vestan við Stóra-Skógarhvamm er alllöng sprunga á misgengi. Um er að ræða eldri sprungu í nýrra hrauni. Óbrennisbrunahraunið hefur runnið niður í gömlu gjána og myndað falleg litbrigði sem og formað hinar ýmsustu hraunmyndanir.
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra gosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígarnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.

Óbrinnishólar

Í Óbrinnishólahelli.

Eftir að kíkt hafði verið niður í Aðalholu, lítt árennilega, var haldið yfir að Aukaholu skammt sunnar með sprungunni.
Sigið var á böndum niður í hana. Fallegar hraunmyndanir eru niður í sprungunni og enn bættu grýlukertin og klakaseparnir á gólfum um betur. Hellirinn í holunni er á tveimur hæðum. Birta kemur og niður um stórt op sunnan við það sem farið var niður um.
Gengið var til baka um Óbrinnishólabruna með stefnu á Kaldársel. Víða sáust refa- og rjúnaspor, auk þess fjölmargar rjúpur sásust á flugi með hlíðunum.

Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.