Færslur

Gálgaklettar

Gengið var um hraunin ofan Grindavíkur, þ.e. Illahraun, Arnarseturshraun, Skógfellshraun og Dalahraun. Síðastnefnda hraunið er um 3000 ára gamalt, en Arnarseturshraun er yngst, mun hafa runnið á sögulegum tíma, eða árið 1226.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Gangan hófst við vestanvert Þorbjarnarfell, við svonefndan Gyltustíg. Stígurinn er náttúruleg læna upp fellið vestast í því sunnanverðu. Annars er Þorbjarnarfell í daglegu tali nefnt Þorbjörn. Það er stakt móbergsfell (243 m.y.s). Af því er gott útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Sá misskilningur hefur komist á spjöld að á Þorbjarnarfelli hafi farist í flugslysi í síðari heimstyrjöldinni C. Andrews, yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafssvæðinu, ásamt fleiri háttsettum foringjum.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Brak úr vélinni er í Kastinu utan í Fagradalsfjalli. Aðeins einn maður komst lífs af úr þessu flugslysi og beið hann björgunar á annan sólarhring. Á fellinu hafði herinn hins vegar aðstöðu á styrjaldarárunum og má þar sjá leifar hennar, s.s. grunna, hleðslur, ofn og slóða.

Fyrrnefnd þjóðsaga segir að “skammt ofan við byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, oftast nefnt Þorbjörn.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Í toppi þess er hamragjá sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar sem lögðust á fé Grindvíkinga.
Eigi sáu byggðamenn færi á að vinna þá fyrr en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri sem er á Baðsvöllum, norðan undir fjallinu.

Einn gætti klæða þeirra meðan þeir voru í baðinu og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan sem fætur toguðu til bæja og sagði hvernig komið væri.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Það fór eins og hann ætlaðist til: þjófunum varð tafsamt að komast í fötin og ekki fóru þeir í önnur föt en nærklæðin og eltu hann síðan en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.

Nú þustu byggðamenn að þeim og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonur varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.” Um vettvang sögunnar, þ.e. Baðsvelli og minjarnar á þeim, laugina og Gálgakletta, er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Gengið var vestur með suðurkanti Skipsstígshrauns yfir á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Þarna vestan við Lágafellið hefur stígurinn verið lagaður á um 300 metra kafla. Þetta hefur sennilega verið á fyrstu árum 20. aldar er gera átti stíginn vagnfæran. Svo er að sjá að hætt hafi verið við framkvæmdina, en framkvæmdir við gerð gamla Grindavíkurvegarins frá Stapanum, að Seltjörn, um Skógfellshraun og Arnarseturshraun, um Selháls og niður í Grindavík hófust árið 1913.
Við Skipsstíginn er Dýrfinnuhellir, hraunskúti með hleðslum fyrir. Sagan segir að þangað hafi samnefnd kona úr Grindavík flúið með börn sín eftir komu Tyrkjanna og dvalið þar um sinn.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Skipsstíg var fylgt spölkorn til norðurs, en síðan beygt af honum til austurs. Gengið var yfir Illahraun að Sýlingafelli (Svartsengisfelli). Hraunið er að vísu illt yfirferðar næst Þorbirni, en þegar komið er inn í það er auðvelt að komast í gegn. Vestan Grindavíkurvegarins var komið að hlöðnu hringlaga gerði, ein af mörgum minjum eftir vegagerðina forðum.

Tvö hlaðin hús eru í lægð handan vegarins. Inni í krika Svartsengis liggur stígur vegagerðarmanna inn á Arnarseturshraunið og áleiðis upp á Gíghæð, þar sem fyrir eru meginbúðir þeirra er enn sjást.  Svartsengi er talið hafa verið nefnt eftir hrútnum Svarti, sem þar mun hafa unað sér vel.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Þegar komið var að Arnarsetri var genginn stígur austur yfir hraunið, að Stóra-Skógfelli. Þar var beygt til suðurs og Skógfellastígnum fylgt í gegnum Dalahraun að Eldborgunum og Sundhnúkunum. Stígurinn, sem er gömul þjóðleið milli Voga og Grindavíkur, er vel klappaður í bergið þar sem hann liggur á milli Skógfellanna. Sundhnúkarnir eru falleg gígaröð utan í Vatnsheiði, en þaðan mun meginhraunið, sem Grindavík stendur á, vera komið, um 2400 ára gamalt. Eldborgirnar eru enn ósnertar og sýna vel hvernig gos á sprungureinum hefur myndast, en þau eru allnokkur á Reykjanesskaganum.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Gengið var upp með Hagafelli og að Gálgaklettum þeim, sem þjófarnir forðum eiga að hafa endað lífdaga sína. Haldið var niður eftir Selhálsi þar sem Hópsselið er undir hlíðinni og síðan gamla Grindavíkurveginum fylgt suður með austanverðu Þorbjarnarfelli um Klifhólahraun að upphafsstað. Suður hraunið liggur greinilega gömul gata áleiðis að Járngerðarstöðum, en bæirnir þar höfðu m.a. í seli á Baðsvöllum áður en selstaðan var færð upp á Selsvelli, auk þess sem aðrar nytjar hafa eflaust verið hafðar af völlunum fyrrum.

Heimild um Þorbjarnarfell:
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_thorbjarnarfell.htm
mÞjóðsagan er af:
-http://www.hs.is/fyrirtaekid/addragandi.asp

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.

Gunnuhver

Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og s svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: “Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.”
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.
Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.

En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.

Gunnuhver

Gunnuhver. Hverinn færist fram og aftur um hverasvæðið.

Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: “Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.”
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.

Jón Árnason I 563

Gunnuhver

Gunnuhver.

Fiskidalsfjall

Hér er til gamans birtur kafli, nr. 32, úr óbirti sögu ungs drengs er ólst upp í sjávarþorpi á Reykjanesskaganum á sjötta tug síðustu aldar. Ameríski herinn hafði bækistöðvar við þorpið og setti það svip sinn á mannlífið. Sögunni fylgir kort af svæðinu, en það verður ekki sýnt hér. Til að leiða lesendur inn í kaflann, sem hér er birtur, er fyrst staldrað við í 31. kafla:

31.
“Drengirnir voru enn að voma á sandinum ofan við Þorpið þegar þeir veittu allt í einu athygli grænleitum pallbíl þar sem honum var ekið eftir veginum að grófriðnu vírnetshliði á girðingunni umhverfis fjarskiptastöð hersins. Ökumaðurinn stöðvaði framan við hliðið og hermaður kom út úr varðskýli þar fyrir innan og opnaði. Þegar bílnum hafði verið ekið inn fyrir var hliðinu umsvifalaust lokað á ný. Bíllinn var stöðvaður framan við bragga skammt innan við varðskýlið. Ökumaðurinn og tveir vopnaðir hermenn, sem verið höfðu farþegar, yfirgáfu hann þar og flýttu sér inn í skúr við endann á bragganum.
 Aftan á bílnum grillti í enda á nokkrum trékössum. Þeir voru að hluta huldir gráum segldúk, en þetta voru samskonar kassar og þeir, sem drengirnir höfðu séð Kanana vera með þegar þeir voru að lauma amerískum bjúgum að Lónsvíkingum eða nota þau í skiptum fyrir eitthvað sem þá vanhagaði um. Lyktin af bjúgunum var svo sterk að hún fylgdi Könunum hvert sem þeir fóru, jafnvel þótt engin bjúgu væru í nánd. Anganin fannst meira segja alla leið niður á Torfu þegar vindur stóð af norðvestri, en það var þó sem betur fer sjaldgæf vindátt á þessum slóðum….

Loftskeytastöðvarsvæðið - núna, alssbert og stípað að lokinni notkun32.
Jón Pétur og Gunnsi voru sammála um að ástæða væri til að líta nánar á kassana á bílpallinum. Ekki var nokkurn mann að sjá á ferli innan við girðinguna. Drengirnir áræddu að rísa upp og gengu hálfbognir að henni. Þeir hikuðu. Á girðingunni voru einhver gul skilti með erlendri áletrun og mynd af rauðri eldingu. Amma hafði sagt Jóni Pétri að koma ekki nálægt vírnetinu því Kananum væri alveg trúandi til að tengja rafmagnsstraum við það. En Jón Pétur vissi betur. Hann hafði sjálfur sannreynt það einu sinni að ekkert rafmagn væri leitt í girðinguna með því að kasta á hana dauðri veiðibjöllu, sem hann hafði fundið þar skammt frá. Hún hafði sennilega drepist við að fljúga á einn víranna sem háu fjarskiptamöstrin voru stöguð niður með.
Til að gæta alls öryggis og hafa vaðið fyrir neðan sig gættu drengirnir þess vel að snerta ekki netið að óþörfu. Það var aldrei að vita nema gamla konan rétt fyrir sér. Hún var ekki vön að segja ósatt. Og það gat ekki verið að ástæðulausu sem hún var að vara við girðingunni.
Vindurinn þyrlaði rykinu upp á malarsvæðinu innan við girðinguna. Lyktin af bjúgunum varð greinilegri.
“Gaman væri nú að geta glatt ömmu með einum svona kassa”, hugsaði Jón Pétur. “Hún hefur ábyggilega aldrei bragðað svona mat blessunin og á sennilega aldrei eftir að gera. Og hvað munaði Kanana svo sem um einn kassa?”
Kaninn virtist eiga nóg af bjúgum. Að minnsta kosti voru þeir alltaf að gefa þær hverjum sem þiggja vildi, út og suður í tíma og ótíma, annað hvort í skiptum fyrir eitthvað annað eða að því er virtist að tilefnislausu. Amma Áslaug hafði þó ekki staðið í verslun við Kanann – einungs látið sér nægja lyktina.
Á meðan Jón Pétur og Gunnsi stóðu þarna hálfbognir utan við girðinguna tókst þeim á skömmum tíma að sannfæra hvorn annan um að ekki yrði hjá því komist að þeir reyndu að ná einum kassanna fyrir innan girðinguna með einhverjum ráðum. Ekki var þorandi að reyna að klifra yfir. Þótt ekki væri straumur á girðingunni þessa stundina væri ekki hægt að útiloka að Kaninn gæti hleypt á hana straumi öðru hvoru. Og það var alveg eins líklegt að hann gerði það ef hann yrði þeirra var. Auk þess var hún það há að vonlaust var fyrir þá að koma kassanum aftur yfir þá leiðina. Og ekki höfðu þeir verkfæri til þess að grafa sig undir girðinguna.
Leifar fjarskiptastöðvarinnar, tæpri hálfri öld síðarDrengirnir fikruðu sig spenntari og spenntari, en hikandi nær hliðinu, vitandi að vörðurinn í skúrnum fyrir innan var vopnaður. Því urðu þeir að fara sérstaklega varlega og láta lítið á sér bera.
Þegar nær dró settust þeir niður í sandinn og hvísluðust á. Þeim fannst þeir vera komnir í einhvers konar leik, sem þeir urðu að ljúka.
Allt í einu birtist vörðurinn í dyragættinni. Drengirnir beygðu sig alveg niður í sandinn.  Vörðurinn stóð þarna nokkra stund, skimaði í kringum sig, horfði yfir að bílnum, reykti, kastaði sígarettunni frá sér og snéri síðan aftur inn. Hann virtist óvopnaður. Drengirnir önduðu léttar. Þeir stóðu upp, hlupu hálfbognir að hliðinu og tóku lauslega í það. Heppnin var vera með þeim. Grindin féll ekki alveg að hliðarstólpanum. Nokkurt bil myndaðist þar á milli ef grindin var spennt frá.
Drengirnir horfðust í augu. Hvor skildi hinn. Jón Pétur tók á sig rögg og smeygði sér hiklaust inn fyrir. Það var hann sem hafði átt hugmyndina og því var sjálfsagt að að hann færi. Gunnsi  beið utan við hliðið og átti að halda því í sundur og vara Jón Pétur við ef vörðurinn eða einhver annar birtist.
Jón Pétur hljóp hljóðlega að pallbílnum og fram með afturhluta hans fjær bragganum. Hann staðnæmdist, en enga hreyfingu var að sjá á svæðinu. Hann greip þéttingsfast í skjólborðið, steig upp í felguna og vó sig upp á afturdekkið. Þaðan náði hann spyrnu til að geta teygt sig í einn kassann og draga hann hægt og varlega að sér. Annar endi kassans hvíldi á skjólborðinu. Jón Pétur lét sig síðan síga niður á jörðina og dró kassann að því búnu til sín.
BLeifar fjarskiptastöðvarinnar, tæpri hálfri öld síðaryrðin var þyngri en hann hélt. Jón Pétur átti erfitt með að ná nægilega góðu taki á kassanum og missti hann því á jörðina. Við það varð mikill hávaði.
Jón Pétur stóð grafkyrr. Hann þorði ekki að draga andann, húkti bara steinrunninn yfir kassanum. Engin hreyfing. Vindurinn hlaut að hafa dreift hljóðinu.
Jón Pétur tók kassann upp og hraðaði sér hálfboginn með hann að hliðinu. Þar beið Gunnsi eftir honum. Hann spennti sundur hliðið og Jón Pétur henti kassanum út fyrir í gegnum rifuna og fylgdi snarlega á eftir. Þeir gripu síðan undir sinn hvorn endann og hlupu við fót niður tröðina frá fjarskiptamiðstöðinni. En rétt áður en þeir komust í hvarf neðan við sandhæðina og niður á veginn kom varðmaðurinn út úr skúrnum.Â
Varðmaðurinn sá óðara hvers kyns var og hrópaði í ofboði á félaga sína, sem komu strax hlaupandi út. Eftir nokkurt handapat og köll stukku tveir hermannanna upp í bílinn og einn þeirra hentist fallvaltur að hliðinu. Tilburðir þeirra báru ekki með sér að um þrautþjálfaða atvinnuhermenn væri að ræða. Það tók Kanana auk þess nokkurn tíma að koma bílnum í gang og snúa honum við á svæðinu, en að því loknu hófst eftirförin. Vörðurinn stóð utan á skítbrettinu og hélt sér í þakbrúnina, albúinn að stökkva á bráðina ef færi gæfist.
Drengirnir urðu varir við að bílinn stefndi í áttina að þeim. Þeir hertu því hlaupin. Gunnsi dróst aftur úr. Jón Pétur tók þá kassann í fangið. Hann hafði ekki hugsað sér að sleppa herfanginu átakalaust.
Leifar fjarskiptastöðvarinnar, tæpri hálfri öld síðarGunnsi hrópaði að þeir skyldu stytta sér leið yfir kríuvarpið. Þeir beygðu út af veginum, hlupu yfir varpið, stukku í gegnum geil á hlöðnum grjótveggnum í túnfæti Vesturbæjarins og hiklaust áfram yfir túnið í átt að Miðbænum. Það var eins og kölski sjálfur væri að narta í hælana á þeim.
Hermennirnir þurftu að fara veginn og því mun lengri leið. Einn þeirra stökk af bílnum þegar hann nálgaðist hlaðna grjótvegginn í beygju á veginum og hljóp á eftir piltunum yfir túnið. Hinir héldu áfram á bílnum, en fylgdust þó vel með ferðum drengjanna. Til þess að komast inn í Þorpið og niður að bæjunum urðu þeir þó fyrst að krækja vestur fyrir Búðina. Leiðin var seinfarin á þungum herbílnum og á meðan nálguðust drengirnir óðfluga Miðbæ.
Það stóð á endum að um það bil sem Jón Pétur náði að útidyrunum birtist hlaupandi hermaðurinn við húshornið og hinir hermennirnir stöðvuðu bílinn um svipað leyti á hlaðinu. Annar þeirra stökk þegar út og hljóp hröðum skrefum í átt að húsinu. Jón Pétur náði að opna hurðina og var að henda sér inn á ganginn innan við forstofuna þegar einn hermannanna náði lafmóður taki á skyrtu hans með annarri hendinni og náði að grípa í kassann með hinni.
Jón Pétur lamdi og sparkaði frá sér af öllum kröftum og öskraði um leið: “Amma, amma, hann ætlar að drepa mig”, með slíkum látum að halda mætti að verið væri að kreista úr honum síðustu líftóruna. Kaninn sá þá sitt óvænna og sleppti drengnum, en hélt eftir kassanum.
Áslaug kom haltrandi fram. Hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, var órótt, en róaðist er hún varð þess áskynja að engin virtist hafa meiðst. Mikil rekistefna fylgdi í kjölfarið með hrópum, handafettum og brettum. Kaninn var óðamála, en Áslaug fórnaði höndum. Enginn skildi upp né niður í neinu í fyrstu, en svo skýrðust hlutirnLeifar fjarskiptastöðvarinnar, tæpri hálfri öld síðarir smám saman.
Loks kom í ljós hvers vegna Könunum hafði verið svo mikið í mun að ná í “bjúgun”, sem Jón Pétur og Gunnsi töldu sig hafa náð í. Í kassanum reyndust ekki vera meinlaus matvæli, heldur hættulegar dýnamítstúpur, sem ætlaðar voru til nota í hernaði. Þegar ró hafði komist á hrósuðu allir happi að ekki skyldi hafa farið verr í þetta skiptið.
Drengirnir höfðu læðst inn fyrir og földu sig hræddir inni í herbergi á meðan Áslaug bauð Könunum þremur í kaffi og pönnukökur. Svo gott fannst Könunum meðlætið að þeir gleymdu næstum að taka með sér kassann þegar þeir voru kvöddu gömlu konuna.
Jón Pétur og Gunnsi höfðu ekki þorað að koma út úr herberginu á meðan á veisluhöldunum stóð. Þeir létu lítið á sér bera og áræddu ekki einu sinni að kasta kveðju á gestina þegar þeir fóru.
Um kvöldið þegar Jón Pétur hafði strokið sér í framan, lagstur upp í rúm og dregið sængina skömmustulegur upp fyrir höfuð sér, kom Áslaug og settist á rúmstokkinn hjá honum. Hún strauk með hendinni yfir enni hans og klappaði honum á kinnina.
“Ég veit að þetta var vel meint, gullið mitt”, hvíslaði hún. “Þótt þér finnist gaman að gleðja mig, gömlu konuna, gleður það mig meira að vita af góðum og heiðarlegum dreng á öruggri leið. Litli, ræfillinn minn.  Ég ætla að biðja þig um að taka aldrei það sem aðrir eiga – ekki einu sinni í þeim tilgangi að gleðja aðra. Heyrirðu það, hróið mitt? Heyrirðu það”?
Áslaug taldi ekki ástæðu til að skammast sérstaklega yfir uppátækinu því hún vissi að drengirnir höfðu þegar dregið sinn lærdóm af því.
Þrátt fyrir atburði dagsins sofnaði Jón Pétur sáttur. Hann hafði lofað Áslaugu að láta hjá líða að gera aðra atlögu að ameríska hernum – þótt ekki væri fyrir annað en að halda friðinn.”

Nú, hálfri öld síðar er sagan gerðist, eru ummerki eftir loftskeytastöðina tilnefndu að mestu afmáð af yfirborði jarðar. Enginn vegfarandi, sem á leið um svæðið, gæti látið sér detta í hug að þarna hefði verið eitt af lykilmannvirkjum bandamanna (þess tíma) í baráttunni um heimsyfirráð (Kalda stríðsins). Allt í heiminum er svo hverfult. Líklegt má telja að deilumál dagsins í dag, orkuöflun og möguleg nýting hennar, muni að hálfri öld liðinni verða þess tíma fólki hjóm eitt. Vonandi mun eyðileggingin þó ekki verða í líkingu við þá er varð fyrir (okkar) 50 árum síðan – vonandi höfum við lært eitthvað, þótt ekki sé nema eitt hænuskref sem þurfa þykir – eftirlifandi kynslóðum til góða…

Grímshóll

Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum.

Grímshóll

Stapagata og Grímshóll á Vogastapa.

Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.

Jón Árnason I 14

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Hunangshella
Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annara þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki. Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni.
Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta. Hellan er síðan kölluð Hunangshella og er hún við landsuður-horn Ósanna hjá alfaraveginum milli Keflavíkur og Hafna.
Sjá einnig HÉR.

Jón Árnason I 611

Hunangshella.

Hunangshella.

Þorbjörn

Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn.

Grindavík

Í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar.
Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.

Heimild:
-Huld I, bls. 60-61.

Grindavík

Horft til Grindavíkur frá Þjófagjá.

Krýsuvíkurleið

Áður en það var rutt varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni þegar fara þurfti til Njarðvíkur eður Keflavíkur.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum. Bóndi vildi ei gipta dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja.
Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann inum stundir að sofna vært og drap hann sofandi.
Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.
Jón Guðmundsson frá Skála fylgdi FERLIRsfélögum að dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

-Huld I 231.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Festarfjall

Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Rauðskinna I 45

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík (Hraunssandur).

Járngerðarstaðir

“Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir Grindavíkursjórofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Hraun

Dys við Hraun.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. (Grafið var í hólinn á fimmta áratug 20. aldra. Í ljós kom kapella frá 15. öld. Nefnd dys mun vera á hól vestan Hrauns).

Þyrnir

Þyrnir hjá Járngerðarstöðum.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.
Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”

Jón Árnason IV 161 – Brynjúlfur Jónsson skráði – Tillaga til alþýðlegra fornfræða.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkatla bjó á Þórkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands.

Þórkötludys

Sigurður Gíslason á Hrauni við dys Þórkötlu í Þórkötlustaðahverfi.

Þórkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þórkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Sagan segir að Þórkatla hafi verið kona Þorsteins hrúfnis (jötuns) og Járngerður hafi verið kona Þórðar leggjalda. Þeir voru synir Molda-Gnúps. Þegar eiginmaður Járngerðar fórst á Járngerðarstaðasundi mælti Járngerðu svo til um að 20 skip skyldu þar og farast. Hún var dysuð að hennar beiðni við sjávargötuna frá Járngerðarstöðum svo hún gæti fylgst með hverjir réru hverju sinni.

Dys Járngerðar er í vegkantinum, sunnanmegin, í beygjunni á milli Víkur og Hliðs. Tómas Þorvaldsson, sem vísaði á dysina, sagði það venju að sjómenn, sem gengu sjávargötuna framhjá dysinni, stöðvuðu þar og signdu sig eða báðu bænir áður en þér héldu til báts.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Í sama óveðri slapp eiginmaður Þórkötlu inn á Þórkötlustaðasundið. Þórkatla mælti þá svo til um að þar myndu engir bátar farast. Hefur hvorutveggja gengið eftir. Þórkatla mælti fyrir um að hún skyldi dysjuð þar sem hún sæi yfir Þórkötlustaðasundið.
Dys Þórkötlu er er í túninu austan við Hof.

Jón Árnason IV 231
Skv. upplýsingu Tómasar Þorvaldssonar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ eftir ábendingum Guðjóns í Vík.