Reykjanesskagi

Þann 27. apríl 2023 skrifaði Ásgeir Eiríksson áhugaverða grein á vefsíðu Víkurfrétta (Vf.is) undir fyrirsögninni “Reykjanes eða Reykjanesskagi“. Innihald og niðurstaða greinarinnar á erindi til allra er vilja eða hafa áhuga á að tjá sig réttilega um örnefni á Skaganum, en á það hefur verulega skort, ekki síst hjá sveitarstjórnarfólki, löggæsluyfirvöldum og fréttafólki einstakra fjölmiðla.

Ásgeir Eiríksson

Ásgeir Eiríksson.

“Ég er fæddur árið 1957. Í minni æsku var ekkert vafamál hvenær maður væri staddur á Reykjanesi og hvenær ekki. Að minnsta kosti var maður ekki í vafa þegar maður var staddur við Reykjanesvita að maður væri staddur úti á Reykjanesi. Hversu langt í norður og hversu langt í austur Reykjanesið nær var svo aftur meira vafamál. Ég starfaði í nokkra áratugi við sýslumannsembættið í Keflavík og hafði mikinn áhuga á landamerkjamálum. Rétt staðsetning örnefna skiptir þar sköpum en flest hafa þau verið búin til fyrir mörg hundruðum ára og koma fyrir í fornritunum. Það eru því hrein skemmdarverk á söguarfi þjóðarinnar að færa til örnefni eða breyta þeim á einhvern hátt þannig að henti hégómagirnd einhvers eða leti til að kynna sér rétt örnefni. Enn verra er að halda fram röngu örnefni gegn betri vitund.

Reykjanes

Reykjanes á Reykjanesskaga – kort 1952.

Örnefnið Reykjanes kemur nokkrum sinnum fyrir í Landnámu og segir þar um komu Hrafna-Flóka sunnan með landinu:
„Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið. En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnsföll stór.““

Hrafna-Flóki hefur sennilega ekki gefið nesinu nafnið Reykjanes en þegar Landnáma er skrifuð á fyrri hluta 12. aldar þá hefur nesinu verið gefið nafn. Af lýsingunni á siglingu Hrafna-Flóka mætti dæma að Reykjanesið næði allt til enda Garðskaga.

Reykjanes

Reykjanes.

Nafngiftin Reykjanes getur ekki verið dregin af öðrum stað en jarðhitasvæðinu á Reykjanesi sem hefur verið all sérstakt tilsýndar hjá mönnum sem sjaldan eða aldrei höfðu séð gufu frá jarðhitasvæði. Eftir stutta siglingu frá Reykjanesi hafa þeir séð Snæfellsjökul, ef bjart hefur verið yfir, a.m.k. þegar nær dró Sandgerði og mynni Faxaflóans opnast þegar þeir koma fyrir Garðskaga.

Á Vísindavefnum er ágæt umfjöllun um örnefna-ruglinginn undir heitinu „Er Reykjanes sama og Suðurnes?“ Þar segir m.a. í grein Svavars Sigmundssonar, fyrrverandi forstöðumanns Örnefnastofnunar:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

„Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica (um 1700). Hann segir um Reykjanes:

„Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (svo heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.““

Árni Magnússon og Páll Vídalín gáfu út jarðabók og manntal á árunum 1702–1714 þar sem lýst er íbúum, ástandi, og búpeningi á flestum jörðum á landinu. Auk þess bjargaði hann sögu þjóðarinnar og flutti til Kaupmannahafnar í þokkalega geymslu að hann hélt. Ella hefðum við sennilega notað fornritin í vettlinga og sokka.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Reykjanesskagi er þakinn stórum hraunum og erfitt að tilgreina nákvæmlega hvar þetta eða hitt örnefnið er. Nokkrir áhugamenn hafa unnið þrekvirki í söfnun örefna og við staðsetningu þeirra. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson frá Merkinesi safnaði örnefnum í Hafnahreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir gaf út bókina Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi og Ómar Smári Ármannsson heldur úti hinum stórmerka vef ferlir.is. Aðrir merkir menn hafa einnig haldið örnefnasögu Reykjanesskagans á lofti svo sem landeigendur og ýmsir fræðimenn.

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti. Stundum er örnefnið ritað “Krísuvík”, sem rangnefni.

Íbúar þéttbýlisins nota örnefni ekki síður, t.d. með því að tilgreina staði með götuheitum, en það er auðvitað mun auðveldara þar sem götuheitisskilti eru við hver gatnamót. Yrði einhver sáttur við að götuskilti í Keflavík yrði fært á einhverja aðra götu? Hafnargatan héti Hringbraut og Hringbraut héti Tjarnargata?

Örnefni skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið. Þau voru meðal annars notuð hér áður fyrr til að staðsetja menn og dýr og til að tilgreina landamerki á milli jarða o.s.frv. Örnefni á landi voru ómissandi fyrir sjómenn til að staðsetja góð fiskimið.

Keflavík

Í Keflavík – neðan Krýsuvíkurhrauns.

Enn þann dag í dag notum við örnefni til að staðsetja okkur og aðra og í ýmsum tilgangi. Í árdaga Neyðarlínunnar kom beiðni um aðstoð frá manneskju sem stödd var í Breiðholti án þess að tilgreina það nánar. Aðstoðin var send í Breiðholtið sem allir þekkja en viðkomandi var staddur í Breiðholti á Akureyri. Sama örnefnið getur verið til víða á landinu, t.d. Reykjanes og Keflavík. Mikilvægt er að allir séu sammála um hver staðsetning örnefnisins er í grófum dráttum til að ekki skapist ruglingur.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi. Reykjanesviti er réttnefndur á “Reykjanesi”.

Ef ég kalla eftir aðstoð lögreglu eða sjúkrabíls og er staddur á eða við veginn milli Grindavíkur og Hafnahrepps hins forna þá myndi ég líklega segjast vera úti á Reykjanesi. Þetta er hinn almenni skilningur flestra Suðurnesjamanna og Grindvíkinga á örnefninu Reykjanes að ég tel (margir Grindvíkingar telja sig ekki til Suðurnesjamanna og sá skilningur er virtur hér). Ef ég er austan Grindavíkur eða í Sandgerði, Garði eða á Vatnsleysuströnd dytti mér ekki í hug að tilgreina staðsetninguna Reykjanes. Ég skrapp nýlega út á Reykjanes og við Hafnir sló ég inn orðinu „Reykjanes“ í Google maps. Forritið vildi leiða mig áfram út á Reykjanes og halda þaðan í vestur til Grindavíkur og þaðan áfram að bifreiðastæðunum þar sem gengið er að gosstöðvunum! Hver ber ábyrgð á þessu?

Hafnarfjörður

Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

En hvenær byrjaði þessi örnefnaruglingur? Sumir telja að ruglingurinn hafi hafist þegar Reykjaneskjördæmi varð til árið 1959 (ferlir.is) og ekki hefur Reykjanesbrautin (1964) bætt úr þessum nafnaruglingi, né heldur þegar sameinað sveitarfélag tók upp nafnið Reykjanesbær. Sumir töldu ímynd okkar Suðurnesjamanna ekki upp á marga á þessum tíma og þótti ráðlegt að skipta um nafn á svæðinu og vonað að það bætti ímyndina. Við bjuggum því ekki lengur á Suðurnesjum heldur á Reykjanesi. Við vorum Reyknesingar en ekki Keflvíkingar, Njarðvíkingar eða Hafnamenn. Vitleysan heldur svo áfram og hver nefndin og stofnunin fær heitið Reykjanes þetta og hitt. Ein þessara nefnda eða stofnunar er Markaðsstofa Reykjaness sem rekur vefinn með útlenska heitinu visitreykjanes.is. Stofan er rekin af sveitarfélögum á Suðurnesjum og Grindavík og þar eru mætir menn í stjórn. Vefurinn veitir margar góðar upplýsingar um hvað er að sjá og hvers er njóta á Reykjanesskaga en sá meinbugur er á að staðir eru tilgreindir á Reykjanesi en eru í raun langt þar frá.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir. Ekkert þessa er á Reykjanesi.

Eldgosið í Meradölum er t.d. sagt vera á Reykjanesi. Ekki held ég að sá mæti maður, Sigurður heitinn Gíslason, bóndi á Hrauni í Grindavík, myndi segja að fjöllin hans og dalir væru úti á Reykjanesi.

En hvað er til ráða? Eigum við að láta þetta yfir okkur ganga og eftir nokkra áratugi hefur örnefnið Reykjanes allt aðra merkingu en hjá flestum Suðurnesjamönnum og Grindvíkingum í dag? Mitt álit er að við eigum að snúa þessari öfugþróun við og sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og í Grindavík hafa hér mikilvægu hlutverki að gegna. Ritstjórn Víkurfrétta gæti leitt þá baráttu með því að leiðrétta örnefnaruglinginn í blaði sínu.” – Ásgeir Eiríksson, Heimavöllum 13, Keflavík.

Heimild:
-https://www.vf.is/adsent/reykjanes-eda-reykjanesskagi – Reykjanes eða Reykjanesskagi?, Ásgeir Eiríksson, fimmtudagur 27. apríl 2023.

Reykjanesskagi

Raykjanesskagi – loftmynd.