Reykjanesviti

Ritblindu slær oft í augu blaðamanna og fleirri er fjallað er um Reykjanesskagann.

Reykjanes

Reykjanes.

Í umfjöllun þeirra er skaginn í heild jafnan nefndur “Reykjanes”. Reykjanes er hins vegar einungis ysta táin á Reykjanesskaganum. Nesið er eldbrunnið, þar eru lág fjöll og hnúkar úr móbergi, jarðhiti, klettótt strönd og hraun runnið í sjó fram. Á Reykjanesi ber mest á Skálafelli, sem er hæsta fellið, og Valahnúk eða Valahnúkum, sem er(u) yst. Mikið brotnar úr Valahnúk á hverju ári, enda brýtur hafaldan úr honum nánast í hverju roki. Yst á tánni eru svokallaðar Skemmur. Þar hefur sjór brotið hella undir efsta hraunlagið og hafa hellisþökin sums staðar brotnað niður. Þetta veldur því að þegar hvasst er og álandsvindur (suðvestan) þá brotnar hafaldan með miklum dyn inn í hellana og standa svo gosstrókar upp um götin. Er þetta oft mikið sjónarspil.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Sunnan og austan við Valahnúk er gjá nokkur, sem nefnd er Valborgargjá. Í henni er hraungjóta nokkur eða sprunga með vatni, sem áður var volgt. Yfir hana var byggt hús eða skúr snemma á 20. öld og þar kennt sund áður en sundlaugar komu til sögu í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaga og man enn margt eldra fólk eftir því er það var að læra að synda þar. Á ströndinni utan við Valbjargargjá er Valahnúkamöl, stórgrýtt fjara þar sem allir steinarnir eru lábarðir og núnir. Margir telja að nafnið Valbjargargjá sé afbökun, því að Valahnúkur heitir líka Valabjörg, og gæti gjáin þá augljóslega heitið Valabjargagjá, sem hefði afbakast í Valbjargargjá og Valborgargjá.
Á Reykjanesi var fyrsti viti á Íslandi reistur árið 1878. Hann var uppi á Valahnúk. Árið 1896 urðu jarðskjálftar sem röskuðu undirstöðu vitans og varð þá ljóst að byggja varð nýjan vita. Hann var reistur á Bæjarfelli um 400 m frá Valahnúk. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti (Litliviti) úti á Skemmum og kalla sumir hann hálfvitann. Frá Reykjanesi er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins.

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í Rafnkelsstaðabergi.

Fyrir Reykjanes liggur erfið siglingaleið, sem er sú fjölfarnasta við strendur landsins. Það er sundið á milli Reykjaness og Eldeyjar, sem heitir Húllið. Í Húllinu er Reykjanesröst, sem er straumþung og getur bára orðið þar mjög kröpp í vissum áttum og eftir sjávarföllum.
Reykjanes hefur löngum verið slysasamt fyrir sæfarendur. Eitt mesta strand þar varð árið 1950 er olíuskipið Clam strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Um 50 manns voru í áhöfn, helmingur Kínverjar og helmingur Englendingar. Hluti áhafnarinnar fór í björgunarbáta, en hluti var um kyrrt í skipinu. Allir sem fóru í björgunarbáta fórust, en hinum var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni Strandið eftir Hannes Sigfússon, en hann var einmitt á Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).
Gróft séð er skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraunum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Skaginn er frekar gróðursnauður en þó má finna þar ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð. Jarðfræðilega er svæðið mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Helstu fjöll á Reykjanesskaga vestanverðum eru Langahlíð (sem blasir við frá Reykjavík), Vatnshlíð (austan við Kleifarvatn), Sveifluháls og Núpshlíðarháls (sem einnig heita Austurháls og Vesturháls) og er norðurendi þess síðarnefnda Trölladyngja og Grænadyngja, Keilir, Fagradalsfjall, Þorbjörn (Þorbjarnarfell) og Festarfjall. Mörg fleiri mætti nefna, en þau eru smærri.
Á Reykjanesskaga eru mörg byggðarlög. Að slepptu höfuðborgarsvæðinu öllu (sem fræðilega tilheyrir skaganum) eru þar Vatnsleysuströnd og Vogar, Reykjanesbær (Keflavík, Ytri- og Innri Njarðvík og Hafnir), Garður, Sandgerði og Grindavík auk Keflavíkurflugvallar, en þar er allstórt byggðarlag á íslenskan mælikvarða. Einu nafni eru þessi byggðarlög oft nefnd Suðurnes og er heildaríbúafjöldi um 16000 manns og fer vaxandi og þar að auki bandarískir hermenn og skyldulið þeirra á Keflavíkurflugvelli. Atvinnulífið byggist mest á sjósókn og fiskvinnslu í smærri byggðunum, en á iðnaði, þjónustu og verslun í Reykjanesbæ, sem er eins konar höfuðstaður svæðisins.
Öll þessi byggðarlög eru kynnt með heitu vatni frá Hitaveitu Suðurnesja í Illahrauni. Hún er reyndar oft kennd við Svartsengi, þar sem fyrstu tilraunaholur voru boraðar áður en vinnsla hófst, en á endanum var orkuverið reist í Illahrauni, sem ber nafn með rentu. Affallsvatn frá Hitaveitunni myndar Bláa lónið, sem nú er einhver fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum. Lónið þykir vera heilsulind og er meðal annars notað við lækningu á sjúkdómnum psoriasis og ýmsum húðútbrotum og exemum.

Að lokum má geta þess, að gefnu tilefni, að Grindavík er og hefur aldrei verið á Suðurnesjum.

Heimild m.a.:
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn – fyrrum landnám Ingólfs.