Færslur

Grafningur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1933 er m.a. fjallað um “Nokkur byggðanöfn“, þ.á.m. Grafning.

Orðið “grafningur” er talið hafa tvær merkingar í íslenzku máli.

Grafningur

Grafningsháls – herforingjaráðskort 1908.

Það getur fyrst og fremst merkt þann verknað, að grafast eftir einhverju. Þessa merkingu er orðið talið hafa á þeim eina stað í fornritunum, þar sem það kemur fyrir og er ekki staðarnafn, í Stjórn, þar sem talað er um »djúpan grafning gátu«, (sbr. orðabækur Fritzners, Claesby-Vigfússons og Björns Halldórssonar við orðið grafningur).

Grafningur

Forni vegurinn um Grafningsháls.

En orðið getur líka merkt það, sem niður er grafið eða út er grafið, (sbr. þýðinguna í orðabók Sigfúsar Blöndals: »Gröfter og Jordfald, hullet Jordsmon, ru og revnet Jordbund«). Þegar orðið kemur fyrir í staðarnöfnum má gera ráð fyrir, að það sé þessarar síðarnefndu merkingar, að það merki stað, sem er niðurgrafinn.

Eins og kunnugt er heitir byggðarlag eitt í Árnessýslu Grafningur. Er það nú á tímum sérstakur hreppur, Grafningshreppur, en var áður hluti af Ölfushreppi. Eftir merkingu nafnsins mætti búast við, að sveit þessi væri sérstaklega niðurgrafin eða aðkreppt, að hún væri djúpur og þröngur dalur eða því um líkt.

Grafningur

Grafningur – málverk.

En þessu er ekki þannig varið. Sveitin er engin heild hvað landslag snertir. Hún skiptist í rauninni í tvær byggðir, hina neðri, sem liggur upp með Soginu að vestan, og hina efri, er liggur fyrir suðvesturendanum á Þingvallavatni. Hver þeirra hefir sinn svip og landslagið er fjölbreytilegt í báðum, þar skiptast á sléttlendi og ásar og fell með smádölum á milli, og báðar mega byggðirnar fremur kallast opnar en aðkreptar, enda er útsýn þar á mörgum stöðum bæði frjáls og víð. Sveitin virðist því ekki bera nafn þetta með réttu.

Grafningur

Grafningsháls – vörðubrot.

Nafnið Grafningur er fyrst nefnt í Harðarsögu, 19. kap. Þar segir frá því, er þeir, Indriði Þorvaldsson á Indriðastöðum í Skorradal og Ormur veturtaksmaður hans, ferðuðust sunnan af Vikarsskeiði, þar sem Ormur hafði brotið skip sitt, og vestur að Indriðastöðum.

Grafningur

Upptök Kaldár í Grafningi.

Segir þar m. a. svo frá ferðum þeirra: »Þeir riðu allir sunnan hjá Bakkárholti um Grafning ok Bíldsfell ok svá hjá Úlfljótsvatni ok þaðan til Ölfusvatns. Næst er Grafningur nefndur í bréfi frá 1448. Þar kvittar Jón nokkur Oddsson Steinmóð ábóta í Viðey um greiðslu »sem hann var mier skyldvgur firir jordena aa sydra halse firir ofan Grafning«. Þessar tvær heimildir skýra það að minni hyggju hvernig á nafni byggðarinnar stendur.
Frá Bakkárholti í Ölfusi og upp að Ölfusvatni er um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að fara austur fyrir Ingólfsfjall, hjá Kögunarhól, og upp með fjallinu að austan, hjá Tannastöðum og Alviðru, og síðan uppeftir vestan Sogsins. Hin er sú, að fara leiðina, sem nú heitir Grafningsháls, þ. e. í gegnum skarðið, sem er á milli Ingólfsfjalls og Bjarnarfells upp af bænum í Hvammi i Ölfusi. Síðarnefnda leiðin er miklu beinni og styttri og auk þess hefir hún verið miklu greiðfærari fyr á tímum, því þar hefir mátt fá nokkurn veginn þurrar götur upp með ánum, Bakkaá (Bakkárholtsá) og Gljúfurá, frá Bakkárholti og upp að skarðinu. Þessi leið hefir sjálfsagt verið alfaraleiðin úr þessum hluta Ölfusins upp á bæina fyrir ofan Ingólfsfjall, allt þar til, að akvegur var lagður austur fyrir fjallið. Höfundur Harðarsögu hefir því eflaust haft þessa leið í huga, er hann lýsti ferð þeirra lndriða.

Grafningur

Grafningsháls – gamla leiðin.

Á þeirri leið fóru þeir Indriði og Ormur »um Grafning«. Hér getur verið um tvent að ræða, annaðhvort er Grafningur nafn á byggð, sem þeir fóru um, eða á stað, sem þeir fóru um eða hjá. Fyrri skilningurinn mun hafa verið lagður í nafnið hingað til. í registrunum við sumar útgáfur Harðarsögu er Grafningur á þessum stað í sögunni talinn vera »sveit í Árnesþingi«. Kálund hefir einnig litið þannig á, en hann telur þó, að Grafningur sé í sögunni aðeins nafn á neðri hluta sveitarinnar, byggðinni, sem liggur upp með Soginu. En þessi skýring fær ekki staðist, jafnvel ekki með þeirri takmörkun, sem Kálund gerir. Grafningur sögunnar var á þeim kafla af leið þeirra Indriða, sem var á milli Bakkárholts og Bíldsfells. Bíldsfell er eins og kunnugt er fell og samnefndur bær, nálægt því í miðjum neðri hluta sveitarinnar. Grafningur sögunnar var fyrir neðan Bíldsfell. Hafi það verið byggðarnafn hefir það því verið miklu yfirgripsminna en það er nú á tímum, ekki einu sinni náð yfir allan neðri hluta sveitarinnar, heldur aðeins yfir byggðina, sem er fyrir neðan Bíldsfell, en það er ekki líklegt, að þeir fáu bæir, sem þar eru og eru dreifðir og strjálir, hafi nokkurntíma heitið sérstöku byggðarnafni fyrir sig. —

Grafningur

Grafningur austanverður.

Þetta bendir til þess, að Grafningur sé ekki byggðarnafn í sögunni, heldur nafn á einhverjum stað, sem hefir verið á leiðinni frá Bakkárholti og upp að Bíldsfelli. Bréfið frá 1448 virðist einnig taka öll tvímæli af um, að svo hafi þetta verið. Samkvæmt bréfinu er Syðri-Háls, »fyrir ofan Grafning«. Syðri-Háls, sem nú heitir Litli-Háls, er syðsti, neðsti, bærinn í byggðinni Grafningi. Grafningur sögunnar var fyrir neðan Litla-Háls og því í rauninni fyrir neðan byggðina Grafning. Hann er því einhver staður á milli Bakkárholts og Litla-Háls, og á þeirri leið getur varla verið um annan stað að ræða, sem borið hafi slíkt nafn, en sjálft skarðið, sem vegurinn liggur um. Litli-Háls er líka rétt fyrir ofan skarðið, svo að það á vel við, að segja um hann, að hann sé »fyrir ofan Grafning«, ef skarðið hefir heitið því nafni.

Grafningur

Grafningur – málverk Kjarvals.

Skarð þetta á milli fellanna er djúpt. Samkvæmt uppdrætti herforingjaráðsins er það 186 mtr. yfir sjávarmál, þar sem það er hæst, en fellin til beggja handa eru miklu hærri. Kaldbakurinn, sem gengur út úr Ingólfsfjalli og liggur að skarðinu að austan og sunnan, er 311 mtr., en Bjarnarfell, sem liggur að skarðinu að vestan og norðan, en 358 mtr. Skarðið er þröngt og hlíðar fellanna brattar, beggja megin við það. Það er því mjög niðurgrafið og sannkallaður Grafningur og hefir borið það nafn með réttu.

Grafningur

Grafningsháls framunda. Gamli þjóðvegurinn.

Í fyrstu virðist þannig aðeins skarðið hafa heitið Grafningur, en seinna fékk öll byggðin fyrir ofan skarðið þetta nafn. Það virðist vera augljóst, að byggðinni hefir verið gefið þetta nafn neðan að, úr Ölfusinu. Ölfusingar hafa talað um að fara »upp um Grafning« eða »upp í Grafning«, þegar þeir áttu leið upp á bæina fyrir ofan fjallið, og þeir hafa þá í fyrstu átt við leiðina, sem þeir fóru, skarðið milli fellanna, en seinna hefir nafnið á leiðinni festst við byggðina, sem leiðin lá til, við þann hluta hreppsins allan, sem farið var til í gegnum skarðið. Á 16. öld hefir þessi breyting verið komin á °g byggðin búin að fá Grafningsnafnið. Er talað um Úlfljótsvatn “í Grafning” í bréfi frá dögum Stefáns biskups (1491—1518) og í bréfi frá 1524.

Grafningur

Grafningur – herforingjakortið.

Sjálft skarðið, milli fellanna, hefir verið nefnt Grafnings-háls, í öllu falli síðan snemma á 18. öld. Hálfdán Jónsson á Reykjum nefnir veginn því nafni í lýsingu sinni á Ölfushreppi 1703, og segir svo:

Grafningur

Forni vegurinn um Grafningsháls.

»Á þeim vegi nefnast þessi örnefni: Djúpi-Grafningur, Æðargil Bjarnarfell, Kaldbak etc. Bjarnarfell og Kaldbakur eru fellin sitt hvoru megin við skarðið. Æðargil er gil, sem kemur ofan úr Bjarnarfelli. Hvort nafnið Djúpi-Grafningur þekkist enn, veit ég ekki, en mér þykir líklegast, að það hafi verið nafn á sjálfu skarðinu. Ef svo er, hefir Grafningsnafnið enn loðað við skarðið snemma á 18. öld, en viðbótinni Djúpi- gæti hafa verið aukið við nafnið til þess, að greina það frá byggðarnafninu Grafningur, sem þá hefir verið búið að fá fulla festu.
Með þessu vona ég, að það sé sýnt, að þetta litla skarð á milli fellanna hefir orðið til þess, að gefa allri byggðinni, neðan frá LitlaHálsi og alla leið upp að Nesjum við suðvesturhornið á Þingvallavatni, þetta nafn, sem gefur svo ranga hugmynd um landslag hennar.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1933, Nokkur byggðanöfn, bls. 108-111.

Grafningur

Grafningur – Botnasel.

Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson skrifaði um “Gamlar slóðir” Hafnfirðinga í Hamar 1954:

Garðahverfi

Engidalsvegur um Flatahraun aftan Fjarðarkaupa. Nú eyðilagður vegna framkvæmda.

“Inn á Flatahrauni mátti til skamms tíma sjá troðning, vallgróinn, í hrauninu sunnan Reykjavíkurvegar. Troðningur þessi lá niður Flatahraunið hjá neðsta hvíldarklettinum eftir balanum, þar sem nú stendur Tunga. Var þar í eina tíð tveggja mannhæða djúpur hraunbolli. Af balanum lá troðningurinn niður í Djúpugjótu og hlykkjaðist eftir henni upp á syðri gjótubarminn. Var allhátt af barminum niður í gjótuna. Þarna varð eitt fyrsta bifreiðaslys sem um getur í bifreiðasögunni, á áliðnum vetri 1913. Frá Djúpugjótu lá troðningurinn eftir hraunbala nokkuð sléttum unz halla tók niður í Háaklif.

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Þröngt var það, svo að varla varð farið um það með klyfjahest. Breyttist það nokkuð, árið 1873. Var þá fyrir forgöngu Christens Zimsen verzlunarstjóra ráðist í að leggja upphleyptan veg, neðan af plássi í Hafnarfirði, austur á hraunbrún við Engidal. Var þetta akfær vegur. Chr. Zimsen vígði svo veginn. Reið hann á þriðjungi skemmri tíma en áður hafði tíðkast að fara þessa leið. Var mikið um þessar framkvæmdir talað og þótti sá maður að meiri, er þær hafði séð. En þröngt var enn um klifið. Háir klettar á báðar hendur. Þegar Hafnfirðingar tóku á móti konungi sínum 1874, Kristjáni níunda, lögðu þeir stórt tré yfir klifið frá einum kletti yfir á annan. Klæddu síðan allt með lyngi og birkigreinum og gerðu þarna hinn fegursta sigurboga.

Hafnarfjörður

Hamar 1954…

Reið konungur og fylgdarlið hans hiklaust í gegn og sem leið lá niður á plássið. — Fannst konungi sem hann væri að steypast niður í jörðina er hann kom framundan sigurboganum. En fagurt þótti honum að líta úr klifinu á fagurskyggðan fjörðinn, baðaðann í ágústsól. Í vestur var Hvaleyrin með holtin upp og austur af, allt upp undir Ásfjall og Hamarinn í suður.

Sigðmyndaður Hvaleyrargrandinn með ósum og tjörnunum tveimur undir holtunum. Hvaleyrartjörn, Skiphóll og Óseyrartjörn og Háigrandi sem oddur sigðarinnar syðst gegnt Flensborg. Á klöppinni til hægri við klifið stóð lítil græn þúst, Efstibær, bær Halldórs Beikis.
Lá vegurinn utan í klettinum sem bærinn stóð á og með djúpri gjótu á vinstri hlið allt niður á klöpp er teigði sig yfir í Finnshól og niður með honum, en þá var önnur gjóta mjög djúp komin á hægri hlið og stóð í henni einn bær, Klöpp, bær Þorsteins Þorsteinssonar hins fróða.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum; ÓSÁ.

Svo lá vegurinn niður á allbreitt svæði sunnan Christensenverzlunarhúss, kallað Bingurinn.

Þegar Kristján konungur kom á plássið var verið að taka saman fisk. Ekki var fólkið látið leggja frá sér börur, eða hætta verki þó konungur gengi framhjá. Á Knudtzonsbryggju var konungur ávarpaður fagurri kveðju af gömlum manni.
Sú kveðja er nú víst gleymd, en hana mundi Þorsteinn fróði og fór með hana svo ég heyrði eitt sinn, en ég nam hana ekki og heldur ekki nafn þess manns er hana flutti.

Kristján níundi

Kristján níundi Danakóngur.

Konungur kom í Bjarnahús Sivertsens til Chr. Zimsen. Kathinka litla dóttir hans færði honum blómvönd, en hann þakkaði henni. Tók hana á kné sér og hampaði henni. Þess minntist hún síðan alla ævi og sagði frá því með hrærðum huga.

Á Bingnum voru vegamót. Þá var komið á aðalgötu Fjarðarins, Sjávargötuna. Lá hún með sjónum bak við malarkampinn þar sem hann var annars í fjöruborðinu. Niður fjöruna frá Bingnum lá Christensensbryggjan. Rétt sunnan við hana var sker í fjörunni þar sem nú stendur hús Jóns Mathiesen.

Sunnan skersins kom Beikishúsvör og náði allt suður að Fjósakletti. Þarna áttu uppsátur Hraunprýðismenn og Hansensbræður, Einar og Hendrik og Stakkstæðismenn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hótel Björninn er áður stóð við Binginn.

Þröng var sjávargatan milli malarkambsins og húsanna og framan í Fjósakletti lá hún eins og einstigi, svo að fólk með vatnsfötur í grind varð að skáskjóta sér vestur úr einstiginu. Var þá komið að einhverri fyrstu vegargerð í Firðinum, Arahússtétt, er lá frá Fjósaklettinum yfir að klöppinni, sem Arahús stóð á.

Þar suður af tók við Brúarhraunsvör allt að Brúarhraunskletti. Var malarkampur upp frá vörinni, en milli hans og Brúarhraunsgarðanna lá gatan, fyrir baðstofugluggann á Þorkelskofa, Sigþrúðarbær og Ingibjargarbæ ekkjunnar að Árnabæ Veldings.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Sunnan þessa bæjar kom Gunnarssund. Þar hafði Gunnar í Gunnarsbæ uppsátur skipa sinna og voru stundum á vetrum þrjú skip í Sundinu. Handan sundsins var allstór hóll, kallaður Ragnheiðarhóll. Klapparrani lá frá honum fram í fjöruna og endaði þar í klöpp, er kölluð var Brúarklöpp. Á henni stóð annar stöpull fyrstu brúarinnar, sem sett var á lækinn, en hinn stöpullinn stóð á malaroddanum. Brúarklöppin mun nú vera undir vestasta hluta Hafnarfjarðarbíós, þar sem inn er gengið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Sunnan klapparranans var allbreiður malarkampur nokkuð suður fyrir Veldingshús (Strg. 33) og lá gatan ofan til við hann. Eitt sinn við ádrátt fyrir ufsa voru færðar upp á malarkampinn 900 tunnur af smáufsa. Var það ekki í fyrsta sinni sem ufsinn bjargaði Hafnfirðingum og mörgum öðrum. Því dæmi voru til þess að bændur komu austan fyrir Fjall að fá sér ufsa. Það var úr þessari ufsakös að Þórður Alamala sótti byrði sína og bar hvíldarlaust til Reykjavíkur, en er þangað kom var hún vegin og reyndist vera rúmt skippund yfir 160 kg.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Upp á þennan malarkamp rak á hverju ári mikið af þaraþönglum. Á hverju hausti söfnuðust allir strákar úr Firðinum þarna saman og efndu til Þönglaslagsins“. Af þeim fundi fór enginn óbarinn. Barist var meðan nokkurt vopn var að fá. Meðan til var þöngull álnarlangur. Mátti um langa leið heyra gný mikinn og vopnaskak og fylgdi með grátur og gnístran tanna. En þó mikið væri barist og margur kappinn félli, þá risu þó allir jafngóðir upp að morgni næsta dags.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni.

Sjávargatan lá suður með læknum framhjá Helgahúsi, Kringlu og Kolfinnubæ (Tutlukoti) inn að Byggðarenda og Lækjarkoti. Þar í læknum stóð í eina tíð Kornmillan hans Linnets. Var hún fyrst rekin með vatnsafli lækjarins, en síðar voru settir upp mylluvængir. Þannig mundi Gísli bakari eftir henni, en það mun hafa verið á síðustu dögum hennar. En kofinn stóð allt fram á daga Jóh. J. Reykdals, að hann tók grjótið úr honum og hafði í uppfyllingu undir timburverksm. sína 1903. Erum við þá á leiðarenda komin í bili.

Af Bingnum lá Sjávargatan vestur um hornið á Christensenshúsi með bólvirkin á vinstri hönd framhjá Knudtzonsverzlunarhúsunum yfir stakkstæðið, en niður frá miðju þess kom Knudtzonsbryggjan og lá fram í sjó.
HafnarfjörðurVestan stakkstæðisins stóðu tvö pakkhús og allbreytt port á milli. Framundan portinu var „Dokkin“. Afþiljað skipauppsátur sem Bjami Sivertsen lét gera í sinni tíð og var hún notuð fram um 1880. 1882, eftir að Sveinn Jónsson var kominn í fóstur til Halldórs beikis, gekk Halldór með Sveini þarna um og sýndi honum „Dokkina“ og voru þá þrjár ,,Jaktir“ í henni og stóðu „Brandaukarnir” inn yfir portið og mátti þar ganga undir. Lá gatan upp brekku allt upp á klifið, en „Jaktaklettur” var þá á vinstri hönd.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Af klifinu lá gatan neðan Jónshúss og Klofabæjar með Klofavör á vinstri hönd neðan Gestshúsa vestur að Kletti, bæ, sem stóð spottakorn upp frá götunni. — Sveigði svo fyrir klapparnef, er var beint upp af Fiskakletti, en vestan klapparinnar stóð bærinn „Fiskaklettur“ og nokkru vestar, við enn eitt klifið stóðu bæirnir Péturskot og Þórnýjarbær.

Vestur kom af klifinu lá gatan um „Krosseyrarmalir“ er voru tvær, sundurskornar af hraunrima. Gatan lá upp á balann við Gatklett og af honum um Draugaklif yfir í lautina austan Gönguhólsklifs. Vestan undir Gönguhólsklifi stóð bærinn Göngubóll eða Sönghóll, en þá tóku við Langeyrarmalir og bærinn í hrauninu upp frá austurenda malanna.

Brúastaðir

Brúsastaðir (Litla-Langeyri) um 1975.

Fyrir miðjum Langeyrarmölum voru Flatirnar og bær þar samnefndur. Þar óx „Brenninetla“. En því óx hún þar að þar hafði verið barizt og úthellt heiptarblóði. Börðust þar Englendingar og Þjóðverjar (Hansakaupmenn) um yfirráðin yfir verzlunarréttinum í Hafnarirði. Vestan málanna er Hraunsnefstangi og stóð þar í eina tíð „Hammershús”, hvalveiðistöð. Mátti fyrir nokkrum árum finna þar tígulsteina. Tóku þá við Litlu-Langeyrarmalir, eða Brúsastaðamalir. Þá lá gatan eftir þeim út í Stífnishóla um Brúsastaðavör yfír að Skerseyri, um Skerseyrarmalir upp „Sléttubrú“ hlaðinn vegarspotta upp á Balatún yfir það bak við bæinn yfir á Dysjamýri að Görðum og út á Álftanes. Var þetta kirkjugata Hafnfirðinga um langan aldur.

Setbergsbærinn

Gamli Setbergsbærinn.

Þó Flatarhraunsleiðin væri fjölfarin hygg ég þó að önnur leið hafi verið fjölfarnari er austanmenn sóttu kaupstefnur til Hafnarfjarðar. Kjóavellir sunnan Rjúpnahæðar voru í eina tíð mikilvægur áningastaður. Þaðan lágu leiðir í ýmsar áttir. Ein lá yfir hálsinn austan Vífilstaðavatns og niður að vatninu meðfram því út á hraunið og niður yfir það í Kaplakrika niður með Kaplakrikalæk. Móts við Setbergshamar skáskar troðningurinn sig yfir Sjávarhraunið. Mátti sjá í hraunklöppunum brautir sorfnar „þar harðir fætur ruddu braut í grjóti”.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hörðuvellir.

Úr Sjávarhrauninu lá troðningurinn niður á Hörðuvelli og yfir Hamarskotslæk. Niður með læknum undir Hamrinum niður á Moldarflötina á Hamarskotsmöl. Skiptust þar leiðir. Lá önnur vestur á brúna, en hin suður með Loftsstaðatúngirðingu fram hjá Proppébakaríi, framhjá „Surtlu“, þar sem Brennisteinsfélagið hafði aðalbækistöð sína. Litlu sunnar var braut niður að Egilsonsverzlunarhúsunum. En aðalvegurinn lá með fram Undirhamarstúngarði að litlum læk og var brú á honum, en frá brúnni sniðskar vegurinn sig upp á Vestur- eða Sjóarhamar. Var þá á vinstri hönd bærinn „Hamar“ eða „Bjarnabær“ og fremst fram á brúninni Miðengi og bær sá er síðar tók nafnið „Hamar“.

Hafnarfjörður

Frá smábátahöfninni í Hafnarfirði; Flensborgarhöfn.

Af Hamrinum lá gatan sniðhalt niður’á Ófriðarstaðamöl, Hellufjöru og nokkur önnur nöfn mætti til tína. Eftir henni út að Flensborg ofanvert við Ásbúðarvör. Frá Flensborg lá vegurinn yfir Ásbúðarlæk og á enn sjá troðninga upp melinn frá Óseyrarbanka. Vestur lá vegurinn neðst í holtinu ofan Óseyrartúns um Sandaskörð að Barðinu, en upp frá því með Hvaleyrartúngarði niður á sandinn vestur á Hvaleyrarhraunið og áfram til Suðurnesja og Grindavíkur.

Selvogsgata

Selvogsgata (Suðurferðavegur), Hlíðargata og Stakkavíkurgata/-stígur millum Selvogs og Hafnarfjarðar fyrrum.

Leið Selvogsmanna klofnaði sunnarlega á Öldunum. Lá önnur niður með Hamrinum austanverðum að Hamarskotslæk, en hin lá með Hamarskotstúngarði og þaðan niður til Fjarðarins.

Að nokkru hefur nú verið lýst leiðum þeim er lágu til Hafnarfjarðar og aðalleiðum um Fjörðinn. Ekki gefst nú tækifæri til að lýsa stígum þeim og slóðum er lágu út frá aðalleiðunum.
Ég hef fært þetta í letur eftir frásögnum gamalla manna og kvenna. Það er því ekki þeirra sök þó eitthvað sé um missagnir. Væri mér það ljúft að þeir, sem finna missagnir hér í létu mig vita, því það á okkur öllum Hafnfirðingum að vera kappsmál, að hvað sem sagt er eða skrifað um Hafnarfjörð sé sannleikanum samkvæmt.”

Sjá meira um Gísla Sigurðssson HÉR.

Heimild:
-Hamar, 26. tbl. 22. 12.1954, Gamlar slóðir, Gísli Sigurðsson, bls. 5 og 15.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 2023.

Grindavík

Árið 2011 gaf Ferðamálafélag Grindavíkur út ritið “Grindavík – sögu og minjakort“. Á baksíðu þess segir:

Grindavíkurkort

Grindavík; saga- og minjakort, forsíða.

“Hér er um að ræða samantekt minjakorta, sem sett hafa verið upp víðsvegar í bænum á undanförnum árum, unnin af Ómari Smára Ármannssyni fyrir Grindavíkurbæ með styrk frá Pokasjóði og Menningarráði Suðurnesja. Áður hefur Ferðamálafélag Grindavíkur gefið út samantekt um Húshólma og Selatanga í sama ritflokki. Það er von útgefanda að efnið, Sögu- og minjarkort Grindavíkur, sem hér er sett fram myndrænt og í texta, muni nýtast íbúum bæjarins, ferðamönnum og nemendum bæjarins við vinnslu námsefnis. Ritið er tilvalið til að taka með sér á göngu um sögusvið hinnar gömlu Grindavíkur, hvort sem um er að ræða í Þórkötlustaða-, Járngerðarstaða- eða Staðarhverfi. Rakin er þróun og saga hverfanna frá upphafi til nútíma. Sagt er frá einstökum minjum því tengdu jafnframt sem þær eru staðsettar á handgerð kortin.
Leitendur geta þannig auðveldlega fengið innsýn í mannlífið í Grindavík í gegnum aldirnar og notið í leiðinni hins fagra umhverfis Grindavíkur.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ. Uppdrátturinn er ekki í ritinu, líkt og svo margir aðrir, enn óbirtir.  Pétur í Höfn lýsir örnefnum og minjum í Þórkötlustaðanesi. Beitnaskúrar einstakra báta um 1930 eru númeraðir m.v. staðsetningu.

Þótt kortin takmarkist að mestu við hið gamla sögusvið byggðarinnar er fjölmargt að finna utan þeirra, s.s. minjar, jarðsaga og – mótun, gróður, dýralíf og nýbreytni í menningu og ferðaþjónustu á svæðinu.”
Ritið er birt hér á vefsíðunni, bæði vegna það er nú uppselt og litlar líkur á það verði endurútgefið.
Hér má sjá efni ritsins – Grindavíkurkort.

Húsatóftir

Staðarhverfi – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Víghóll

Örnefnið Víghóll á Digraneshálsi í Kópavogi var á allra vörum fyrir skömmu. Margar fyrirspurnir um nafnið hafa síðan borizt Þórhalli Vilmundarsyni, forstöðumanni Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns. Í þessari grein Lesbókar Morgunblaðsins frá árinu 1994 svarar hann þeim fyrirspurnum. Hér birtist hluti greinarinnar.

Þórhallur Vilmundarson

Þórhallur Vilmundarson.

“Frá því að deilur risu um kirkjubyggingu á Víghóli á Digraneshálsi í Kópavogi á liðnu ári, hafa ýmsir spurt mig, hvort nokkuð sé vitað um uppruna nafnsins og merkingu. Ég vil af þessu tilefni greina frá eftirfarandi:
Ekki eru til, svo að mér sé kunnugt, gamlar heimildir um örnefnið í Kópavogi. Það kemur fyrir í örnefnaskrám frá þessari öld, bæði í eintölu, Víghóll, og í fleirtölu, Víghólar, sbr. götunafnið Víghólastígur og félagsheitið Víghólasamtökin.

Margir Víghólar
VíghóllÞegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Víghóll er og í Kjarrárdal (Kjarradal) í Borgarfirði, á Fellsströnd í Dölum, í Steingrímsfirði, í Hörgárdal (þar eru þeir reyndar tveir), á Jökuldal og undir Eyjaflöllum. Víghólar eru í Öxnadal og á Síðu. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum.

Munnmæli um Víghólana – Heiðarvíg og fornmannadys

Víghóll

Víghólar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er mér kunnugt um munnmæla eða skýringarsagnir um átta Víghólanna, en ung munnmæli eða skýringarsagnir eru hins vegar til um hina sex: Kristian Kálund segir það nú (þ.e. 1877) sögn heimamanna, að “Heiðarvígin” (sbr. Heiðarvíga sögu) hafi verið tvenn, önnur þeirra í Kjarradal, sunnan ár, hjá Víghóli, og þar í grennd sé dys hinna föllnu. Kálund bendir á, að þessi frásögn sé í ósamræmi við frásögn Heiðarvíga sögu og að Heiðarvígin á Tvídægru eigi að hafa átt sér stað eftir kristnitöku.

Hrakspár hefnt í Selvogi

Víghólsrétt

Víghólsrétt í Selvogi.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir um Víghól í Selvogi, að Erlendur lögmaður Þorvarðsson á Strönd í Selvogi (d. 1576) hafi drepið þar smalamann að launum fyrir þá hrakspá, að jörðin Strönd ætti eftir að verða eyðisandur.

Eru þeir réttnefndir Víghólar?

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Mörg efnisatriðin í þessum vígaferlasögnum eru lítt trúverðug. Verður að telja líklegt, að yfírleitt séu þessar sagnir spunnar upp til skýringar á nöfnunum. Jafnframt eru sagnir þessar skemmtileg dæmi um það, hve ríkan þátt örnefni eiga í myndun sagna, og á það reyndar ekki aðeins við um síðari tíma, heldur einnig ritunartíma Íslendingasagna.
En þótt sagnirnar um Víghólana séu ekki sem sennilegastar, stendur eftir spurningin: Eru hólar þessir réttnefndir Víghólar, þ.e. kenndir við vígaferli á fyrri tíð? Fjöldi nafnanna veldur óhjákvæmilega efasemdum um, að öll þessi nöfn eigi sér þennan uppruna. En á hvaða skýringu aðra er þá unnt að benda?

Veghóll og Veghólar

Víghóll

“Liðinu stefnt að Víghól”

Þegar að er hugað, kemur í ljós, að til era á landinu sviplík -hólsnöfn: Veghóll og Veghólar. Þannig má fljótlega tína upp úr örnefnaskrám Veghóla á Mýrum við Hrútafjörð, og er gamla reiðgatan frá Mýrum í Tjarnarkot sögð hafa legið um hólana, Veghól á Litlu-Giljá í Þingi, Veghól á Presthólum í Öxarfirði, Veghóla á Bótarheiði í Hróarstungu, Veghól á Litlabakka í sömu sveit, þar sem vegur er sagður hafa verið áður fyrr, og Veghóla í Skuggahlíð í Norðfirði inn og niður af Vegahnúk, en hestavegur er sagður liggja vestan við hann. Veghólar hafa augljóslega verið mönnum eins konar vörður eða vegvísar við vegi, ekki aðeins fjölfarnar leiðir, heldur einnig hinar fáfarnari. Nútímamenn verður að minna á, að hér er um fornar reiðgötur eða göngustíga að ræða, sem horfið gátu í fyrstu snjóum, og því var ekki vanþörf á kennileitum, sem vísað gátu veginn.
Nú vaknar sú spurning, hvort hér kunni að hafa slegið saman tveimur örnefnum: Veghólum og Víghólum — og þá þannig, að ýmsum Veghólum hafi verið breytt í Víghóla og nöfnin þannig gerð sögulegri.

Eitt örnefni dregur til sín annað – dæmi: Búrfell/Búfell

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

Það er þekkt fyrirbæri í örnefnafræðum, að eitt örnefni dragi til sín annað. Dæmi þess hygg ég megi finna í hinum fjölmörgu Búrfells-nöfnum hér á landi. Þau hafa helzt verið talin vera líkingarnöfn og draga nafn af lögun sinni („efter formen“, segir Finnur Jónsson). Átt er við, að þau séu kubbsleg og minni á búr, einkum stafbúrin norsku. Þessi skýring getur átt við mörg Búrfell, en þó ekki öll, t.d. ekki það Búrfell, sem næst er höfuðborgarbúum, sunnan Hafnarfjarðar.
Nú er til austur í Vopnafirði Búfell ofan við Hauksstaði. Að sögn Friðbjarnar Hauks Guðmundssonar bónda þar (f. 1946) kallaði eldra fólkið fellið ævinlega Búfell, m.a. afi hans, Friðbjörn Kristjánsson (f. 1894), og börn Víglundar Helgasonar (f. 1884), sem bjó á Hauksstöðum á undan Friðbirni Kristjánssyni. Nafnið er ritað Búfell í örnefnaskrá, en á herforingjaráðskorti stendur hins vegar Búrfell, og er það lítið dæmi um ofríki Búrfells-nafnmyndarinnar. Mér þykir líklegt, að Búfell hafi upphaflega verið fleiri á landinu, sbr. norsku fjallaheitin Bufjell á Þelamörk og Bufjellet á Vestfold.

Búfell

Búfell í Þjórsárdal.

Fyrri liður Búfells er trúlega no. bú í merkingunni “búpeningur’” og ætti Búfell þá að merkja “fell”, þar sem búpeningur var hafður á beit eða í “seli”, sbr. „fara til sætra (þ.e. selja) með bú sínu“, eins og segir í norsku fornbréfi. Friðbjörn Haukur Guðmundsson segir mér, að fram og niður af enda Búfells sé Selbotn með tóftum og niður undan Selbotni séu beitarhúsatóftir. Hann segir, að mjög góð beit sé í Búfelli. Til hliðsjónar eru hér einnig íslenzk örnefni eins og Búhólar, Búland og Bústaðir.

Dreifing Veghóla og Víghóla

Víghóll

Víghóll við Hvammsfjörð.

Dreifing Veghóla- og Víghóla-nafna ýtir undir þá hugmynd, að Veghóla-nöfn hafi breytzt í Víghóla: Á Suðvesturlandi eru fimm Víghólar með tiltölulega stuttu millibili, og á öllu Suður- og Vesturlandi, austan frá Síðu norður í Steingrímsfjörð, eru 10 Víghólar, en enginn Veghóll. Síðan bregður svo við, að Húnaþing er Víghólalaust svæði, en þar eru hins vegar fimm Veghólar, hvernig sem menn vilja skýra það. Í Eyjafirði eru þrír Víghólar á litlu svæði, en engir Veghólar. Á Norður- og Austurlandi frá Tjörnesi til Norðfjarðar eru hins vegar átta Veghólar, en aðeins einn Víghóll. Þessi dreifing virðist ekki einleikin, og sýnist eðlilegast að skýra hana með því, að á tilteknum svæðum hafi eitt nafnið eða nafnbreytingin kveikt aðra. Nefna mætti þrennt, sem kynni að hafa stuðlað að nafnbreytingunni:

Orrustuhóll

Orrustuhóll á Hellisheiði.

Í fyrsta lagi: Þegar þess er gætt, að langflest Víghóls-nöfnin eru ekki varðveitt í eldri heimildum en frá 20. öld, vaknar eðlilega sú spurning, hvort framburðarruglingur eða samruni e og i (hljóðvilla) hafi í einhverjum tilvikum hrundið breytingunni af stað. Þegar menn gerðu ekki greinarmun á Veghóll og Vighóll, hafi merkingin týnzt, nýrrar merkingar verið leitað og úr orðið Víghóll. Hljóðvillu eða flámælis fór að gæta um miðja 19. öld eða fyrr, sennilega fyrst á Suðvesturlandi. Þessi skýring getur þó trúlega ekki átt við alla Víghólana, bæði vegna aldurs sumra nafnmyndanna og legu sumra hólanna.
Hér má ekki gleyma því, að örnefni taka oft breytingum, án þess að fylgt sé hljóðalögmálum, og eiga slíkar breytingar sér ekki sízt stað, er menn leita nýrrar merkingar í nafninu.
Í öðra lagi: Ekkert Víghóla-örnefni er í íslenzkum fornsögum, en þar er þess hins vegar alloft getið, að bardagar hafi verið háðir á hólum eða hæðum.
Í þriðja lagi: Þekktar skráðar sögur, svo sem um Heiðarvíg í uppsveitum Borgarfjarðar og Víga-Glúm í Eyjafirði, kunna að hafa ýtt undir nafnbreytingu í þeim héruðum.

Hvernig liggja Víghólarnir við vegum?

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni á Hellisheiði.

Ef Víghólarnir hafa upphaflega heitið Veghólar, ættu þeir að liggja við gamla vegi, og verður því að leita svars við spurningunni: Hvernig liggja Víghólarnir við vegum? Hér má gera þá athugasemd, að það sanni ekki mikið, þótt í ljós komi, að Víghólar séu við vegi, því að víg hafi einatt verið framin á eða við vegi og alfaraleiðir. Því er til að svara, að vopnaviðskipti og víg hafa samkvæmt samtímaheimildum og sögnum einnig átt sér stað við aðrar aðstæður: heima við bæi eða á flótta til skógar eða fjalls, í fjöru, eyjum og á annnesjum, í kolaskógi, á engjum eða í úthögum og á heiðum, þar sem setið var yfir fé o.s.frv.

Hvað um hestavíg?

Hestaþinghóll

Hestaþinghóll í Kjós.

Aðra athugasemd má gera: Gæti verið átt við hestavíg í Víghóls-nöfnunum, sbr. örnefni eins og Hestaþingshamar (svo í Sturlungu, síðar Hestavígshamar) í Skagafirði, Hestavígshólmi á mótum Blöndu og Svartár, Víghestahvammur hjá Sauðafelli í Dölum, Hestaþingshóll hjá Kaldaðarnesi í Flóa og í landi Vallar í Hvolhreppi, Hestaþingsflöt hjá Hróarsholti í Flóa og Hestaþingstaðir nærri Flögu í Skaftártungu, og hólarnir þá eðlilega verið við reiðgötur? Því er til að svara, að hestaþing (hestaat, hestavíg) voru samkvæmt fornum heimildum yfirleitt háð á sléttum grundum á samkomustöðum: á þingstöðum. Margir Víghólanna uppfylla engan veginn þessi skilyrði, t.d. Víghólarnir á Digraneshálsi, í Mosfellssveit, Kjarrárdal, Arnkötludal og Hörgárdal.

Síðasta hestavíg á Íslandi

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna. t.d. við Þingvelli.

En hvað þá um síðasta hestavíg á Íslandi við Vindhóla fram af Fnjóskadal árið 1623, sem Jón Espólín segir frá. Segir Jón Espólín og, að hann hafi ekki vissu fyrir þessum uppruna Vindhólanafnsins. Þegar hugleidd eru hestavíg og Víghólar, ber einnig að hafa í huga, að engar heimildir, hvorki sagnarit, skjöl né munnmæli, tengja nokkurn hinna mörgu Víghóla við hestavíg.

Víghóll í Selvogi

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Víghóll í landi Ness í Selvogi er samkvæmt ömefnaskrá við Víghólsrétt, ofan við Nes. „Frá túngarðshliði (í Nesi) að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna vom kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna,“ segir í skránni. Heimildarmaður þessa er Eyþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi (1898-1988, var í Torfabæ til 1962). Þórarinn Snorrason bóndi í Vogsósum (f. 1931) segir Víghól vera á Heimasandi um 2 km norðaustur af Nesi, og er land þar löngu uppblásið. Hann telur eðlilegast, að leiðin frá höfuðbólinu Nesi austur í Ölfus hafi legið um Víghól, Klakksflatir, Hellisþúfu og Kvennagönguhól.

Víghóll sunnan Hafnarfjarðar

Víghóll

Víghóll í Garðabæ vestan Húsfells.

Í örnefnaskrá óbyggðarinnar suður frá Hafnarfirði segir, að Víghóll heiti norðan við Mygludali milli Valahnúka og Húsfells. Selvogsgata eða Grindaskarðavegur liggur milli Valahnúka og Víghóls, um 300 m sunnan við Víghól. Þorkell Jóhannesson prófessor og Óttar Kjartansson, sem kannað hafa þetta svæði, segja, að frá suðurhrauni Búrfells sé „gamalt og tiltölulega flatt hraun. Þar eru farnir allglöggir slóðar í átt að Víghól.“ Að sögn Þorkels Jóhannessonar liggur þessi leið síðan meðfram Víghól og þar á Selvogsgötu. Götuslóðana hefur hann ekki getað rakið austan Búrfells í átt að Löngubrekkum (á Heiðmörk), en tekur fram, að kjarr kunni að hafa hulið gamlar slóðir í Búrfellsdal. Gömul reiðleið er frá Elliðavatni suður allar Tungur undir Löngubrekkum í Búrfellsgjá. Þess má geta til, að götuslóðarnir „í átt að Víghól“ séu hluti vermannaleiðar frá Mosfellssveit, Kjós, Vestur- og Norðurlandi um Elliðavatn og Tungur á Selvogsgötu eða Grindaskarðaveg hjá Víghól.

Arnarnes

Arnarnes og Arnarneshæð 1954.

Í Selvogi var mikil verstöð fyrrum. Árið 1703 voru íbúar þar nærri 200 að tölu; þaðan voru gerð út árið 1785 rösklega 30 skip, og á þeim voru 380 menn, þar af 340 aðkomumenn. Má nærri geta, að margir hafa átt leið í Selvog á fyrri tíð, flestir sjálfsagt af Suðurlandi, en sumir að vestan og norðan. Ef rétt er til getið, má Víghóllinn hafa verið vegvísir á hinni gömlu vermannaleið og er þá jafnframt minnismerki um hana.

Víhóll í Arnarneslandi í Garðabæ

Víghóll

Víghóll Mosfellssveit.

Örnefnaskrá Arnarness, sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði (1903-85) skráði, segir, að Vífilsstaðagata hafi legið frá alfaraleiðinni á Arnarnesholti „inn með holtinu, sem nefndist Móholt. Hér einhvers staðar á að vera hóll, er nefnist Víghóll.“ Ekki hefur mér tekizt að hafa uppi á þessum Víghól. Sigríður Gísladóttir á Hofstöðum (f. 1921) þekkir hann ekki. Hún telur Móholt vera sama og Nónholt, en mór var tekinn í mýrinni norðan við Arnarneslækinn á stríðsárunum fyrri. Vífilsstaðagatan gamla lá frá Vífilsstöðum sunnan í Nónholtinu á Arnarneshæð.

Víghóll í Mosfellssveit

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1954.

Um Víghól í Mosfellssveit segir séra Magnús Grímsson á Mosfelli (1825-60): „Á skarðinu, sem skilr Helgafell og Reykjafjall, stendr hamar einn, svo sem þriggja mannhæða hár, upp úr sléttri melbúngu. Hann heitir Víghóll, en eigi veit eg af hverju það nafn er dregið. Hjá hól þessum liggr vegrinn ofan í Skammadalinn og suðr í Reykjahverfi, þar sem Reykjalaug er.“

Víghóll á Digraneshálsi

Og þá er að lokum komið að Víghólnum (eða Víghólunum) á Digraneshálsi í Kópavogi, sem var tilefni þessarar greinar. Digranesháls eða hluti hans virðist áður hafa heitið Langi jörvi samkvæmt frásögn Árna Magnússonar prófessors í Kaupmannahöfn. Hann segir, að jörvi (jörfi) merki „slétt melholt, ex. gr. (þ.e. til dæmis) langa slétta holtið fyri ofan Kópavog. Almennt málfæri syðra í Mosfellssveit: Þar yfir á jörfanum, yfir á langa jörfann. Langi jörfi heitir melurinn fyri ofan Kópavog.“

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1958.

Adolf J. E. Petersen vegaverkstjóri (1906-85) segir í örnefnaskrá Kópavogskaupstaðar: „Víghólar eru í tvennu lagi, annar hóllinn er sunnan við Digranesveginn, en hinn er norðan við þann veg og ber nokkuð hátt, enda er þaðan eitt mesta útsýni af Digraneshálsinum, og þar er útsýnisskífa.” Fyrrnefndi hóllinn er neðan við húsið nr. 94 við Digranesveginn, og segir Bergsveinn Jóhannsson (f. 1915), sem þar hefur átt heima frá 1960, að Ingjaldur Ísaksson í Smárahvammi (1909—91) hafi kallað hólinn Neðri-Víghól og sagt, að það væri hinn rétti Víghóll. Hann er um 140-50 m suður og niður af efri Víghólnum.

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 2022.

Haustið 1992 heimsótti ég á Hrafnistu í Reykjavík Guðbjörgu Jónsdóttur frá Digranesi (f. 1899 og átti þar heima til 1923) og spurði hana um gamlar leiðir vestur frá Digranesi. Guðbjörg lézt á síðastliðnu sumri (1993).
– Hvaða leið fóruð þið frá Digranesi til Kópavogs (þ. e. gamla bæjarins í Kópavogi), þegar þú varst að alast upp?
„Við fórum brekkurnar sunnan í Digraneshálsinum.“
– Fóruð þið ofan eða neðan við neðri Víghólinn?
„Neðan við hann.“
– Hvernig lá leiðin frá Digranesi til Reykjavíkur?

Kópavogur

Á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Þá var farið á ská yfir Digraneshálsinn og niður brekkurnar að norðanverðu talsvert norðan við efri Víghólana og síðan beint á Fossvogsbrúna. Á þeirri leið voru fen, og það var ekki fyrir aðra en kunnuga að fara hana.“
– Var þá einnig farið eftir hálsinum frá Digranesi út á alfaraveginn milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar?
„Já, þá leið fóru ferðamenn stundum, og var þá farið eftir holtinu rétt fyrir norðan Víghólana, yfir Stútulaut, lægðina vestan við Víghólana, og eftir háhálsinum
út á Hafnarfjarðarveg.”
– Átti Digranesfólk ekki einnig erindi þessa leið?

Víghóll

Útsýnisskífa á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Jú. Fé föður míns sótti í fjöruna fram af Kársnesinu, og þar var faðir minn einu sinni hætt kominn í flæðiskeri, en Vigfús Guðmundsson vert sá til hans frá Skerjafirði og kom honum til bjargar. Mér eru minnisstæðir Borgarhólarnir þarna utar á hálsinum, þar sem Kópavogskirkja stendur nú, því að við krakkarnir höfðum svo gaman af bergmálinu í klettunum. Faðir minn ruddi bílveg eftir hálsinum frá Hafnarfjarðarvegi heim í Digranes árið 1914, og fór Buicksbíll frá Hafnarfirði fyrstur veginn.“

Víghóll

Víghóll í Kópavogi – skilti.

Ég sneri mér til Bergþóru Rannveigar Ísaksdóttur (f. 1905) í Tungu hjá Fífuhvammi (sem áður hét Hvammkot og þar áður Hvammur) og spurði hana, hvernig kirkjuvegurinn hefði legið fyrrum — fyrir bílaöld — frá Hvammkoti til Reykjavíkur, en þangað átti Hvammkot kirkjusókn.
„Farið var frá Fífuhvammi eða Hvammkoti yfir Kópavogslækinn og upp Stútuslakka yfir Digraneshálsinn vestan við Víghóla og svo beint af augum á brúna yfir Fossvogslækinn og síðan austan við Leynimýri yfir Öskjuhlíðina sem leið liggur til kirkju í Reykjavík,” sagði Bergþóra.
– Í Stútuslakkanum hefur verið farið neðan við neðri Víghólinn. Var hann eina kennileitið í brekkunum?
„Já, hann var í brekkunni fyrir austan slakkann og var eina kennileitið í brekkunni sunnan frá séð. Efri Víghólana ber hins vegar við loft frá Fífuhvammi, ég sé útsýnisskífuna héðan.“
-Þetta er þá leiðin, sem bömin þrjú frá Hvammkoti fóru hinn örlagaríka vetrardag 1874, þegar þau fylgdu frænku sinni, sem gekk til spurninga í Reykjavík?

Kópavogur

Fífuhvammur/Hvammskot.

„Já, það var mikil sorgarsaga. Til okkar í Fífuhvamm kom eitt sinn gamall sjómaður, sem sagðist hafa verið á ferð þennan dag og lent í því að bera ásamt föðurnum eldri dótturina örenda frá Danskavaði á Kópavogslæk heim í Hvammkot. Síðan lögðust þeir við hlið stúlkunnar í von um, að hún lifnaði. „Það var köld nótt, og það var löng nótt,“ sagði hann.“
Í örnefnaskrá Digraness má sjá, að götuslóði frá Digranesi norðan í Digraneshálsinum að Fossvogslækjarbrú var nefndur Kirkjuleið, Kirkjugata eða Prestsgata.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm.

Framangreind athugun á fjölda, dreifingu og legu Víghólanna virðist mér benda til þess, að hér sé yfirleitt um upphaflega Veghóla að ræða, þó að sjálfsagt sé að slá þann varnagla, að meðal þessara mörgu Víghóla kunni að leynast hóll, sem réttilega hafi verið svo nefndur eða fengið nafnið að tilefnislausu sem flökkunafn.
Af þessum sökum — svo og vegna allra aðstæðna — tel ég því ólíklegt, að Víghóll á Digraneshálsi sé með réttu orðaður við forn mannvíg og illdeilur og hygg eðlilegra að líta á hann sem vegvísi á kirkjuleið. Óþarft ætti því að vera að láta hólinn kveikja hugsanir um illindi og úlfúð. Fremur ætti hann að geta verið tilefni hugleiðinga um veginn og lifið — og dauðann.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. mars 1994, Víghóll, Þórhallur Vilmundarson, bls. 9-11.

Víghólar

Víghólar á Íslandi – kort.

Tröllafoss

Landmælingar Íslands gáfu á sínum tíma út stafrænt “Hryllingskort” þar sem listuð eru upp allflest örnefni er tengst gætu hryllingi af einhhverju tagi hér á landi. Að eftirskráðu eru þau þar að lútandi örnefni er tengjast Reykjanesskaganum með einum eða öðrum hætti.

Hryllingsörnefnakort Lmi

“Hryllingsörnefnakort” Landmælinga Íslands.

Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar. Á einum stað liggur milli klettanna gjá; þar svarrar sjórinn fast. Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar. Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Stakkavík)

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Tangi eða hólmi er úti í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Arnarþúfa er suður af tanganum. Sat þar örninn oft og hlakkaði yfir veiði. Þar fyrir sunnan skerast inn í landið vikin þrjú. Þar er fyrst Kristrúnarvik, og þá Girðingarvik, sem er nýlegt nafn, og þá vik með mörgum nöfnum, Vondavik, Forarvik og Moldarvik. Í viki þessu var venjulega kafhlaup af for, og því eru nöfnin. Gerð hafði verið brú með grjóti yfir vikið, og var að því nokkur bót. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Hlíð)

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefni sem mér eru kunn í landi Hrauns eru eftirfarandi: Með sjó er Markabás vestast. Hann er austan við svonefnd Slok og skiptir löndum á milli Þórkötlustaða og Hrauns. Austan við Markabás er Hádegistangi. Hádegisklettur er þar ofan og sunnan við. Hann hét öðru nafni Klofaklettur, tvær strýtur voru upp úr honum en önnur er nú brotin af fyrir mörgum áratugum. Þetta var hádegismark frá gamla bænum á Hrauni. Þar norðan við er Skarfatangi. Það er smátá sem skagar út í sjóinn en fer í kaf á flóði. Magnús Hafliðason segist muna eftir grasi á Skarfatanga og þegar hann var ungur hafi gamlir menn sagt sér að grasbakki hafi verið á Skarfatanga. Skip hafa strandað sitt hvoru megin við Skarfatanga. Franski togarinn Cap Fagnet að sunnan og kútterinn Hákon að norðanverðu. Vikið norðan við Skarfatanga heitir Vatnagarður og sama nafn ber syðsti hluti túnsins þar upp af. Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstreymisfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er að það hafi komið upp þegar bænahús var aflagt á Hrauni (sennil. Á 17. öld).

Hraun

Hraun í Grindavík.

Gamla sundið lagðist þá einnig af. Vatnstangi er norðan við Vatnagarð. Þar rennur fram ferskt vatn. Fast norðan Vatnstanga er Suðurvör og var þar aðallending á Hrauni. Norðan við Suðurvör er sker og var farið fast með því þegar lent var og var það nefnt Rolla.
Norðurvör er í þröngum klöppum þar norður af og þar var aðeins hægt að lenda í mátulega sjávuðu. Baðstofa er stór klöpp fast fyrir norðan Norðurvör. Þar norður af er Bótin og þar var nyrsta lendingin. Þaðan var hægast að fara út í vondu. Efst í Bótinni er klettur sem fer í kaf á flóði og heitir Barnaklettur. Þar áttu að hafa flætt og síðan drukknað tvö börn. (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna.
Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Járngerðarstaði)

Skipsstígur

Götur og hraun ofan Grindavíkur.

Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar. Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. [Beinavörðuhraun rann fyrir u.þ.b. 6000 árum.] (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)

— Eru ekki líka draugar hér á Reykjanesi?

Óskar Aðalsteinn

Óskar Aðalsteinn, vitavörður.

Óskar: Jú, það vantar ekkert uppá það. Ég varð strax var við par, sem hélt til í kjallaranum hjá okkur hér. Mér líkaði illa við það hyski. Mér fannst stafa kuldi, jafnvel illska frá þeim. Mér hefur tekist aö koma þeim útúr kjallaranum, en þau eru samt ekki farin.
Ég hef spurt karlmanninn hvort þau ætli ekki aö koma sér burt, en hann þverskallast viö. Þau eru búin að vera hér siðan á 18. öld. Fórust á enskum togara. Þessi náungi var illmenni, hefur morð á samviskunni. Hann segist hvergi finna frið, eins og oft vill verða með menn sem deyja í slysi og hafa illt á samviskunni. Ég veit að hann vill gera okkur illt, en hann er bara ekki nógu kröftugur til þess, sem betur fer. (Viðtal við Valgerði Hönnu Jóhannsdóttur og Óskar Aðalsteinn, vitaverði í Reykjanesvita – Þjóðviljinn 2. des. 1978, bls. 11)

Norðan Selhellu er Seljavogur og norðan hennar er Beinanes (Ari Gíslason – Örnefnastofnun)

Ósabotnar

Ósabotnar – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes hefur verið á sama stað frá öndverðu. Landamerki milli Hvalsness og Stafnesshverfis eru í viki einu litlu sem heitir Mjósund, stundum kallað Skiptivík, sunnan við Ærhólma. Endar landið í Djúpavogi í Ósabotnum. Átti Stafnes inn í land að Beinhól og Háaleiti. Heimild um blóðvöll; Beinhóll: „Þar var slátrað hrossum til refafóðurs,“ segir í örnefnalýsingu. (Ari Gíslason -Örnefnaskrá)

Þegar komið var austur fyrir Hunangshelluna var haldið frá gatnamótunum að Njarðvík eftir reiðleiðinni þar sem Lágafellsleiðin sameinast henni áleiðis að gamla verslunarstaðum í Þórshöfn. Gatan er greinileg í heiðinni og sjá má fallnar vörður við hana. Þegar komið var yfir austanverðan Djúpavog tók við vagnvegur frá Illaklifi áleiðis að verslunarstaðnum.

Kaupstaðaleiðin

Kaupstaðaleiðin ofan Illaklifs.

Af og til mátti þó sjá gömlu reiðleiðina út frá veginum. Á Selhellu og við Draugavog eru tóftir, bæði ofan Selhellu og efst á henni. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp. Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, eru einnig tóttir. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að Hestaskjóli og áfram fyrir Djúpavog, sem fyrr sagði. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið (Illaklif) er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels. (Ferlir.is)

Gálgar

Gálgar/Gálgaklettar ofan Stafness.

Þá er að bregða sér upp í heiðina. Á Flötunum fyrrnefndu er svo nefnd Urðarvarða, og ofan túns er Heiðarvarða. Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Stafnes)

Másbúð

Brúin út í Másbúðarhólma.

Norðan í Langarifi, skammt framan við Réttarklappir, er stór og hár klettur, ljótur og hrikalegur, ílangur og söðulbakaður; heitir hann Svartiklettur. Lítið eitt utar er stórt og hátt sker, fast norðan við rifið; heitir það Illasker. Út í Illasker má ganga þurrum fótum um fjöru; sækir sauðfé mjög í skerið, því þar eru söl, en af því leiðir ákaflega flæðihættu. Líklega hafa öll „Illusker“ á Miðnesi fengið nafnið vegna flæðihættu. (Magnús Þórainsson – örnefnalýsing fyrir Másbúðir – Nesjar)

Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík.

Sandgerðisvegur

Gengið um Draugaskörð á Sandgerðisvegi.

Gatan sést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. (Ferlir.is)

Garðskagi

Garðskagi – kort.

Naust hafa fyrr verið nefnd sem býli, en er nú horfið í sjó. Heitir þar nú Naustarif, þar sem bær þessi var, en nú brýtur á því sem þaragarði fyrir framan land og fer í kaf um öll flóð. Fyrr var talað um Lónsós og Lónið, sem er fram undan Akurhúsum. Hér er svo hin lendingin í Útskálalandi landmegin við Naustarif og heitir Króksós. Innan við ósinn er svonefnd Manntapaflúð, sem ekki mun tilheyra Útskálalandi. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Útskála).

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni.

Rétt utan túngarðs Minni-Vatnsleysu eru klettar tveir, sem kallast Gálgaklettar. Þó eru þeir nefndir til frekari glöggvunar Gálgaklettur nyrðri og Gálgaklettur syðri. Klettar þessir standa í fjörubakkanum, og er þröngt vik á milli þeirra. (Jónas Þórðarson, örnefnalýsing fyrir Stóra- og Minni-Vatnsleysa)

Trölladyngja er eldfjall semmyndaðist við gos undir jökli fyrir lok ísaldar og rétt við hana er Grænadyngja, en oft er talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. (Reykjanesgeopark.is)

Út í Lambhúsatjörn ganga Hrauntangar. Þar innar með sjónum eru svonefndir Gálgaklettar, sem svo skiptast í Gálga og Litlagálga, sem er nær hrauni og innan við Stóragálga. Þar eru tjarnir, sem heita Vatnagarðar. Framar eru Gálgaflöt. (Ari Gíslason – örnefnaskráning fyrir Garðahverfi)

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni (ÓSÁ).

Á milli Kringlu og Oddakotsóss eru Vöðlar. Þar eru leirur og hægt að vaða um fjörur. Aðeins úti í sjó, rétt fyrir vestan Granda, er svolítil steinaþyrping, sem heitir Draugasker (et.). Það fer í kaf með flóði. (Kristján Eiríksson – örnefnalýsing fyrir Garðahverfi)

Verður nú rakin merkjalína Garðalands, er Vífilstaðalandi sleppir. Arnarbæli var fyrr nefnt. Þaðan er línan í austur-landsuður upp í Hnífhól, og þaðan með sömu stefnu í mitt Húsfell, sem er allhátt fell, sem rís hér upp af hraunbreiðunni. Breytir nú stefna merkjanna suður í miðja Efri-Strandatorfu, svo beint suður í Markraka í Dauðadölum. Markraki er hóll, en dalirnir eru lægðir kringum hólinn. Við Markraka breytist stefna merkjanna. Þar vestur eða norður frá er allhátt fell, sem heitir Helgafell. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Garðaland)

Dauðadalir

Dauðadalir – hellisop í jarðfalli.

Stórabollahraun er talið vera um 2700 ára. Hraunið ber keim af dyngjugosi. Gígurinn, mjög stór, er utan í vestanverðu Kóngsfelli í norðanverðum Grindaskörðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunið er undir Tvíbollahrauni, komið úr gígum skammt sunnar. Dauðadalahellarnir eru í Stórabollahrauni, Þeir eru nokkrir, þ.á.m. Flóki. Leiðarendi, einn mest sótti ferðamannahellir á landinu, er einnig í Stórabollahrauni. Yfir honum hvílir Tvíbollahraunið. Á einum stað hefur það náð að þröngva sér inn í hellinn.

Tvíbollar

Tvíbolli.

Upptök Tvíbollahrauns eru í framangreindum Tví-Bollum eða Mið-Bollum. Tví-Bollarnir þeir eru tveir samliggjandi gígar í brúnum Grindarskarða, í um 480 m hæð yfir sjó. Hraunið hefur fossað niður bratta hlíðina niður á láglendið en einnig runnið í lokuðum rásum. Hraunið flæmdist síðan til norðurs milli móbergshnúka og klapparholta allt niður undir Hvaleyrarholt við Hafnarfjörð.
Tvíbollahraun er runnið eftir landnám og er eitt af nokkrum hraunum sem brunnu í miklum eldum á 10.-11. öld. (Ratleikur hafnarfjarðar 2021)

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur (Bláfeldur).

Vesturmynd Draugahlíðar var sem ævintýraland elddrottningarinnar. Hraungígar og mosagróið land. Dúnmjúkur ljós gulgrænn mosi sem birtist með hvítum og svörtum tilbrigðum. Litadýrðin var ótrúleg, samspil grábláa hraunsins, gjóskusteinar sem voru ljósrauðir og ótal afbrigði af mosa. Vætan í loftinu og snjórinn gerði allt tilkomumeira. Gekk niður fönnina og kom niður á hinn þykka mjúka mosa sem maður ber ósjálfrátt lotningu fyrir. Náttúruteppi sem hefur verið samviskulega ofið í meir en þúsund ár.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Margar álfakirkjur má hér finna, furðusmíð íslenskra náttúru í líkingu við margar “Sagrada Familia” Gaudis. Steinborgir í Grindaskörðum eru tilkomumiklar og gaman að ganga þar fram ótroðnar slóðir. Klifra niður steinklappir og láta sig detta niður í bratta fönnina. Sjá kvöldsólina hverfa út við Snæfellsjökull. Allt borgarsvæðið er undir, en næst dökkrautt Húsfell og Helgafell, Þríhnúkahraun. Í norðausturátt er Þríhnúkahellir. Alstaðar dýrgripir sköpunarverksins sem kynslóðir eiga eftir að uppgötva og njóta. (Sigurður Antonsson – blogg)

Dauðsmannsskúti

Dauðsmannsskúti. Litla-Kóngsfell fjær.

En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahlíðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og litið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla.
Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur lítill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Skörðin búa yfir mikilli dul, þvi 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann. (gísli Sigurðsson – Gamla Selvogsgatan)

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: “Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu [nr. 54] norðan Torfavörðu [nr. 49] Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […]”. (Gísli Sigurðsson – Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum)

Gengið var norður með vesturjarði hraunsins og inn á svonefndan Sakamannastíg (Gálgastíg) í Gálgahrauni.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Skammt austar, norðan stígsins má sjá nokkrar mjög gamlar hleðslur. Ein þeirra er herðslugarður og sést móta fyrir húsi á einum stað. Stígnum var fylgt að Gálgaklettum. Klettarnir, sem eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi, standa reisulegir rétta ofan við sjóinn. Sígurinn liggur beint að þeim. Utan í vestanverðum Gálgaklettum er skeifulaga garður, sennilega Gálgaflöt. Í henni voru sakamenn dysjaðir. (Ferlir.is)

Völvuleiði

Á Völvuleiði.

Völvuleiði er við Holtsendann, austan til á Garðaholti. Gamall stígur, Kirkjustígur, lá við Völvuleiði. Á 18. öld er þess getið í lýsingu séra Markúsar Magnússonar. Hann segir að fornar sagnir séu um Völvuleiði. Þar sé grafin Völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. Bóndinn í Pálshúsi vísaði FERLIR á Völvuleiðið á sínum tíma. Völvuleiði munu vera til víða um land og segir t.d. af einu þeirra í Njálssögu. Í örnefnaslýsingum Garðabæjar segir að Mæðgnadys sé í norðanverðu Garðaholti, sunnan við Presthól. Svo virðist sem fyrri hluti lýsingarinnar sé rétt (í norðanverðu Garðaholti), en síðari hlutinn getur vart staðist. (Ferlir.is)

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

“Sviðholtsættinni fylgdi draugur, sem kallaður var Þorgarður. En um uppruna hans er þessi saga:
Hallldór faðir Bjarna í Sviðholti bjó að Skildinganesi og var maður auðugur. Um þessar mundir fekk maður einn, sem annað hvort var dæmdur til dauða eða ævilangrar fangelsisvistar, leyfi til þess að leysa sig út með peningum, en hann var sjálfur fátækur og fekk því loforð hjá Bjarna fyrir gjaldi því, er þurfti. Aðrir nefna til þess bróður Halldórs. Þá er Halldór var að telja gjaldið, kom að kona hans. Hún sópaði saman peningunum og sagði að þarfara væri aft verja þeim öðruvísi en að kasta þeim svo á glæður. Seki maðurinn fekk ekki fjeð, og sagði hann að svo mætti fara að tiltæki konunnar yrði henni til lítillar hamingju og ættliði hennar. Nú átti að flytja hann utan, en dugga sú, er hann var á, týndist fyrir Austfjörðum með allri áhöfn. Eftir þetta gekk hann aftur og sótti mjög að konu Halldórs og fór svo að hún ljest. Tók draugurinn þá fyrir aðra menn í ættinni og varð að ættarfylgju. Hann var nefndur Þorgarður. Hann var síðar dysjaður á Arnarneshæð. (Ferlir.is)

Skorarhylur

Skorarhylur.

“Rétt fyrir innan Skorarhyl voru Draugaklettar, sem trúlega eru enn til. Þeir voru nokkurn veginn á móti Árbæ og hljóta því nú að vera til móts við Höfðabakkabrúna. Draugaklettar voru nokkuð stórir klettar, dökkir á lit, og átti að vera þar huldufólk.” (Athugasemdir og viðbætur Þóru Jónsdóttur við Örnefnaskrá Breiðholts)

Þegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum. (Víghóll; Lesbók Morgunblaðsins, Þórhallur Vilmundarson, 26.03.1994, bls. 6.)

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um Draugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann. (Ferlir.is)

Viðey

Viðey – kort.

Þar sem eyjan gengur næst landi gegnt Vatnagörðum nefnist Sundklöpp, en Sundbakki autast, gegnt Gufunesi; á þeim stöðum voru hestar sundlagðir úr eynni. Suður af túninu eru Kvennagönguhólar, g er sagt, að þar hafi huldufólk búið. Þar niður undan heitir Drápsnes við sjóinn. (Viðey, útvarpserindi dr. Guðna Jónssonar 28. 12. 1962)

Líkaflöt, austan í hólnum. Þar höfðu verið þvegin lík.” (Ágúst Jósefsson – Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, Leiftur, Reykjavík, 1959. Örnefnakort unnið 1984-1986 af Einari J. Hafberg frá Viðey)

Gaman er að ganga út á Þórsnes og vestur fyrir það, yfir á Kríusand. Þaðan er hægt að fara með ströndinni vestur að bryggju. Sé farið aftur eftir veginum er ráðlegt að ganga niður í Kvennagönguhóla, skoða réttina og hellisskútann Paradís.

ViðeyLoks er svo farið um Heljarkinn heim að stofu, minnisvarði Skúla skoðaður, Danadys og Tóbakslaut. Hin leiðin er í vestur. Veginum er fylgt af Viðeyjarhlaði, vestur á Eiði. (DV – Viðey; tvær gönguleiðir vinsælastar, 24, júni 1992, bls. 27)

Í Viðey hafa trúlega um 3.000 manns verið bomir til moldar, en á öldum áður þótti það örugg leið til himnaríkis, ef munkamir í Viðey sáu um síðasta spölinn. Slík helgi hvíldi yfir grafreitnum, að lík frá landi voru lauguð á Þvotthól við Líkaflöt, áður en þau voru færð til hinstu hvíldar. ( Morgunblaðið – Viðey; eyjan við bæjardyr Reykjavíkur, 20.08.1988, bls. 17)

Gönguskarð heitir þar sem gengið er upp á kinnina. Þar voru dysjaðir fjórir Danir, sem vegnir voru eftir víg Diðriks af Mynden.(Útvarpserindi Guðna Jónssonar. Á örnefnakortinu er dysin merkt inn á upp á kinninni rétt suður af uppgöngunni upp Gönguskarði – Örnefnaskrá yfir Viðey)

Tröllabörn

Tröllabörn.

Tröllabörnin eru nokkurs konar systkini Rauðhóla í jarðsögunni, ef svo má að orði komast. Bæði náttúrufyrirbrigðin mynduðust í sama eldgosinu, sem átti sér stað fyrir rétt rúmum 5000 árum í eldstöðinni Leitum austan Bláfjalla. Frá Leitum runnu tveir heljarmiklir hraunstraumar, annars vegar til suðurs niður á láglendið vestan Ölfusárósa og hins vegar til norðurs og nefnist sá Svínahraun. Mjó hraunlæna læddist svo loks til vesturs, yfir Sandskeið og Fóelluvötn, niður Lækjarbotna og um Elliðavatn alla leið niður í Elliðavog. Á þeirri leið mynduðust Tröllabörn og Rauðhólar þegar hraunstraumurinn flæddi yfir vatnsósa mýrarlendi. (Vísindavefurinn)

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Orrustuhóll er í Orrustuhólshrauni sunnan við Litla-Skarðsmýrarfjall. Í lýsingu frá árinu 1703 segir að “fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orrustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.” Önnur lýsing segir að “austan undir hrauninu er Orrustuhóll. Gömul sögn kveður á um, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. (Ferlir.is)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. (Ferlir.is)

Lakastígur

Lakastígur.

Þarna um dalina liggur Lakastígur (Lákastígur), greiðfærasta leiðin milli Þrengsla og vestanverðrar Hellisheiðar. Reyndar er um Lágaskarðsleið að ræða því hún liggur Lágaskarð sem er þarna mitt á milli.
Gengið var upp á vesturbrún Norðurhálsa, en svo nefnist næsti stallur á undirhlíðum Skálafells ofan Hverahlíðar. Þegar upp er komið má sjá hversu víðlent svæðið er, mosaþýfi, smáhæðir og stallar er hallar að brúnum. Haldið var inn að Trölladal og áfram til austurs með norðurbrún Tröllahlíðar að norðurhlíð Skálafells. (Ferlir.is)

Sleðaás

Steinn við Sleðaás (Matthías Þórðason).

Sumir hafa haldið og halda enn, að Sleðaás sé sama og Tröllaháls. Á Íslandskortinu eftir Björn Gunnlaugsson er Sleðaás settur ofan til við Tröllaháls, og Sveinn Pálsson talar um í Dagbók sinni 1772, að Sleðaás sé einnig þar (sbr. Kålund I, bls. 151), enn þetta getur með engu móti verið rétt, sögurnar sanna það. Sleðaás heitir enn í dag ásklifið, sem gengur suður úr Ármannsfelli fyrir ofan grænu brekkuna, sem kallaður er Bás, og Sleðaáshraun heitir þar niður undan. Grettissaga Kh. 1853 nefnir Sleðaás, bls. 31, þar sem höfðingjarnir áðu, er þeir riðu af þingi, og Grettir hóf steininn, er sagan segir að liggi þar í grasinu. (Ferlir.is)

Líkatjörn

Líkatjörn.

Úr Suðurhól eftir hæstu brúnum Krossfjalla og í há Sandfell. Þaðan norður eftir Líkatjarnarhálsi og í Bátsnef (líklega fremur nýtt örnefni), sem er sunnan við Hagavík.
Fagrabrekka byrjar fyrir ofan og norðan Sandfellskrika og liggur niður á Líkatjarnarháls. Fremst á Líkatjarnarhálsi er djúpur dalur, sennilega gígur, nefndur Pontan. Líkatjörn er rangt merkt á kortið. Hún er nú horfin. Þegar Guðmann man fyrst eftir, var þetta aðeins uppsprettulind, mjög lítil að ummáli. Hún var rétt austan Líkatjarnarháls og hefur sennilega horfið undir sand, framburð úr Sandfelli. Þar rétt fyrir ofan er mýri, en Leirur fyrir norðaustan og síðan Leirhóll. Sú sögn er um Líkatjörn, að í henni hafi þvegin, er þau lík verið voru flutt austur að Skálholti. (Guðmann Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Hagavík)

MosfellsheiðiBeinakerling var einnig á Mosfellsheiði, skammt frá Borgarhólunum. Hún lagðist af nálægt 1880, eptir að sæluhúsið var reist á heiðinni. Frá þeirri kerlingu er þessi vísa:
„Herra minn guð, eg held nú það”
hann Sigurður rendi
…………………..vað,
„mikil skelfing! Vittu hvað”.
Vísan er frá síðara hluta 19. aldar, og kveðin á leið í verið; eru í henni orðatiltæki manns þess, sem hún er kveðin til.” (Ferlir.is)

Guðnahellir

Guðnahellir.

Talið er að útilegumenn hafi m.a. hafst við í helli í Illaklifi á Mosfellsheiði. Hellir þessi hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni (f: 1971) refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga laust eftir miðja 19. öld. (Ferlir.is)

Leirvogsá rennur um Stardal, sem eins og nafnið gefur til kynna, er nokkuð votlendur.

Tröllafoss

Tröllafoss.

Í Stardal eru leifar fornrar megineldstöðvar sem kennd er við dalinn. Stardalseldstöðin var virk fyrir um 1,8 milljónum ára og er hún mikið rofin. Stardalshnjúkar eru grunnstætt berginnskot eða bergsylla, líklega efsti hluti kvikuþróar eldstöðvarinnar.
Tröllafoss er í miðri öskju hinnar fornu eldstöðvar. Hann fellur milli hamra ofan í gljúfur sem áin hefur grafið í gegnum Tröllalágar í mynni Stardals. Fyrir neðan fossinn breiðir áin úr sér sem slæða yfir bergið. Gljúfrið er um 500 metra langt og 50 til 80 metra breitt og kallast TröllagljúfurT. (Mannlíf.is)

Niður af Austurenni er vont dý, sem heitir Vondadý. Það er hættulegt skepnum. Mýrarsund er sunnan við Pyttalæk, suður af Austurenni, sem heitir Mjóaveita og dregur nafn af lögun sinni. Það er mjög grasgefið. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Vellir)

Skálafell

Skálafell.

Um mitt fellið austan Flágils kemur annað gil ofan úr háfjallinu. Ofan við miðjar hlíðar fellur lækur þess fram af þverhníptum svörtum hamrastalli niður í klettabás sem nefnist Bolabás og gilið Bolagil. Skýringu á þessu örnefni hefur höf. heyrt að svartur hamraveggurinn minni á svart naut sem standi á bás séð heiman frá bænum, einkum þegar fjallið er hvítt af snjó, en snjór tollir aldrei í hamravegg þessum.

Skálfell

Skálafell – Beinagil.

Þriðja gilið í fellinu er nokkuð austar og kemur lækur þess úr drögum neðan við fjallsbrúnina. Gilið liggur niður fjallið skammt vestan við skíðaskála KR og liggur nær þráðbeint niður fjallið og kallast Beinagil, þ.e. gilið beina. Skammt austan þess er eins og mjúk brún niður eftir fjallinu og sést nú ekki meir af því heiman frá bæ. Þessi brún er stundum nefnd Höggið. Báðum megin við Beinagil neðarlega í fjallinu eru mjúkir ávalir melhólar með grasteygingum á milli og nefnast Jafnhólar. Fjórða gilið í fellinu kemur úr austurhlíð fellsins úr skálarmyndaðri kvos og heitir Grensgil. Nafnið er dregið af tófugreni sem er skammt austan við gilið og hafa refir þar löngum lagt í þetta greni áður en skíðalyftur og menningarhávaði flæmdu þá þaðan. (Egill Jónasson – örnefnalýsing fyrir Stardal)

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði – Innradys.

Skammt austan við Þverfellsgil er Einbúi. Þetta er fallegur, einstakur melhóll, fast ofan götunnar, sem liggur upp til Svínaskarðs. Einbúagil liggur hjá hólnum niður í Skarðsá. Austur af Einbúa eru Einbúalágar. Svo hækkar vegurinn upp á Svínaskarð. Þar á há-skarðinu eru tvö dys, sem heita Fremradys og Innradys. Upp af öllu þessu, sem hér er talið, er stór röð af hnúkum, sem heita Móskarðshnúkar, og skörðin milli þeirra heita Móskörð. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Þverárkot)

Svínaskarð

Svínaskarð – Fremridys.

Fyrir norðan Hrafnagil eru tvö djúp gil. Hátt upp í fjallið norðan við nyrðra gilið er stór steinn og smáskúti undir honum: Einstakiklettur. Lækirnir úr þessum giljum sameinast þegar kemur niður á láglendi. Undan þeim hefur myndazt stórt jarðfall niður að á: Vondasprunga. Milli Vondusprungu og skriðunnar úr Hrafnagili. er stór grasivaxin lægð: Hrafnagilslág. Norðan sprungunnar er allstórt graslendi, norðan til á því eru tveir melhólar, Sandhólar. Milli þeirra er smálækur: Sandhólalækur. (Þórður Oddsson – örnefnalýsing fyrir Eilífsdal)

Kjós

Kjós – kort.

Vatn fellur til Miðdalsár; þá er næst Hrútatunga. Vestan við hana heitir Illagil að ofan. Þá tekur við breið tunga, er heitir Skessutungur ofan til, en Helguhólstungur (neðan til. Neðan til í þeim er grjóthóll, sem heitir Helguhóll. Austan við Skessutungur er lækur, sem heitir Svörtuskriðulækur. Fer hann úr Illagili og rennur eftir grundum, sem nefnast Vellir. Hér er áin að verða til. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Miðdal)

Beint niður undan Valshömrum, við lækinn, er holt, sem heitir Stefánarholt. Nokkuð fyrir framan fremri Valshamarinn rennur smálækur niður úr Hálsinum, hann heitir Hálslækur. Töluverðum spöl framar kemur annar og stærri lækur niður Hálsinn og heitir hann Drápskriðulækur. Hann rennur norður dalinn og sameinast Hálslæknum, eftir það heitir lækurinn Birtingslækur. Hann fellur í Dælisá skammt fyrir framan Háaleiti. (Ellert Eggertsson – örnefnalýsing fyrir Meðalfell)

Valshamar

Valshamar.

Eftir Torfdal rennur samnefnd á, Torfdalsá í henni eru þrír fossar: Kálfabanafoss neðst, rétt áður en Torfdalsá sameinast Flekkudalsá, þá Hjallafoss en efsti fossinn heitir Þrengslafoss, en efsti hluti Torfdals heitir Vestri-Þrengsli og Eystri-Þrengsli. Flekkudalsá rennur um Flekkudal. Í henni eru tveir fossar, Grafarfoss í miðjum dal og Suðurdalsfoss syðst í botni dalsins.
Ofan til og vestan á Miðtunguhjalla er hóll er Skyggnir heitir. Þaðan sést í báða dalina. Miðtungan endar í háu standbergi rétt við Kálfabanafoss, Miðtunguberg, móti því norðan Torfdalsár er Kálfabanaberg, vestar Snös, klettanibba. Milli þeirra Kúahvammur. Stórihvammur er við Flekkudalsá, neðan Miðtunguhjallans. Holtið ofan við Grjóteyrarbæinn heitir aðeins Holt. (Magnús Blöndal og Guðni Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Grjóteyri og Flekkudal)

Þjóðskarð

Þjóðskarð.

Í Melafjalli upp af bænum eru skörð. Lækurinn, sem rennur um Melagil, kemur um Stekkjarskarð í brúninni, en nokkru innar er stórt skarð í klettana, sem heitir Þjóðskarð. Vestar er far í berginu eða plötunni, sem heitir Skessuspor. Milli þessara skarða er venjulega nefnt „Milli skarða“. (Ar Gíslason – örnefnalýsing fyrir Mela (Melahverfi))

Dys er hvorugkynsorð (Dysið). Þar fram hjá lá vegurinn vestur undir Dauðsmannsbrekkum. Þjóðsögur greina frá því að bóndi nokkur á Fossá hafi setið þarna fyrir ferðamönnum, drepið þá og rænt. (Páll Bjarnason – örnefnaskrá fyrir Fossá)

Gíslagata

Dys í Dauðsmannsbrekkum á Reynivallahálsi.

Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt. (Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III, 2012)

Reykjanesskagi

“Hryllingsörnefnakort” af Reykjanesskaga.

Njarðvík

Njarðvíkur eru tvær hérlendis, önnur í N-Múlasýslu, oft nefnd Njarðvík eystri til aðgreiningar. Flestir hafa hingað til talið Njarðvíkurheitin tengjast norræna goðinu Nirðri í Nóatúnum og dýrkun hans.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Elsta heimild, sem líklegt þykir að beri vott um átrúnað á Njörð, er frásögn rómverska sagnaritarans Tacitusar, en í riti sínu Germania, sem samið er um árið 100 eftir Krist, gat hann þess að danskir þjóðflokkar dýrkuðu gyðjuna Nerþus. Nafn hennar er talið hið sama og Njarðar, en ekki er þessi gyðja nafngreind í norrænni goðafræði.
Njörður gat ráðið veðri og vindum og gróðri jarðar. Með þá hugmynd að leiðarljósi hafa menn talið að örnefnin Njarðvík hérlendis og í Noregi, og Njarðey, sem kemur fyrir í Noregi en ekki hér á landi, merki lendingarstaði sem helgaðir voru siglingarguðinum eða voru í umsjá hans.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður Örnefnstofnunar Þjóðminjasafnsins, hetur um áraraðir rannsakað örnefni með tilliti til örnefna dregin af mannanöfnum. Hann hefu sett fram þá tilgátu að Njarðvíkurnar tvær á Íslandi séu alls ekki kenndar við Njörð, né heldur séu sambærileg heiti í Noregi kennd við goðið. Upphaflega hafi þær haft forliðinn “nær” í merkingunni “nærri”.

Þórhallur hefur í þessu sambandi bent á að heimildir greini frá því að Rosmhvalanesið og nágrenni þess hafi einmitt byggst frá Innesjum og sé Kvíguvoga getið sem landnámsjarðar.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Einnig bendir hann á að finna megi samsvörun með staðheitum á upprunaslóðum landnámsmanna í Noregi og á Vatnsleysuströndinni. Heiti Njarðvíkur í Gullbringuslýslu er þá samkvæmt tilgátu Þórhalls orðið til vegna þess að hún er næsta vík við landnámsjörðina Kvíguvoga, en Njarðvík eystri í N-Múlasýslu heitir svo vegna þess að hún er næsta vík austan Fljótsdalshéraðs, og hefur verið gefið nafn af mönnum sem þar bjuggu. Hafa ber í huga að í Keflavík er þekkt örnefnið Náströnd. Forliður þess, “ná-“, hefur einmitt merkinguna “nærri” og virðist skírskotun til þess hvort staðir lágu nærri eða fjarri einhverjum öðrum hafa verið virk þegar örnefni urðu til hér um slóðir.

Úr Saga Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson – 1996.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Reykjanesskagi

Þann 27. apríl 2023 skrifaði Ásgeir Eiríksson áhugaverða grein á vefsíðu Víkurfrétta (Vf.is) undir fyrirsögninni “Reykjanes eða Reykjanesskagi“. Innihald og niðurstaða greinarinnar á erindi til allra er vilja eða hafa áhuga á að tjá sig réttilega um örnefni á Skaganum, en á það hefur verulega skort, ekki síst hjá sveitarstjórnarfólki, löggæsluyfirvöldum og fréttafólki einstakra fjölmiðla.

Ásgeir Eiríksson

Ásgeir Eiríksson.

“Ég er fæddur árið 1957. Í minni æsku var ekkert vafamál hvenær maður væri staddur á Reykjanesi og hvenær ekki. Að minnsta kosti var maður ekki í vafa þegar maður var staddur við Reykjanesvita að maður væri staddur úti á Reykjanesi. Hversu langt í norður og hversu langt í austur Reykjanesið nær var svo aftur meira vafamál. Ég starfaði í nokkra áratugi við sýslumannsembættið í Keflavík og hafði mikinn áhuga á landamerkjamálum. Rétt staðsetning örnefna skiptir þar sköpum en flest hafa þau verið búin til fyrir mörg hundruðum ára og koma fyrir í fornritunum. Það eru því hrein skemmdarverk á söguarfi þjóðarinnar að færa til örnefni eða breyta þeim á einhvern hátt þannig að henti hégómagirnd einhvers eða leti til að kynna sér rétt örnefni. Enn verra er að halda fram röngu örnefni gegn betri vitund.

Reykjanes

Reykjanes á Reykjanesskaga – kort 1952.

Örnefnið Reykjanes kemur nokkrum sinnum fyrir í Landnámu og segir þar um komu Hrafna-Flóka sunnan með landinu:
„Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið. En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnsföll stór.““

Hrafna-Flóki hefur sennilega ekki gefið nesinu nafnið Reykjanes en þegar Landnáma er skrifuð á fyrri hluta 12. aldar þá hefur nesinu verið gefið nafn. Af lýsingunni á siglingu Hrafna-Flóka mætti dæma að Reykjanesið næði allt til enda Garðskaga.

Reykjanes

Reykjanes.

Nafngiftin Reykjanes getur ekki verið dregin af öðrum stað en jarðhitasvæðinu á Reykjanesi sem hefur verið all sérstakt tilsýndar hjá mönnum sem sjaldan eða aldrei höfðu séð gufu frá jarðhitasvæði. Eftir stutta siglingu frá Reykjanesi hafa þeir séð Snæfellsjökul, ef bjart hefur verið yfir, a.m.k. þegar nær dró Sandgerði og mynni Faxaflóans opnast þegar þeir koma fyrir Garðskaga.

Á Vísindavefnum er ágæt umfjöllun um örnefna-ruglinginn undir heitinu „Er Reykjanes sama og Suðurnes?“ Þar segir m.a. í grein Svavars Sigmundssonar, fyrrverandi forstöðumanns Örnefnastofnunar:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

„Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica (um 1700). Hann segir um Reykjanes:

„Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (svo heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.““

Árni Magnússon og Páll Vídalín gáfu út jarðabók og manntal á árunum 1702–1714 þar sem lýst er íbúum, ástandi, og búpeningi á flestum jörðum á landinu. Auk þess bjargaði hann sögu þjóðarinnar og flutti til Kaupmannahafnar í þokkalega geymslu að hann hélt. Ella hefðum við sennilega notað fornritin í vettlinga og sokka.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Reykjanesskagi er þakinn stórum hraunum og erfitt að tilgreina nákvæmlega hvar þetta eða hitt örnefnið er. Nokkrir áhugamenn hafa unnið þrekvirki í söfnun örefna og við staðsetningu þeirra. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson frá Merkinesi safnaði örnefnum í Hafnahreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir gaf út bókina Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi og Ómar Smári Ármannsson heldur úti hinum stórmerka vef ferlir.is. Aðrir merkir menn hafa einnig haldið örnefnasögu Reykjanesskagans á lofti svo sem landeigendur og ýmsir fræðimenn.

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti. Stundum er örnefnið ritað “Krísuvík”, sem rangnefni.

Íbúar þéttbýlisins nota örnefni ekki síður, t.d. með því að tilgreina staði með götuheitum, en það er auðvitað mun auðveldara þar sem götuheitisskilti eru við hver gatnamót. Yrði einhver sáttur við að götuskilti í Keflavík yrði fært á einhverja aðra götu? Hafnargatan héti Hringbraut og Hringbraut héti Tjarnargata?

Örnefni skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið. Þau voru meðal annars notuð hér áður fyrr til að staðsetja menn og dýr og til að tilgreina landamerki á milli jarða o.s.frv. Örnefni á landi voru ómissandi fyrir sjómenn til að staðsetja góð fiskimið.

Keflavík

Í Keflavík – neðan Krýsuvíkurhrauns.

Enn þann dag í dag notum við örnefni til að staðsetja okkur og aðra og í ýmsum tilgangi. Í árdaga Neyðarlínunnar kom beiðni um aðstoð frá manneskju sem stödd var í Breiðholti án þess að tilgreina það nánar. Aðstoðin var send í Breiðholtið sem allir þekkja en viðkomandi var staddur í Breiðholti á Akureyri. Sama örnefnið getur verið til víða á landinu, t.d. Reykjanes og Keflavík. Mikilvægt er að allir séu sammála um hver staðsetning örnefnisins er í grófum dráttum til að ekki skapist ruglingur.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi. Reykjanesviti er réttnefndur á “Reykjanesi”.

Ef ég kalla eftir aðstoð lögreglu eða sjúkrabíls og er staddur á eða við veginn milli Grindavíkur og Hafnahrepps hins forna þá myndi ég líklega segjast vera úti á Reykjanesi. Þetta er hinn almenni skilningur flestra Suðurnesjamanna og Grindvíkinga á örnefninu Reykjanes að ég tel (margir Grindvíkingar telja sig ekki til Suðurnesjamanna og sá skilningur er virtur hér). Ef ég er austan Grindavíkur eða í Sandgerði, Garði eða á Vatnsleysuströnd dytti mér ekki í hug að tilgreina staðsetninguna Reykjanes. Ég skrapp nýlega út á Reykjanes og við Hafnir sló ég inn orðinu „Reykjanes“ í Google maps. Forritið vildi leiða mig áfram út á Reykjanes og halda þaðan í vestur til Grindavíkur og þaðan áfram að bifreiðastæðunum þar sem gengið er að gosstöðvunum! Hver ber ábyrgð á þessu?

Hafnarfjörður

Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

En hvenær byrjaði þessi örnefnaruglingur? Sumir telja að ruglingurinn hafi hafist þegar Reykjaneskjördæmi varð til árið 1959 (ferlir.is) og ekki hefur Reykjanesbrautin (1964) bætt úr þessum nafnaruglingi, né heldur þegar sameinað sveitarfélag tók upp nafnið Reykjanesbær. Sumir töldu ímynd okkar Suðurnesjamanna ekki upp á marga á þessum tíma og þótti ráðlegt að skipta um nafn á svæðinu og vonað að það bætti ímyndina. Við bjuggum því ekki lengur á Suðurnesjum heldur á Reykjanesi. Við vorum Reyknesingar en ekki Keflvíkingar, Njarðvíkingar eða Hafnamenn. Vitleysan heldur svo áfram og hver nefndin og stofnunin fær heitið Reykjanes þetta og hitt. Ein þessara nefnda eða stofnunar er Markaðsstofa Reykjaness sem rekur vefinn með útlenska heitinu visitreykjanes.is. Stofan er rekin af sveitarfélögum á Suðurnesjum og Grindavík og þar eru mætir menn í stjórn. Vefurinn veitir margar góðar upplýsingar um hvað er að sjá og hvers er njóta á Reykjanesskaga en sá meinbugur er á að staðir eru tilgreindir á Reykjanesi en eru í raun langt þar frá.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir. Ekkert þessa er á Reykjanesi.

Eldgosið í Meradölum er t.d. sagt vera á Reykjanesi. Ekki held ég að sá mæti maður, Sigurður heitinn Gíslason, bóndi á Hrauni í Grindavík, myndi segja að fjöllin hans og dalir væru úti á Reykjanesi.

En hvað er til ráða? Eigum við að láta þetta yfir okkur ganga og eftir nokkra áratugi hefur örnefnið Reykjanes allt aðra merkingu en hjá flestum Suðurnesjamönnum og Grindvíkingum í dag? Mitt álit er að við eigum að snúa þessari öfugþróun við og sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og í Grindavík hafa hér mikilvægu hlutverki að gegna. Ritstjórn Víkurfrétta gæti leitt þá baráttu með því að leiðrétta örnefnaruglinginn í blaði sínu.” – Ásgeir Eiríksson, Heimavöllum 13, Keflavík.

Heimild:
-https://www.vf.is/adsent/reykjanes-eda-reykjanesskagi – Reykjanes eða Reykjanesskagi?, Ásgeir Eiríksson, fimmtudagur 27. apríl 2023.

Reykjanesskagi

Raykjanesskagi – loftmynd.

Suðurnesvarða

Kjartan Einarsson, Tjarnarbóli 4, Seltjarnarnesi, gerði örnefnalýsingu fyrir Seltjarnarnes. hann er fæddur í Reykjavík 15. febrúar 1914, en fluttis að Bakka á Seltjanarnesi í október 1914 og átti þar heim atil 1961. Hann hefur verið búsettur á Seltjarnarnesi síðan. Kona hans, Unnur Óladóttir, er fædd og uppalin á Nesi…

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – örnefni.

Selur

Ari Gíslason skráði örnefni á Ísólfsskála í Grindavík. Heimildarmaður hans var Guðmundur Guðmundsson, bóndi, Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Þá skráði Loftur Jónsson örnefni á Ísólfsskála. Framangreind örnefni hafa verið færð inna á meðfylgjandi loftmynd.

Fyrir botni Hraunsvíkur er fjallið Festi. Í áberandi stuðlabergsgangi austarlega í fjallinu eru landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Heitir þar Festin. Þaðan eru merkin í móbergsstrýtur og hnúka norðan undir Festi. Þar eru tákn um landamerkin klöppuð á hellu norðan við veginn. Þeir heita Móklettar.

Ísólfsskáli er næst austasta jörð í Grindavíkurhreppi og sú austasta, sem er í byggð 1954. Bærinn stendur niður við sjó, sunnan við allháa hæð, sem heitir Slaga. Bærinn stendur austan við Hraunsvík, niður við sjó framan við Bjalla, hamrahæð suðvestur af Slögu.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

Verður fyrst byrjað með sjó austast og haldið vestur eftir. Nokkuð fyrir austan bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar. Þar eru merkin móti Krýsuvík í klett, sem heitir Dágon. Áður voru þeir tveir, og deildu menn um, hver væri sá rétti. Nú er annar hruninn og óþekkjanlegur [reyndar eru báðir þeirra horfnir nú]. En þrætueplið var ekki stærra en það, að hvalur gat rétt fest sig þar…

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – örnefni.

Hraun

Ari Gíslason skráði örnefni á Hrauni við Grindavík.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun.

Heimildarmenn hans voru Gísli Hafliðason, bóndi, Hrauni og ennfremur um hluta af landinu, Guðmundur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála.
Auk þess skráði Loftur Jónsson örnefni á jörðinni Hrauni. Haun í Grindavík á land að Ísólfsskála og Krýsuvík að austan, Vatnsleysuströnd að norðan og Þórkötlustöðum að vestan. Bærinn stendur við sjó utarlega við Hraunsvík að vestanverðu.
Hér eru einungis sett inn örnefni  með ströndinni m.v. örnefnalýsingarnar, en land Hrauns nær m.a. upp að Núpshlíðarhálsi…

Hraun

Hraun – örnefni.