Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur var genginn frá fjárhellinum í Óbrinnishólum og stígurinn síðan þræddur í gegnum Óbrinnisbruna, Snókalönd og Stórhöfðahraun með viðkomu í Arnarklettum. Þar við fannst gamalt hlaðið hús, sem skoða þarf nánar síðar. Stígurinn er markaður í hraunið á kafla, en hefur því miður, af skammsýni, verið mokað burt á kafla. Frá Stórhöfða lá stígurinn í gegnum Stóhöfðahraun, upp fyrir Rauðhóla (sjá Rauðhólafjárskjólið), með stefnu til suðurs vestan við Fjallið eina, áfram norður fyrir Hrútargjárdyngju og áleiðis að Móhálsadal – til Krýsuvíkur um Ketilsstíg.

Seldalur

Tóft í Seldal.

Gengið var upp á Stórhöfða og niður að Selshálsi þar sem skoðað var gamalt fjárhús, sennilega frá Hvaleyri þegar bændur þar höfðu í seli við Hvaleyrarvatn um og eftir 1872. Gengið var um Selfjall, litið á forna fjárborg og aðra forna tóft skammt norðaustan hennar (sennilega stekkur eða fjárbyrgi frá Hvaleyrarseli). Síðan var haldið niður að spegilsléttu vatninu og komið við í Hvaleyrarseli, en þar gerðust um 1884 þeir hörmulegu atburðir, sem flestum eru kunnir. Selmatsstúlka fannst látinn, illa leikinn, við vatnið. Talið var að nykur, sem hélt til í vatninu, hafi valdið dauða hennar. Eftir að hafa rifjað upp atvikið var gengið í skóginn og haldið á Húshöfða og kíkt á gömlu beitarhúsin frá Ási, stekkinn og fjárhústóttirnar undir Bleiksteinshæð, gengið eftir hæðunum yfir að Ásfjalli, skoðuð skotbyrgi frá stríðsárunum og áð við Siglingavörðuna efst á fjallinu. Þaðan mátti líta einn fallegasta bæ á landinu – baðaðan kvöldsólinni.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).