Grafningur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1933 er m.a. fjallað um “Nokkur byggðanöfn“, þ.á.m. Grafning.

Orðið “grafningur” er talið hafa tvær merkingar í íslenzku máli.

Grafningur

Grafningsháls – herforingjaráðskort 1908.

Það getur fyrst og fremst merkt þann verknað, að grafast eftir einhverju. Þessa merkingu er orðið talið hafa á þeim eina stað í fornritunum, þar sem það kemur fyrir og er ekki staðarnafn, í Stjórn, þar sem talað er um »djúpan grafning gátu«, (sbr. orðabækur Fritzners, Claesby-Vigfússons og Björns Halldórssonar við orðið grafningur).

Grafningur

Forni vegurinn um Grafningsháls.

En orðið getur líka merkt það, sem niður er grafið eða út er grafið, (sbr. þýðinguna í orðabók Sigfúsar Blöndals: »Gröfter og Jordfald, hullet Jordsmon, ru og revnet Jordbund«). Þegar orðið kemur fyrir í staðarnöfnum má gera ráð fyrir, að það sé þessarar síðarnefndu merkingar, að það merki stað, sem er niðurgrafinn.

Eins og kunnugt er heitir byggðarlag eitt í Árnessýslu Grafningur. Er það nú á tímum sérstakur hreppur, Grafningshreppur, en var áður hluti af Ölfushreppi. Eftir merkingu nafnsins mætti búast við, að sveit þessi væri sérstaklega niðurgrafin eða aðkreppt, að hún væri djúpur og þröngur dalur eða því um líkt.

Grafningur

Grafningur – málverk.

En þessu er ekki þannig varið. Sveitin er engin heild hvað landslag snertir. Hún skiptist í rauninni í tvær byggðir, hina neðri, sem liggur upp með Soginu að vestan, og hina efri, er liggur fyrir suðvesturendanum á Þingvallavatni. Hver þeirra hefir sinn svip og landslagið er fjölbreytilegt í báðum, þar skiptast á sléttlendi og ásar og fell með smádölum á milli, og báðar mega byggðirnar fremur kallast opnar en aðkreptar, enda er útsýn þar á mörgum stöðum bæði frjáls og víð. Sveitin virðist því ekki bera nafn þetta með réttu.

Grafningur

Grafningsháls – vörðubrot.

Nafnið Grafningur er fyrst nefnt í Harðarsögu, 19. kap. Þar segir frá því, er þeir, Indriði Þorvaldsson á Indriðastöðum í Skorradal og Ormur veturtaksmaður hans, ferðuðust sunnan af Vikarsskeiði, þar sem Ormur hafði brotið skip sitt, og vestur að Indriðastöðum.

Grafningur

Upptök Kaldár í Grafningi.

Segir þar m. a. svo frá ferðum þeirra: »Þeir riðu allir sunnan hjá Bakkárholti um Grafning ok Bíldsfell ok svá hjá Úlfljótsvatni ok þaðan til Ölfusvatns. Næst er Grafningur nefndur í bréfi frá 1448. Þar kvittar Jón nokkur Oddsson Steinmóð ábóta í Viðey um greiðslu »sem hann var mier skyldvgur firir jordena aa sydra halse firir ofan Grafning«. Þessar tvær heimildir skýra það að minni hyggju hvernig á nafni byggðarinnar stendur.
Frá Bakkárholti í Ölfusi og upp að Ölfusvatni er um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að fara austur fyrir Ingólfsfjall, hjá Kögunarhól, og upp með fjallinu að austan, hjá Tannastöðum og Alviðru, og síðan uppeftir vestan Sogsins. Hin er sú, að fara leiðina, sem nú heitir Grafningsháls, þ. e. í gegnum skarðið, sem er á milli Ingólfsfjalls og Bjarnarfells upp af bænum í Hvammi i Ölfusi. Síðarnefnda leiðin er miklu beinni og styttri og auk þess hefir hún verið miklu greiðfærari fyr á tímum, því þar hefir mátt fá nokkurn veginn þurrar götur upp með ánum, Bakkaá (Bakkárholtsá) og Gljúfurá, frá Bakkárholti og upp að skarðinu. Þessi leið hefir sjálfsagt verið alfaraleiðin úr þessum hluta Ölfusins upp á bæina fyrir ofan Ingólfsfjall, allt þar til, að akvegur var lagður austur fyrir fjallið. Höfundur Harðarsögu hefir því eflaust haft þessa leið í huga, er hann lýsti ferð þeirra lndriða.

Grafningur

Grafningsháls – gamla leiðin.

Á þeirri leið fóru þeir Indriði og Ormur »um Grafning«. Hér getur verið um tvent að ræða, annaðhvort er Grafningur nafn á byggð, sem þeir fóru um, eða á stað, sem þeir fóru um eða hjá. Fyrri skilningurinn mun hafa verið lagður í nafnið hingað til. í registrunum við sumar útgáfur Harðarsögu er Grafningur á þessum stað í sögunni talinn vera »sveit í Árnesþingi«. Kálund hefir einnig litið þannig á, en hann telur þó, að Grafningur sé í sögunni aðeins nafn á neðri hluta sveitarinnar, byggðinni, sem liggur upp með Soginu. En þessi skýring fær ekki staðist, jafnvel ekki með þeirri takmörkun, sem Kálund gerir. Grafningur sögunnar var á þeim kafla af leið þeirra Indriða, sem var á milli Bakkárholts og Bíldsfells. Bíldsfell er eins og kunnugt er fell og samnefndur bær, nálægt því í miðjum neðri hluta sveitarinnar. Grafningur sögunnar var fyrir neðan Bíldsfell. Hafi það verið byggðarnafn hefir það því verið miklu yfirgripsminna en það er nú á tímum, ekki einu sinni náð yfir allan neðri hluta sveitarinnar, heldur aðeins yfir byggðina, sem er fyrir neðan Bíldsfell, en það er ekki líklegt, að þeir fáu bæir, sem þar eru og eru dreifðir og strjálir, hafi nokkurntíma heitið sérstöku byggðarnafni fyrir sig. —

Grafningur

Grafningur austanverður.

Þetta bendir til þess, að Grafningur sé ekki byggðarnafn í sögunni, heldur nafn á einhverjum stað, sem hefir verið á leiðinni frá Bakkárholti og upp að Bíldsfelli. Bréfið frá 1448 virðist einnig taka öll tvímæli af um, að svo hafi þetta verið. Samkvæmt bréfinu er Syðri-Háls, »fyrir ofan Grafning«. Syðri-Háls, sem nú heitir Litli-Háls, er syðsti, neðsti, bærinn í byggðinni Grafningi. Grafningur sögunnar var fyrir neðan Litla-Háls og því í rauninni fyrir neðan byggðina Grafning. Hann er því einhver staður á milli Bakkárholts og Litla-Háls, og á þeirri leið getur varla verið um annan stað að ræða, sem borið hafi slíkt nafn, en sjálft skarðið, sem vegurinn liggur um. Litli-Háls er líka rétt fyrir ofan skarðið, svo að það á vel við, að segja um hann, að hann sé »fyrir ofan Grafning«, ef skarðið hefir heitið því nafni.

Grafningur

Grafningur – málverk Kjarvals.

Skarð þetta á milli fellanna er djúpt. Samkvæmt uppdrætti herforingjaráðsins er það 186 mtr. yfir sjávarmál, þar sem það er hæst, en fellin til beggja handa eru miklu hærri. Kaldbakurinn, sem gengur út úr Ingólfsfjalli og liggur að skarðinu að austan og sunnan, er 311 mtr., en Bjarnarfell, sem liggur að skarðinu að vestan og norðan, en 358 mtr. Skarðið er þröngt og hlíðar fellanna brattar, beggja megin við það. Það er því mjög niðurgrafið og sannkallaður Grafningur og hefir borið það nafn með réttu.

Grafningur

Grafningsháls framunda. Gamli þjóðvegurinn.

Í fyrstu virðist þannig aðeins skarðið hafa heitið Grafningur, en seinna fékk öll byggðin fyrir ofan skarðið þetta nafn. Það virðist vera augljóst, að byggðinni hefir verið gefið þetta nafn neðan að, úr Ölfusinu. Ölfusingar hafa talað um að fara »upp um Grafning« eða »upp í Grafning«, þegar þeir áttu leið upp á bæina fyrir ofan fjallið, og þeir hafa þá í fyrstu átt við leiðina, sem þeir fóru, skarðið milli fellanna, en seinna hefir nafnið á leiðinni festst við byggðina, sem leiðin lá til, við þann hluta hreppsins allan, sem farið var til í gegnum skarðið. Á 16. öld hefir þessi breyting verið komin á °g byggðin búin að fá Grafningsnafnið. Er talað um Úlfljótsvatn “í Grafning” í bréfi frá dögum Stefáns biskups (1491—1518) og í bréfi frá 1524.

Grafningur

Grafningur – herforingjakortið.

Sjálft skarðið, milli fellanna, hefir verið nefnt Grafnings-háls, í öllu falli síðan snemma á 18. öld. Hálfdán Jónsson á Reykjum nefnir veginn því nafni í lýsingu sinni á Ölfushreppi 1703, og segir svo:

Grafningur

Forni vegurinn um Grafningsháls.

»Á þeim vegi nefnast þessi örnefni: Djúpi-Grafningur, Æðargil Bjarnarfell, Kaldbak etc. Bjarnarfell og Kaldbakur eru fellin sitt hvoru megin við skarðið. Æðargil er gil, sem kemur ofan úr Bjarnarfelli. Hvort nafnið Djúpi-Grafningur þekkist enn, veit ég ekki, en mér þykir líklegast, að það hafi verið nafn á sjálfu skarðinu. Ef svo er, hefir Grafningsnafnið enn loðað við skarðið snemma á 18. öld, en viðbótinni Djúpi- gæti hafa verið aukið við nafnið til þess, að greina það frá byggðarnafninu Grafningur, sem þá hefir verið búið að fá fulla festu.
Með þessu vona ég, að það sé sýnt, að þetta litla skarð á milli fellanna hefir orðið til þess, að gefa allri byggðinni, neðan frá LitlaHálsi og alla leið upp að Nesjum við suðvesturhornið á Þingvallavatni, þetta nafn, sem gefur svo ranga hugmynd um landslag hennar.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1933, Nokkur byggðanöfn, bls. 108-111.

Grafningur

Grafningur – Botnasel.