Landmælingar Íslands gáfu á sínum tíma út stafrænt “Hryllingskort” þar sem listuð eru upp allflest örnefni er tengst gætu hryllingi af einhhverju tagi hér á landi. Að eftirskráðu eru þau þar að lútandi örnefni er tengjast Reykjanesskaganum með einum eða öðrum hætti.
Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar. Á einum stað liggur milli klettanna gjá; þar svarrar sjórinn fast. Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar. Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Stakkavík)
Tangi eða hólmi er úti í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Arnarþúfa er suður af tanganum. Sat þar örninn oft og hlakkaði yfir veiði. Þar fyrir sunnan skerast inn í landið vikin þrjú. Þar er fyrst Kristrúnarvik, og þá Girðingarvik, sem er nýlegt nafn, og þá vik með mörgum nöfnum, Vondavik, Forarvik og Moldarvik. Í viki þessu var venjulega kafhlaup af for, og því eru nöfnin. Gerð hafði verið brú með grjóti yfir vikið, og var að því nokkur bót. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Hlíð)
Örnefni sem mér eru kunn í landi Hrauns eru eftirfarandi: Með sjó er Markabás vestast. Hann er austan við svonefnd Slok og skiptir löndum á milli Þórkötlustaða og Hrauns. Austan við Markabás er Hádegistangi. Hádegisklettur er þar ofan og sunnan við. Hann hét öðru nafni Klofaklettur, tvær strýtur voru upp úr honum en önnur er nú brotin af fyrir mörgum áratugum. Þetta var hádegismark frá gamla bænum á Hrauni. Þar norðan við er Skarfatangi. Það er smátá sem skagar út í sjóinn en fer í kaf á flóði. Magnús Hafliðason segist muna eftir grasi á Skarfatanga og þegar hann var ungur hafi gamlir menn sagt sér að grasbakki hafi verið á Skarfatanga. Skip hafa strandað sitt hvoru megin við Skarfatanga. Franski togarinn Cap Fagnet að sunnan og kútterinn Hákon að norðanverðu. Vikið norðan við Skarfatanga heitir Vatnagarður og sama nafn ber syðsti hluti túnsins þar upp af. Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstreymisfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er að það hafi komið upp þegar bænahús var aflagt á Hrauni (sennil. Á 17. öld).
Gamla sundið lagðist þá einnig af. Vatnstangi er norðan við Vatnagarð. Þar rennur fram ferskt vatn. Fast norðan Vatnstanga er Suðurvör og var þar aðallending á Hrauni. Norðan við Suðurvör er sker og var farið fast með því þegar lent var og var það nefnt Rolla.
Norðurvör er í þröngum klöppum þar norður af og þar var aðeins hægt að lenda í mátulega sjávuðu. Baðstofa er stór klöpp fast fyrir norðan Norðurvör. Þar norður af er Bótin og þar var nyrsta lendingin. Þaðan var hægast að fara út í vondu. Efst í Bótinni er klettur sem fer í kaf á flóði og heitir Barnaklettur. Þar áttu að hafa flætt og síðan drukknað tvö börn. (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)
Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna.
Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Járngerðarstaði)
Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar. Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. [Beinavörðuhraun rann fyrir u.þ.b. 6000 árum.] (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)
— Eru ekki líka draugar hér á Reykjanesi?
Óskar: Jú, það vantar ekkert uppá það. Ég varð strax var við par, sem hélt til í kjallaranum hjá okkur hér. Mér líkaði illa við það hyski. Mér fannst stafa kuldi, jafnvel illska frá þeim. Mér hefur tekist aö koma þeim útúr kjallaranum, en þau eru samt ekki farin.
Ég hef spurt karlmanninn hvort þau ætli ekki aö koma sér burt, en hann þverskallast viö. Þau eru búin að vera hér siðan á 18. öld. Fórust á enskum togara. Þessi náungi var illmenni, hefur morð á samviskunni. Hann segist hvergi finna frið, eins og oft vill verða með menn sem deyja í slysi og hafa illt á samviskunni. Ég veit að hann vill gera okkur illt, en hann er bara ekki nógu kröftugur til þess, sem betur fer. (Viðtal við Valgerði Hönnu Jóhannsdóttur og Óskar Aðalsteinn, vitaverði í Reykjanesvita – Þjóðviljinn 2. des. 1978, bls. 11)
Norðan Selhellu er Seljavogur og norðan hennar er Beinanes (Ari Gíslason – Örnefnastofnun)
Stafnes hefur verið á sama stað frá öndverðu. Landamerki milli Hvalsness og Stafnesshverfis eru í viki einu litlu sem heitir Mjósund, stundum kallað Skiptivík, sunnan við Ærhólma. Endar landið í Djúpavogi í Ósabotnum. Átti Stafnes inn í land að Beinhól og Háaleiti. Heimild um blóðvöll; Beinhóll: „Þar var slátrað hrossum til refafóðurs,“ segir í örnefnalýsingu. (Ari Gíslason -Örnefnaskrá)
Þegar komið var austur fyrir Hunangshelluna var haldið frá gatnamótunum að Njarðvík eftir reiðleiðinni þar sem Lágafellsleiðin sameinast henni áleiðis að gamla verslunarstaðum í Þórshöfn. Gatan er greinileg í heiðinni og sjá má fallnar vörður við hana. Þegar komið var yfir austanverðan Djúpavog tók við vagnvegur frá Illaklifi áleiðis að verslunarstaðnum.
Af og til mátti þó sjá gömlu reiðleiðina út frá veginum. Á Selhellu og við Draugavog eru tóftir, bæði ofan Selhellu og efst á henni. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp. Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, eru einnig tóttir. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að Hestaskjóli og áfram fyrir Djúpavog, sem fyrr sagði. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið (Illaklif) er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels. (Ferlir.is)
Þá er að bregða sér upp í heiðina. Á Flötunum fyrrnefndu er svo nefnd Urðarvarða, og ofan túns er Heiðarvarða. Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Stafnes)
Norðan í Langarifi, skammt framan við Réttarklappir, er stór og hár klettur, ljótur og hrikalegur, ílangur og söðulbakaður; heitir hann Svartiklettur. Lítið eitt utar er stórt og hátt sker, fast norðan við rifið; heitir það Illasker. Út í Illasker má ganga þurrum fótum um fjöru; sækir sauðfé mjög í skerið, því þar eru söl, en af því leiðir ákaflega flæðihættu. Líklega hafa öll „Illusker“ á Miðnesi fengið nafnið vegna flæðihættu. (Magnús Þórainsson – örnefnalýsing fyrir Másbúðir – Nesjar)
Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík.
Gatan sést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. (Ferlir.is)
Naust hafa fyrr verið nefnd sem býli, en er nú horfið í sjó. Heitir þar nú Naustarif, þar sem bær þessi var, en nú brýtur á því sem þaragarði fyrir framan land og fer í kaf um öll flóð. Fyrr var talað um Lónsós og Lónið, sem er fram undan Akurhúsum. Hér er svo hin lendingin í Útskálalandi landmegin við Naustarif og heitir Króksós. Innan við ósinn er svonefnd Manntapaflúð, sem ekki mun tilheyra Útskálalandi. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Útskála).
Rétt utan túngarðs Minni-Vatnsleysu eru klettar tveir, sem kallast Gálgaklettar. Þó eru þeir nefndir til frekari glöggvunar Gálgaklettur nyrðri og Gálgaklettur syðri. Klettar þessir standa í fjörubakkanum, og er þröngt vik á milli þeirra. (Jónas Þórðarson, örnefnalýsing fyrir Stóra- og Minni-Vatnsleysa)
Trölladyngja er eldfjall semmyndaðist við gos undir jökli fyrir lok ísaldar og rétt við hana er Grænadyngja, en oft er talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. (Reykjanesgeopark.is)
Út í Lambhúsatjörn ganga Hrauntangar. Þar innar með sjónum eru svonefndir Gálgaklettar, sem svo skiptast í Gálga og Litlagálga, sem er nær hrauni og innan við Stóragálga. Þar eru tjarnir, sem heita Vatnagarðar. Framar eru Gálgaflöt. (Ari Gíslason – örnefnaskráning fyrir Garðahverfi)
Á milli Kringlu og Oddakotsóss eru Vöðlar. Þar eru leirur og hægt að vaða um fjörur. Aðeins úti í sjó, rétt fyrir vestan Granda, er svolítil steinaþyrping, sem heitir Draugasker (et.). Það fer í kaf með flóði. (Kristján Eiríksson – örnefnalýsing fyrir Garðahverfi)
Verður nú rakin merkjalína Garðalands, er Vífilstaðalandi sleppir. Arnarbæli var fyrr nefnt. Þaðan er línan í austur-landsuður upp í Hnífhól, og þaðan með sömu stefnu í mitt Húsfell, sem er allhátt fell, sem rís hér upp af hraunbreiðunni. Breytir nú stefna merkjanna suður í miðja Efri-Strandatorfu, svo beint suður í Markraka í Dauðadölum. Markraki er hóll, en dalirnir eru lægðir kringum hólinn. Við Markraka breytist stefna merkjanna. Þar vestur eða norður frá er allhátt fell, sem heitir Helgafell. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Garðaland)
Stórabollahraun er talið vera um 2700 ára. Hraunið ber keim af dyngjugosi. Gígurinn, mjög stór, er utan í vestanverðu Kóngsfelli í norðanverðum Grindaskörðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunið er undir Tvíbollahrauni, komið úr gígum skammt sunnar. Dauðadalahellarnir eru í Stórabollahrauni, Þeir eru nokkrir, þ.á.m. Flóki. Leiðarendi, einn mest sótti ferðamannahellir á landinu, er einnig í Stórabollahrauni. Yfir honum hvílir Tvíbollahraunið. Á einum stað hefur það náð að þröngva sér inn í hellinn.
Upptök Tvíbollahrauns eru í framangreindum Tví-Bollum eða Mið-Bollum. Tví-Bollarnir þeir eru tveir samliggjandi gígar í brúnum Grindarskarða, í um 480 m hæð yfir sjó. Hraunið hefur fossað niður bratta hlíðina niður á láglendið en einnig runnið í lokuðum rásum. Hraunið flæmdist síðan til norðurs milli móbergshnúka og klapparholta allt niður undir Hvaleyrarholt við Hafnarfjörð.
Tvíbollahraun er runnið eftir landnám og er eitt af nokkrum hraunum sem brunnu í miklum eldum á 10.-11. öld. (Ratleikur hafnarfjarðar 2021)
Vesturmynd Draugahlíðar var sem ævintýraland elddrottningarinnar. Hraungígar og mosagróið land. Dúnmjúkur ljós gulgrænn mosi sem birtist með hvítum og svörtum tilbrigðum. Litadýrðin var ótrúleg, samspil grábláa hraunsins, gjóskusteinar sem voru ljósrauðir og ótal afbrigði af mosa. Vætan í loftinu og snjórinn gerði allt tilkomumeira. Gekk niður fönnina og kom niður á hinn þykka mjúka mosa sem maður ber ósjálfrátt lotningu fyrir. Náttúruteppi sem hefur verið samviskulega ofið í meir en þúsund ár.
Margar álfakirkjur má hér finna, furðusmíð íslenskra náttúru í líkingu við margar “Sagrada Familia” Gaudis. Steinborgir í Grindaskörðum eru tilkomumiklar og gaman að ganga þar fram ótroðnar slóðir. Klifra niður steinklappir og láta sig detta niður í bratta fönnina. Sjá kvöldsólina hverfa út við Snæfellsjökull. Allt borgarsvæðið er undir, en næst dökkrautt Húsfell og Helgafell, Þríhnúkahraun. Í norðausturátt er Þríhnúkahellir. Alstaðar dýrgripir sköpunarverksins sem kynslóðir eiga eftir að uppgötva og njóta. (Sigurður Antonsson – blogg)
En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahlíðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og litið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla.
Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur lítill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Skörðin búa yfir mikilli dul, þvi 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann. (gísli Sigurðsson – Gamla Selvogsgatan)
Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: “Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu [nr. 54] norðan Torfavörðu [nr. 49] Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […]”. (Gísli Sigurðsson – Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum)
Gengið var norður með vesturjarði hraunsins og inn á svonefndan Sakamannastíg (Gálgastíg) í Gálgahrauni.
Skammt austar, norðan stígsins má sjá nokkrar mjög gamlar hleðslur. Ein þeirra er herðslugarður og sést móta fyrir húsi á einum stað. Stígnum var fylgt að Gálgaklettum. Klettarnir, sem eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi, standa reisulegir rétta ofan við sjóinn. Sígurinn liggur beint að þeim. Utan í vestanverðum Gálgaklettum er skeifulaga garður, sennilega Gálgaflöt. Í henni voru sakamenn dysjaðir. (Ferlir.is)
Völvuleiði er við Holtsendann, austan til á Garðaholti. Gamall stígur, Kirkjustígur, lá við Völvuleiði. Á 18. öld er þess getið í lýsingu séra Markúsar Magnússonar. Hann segir að fornar sagnir séu um Völvuleiði. Þar sé grafin Völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. Bóndinn í Pálshúsi vísaði FERLIR á Völvuleiðið á sínum tíma. Völvuleiði munu vera til víða um land og segir t.d. af einu þeirra í Njálssögu. Í örnefnaslýsingum Garðabæjar segir að Mæðgnadys sé í norðanverðu Garðaholti, sunnan við Presthól. Svo virðist sem fyrri hluti lýsingarinnar sé rétt (í norðanverðu Garðaholti), en síðari hlutinn getur vart staðist. (Ferlir.is)
“Sviðholtsættinni fylgdi draugur, sem kallaður var Þorgarður. En um uppruna hans er þessi saga:
Hallldór faðir Bjarna í Sviðholti bjó að Skildinganesi og var maður auðugur. Um þessar mundir fekk maður einn, sem annað hvort var dæmdur til dauða eða ævilangrar fangelsisvistar, leyfi til þess að leysa sig út með peningum, en hann var sjálfur fátækur og fekk því loforð hjá Bjarna fyrir gjaldi því, er þurfti. Aðrir nefna til þess bróður Halldórs. Þá er Halldór var að telja gjaldið, kom að kona hans. Hún sópaði saman peningunum og sagði að þarfara væri aft verja þeim öðruvísi en að kasta þeim svo á glæður. Seki maðurinn fekk ekki fjeð, og sagði hann að svo mætti fara að tiltæki konunnar yrði henni til lítillar hamingju og ættliði hennar. Nú átti að flytja hann utan, en dugga sú, er hann var á, týndist fyrir Austfjörðum með allri áhöfn. Eftir þetta gekk hann aftur og sótti mjög að konu Halldórs og fór svo að hún ljest. Tók draugurinn þá fyrir aðra menn í ættinni og varð að ættarfylgju. Hann var nefndur Þorgarður. Hann var síðar dysjaður á Arnarneshæð. (Ferlir.is)
“Rétt fyrir innan Skorarhyl voru Draugaklettar, sem trúlega eru enn til. Þeir voru nokkurn veginn á móti Árbæ og hljóta því nú að vera til móts við Höfðabakkabrúna. Draugaklettar voru nokkuð stórir klettar, dökkir á lit, og átti að vera þar huldufólk.” (Athugasemdir og viðbætur Þóru Jónsdóttur við Örnefnaskrá Breiðholts)
Þegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum. (Víghóll; Lesbók Morgunblaðsins, Þórhallur Vilmundarson, 26.03.1994, bls. 6.)
Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um Draugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann. (Ferlir.is)
Þar sem eyjan gengur næst landi gegnt Vatnagörðum nefnist Sundklöpp, en Sundbakki autast, gegnt Gufunesi; á þeim stöðum voru hestar sundlagðir úr eynni. Suður af túninu eru Kvennagönguhólar, g er sagt, að þar hafi huldufólk búið. Þar niður undan heitir Drápsnes við sjóinn. (Viðey, útvarpserindi dr. Guðna Jónssonar 28. 12. 1962)
“Líkaflöt, austan í hólnum. Þar höfðu verið þvegin lík.” (Ágúst Jósefsson – Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, Leiftur, Reykjavík, 1959. Örnefnakort unnið 1984-1986 af Einari J. Hafberg frá Viðey)
Gaman er að ganga út á Þórsnes og vestur fyrir það, yfir á Kríusand. Þaðan er hægt að fara með ströndinni vestur að bryggju. Sé farið aftur eftir veginum er ráðlegt að ganga niður í Kvennagönguhóla, skoða réttina og hellisskútann Paradís.
Loks er svo farið um Heljarkinn heim að stofu, minnisvarði Skúla skoðaður, Danadys og Tóbakslaut. Hin leiðin er í vestur. Veginum er fylgt af Viðeyjarhlaði, vestur á Eiði. (DV – Viðey; tvær gönguleiðir vinsælastar, 24, júni 1992, bls. 27)
Í Viðey hafa trúlega um 3.000 manns verið bomir til moldar, en á öldum áður þótti það örugg leið til himnaríkis, ef munkamir í Viðey sáu um síðasta spölinn. Slík helgi hvíldi yfir grafreitnum, að lík frá landi voru lauguð á Þvotthól við Líkaflöt, áður en þau voru færð til hinstu hvíldar. ( Morgunblaðið – Viðey; eyjan við bæjardyr Reykjavíkur, 20.08.1988, bls. 17)
Gönguskarð heitir þar sem gengið er upp á kinnina. Þar voru dysjaðir fjórir Danir, sem vegnir voru eftir víg Diðriks af Mynden.(Útvarpserindi Guðna Jónssonar. Á örnefnakortinu er dysin merkt inn á upp á kinninni rétt suður af uppgöngunni upp Gönguskarði – Örnefnaskrá yfir Viðey)
Tröllabörnin eru nokkurs konar systkini Rauðhóla í jarðsögunni, ef svo má að orði komast. Bæði náttúrufyrirbrigðin mynduðust í sama eldgosinu, sem átti sér stað fyrir rétt rúmum 5000 árum í eldstöðinni Leitum austan Bláfjalla. Frá Leitum runnu tveir heljarmiklir hraunstraumar, annars vegar til suðurs niður á láglendið vestan Ölfusárósa og hins vegar til norðurs og nefnist sá Svínahraun. Mjó hraunlæna læddist svo loks til vesturs, yfir Sandskeið og Fóelluvötn, niður Lækjarbotna og um Elliðavatn alla leið niður í Elliðavog. Á þeirri leið mynduðust Tröllabörn og Rauðhólar þegar hraunstraumurinn flæddi yfir vatnsósa mýrarlendi. (Vísindavefurinn)
Orrustuhóll er í Orrustuhólshrauni sunnan við Litla-Skarðsmýrarfjall. Í lýsingu frá árinu 1703 segir að “fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orrustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.” Önnur lýsing segir að “austan undir hrauninu er Orrustuhóll. Gömul sögn kveður á um, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. (Ferlir.is)
Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. (Ferlir.is)
Þarna um dalina liggur Lakastígur (Lákastígur), greiðfærasta leiðin milli Þrengsla og vestanverðrar Hellisheiðar. Reyndar er um Lágaskarðsleið að ræða því hún liggur Lágaskarð sem er þarna mitt á milli.
Gengið var upp á vesturbrún Norðurhálsa, en svo nefnist næsti stallur á undirhlíðum Skálafells ofan Hverahlíðar. Þegar upp er komið má sjá hversu víðlent svæðið er, mosaþýfi, smáhæðir og stallar er hallar að brúnum. Haldið var inn að Trölladal og áfram til austurs með norðurbrún Tröllahlíðar að norðurhlíð Skálafells. (Ferlir.is)
Sumir hafa haldið og halda enn, að Sleðaás sé sama og Tröllaháls. Á Íslandskortinu eftir Björn Gunnlaugsson er Sleðaás settur ofan til við Tröllaháls, og Sveinn Pálsson talar um í Dagbók sinni 1772, að Sleðaás sé einnig þar (sbr. Kålund I, bls. 151), enn þetta getur með engu móti verið rétt, sögurnar sanna það. Sleðaás heitir enn í dag ásklifið, sem gengur suður úr Ármannsfelli fyrir ofan grænu brekkuna, sem kallaður er Bás, og Sleðaáshraun heitir þar niður undan. Grettissaga Kh. 1853 nefnir Sleðaás, bls. 31, þar sem höfðingjarnir áðu, er þeir riðu af þingi, og Grettir hóf steininn, er sagan segir að liggi þar í grasinu. (Ferlir.is)
Úr Suðurhól eftir hæstu brúnum Krossfjalla og í há Sandfell. Þaðan norður eftir Líkatjarnarhálsi og í Bátsnef (líklega fremur nýtt örnefni), sem er sunnan við Hagavík.
Fagrabrekka byrjar fyrir ofan og norðan Sandfellskrika og liggur niður á Líkatjarnarháls. Fremst á Líkatjarnarhálsi er djúpur dalur, sennilega gígur, nefndur Pontan. Líkatjörn er rangt merkt á kortið. Hún er nú horfin. Þegar Guðmann man fyrst eftir, var þetta aðeins uppsprettulind, mjög lítil að ummáli. Hún var rétt austan Líkatjarnarháls og hefur sennilega horfið undir sand, framburð úr Sandfelli. Þar rétt fyrir ofan er mýri, en Leirur fyrir norðaustan og síðan Leirhóll. Sú sögn er um Líkatjörn, að í henni hafi þvegin, er þau lík verið voru flutt austur að Skálholti. (Guðmann Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Hagavík)
Beinakerling var einnig á Mosfellsheiði, skammt frá Borgarhólunum. Hún lagðist af nálægt 1880, eptir að sæluhúsið var reist á heiðinni. Frá þeirri kerlingu er þessi vísa:
„Herra minn guð, eg held nú það”
hann Sigurður rendi
…………………..vað,
„mikil skelfing! Vittu hvað”.
Vísan er frá síðara hluta 19. aldar, og kveðin á leið í verið; eru í henni orðatiltæki manns þess, sem hún er kveðin til.” (Ferlir.is)
Talið er að útilegumenn hafi m.a. hafst við í helli í Illaklifi á Mosfellsheiði. Hellir þessi hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni (f: 1971) refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga laust eftir miðja 19. öld. (Ferlir.is)
Leirvogsá rennur um Stardal, sem eins og nafnið gefur til kynna, er nokkuð votlendur.
Í Stardal eru leifar fornrar megineldstöðvar sem kennd er við dalinn. Stardalseldstöðin var virk fyrir um 1,8 milljónum ára og er hún mikið rofin. Stardalshnjúkar eru grunnstætt berginnskot eða bergsylla, líklega efsti hluti kvikuþróar eldstöðvarinnar.
Tröllafoss er í miðri öskju hinnar fornu eldstöðvar. Hann fellur milli hamra ofan í gljúfur sem áin hefur grafið í gegnum Tröllalágar í mynni Stardals. Fyrir neðan fossinn breiðir áin úr sér sem slæða yfir bergið. Gljúfrið er um 500 metra langt og 50 til 80 metra breitt og kallast TröllagljúfurT. (Mannlíf.is)
Niður af Austurenni er vont dý, sem heitir Vondadý. Það er hættulegt skepnum. Mýrarsund er sunnan við Pyttalæk, suður af Austurenni, sem heitir Mjóaveita og dregur nafn af lögun sinni. Það er mjög grasgefið. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Vellir)
Um mitt fellið austan Flágils kemur annað gil ofan úr háfjallinu. Ofan við miðjar hlíðar fellur lækur þess fram af þverhníptum svörtum hamrastalli niður í klettabás sem nefnist Bolabás og gilið Bolagil. Skýringu á þessu örnefni hefur höf. heyrt að svartur hamraveggurinn minni á svart naut sem standi á bás séð heiman frá bænum, einkum þegar fjallið er hvítt af snjó, en snjór tollir aldrei í hamravegg þessum.
Þriðja gilið í fellinu er nokkuð austar og kemur lækur þess úr drögum neðan við fjallsbrúnina. Gilið liggur niður fjallið skammt vestan við skíðaskála KR og liggur nær þráðbeint niður fjallið og kallast Beinagil, þ.e. gilið beina. Skammt austan þess er eins og mjúk brún niður eftir fjallinu og sést nú ekki meir af því heiman frá bæ. Þessi brún er stundum nefnd Höggið. Báðum megin við Beinagil neðarlega í fjallinu eru mjúkir ávalir melhólar með grasteygingum á milli og nefnast Jafnhólar. Fjórða gilið í fellinu kemur úr austurhlíð fellsins úr skálarmyndaðri kvos og heitir Grensgil. Nafnið er dregið af tófugreni sem er skammt austan við gilið og hafa refir þar löngum lagt í þetta greni áður en skíðalyftur og menningarhávaði flæmdu þá þaðan. (Egill Jónasson – örnefnalýsing fyrir Stardal)
Skammt austan við Þverfellsgil er Einbúi. Þetta er fallegur, einstakur melhóll, fast ofan götunnar, sem liggur upp til Svínaskarðs. Einbúagil liggur hjá hólnum niður í Skarðsá. Austur af Einbúa eru Einbúalágar. Svo hækkar vegurinn upp á Svínaskarð. Þar á há-skarðinu eru tvö dys, sem heita Fremradys og Innradys. Upp af öllu þessu, sem hér er talið, er stór röð af hnúkum, sem heita Móskarðshnúkar, og skörðin milli þeirra heita Móskörð. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Þverárkot)
Fyrir norðan Hrafnagil eru tvö djúp gil. Hátt upp í fjallið norðan við nyrðra gilið er stór steinn og smáskúti undir honum: Einstakiklettur. Lækirnir úr þessum giljum sameinast þegar kemur niður á láglendi. Undan þeim hefur myndazt stórt jarðfall niður að á: Vondasprunga. Milli Vondusprungu og skriðunnar úr Hrafnagili. er stór grasivaxin lægð: Hrafnagilslág. Norðan sprungunnar er allstórt graslendi, norðan til á því eru tveir melhólar, Sandhólar. Milli þeirra er smálækur: Sandhólalækur. (Þórður Oddsson – örnefnalýsing fyrir Eilífsdal)
Vatn fellur til Miðdalsár; þá er næst Hrútatunga. Vestan við hana heitir Illagil að ofan. Þá tekur við breið tunga, er heitir Skessutungur ofan til, en Helguhólstungur (neðan til. Neðan til í þeim er grjóthóll, sem heitir Helguhóll. Austan við Skessutungur er lækur, sem heitir Svörtuskriðulækur. Fer hann úr Illagili og rennur eftir grundum, sem nefnast Vellir. Hér er áin að verða til. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Miðdal)
Beint niður undan Valshömrum, við lækinn, er holt, sem heitir Stefánarholt. Nokkuð fyrir framan fremri Valshamarinn rennur smálækur niður úr Hálsinum, hann heitir Hálslækur. Töluverðum spöl framar kemur annar og stærri lækur niður Hálsinn og heitir hann Drápskriðulækur. Hann rennur norður dalinn og sameinast Hálslæknum, eftir það heitir lækurinn Birtingslækur. Hann fellur í Dælisá skammt fyrir framan Háaleiti. (Ellert Eggertsson – örnefnalýsing fyrir Meðalfell)
Eftir Torfdal rennur samnefnd á, Torfdalsá í henni eru þrír fossar: Kálfabanafoss neðst, rétt áður en Torfdalsá sameinast Flekkudalsá, þá Hjallafoss en efsti fossinn heitir Þrengslafoss, en efsti hluti Torfdals heitir Vestri-Þrengsli og Eystri-Þrengsli. Flekkudalsá rennur um Flekkudal. Í henni eru tveir fossar, Grafarfoss í miðjum dal og Suðurdalsfoss syðst í botni dalsins.
Ofan til og vestan á Miðtunguhjalla er hóll er Skyggnir heitir. Þaðan sést í báða dalina. Miðtungan endar í háu standbergi rétt við Kálfabanafoss, Miðtunguberg, móti því norðan Torfdalsár er Kálfabanaberg, vestar Snös, klettanibba. Milli þeirra Kúahvammur. Stórihvammur er við Flekkudalsá, neðan Miðtunguhjallans. Holtið ofan við Grjóteyrarbæinn heitir aðeins Holt. (Magnús Blöndal og Guðni Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Grjóteyri og Flekkudal)
Í Melafjalli upp af bænum eru skörð. Lækurinn, sem rennur um Melagil, kemur um Stekkjarskarð í brúninni, en nokkru innar er stórt skarð í klettana, sem heitir Þjóðskarð. Vestar er far í berginu eða plötunni, sem heitir Skessuspor. Milli þessara skarða er venjulega nefnt „Milli skarða“. (Ar Gíslason – örnefnalýsing fyrir Mela (Melahverfi))
Dys er hvorugkynsorð (Dysið). Þar fram hjá lá vegurinn vestur undir Dauðsmannsbrekkum. Þjóðsögur greina frá því að bóndi nokkur á Fossá hafi setið þarna fyrir ferðamönnum, drepið þá og rænt. (Páll Bjarnason – örnefnaskrá fyrir Fossá)
Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt. (Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III, 2012)