“Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og “Enskulágar” þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.
Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kyntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.
Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.”
-Úr Öldin okkar 1518 og 1532.