Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson skrifaði um “Gamlar slóðir” Hafnfirðinga í Hamar 1954:

Garðahverfi

Engidalsvegur um Flatahraun aftan Fjarðarkaupa. Nú eyðilagður vegna framkvæmda.

“Inn á Flatahrauni mátti til skamms tíma sjá troðning, vallgróinn, í hrauninu sunnan Reykjavíkurvegar. Troðningur þessi lá niður Flatahraunið hjá neðsta hvíldarklettinum eftir balanum, þar sem nú stendur Tunga. Var þar í eina tíð tveggja mannhæða djúpur hraunbolli. Af balanum lá troðningurinn niður í Djúpugjótu og hlykkjaðist eftir henni upp á syðri gjótubarminn. Var allhátt af barminum niður í gjótuna. Þarna varð eitt fyrsta bifreiðaslys sem um getur í bifreiðasögunni, á áliðnum vetri 1913. Frá Djúpugjótu lá troðningurinn eftir hraunbala nokkuð sléttum unz halla tók niður í Háaklif.

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Þröngt var það, svo að varla varð farið um það með klyfjahest. Breyttist það nokkuð, árið 1873. Var þá fyrir forgöngu Christens Zimsen verzlunarstjóra ráðist í að leggja upphleyptan veg, neðan af plássi í Hafnarfirði, austur á hraunbrún við Engidal. Var þetta akfær vegur. Chr. Zimsen vígði svo veginn. Reið hann á þriðjungi skemmri tíma en áður hafði tíðkast að fara þessa leið. Var mikið um þessar framkvæmdir talað og þótti sá maður að meiri, er þær hafði séð. En þröngt var enn um klifið. Háir klettar á báðar hendur. Þegar Hafnfirðingar tóku á móti konungi sínum 1874, Kristjáni níunda, lögðu þeir stórt tré yfir klifið frá einum kletti yfir á annan. Klæddu síðan allt með lyngi og birkigreinum og gerðu þarna hinn fegursta sigurboga.

Hafnarfjörður

Hamar 1954…

Reið konungur og fylgdarlið hans hiklaust í gegn og sem leið lá niður á plássið. — Fannst konungi sem hann væri að steypast niður í jörðina er hann kom framundan sigurboganum. En fagurt þótti honum að líta úr klifinu á fagurskyggðan fjörðinn, baðaðann í ágústsól. Í vestur var Hvaleyrin með holtin upp og austur af, allt upp undir Ásfjall og Hamarinn í suður.

Sigðmyndaður Hvaleyrargrandinn með ósum og tjörnunum tveimur undir holtunum. Hvaleyrartjörn, Skiphóll og Óseyrartjörn og Háigrandi sem oddur sigðarinnar syðst gegnt Flensborg. Á klöppinni til hægri við klifið stóð lítil græn þúst, Efstibær, bær Halldórs Beikis.
Lá vegurinn utan í klettinum sem bærinn stóð á og með djúpri gjótu á vinstri hlið allt niður á klöpp er teigði sig yfir í Finnshól og niður með honum, en þá var önnur gjóta mjög djúp komin á hægri hlið og stóð í henni einn bær, Klöpp, bær Þorsteins Þorsteinssonar hins fróða.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum; ÓSÁ.

Svo lá vegurinn niður á allbreitt svæði sunnan Christensenverzlunarhúss, kallað Bingurinn.

Þegar Kristján konungur kom á plássið var verið að taka saman fisk. Ekki var fólkið látið leggja frá sér börur, eða hætta verki þó konungur gengi framhjá. Á Knudtzonsbryggju var konungur ávarpaður fagurri kveðju af gömlum manni.
Sú kveðja er nú víst gleymd, en hana mundi Þorsteinn fróði og fór með hana svo ég heyrði eitt sinn, en ég nam hana ekki og heldur ekki nafn þess manns er hana flutti.

Kristján níundi

Kristján níundi Danakóngur.

Konungur kom í Bjarnahús Sivertsens til Chr. Zimsen. Kathinka litla dóttir hans færði honum blómvönd, en hann þakkaði henni. Tók hana á kné sér og hampaði henni. Þess minntist hún síðan alla ævi og sagði frá því með hrærðum huga.

Á Bingnum voru vegamót. Þá var komið á aðalgötu Fjarðarins, Sjávargötuna. Lá hún með sjónum bak við malarkampinn þar sem hann var annars í fjöruborðinu. Niður fjöruna frá Bingnum lá Christensensbryggjan. Rétt sunnan við hana var sker í fjörunni þar sem nú stendur hús Jóns Mathiesen.

Sunnan skersins kom Beikishúsvör og náði allt suður að Fjósakletti. Þarna áttu uppsátur Hraunprýðismenn og Hansensbræður, Einar og Hendrik og Stakkstæðismenn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hótel Björninn er áður stóð við Binginn.

Þröng var sjávargatan milli malarkambsins og húsanna og framan í Fjósakletti lá hún eins og einstigi, svo að fólk með vatnsfötur í grind varð að skáskjóta sér vestur úr einstiginu. Var þá komið að einhverri fyrstu vegargerð í Firðinum, Arahússtétt, er lá frá Fjósaklettinum yfir að klöppinni, sem Arahús stóð á.

Þar suður af tók við Brúarhraunsvör allt að Brúarhraunskletti. Var malarkampur upp frá vörinni, en milli hans og Brúarhraunsgarðanna lá gatan, fyrir baðstofugluggann á Þorkelskofa, Sigþrúðarbær og Ingibjargarbæ ekkjunnar að Árnabæ Veldings.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Sunnan þessa bæjar kom Gunnarssund. Þar hafði Gunnar í Gunnarsbæ uppsátur skipa sinna og voru stundum á vetrum þrjú skip í Sundinu. Handan sundsins var allstór hóll, kallaður Ragnheiðarhóll. Klapparrani lá frá honum fram í fjöruna og endaði þar í klöpp, er kölluð var Brúarklöpp. Á henni stóð annar stöpull fyrstu brúarinnar, sem sett var á lækinn, en hinn stöpullinn stóð á malaroddanum. Brúarklöppin mun nú vera undir vestasta hluta Hafnarfjarðarbíós, þar sem inn er gengið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Sunnan klapparranans var allbreiður malarkampur nokkuð suður fyrir Veldingshús (Strg. 33) og lá gatan ofan til við hann. Eitt sinn við ádrátt fyrir ufsa voru færðar upp á malarkampinn 900 tunnur af smáufsa. Var það ekki í fyrsta sinni sem ufsinn bjargaði Hafnfirðingum og mörgum öðrum. Því dæmi voru til þess að bændur komu austan fyrir Fjall að fá sér ufsa. Það var úr þessari ufsakös að Þórður Alamala sótti byrði sína og bar hvíldarlaust til Reykjavíkur, en er þangað kom var hún vegin og reyndist vera rúmt skippund yfir 160 kg.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Upp á þennan malarkamp rak á hverju ári mikið af þaraþönglum. Á hverju hausti söfnuðust allir strákar úr Firðinum þarna saman og efndu til Þönglaslagsins“. Af þeim fundi fór enginn óbarinn. Barist var meðan nokkurt vopn var að fá. Meðan til var þöngull álnarlangur. Mátti um langa leið heyra gný mikinn og vopnaskak og fylgdi með grátur og gnístran tanna. En þó mikið væri barist og margur kappinn félli, þá risu þó allir jafngóðir upp að morgni næsta dags.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni.

Sjávargatan lá suður með læknum framhjá Helgahúsi, Kringlu og Kolfinnubæ (Tutlukoti) inn að Byggðarenda og Lækjarkoti. Þar í læknum stóð í eina tíð Kornmillan hans Linnets. Var hún fyrst rekin með vatnsafli lækjarins, en síðar voru settir upp mylluvængir. Þannig mundi Gísli bakari eftir henni, en það mun hafa verið á síðustu dögum hennar. En kofinn stóð allt fram á daga Jóh. J. Reykdals, að hann tók grjótið úr honum og hafði í uppfyllingu undir timburverksm. sína 1903. Erum við þá á leiðarenda komin í bili.

Af Bingnum lá Sjávargatan vestur um hornið á Christensenshúsi með bólvirkin á vinstri hönd framhjá Knudtzonsverzlunarhúsunum yfir stakkstæðið, en niður frá miðju þess kom Knudtzonsbryggjan og lá fram í sjó.
HafnarfjörðurVestan stakkstæðisins stóðu tvö pakkhús og allbreytt port á milli. Framundan portinu var „Dokkin“. Afþiljað skipauppsátur sem Bjami Sivertsen lét gera í sinni tíð og var hún notuð fram um 1880. 1882, eftir að Sveinn Jónsson var kominn í fóstur til Halldórs beikis, gekk Halldór með Sveini þarna um og sýndi honum „Dokkina“ og voru þá þrjár ,,Jaktir“ í henni og stóðu „Brandaukarnir” inn yfir portið og mátti þar ganga undir. Lá gatan upp brekku allt upp á klifið, en „Jaktaklettur” var þá á vinstri hönd.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Af klifinu lá gatan neðan Jónshúss og Klofabæjar með Klofavör á vinstri hönd neðan Gestshúsa vestur að Kletti, bæ, sem stóð spottakorn upp frá götunni. — Sveigði svo fyrir klapparnef, er var beint upp af Fiskakletti, en vestan klapparinnar stóð bærinn „Fiskaklettur“ og nokkru vestar, við enn eitt klifið stóðu bæirnir Péturskot og Þórnýjarbær.

Vestur kom af klifinu lá gatan um „Krosseyrarmalir“ er voru tvær, sundurskornar af hraunrima. Gatan lá upp á balann við Gatklett og af honum um Draugaklif yfir í lautina austan Gönguhólsklifs. Vestan undir Gönguhólsklifi stóð bærinn Göngubóll eða Sönghóll, en þá tóku við Langeyrarmalir og bærinn í hrauninu upp frá austurenda malanna.

Brúastaðir

Brúsastaðir (Litla-Langeyri) um 1975.

Fyrir miðjum Langeyrarmölum voru Flatirnar og bær þar samnefndur. Þar óx „Brenninetla“. En því óx hún þar að þar hafði verið barizt og úthellt heiptarblóði. Börðust þar Englendingar og Þjóðverjar (Hansakaupmenn) um yfirráðin yfir verzlunarréttinum í Hafnarirði. Vestan málanna er Hraunsnefstangi og stóð þar í eina tíð „Hammershús”, hvalveiðistöð. Mátti fyrir nokkrum árum finna þar tígulsteina. Tóku þá við Litlu-Langeyrarmalir, eða Brúsastaðamalir. Þá lá gatan eftir þeim út í Stífnishóla um Brúsastaðavör yfír að Skerseyri, um Skerseyrarmalir upp „Sléttubrú“ hlaðinn vegarspotta upp á Balatún yfir það bak við bæinn yfir á Dysjamýri að Görðum og út á Álftanes. Var þetta kirkjugata Hafnfirðinga um langan aldur.

Setbergsbærinn

Gamli Setbergsbærinn.

Þó Flatarhraunsleiðin væri fjölfarin hygg ég þó að önnur leið hafi verið fjölfarnari er austanmenn sóttu kaupstefnur til Hafnarfjarðar. Kjóavellir sunnan Rjúpnahæðar voru í eina tíð mikilvægur áningastaður. Þaðan lágu leiðir í ýmsar áttir. Ein lá yfir hálsinn austan Vífilstaðavatns og niður að vatninu meðfram því út á hraunið og niður yfir það í Kaplakrika niður með Kaplakrikalæk. Móts við Setbergshamar skáskar troðningurinn sig yfir Sjávarhraunið. Mátti sjá í hraunklöppunum brautir sorfnar „þar harðir fætur ruddu braut í grjóti”.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hörðuvellir.

Úr Sjávarhrauninu lá troðningurinn niður á Hörðuvelli og yfir Hamarskotslæk. Niður með læknum undir Hamrinum niður á Moldarflötina á Hamarskotsmöl. Skiptust þar leiðir. Lá önnur vestur á brúna, en hin suður með Loftsstaðatúngirðingu fram hjá Proppébakaríi, framhjá „Surtlu“, þar sem Brennisteinsfélagið hafði aðalbækistöð sína. Litlu sunnar var braut niður að Egilsonsverzlunarhúsunum. En aðalvegurinn lá með fram Undirhamarstúngarði að litlum læk og var brú á honum, en frá brúnni sniðskar vegurinn sig upp á Vestur- eða Sjóarhamar. Var þá á vinstri hönd bærinn „Hamar“ eða „Bjarnabær“ og fremst fram á brúninni Miðengi og bær sá er síðar tók nafnið „Hamar“.

Hafnarfjörður

Frá smábátahöfninni í Hafnarfirði; Flensborgarhöfn.

Af Hamrinum lá gatan sniðhalt niður’á Ófriðarstaðamöl, Hellufjöru og nokkur önnur nöfn mætti til tína. Eftir henni út að Flensborg ofanvert við Ásbúðarvör. Frá Flensborg lá vegurinn yfir Ásbúðarlæk og á enn sjá troðninga upp melinn frá Óseyrarbanka. Vestur lá vegurinn neðst í holtinu ofan Óseyrartúns um Sandaskörð að Barðinu, en upp frá því með Hvaleyrartúngarði niður á sandinn vestur á Hvaleyrarhraunið og áfram til Suðurnesja og Grindavíkur.

Selvogsgata

Selvogsgata (Suðurferðavegur), Hlíðargata og Stakkavíkurgata/-stígur millum Selvogs og Hafnarfjarðar fyrrum.

Leið Selvogsmanna klofnaði sunnarlega á Öldunum. Lá önnur niður með Hamrinum austanverðum að Hamarskotslæk, en hin lá með Hamarskotstúngarði og þaðan niður til Fjarðarins.

Að nokkru hefur nú verið lýst leiðum þeim er lágu til Hafnarfjarðar og aðalleiðum um Fjörðinn. Ekki gefst nú tækifæri til að lýsa stígum þeim og slóðum er lágu út frá aðalleiðunum.
Ég hef fært þetta í letur eftir frásögnum gamalla manna og kvenna. Það er því ekki þeirra sök þó eitthvað sé um missagnir. Væri mér það ljúft að þeir, sem finna missagnir hér í létu mig vita, því það á okkur öllum Hafnfirðingum að vera kappsmál, að hvað sem sagt er eða skrifað um Hafnarfjörð sé sannleikanum samkvæmt.”

Sjá meira um Gísla Sigurðssson HÉR.

Heimild:
-Hamar, 26. tbl. 22. 12.1954, Gamlar slóðir, Gísli Sigurðsson, bls. 5 og 15.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 2023.